Volvo PV444/544

eftir Leó M. Jónsson vélatæknifræðing ©

Árið 1942 voru lögð drög að fyrsta smábílnum hjá Volvo, PV444. Sá bíll var síðar framleiddur, með endurbótum, frá því í febrúar 1947 og þar til 20. október 1965. Ekki er ólíklegt að fordómar hafi ráðið því að Volvo PV444 var fremur sjaldséður bíll á Íslandi. Öfugt við Citroën var þessi litli Volvo-fólksbíll ekki byltingarkennd hönnun. Engu að síður var hann merkilegur bíll á sínum tíma - t.d. langt á undan breskum bílum í sama verðflokki hvað varðar tækni. Tíminn hefur leitt í ljós að PV 444/544 (eða ,,Kryppan" eins og hann er stundum nefndur) var frábær bíll á sínum tíma - t.d. það góður að hann stendur enn fyrir sínu og er einn örfárra bíla frá 6. áratugnum sem hægt er að nota sem fartæki enn þann dag í dag.

Volvo, aðallega vörubílar, höfðu verið í notkun á Íslandi síðan 1930 en það ár fór fyrirtækið Sveinn Björnsson & Ásgeirsson að flytja inn Volvo og hélt því áfram til 1960 en þá voru í notkun hérlendis, auk Volvo vörubílanna, PV444, PV544, Duett sendibíllinn (frá 1953) og Amazon (frá 1956).

Eins og margir aðrir bílaframleiðendur hafði Volvo gert tilraunir með smíði mismunandi bíla. Á meðal þeirra sem unnið var að uppúr 1940 var PV40. Sá var með 8 strokka 70 ha stjörnuvél afturí. Þrátt fyrir ýmsa góða kosti var hætt við framleiðslu bílsins vegna þess hve vélin hefði orðið dýr í framleiðslu.

Árið 1942 hafði 40 manna hópur starfsmanna fengið þau fyrirmæli frá stjórn Volvo að leggja drög að nýjum smábíl. Volvo keypti, í þessu skyni, Köpings Mekaniska Verkstad AB, sem hafði framleitt gírkassa í Volvo frá upphafi. Á árinu 1943 hafði hópnum miðað það vel áleiðis að stefnt var að því að kynna nýja bílinn, sem hafði fengið tegundarheitið PV444, um haustið 1944. Þegar árið 1943 var ljóst að bíllinn, sem ákveðið hafði verið að hafa með 4 strokka vél og drifi á afturhjólum, yrði einstakur á meðal evrópskra smábíla, einkum vegna þess að í honum sameinaðist bandarísk útlitshönnun og evrópsk stærð. Það reyndist síðar styrkja stöðu bílsins á markaðnum. Það mun hafa styrkt stöðu Volvo á markaðnum að helstu bílaframleiðendur Evrópu höfðu í öðru að snúast en hönnun nýrra gerða á þessum síðustu árum síðari heimstyrjaldarinnar.

Vorið 1944 hafði endanlegt útlit ekki verið ákveðið en ýmsar útgáfur verið smíðaðar í tilraunaskyni. Bíllinn var grindarlaus með berandi botnplötu, 4ra strokka slagstutta og mjög sparneytna vél sem gaf 40 hö. Vélin nefndist B4B og var sú minnsta sem Volvo hafði framleitt fram að þessu og jafnframt fyrsta toppventlavélin. Gírkassinn var 3ja gíra og 2. og 3. alsamhæfðir. Volvo PV444 mun hafa verið fyrsti evrópski bíllinn með öryggisgleri í framrúðum. (Í bók, útgefinni af Volvo, er fullyrt að PV444 hafi verið fyrsti bíllinn í heimi með öryggisgleri í framrúðu. Það rétta er að Cadillac var fyrstur bíla með öryggisgler í öllum rúðum árið 1926).

PV444 var sýndur í fyrsta sinn í Stokkhólmi í september 1944. Bíllinn vakti strax mikla athygli. Verðið var 4800 sænskar kr en það var nákvæmlega sama verð og hafði verið á fyrsta Volvo bílnum, ÖV4, 17 árum áður og á þessari sýningu, sem stóð 10 daga, var gengið frá 2300 kaupsamningum um PV444. Færri fengu en vildu og var fólk jafnvel reiðubúið að borga tvöfalt verð fyrir samning þótt bíllinn væri ekki tilbúinn afgreiðslu; vegna verkfalla dróst afhending fyrstu bílanna fram á árið 1947 eða næstum 3 ár. Þrátt fyrir þessa töf teljast fyrstu bílarnir vera af árgerð 1945.

PV 444 af fyrstu kynslóðinni. Þessi er árgerð 1952. PV 544 er 2. kynslóðin. Þessi er af árgerð 1963.

 

Vegna strangrar skömmtunar á bensíni urðu tafir á afgreiðlu bílanna ekki að alvarlegu máli. Tíminn var notaður til þess að reynsluaka þeim 3 PV444 sem smíðaðir höfðu verið. En verkföllin og tafir þeim samfara urðu til þess stærri bíll, PV60, komst ekki í framleiðslu fyrr en 1946. Sá bíll var dæmigerð fyrirstríðshönnun, þótti traustur en gamaldags og lítið spennandi. Til stóð að hefja framleiðslu á PV444 í ársbyrjun 1946 en þá reyndist ekki unnt að fá keypt stál frá Bandaríkjunum til framleiðslunnar. Þótt merkilegt megi virðast var sænska stálið ekki fáanlegt kaldvalsað til fargmótunar bílhluta. Bandaríska stálið fékkst ekki keypt fyrr en einn af stjórnendum Volvo, Karl Lindblom, hafði farið til Bandaríkjanna með einn PV444 og sýnt bílinn.

GRENJANDI EFTIRSPURN
Á stríðsárunum hafði bílaframleiðsla legið niðri báðu megin Atlantshafs að undanskildri framleiðslu herbíla. Þegar stríðinu lauk hafði skapast mikil eftirspurn eftir nýjum bílum. Framleiðendur, þ.á.m. Volvo, áttu í miklum erfiðleikum með að mæta eftirspurninni vegna skorts á nánast öllu hráefni.

Í byrjun ársins 1947 voru 10 PV444 smíðaðir í því skyni að kanna hvort framleiðsluferlið væri í lagi. Smávægilegar breytingar voru gerðar í kjölfarið. Samfelld framleiðsla hófst í febrúar 1947. Af þeim 12 þúsund bílum sem átti að framleiða í fyrstu lotunni höfðu 10.181 þegar verið seldir. Af ýmsum ástæðum, m.a. vegna skorts á efni og rekstrarvörum, fór framleiðslan hægt af stað og talsverður tími leið þar til PV444 taldist algengur bíll í Svíþjóð. Fyrstu 2300 bílarnir voru afhentir eigendum sem höfðu greitt 4800 Skr. fyrir þá á áðurnefndri sýningu. Raunverulegt verð bílanna var þá komið upp í 8000 skr og því um umtalsvert tap að ræða fyrir Volvo.

Innréttingin í PV var mjög praktísk. Sérstök innrétting var í bílunum sem fluttir voru út og seldir í Bandaríkjunum, þessi er af þeirri gerðinni í árgerð 1957.

Þrátt fyrir erfiðleika vegna hráefnisskorts jókst framleiðsla og sala Volvo bíla upp úr stríðslokum, framleiðsla vörubíla tvöfaldaðist og fólksflutningabíla sexfaldaðist á nokkrum árum og náði hámarki árið 1948 þegar heildarframleiðslan varð um 3000 bílar, stærstur hlutinn PV444.

BLÓMAVASINN
Síðla árs 1948 var sölu PV444 hætt um stundarsakir til þess að láta markaðinn jafna sig, eins og það var orðað. Árið 1949 var fyrsta árið í sögu Volvo (frá 1927) sem framleiddir voru fleiri fólksbílar en vörubílar. Ákveðið var að framleiða 700 PV444 til viðbótar þeim 12 þúsundum sem átti að framleiða í fyrstu lotu. Þessir 700 bílar voru af sérstakri gerð sem nefndist PV444S. Fram að því höfðu bílarnir einungis fengist svartir. PV444S voru dökkgráir með tvílitri innri klæðningu úr gráu og rauðu ullarefni. Smávægilegar útlitsbreytingar voru gerðar en allur vélbúnaður var óbreyttur. Það vakti sérstaka athygli að fyrstu gerðirnar af PV444 voru með blómavasa úr kristal festum á mælaborðið og í honum gerviblóm. Á meðal safnara eru bílar af árgerð 1945 með upprunalega blómavasanum nú í miklum metum.

ABC-GERÐIRNAR
Fyrstu Volvo PV444 fram að árgerð 1950 fengu tegundareinkennið PV444A. 700 bíla aukaupplagið telst sérgerð og nefdist PV444AS. Þessir bílar, árgerðir 1945-1949, eru af svokallaðri A-seríu. Fyrsta teljandi breytingin á PV444 varð 1950 með PV444B. Þá er boðið upp á tvær útfærslur; ,,Standard" og ,,Special" sem var í aðalatriðum með sama búnað og PV444AS. Helstu breytingar sem einkenna B-seríuna eru öðruvísi stuðarar og talsverðar breytingar á mælaborði og innréttingu, m.a. með hringlaga hraðamæli, þægilegri sætum og í stað hnapps var nú startað með svissnum. Það sem vakti þó mesta athygli, og gerir enn þann dag í dag, er að B-serían er með mjög sérkennileg stefnuljós: T-laga stykki sem stendur eins og handfang upp úr miðjum toppnum og nefndist ,,Fixlight" í bæklingum og auglýsingum Volvo en á meðal Svía kallast þetta apparat ,,þakgaukurinn".

PV 444 og 544 var með sjálfberandi boddí (án grindar). Á 6. áratugnum reyndist vera talsverður markaður fyrir bíla án boddís sem ýmsir aðilar byggðu síðan á pall, flutningahús eða annað sem hentaði atvinnurekstri. Til að mæta þörfinni framleiddi Volvo sérstaka gerð án boddís en með X-bita styrkta grind til að auka burðargetu. Þessi gerð nefndist PV445 og fyrsta árgerðin var 1950. Þessar ,,Grindur" voru seldar í Svíþjóð auk útflutnings til Brasilíu, Uragay og Perú. Til þess að ná hagkvæmari upplagsstærð á PV445 var ákveðið árið 1951 að nota undirvagninn til framleiðslu á sendi- og stationbíl. Sá bíll, sem þá tók á sig lögun, var Volvo Duett og eru bílarnir af árgerð 1953 taldir önnur útgáfan af Duett. Þeir voru settir saman í boddíverksmiðju Volvo í Olofström. Grindin og undirvagn komu frá Gautaborg en vélin frá Skövde.

Nokkur sænsk fyrirtæki lifðu góðu lífi á því að framleiða alls konar vinnubíla úr hlutum frá Volvo, t.d. svo pallbíl sem byggður var á grind og undirvagni PV445. Volvo Duett er byggður á undirvagni og grindinni PV445. Þessi bíll naut mikilla vinsælda í Skandinavíu enda sérstaklega hentugur fjölskyldum. Nú er Duett eftirsóttasti Volvo-PV-bíllinn og hefur hækkað mikið í verði.

 

Sería C af PV444 tekur við af B-seríunni sem árgerð 1951. Breytingarnar voru óverulegar. Í janúar 1952 hafði Volvo framleitt 25 þúsund PV444. Á árgerð 1952 hafði gaukurinn (stefnuljósið) á toppnum verið fjarlægt og í stað þess komin stefnuljós sem fest var á dyrastafina. 6 volta rafkerfið var endurbætt með aflmeiri dínamó, stýrið gert léttara og boðið upp á öflugri miðstöð sem sérbúnað.

FLEIRI LITIR
PV444C af árgerð 1953 breyttist ekki að öðru leyti en því að nú var bíllinn fáanlegur í 3 litum; svörtum, gráum eða vínrauðum með innréttingu í rauðu og bleiku. Verðið var nú komið upp í 10,860 Skr á ,,Standard" og 11.451Sskr á ,,Special" sem var með felguhringi úr ryðfríu stáli, sólskyggni báðu megin, sígarettukveikjara, krómlista á frambrettum og armpúða innan á hurðum.
Í apríl 1953 kom ný gerð, PV444E/ES, sem einkenndist af ljósari gráum lit en var á fyrri árgerðum. Verðið lækkaði nokkuð en þetta ár nærri tvöfaldaðist bílaframleiðslan hjá Volvo, PV444 var t.d. mest seldi bíllinn á sænskum markaði árið 1953. Volvo Duett sendibílarnir komu á markaðinn þetta sumar.

Fleiri en eitt fyrirtæki í Svíþjóð og a.m.k. eitt í Noregi byggðu blæjubíl á PV445-undirvagninum. Þessi PV444 Convertible 1956 er byggður af Ringborgs Karosserifabrik í Norrköping. Ljósmynd: Nostalgia Magazine Nr. 5. 1995.

 

Í desember 1953 kom enn ný gerð, PV444H/HS, sem var talsvert breytt, m.a. með stærri framrúðum, þynnri gluggapóstum, heilli og stærri afturrúðu og nú stóð varahjólið upp á rönd hægra megin í farangursrýminu í stað þes að liggja flatt neðst. Nú var einnig fáanleg sérstök gerð sem einungis var ætluð til útflutnings, sú var ekki jafn vel búin og hinar gerðirnar og því ódýrari.

HLIÐARSPOR
Fram að þessu hafði Volvo haslað sér völl á markaðnum sem framleiðandi sterkra og endingargóðra bíla sem yfirleitt þóttu fremur lítið spennandi ef ekki beinlínis leiðinlegir. Það vakti því mikla furðu og athygli þegar sýnd voru 3 eintök af frísklegum sportbíl, Volvo P1900, í Svíþjóð haustið 1954. Bíllinn var með sömu 1,4 lítra vél og PV444 (B14A) en með tveimur blöndungum og ýmsum öðrum búnaði skilaði vélin 70 hö. Boddí bílsins, sem var 2ja dyra blæjubíll, var allt úr trejaplasti. Dekkin voru úr sérstöku gerfigúmi með trefjastyrkt strigalög og mátti fara yfir naglamottur án þess að loft læki úr þeim. Undirvagninn var sá sami og í PV444. Einungis 67 sportbílar af gerðinni P1900 voru framleiddir og voru þeir allir af árgerð 1955. (Sænski PV-klúbburinn hefur haft uppi á 41 af þessum 67 bílum og skráð þá en sumir þeirra eru í toppstandi).

P1900 var sérkennilegt hliðarspor. Einungis 67 bílar voru framleiddir. Þessi sportbíll með boddí úr trefjaplasti var gallagripur. Ástæðan var fyrst og fremst sú takmarkaða tækniþróun sem átt hafði sér stað á sviði trefjaplasts á þessum tíma. Bíllinn varð t.d. allt of þungur. Konan á myndinni er með ,,ökumannshjálm" sem Svíar ætluðu að lögleiða en hættu við skömmu eftir 1960 vegna þess að þeir urðu að athlægi með þennan pott á höfðinu utan Sví.jóðar. P1800, sem kom 1961, var betur heppnaður og nokkuð seigur sportbíll. Hann var þó ekki gallalaus, þótti bæði óþægilegur, stirður og hávær. En útlitið var töff. Ljósmynd: Nostalgia Magazine Nr. 4. 1994

 

Ýmsar kenningar hafa verið settar fram um ástæður þess að Volvo framleiddi þessa 67 sérkennilegu bíla og sennilega fleiri kenningar um ástæður þess að það hætti framleiðslu þeirra. Þó er vitað að bíllinn var gallaður; boddíið var allt of þungt og alls konar rafmagnsvandamál fylgdu trefjaplastinu.

ARFTAKINN BIRTIST
Árið 1955 byrjar Volvo að kynna PV444 í Bandaríkjunum. Þótti mörgum það álíka vænlegt til árangurs og að reyna að selja eskimóum ísskápa. En þrátt fyrir hrakspár seldist Volvo PV444 jafnt og bítandi í Bandaríkjunum hvort sem það hefur verið vegna lagsins, stærðarinnar, sparneytninnar, aksturseiginleikanna eða alls þessa. Eftir að PV444 hafði verið sýndur á ,,New York Motor Show" vorið 1956 fór að færast líf í söluna þar vestra og síðla sumars hafði Volvo komið sér upp neti með fleiri en 100 sölu- og þjónustuumboðum í helstu borgum Bandaríkjanna. Snemma árs 1956 var 100 þúsundasti PV444 framleiddur.

Í samanburði við aksturseiginleika annarra bíla á þessum tíma stóð Volvoinn ágætlega að vígi. Sjálfstæð gormafjöðrun að framan var nánast sama hönnun og á Jaguar um og eftir 1950. Að aftan var PV444 með heila hásingu og gormafjöðrun á sama tíma og flestir breskir og bandarískir bílar voru með blaðfjaðrir. Á þessum tíma var Volvo ekki farið að leggja sérstaka áherslu á að gæða bílinn sportlegum aksturseiginleikum; það kom seinna.

Á árinu 1956 kynnti Volvo nýjan 4ra dyra fólksbíl, nokkru stærri en PV444 og mun nýtískulegri. Sá bíll nefndist Amazon í Skandinavíu en Volvo 120 og 120S annars staðar vegna þess að Amazon var skráð vöruheiti þýsks fyrirtækis. Fyrsti Amazoninn, en framleiðsla hans hófst ekki fyrr árið 1957, var með 1,6 lítra 4ra strokka 60 ha vél sem átti brátt eftir að koma við sögu PV-bílsins. Til að girða fyrir misskilning skal það tekið fram að Amazon átti ekkert sameiginlegt með PV 544 annað en framleiðandann og vélbúnaðinn - hönnunin var allt önnur.

FORDÓMAR?
Einn helsti ókostur PV444 þótti að hann fékkst einungis 2ja dyra. Um útlitið hafa áreiðanlega verið skiptar skoðanir. Á 6. áratugnum heyrðust þær raddir að PV444 væri gamaldags og minnti á Ford '42-'48. Á 7. áratugnum breyttist viðmótið, þá þótti mörgum bíllinn ,,þræltöff" með straumlínulaga afturhlutanum enda höfðu aksturseiginleikar hans batnað enn og vélaraflið verið aukið.

Hérlendis var grunnt á fordómum gagnvart Volvo um og upp úr 1955. Kynni Íslendinga af Svíum voru merkilega lítil á þeim tíma og jafnvel síðar og ekki útilokað að því væri slegið föstu að sænskur bíll hlyti að vera hálf púkalegur ef ekki lélegur. Lélegir og vondir vegir hafa varla valdið vantrú á Volvo því hér var mikið af breskum bílum fram yfir 1960, bílum sem engum erlendis þótti taka Volvo PV444 fram í einu né neinu og voru ekki jafn stekbyggðir. Hins vegar man höfundur vel að um 1955 þóttu 2ja dyra bílar ekki jafn eftirsóknarverðir og 4ra dyra og kann það að hafa átt sinn þátt í takmörkuðum áhuga fyrir PV444. En þessir bílar unnu á - um 1970 efuðust fáir hérlendis um gæði Volvo-fólksbíla

Amazon, sem fyrst um sinn var einungis framleiddur 4ra dyra, þótti því betri kostur en PV444 og ef til vill á það stærsta þáttinn í því hve vel gekk að selja Íslendingum Amazon sem var auk þess nýtískulegur bíll í útliti.

Volvo Amazon, sem kom fyrst sem árgerð 1956 og síðast sem árgerð 1970 þótti velheppnaður bíll. Hann var metsölubíll í Skandinavíu ár eftir ár og hoonum bregður enn fyrir á götunum bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum og áhuagamenn hafa myndað um hann klúbba í flestum löndum Evrópu. Ljósmynd: Bíllinn/Kristján Einarsson.

 

VERULEGAR BREYTINGAR
Á árinu 1956 kom 3ja gerðin af Duett, PV445H, stationbíll með hliðargluggum, aftursæti og fullklæddur að innan. Ári síðar er árgerð 1957 af PV444 komin með sömu B16-vél og Amazon, grillinu var breytt, í stað láréttu rimanna var komið krómað net og gullið V-merki í því miðju.

Mesta breytingin frá upphafi kom með árgerð 1958. Þá breytist einnig tegundareinkennið í PV544. Nú hvarf V-merkið úr grillinu sem fékk nýjan ramma og þéttriðnara krómað net. Framrúðan var nú án pósts, hvelfd og mun stærri. Afturrúðan var einnig stærri en á fyrri árgerð. Afturljósin voru mun stærri og mælaborðið nýtískulegra, m.a. með sams konar láréttan hraðamæli og í Amazon. PV544 var fáanlegur í 4 mismunandi útfærslum með mismunandi vélum og búnaði. Undirvagninn hafði verið talsvert endurbættur, fjöðrunin gerð stífari, sem m.a. gaf bílnum sportlegri aksturseiginleika sem einungis var að finna í breskum og ítölskum sportbílum á þessum tíma. Á þessum tíma og fram að árgerð 1961 var PV444 og 544 með B16 vélina, 60 hö í ódýrari gerðinni en 76 í þeirri dýrari (Sport), sem m.a. var með tveimur SU blöndungum. Ódýrari gerð var með 3ja gíra kassa en sú dýrari með 4ra gíra.

Árgerð 1959 af PV544 og Amazon voru búnar þriggja punkta bílbeltum og voru meðal fyrstu bíla sem höfðu bílbelti innifalin í verði. En PV544 hafði ýmsa aðra kosti sem fáir aðrir bílar höfðu á þessum tíma. Fyrst má nefna að húddið opnaðist upp að aftanverðu og var fellt fram. Með þessu móti var auðveldara að komast að til viðhalds- og viðgerða. PV544 var einnig útbúinn framstólum sem mátti fella aftur þannig að hægt var að sofa í bílnum (hafði reyndar verið þannig búinn frá 1947). Volvo bauð jafnvel uppá sérstakan aukabúnað sem gerði sætin þægilegri til að sofa á. Þá er ónefnt að hægt var að fella aftursætisbakið fram þannig að op myndaðist inn í farþegarýmið og þannig hægt að flytja skíði og aðra langa hluti í bílnum með skottlokið aftur. Að þessu leyti hefur Volvo verið á undan flestum öðrum framleiðendum.

Á alþjóðlegri bílasýningu sem haldin var í janúar 1960 í Brussel kynnti Volvo nýjan sportbíl, P1800, tveggja sæta lokaðan bíl með nýrri 4ra strokka 100 ha vél, B18B, - vél sem átti eftir að koma meira við sögu. Fyrstu P1800 bílarnir voru af árgerð 1961 og voru þeir, fyrstu árin, framleiddir fyrir Volvo í Englandi hjá Jensen Motors Ltd. í West Bromwich en það fyrirtæki framleiddi einnig boddí stóra Jensen - (Austin) Healey sportbílsins. P1800 varð m.a. þekktur sem bíll ,,Dýrðlingsins" Simon Templars sem Roger Moore lék á sínum tíma en í myndunum bar bíllinn skráningarnúmerið ST1.

Árgerð 1960 af PV544 og Amazon kom með nýjum alsamhæfðum 4ra gíra kassa (M40) sem er talinn einn rambyggðasti gírkassi sem sést hefur í fólksbílum. Bólstrun stóla og aftursætis var endurbætt, m.a. til að skapa meira hnjárými fyrir farþega. Þetta ár fékk Duett sömu stóru hvelfdu framrúðuna og PV544 hafði fengið 1958, nýjan gírkassa, nýtt mælaborð og þriggja punkta bílbelti. 1960 var jafnframt síðasta árgerðin sem sá nefndist Duett því upp frá því hét sendi/stationbíllinn P210. Heildarframleiðsla Volvo 1960 var um 80 þúsund bílar.

B18-VÉLIN
Árið 1961 varð sú breyting á PV544 sem gerði hann, að margra dómi, einstakan í flokki smærri fólksbíla. Sú breyting var nýja B18 vélin; 1,8 lítra 4ra strokka toppventlavél með 5 höfuðlegum (í stað 4ra í B16) sem ekki einungis var öflugri en flestar aðrar vélar af svipaðri stærð heldur einnig sparneytnari. B18 vélin er jafnframt talin ein sterkasta 4ra strokka bílvélin fyrr og síðar. Sportgerðin af PV544 með B18, með 2 SU blöndungum, var 90 hö (SAE) og gerði bílinn svo snarann í snúningum að einungis mun stærri bílar höfðu við honum. Ódýrari gerðin var með B18A en sú vél var 75 hö (SAE) með einn blöndung.

Fram að þessu hafði PV544 og Duett verið með 6 volta rafkerfi. Nú var breytt yfir í 12 volt. Nýir litir voru í boði svo sem ljósbrúnn, fölgrænn, eldrauður, gráblár og ljósgrár. Þetta ár, í október 1961, kom fyrsti 2ja dyra Amazon. Þeir voru skráðir sem 1962 árgerð og tegundarheitið var Amazon 121, einungis seldir í Svíþjóð, Noregi og Danmörku til að byrja með.

Í Sviþjóð er Volvo PV uppistaða í gríðarlega þróttmiklu félagsstarfi sem skipulagt er af Svenska PV-klubben með sumarmótum um alla Svíþjóð þar sem fjölskyldur á Volvo PV og Duett koma saman og skemmta sér. Sumarmót PV-klúbbsins eru styrkt af sveitarfélögum enda draga þau ferðamenn að sem sækja söfn, fara í skipulagðar kynnisferðir o.s.frv. Hin hliðin á Volvo PV snýr að akstursíþróttum en PV er mjög vinsæll rallycross-bíll á meðal yngri kynslóðarinnar. Vegna þess hve PV er sterkur og fletur gjarnan út nýrri smábíla er keppt á honum í sérstökum flokki.

 

Síðustu 3 árin sem PV544 var framleiddur var lítið um breytingar enda aðaláherslan lögð á Amazon sem 1962 fékkst fyrst sem 4ra dyra Station með B18A vélinni og 4ra gíra kassa. 1963 kom sportbíllinn P1800 með vélinni B18B Type 2 sem gaf 108 hö við 5800 sn/mín. Aflaukningin var fengin með því að hækka þjöppunarhlutfallið í 10:1. Amazon var nú á dekkjum með lægri prófíl en bæði PV544 og Amazon voru áfram með 15" felgur. Árið 1963 setti Volvo upp samsetningarverksmiðju í Halifax á Nova Scotia í Kanada. Þangað voru bílar sendir ósamsettir frá Svíþjóð. Volvo var þetta ár komið í 4. sæti á lista yfir þá innfluttu bíla sem mest seldust í Bandaríkjunum.

Engar breytingar urðu á árgerð 1964 af PV544 en í ágúst 1965 voru kynntar minniháttar breytingar á síðustu bílunum, G-seríunni af PV544 en 3400 slíkir voru framleiddir fram að 20 október þegar framleiðslu bílsins var hætt. Bílarnir í G-seríunni voru með 5 hö öflugri vél (95 hö) og betur bólstruðum framstólum. Þess má geta hér að eyðslumælingar á vegum ýmissa bílatímarita gáfu til kynna að PV544 eyddi 8,4 l á 100 km að meðaltali. Samkvæmt upplýsingum Volvo voru 440 þúsund PV444/544 framleiddir; 280 þúsund fóru á innanlandsmarkað í Svíþjóð en 160 þúsund voru fluttir út til annarra landa.

Einn kafla í sögu Volvo PV 544 (og reyndar einnig Amazon) mætti skrifa margar greinar um en það er frammistaða bílanna í alþjóðlegum rallaksturskeppnum en á 15 ára tímabili var Volvo bíll næstum undantekningarlaust í einhverju af efstu sætunum í þekktustu rallkeppnum sem haldnar voru um víða veröld.

Þá má geta þess að klúbbar áhugamanna um PV og Amazon eru starfandi í fjölmörgum löndum, þeir öflugustu í Svíþjóð. Hérlendis eru margir Amazon og nokkrir PV á skrá, sumir í góðu ástandi. Greinarhöfundur á tvo PV544 og einn Amazon en þeir bílar eru á mismunandi stigum endurbyggingar.

Vefsíða sænska PV-klúbbsins er http://www.pv-klubben.org

Netfang höfundar

Fleiri greinar um merkilega bíla

Aftur á forsíðu

Heimildir:
,,Volvo 1927-1990". Volvo Car Corp. Public Relations & Public Affairs. Gautaborg 1990.

,,Volvo PV444 & PV544 1945-1965". Brooklands Books Ltd. Surrey 1992.

,,PV Entusiasten" Nr.2. 1990. Svenska Volvo PV-klubben. Älvsö.

Ljósmyndir með þessari grein, sem ekki eru sérstaklega merktar, eru fengnar frá Volvo Historiska Arkiv í Gautaborg.