Saga Willys-jeppans. Fyrri grein (12.10.03:

eftir Leó M. Jónsson vélatæknifræðing ©

Fyrst var Overland svo kom Willys og til varð Willys-Overland

Eins og eðlilegt er kemur Willys-jeppinn fyrst í hugann þegar rætt er um fyrirtækið Willys Overland. Jeppinn, þótt frægur sé, er þó ekki nema einn þáttur af mörgum í sögu kaupsýslumannsins John North Willys frá New York sem fæddist 1873 og lést á 63. ári 1935. Þótt John N. Willys næði ekki háum aldri skildi hann eftir sig dagsverk af slíkum vöxtum að hans verður minnst á meðal mestu iðnjöfra Bandaríkjanna á 20. öld.

Fyrirtækið Standard Wheel í Indiana var einn stærsti framleiðandi vagnhjóla í Bandaríkjunum. Sumarið 1902 hafði stjórn þess ákveðið að stofna sérdeild til að framleiða bíl. Sú starfsemi fór hægt af stað og gekk ekki sem skyldi - þó höfðu um 30 bílar, sem nefdust Overland, verið smíðaðir og seldir. 1905 missti Standard Wheel þolinmæðina og dró sig út úr bílaframleiðslunni. Starfsmennirnir ákváðu að halda áfram, fengu til liðs við sig David M. Parry, sem framleiddi hestvagna, og stofnuðu Overland Auto Co. 1906. Overland smíðaði tvær gerðir bíla, minni bíl með 2ja sílindra vél og stærri bíl með 4ra sílindra vél. En eftir sem áður gekk fyrirtækið illa.

Um þrítugt var John North Willys umsvifamikill bílasali í New York. Á meðal bítegunda sem hann hafi umboð fyrir var Pierce, Rambler og American Underslung. 1906 hafði hann einnig tekið að sér umboð fyrir Overland-bílinn sem smíðaður var í Indianapolis og hafði þegar selt 47 bíla, sem reyndar var ársframleiðslan hjá Overland 1906. Willys hafði pantað 500 Overland-bíla til viðbótar sem átti að afhenda honum á árinu 1907. Þegar enginn þeirra hafði verið afhentur um haustið, þrátt fyrir eftirgangsmuni og eftir að Willys hafði greitt 1.000 dollara fyrirfram, var honum hætt að lítast á blikuna; snaraðist upp í lest og hélt sem leið lá til Indiana að kanna málið.

John North Willys, sem ólst upp í smábænum Canadaigua í New York-ríki, hafði sest að í Bronx og varð snemma drífandi kaupsýslumaður sem átti eftir að sýna að hann var hvorki golubelgur né heybrók. Hann hafði ekki staldrað lengi við hjá Overland í Indinapolis þegar honum varð ljóst að þar hékk allt á horriminni; nánast engir hlutir til að smíða úr, starfsmenn fáir og lausir við; - gjaldþrot handan hornsins. En hann átti hagsmuna að gæta og varð úr að hann reyndi að koma Overland til bjargar. Hann samdi um gjaldfrest hjá lánardrottnum og tókst að smíða 465 bíla á árinu 1908, sem hann nefndi Willys-Overland, - í sirkustjaldi sem hann keypti og sló upp eftir að fyrirtækið hafi verið borið út úr húsnæðinu. Ári seinna sýndi John N. Willys að hann naut trausts fjársterkra aðila þegar hann keypti stóra bílaverksmiðju í Toledo í Ohio (,,næsti bær" við Michigan), flutti bílaframleiðsluna þangað og breytti heiti fyrirtækisins í Willys-Overland Co. Þar framleiddi hann 4907 Willys-Overland-bíla árið 1909 með eins milljón dollara hagnaði sem þótti stórfrétt í þá daga. Innan fárra ára átti hann stórfyrirtækið Willys-Overland Co. skuldlaust en það átti eftir að starfa í rúmlega hálfa öld.

Ekki hafði John N. Willys rekið fyrirtækið nema ár í Toledo þegar það framleiddi 15.598 bíla með 5.000 starfsmönnum. Bílarnir voru af hefðbundinni gerð með 25-40 ha 4ra sílindra vél og kostuðu 1.000 til 1.500 dollara árið 1910 en þá mátti fá T-Ford fyrir 750 dollara. 1911 var Willys-Overland þriðji stærsti bílaframleiðandinn í Bandaríkjunum á eftir Ford og Studebaker og annar stærsti á eftir Ford á árunum 1912-1918 en hámarkið var 1916 þegar 142.779 bílar voru framleiddir - flestir þeirra með 4ra sílindra vél en verðið hafði þá lækkað í 600 dollara á bíl sem þótti jafnframt vel heppnaður og sterkur.

(Ljósmyndin t.v. er af John North Willys og er fengin af vefsíðu Hemmings Motor News).

Í bók eftir Kristinn Snæland, Bílar á Íslandi í máli og myndum 1904-1922, segir að fyrsti Overland-bíllinn hafi komið hingað í desember 1913. Af bók Kristins má ráða að talsvert hafi verið af Overland-bílum hérlendis fyrir og eftir 1920 en þeir nefndust hér einungis Overland þótt fram kæmi í auglýsingum umboðsmannsins, Jónatans Þorsteinssonar í Reykjavík, að framleiðandinn væri Willys-Overland Inc. í Toledo, Ohio, USA. Á þessu kann að vera eðlileg skýring.

Áður hefur komið fram að John N. Willys þótti hugmyndaríkur og framtakssamur í viðskiptum, jafnvel svo að samstarfsmenn áttu erfitt með að fylgja honum eftir. Hann var ekki tæknimenntaður né gæddur tæknilegum hæfileikum en þeim mun meiri kaupmaður. Í stað þess að eyða miklum tíma og fé í tækniþróun keypti hann önnur fyrirtæki, sem lengra voru komin á tæknisviði, og nýtti eftir föngum. 1914 keypti Willys bílaframleiðandan Edwards Motor Co. sem framleiddi hinn 4ra sílindra Edwards-Knight sem talinn var tæknilega fullkomnari en margir aðrar bílar, m.a. með vél með slífaventlum. Árinu áður hafði Willys keypt meirihluta í Garford, sem hafði um árabil séð Studebaker fyrir undirvögnum og vélum og framleiddi auk þess fólksbíla. Eftir að Willys hafði yfirtekið Garford notaði það verksmiðju þess í Elyria í Ohio til að framleiða Edwards-Knight sem þá var skýrður upp og hét eftir það Willys-Knight. Sá bíll var ekki framleiddur nema 2 ár í Elyria því 1915 var framleiðsla hans flutt til Toledo og Elyria-verksmiðjan upp frá því sérhæfð í framleiðslu á bílvélum.

Það segir sig sjálft að Willys-Overland og Willys-Knight gekk ekki að selja hlið við hlið þar sem þá hefði fyrirtækið verið að keppa við sjálft sig. Hins vegar var ólíkt auðveldara var að selja Overland og Willys-Knight í sama sýningarsal en þannig gat Willys-Overland Inc. haldið áfram með óbreytt kerfi umboðsmanna í Bandaríkjunum og erlendis.

1913 hafði John N. Willys einnig keypt Gramm Motor Truck Co. sem framleiddi vörubíla í borginni Lima í Ohio. Þar var framleiddur 1,5 tonns vörubíll, sem reyndar varð fyrsti Willys-bíllinn ári á undan Willys-Knight. (Garford vörubílar voru framleiddir í Lima í Ohio fram að 1933 en frá 1927 á vegum fyrirtækis sem nefndist Relay Motors. Fyrir þann tíma tengdist Willys-Overland Garford með einum eða öðrum hætti og seldi vörubíla þess í gegnum sitt umboðskerfi).

Egill Vilhjálmsson

Eins og kunnugt er tók fyrirtæki Egils Vilhjálmssonar við umboði fyrir Willys-Overland vorið 1951 en á undan honum hafði Hjalti Björnsson konsúll, sem hafði skrifstofu á Vesturgötu 17 en bjó seinna á Hagamel 8, verið umboðsmaður. Fyrsti umboðsmaður Willys-Overland hérlendis var Jónatan Þorsteinsson kaupmaður í Reykjavík. Svo vill til að heimild er um að Egill Vilhjálmsson hafi verið í sambandi við Willys-Overland löngu áður en hann tók við umboðinu. Í bók Vilhjálms S. Vilhjálmssonar (VSV), rithöfundar og blaðamanns, ,,Við sem byggðum þessa borg", II-bindi, sem út kom í Reykjavík 1957, er viðtal við Egil Vilhjálmsson undir fyrirsögninni ,,Frá roðskóm til bifreiðanna". Þar segir Egill, m.a. frá því (á bls. 162-167) að hann hafi keypt nýjan Overland-bíl af Jónatani Þorsteinssyni skömmu eftir að hann tók bílprófið 1915.

Egill Vilhjálmsson undir stýri á Overland 85 af árgerð 1916. Eigandi bílsins, Pétur A. Ólafsson situr við hlið Egils. Í aftursætinu sitja þær mæðgur Maja Ólafsson (sem seinna giftist Jose Riba tónlistarmanni) og móðir hennar María Ólafsson eiginkona Péturs. Myndin, sem er úr safni Péturs A. Ólafssonar, er fengin úr bókinni Bílar á Íslandi í myndum og máli 1904-1922 eftir Kristinn Snæland.

 

Í framhaldi hafi málin æxlast þannig að hann fór á vegum Jónatans til Bandaríkjanna í ársbyrjun 1917 til að læra viðhald og viðgerðir hjá Willys-Overland í Toledo í Ohio. Hins vegar segir Egill að ekkert af því sem Jónatan hafi lofað sér hafi staðist og því hafi hann aftekið með öllu að hefja störf hjá honum eftir að heim var komið. Síðar í viðtalinu segir Egill frá því að hann hafi verið kallaður vestur (til Bandaríkjanna) árið 1951 til að semja um viðtöku á Willys-jeppaumboðinu. Áður hafði komið fram í viðtalinu að EV hafði verið umboðsmaður fyrir Studebaker frá því upp úr 1920. Því má bæta hér við að Egill Vilhjálmsson stofnaði hlutafélagið Strætisvagnar Reykjavíkur 1931 og stjórnaði því þar til það var selt Reykjavíkurbæ 1944. Á meðal fyrstu strætisvagnanna voru Studebaker. Kaiser-Frazer keypti ráðandi hlut í Willys-Overland í apríl 1953 og ekki er ólíklegt að það hafi orðið til þess að Egill Vilhjálmsson hafi tekið að sér umboð fyrir Kaiser um það leiti. Til fróðleiks má bæta því við hér að um 1920 höfðu menn stofnað Bifreiðastöð Reykjavíkur (BSR) en mál æxluðust þannig að Egill Vilhjálmsson keypti fyrirtækið og átti það einn um tíma en seldi svo þegar hann snéri sér að varahlutaverslun og bílainnflutningi sem hann hóf á Grettisgötu 16-18. Það var hins vegar Gísli Sigurbjörnsson, kenndur við Elliheimilið Grund, sem stofnaði Bifreiðastjórafélagið Hreyfil skömmu fyrir 1930 sem verkalýðsfélag.

Snemma sérhæft í hergögnum

John N. Willys hélt áfram að byggja upp iðnaðarsamsteypu sína með því að kaupa önnur fyrirtæki sem, að hans dómi, juku samkeppnisstyrk Willys-Overland. Sum þeirra fyrirtækja báru nöfn, sem enn koma kunnuglega fyrir sjónir, svo sem Electric Auto Lite Corporation, Warner Gear (seinna Borg-Warner), Tillotson Carburetter, Morrow Manufacturing, New Process Gear og Fisk Rubber, svo nokkur séu nefnd.

Um 1920 var Willys-Overland þriðji stærsti bílaframleiðandinn á eftir Ford og GM. Árið 1923 framleiddi það um 130.000 Overland-bíla og um 49.000 Willys-Knight. Kaupsýslumaðurinn John N. Willys lagði meiri áherslu á að ná samningum um framleiðslu fyrir bandaríska herinn en aðrir bílaframleiðendur. Í fyrri heimstyrjöldinni var hann eini frammámaðurinn í bandarískum bílaiðnaði sem fór, í eigin persónu, til Frakklands að kynna sér þörf herflokka fyrir fartæki. Þegar Bandaríkin hófu þátttöku sína í stríðinu vorið 1917 voru John N. Willys og samstarfsmenn hans tilbúnir með ítarlega framleiðsluáætlun sem innifól hönnun, kaup á framleiðsluleyfum og teikningar að alls konar hergögnum sem hefja mátti framleiðslu á innan 12 mánaða. Tæknimenn Ford og GM voru ekki einu sinni byrjaðir að ydda blýantana hvað þá meir. (Það var einmitt á þessu ári sem Egill Vilhjálmsson var í eins konar starfskynningu hjá Willys-Overland í Toledo).

Innan árs hafði Willys-Overland hafið fjöldaframleiðslu á Sunbeam flugvélahreyflum fyrir breska herinn og Curtiss OX-5 flugvélahreyflum fyrir þann bandaríska. Í október 1918 tilkynnti Willys-Overland að allri bílaframleiðslu hefði verið hætt tímabundið til að rýma fyrir framleiðslu á vegum herja Bandamanna. Þótt stríðinu lyki 11 dögum seinna styrkti ákvörðunin ímynd fyrirtækisins á meðal föðurlandsvina og stöðu þess sem hergagnaframleiðanda í fremstu röð.

Lætin byrja

Erjur á milli bílaframleiðenda og verkalýðsfélaga í Bandaríkjunum höfðu verið að aukast á 3. áratugnum eftir því sem verkalýðsfélög höfðu eflst og orðið harðskeyttari. John N. Willys hafði á sér orð fyrir að vera fastur fyrir í viðskiptum. Hann hafði sjálfur séð um samskiptin við verkalýðsfélögin og þótt bæði hugmyndaríkur og lipur í samningum við þau. Snemma vors 1919 var hann fjarverandi suður í New York þegar þjösna- og klaufaskapur stjórnenda hjá Willys-Overland gagnvart verkalýðsfélagi olli uppþoti og átökum þar sem 2 menn voru skotnir til bana og um 70 slösuðust. Ríkisstjórinn í Ohio lýsti yfir hernaðarástandi á verksmiðjusvæðimu. Bílaframleiðslan stöðvaðist vegna málsins frá því í byrjun sumars og þar til í desember.

Þessi alvarlegu átök á milli Willys-Overland og verkalýðsfélaganna árið 1919 áttu eftir að draga dilk á eftir sér. Ýmislegt bendir til þess að seint hafi gróið um heilt á milli fyrirtækisins og verkalýsðfélaganna. Svo mikið er víst að uppgangstímar voru allt í einu að baki hjá Willys-Overland og tímabil vaxandi erfiðleika tók við. Átökin og stöðvun framleiðslunnar gátu varla hafa orðið á verri tíma: Ódýrari gerð af Overland, sem átti að geta keppt við T-Ford sem þá fékkst á innan við 500 dollara, komst aldrei á markaðinn og skilaði því ekki tekjum á móti útlögðum kostnaði. Ekki bætti úr skák að með útrás John N. Willys - með kaupum hans á öðrum fyrirtækjum, hafði verið teflt á tæpasta vað og nú reyndist kornið sem fyllti mælinn vera kaup á Dusenberg-verksmiðjunni í New Jersey og þeim 9 hekturum lands sem henni fylgdu. Ekki bætti úr að sala nýrra bíla hafði minnkað vegna efnahagssamdráttar í kjölfar loka fyrra stríðsins.

Nú hafði því heldur betur snarast um á dróginni: Í árslok 1919 skuldaði Willys-Overland bönkum um 18 milljónir dollara og birgjum 14 milljónir.

Chrysler tekur við stjórn

Í ljósi undangenginna atburða höfðu bankar ekki sömu tröllatrú á John N. Willys. Þegar hann leitaði samninga um fyrirgreiðslu hjá Chase Manhattan Bank (Chase Scurities), til að bæta lausafjárstöðu fyrirtækisins, fékk hann, að vísu, jákvæðar undirtektir en ekki án skilyrða: Bankinn sagðist reiðubúinn að lána fyrirtækinu með því skilyrði að ráðinn yrði nýr stjórnanda sem bankinn treysti. Willys varð að ganga að því. Chase Manhattan fékk því framgengt að Walter P Chrysler, sem þá hafði nýlega hætt sem stjórnarformaður Buick, tók að sér að rétta rekstur Willys-Overland við. Hann réði sig einungis til 2ja ára, hafði frjálsar hendur og óskorað vald til að gera það sem hann taldi nauðsynlegt og fékk eina milljón dollara í árslaun sem þóttu gríðarleg laun á þeim tíma. Chrysler byrjaði á því að minnka árslaun Johns N. Willys úr 150 þúsund dollurum í 75 þúsund. Hvort sem það var vegna launalækkunarinnar eða af öðrum orsökum þá seldi John N. Willys glæsihús sitt í Pasadena í Kaliforníu árið 1921 á 200 þúsund dollara. Kaupandinn var enginn annar en Walter P. Chrysler!

Það er af Chrysler að segja að hann puðaði hjá Willys-Overland þessi 2 ár og tókst að laga stöðu þess töluvert án þess að það nægði til að rétta reksturinn af. Þegar hann yfirgaf fyrirtækið hafði hann í farteskinu teikningar að nýjum og tæknilega fullkomnum 6 sílindra bíl, svokölluðum Flint-bíl, sem upphaflega hafði átt að framleiða í fyrrum Dusenberg-verksmiðjunni í New Jersey. Sá bíll birtist 3 árum seinna sem Chrysler 70 og er önnur saga.

Nýtt átak

Ekkert vitum við um hvernig John N. Willys hefur liðið þann tíma sem hann varð að lúta stjórn Walter Chryslers í ,,sínu eigin fyrirtæki" en ef marka má af fyrri umsvifum þá hefur hann varla verið sáttur við sinn hlut. En eitthvað virðist hann þó hafa lært af skellinum því nú bregður svo við að hann losar sig við fjárfestingarfélagið Willys Corporation; selur úr því öll fyrirtækin nema Willys-Overland. Strax 1922 hefst hann handa á ný og einbeitir sér nú að bílaframleiðslunni einni. Smám saman tókst honum að koma rekstrinum á rétt ról og snúa tapi í hagnað, meira að segja 20 milljón dollara hagnað árið 1925.

Um 1920 hafði Willys-Overland hafið samstarf við Crossley í Bretlandi sem leiddi til stofnunar Willys-Overland-Crossley Ltd, sem reisti samsetningarverksmiðju fyrir Overland-bíla í Cheshire. Þeir bílar fengu breskan ljósabúnað og hægrihandar-stýri og frá og með árgerð 1924 voru sumir breskir Overland með 1,8 lítra 4ra sílinda Morris Oxford-vél. Af gömlum ljósmyndum má sjá að margir Overland-bílar sem voru hérlendis af gerðum 85 og 90, um og uppúr 1920, voru með stýrið hægra megin og gæti það bent til þess að þeir hafi verið fluttir inn frá Bretlandi en ekki Bandaríkjunum. Á árunum 1926-1933 voru settir saman vörubílar af gerðinni Willys-Overland-Crossley í Bretlandi með talsvert meiru af breskum íhlutum en í fólksbílunum.

Overland og Willys-Knight breyttust lítið á árunum 1920-26. Stærri og vandaðri bíll hafi bæst við 1925 sem nefndist Stearns-Knight og var sá með svokallaðir slífaventla-vél. Svo var það 1926 að nýr, smærri og ódýrari bíll birtist, Overland Whippet. Sá var með 2,2ja lítra 4ra sílindra vél og kostaði, árið 1927, 545 dollara sem var 5 dollurum minna en Ford A. Árangurinn af því að hafa slegið Henry Ford við lét ekki á sér standa því 1928 varð metsala þegar Willys seldi um 315 þúsund bíla en af þeim voru um 55 þúsund Willys-Knight. Athyglisvert er hve verðmunur var mikill á bílunum; sá ódýrasti var Overland Whippet Four á 545 dollara en sá dýrasti Stearns-Knight 8 sílindra límúsína á 5.800 dollara.

Glæsivagninn Sternes-Knight eftir að Willys-Overland hafði yfirtekið framleiðsluna 1925 var með 8 sílindra vé. Þessi er af árgerð 1928 og yfirbyggður af Brunn. Verðið var ríflega tífalt verð Willys Whippet. Ljósmynd: Famous Old Cars. (Fawcett). Þessi 8 sílindra Stearnes-Knight er af árgerð 1929, einnig yfirbyggður af Brunn. Stearns-vélarnar voru með s.k. slífaventlum. Ljósmynd: Famous Old Cars. (Fawcett).

 

John North Willys, sem nú var á 56. aldursári, taldi sig nú hafa sýnt hvers hann var megnugur og hugðist hasla sér völl á nýju sviði. Ólíklegt er að hann hafi, frekar en aðrir, haft grun um hrunið sem varð á verðbréfamarkaði síðla haustsins 1929. En fyrr á árinu 1929, þegar allt virtist leika í lyndi, seldi hann hlut sinn í Willys-Overland á 21 milljón dollara. Í mars 1930 réðst hann til starfa í utanríkisþjónustunni og gerðist sendiherra Bandaríkjanna í Póllandi. Herbert Hoover forseta mun þó hafa fundist sem hæfileika Willys mætti nýta betur og kallaði hann því aftur heim til Bandaríkjanna, að skömmum tíma liðnum, og fól honum, árið 1932, að byggja aftur upp iðnað og viðskipti í Toledo en þar höfðu afleiðingar Kreppunnar miklu valdið ömurlegu ástandi. Á meðal fórnarlamba Kreppunnar var gjaldþrota Willys-Overland sem rekið var af nefnd á vegum skiptaráðanda eftir að bankar í Detroit höfðu gengið að því með kröfur. Er ekki að orðlengja um það nema John N. Willys var falin stjórn fyrirtækisins á nýjan leik.

Árið 1933 lét hann hætta við Willys-Knight-bílinn og allar gerðir af Overland nema nýjan smærri bíl með minni gerð af Whippet-vélinni. Sá bíll, sem nefndist Willys 77, var með nýtt boddí, nokkuð straumlínulaga. Þótt hann þætti ljótur var hann kraftmikill enda frekar léttur og vélin 48 hö. Um 45 þúsund Willys 77 seldust á næstu 4 árum sem var mikil búbót og jók líkur á því að fyrirtækinu tækist að vinna sig út úr gjaldþrotinu. Willys 77 lifði skapara sinn því John North Willys ofgerði sér við vinnu og lést af hjartaslagi í ágúst 1935 einungis 62ja ára gamall.

Við lát John North Willys hafði Willys-Overland enn stöðu gjaldþrota fyrirtækis undir stjórn skiptaráðanda. Þeir sem tóku við stjórninni þurftu að sækja um sérstakt leyfi hjá skiptaráðanda fyrir hverja 5.000 bíla framleiðslurunu. En Willys 77 seldist nægilega vel til þess að bjarga málunum og gjaldþroti var aflýst í febrúar 1936. Þá tók ný stjórn við og nafni fyrirtækisins var breytt í Willys-Overland Motors Inc. Það merkilega er að formaður stjórnar nýja hlutafélagsins var Ward Canaday en hann hafði stjórnað markaðsmálum Willys-Overland allar götur síðan 1916 eða í tvo áratugi.

Framtíðin tryggð - nýtt fartæki

Síðasti Willys-fólksbíllinn fyrir síðara stríð var endurbætt gerð af 77 sem nefndist Willys 37 og kom fyrst á markaðinn sem árgerð 1937. Ameríski bíllinn var þá orðinn staðlað hugtak - með sæti fyrir 6 og 3,5 lítra vél eða stærri. Willys 37 gat ekki keppt við risana og var í neðsta sæti á lista yfir fjölda seldra bíla árin 1939-41.

En eftir að Bretar höfðu sagt Þjóðverjum stríð á hendur haustið 1939 og styrjöld hófst í Evrópu var farið að undirbúa aukna hergagnaframleiðslu í Bandaríkjunum. Landherinn hafi óskað eftir tilboðum frá bílaframleiðendum í fjölhæft og létt fartæki fyrir boðliða og foringja og til minni flutninga í hernaði. Af mögum tillögum þótti ein bera af og var sú hönnun valin; léttur fjórhjóladrifinn blæjubíll. Tillöguna átti lítið og fjárvana fyrirtæki, American Bantam, sem hafði m.a. sett saman breska smábílinn Austin Seven með takmörkuðum árangri. Hönnuður þessa tækis, en það nefndist General Purpose Vehicle, var Karl Probst. General Purpose var upp á amerísku skammstafað GP. Ein af nokkrum skýringum á tilurð Jeep-heitisins er að það sé GP borið fram upp á amerísku. Til að flækja ekki málið skulum ganga út frá því að sú skýring geti staðist.

Eins og lýst er betur í seinni greininni hafði American Bantam ekki fjárhhagslega burði til að framleiða Jeep í nægilega stóru upplagi og samdi því við Willys og Ford um framleiðslu íhluta sem svo leiddi til þess að þau 2 fyrirtæki framleiddu megnið af upplaginu og smám saman varð bíllinn að Willys Jeep. Vélin var sama 4ra sílindra hliðarventlavélin og var í Willys 77 en aflmeiri, 54 hö.

Hjá Willys var framleiðslan á Jeep það sem nánast allt snérist um á styrjaldarárunum fram yfir 1945. Síðan tók við framleiðsla á Civilian Jeep (CJ-2A) fyrir bændur og verktaka auk alls konar útfærslu á upprunalega herjeppanum fram á 6. áratuginn. Á stríðsárunum höfðu verið gerðar ýmsar áætlanir um nýja fólksbíla sem lítið varð úr. Ein hugmyndin var um fólksbíl, byggðan á grunni jeppans, og varð sú að veruleika með Jeep Station 1946 með afturhjóladrifi og 4ra sílindra vél og Jeepster, sem var opinn 4ra manna, sem ef til vill mætti kalla strandbíl, og var 1948 með 4ra eða 6 sílindra vél. 1948 var Station fáanlegur með 6 sílindra 2,6 lítra vél. Þessi 4ra sílindra hliðarventlavél (L-hedd) nefndist fyrst ,,Go Devil" en eftir endurbót (75 hö) í W-O Station 1948 nefndist hún ,,Hurricane" og var af svokallaðri F-gerð, þ.e. með útventla í blokkinni en sogventla í heddinu en það fyrirkomulag gerði kleift að hafa ventlana stærri. Sex strokka hliðarventlavélin nefndist hins vegar ,,Lightning Six" (en ekki Hurricane fyrr en með Kaiser ,,Red Seal Six" árið 1954).

1949 var Willys Station fáanlegur með fjórhjóladrifi. F- toppventlavél kom fyrst í herjeppanum M38 1949 en ekki í CJ fyrr en 1952 í CJ-3B, gerð sem var sérstaklega ætluð til útflutnings og var framleidd nánast óbreytt til 1969. Því má bæta hér við til frekari fróðleiks að M38 herjeppinn af árgerð 1951, sá sem notaður var í Kóreustríðinu, var með 24ra volta rafkerfi! Fyrstu Willys jepparnir með F-toppventlavél hérlendis voru af þessari gerð en settir saman í Ísrael og keyptir þaðan í skiptum fyrir freðfisk. (Nánari skýring).

Willys Quad nefndist fyrsti jeppinn sem Willys-Overland smíðaði eftir upphaflegum tilboðsgögnum Bantam. Ljósmynd: Willys-Overland. Eftir að Hermálaráðuneytið hafði endurskoðað upphaflegu hönnunina varð til staðal-herjeppinn MA. 1577 eintök voru framleidd af Willys MA. Ljósmynd: Willys-Overland.

 

Fyrsti fólksbíllinn eftri stríð var Willys Aero 1952. Smábíll á amerískan mælikvarða með 2,6 lítra 6 sílindra hliðarventlavélina úr Jeep frá 1948. Sá þótti vel heppnaður, vandaður og fallegur en of dýr til að ná einhverri teljandi sölu. Þótt Willys Aero væri um 13% dýrari en stærri Ford og Plymouth seldust samt um 31 þúsund eintök á árinu 1952 og nærri 42 þúsund eintök 1953.

Einbjörn í Tvíbjörn og .....

Í apríl 1953 eignaðist Kaiser Manufacturing Co. í Michigan ráðandi hlut í Willys-Overland og var þá heiti fyrirtækisins í Toledo breytt í Kaiser-Willys Sales Division of Willys Motor Inc. Þegar það er haft í huga að um þetta leiti eru Oldsmobile, Ford og Dodge, komnir með V8-toppventlavélar varð Willys Aero ekkert meira spennandi þótt hann fengi 6 sílindra Continental-hliðarventlavélina úr Kaiser. Þótt sú vél væri frábær vinnuhestur var hún orðin úrelt við hlið V8-toppventlavéla hinna 3ja stóru.

Sala á Willys Aero dróst mikið saman upp úr 1953, náði ekki 9 þúsund eintökum 1954, og þegar einungis 5.896 eintök seldust 1955 var framleiðslu hans hætt í Toledo og flutt til Brasilíu þar sem bíllinn, eftir andlitslyftingu Brooks Stevens, var framleiddur síðast 1972 af Ford Brasil SA, sem hafði keypt Willys-Overland do Brasil 1967. Upp frá því einbeitti Kaiser-Willys sér að framleiðslu og sölu á Jeep í Bandaríkjunum. 1954 samdi Kaiser-Willys við franska fyrirtækið Hotchkiss um framleiðslu á Jeep í Frakklandi. Með því móti tókst að selja jeppann í Evrópulöndum sem skort höfðu dollara til að kaupa hann frá Toledo.

Og til að rugla fólk enn frekar í rýminu var heiti fyrirtækisins breytt 1963 í Kaiser-Jeep Corporation. Þar með var ekki sagan öll því 1970 varð enn einn vendipunkturinn í sögu Willys-jeppans þegar American Motors keypti Kaiser-Jeep í Toledo og breytti heiti þess í Jeep Corporation. Af því tilefni verður heiti Willys-jeppans breytt í þessari grein og hann einfaldlega nefndur Jeppi (með stórum staf). Ferli American Motor lauk 1988 þegar það var keypt og innlimað í Chrysler Corporation sem um áratug seinna rann saman við Daimler-Benz og varð að Daimler-Chrysler.


Í seinni greinninni er rakin þróunarsaga Jeppans og annarra bíla sem framleiddir voru undir merkjum Jeep.

Seinni grein um Willys-jeppann (með tenglum)

Aftur til aðalsíðu

Netfang höfundar

Skrá yfir heimildir, aðrar en sem tilgreindar eru í texta:

,,Cars of the 40s". Bók. Ritstjórar. Bob Schmidt, Alan Zachary, Ronald Mochel. Útg. Louis Weber/Consumer Guide Magazine. Illinois 1979.

,,Standard Catalog of American Cars 1946-1975". Bók. Ritstjóri John Gunnell. 3. útgáfa Krause Publications. Wisconsin 1992.

,,The World Guide to Automobiles". Bók. Nick Baldwin, G.N. Georgano, Michael Sedgwick, Brien Laban. Útg. McDonald Orbis. London 1987.

,,Collectible Automobile". Tímarit. 3. árg. nr. 2 (Jeep CJ History). 7. árg. nr. 5 (1946-65 Willys Station Wagon). 11. árg. nr. 1 (Jeepster Commando). Útg. Louis Weber/Publications International Ltd.Illinois.

Um tilurð þessara greina og fleiri heimildir má lesa í PISTLAR (frá 11. október 2003).