VAGNBREMSUR: STUTT YFIRLIT

Vefsíða Leós
Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur©
Júlí 2009.

Hjólhýsi, fellihýsi, tjaldvagnar, hestaflutningavagnar og annað eftirdrag, sem vegur með farmi meira en 750 kg, þarf að vera með eigin bremsubúnað.

Í yfirlitsgrein minni um dráttarbúnað og vagna (www.leoemm.com/vagnar.htm) er eldri og nýrri bremsubúnaði lýst í aðalatriðum og því ekki farið nánar út í það hér.

Vagnar búnir rafknúnum bremsum hafa rafsegla (magnetur) í stað hjóldæla eins og eru í glussabremsum bíla. Rafbremsur vagns fá stýriboð frá sérstakri stjórneiningu sem á að koma fyrir í bílnum sem dregur (sjá skýringar hér neðar). Stjórneiningin er hönnuð til þess að vera í bílnum sem dregur en ekki í eftirvagninum, m.a. til að hægt sé að beita stillingu hennar til að tryggja hámarksvirkni vagnbremsa og öryggi eftirdrags.

Eins furðulegt og það kann að hljóma hefur Umferðarstofa gert þá kröfu að stjórneining vagnsbremsa skuli vera í eftirvagninum en ekki í bílnum (Upplýsingaskjal US 307). Þeir sem setja svona reglur virðast ekki hafa kynnt sér tæknilegar forsendur þessa búnaðar og er því krafan byggð á röngum forsendum og til þess fallin að auka vandræði bíleigenda og rýra umferðaröryggi. Reglan, sem skoðunarstöðvum er ætlað að framfylgja, er illa rökstudd. Frá hönnuðum þessa vagnbremsu-búnaðar er stjórneiningin t.d. búinn sleðarofa sem tekur fram fyrir hendur sjálfvirka rafeindapendúlsins (flóttaafls-skynjunarinnar), t.d. til að draga úr ýtni vagnsins þegar farið er niður stuttan bratta eða niður ramp og alveg fráleitt að ætlast til að fólk stöðvi og fari út úr bílnum og tjakki upp þak fellihýsis til að komast að sleðarofanum! Svo virðist sem ekki hafi verið tekið tillit til verklagsreglna við grunn- og fínstillingu stjórneiningar og samstillingu bremsa bíls og vagns, m.a. til að tryggja hámarksvirkni, jafna bremsun og til að tryggja sem lengsta endingu bremsubúnaðar bíls og vagns. Með stjórneininguna í vagninum er nánast ómögulegt að framkvæma stillinguna samkvæmt leiðbeiningum framleiðenda stjórneininganna. Þessari reglu ætti, að sjálfsögðu, að breyta sem fyrst þannig að stjórneiningin sé höfð í bílnum - áður en slys hljótast af vegna bremsulausra vagna!

Þessi reglaUmferðarstofu (Upplýsingaskjal US 307) hlýtur að vera byggð á misskilningi. Hún veldur óþarfa vandræðum hjá bíleigendum og starfsmönnum skoðunarstöðva. Með því að krefjast þess að stjórneiningin sé höfð í vagninum - en ekki í bílnum á meðal annarra stjórntækja, - þarf að leita hana uppi (hún getur verið á ólíklegustu stöðum í innréttingunni í vagninum) til að stilla hana á móti bremsukerfi bílsins. Meðan stjórneiningin er höfð á röngum stað verður slysahætta í umferðinni meiri en hún þyrfti að vera. Reglunni þarf því að breyta sem fyrst.

Stjórneiningar vagnbremsa eru tvenns konar: Annars vegar er stjórneining með rafeindabúnaði sem seinkar stýriboði þegar stigið er á bremsu (Time Delayed Brake Controller). Hins vegar er stjórneining sem búin er svokölluðum rafeindapendúl sem nemur flóttaafl bíls/vagns og stjórnar bremsum vagnsins í hlutfalli við það (Proportional Brake Controller). Síðarnefnda stjórneiningin, er algengust. Þótt hún sé dýrari eru kostir hennar ótvírætt meiri, m.a. eykur hún öryggi og jafnar sliti á bremsubúnaði sem endist því mun betur, bæði á vagni og bíl. Stýristraumur stjórneiningarinnar kemur frá bremsuljósarofa bílsins. Um leið og stigið er á bremsuna og bremsuljósin lýsa fær stjórneiningin boð og rafeindapendúllinn í henni nemur hve mikið er dregið úr hraða og beitir vagnbremsunum í sama hlutfalli (sé búnaðurinn rétt stilltur).

Ég fjalla því einungis um flóttaafls-stórneininguna. Í sérstakri grein (www.leoemm.com/vagnar_stjórn.htm) er fjallað um grunn- og fínstillingu algengustu gerðar flóttaafls-stýringar sem er Voyager 9030 og 9035 frá TEKONSA.

Eftir ísetningu og tengingu, sem er mismunandi eftir tegund bíls, þarf að stilla stjórneininguna þannig að bremsur vagnsins virki á viðunandi hátt. Vagnarnir eru skoðunarskyldir við skráningu og algengt að þeim sé vísað frá vegna ófullnægjandi bremsubúnaðar - oftast vegna þess að stjórneiningu vantar, hún óvirk eða rangt stillt. Aðgengilegar upplýsingar á íslensku eru á Vefsíðu Leós. Þær eiga að gera verkstæðum og eigendum vagna kleift að ganga þannig frá þessum búnaði að tryggt sé að hann fái skráningu án athugasemda.

TENGIMYNDIR
Eins og gildir um ýmislegt annað virðist ekki hafa tekist að samhæfa staðaltengingar fyrir stjórneiningu rafknúinna vagnbremsa, hvorki á milli Bandaríkjanna og Evrópu né á milli helstu bílaframleiðenda.

Fyrir þá bíla sem algengastir eru á bandaríska markaðnum (og jafnframt hérlendis) eru upplýsingar um tengingu stjórneiningar (tengimynd og litmerking leiðslna fyrir mismunandi bíla) á Vefsíðu Leós og á bandarísku vefsíðunni www.etrailer.com

VARAHLUTIR
Þótt rétt stilling sé mikilvægt atriði og röng stilling stjórneiningar sé oft ástæða þess að eftirvagnar eru bremulausir skyldi ekki gleyma þeirri staðreynd að bremsubúnaður vagna slitnar og bilar eins og aðrir slithlutir. Í það minnsta eitt fyrirtæki, Stál og stansar ehf. á Vagnhöfða í Reykjavík, hefur sérhæft sig í varahlutaþjónustu fyrir bremsur og annan búnað eftirvagna.

Leiðbeiningar um uppsetningu, tengingu og stillingu stjórneiningar

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar