Leó M. Jónsson iðnaðar- og vélatæknifræðingur:
Þessi grein er yfirfarin og uppfærð í júní 2009.
© Leó M. Jónsson.

Allt sem þú þarft að vita um eftirvagna og dráttarbúnað


Skráning
Eftirvagn má einungis draga með bíl sem hefur löglegan dráttarbúnað. Til að dráttarbúnaður sé löglegur þarf hann að vera skráður sem þýðir að gerð hans, ísetning og ástand hefur verið tekið út af skoðunarstöð og er leyfileg hámarksþyngd eftirvagns (vagn + farmur) gefin upp í skráningarskírteini1).

Íslensk lög og reglugerðir sem fjalla um vagna og dráttarbúnað eru: Reglur um tengingu og drátt ökutækja, nr. 394/1992. Reglugerð 822/2004 um gerð og búnað ökutækja og Umferðarlög nr. 50/1997. (Skjölin má sækja á www.us.is (Reglugerðarbrunnur) og á vefsíðum Dómsmálaráðuneytis (www.stjornarrad.is) og Alþingis, www.althingi.is).

Þegar þyngri vagn er dreginn með sjálfskiptum bíl sem ekki er búinn sérstöku dráttarprógrammi skal hafa sjálskiptinguna þannig stillta að hún fari ekki í yfirgír. Ýmist er það gert með hnappi á eða við valstöng og lýsir þá ljós í borðinu eða með því að velja gírstöðu þannig að skiptingin fari ekki sjálfkrafa í hæsta gír (yfirgír). Þetta er öryggisráðstöfun sem gegnir tvennu hlutverki: Annars vegar hlífir hún sjálfskiptingunni og kemur í veg fyrir að vökvi á henni yfirhitni og hins vegar tryggir hún hraðvirkara viðbragð þegar rétta þarf vagninn í rásinni komi á hann hlykkur. Eyðsla minnkar frekar en eykst við þessa öryggisráðstöfun þar sem snúningshraði vélarinnar, undir álagi, verður á því sviði þar sem togið er mest. Ath. Leyfilegur hámarkshraði bíls með eftirvagn er 80 km/klst (ekki 90)!

Leyfileg þyngd vagns
Með leyfilegri þyngd eftirvagns í skráningarskírteini er átt við hámarksþyngd vagns, þ.e. vagn + farmur, sem viðkomandi bíll má draga. Gefin er upp leyfileg þyngd vagns með bremsum (hærri talan) og vagns sem ekki er búinn bremsum (lægri talan).

Þótt eftirvagn, sem slíkur, kunni að vera skráður með meira burðarþol (leyfileg mesta þyngd vagns og farms) en sem nemur dráttargetu viðkomandi bíls, gildir skráningarskírteini bílsins, þ.e. vagninn má ekki vera þyngri (meira hlaðinn) en sem nemur uppgefinni dráttargetu bílsins.

IB á Selfossi hefur flutt inn og selt stærsta hluta nýrra amerískra pallbíla undanfarin ár. Starfsmenn IB hafa langa reynslu í að velja bíla með þá dráttargetu sem viðkomandi kaupandi þarf og þar með bíl af hagkvæmaustu gerð og með réttum búnaði. Myndin er af fyrsta nýja Hummer-bílnum frá IB en innflutningur þeirra hófst snemma á árinu 2006.

Hvað ræður dráttargetu bíls?
Dráttargeta er gefin upp af framleiðanda bíls2) fyrir hverja tegund og gerð og gildir um hámarksþyngd eftirvagns3). Almenna reglan í Evrópu7) er sú að geta fólksbíla til að draga vagn, sem ekki er búinn bremsum, sé aldrei meiri en 50% af eiginþyngd bíls. Almenna reglan í Evrópu er einnig sú að dráttargeta fólksbíls sé aldrei meiri en sem nemur 3.500 kg (vagn + hleðsla).

Sem dæmi ræðst dráttargeta pallbíls af mörgum þáttum og sumum samverkandi. Eftirfarandi þættir, sem vega mismunandi þungt, ráða dráttargetu pallbíls:

Bygging: Burðarþolsflokkun, þ.e. ,,hálfs tonns", ,,þrír fjórðu tonns" eða ,,eins tonns".

Vélargerð: Sé pallbíll fáanlegur með mismunandi vélum má gera ráð fyrir að bíll með stærstu vélinni (slagrými) sé með mesta dráttargetu. Bíll með dísilvél er yfirleitt með meiri dráttargetu en sams konar bíll með bensínvél.

Gírbúnaður: Þegar bandarískir pallbílar eru annars vegar hefur sjálfskiptur bíll, að öðru jöfnu, meiri dráttargetu en handskiptur. (Þessu er yfirleitt öfugt farið þegar um er að ræða fólksbíla á evrópska markaðnum - enda eru sjálfskiptingar þar fremur undantekning en regla, öfugt við það sem er í Bandaríkjunum). Bandarískir pallbílar eru sumir með sérstakt tölvforrit fyrir sjálfskiptingu sem kemur í veg fyrir að þungur dráttur geti valdið yfirálagi (,,Towing program"). Slíkur búnaður eykur dráttargetu bíls.

Afturhjólabúnaður: Pallbílar með tvöföld afturhjól hafa undantekningarlaust meiri burðargetu en þeir sem eru með einföld afturhjól. Aukin burðargeta með tvöföldum afturhjólum þýðir þó ekki nema í undantekningartilfellum að dráttargeta aukist. Hins vegar auka tvöföld afturhjól og dráttarstóll saman dráttargetu.

Drifbúnaður: Veggrip ræður dráttargetu. Þess vegna er fjórhjóladrifinn bíll með meiri dráttargetu en sams konar bíll með drif á tveimur hjólum. Af sömu ástæðu getur bíll með sítengt aldrif haft meiri dráttargetu en sá sem er með hlutadrif. Og jafnframt getur sams konar bíll, með sama vélbúnaði, haft meiri dráttargetu sé hann búinn tveggja þrepa millidrifi í stað eins þreps, þ.e. með háu og lágu drifi.

Drifhlutfall: Dráttargeta bíls, ekki síst fjórhjóladrifsbíls, ræðst af niðurgírun í hásingum, .þ.e. drifhlutfalli. Oft er innifalið í svokölluðum ,,dráttarpakka" lægra drifhlutfall (hærri tala).

Hjólhaf: Lengd á milli fram- og afturhásingar hefur áhrif á viðbrögð bíls við tog- og ýtikrafti frá þungum vagni. Af því leiðir að bíll með meira hjólhaf hefur meiri skráða dráttargetu en sams konar bíll sem styttri er á milli hjóla.

Fjöðrun: Bíll með stinna fjöðrun hefur meira burðarþol en sams konar bíll með mjúka fjöðrun9). Sams konar bíll með stinnari fjöðrun er undantekningarlaust með meiri dráttargetu. Það er þó ekki einungis vegna þess að burðarþolið sé meira heldur vegna þess að stinnar fjaðrir gera það að verkum að bíll sígur ekki jafn mikið að aftan vegna tungufargs: Hastari bíllinn dreifir þunganum af vagninum jafnar = meiri dráttargeta. Hæð bíls frá jörðu (fríhæð) getur einnig haft áhrif á dráttargetu, lágur bíll hefur minni dráttargetu en sá sem er hærri á fjöðrunum.

Yfirvagn og palllengd: Pallbíll með 5 manna húsi (t.d. CrewCab) hefur, að öðru jöfnu, minni dráttargetu en pallbíll með styttra húsi (t.d. RegularCab). Á sama hátt má gera ráð fyrir að lengri pallur sé ávísun á meiri dráttargetu en styttri pallur hjá sams konar bíl með sams konar húsi.

Hengibúnaður bíls/vagns: Pallbíll með dráttarstól fyrir ,,fimmta hjólið" eða fyrir ,,gæsarháls" er með meiri dráttargetu en sams konar pallbíll með venjulegt afturhengi.

Fleiri atriði eru tekin með í reikninginn við útreikning og ákvörðun dráttargetu þótt þau verði ekki talin upp hér. Þeir sem þurfa að draga vagna, sem vega hlaðnir 4-5 tonn eða jafnvel meira, eiga ekki hagkvæmari kosta völ en bandarísks pallbíls frá GM, Ford eða Chrysler. Þegar um er að ræða svo þungan drátt dugar ,,þrír fjórðu" tonns pallbíll varla en vænlegasti kosturinn verður ,,eins tons" pallbíll, þ.e. af gerð 3500/F-350.

Aftaníhengi með átaksmiðlun (í flokki IV) fyrir allt að 3.400 kg (7500 lbs í USA) en 3500 kg í Evrópu)*. Hengið er gert fyrir 2" tengilegg sem rennt er í ferningslaga tengistútinn.

Aftaníhengi í flokki III/IV sem fellt er inn í þrepstuðara. Þessi kúla er 2".
* US og Br. Lbs. = 0,453 592 37 kg en í Evrópu er algengt að reikna pund sem hálft kg.

Tungufarg
Bílaframleiðandi tiltekur leyfilegt lóðrétt hámarksfarg, þ.e. tungufarg vagns, sem má hvíla á dráttarkúlu hengis.

Flokkun vagna
Eftirvagnar flokkast á eftirfarandi hátt4):
I Vagn með leyfða heildarþyngd 750 kg eða minna.
II Vagn með leyfða heildarþyngd 3.500 kg eða minna.
III Vagn með leyfða heildarþyngd meiri en 3.500 en mest 10.000 kg.
IV Vagn með leyfða heildarþyngd meiri en 10.000 kg.

Vagnar í flokkum II, III og IV verða að vera með akstursbremsum og stöðubremsu.

Bremsubúnaður vagna
Evrópskir vagnar sem vega óhlaðnir meira en 750 kg og bandarískir sem vega meira en 454 kg (1.000 lb) eru yfirleitt búnir bremsum. Algengasti bremsubúnaður vagna er núorðið rafknúinn.

Á elstu gerðum vagna er bremsuálagi vökvabremsa stýrt með nema sem er innbyggður í kúlutengið á beisli vagnsins. Þegar bremsu bílsins er beitt ýtir vagninn á nemann í kúlutengi beislisins sem stýrir bremsun vagnhjólanna í hlutfalli við bremsun bílsins. Ýtibremsur geta verið knúnar með teinum/börkum/strengjum eða vökva. Þær eru sjálfstæður búnaður, sem virkar án annarrar stýringar frá bílnum en með þrýstiálagi á nemann í dráttarbeislinu, og þurfa að vera rétt stilltar. Enn er talsvert af vögnum með strengjaknúnum bremsum, t.d. bílaflutningsvagnar.

Rafknúnum vökvabremsum er stýrt með boðum frá bremsu- og rafkerfi bílsins. Í rafkerfi bíls er stjórnkassi fyrir bremsuboð vagns, oftast undir mælaborðinu, sem nemur þyngd ástigs á bremsupedal og beitir bremsum vagnsins í réttu hlutfalli eða með seinkun. Hlutfallsstýring er undantekningarlaust stillanleg eftir þyngd eftirvagns Í Ford pallbílum með ,,dráttarpakka", svo dæmi sé tekið, er stjórnkassinn með rás sem nemur læsingarvörn ABS-kerfisins og stýrir bremsuálagi vagnsins þannig að minni hætta er á að hjól hans læsist sé ABS-bremsum bílsins beitt kröftuglega.

Margir vagnar eru búnir sjálfvirkri bakkbremsu sem á að stöðva bílinn sé vagninum bakkað á fyrirstöðu. Flestir vagnar með bremsukerfi eru búnir öryggisrofa og rafhlöðu sem beitir bremsum vagnsins slitni hann aftan úr eða þegar hann er kyrrstæður. Sá búnaður virkar sjálfvirkt um leið og kerrutengill er aftengdur.

Dráttarhengi jeppa/pallbíla
Dráttarhengi jeppa og vinnubíla eru af 2 gerðum:
A. Dráttarhengi sem bera farg (á ensku ,,Weight carrying hitches").
B. Dráttarhengi sem jafna/dreifa fargi (á ensku ,,Weight distributing hitches").

Í Bandaríkjunum eru dráttarhengi eru flokkuð á eftirfarandi hátt5).

Hengi I: Fyrir eftirvagna sem vega allt að 907 kg (2000 lb) með farmi6) og tungufarg innan við 91 kg. (200 lb). Hengi í flokki I er fest á afturstuðara.

Hengi II: Fyrir eftirvagna sem vega allt að 1.587 kg (3500 lb) með farmi og tungufarg innan við 159 kg. (350 lb). Hengi í flokki II er fest í grind bíls eða bæði í grind og afturstuðara en í seinna tilvikinu ber stuðarinn tungufargið en grindin dregur.

Hengi III: Fyrir eftirvagna sem vega með farmi allt að 2.268 kg (5000 lb) og tungufarg innan við 227 kg (500 lb). Hengi í flokki III er fest í grind bíls.

Hengi IV: Fyrir eftirvagna sem vega með farmi allt að 3.402 kg (7500 lb) og tungufarg innan við 453 kg (1000 lb). Hengi í flokki IV er fest í grind bíls.

Hengi V: Fyrir eftirvagna sem vega með farmi allt að 4.530 kg (10000 lb) og tungufarg innan við 544 kg (1200 lb). Hengi í flokki V er fest í grind bíls (aftanáhengi) eða sem dráttarstóll á palli ofan á hásingu.

Tengilegg er rennt í tengistútinn og fest með splitti. Kostur þessa búnaðar er sá að nota má fleiri en einn tengilegg með mismunandi lögun til að beisli sé í réttri hæð þannig að tungufarg sé í lágmarki. Jafnframt má venda leggnum og kúlunni til að breyta tengihæð. Á öllum beislum á að vera öryggiskeðja sem fest er í bílinn. Mikilvægt er að leggja keðjuna á misvíxl en með því móti hvílir beislistengið á keðjunni losni það upp af kúlunni í stað þess að skrapa veginn.

Mismunandi dráttartengi
Einfaldastu gerðum hengja er fest á stuðara vinnubíls (fl.I) og á stuðara og grind (fl. II). Hengi í fl. III, IV og V er fest í grindur. Til að sem jafnast átak komi á grindarkjálka er tengi fest í berandi þverslá.

Dráttartengi og kúlur geta verið af mismunandi gerð:

A. Ferstrendur stokkur, tengistútur, sem tengilegg er rennt inn í og fest með splitti. Tengileggur getur verið þannig formaður að honum megi snúa 180° og er þá kúlunni vent. Með því móti má breyta hæð kúlunnar sé þess þörf. Einnig má fá tengileggi fyrir mismunandi kúluhæð. Algengasti ferstrendi tengileggur er 2 tommur á kant (fyrir hengi í flokki III, IV og V en 2,5" fyrir háálags-hengi (HD) í flokki V).

B. Tengileggur sem er vinkilbeygt bolstál með kúlu á endanum. Tengleggnum er rennt inn í haldara á henginu og snúið ýmist 90 eða 180° og læst. Þegar ekki er þörf fyrir vagntengið má taka það úr og geyma í farangursrýminu. Jafnframt má fá tengilegg með mismunandi kúluhæð. Þessi gerð vagntengja er algeng á stærri fólksbílum, t.d. evrópskum7) og er stundum nefnt ,,falið tengi".

C. Tengileggur sem er fastur á hengi sem boljárn með áfastri kúlu, tengileggur sem festur er á hengi og tengileggur sem jafnframt er þverslá.

D. Tengi fyrir eða í formi dráttarstóls.

Dráttarkúlur
Í Evrópu er ein stöðluð dráttarkúla fyrir fólks- og vinnubíla. Þvermál hennar er 50 mm. Í Bandaríkjunum eru hins vegar notaðar mismunandi sverar kúlur eftir burðarþoli (flokki) dráttarhengja og er þvermál kúlunnar í tommumáli:
1 7/8" fyrir hengi I og II
2" fyrir hengi I og II
1 7/8" fyrir hengi III og IV
2" fyrir hengi III og IV
2 5/16" fyrir hengi III og IV
2 5/16" fyrir hengi V

Bandarísku kúlurnar eru með mismunandi sveran og langan háls eftir flokki hengis. Þar má fá sverustu kúluhálsa (fyrir hengi í flokki IV og V) með áskrúfaðri kúlu þannig að á hálsinn má nota kúlur með minna þvermáli sé sami bíll notaður til að draga léttari vagna. Einungis bandarískur dráttarbúnaður með og fyrir 2" kúlu er leyfður í Evrópu.

Raftenglar
Nýir fólksbílar á evrópska markaðnum eru nú komnir með 8-pinna raftengi fyrir vagn í stað eldri 7-pinna tengisins. Stærri pallbílar eru með 13- pinna tengi. Þau tengi eru fyrir 12 volt. Tengimynd fyrir 12 og 24ra volta kerrutengla ásamt lista yfir tengingar er í reglugerð 2/308-2003 en hana má nálgast á vefsíðu Umferðarstofu (www.us.is) undir ,,Upplýsingaskjöl" en skjalið er merkt US.314. Fólksbílar/jeppar: Breytingin frá eldra 7-pinna tenginu er sú að 8. pinnanum hefur verið bætt við ásamt fjöður. Sá búnaður er fyrir þokuljós, sem nú er skylda að hafa á bílum sem framleiddir eru eftir ákveðna dagsetningu og aftan á kerru/hjólhýsi (sjá www.us.is). Fjöðrin veldur því að þokuljósið kviknar ekki á bílnum þegar tengt er heldur flyst yfir á kerruna. Þessi tengimynd er frá Stillingu ehf. Tenging fleiri gerða tengla er sýnd á vefsíðu Wurth, bls. 262.

Afturljós á bandarískum bílum virka í flestum tilfellum öðru vísi en á evrópskum, japönskum og kóreönskum bílum, t.d. bremsuljósin. Til að 8-pinna DIN/ISO-kerrutengill virki eðlilega á bandarískum bíl þarf sérstakar ráðstafanir. Í sumum tilfellum má leysa málið með því að tengja bremsuljósin í kerrutengilinn þannig að þau fái stýristraum um straumloku frá bremsuljósarofanum og þarf þá að leggja aukaleiðslu frá henni (við bremsuljósarofann) að kerrutenglinum auk þess að útbúa tengingar fyrir straumlokuna. Í öðum tilfellum, t.d. ameríski Benz-jeppinn o.fl. eru afturljósin hluti af tölvustýrðu ljósakerfi og verður þá DIN/ISO-kerrutengill að vera tengdur með sérstöku leiðslukerfi til að ekki sé hætta á að tölvukerfi bílsins skemmist (sem getur orðið mjög alvarlegt og dýrt mál). Breyting ameríska 6-pinna kerrutengilsins á þeim bílum fyrir okkar staðal (skoðun) kostar talsvert (70 - 100 þús. kr. nú í júlí 2009). Að öðru leyti er bent á upplýsingar um bandaríska staðaltengla fyrir aftanívagna, bremsustýringar, aukabúnað og tengimyndir á www.wiringproducts.com, www.etrailer.com
og kerrutengill.htm Upplýsingar um grunn- og fínstillingu stjórneiningar fyrir rafknúnar vagnbremsur eru í sérstakri grein www.leoemm.com/vagnar_stjorn.htm Þá má nefna að sé réttur kerrutengill rétt tengdur á bakkskynjari að fara sjálfvirkt úr sambandi (hætta að pípa) sé eftirvagn á beislinu. (Virki búnaðurinn ekki svona á að vera hægt að aftengja bakkskynjarann (þar til lagfæring hefur farið fram) með því að fjarlægja öryggið. Sumir bílar eru með takka í mælaborðinu sem aftengir bakkskynjarann.

Fargjöfnun
Sumir bílaframleiðendur mæla með því að notaður sé fargjöfnunarbúnaður þegar eftirvagn vegur með farmi meira en 2.268 kg (5000 lb). (Hengi í flokki III, IV og/eða V). Búnaðurinn nefnist á ensku ,,weight-distributing hitch", skammstafað WD 8). Fargjöfnun (WD) er tvenns konar: Annars vegar er liðbúnaður sem tengist hengi bílsins og beisli eftirvagnsins með slám úr stáli (,,spring bars") en slárnar flytja og dreifa tungufargi eftirvagnsins á hjól bíls og vagns og er sá búnaður ætlaður fyrir vagna með einni eða fleiri hásingum og getur talist hengi í flokki III, IV eða V).

Hins vegar er dráttarstóll sem festur er á milli hjólskála á pallbíl en með honum leggst lóðrétt tungufarg vagns beint ofan á afturhásingu bílsins. Dráttarstóll flokkast alltaf sem hengi í flokki V.

Dráttarstóll er festur á pallinn á milli hjólskálanna. Tungufarg vagnsins lendir þá beint ofan á afturhásingu bíls. Dráttarstóll getur verið af mismunandi gerð, eins og myndir sýna, en þeir eiga það sameiginlegt að jafna farginu á milli hjóla vagns og bíls.

Tvenns konar fargjöfnunarbúnaður
! Athygli er vakin á því að skráð leyfileg þyngd eftirvagns þegar hún er skráð sem dráttargeta bíls, breytist ekki þótt notaður sé hengibúnaður sem jafnar/dreifir fargi. Dæmi: Sé mesta dráttargeta í skráningarskírteini bíls 4000 kg eykst hún ekki þótt notaður sé fargjöfnunarbúnaður. Á þessu eru þó undantekningar, t.d. þegar bíll er búinn dráttarstól.

Bandarískir bílaframleiðendur gefa núorðið upp meiri dráttargetu bíls að því tilskildu að notaður sé dráttarstóll til fargjöfnunar (,,Fifth wheel" eða ,,Gooseneck") og er dráttargetan með fargjöfnun þá gefin upp í tæknilýsingu og handbók viðkomandi bíls og sérstaklega tilgreind og skýrð í skráningarskírteini og á límmiða í dyrakarmi (bílstjóramegin).

Fargjöfnun með dráttarstól getur verið tvenns konar: Annars vegar er dráttarstóll með tengilás (á ensku ,,fifth wheel") en hins vegar dráttarstóll fyrir gæsarháls (á ensku ,,gooseneck") en þá er kúlan á dráttarstólnum. Munurinn er m.a. sá að auðveldara er að tengja vagn þegar dráttarstóll er fyrir ,,fifth wheel" en þá er auðvelt að hengja vagninn á með því að bakka bílnum á beislið. Kosturinn við gæsarháls er m.a. sá að nýta má pallinn jafnframt til flutnings þegar vagn er dreginn en ókostur m.a. sá að gæsarháls verður varla hengdur á stól án aðstoðarmanns.

Það gefur augaleið að tungufarg stærri eftirvagns sem hvílir á venjulegu hengi bíls, jafnvel þótt það sé innan leyfilegs hámarks, skerðir aksturseiginleika og öryggi bílsins. Ójöfn dreifing þungans á milli aftur- og framhjóla bílsins minnkar veggrip framhjóla sem dregur úr rásfestu og rýrir stýris- og bremsuviðbrögð. Fargjöfnunarbúnaður með venjulegu aftaníhengi virkar á svipaðan hátt og jafnvægisslá í fjaðrabúnaði bíls; en jafnvægissláin færir farg á milli hjóla sömu hásingar þegar bíll leggst á hjól í beygju. Með spennuslám má flytja tungufarg eftirvagns frá dráttarkúlu þannig að það jafnist á hjól bíls og vagns. (Þessa fargjöfnun má einnig framkvæma með beisli sem búið er snerilbremsu á kúlutenginu í stað slánna).

Þessi dráttarstóll, sem er fyrir gæsarháls (goosneck), er þannig útfærður að hann má festa í grind bíls undir pallgólfinu þannig að einungis kúlan stendur upp úr. Kúluna má skrúfa af og nýtist þá pallurinn til flutnings eins og enginn dráttarstóll væri til staðar. Þessi kostur er ekki í boði þegar um ,,fimmta hjóls- dráttarstól" er að ræða. Dráttarstóll fyrir ,,fimmta-hjóls-beisli". Kosturinn er sá að bakka má bílnum á beislið og tengja vagninn án aðstoðar. Ókostur er m.a. sá að pallurinn nýtist verr en ella til flutnings. Hér er kúlan á beislinu. Fá má búnað sem gerir kleift að nota dráttarstól fyrir báðar útfærslurnar.

 

Fargjöfnunarbúnaður eins og þessi á myndinni flytur tungufargið af kúlunni og afur eftir beislinu með slánum. Með þessum búnaði má draga þyngri vagna og draga úr áhrifum þungans á hreyfingar bíls. Búnaðurinn jafnar farginu á hjól bíls og vagns. Þeir sem komnir eru upp á lag með að nota þennan búnað skilja hann eftir á beisli vagnsins en nota annan tengilegg til að draga léttari vagna.

Tengilegg, með kúlu og festingum fyrir slárnar, er rennt í tengistút á hengi bílsins og læst föstum. Slárnar eru festar í tengilegginn. Þegar beislið er lagt/fest á kúluna þrýstast afturendar slánna niður og nema við jörð. Þær eru spenntar upp með vogarstöng (sem fylgir) og afturenda þeirra ýmist fest á beislið með keðjum eða látnir hvíla á L-laga sæti á klemmunum á beislinu. Spenna slánna er stillt með því að lengja eða stytta í keðjunum eða með því að færa til L-sætið á klemmunni, upp eða niður. Búnaðinn þarf ekki að stilla nema einu sinni fyrir ákveðinn eftirvagn með sama farmi (t.d. 2ja hesta vagn).

Þumalfingursreglan er sú að slárnar séu rétt stilltar þegar bíll lækkar ekki meira á fjöðrum, með hlaðinn vagn, en sem nemur því að ekki sé meiri mismunur en 2,5 sm á hæð upp á brettakant að framan og aftan. Auk þess að jafna tungufargi á hjól vagns og bíls gegna slárnar, sem leika á lóðréttum boltum fyrir neðan kúluna, því hlutverki að auka stöðugleika vagns í beygjum.

Þeir sem eru vanir að draga þunga vagna og hafa reynt þennan fargjöfnunarbúnað fara ekki í grafgötur um gildi hans. Sé notaður fleiri en einn vagn, t.d. léttari vagn, má losa fargjöfnunarbúnaðinn með tengilegg/kúlu úr hengi bílsins (þegar slánum hefur verið slakað niður) og láta hann fylgja vagninum. Þá er öðrum (venjulegum) tengilegg með kúlu rennt í hengið og notaður þegar dreginn er léttari vagn.

 

Fargjöfnunartenginu er rennt í tengistútinn á hengi bílsins. Um leið og beislið er tengt kúlunni spennast slárnar niður undan þunganum. Þær eru vegnar upp á stall á klemmunum á beislinu með vogarstöng (fylgir) og læst með splitti. Klemmurnar eru stilltar lóðrétt eftir þunga vagnsins. Slárnar leika á lóðréttum boltum á tenginu. Á myndinni sést hvernig liðirnir eyða fyrirstöðu þegar beygt er.

Endurbætur á fjöðrun vagna fyrir íslenska vegi
Stórir vagnar, fellihýsi o.fl. sem vega um og yfir 1000 kg, geta verið hættuleg á íslenskum vegum og við okkar veðurfar. Fjaðrabúnaður, sem þykir viðunandi víða erlendis, hefur sýnt sig vera ófullkominn hérlendis ef ekki beinlínis hættulegur. Hægt er að bæta úr þessu með loftpúðafjöðrun sem gerir vagninn mun öruggari í drætti auk þess að fara betur með hann. Sett eru til fyrir mismunandi stóra vagna, bæði vagna með sjálfstæðri armafjöðrun og með stífum öxli. Þau kosta um 200 þús. kr. og hafa m.a. fengist hjá Arctic Trucks sem jafnframt annast ísetningu. Loftpúðafjöðrunin hækkar fríhæð vagnsins. Með henni fylgir 12 volta loftdæla. Þegar komið er á áfangastað má hleypa úr fjöðruninni þannig að gólfhæð vagnsins verði sem þægilegust. Áður en haldið er af stað á ný er dælt í loftpúðana.
1. Skipta má 4-6 manna bílum í tvo aðalflokka, annars vegar fólksbíla og hins vegar jeppa/palljeppa. Vegna mismunandi byggingar/notkunar eru fólksbílar misjafnlega hentugir/öruggir til að draga vagna og því skiptir máli að dráttarbúnaður þeirra sé af réttri gerð og honum fest í samræmi við tilmæli bílaframleiðanda og í samræmi við öryggiskröfur. Úttekt skoðunarstöðvar á að staðfesta að svo sé. Sé bíll með dráttarbúnað en leyfileg þyngd eftirvagns ekki uppgefin í skráningarskírteini má gera ráð fyrir að dráttarbúnaðurinn sé ólöglegur (óskráður).

2. Upplýsingar um dráttargetu byggjast annars vegar á mælingum sjálfstæðra rannsókna- og prófunarfyrirtækja (Underwriters) fyrir bílaframleiðanda og mati viðkomandi bílaframleiðanda varðandi öryggismörk. Uppgefin dráttargeta er opinber yfirlýsing sem bílaframleiðandi getur þurft að svara fyrir t.d. vegna skaðabótamála fyrir dómstólum. Fremur ber að líta á uppgefna dráttargetu sem staðlað viðmið fremur en raunveruleg getu bíls til að draga farm. Stöðluð mæling á dráttargetu er gerð við ákveðið hitastig, ákveðna hæð yfir sjávarmáli, ákveðið veðurfarslegt ástand, ákveðna hleðslu bíls og ákveðinn staðalbúnað, t.d. fjöðrun, vélarstærð og drifbúnað.

3. Þyngd í skráningarskírteini er í kg en ýmist í kg eða lb í handbók bíls. 1000 lb (bresk eða bandarísk pund) jafngilda 453,59 kg (en ekki 0,5 kg eins og margir virðast halda og nota).

4. Upplýsingar um tengibúnað og rafkerfi (Reglugerð 2/308-2003 um búnað ökutækja, 01.51-01.54.) má nálgast á vefsíðu Umferðarstofu, www.us.is (Upplýsingaskjöl, US 314). Umferðarlög Nr. 50/1987 má nálgast á www.althingi.is

5. Þar sem stærsti hluti bíla, sem notaðir eru til að draga eftirvagna, eru bandarískir er stuðst við reglur bandaríska flutningamálaráðuneytisins (DOT).

6. Sé samanlögð heildarþyngd bíls og eftirvagns meiri en 3.500 kg þarf bílstjóri að hafa meirapróf (Lög nr. 50/1987, gr. 50.c).

7. Vägverket (Svíþjóð) www.vv.se/templates/page3_2838.aspx og Strassenverkehrs-Zulassungs-Ordnung (StVZO) 02.07.2005 (Þýskaland).

8. Sumir framleiðendur fellihýsa skilyrða verksmiðjuábyrgð við að hvorki sé notaður fargjöfnunarbúnaður á dráttarbeisli né búnaður til að koma í veg fyrir hliðarsveiflu.

9. Þessi regla um stinna fjöðrun er ekki án undantekningar. Ákveðið mál, sem höfðað var gegn Daimler-Chrysler og vannst fyrir dómstóli í Kaliforníu, sýndi að fjöðrun hefur áhrif á dráttargetu á fleiri en einn hátt. Eigendur Dodge Dakota R/T pallbíls, sem lentu í óhappi, voru kærðir fyrir að nota bílinn til að draga mun þyngri vagn en bíllinn réði við. Þeir höfðu keypt bílinn í þeirri trú að dráttargeta hans væri 6000 lb. Í ljós kom að dráttargetan mældist einungis 2000 lb vegna þess að framleiðandinn hafði lækkað bílinn á fjöðrunum til að auka sportlega eiginleika hans - en hafði láðst að breyta tækninormi bílsins í skráningargögnum. Daimler-Chrysler var dæmt til skaðabóta og varð að bæta um 7.000 eigendum skaðann, ýmist með peningum eða með því að leysa til sín bílana.

Seljendur dráttarbúnaðar: IB ehf, Selfossi, bílaumboð, N1, Víkurvagnar, Bílasmiðurinn, Poulsen, Stilling o.fl.

Vefsíða Leós: Forsíða