Nýr eða ekki nýr Volvo S80?


Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur:

Það er orðið langt síðan ég hef skrifað um nýjan Volvo. Muni ég rétt mun það hafa verið í tímaritinu Bílnum seint á árinu 1992 og þá um Volvo 850 sem markaði skörp tímamót í þróun, hönnun, tækni og framleiðslu Volvo-fólksbíla -enda ber grein mín um 850 GT í Bílnum á sínum tíma þess merki að bíllinn kom manni rækilega á óvart. Volvo 850 var síðasti Volvo-bíllinn sem hannaður var af Volvo í sænskri eigu. Skiptar skoðanir eru um hvort hann hafi bjargað Volvo og sé ástæða þess að merkið er enn til þótt nú sé það eign Ford. Samstarfinu við Renault lauk þegar hlutafafundur 1993 felldi tillögu Gyllenhammars stjórnarformanns um aukna eignaraðild Renault, sem hefði m.a. þýtt m.a. að ódýrari erlendur vinnukraftur hefði komið í stað sænskra starfsmanna; Gyllenhammar neyddist til að segja af sér og Volvo dagaði uppi í örmum Ford - réði ekki við hönnunarkostnaðinn af 850-bílnum.

Volvo S80 D5 2007. Nýr bíll eða endurbættur? Hvert sem álit fólks kann að vera á því þá er bíllinn enn nýtískulegur og hefur sinn sérstaka stíl.

Þeir Svíar eru til sem eru þeirrar skoðunar að hefði Renault ekki verið hafnað 1993 væru sænsk ítök í Volvo meiri en þau eru nú. Hjá Renault mun hins vegar ekki vera nein eftirsjá í Volvo og svo mikið er víst að á meðal sumra fyrrum stjórnenda hjá Volvo, sem ýmist sögðu upp, voru reknir eða settir á eftirlaun um 1990 vegna andstöðu við áætlanir Gyllenhammars, er lítil eftirsjá í Renault. Frakkarnir þóttu vægast sagt erfiðir í samstarfi og eru Svíar þó ýmsu vanir í alþjóðlegum samskiptum sem einn helsti vopnaframleiðandi Evrópu.

Vissara er að taka það fram strax að ég er ekki hlutlaus þegar Volvo er annars vegar þar sem ég á sjálfur 3 stk. (þeir eru að vísu rúmlega 40 ára gamlir).

Var tákn smáborgarans

Ég veit ekki hvort margir hafi veitt því athygli að Volvo 245 og 745 (station) gegndu um árabil sérstöku hlutverki í amerískum bíómyndum og voru einir um það. Þegar amerískur leikstjóri þurfti að koma því rækilega til skila að viðkomandi karlmaður (oftast í jakkafötum með þverslaufu eða í molskinnsbuxum og tweedjakka) væri einstakur smáborgari, leiðindagaur ef ekki hreinræktaður nörd - var hann látinn aka Volvo station í myndinni. Mér sýnist Volvo hafa tapað þessu hlutverki - líklega með lítilli eftirsjá enda verður það ekki af 240/740-bílunum skafið að á þeim var einhver hallærisbragur alla tíð þótt enginn hafi efast um gæðin. Þó er enn einhver nördastimpill á Volvo. Eigandi nýs 177 hestafla BMW 523i (6 síl) sagðist ekki geta hugsað sér að skipta yfir í nýjan 200 hestafla Volvo S80 2,5T þótt sá væri um 20% ódýrari. Þegar hann var spurður um ástæðuna sagði hann að Volvoinn væri bara fyrir eftirlaunafólk! Þeir sem kaupa BMW og Benz sækjast líklega frekar eftir stíl en þeir bílar eru óneitanlega meira áberandi og glæsilegri útlits auk þess að vera dýrari.

Þegar betur er að gáð sést að framendinn á nýja S80 er breyttur. Mestu breytingarnar eru þó í eiginleikum og búnaði.

Hvaða breytingar?

Ég átti þess kost fyrir skömmu að nota nýjan Volvo S80 í vikutíma, þ.e. stærsta fólksbílinn sem kom fyrst á markaðinn sem árgerð 1998. Mér hefur alltaf litist vel á þann bíl og þótt innréttingin einstaklega falleg. Ég get ekki sagt að ég hafi orðið fyrir neinum vonbrigðum þótt mér hafi gengið erfiðlega að koma auga á það sem Volvo telur nýtt við "nýja'' S80-bílinn - og mér liggur við að segja sem betur fer. Er einhver ástæða til að breyta útliti bíls sem er nýtískulegur og hefur reynst vel einungis af því að 9 ár eru síðan hann kom fyrst á markaðinn? Mér sýnast nýjungarnar vera fyrst og fremst fólgnar í fullkomnari og betri þægindabúnaði, öflugri öryggisbúnaði, endurbættri fjöðrun - þ.e. endurbættum bíl frekar en nýjum. Útlitsbreytingin er einkum sú að erfiðara er að greina á milli hvort um er að ræða S40 eða S80 þegar horft er framan á bílinn. Keypti ég nýjan S80 myndi ég kaupa D5-bílinn sem er með 5 sílindra 200 ha dísilvél jafnvel þótt hann sé um 19% dýrari en 2,5T. Eyðsla dísilbílsins er rúmir 7 lítrar að jafnaði á móti 9,9 lítrum hjá 2,5T. Og þetta mun vera hreinræktuð Volvo-vél en muni ég rétt var S80 upphaflega með dísilvél frá Audi.

Ótvíræð breyting er hins vegar verðlækkun á S80 og hún ætti að hleypa lífi í söluna þegar fólk fer að bera saman S80 og þá bíla sem keppinautar bjóða á sama verði (D5 kostar um 5,2 mkr.).

Líklega tilviljun

Þótt það sé útúrdúr finnst mér athyglisvert að bera nýja Volvo S80 saman við Lincoln LS - Evrópu-Lincolninn sem Ameríkanar fúlsuðu við og hætt var að framleiða eftir 2006 árgerðina. Þótt Lincoln LS sé byggður á sama undirvagni og Jaguar S er hann stærri bíll en Jaguar og Volvo S80, 7 sm lengri á milli hjóla, nákvæmlega jafn breiður og Volvoinn (1,86 m) en heildarlengdin 7 sm meiri- eða sem nemur lengra hjólhafinu. 232 ha Lincoln LS V6 og 238 ha Volvo S80 með 6 sílindra línuvél eru nákvæmlega jafn þungir. Skýringin liggur m.a. í því að allt framstykkið á Lincoln LS, sem er afturdrifinn (S80 er framdrifinn) er úr áli. Amerískir bílablaðamenn jarma stöðugt um það að ameriskir bílar hafi ekki sambærilega aksturseiginleika og evrópskir. En þegar framleiðandi eins og Ford bregst við með því að bjóða amerískan bíl með "evrópskum" eiginleikum fúlsa amerískir kaupendur við honum af því að hann sé of "evrópskur''! Að mörgu leyti eru Volvo S80 og Lincoln LS líkir; - báðir eru rúmgóðir með alveg einstaklega fallega innréttingu sem mikið er lagt í og þótt byggingin Lincoln LS sé líkari BMW 700-línunni en Volvo S80, eru bílarnir merkilega líkir í akstri. Engu að síður rokseldist Volvo S80 í Bandaríkjunum en Lincoln LS treglega. Annað sem er athyglisvert er að í Evrópu virðist Volvo S80 ekki hafa náð fótfestu utan Svíþjóðar þar sem selst hafa 8 BMW 500 og nærri 6 Mercedes-Benz E Class á móti hverjum S80 og er það umhugsunarvert.

Kælir er innfelldur í aftursætisbakið.

Að mér finnist bílarnir líkir er liklega tilviljun því S80 mun ekki eiga mikið sameiginlegt með JaguarS/Lincoln LS en því meira með öðrum Ford-bílum svo sem undirvagn og ýmsan búnað, sem verður í væntanlegum nýjum Mondeo og Land Rover Freelander, auk þess sem S80 á margt sameiginlegt með Ford Galaxy og S-Max.

Vélar

S80 er fáanlegur með þrenns konar þverstæðum bensínvélum:

- 200 ha 5 sílindra 2,5 lítra túrbó (2,5T) 20 ventla með 2 ofanáliggjandi kambása.
- 238 ha 6 sílindra 3,2 lítra 24 ventla með 2 ofanáliggjandi kambása.
- 315 ha V8 4,4 lítra álvél 32 ventla með 4 ofanáliggjandi kambása. O
g tvenns konar dísilvélum:

- 163 ha 5 sílindra 2,4 lítra túrbó (D5) 20 ventla með 2 ofanáliggjandi kambása.
- 185 ha 5 sílindra 2,4 lítra túrbó (2,4D) 20 ventla með 2 ofanáliggjandi kambása.
(22 ha mismunurin er fengin með breyttri tölvustýringu forþjöppunar).

Sítengt fjórhjóladrif er fáanlegt í 8 og 6 sílindra bílunum. Bíllinn með 6 og V8-vélinni er einungis fáanlegur sjálfskiptur (6 gíra Geartronic) en beinskiptur (6g) eða sjálfskiptur (6g Geartronic) með 5 sílindra bensín eða dísilvél.

Þessi 4,4 lítra V8-álvél er sú sama og kom fyrst í Volvo CX90. Hún er nýjasta tækni og vísindi, hönnuð og framleidd af Yamaha í Japan. Ég á ekki von á að mikill áhugi sé fyrir henni á evrópska markaðnum en því meiri í Bandaríkjunum þar sem bensínfylleríið stendur enn sem liður í "lífskjörum''. Þverstæð V8-vél kom fyrst í Cadillac á 9. áratugnum (Northstar V8 1993).

Hérlendis er boðið upp á S80 með 3 vélum, 2,5i Turbo bensín, 2,4iD5 Turbó dísil og 4,4 i V8 bensín (aldrif).

Gírbúnaður

Volvo S80 er 6 gíra hvort sem hann er með handskiptingu eða Geartronic en það er tölvustýrð sjálfskipting sem framleidd er af AisinWarner í Japan og er með sams konar útbúnaði og TipTronic-skiptingin í Porsche og fleiri bílum; velja má á milli sjálfskiptingar og kúplingslausrar handskiptingar. Volvo byrjaði að nota AisinWarner-skiptingar í stað ZF í dýrsutu gerðinni 960 upp úr 1990 en AisinWarner-sjálfskiptingar eru í dýrari gerðum Toyota, í Lexus og í Cadillac (AisinWarner er dótturfyrirtæki GM).

Snerpa

Þessi S80 sem hér er fjallað um er af gerðinni D5 með 200 ha túrbódísilvélinni og Geartronic. Það er langt síðan ég hætti að taka mark á því hve langan tíma það tekur að koma bíl frá kyrrstöðu í 100 km/klst. Þær tölur hafa aldrei staðist við prófun auk þess sem ég tel þær hafa næsta lítið gildi yfirleitt - jafnvel takmarkað gildi við samanburð á bílum en fyrir þá sem hafa sérstakan áhuga þá er snerpa D5-bílsins gefin upp sem 8,5 sek. og hámarkshraðinn 230 km/klst.

Innréttingin í S80 er mjög vönduð - bæði vel hönnuð og vel gerð. Rýmið er gert fyrir Svía sem eru stórvaxnastir Norðurlandabúa. Höfuðrými er nóg fyrir hæstu menn og fótarými nóg fyrir þá leggjalengstu. Samt getur smávaxinn einstaklingur stillt saman stýri og stól þannig að sæmilega fari um hann.

Það skiptir t.d. atvinnubílstjóra máli hve snöggur bíll er að ná 60 km/klst. (þ.e. á milli umferðarljósa) án þess að farþegar kvarti undan akstursmátanum. Þá reynir verulega á togið í vélinni á milli 80 og 120 km/klst. t.d. þegar ekið er á bandarískri hraðbraut á borð við Interstate 95 suður og norður eftir austurströnd Bandaríkjanna en þar getur maður þurft að vera snöggur að skipta um akrein til að verða ekki flattur út af trukkunum sem æða þar á 130 km/klst. Um snerpuna í S80 er það að segja að hún er meiri en nóg við allar venjulegar aðstæður og einnig á Interstate 95. Hins vegar er S80 D5 með Geartronic hvorki jafn rífandi sprækur og sjálfskiptir BMW 530d né Mercedes-Benz E320 CDI enda báðir talsvert dýrari.

Búnaður

Ég ætla ekki að telja upp öryggisbúnaðinn í þessum Volvo - fullyrði einungis að fullkomnari gerist hann tæplega, ekki síst þegar um er að ræða 5 m.kr. bíl. Þægindabúnaður er fjölbreyttur bæði staðalbúnaður og sérbúnaður. Og það mun koma mörgum á óvart hve mikill staðalbúnaður er innifalinn í verði bílsins hérlendis (4,7 - 5,9 mkr.).

Volvo S80 er áberandi breiður bíll (1,86 m).

Endurbættur búnaður sem mér finnst til bóta og muni um er sjálfvirki hraðastillirinn. Í fyrsta lagi er hann nákvæmari en margir aðrir; stilla má fyrirfram fjarlægð í næsta bíl fyrir framan auk þess sem hann er búinn viðvörun, ljós og hljóðmerki, sem lætur vita þegar bil í næsta bíl fyrir framan styttist of hratt. Auk þess er eins konar ratsjárbúnaður sem á að gera manni viðvart þegar bíll er í þann mund að fara fram úr öðru hvoru megin. Sá búnaður finnst mér ekki nógu traustvekjandi - það er engu líkara en að ekki hafi gefist tími til að ljúka prófunum á honum í tæka tíð.
Nú er gefin möfuleiki á þrenns konar stillingum á næmi stýrisins. Ég gef lítið fyrir þann búnað fannst hann ekki skila neinu umfram staðalstillinguna - líklega meira til að flagga framan í þá blaðamenn sem eru síkvakandi um vegtilfinningu í stýri - en geta svo ekki skýrt fyrirbrigðið almennilega þegar til kastanna kemur.

Fjöðrunin (tölvustýrðir demparar) er einnig stillanleg. Í öllum venjulegum akstri myndi maður velja mýkstu fjöðrunina "Comfort'' en sportfjöðrunin kemur sér áreiðanlega vel í lögreglubíl í útkalli.

Akstur

Aksturseiginleikar þessa bíls eru frábærir, sérstaklega þegar það er haft í huga hve hann er hljóðlátur og þýður - maður þarf að fara í miklu dýrari Audi til að finna jafn stöðugt veggrip, stöðugleika og hljóðværð. Í akstri finnst engin munur á vélarhljóði bensín- eða dísilbílsins. Sætin eru einstaklega þægileg bæði í akstri og þegar farið er inn og út úr bílnum. Það vekur jafnframt athygli að fremur hátt er upp á setur sætanna sem gerir bílinn þægilegri. Hliðarrúður ná langt niður þannig að barn í stól, fram í eða á barnasessu aftur í sér vel út. Þetta er talsvert atriði vegna þess að börn sem sjá vel út eru rólegri í bíl og minni hætta á bílveiki.

Rými

Volvo S80 er rúmgóður 5 manna bíll þrátt fyrir mjög efnismikla innréttingu. Samt er bíllinn ekki nema 4,85 m á lengd. Hjólhafið er 2,83 m og breiddin mikil (1,86 m). D5-bíllinn vegur 1540 kg og ber 650 kg. Dráttargetan er 1600 kg. Farangursrýmið er 480 lítrar og eldsneytisgeymirinn 80 lítrar. Dekkjastærð er 225-55 R16W.

Sérstaða Volvo S80

Eins og margir vita hefur Volvo S80 verið á meðal þeirra bíla sem lögregluembættin í landinu nota. Líklega reynir engin notkun jafn mikið á bíl og í útköllum hjá lögreglu í þéttbýli. Það vill svo til að mér er kunnugt um að fyrir nokkru var S80 af árgerð 2002, sem lögreglan á Suðurnesjum hafði ekið rúmlega 400 þús. km, seldur á 6-700 þús. kr. Bíllinn mun hafa verið í góðu lagi enda mun viðhaldi hafa verið vel sinnt (því þessa bíla er líka hægt að eyðileggja með trassaskap). Jafnvel með góðu viðhaldi er mér til efs að margir aðrir bílar, jafnvel miklu dýrari bílar, myndu vera 700 þúsund króna virði eftir 5 ára löggunotkun. Það finnst mér segja meira en langt mál um styrk og gæði þessa Volvo S80.

Til baka á aðaalsíðu

Netfang höfundar