Saga Jaguar-XK120:

Af menningarstarfi á Akureyri
eftir Leó M. Jónsson vélatæknifræðing

Síðari heimstyrjjöldin hófst haustið 1939 og stóð í 6 ár. Þann tíma framleiddu Bretar einungis herbíla. Eftir stríðslok voru framleiddir bílar sem hannaðir höfðu verið fyrir stríð. Þótt kaupgeta væri takmörkuð og bílarnir með 1939-útlit skorti nýja bíla á öllum helstu mörkuðum Evrópu - einnig í Bretlandi því stærsti hluti framleiðslunnar var fluttur út; - útflutningstekjur höfðu forgang.

Annar XK120 sýningarbílanna, sem vöktu svo mikla athygli á árlegri bílasýningunni í Earls Court í október 1948 (forgerð nr. 2) var koparbronslitur eins og þessi Jaguar XK120 sem endursmíðaður hefur verið á Akureyri.
(þegar hér var komið þessu merkilega verkefni átti eftir að bæta rimum í endursmíðað grillið eins og sjá má á ljósmynd Kristjáns Kjartanssonar).

Á árlegri bílasýningu í Earls Court í London í október 1948 sýndi Jaguar nýjan sportbíl sem vakti gríðarlega athygli: Sýningarbás Jaguar varð miðpunktur sýningarinnar. Nýi sportbíllinn var þó einungis forgerð (prototype) sem átti að vekja athygli fjölmiðla og almennings á fyrirtækinu en hafði ekki verið undirbúinn fyrir raðsmíði. Nýi sportbíllinn, sem nefndist XK120 og var með stálgrind en yfirbyggingu úr léttmálmi, vakti slíka athygli að pantanir bárust í stríðum straumum. Stjórnendur Jaguar urðu því að vinda bráðan bug að því að hefja raðsmíði bílsins og þá með yfirbyggingu úr stáli því stáleiningar mátti forma með fergjun en léttmálmshluti varð að handsmíða. Eins og gefur að skilja tók tíma að koma framleiðslunni í gang þótt öllu væri tjaldað til og því náðist ekki að smíða nema fáa bíla af árgerð 1948 og '49. Urðu margir kaupendur að bíða eftir afhendingu fram eftir árinu 1949. Fyrstu 240 bílarnir voru með handsmíðað boddí, að mestu leyti úr áli en sumir hlutar þess voru styrktir með ramma úr timbri. Raunveruleg raðsmíði hófst ekki fyrr en snemma vors 1950 þegar boddíið var að öllu leyti smíðað úr stáli.

Einn af 10
Útlitshönnun XK120 er ekki eignuð neinum sérstökum heldur er hún talin hafa orðið til í samvinnu tæknimanna Jaguar. Útlitið ber ótvírætt með sér áhrif frá frægum sportbílum á árunum 1935-38 svo sem Delage D8, Delahaye Type 135, Talbot Lago Coupe en þá bíla skapaði franska hönnunar- og yfirbyggingasmiðjan Figoni et Falaschi og Bugatti Type 57SC Atlantique, sem Jean Bugatti hannaði 1935. En hver eða hverjir sem hönnuðu Jaguar XK120 skiluðu góðu verki því bíllinn er enn þann dag í dag talinn á meðal 10 fallegustu raðsmíðuðu bíla frá síðari hluta 20. aldar.

Hreinræktaður
Markmiðið með sportbíl er að ná og geta haldið sem mestum hraða. Af mörgum samverkandi þáttum, sem úrslitum ráða, er veggripið mikilvægast. Veggripið, ásamt vélarafli, ræður í senn hröðun, hámarkshraða og stöðugleika en galdurinn á bak við veggripið er snerilstyrkur. (Í seinni tíð hefur mikilvægi þess bremsuafls, sem sportbíll þolir, verið aukinn gaumur gefinn).

Talan í tegundarheitinu er upphaflega sá hraði (120 mílur/klst.) sem forgerð bílsins náði (samsvarar 193 km/klst.) 1949 árgerðin náði rúmlega 200 km hraða á klst. og var á þeim tíma hraðskreiðasti raðsmíðaði bíll heims. Hjólhafið er 2,59 m, heildarlengdin 4,42 m og eigin þyngd 1250-1625 kg eftir gerð og búnaði.
XK120 er með gríðarlega sterka stálgrind. Að framan er klafafesting og snerilfjöðrun en að aftan stíf hásing og blaðfjaðrir. Hjólin eru áberandi stór. Stýrsvélin er snigildrifin (XK140, sem kom 1954, er með tannstangarstýri, vélina framar í grindinni og því rúmbetri undir stýri en ekki eins fallegur bíll og XK120. XK150, sem kom 1957, var hins vegar töluvert stærri og hvorki jafn glæsilegur né rennilegur og XK140, hvað þá XK120. XK150 var leystur af hólmi 1961 með nýjum og ólíkum en glæsilegum sportbíl, XKE sem er þekktari sem Jaguar E-Type, en sá bíll var framleiddur í 10 ár og í mun stærra upplagi).
XK120-boddíið er boltað á grindina. Þótt bygging bílsins sé einföld heppnaðist hún ákaflega vel, m.a. varðandi þungadreifingu, veggrip og snerilstyrk. XK120 var einn öflugasti og glæsilegasti sportbíllinn á markaðnum um 1950. Þá spillti ekki að verð bílsins þótti hóflegt.
XK120 var ekki gallalaus frekar en önnur mannanna verk - þótti þungur í stýri, bremsur þóttu í lakara lagi og svo mikið er víst að nú þætti ekki þægilegt að sitja undir of stóru stýrishjólinu. Engu að síður varð XK120 til þess að Jaguar vakti heimsathygli á 6. áratugnum með mikilli sigurgöngu í heimsmeistarakeppni í sportbílakappakstri. Um þá sigurgöngu má lesa í samantekt minni um merkilega sportbíla.

Endursmíðin tók Jón Sigursteinsson bílasmið á Akureyri hálft sjötta ár: Jaguar XK120 Roadster 1952.
Ljósmynd: Kristján Kjartansson

Mögnuð vél
Vélin átti sinn þátt í því að gera Jaguar XK120 að þeim eftirsótta sportbíl sem hann var í upphafi 7. áratugs 20. aldar. Hún er 6 sílindra, upphaflega með 3,4 lítra slagrými, 2 ofanáliggjandi kambása og tvo SU-blöndunga og skilaði þannig 160 hö (DIN).
Vélina hönnuðu og þróðuðu þeir William M. Heynes, sem var yfirmaður tæknideildar Jaguar Cars Ltd. eins og fyrirtækið nefndist eftir endurskipulagningu vorið 1945, og Walter Hassan. Reyndar mun það hafa verið nánast tilviljun að þessi vél var notuð í XK120 en hún mun upphaflega hafa verið ætluð fyrir sérstakan keppnisbíl. Endurbætur juku afl vélarinnar í 180 hö í sérstakri gerð, XK120M af árgerð 1951, og með frekari endurbótum í 190 hö í XK140 frá 1954. Vélin var framleidd með 3,8 lítra slagrými frá 1957 (265 DIN-hö í XK150). Það segir meira en langt mál um kosti vélarinnar að hún var einn helsti púlshesturinn hjá Jaguar allar götur til ársins 1986 en þá voru liðin 38 ár frá því notkun hennar hófst í XK120.

Þessi 3,4ra lítra 6 sílindra TwinCam-vél í XK120 frá 1948 átti eftir að vera við lýði í Jaguar-bílum af ýmsum gerðum í tæpa 4 áratugi.

Flestir í Bandaríkjunum
XK120 var framleiddur á árunum 1948 til og með 1954. Gerðirnar voru þrjár, Roadster (opinn), Convertible (blæjubíll) og (Fixed head) Coupe (með stáltoppi). Samanlagt munu hafa verið smíðuð rúmlega 12 þúsund eintök, flest af Roadster (63%). Nærri 95% af bílunum voru seldir til útflutnings og langstærsti hluti þeirra í Bandaríkjunum.
Upp úr stríðinu var ekki mikið pælt í því að vernda bíla gegn ryðtæringu, hvorki varðandi hönnun, smíði eða með forvarnarmeðferð. Breskir bílar voru hvorki betri né verri en bílar annarra þjóða í þessu tilliti en þó þótti Jaguar lengi með ryðsæknustu bílum. Af því leiðir að af rúmlega 12 þúsund eintökum eru hlutfallslega fá enn við lýði. Stór hluti þeirra bíla sem endurbyggðir hafa verið í Bretlandi hafa verið keyptir frá Bandaríkjunum í mismunandi góðu ástandi.

Einn XK120 hérlendis
Einn þeirra XK120-bíla sem seldir voru í Bandaríkjunum var fluttur hingað á 10. áratugnum. Sá er XK120 Roadster af árgerð 1952 og var þá í mjög lélegu ástandi og hefði jafnvel verið talinn ónýtur við nákvæma skoðun. Mál æxluðust þannig að Jón Sigursteinsson, bílasmiður hjá BSA á Akureyri, eignaðist bílinn 1998. Jón var rúm 5 ár að endursmíða þennan XK120, nánast stykki fyrir stykki og hlýtur það að kallast þrekvirki en ljósmyndirnar, sem eru úr fórum Kristjáns Kjartanssonar (Einhóli, Svalbarðsströnd), gefa vísbendingu um hvert umfang verksins hefur verið.
Sérhæft handverk á borð við endurgerð þessa sjaldgæfa bíls er ekki á færi nema fárra fagmanna og enn færri hafa aðstöðu og úthald til að klára slíkt verk, hvað þá á eigin spítur. Það er umhugsunarefni hvers vegna slíkri menningarstarfsemi er ekki gert hærra undir höfði hérlendis en raun ber vitni. Í Bretlandi, svo dæmi sé tekið, er litið á endurgerð klassískra bíla, sem stenst ströngustu gæðakröfur þarlendra sérfræðinga, sem mikilvægan listiðnað og útflutningsgrein. Og við þetta má bæta (,,menningarpostulum" til upplýsingar) að við háskólann í Manchester er endursmíði klassískra bíla ein námsgreina.

Kominn út undir bert loft í Bandaríkjunum eftir langa geymslu. Flutningur til Íslands undirbúinn.
Búið að sandblása burtu grunni, eldri lögum af lakki og fjarlægja dósablikk sem lóðað hafði verið í göt. Öll burðarstykki boddísins reyndust ónýt.
Eins og sjá má af myndinni reyndist bíllinn verr farinn en ætla mátti af útliti hans áður en verkið hófst.
Grind og undirvagn hafa verið endurbyggð. Hvalbakinn þurfti að endursmíða eins og hann lagði sig ásamt sílsum og botni.
Innri bretti og botn afturhlutans eftir endursmíði og samsetningu. Endurbyggðri vélinni hefur verið stillt upp í grindinni. Jón Sigursteinsson ásamt Ellen Håkansson virða fyrir sér gripinn.
Til að ná ávölum útlínum og samhverfu við jafn mikla stykkjun þarf bæði kunnáttu og natni - jafnvel þótt menn hafi ,,enska hjólfergju" til að forma hlutina.
Endursmíðað burðarstykkið yfir afturhásingunni komið á sinn stað.

 

 

Meira efni um Jaguar-bíla


--------------------------------------

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar