Uppfinningar og einkaleyfi
eftir Oliver E. Allen. Þýðing Leó M.Jónsson

Í Bandaríkjunum er ekki hlegið að uppfinnurum. Þar er litið á þá sem eina af þýðingarmestu auðlindunum. Um 200 ára skeið hefur bandaríska einkaleyfakerfið skilgreint hvað sé uppfinning og hvað ekki; veitt uppfinnurum nauðsynlega einkaleyfisvernd, aðstoðað þá og hvatt til dáða. Sú þekkingarleit sem uppfinnarar stunda er liður í nýsköpun og vöruþróun og verður stöðugt þýðingarmeiri í atvinnu? og efnahagslífi Bandaríkjanna sem og annara þjóða. Engu að síður hefur staða uppfinnarans breyst. Hann er ekki lengur dæmigerður einyrki og ,,öðru vísi en aðrir" heldur einn af sérfræðingum á launum hjá framsæknu fyrirtæki. Styrkur bandarísku einkaleyfislöggjafarinnar kom berlega í ljós árið 1985 þegar alríkisdómstóll dæmdi risafyrirtækið Eastman Kodak Company til að hætta framleiðslu og sölu á myndavél, sem framkallaði myndirnar sjálf, þar sem um brot gegn einkaleyfislögum væri að ræða gagnvart einkaleyfi í eigu Polaroid. Þetta er án efa þýðingarmesti og áhrifaríkasti dómur í einkaleyfismáli sem gengið hefur í seinni tíð. Með honum var Kodak gert að hætta framleiðslu og sölu eigin myndavélar með sjálfvirka framköllun, sem kostað hafði milljónir dollara að þróa þannig að hún gæti keppt við Polaroid og styrkt stöðu Kodak á markaðnum sem framleiðanda filma og myndavéla. Ekki nóg með það heldur var Kodak gert að innkalla allar seldar myndavélar af þessari tegund, (m.a. á Íslandi. Innsk. þýð.)

Dómurinn, sem rak endahnútinn á 9 ára málaferli á milli þessara risafyrirtækja, olli gríðarlegu fjaðrafoki í fjármálaheiminum og var mikið áfall fyrir Kodak en var um leið mikill léttir fyrir Polaroid. Fimm árum síðar, 1990, lauk málinu endanlega með því að Kodak samþykkti að greiða 900 milljón dollara í skaðabætur.

Dómurinn er nýlegasta dæmið af mörgum um þá þýðingu sem bandaríska einkaleyfislöggjöfin hefur í fjármálalífi heimsins þótt rúm 200 ár séu liðin frá setningu hennar (1790). Lögin hafa ótvíræð áhrif á daglegt líf fólks í flestum löndum heims. Löggjöfin virkar enn þann dag í dag eins og henni var ætlað; hún hvetur til þróunar í bandarískum viðskiptum og iðnaði. Margt er merkilegt við málaferlin á milli Kodak og Polaroid, m.a. það að bæði þessi risafyrirtæki voru stofnuð af uppfinnurum, hugvitsmönnunum Georg Eastman (1854-1932)(Kodak) og Edwin H. Land (1909 ? )(Polaroid). Á dögum Georgs Eastman var ekki óalgengt að hugvitsmenn stofnuðu fyrirtæki og fylgdu því eftir með mikilli uppbyggingu. Fyrir duglega og áræðna menn var ekki svo erfitt að byggja upp fyrirtæki þótt það væri aldrei auðvelt. Ágætt dæmi er Alexander Graham Bell en streð hans náði hámarki með risafyrirtækinu American Telephone and Telegraph Company. Edwin Land átti sýnu erfiðara uppdráttar en á manndómsárum hans var mjög erfitt að stofna og reka fyrirtæki og átti eftir að verða enn erfiðara. Einungis harðduglegir menn með nef fyrir viðskiptum, áttu einhverja fræðilega möguleika en Land var einmitt einn þeirra.

Í gamla daga fann einhver upp eitthvað uppi á háalofti, fékk einkaleyfi, hóf framleiðslu og sölu og græddi milljónir - að mestu leyti upp á eigin spýtur og hjálparlaust. Nú er öldin önnur: Uppfinnari í Bandaríkjunum, með örfáum undantekningum, er nú launaður starfsmaður fyrirtækis, oft á rannsóknarstofu stórfyrirtækis -óþekktur og næstum nafnlaus en sæmilega launaður. Fái hann eða hún einhverja umbun fyrir að endurbæta einhvern hlut, hvort heldur er músargildra eða tölva, er það í mesta lagi kumpánlegt klapp á öxlina hjá deildarstjóranum. Þeir fáu uppfinnarar sem ölast auðæfi, menn eins og Land, Steve Wozniak (Apple) eða William Hewlett og David Packard (Hewlett Packard), eru algjörar undantekningar núorðið, þ.e. að hafa byggt upp stórfyrirtæki með einkaframtaki og jafnframt verið uppfinnarar.

Ástandið nú er áreiðanlega allt annað en mennirnir, sem settu lögin um einkaleyfin árið 1790, höfðu haft í huga. Það skapaðist á 19. öld sem afleiðing iðnbyltingarinnar 100 árum áður með aukinni og flóknari tækni á flestum sviðum iðnaðar samhliða fjölgun risafyrirtækja sem höfðu tæknina á valdi sínu og stýrðu tækniþróuninni. Kaflaskil, í þessu samhengi, verða einmitt um það leyti sem Georg Eastman er að kynna fyrstu Kodak myndavélina; um aldamótin 1900.

Kerfinu, sem löggjafar í árdaga bandaríska lýðveldisins sköpuðu, er lýst í 1. grein stjórnarskrárinnar, undirkafla 8; ,, til að fremja framsókn vísinda og nytsamra lista með tryggingu einkaréttar höfunda og uppfinnara, til takmarkaðs tíma, á hugverkum þeirra og uppgötvunum". Þessir forfeður bandarísku þjóðarinnar höfðu nýlega brotið af sér fjötra þröngsýns einveldis og þeim var mikið í mun að tryggja og verja frelsi einstaklingsins - hverskonar einokun (kúgun) var eitur í þeirra beinum. Þeir voru samt sem áður þeirrar skoðunar að besta hvatningin til þess að efla vísindin væri að veita hugvitsmönnum ákveðna tímabundna vernd á meðan þeir væru að koma afurðum sínum á markað og afla tekna til að mæta kostnaði: Þeir gerðu sér grein fyrir efnahags- og þjóðhagslegu gildi uppfinninga.

Einkaleyfi veitti höfundi einkarétt á hugmynd í takmarkaðan tíma gegn því að hann leggði fram öll gögn sín í þágu almannaheilla. Kynningin á hugmyndinni var jafnframt kynning á því sem aðrir mættu ekki apa eftir án þess að brjóta gegn einkaleyfislögunum. Einkaleyfishafar gátu framleitt sjálfir uppfinningar sínar, framleigt eða selt öðrum framleiðslurétt eða selt einkaleyfið eins og það lagði sig. Þeir höfðu heimild til að gera alls ekki neitt, ef þeim sýndist svo, á einkaleyfistímanum (sem oftast hefur verið 17 ár). En að honum loknum mátti hver sem er nýta sér hugmyndina. Kerfið er þaulhugsað. Um það á Abraham Lincoln að hafa sagt að það virkjaði áhugann sem eldsneyti á hugmyndabál snilligáfunnar.

Kerfið fór hægt af stað eftir að fyrsta einkaleyfisfrumvarpið varð að lögum í apríl 1790. Fyrstu einkaleyfin sem veitt voru (bandarískt einkaleyfi nr. 1 er gefið út 31. júlí 1790) höfðu einungis þurft samþykki tveggja af þremur fulltrúum í Einkaleyfiaráði (Patent board) en þeir voru utanríkisráðherrann, hermálaráðherrann og dómsmálaráðherrann. Var þeim ætlað að bæta á sig afgreiðslu og veitingu einkaleyfa sem aukastarfi auk hefðbundinna starfa. Árið 1802 höfðu mál æxlast þannig að nauðsyn var á formlegri skipan mála: Sjálfstæðri stofnun, Einkaleyfastofnuninni (Patent Office), var komið á laggirnar og heyrði hún undir utanríkisráðherra. Slíkt var flóð einkaleyfisumsókna orðið að, til að starfsmenn köfnuðu ekki gersamlega í verkefnum, nægði að umsækjendur lýstu því yfir að hugverk þeirra væri nýjung, það eina sem þeir þurftu að gera var að skrá einkaleyfið. Og í kjölfarið jókst flóðið enn frekar. Það var svo árið 1836 að formleg prófun einkaleyfisumsókna var tekin upp og um leið voru settar strangari reglur; umsóknir voru metnar á gagnrýnni hátt en nokkru sinni áður og þeim fjölgaði jafnt og þétt sem var synjað. 1849 verður síðan sú breyting að Einkaleyfastonunin er færð frá utanríkisráðuneytinu og látin heyra undir innanríkisráðuneytið. Þó var flakki stofnunarinnar ekki lokið því síðar á sömu öld var hún flutt frá innanríkisráðuneytinu og gerð að sjálfstæðri stofnun á vegum viðskiptaráðuneytisins sem hún er enn þann dag í dag.

Ekki einungis hefur Einkaleyfastofnunin verið færð til heldur hefur skilgreining á því hvað sé einkaleyfishæft og hvað ekki tekið breytingum. Snemma á 19. öld var sú skilgreining við lýði að hugverk og/eða hlutur þyrftu að hafa notagildi auk þess að vera nýjung til að fá einkaleyfi. Einnig var sú krafa gerð að uppfinningin væri akkur fyrir þjóðfélagið í heild en ,,hvorki skaðleg né ósiðsamleg", eins og dómari nokkur orðaði það. 1880 var nýrri klásúlu bætt við; uppfinning þyrfti ekki einungis að vera nýjung og hafa notagildi heldur yrði hún að vera árangursnilldar í hugsun - vísindalegur áfangi. Þótt erfitt hlyti að vera að meta snilld hugsunar á einhverja nothæfa mælistiku var þessi klásúla þó við lýði fram á miðja þessa öld, en þá felld niður sem of þokukennt hugtak. Ný einkaleyfalög frá 1952 byggja á eins konar neikvæðum en nothæfum greiningarstaðli sem enn gildir. Þær kröfur eru gerðar um einkaleyfishæfni uppfinningar að hún sé ,,ný hugsun" (nonobvious). Með því er átt við að hugmyndin, uppgötvunin eða uppfinningin, þurfi að vera svo byltingarkennd að venjulegur maður, með hefðbundna kunnáttu og þjálfun á viðkomandi sviði, hefði ekki látið sér hana í hug koma. Sem sagt; uppfinningar eru einstakar og ekki á hvers manns færi að fást við.

T.v. Edison á sínum yngri árum. T.h. Vinnu- og rannsóknastofa Edisons í Menlo Park í New York um aldamótin 1900

Gríðarlegur fjöldi þýðingarmikilla einkaleyfa var veittur í Bandaríkjunum á 19. öld. Á meðal uppfinnara á þeirri tíð eru menn sem síðar urðu heimsþekktir brautryðjendur. Af mörgum mætti nefna þá Cyrus McCormic, Samuel F.B. Morse, Charles Goodyear og sjálfan risann í hópnum, Thomas A. Edison. Enginn einstaklingur hefur hlotið jafn mörg einkaleyfi og Edison, samtals 1.093 (sá sem kemst næstur honum, en þó langt á eftir, er Edwin Land (Polaroid) með 533). 19. öldin var tími gríðarlegrar tækniþróunar í Bandaríkjunum og sú þróunarsaga er vörðuð stórmerkilegum uppfinningum sem hlutu einkaleyfi. Á meðal þeirra má nefna einkaleyfi Henry Bessemer (stálframleiðsla í s.k. Bessemer-ofni 1856), einkaleyfi Georg Westinghouse Jr. (loftbremsa á járnbrautarvagna 1869) auk síður þekktra frumkvöðla á borð við Walter Hunt, sem fann upp öryggislásinn á byssur, Alvin Fellows sem fann upp málbandið og John McTammany Jr. sem fann upp sjálfspilandi píanóið.

Fæstir þessara frumkvöðla voru miklir kaupsýslumenn, og sumir höfðu hreinlega ekkert nef fyrir viðskiptum. Til að mynda var Charles Goodyear, sem fundið hafði upp aðferð til að seigherða gúm með brennisteinssamböndum (vúlkanísering) og margfalda þannig slitstyrk þess, ekki mikill bógur í viðskiptum. Óvarkárni hans og kæruleysi varð til þess að hann leyfði notkun uppfinningar sinnar við framleiðslu á vörum þar sem hún hentaði alls ekki. Það dró dilk á eftir sér sem olli honum umtalsverðum skaða; hann lét fláráða ,,vini" hafa út úr sér fé, sem hann átti þó ekki nema af skornum skammti, þar til hann hafði varla upp í sig að eta. Lögfræðingar mergsugu hann og frægt er þegar hann fól Daniel nokkrum Webster að flytja mál fyrir sig og greiddi honum fyrirfram 15 þús. dollara - geypifé á þeim tíma. Charles Goodyear þurfti oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að sitja í skuldafangelsi. Málaferli sem Goodyear þurfti að standa í vegna uppfinninga sinna varpa nokkru ljósi á þá erfiðleika sem bandarískir uppfinnarar þurftu að glíma við um miðja 19. öldina. Það var ekki einfalt mál að tryggja og verja eignarrétt á uppfinningu og til að verja einkaleyfi þurfti oft dýran málarekstur fyrir dómstólum. Fáum uppfinnurum fórst vel að eiga í slíkum málum - oft voru hefðbundnir kaupsýslumenn slyngari á því sviði.

Efnahagsástand í Bandaríkjunum hafði breyst. Um miðbik 19. aldar hafði efnahagslegt umhverfi breyst. Markverðasta breytingin var að iðnaður hafði tæknivæðst í risastökkum og var orðinn miklu flóknari. Stofnun framleiðslufyrirtækja var orðin fjárfrekari og ekki lengur á færi hvers og eins, jafnvel þótt þeir hefðu snjallar hugmyndir uppi í erminni. Harðari samkeppi og aukið vöruval gerði það að verkum að fyrirtæki, sem byggðist á uppfinningu varð að kosta talsverðu til að þróa nýjar vörur og finna nýja notkunarmöguleika til að viðhalda viðunandi vexti: Ný tegund kaupsýslumanns, iðnrekandinn, verður til í Bandaríkjunum. Hann gerir sér grein fyrir því að nýsköpun og vöruþróun verður ekki byggð á tilviljunum né heppni. Iðnrekanda, sem biði þess að uppfinnarar kæmu og færðu honum nothæfar hugmyndir, myndi líklegast daga uppi. Uppfinningar varð því að ,,framleiða" í fyrirtækjunum sjálfum. Því til viðbótar varð nú sífellt dýrara og fyrirhafnarmeira að þróa nýjar vörur, hefja framleiðslu á þeim og ná upp sölu. (Í þá daga var ekki farið að tala um að markaðssetja vörur). Áhættufé varð nauðsynlegt þótt enginn kærði sig um að tapa því og á einhvern hátt varð að tryggja framtíð vörunnar á markaðnum og jafnframt að verja hagsmuni (gróða) framleiðandans gegn samkeppni, ekki síst gegn þeirri hættu að einhver ,,bjáni" úti í bæ álpaðist til að fá betri hugmynd sem gert gæti gróðann að engu. Af þessu leiddi að útungun uppfinninga, öflun, umsýsla og vörn einkaleyfa varð að lykilatriði í stefnumörkun fyrirtækja.

Stundum vill gleymast að merkileg uppfinning gat verið lítils virði ein og sér. Oftast þurfti alls konar aukatæki til að uppfinningin nýtist. Taka má síma Bells sem dæmi. Til að eitthvert gagn væri að símanum þurfti að finna upp og þróa tengibúnað, spenna, magnara og leiðslukerfi. Uppfinning brunavélarinnar leiddi ekki af sér fartækið bíl fyrr en fundinn hafði verið upp búnaður á borð við bremsur, stýri, gír? og drifbúnað. Oft var uppfinningamaður ófær um að leysa slík nauðsynleg viðbótarmál eða var jafnvel ekki hafður með í dæminu; aðrir urðu til þess að fylgja málinu eftir og gera uppfinninguna nýtanlega.

Innan hinnar nýju stéttar iðjuhölda þótti einkaréttur, sem einkaleyfalögin sköpuðu brátt mjög eftirsóknarverður. Með því að tryggja sér réttu einkaleyfin gátu fyrirtæki ráðið markaðnum í bókstaflegum skilningi með einokun. ,,Rétt" einkaleyfi á ákveðnum tengdum tæknisviðum gátu skapað fyrirtækjum yfirburðastöðu; þau drottnuðu ekki einungis á markaðnum heldur gátu þau stýrt þróuninni á ákveðnum sviðum iðnaðar og viðskipta. Svo sterkt var kveðið að orði, að eina raunverulega einokunin á markaðnum væri fólgin í bandarísku einkaleyfi.

Þannig varð til nýr stjórnunarþáttur; þróun og stjórnun einkaleyfa - kerfi sem skipulagt var af stjórnendum risafyrirtækja á borð við AT&T og General Electric með ráðgjöf og annarri aðstoð lögmanna sem höfðu einkaleyfi sem sérgrein. Fyrsta skrefið var að setja á laggirnar útungunarstöð innan fyrirtækisins fyrir einkaleyfishæfar hugmyndir (stundum nefndar hugmyndabryðjur), rannsóknar- og þróunardeild sem ætlað var að finna leiðir til að nýta uppfinningar á sem fjölbreyttastan hátt þannig að útvíkka mætti einkaleyfin sem allra mest. Með þessu móti tókst fyrirtækjum að auka og breikka markað einstakra uppfinninga og þess voru dæmi að þróunarstarfið hefði opnað fyrirtækjum leið inn á ný og lítt skyld markaðssvið. (Áþreifanlegt dæmi um árangur af vöruþróun á þessum tíma er Bell Laboratories, rannsóknastöð sem stofnuð var af AT&T, en starfsfólk hennar hefur klekkt út fjölda merkilegra hugmynda sem leiddu af sér meiriháttar uppfinningar og einkaleyfi. Sem dæmi má nefna smárann (transistorinn) sem þar varð til 1947). Margir hugmyndaríkir einstaklingar, sem annars hefðu bollokað einir og út af fyrir sig, reyndust reiðubúnir til að fórna möguleikanum á frægð og frama upp á eigin spýtur fyrir öryggið, sem fólgið var í föstu starfi á góðum launum hjá traustu fyrirtæki. Uppfinnarar á launum hjá fyrirtæki þurftu, að minnsta kosti, ekki að hræðast stefnur, þ.e. að verða kallaðir fyrir rétt vegna kæru um brot gegn einkaleyfi - lögmenn fyrirtæksins veittu þeim vernd gegn slíkum kærum sem gengið gátu all?nærri mönnum. Í því efni má minnast ófara áðurnefnds Charles Goodyear fyrir dómstólum - jafnvel hinn goðsagnarkenndi uppfinnari, sjálfur Edison, fór ekki varhluta af slíkum hremmingum um æfina.

Ekki síðri þýðingu hafði að stórfyrirtækin beittu margvíslegum skipulögðum aðgerðum til verndar þeim einkaleyfum sem þau höfðu þegar aflað sér. Stórfyrirtæki höfðu samstarf sín á milli um einkaleyfi á skyldum sviðum, með gagnkvæmum notkunarrétti á einkaleyfum (cross-licensing), með samstarfi um framleiðslu og sölu einkaleyfisvara og með því að kaupa upp einkaleyfi minni spámanna; annars vegar til að koma í veg fyrir að þeir gætu raskað jafnvæginu á markaðnum og hins vegar beinlínis til að ,,jarða" slíkar uppfinningar eins lengi og unnt var.

Fyrsta samstarfið um meiriháttar einkaleyfi hófst um miðja 19. öld. Aðdragandi þess var dálítið merkilegur. Elias Howe, sem fundið hafði upp saumavélina og fengið einkaleyfið, gerði sig líklegan til að innheimta há leyfisgjöld af keppinautum sem framleiddu saumavélar í trássi við einkaleyfið. Keppinautarnir neituðu að borga og voru auk þess svo ófyrirleitnir að stefna Howe fyrir rétt. Áður en til málaferla kom náðist samkomulag á milli Howe og þriggja keppinauta hans um sameiginlega og gagnkvæma notkun einkaleyfa en að síðan skyldi öðrum aðilum veitt leyfi til að framleiða saumavélar gegn ákveðnu gjaldi. Stæðu þeir ekki skil á framleiðslugjaldinu yrði þeim þröngvað út úr greininni. Þetta fyrirkomulag, ýmist aukið eða endurbætt, var síðan notað af fjölda annarra fyrirtækja á ýmsum sviðum og tíðkast enn.

Ókrýndur konungur hugkvæmninnar, í samningum af þessum toga, var mikils metinn einkaleyfa-lögmaður, Edwin J. Prindle, sem um 1906 hafði, í greinum í blöðum og tímaritum, bent iðjuhöldum á leiðir til að virkja einkaleyfalögin enn betur í sína þágu. ,,Einkaleyfi", útskýrði hann, ,,er besta og virkasta aðferðin til að stjórna samkeppni." Máli sínu til sönnunar benti hann gjarnan á United Shoe Machinery Company, stórveldi í bandarískum iðnaði á þeirri tíð, sem stjórnaði skóframleiðslu þjóðarinnar, í bókstaflegri merkingu, í krafti þéttriðins nets þúsunda einkaleyfa sem það hafði aflað sér með skipulögðum hætti. Stórnendur fyrirtækja ættu að gæta að því, sagði Prindle, að sé framleiðsluvara þeirra ekki einkaleyfishæf væri ekki þar með sagt að ekki mætti fá einkaleyfi fyrir framleiðslutækjunum sem þeir notuðu eða fyrir framleiðsluaðferðinni - ferlinu. Þeir skyldu einnig hafa í huga þá staðreynd að nýjung, endurbót, á gamalli vél væri einkaleyfishæf, samkvæmt lögunum, svo fremi að hún endurbætti jafnframt vöruna. Hann sýndi fram á, með dæmum, að einkaleyfi á lítilmótlegustu vél gat aflað eiganda sínum drjúgra tekna. Hundeinföld vél en rækilega vernduð með einkaleyfi, til að setja hnappa á kvenskó, var eitt dæmanna sem Prindle nefndi. Til að fá að nota þessa ákveðnu vél varð notandinn að samþykkja sem skilyrði, að nota einungis ákveðnar hnappafestingar frá framleiðanda vélarinnar en þær voru ekki einkaleyfisverndaðar. Tekjurnar af leigu vélarinnar voru smámunir en salan á festingunum skilaði hins vegar myndarlegum arði.

Viðskipta-samspil, en svo nefndi Prindle samninga á milli fyrirtækja um gagnkvæma notkun einkaleyfa, væri eftirsóknarvert fyrir einkaleyfishafa sem þannig gætu orðið ráðandi innan heilla iðngreina. ,,Með viðskipta-samspili einkaleyfishafa geta þeir náð virku samkomulagi, m.a. um ákveðna verðlagningu (verðstýringu) og beitt þá sektum sem ekki virða samkomulagið. ,,Þannig viðskipta-samspil", sagði Prindle, ,,er eina virka aðferðin við samvinnu fyrirtækja í Bandaríkjunum."

Prindle lagði sérstaka áherslu á það við stjórnendur fyrirtækja, sem ráðið hefðu uppfinnara til starfa, að þeim starfsmönnum væri varasamt að treysta. Hann taldi þá vísa til að vinna að uppfinningum á kostnað vinnuveitandans og reyna síðan að fá einkaleyfi skráð á þá sjálfa. Þessvegna, sagði Prindle, að nauðsynlegt væri að láta uppfinnara skrifa undir sérstakan samning þar sem þeir lýstu því yfir að allar uppfinningar, sem þeir kynnu að gera á ráðningartímanum og strax að honum loknum, væru undantekningarlaust eign vinnuveitandans, þannig að það freistaði þeirra síður að hoppa af og ráða sig hjá keppinauti sem þannig kæmist yfir hugmyndir og iðnaðarleyndarmál. Hikuðu uppfinnarar við að skrifa undir mætti benda þeim á að allir æðstu stjórnendur fyrirtækisins hefðu þegar skrifað undir sams konar skuldbindingu (engu máli skipti þótt stjórnendur væru ekki uppfinnarar).

Þessi ráðgjöf var mikils metin og efnaðist Prindle því vel. Í raun voru einkaleyfa?lögmenn orðnir jafn þýðingarmiklir í viðskiptalífinu og uppfinnararnir sjálfir - stundum jafnvel þýðingarmeiri. Það var því engin furða þótt afdrif yrðu nokkur þegar saman kom, í einni og sömu persónu, uppfinnari og klókur einkaleyfa-lögmaður. Sagan af Selden-einkaleyfinu á bílnum sýnir þetta svart á hvítu þar sem einn djöfullega kænn maður gat, í krafti þekkingar sinnar og klækja, kúgað heila framleiðslugrein svo árum skipti.

Georg B. Selden (1846-1922) var sonur yfirdómara í Rochester í New York ríki; bráðgreindur ungur maður sem, að ráði föður síns, stundaði laganám af kappi og metnaði. Hann hlaut málafærsluréttindi sem einkaleyfa?lögmaður 1871. Selden var jafnframt tæknilega sinnaður - laghentur grúskari sem lét sig dreyma um að smíða vagn sem knúinn væri af eigin vél, en það hafði engum tekist, opinberlega, í Bandaríkjunum þegar hér var komið sögu. Rúmlega þrítugur hafði Selden komist yfir eintak af tvígengis-vél sem gekk fyrir steinolíu. Vélina hafði landi hans G.B. Brayton fundið upp og smíðað og sýnt á heimsýningunni í Fíladelfíu 1876. Vélinni kom hann fyrir í vagni með stýranlegum framhjólum, tengdi hana einu hjólanna með kúplingu um gír- og drifbúnað. Fyrirbærið nefndi Selden veg-vélreið (road-locomotive). Honum hafði þannig tekist að koma saman grófustu mynd af því fartæki sem síðar nefndist ,,motorcar" á ensku og bíll (upp á dönsku) hérlendis. Þetta fartæki Seldens var langt frá því að vera nothæft - en hann
gat sýnt fram á að það hreyfðist af sjálfu sér á jafnsléttu. Í krafti þess sótti hann um einkaleyfi fyrir fartækinu 8. maí 1879.

Í krafti sérþekkingar sinnar á einkaleyfamálum var Selden kunnugt um að enginn hafði sótt um einkaleyfi fyrir þannig fartæki til bandarísku Einkaleyfastofnunarinnar. Hann hafði ótvírætt verið fyrstur manna til þess og það hafði ekki lítið að segja. Athyglisvert er að hann gerði engar endurbætur á hönnun sinni og hann virðist varla hafa gert nokkra alvarlega tilraun til þess að koma fartækinu í framleiðslu. Þess í stað notfærði hann sér gloppur í einkaleyfalögunum til að tefja útgáfu einkaleyfisins í hvorki meira né minna en 16 ár, þ.e. nánast jafngildi gildistíma einkaleyfis, þar til 5. nóvember 1895. En töfina hafði Selden notað til að aðlaga, breyta og auka einkaleyfiskröfur sínar, sem að lokum áttu lítið skylt með upphaflega fartækinu, uppfinningunni frá 1879. Með kænsku sinni og klækjum tókst Selden, þótt ótrúlegt sé, að tryggja sér einkaleyfisréttindi á bílnum 16 + 17 ár eða samtals 33 ár. Engu breytti þótt á umsóknartímanum hefðu komið fram nýjar og merkilegri uppfinningar en hans eða að almennt var litið á Þjóðverjann Gottlieb Daimler sem hinn raunverulega uppfinnara að bílnum. Einkaleyfi Seldens gilti til ársins 1912.

Að framfylgja einkaleyfisréttinum með hótunum um málsókn gegn bílaframleiðendum hefði verið George B. Selden fjárhagslega ofviða. Þess í stað beið hann átekta. Þolinmæði hans bar ríkulegan ávöxt 1899 þegar nokkrir iðnjöfrar, með fjármálamanninn William C. Whitney frá New York í farabroddi, leituðu til hans og óskuðu eftir því að kaupa af honum framleiðslurétt. Þeir höfðu bundist samtökum um framleiðslu á rafknúnum bílum, sem á tímabili þóttu álitlegir ? en seldust þó treglega. Til að fjármagna frekari markaðssetningu vantaði þá lánsfé og höfðu leitað til Whitneys. Sá setti það sem skilyrði fyrir fjármögnun að einka-framleiðsluréttur væri tryggður með samningi við einkaleyfishafann. Selden sló að sjálfsögðu til og gengið var frá samningum. Vart hafði blekið þornað á samningnum en Whitney og félagar kröfðust leyfisgjalds af nánast öllum bandarískum bílaframleiðendum og Selden, sem átti að fá í sinn hlut ákveðinn hundraðshluta af leyfisgjöldunum, sá fram á að geta lifað í listisemdum praktuglega þegar greiðslurnar færu að streyma til hans.

Bílaframleiðendur ráku upp ramakvein. Sá stærsti þeirra, Winton, neitaði að borga. Her lögmanna á vegum Whitneys annaðist innheimtuna og hóf lögsókn gegn fyrirtækinu sem sá sitt óvænna; Winton gekk til samninga, greiddi leyfisgjaldið og slapp þannig við málaferlin. Lögsóknin reyndist dýr aðgerð. Lögmenn Whitneys fundu því upp nýja aðferð; þeir hugðust mynda viðskiptafélag sem hefði umsjón með og annaðist einkaleyfisrétt Seldens og skyldi þáverandi stærstu bílaframleiðendunum boðin aðild og réttur til að nýta einkaleyfið gegn vægu gjaldi en há einkaleyfisgjöld innheimt af hörku hjá öllum hinum. Nýja félagið nefndist ALAM (Association of Licenced Auto Manufacturers). Til liðs við það gengu á skömmum tíma stærstu bandarísku bílaframleiðendurnir að einum undanskildum. Lykilmaðurinn; bílaframleiðandinn og frumkvöðullinn Henry Ford, sem hafði þá þróað sinn eigin bíl í
áratug og vissi að hann hafði ekkert gagn getað haft af uppfinningu Seldens og var auk þess þeirrar skoðunar að einkaleyfi væru hvort eða er ekki til annars en að féfletta neytandann, varð æfur. Hann gerði sér grein fyrir því að ALAM gæti kippt undan honum fótunum og þröngvað honum út úr bílaframleiðslu. Frá hans sjónarhóli séð átti hann ekki annara kosta völ en en að berjast á móti. Þegar ALAM hóf síðan lögsókn gegn Ford 1903 ákvað hann að verjast. (Til nánari glöggvunar: Fyrsti bíll Fords var tekinn í notkun 1896. Á árinu 1903, þegar ALAM/Ford-réttarhöldin hefjast var Ford ekki einkaeigandi heldur í samvinnu við fjármálamanninn Alexander Malcolmson um rekstur á Ford Motor Co. Malcolmson hafði sett helmingafélag við Ford sem skilyrði fyrir fjármögnun á fyrsta verksmiðjuframleidda Ford bílnum, 8 ha Model A, en fyrsti bíllinn var seldur 15. júlí 1903. Á næstu 15 mánuðum seldust 1708 Ford bílar. Innskot þýðanda).

Ein af fyrstu verksmiðjum Ford í Bandaríkjunum 1907

Vegna tímafrekra vitnaleiðslna fyrir dómstólum vítt og breitt um Bandaríkin, og annarra orsaka, liðu ár þar til réttað var í málinu. Í fyrstunni gengu nokkur önnur fyrirtæki til liðs við Ford í vörninni en heltust brátt úr lestinni þar til hann stóð uppi einn síns liðs. Það kostaði Ford mikið fé að halda uppi vörn í málinu - en hann hafði þó ekki einungis kostnað af því; blaðaumfjöllun var Ford yfirleitt hliðholl; manninum sem barðist gegn einokunarhagsmunum: ,,Ekkert auglýsti jafn vel Ford bílinn og Ford Motor Company og þessi málaferli", var haft eftir Henry Ford síðar. Loks kom að því 1909 að réttað var í málinu. ALAM vann málið. Samstarfsmenn Fords voru slegnir. Sjálfur lét hann sér fátt um finnast og ákvað að áfrýja málinu til æðri dómstóls. Í janúar 1911 úrskurðaði áfrýjunardómstóls hins vegar Ford í hag. ,,Jafnvel þótt einkaleyfi Seldens væri gilt", sagði í úrskurðinum, ,,hefði hvorki Ford né aðrir brotið gegn því þar sem þeir notuðu aðra tegund vélar í sínum bílum." Málinu var því vísað frá. Einokunin hafði verið brotin á bak aftur. Selden hafði, þegar hér var komið sögu, haft um 200 þús. dollara upp úr einkaleyfsumsókninni og einkaleyfinu sem nú gilti, hvort eða var, einungis eitt ár til viðbótar. (Fyrir 200 þús. dollara mátti kaupa 235 stk af fyrsta Ford Model T árið 1909 sem þá kostaði 850 dollara. Hann átti eftir að lækka verulega í verði eftir að fjöldaframleiðsla hófst, kostaði t.d. 440 dollara árið 1915. Innskot þýðanda.)

En fátt er svo með öllu illt: Selden málaferlin, eins ljót og þau voru, leiddu til þess að einkaleyfalögin voru endurskoðuð og þeim breytt þannig að enginn myndi geta misnotað þau framar með þessum hætti. Viðskiptasamspili með einkaleyfi, þ.e. samtökum um gagnkvæma notkun einkaleyfa, að hætti Prindle, var þó haldið áfram á meðal bílaframleiðenda sem var mikið í mun að losna við kostnaðarsöm málaferli. Það fyrirkomulag tíðkast enn þann dag í dag. Einungis Ford neitaði allri samvinnu við slík samtök þótt hann seldi hverjum sem var, innan bílaiðnaðarins, notkunarrétt á sínum eigin einkaleyfum.

Á sviði rafvéla- og fjarskiptaiðnaðar ríktu umfangsmeiri gagnkvæmir samningar um notkun einkaleyfa enda var það engin tilviljun að á þeim sviðum hafði Edwin Prindle haslað sér völl og var þar lengi viðloðandi. Auk þess að eiga gríðarlegan fjölda einkaleyfa sjálf, þegar á árum fyrri heimstyrjaldarinnar, höfðu tvö stærstu fyrirtækin, AT&T og General Electrics (GE), komist að raun um að í krafti einkaleyfaréttinda sinna gátu þau nánast skipt heimsmarkaðnum á milli sín. Með runu samninga skömmu upp úr 1920, sem m.a. tóku til gagnkvæmra nota einkaleyfa sem gegndu lykilhlutverki, mynduðu fyrirtækin víðtæk áhrifasvið sem þau skiptu á milli sín. AT&T fékk í sinn hlut áhrifavald á öllum sviðum síma- og fjarskiptabúnaðar. GE setti á laggirnar nýtt fyrirtæki, The Radio Corporation of America (RCA) sem haslaði sér völl á nýju sviði, útvarpi. Um leið var GE tryggð yfirburðastaða á tengdum sviðum svo sem í framleiðslu á ljósabúnaði og raftækjum. Í samningunum var ákveðinn einkaleyfisréttur, undirréttur, veittur öðrum stórfyrirtækjum á borð við Westinghouse, Western Electric og British Marconi, sem færði þeim nánast heimsyfirráð á vissum sviðum. Þessi hrikalega samtakakeðja var óformlega þekkt undir heitinu ,,the Radio Patent Pool".

Alþjóðleg staða einkaleyfa í efnaiðnaði var að ýmsu leyti sérstök og öðru vísi á þessum tíma. Fyrir fyrri heimstyrjöld var þýski kol-tjöru og litarefnaiðnaðurinn leiðandi en öll stærstu fyrirtæki hans höfðu keypt rétt til bandarískra einkaleyfa á öllum mikilvægum kemískum efnum. Á (fyrri) stríðsárunum gerðu bandarísk stjórnvöld, engu að síður, upptæk öll þýsk einkaleyfi, sem voru skráð í Bandaríkjunum, og skipti þeim á milli helstu risafyrirtækjanna. Tilgangurinn var sá að efla og auka sprengiefnaframleiðslu bandarískra fyrirtækja. Einungis Du Pont eitt ,,eignaðist" þannig um 300 skráð þýsk einkaleyfi á einu bretti. Þjóðverjar voru þó fljótir að vinna upp tjónið, þrátt fyrir ósigurinn í stríðinu, og um 1930 hafði þýski efnaiðnaðurinn eflst og náð aftur mjög sterkri stöðu. Bandarísk fyrirtæki brugðust þá við með því að mynda alþjóðlega hagsmunahringi þar sem skipst var á einkaleyfum við erlendar samsteypur gegn því að þær héldu sig hver á sínu sviði eða markaðssvæði. Slíkur samningur var í gildi á millistríðsárunum á milli Standard Oil of New Jersey (núverandi Exxon) og I.G. Farben í Þýskalandi; hann gerði Standard Oil (= SO = EssO) mögulegt að drottna á sviði olíuiðnaðar á meðan I.G. Farben drottnaði á sviði kemísks efnaiðnaðar.

Allir samningar af þessum toga voru (og eru), án efa, dulbúnir einokunartilburðir og hafa margoft orðið tilefni til breytinga og viðauka á bandarískum lögum gegn hringamyndun. (Antitrust Act). Eitt slíkt tilefni leiddi af sér lagabálk sem nefnist ,,Clayton Antitrust Act" frá 1914. Tilefnið var reyndar einokunartilburðir áðurnefnds United Shoe Machinery Company. Á árunum frá 1920 og fram yfir 1930 gerðu bandarísk stjórnvöld lítið sem ekkert til að sporna gegn samstarfi fyrirtækja um einokun. Á því varð breyting með ,,New Deal" lögunum upp úr Kreppunni. Í þeim voru ákvæði, takmarkanir, sem beint var gegn fákeppni og einokun og enn strangari lög, sama efnis, voru sett á árunum eftir seinna stríð. Þrátt fyrir það gilda enn þann dag í dag ýmsir samningar á milli fyrirtækja, grundvallaðir á takmörkunum á notkun einkaleyfa. Tilhneiging innan iðnaðarins til einokunar, með alls konar
samningum sem útiloka samkeppni, hefur orðið til þess að harkalegum stjórnvaldsaðgerðum hefur verið beitt, ekki síst nú á síðari árum.

Þess eru dæmi að stórfyrirtæki hafi neytt aflsmunar á þann hátt að hóta smærri fyritækjum lögsókn, hafi þau ekki ,,látið að stjórn", vitandi að varnarkosnaður myndi setja þau á hausinn - jafnvel þótt málsóknin hafi ekki verið á rökum reist. Risafyrirtæki í glerframleiðslu, Owens-Illinois, varð t.d. uppvíst að slíkum aðferðum við að halda smærri keppinautum í skefjum.

Skylt er að geta þess að nokkur þekkt bandarísk fyrirtæki, hafa forðast málarekstur og vandamál af þessu tagi með því að hunsa einkaleyfalögin á markvissan hátt en þess í stað lagt áherslu á að varðveita uppfinningar sínar sem iðnaðarleyndarmál. Þekktast þeirra er Coca-Cola Company sem hefur aldrei sótt um einkaleyfi fyrir hinum heimsþekkta gosdrykk. Það hefur ekki þurft þess því engum utan fyrirtækisins hefur nokkru sinni tekist að læra uppskriftina að drykknum.

Önnur fyrirtæki, sem hunsa einkaleyfalögin, eru þau sem einbeita sér að uppfinningum sem seljast hratt en eru stuttan tíma á markaðnum. Á mörgum tæknisviðum, þar sem þróunin er örust, getur uppfinning verið orðin úrelt áður en einkaleyfi fæst gefið út. Forstjóri fyrirtækis, sem þróar og framleiðir rafeindamælitæki, hefur lýst þessu þannig að öll framleiðsla fyrirtæksins úreldist og endurnýjast að meðaltali á 5 árum: ,,Hvers vegna ætti ég að eyða peningum í einkaleyfi?", spyr hann.

Þegar öllu er á botninn hvolft er ljóst að uppfinnari sem einstaklingur á sífellt erfiðara um vik ? bardaginn við kerfið er flestum þeirra ofviða. Dæmi um uppfinnara sem hafa verið rúnir inn að skyrtunni vegna kostnaðar við málsvörn og málarekstur fyrir dómstólum sýna það svart á hvítu. Lee de Forest (f. 1873), sem varð heimsfrægur fyrir uppfinningar sínar á radíósviðinu (m.a.tríóðu-lampann 1907), var þröngvað í gjaldþrot vegna lögsóknarkostnaðar við að vernda einkaleyfi sín. Annar frumkvöðull á radíósviðinu, Edwin Armstrong, sem innleiddi tíðnimótun, þ.e. örbylgjusendingar (FM) varð svo niðurdreginn af því að reyna að verja einkaleyfi sitt fyrir dómstólum, gegn lögmannahópi á vegum RCA, að hann fyrirfór sér. Vissulega hafa nokkrir þessara einfara talið sjálfstæði sitt dýrmætara en svo að þeir hafi látið mótlætið eða ofureflið beygja sig. Tjékkneski innflytjandinn Nikola Tesla, en á meðal þýðingarmikilla uppfinninga hans er þriggja fasa rafmótorinn, mun hafa sagt: ,,Uppfinning er fyrst og fremst einstaklingsframtak. Allt sem hefur yfirburðaþýðingu verður til hjá einstaklingi, óháðum fyrirtæki eða kaupsýslu, - einfara sem, knúinn áfram af hugarflugi staðar og stundar, tekst eitthvað sem engum hefur áður tekist."

Málsvarar hins óháða uppfinnara benda gjarnan á að innan stórra fyrirtækja eigi óhlutbundin og óvenjuleg hugsun ekki upp á pallborðið - hugmyndir sem valdi straumhvörfum verði síður að raunveruleika í slíku umhverfi. Járnbrautarjöfurinn Cornelius Vanderbilt rak George Westinghouse fyrir að hafa dundað sér við að finna upp loftbremsur á flutningavagna; sagðist ekki hafa tíma til að hlusta á svona bjána. General Electric og önnur fyrirtæki vísuðu frá sér hugmynd um vél sem hreinsaði og þurrkaði föt; hugmyndina að þessu nýstárlega þarfaþingi, þvottavélinni, keypti lítt þekkt fyrirtæki, Bendix, sem starfaði auk þess á óskyldu sviði. Bendix græddi tugmilljónir dollara á þvottavélinni. En líklega hefur enginn, fyrr né síðar, tekið jafn ranga ákvörðun og fjármálajöfurinn J.P. Morgan tók fyrir hönd stjórnenda og tæknifræðinga Western Union þegar hann las fyrir eftirfarandi bréf: ,,Hr. Bell, eftir að hafa yfirfarið og metið gaumgæfilega uppfinningu yðar (talsíminn, innsk. þýð.) höfum við komist að þeirri niðurstöðu, þrátt fyrir að hún sé mjög athyglisverð nýjung, að hún hafi ekkert viðskiptalegt gildi og eigi enga möguleika á markaðnum."

Nýjar uppfinningar, nýsköpun, sem unnið er að, utan og óháð stórfyrirtækjum nútímans, eiga sér einkum stað á sviðum sem enginn hefur áður látið sér í hug koma að fara inn á eða talið hafa praktískt gildi, eins og Land gerði með sjálfframkallandi myndavél sinni (Polaroid) - hugmynd sem Eastman Kodak taldi, í fyrstu, lítils eða einskis virði. Engu að síður getur verið gríðarlega erfitt og mjög áhættusamt fyrir einstakling eða smærra fyrirtæki að koma nýrri uppfinningu á markaðinn. Það fékk fyrirtækið Haloid Company (síðar risafyrirtækið Xerox Corporation í Rochester, New York), að reyna þegar það hugðist setja á markaðinn ljósritunarvél sem byggð var á einkaleyfi uppfinnarans Chester Carlson. Carlson, sem var bæði lögfræðingur og tæknifræðingur að mennt, hafði fengið hugmynd að nýrri aðferð við að vélafrita skjöl þegar hann vann fyrir einkaleyfafirma í New York á 4. áratugnum. Aðferðin var frábrugðin öðrum að því leyti að með henni þurfti ekki að nota vökva. Vélin byggðist á því að mynda rafspennu á ljósnæmri plötu og ljósvarpa á hana afmynd t.d. arkar með prentuðum texta. Á plötuna var úðað þurru blekdufti sem, vegna rafspennunnar, festist einungis á dökkum flötum plötunnar en skildi hina eftir hreina. Platan var síðan látin flytja þessa mynd (ljósprenta) yfir á pappírsörk, sem hafði verið rafmögnuð og dró því til sín blekduftið. Carlson hafði þróað aðferðina 1937 og fengið fyrsta einkaleyfið gefið út. Og eins og við var að búast hafði ekki nokkur maður áhuga á þessari tækni, eitt fyrirtæki, A.B. Dick Company afgreiddi Carlson með þeim orðum að ekkert gæti komið í stað sprittfjölritunar. Ár liðu. Á árinu 1944 framseldi Carlson einkaleyfisréttinn að þessari hugmynd sinni til rannsóknarstofnunar í Columbus, Ohio, sem nefndist Battle Memorial Institute. Þar var unnið lítilsháttar að hugmyndinni án þess að nokkur sannfærðist um gildi hennar, - eða þar til fremur lítið fyrirtæki, Haloid Company, sem var að leita að einhverju nýju sem hentaði að framleiða samhliða ljósmyndapappír, aflaði sér kaupréttar á aðferð Carlsons 1949.

Fyrsta ljósritunarvélin (Xerox) sem notaði þurrduft

Og nú mætti ætla að framhaldið hefði verið dans á rósum. Ónei, ekki aldeilis. Það var allt á fótinn og við næstum hvert fótmál biðu þeirra svik, fláræði og fégræðgi. Aðferð Carlsons, fyrir utan að vera á frumstigi, var gagnslaus án vélar sem gæti framkvæmt hana og slík vél átti sér hvorki hliðstæðu né fyrirmynd í heiminum á þeim tíma. Tæknifræðingar Haloid urðu einfaldlega að finna hana upp og smíða - það verkefni var allt of flókið fyrir einn mann - verkefnið stóð óslitið allan 6. áratuginn samtímis því sem forstjóri Haloid, Joseph Wilson, ásamt ráðgefandi lögmanni þess, Sol Linowitz, unnu myrkranna á milli við að tryggja fjármögnun hönnunar, tilrauna og þróunar vélarinnar og ekki síður til að verja og tryggja gildi einkaleyfis Carlsons sem þeim varð stöðugt dýrmætara. (Linowitz er ekki einkaleyfa-lögmaður heldur mjög fær og útsjónarsamur málafærslumaður sem lagði á ráðin og stjórnaði málarekstri Haloid þar til honum lauk). Á meðal þeirra ráða sem Linowitz beitti af kænsku sinni til að verja hagsmuni Carlsons og Haloid fyrirtækisins var að framselja sérstök aukaréttindi varðandi ljósritunaraðferðina til risafyrirtækja á borð við Bell & Howell, IBM og Western Electric. Tilgangurinn var sá að afla fjár til að standa straum af þróunarkostnaðinum og jafnframt að fá aðgang að sérhæfðri tækniþekkingu þessara fyrirtækja en þó án þess að láta af hendi of mikið af lykil-leyndarmálum aðferðar Carlsons.

,,Hver einstakur samningur sem við gerðum við þessi risafyrirtæki un notkun einkaleyfisins", sagði Linowitz síðar, ,,var tvíeggjað sverð. Við þurftum alltaf að vera viðbúnir því að einhver risanna drægi upp tæki sem myndi ryðja okkur út af markaðnum - og gagnvart því, sem var enn hættulegra, að einhver þeirra næði þannig stöðu að hann teldi sig ekki þurfa á okkur að halda og hæfi málaferli til að láta okkur blæða til ólífis .... Þessi risafyrirtæki hefðu ekki verið í neinum vandræðum með að kaupa upp meirihluta hlutabréfa í Haloid hefðu þau haft áhuga, t.d. í því augnamiði að geta ráðskast með einkaleyfið." Það gekk undan og ofan hjá Haloid, stundum virtist ekkert fram undan nema þrítugur hamarinn og vonleysi greip um sig á meðal mannskapsins. Þegar risafyrirtækið RCA tilkynnti, árið 1953, að það hefði þróað alveg nýja afritunartækni, sem það nefndi ,,Electrofax" og virtist mjög vænleg, dró það nánast allan mátt úr starfsmönnum Haloid. Þeir ákváðu samt að þrauka enn um stund. Um þetta leiti voru starfsmenn þróunardeildarinnar að lagfæra ýmsa agnúa á aðferð Carlsons og fullkomna hana m.a. með ýmsum þýðingarmiklum uppfinningum - þeir höfðu, m.a. byrjað að nota vel þekkt frumefni, selen, sem ljósvakinn (photoconductive) einangrara (á afritunartromluna). Þessar uppfinningar voru einkaleyfisverndaðar og lengdu þannig þann einkaleyfistíma, sem Haloid byggði á, umfram gildistíma upphaflegs einkaleyfis Carlsons sem rann út 1959-61. Loks, snemma árs 1960, breytti Haloid nafni fyrirtækisins í Xerox Corporation - og setti á markaðinn hina stórkostlegu Xerox 914 ljósritunarvél, tæki sem hafði í för með sér byltingu í bandarísku atvinnulífi. Á skammri stundu sannfærðist þorri skrifstofufólks um að auðveld ljósritun skjala hafði afgerandi þýðingu. (,,Síðar", segir Linowitz, ,,fannst mér gaman að segja frá því að í þessu dæmi var uppfinningin móðir þarfarinnar en ekki öfugt.") Þegar hér var komið sögu, eftir langa þrautargöngu, fór dæmið að snúast Haloid/Xerox/Carlson í hag; nú fyrst uppskáru þeir laun erfiðisins og peningarnir fóru að streyma inn en ekki einungis út - og inn streymdu þeir svo um munaði. (Það segir ef til vill meira að í Bandaríkjunum er ekki talað um að ,,ljósrita" heldur að ,,Xeroxa". Innsk. þýð.).

Nú á tímum er stærsti hluti einkaleyfa, sem gefin eru út af bandarísku Einkaleyfastofnuninni, veitt stórum fyrirtækjasamsteypum í iðnaði. Umsóknum, sem berast aðalskrifstofunni í Arlington í Virginíu, fjölgar stöðugt. Stofnunin, sem hafði innan við 10 starfsmenn á launum fyrir 200 árum síðan, hefur nú 3200 manna starfslið (um helmingur þeirra fæst einungis við rannsóknir á einkaleyfishæfni umsókna), sem er að drukkna í verkefnum allan ársins hring. Hugvitsmenn, væntanlegir uppfinnarar og vonglaðir stjórnendur fyrirtækja kvarta stöðugt undan því hve langan tíma taki að afgreiða umsóknir um einkaleyfi.

Fyrir nokkrum árum hófust breytingar á vinnsluferli stofnunarinnar sem þegar hafa stytt afgreiðslutíma þannig að uppfinnarar og hugvitsmenn þurfa ekki að bíða nema 18 mánuði eftir einkaleyfi frá því að gild umsókn berst. Á árinu 1989 bárust stofnuninni 163 þúsund umsóknir um einkaleyfi. Sama ár gaf hún út 102 þúsund einkaleyfi sem er met. Á síðastliðnum áratug hefur smám saman verið að greiðast úr þeim frumskógi sem einkaleyfa-lögmenn hafa þurft að fara í gegn um. Markverðustu breytinguna, ,,uppfinningu" sem mest um munar, er án efa að þakka stofnun áfrýjunardómstóls í Washington DC árið 1982 en hann fæst eingöngu við mál tengdum einkaleyfum.

Risafyrirtækin í iðnaði halda uppteknum hætti og berjast hvert við annað en virða einyrkjann, hinn óháða uppfinnara, varla viðlits, hver og hvar sem hann eða hún er. Hinn bráðþroska tölvuiðnaður hefur leitt af sér sérstakt svið einkaleyfa þar sem ágreiningsmál og vafaatriði eru annars eðlis, tæknilegri og sérhæfðari en mörg þeirra einkaleyfa hafa auk þess alþjóðlega þýðingu. Á öðrum tæknisviðum hefur baráttan harðnað og orðið afdrifaríkari. Árið 1987 vann bandaríska Corning Glass Works dómsmál gegn risafyrirtækinu Sumitomo Electric Industries í Japan vegna brots gegn einkaleyfi við framleiðslu á ljósleiðurum og í kjölfarið neyddist Sumitomo til loka iðjuveri sem framleiddi þessa vöru. Matsmenn og prófarar bandarísku Einkaleyfisstofnunarinnar verða að vera færir um að setja sig inn í málefni sem fjalla um leisigeisla, kjarnasamruna, flóknustu líftækni og önnur fræði á breiðu sviði. Starf þeirra er liður í vísinda- og tækniþróun nútímans og þeirri nytjalist sem heldur markaðsþjóðfélaginu við efnið. Hætt er við að þeir sem hrundu Einkaleyfastofnuninni af stokkunum á sínum tíma, tryðu varla sínum eigin eyrum, væri þeim sagt frá umfangi hennar nú.

Þessar 10 uppfinningar breyttu veröldinni:

1. BAÐMULLARSKILJAN, 1794. Baðmull var ekki mikilvæg uppskera í Suðurríkjunum fyrr en Eli Whitney fann upp og smíðaði vél til að skilja fræin frá baðmullinni. Vélin varð til þess að koma fótunum undir stórbændur, baðmullarkónga; þrælahald varð ábatasamara og leiddi til Þrælastríðsins.

2. SAUMAVÉLIN, 1846. Með þessari uppfinningu Elias Howe vélvæddist fatagerð og fataiðnaðurinn varð til. Um saumavélina var gert fyrsta viðskiptasamspil (patent pool) um einkaleyfi sem er jafnframt fyrsta einkaleyfið sem gerir uppfinnara og fjármagnara að milljónamæringum (á meðal þeirra voru Elias Howe og Isaac Singer).

3. GADDAVÍRINN, 1874. Timburgirðingar voru ekki á færi bænda á víðáttumiklum, skóglausum sléttunum. Með uppfinningu Joseph Glidden, gaddavírnum, gátu eigendur búgarða, í fyrsta sinn, haldið nautgripahjörðum aðskildum. Árið 1887 seldust 173 þúsund tonn af gaddavír í Bandaríkjunum sem þá voru að verða numin á milli austur- og vesturstrandar.

4. TALSÍMINN, 1876. Fjármálajöfurinn J.P. Morgan sagði að uppfinning Alexander Gramham Bell, myndi aldrei skila gróða, en fyrirtækið sem byggði á henni, AT&T, var stærsta fyrirtæki veraldar þegar alríkisdómstóll knúði það til sundurgreiningar 1984 á grundvelli hringamyndunarlaganna eftir að stjórnvöld höfðu stefnt fyrirtækinu.

5. LJÓSAPERAN, 1880. Hún hefur orðið alþjóðlegt grafískt tákn fyrir hugmynd. Samt sem áður varð glóperan til í meðförum óskipulagðs hóps. Einkaleyfið varð ekki verðmætt fyrr en Thomas Edison og starfsmenn hans höfðu fundið upp heilt veitukerfi til að knýja peruna.

6. VÉLBYSSAN, 1890. Einhver stakk því að Hiram Maxim, ,,að hann fyndi upp eitthvað sem gerði þessum Evrópumönnum kleift að drepa hver annan með meiri afköstum." Stríð varð aldrei samt upp frá því.

7. BÍLLINN, 1895. Hvorki Henry Ford né George B. Selden fann hann upp en Selden var nægilega klókur til þess að verða fyrstur til að sækja um einkaleyfi og fá það. Þannig hafði hann hreðjatak á heilli framleiðslugrein - þar til Henry Ford hafði hann undir í málaferlum 1911 - tveim árum áður en einkaleyfið rann út.

8. FLUGVÉLIN, 1906. Wright bræður sýndu heiminum hvernig hægt var að fljúga. Þeir leiddust út í málaferli, til varnar einkaleyfi sínu, gegn frumherjum í flugvélasmíði á borð við Glenn Curtiss. Orville Wright var þeirra skoðunar að taugaslítandi málaferli hefðu flýtt fyrir dauða bróður hans, Wilburn, sem lést 1912 aðeins 45 ára.

9. ÞURRLJÓSRITUN, 1942. Chester Carlson þróaði hugmyndina ásamt aðstoðarmanni á rannsóknarstofu við frumstæðar aðstæður. 1946 öðlaðist lítið fyrirtæki, Haloid, rétt til að nota einkaleyfið og þróa það frekar. Sextíu milljónum dollara og fjórtán árum síðar gat fyrirtækið sett fyrstu þurrdufts-ljósritunarvélina á markaðinn og breytti nafni sínu um leið í Xerox (sem mun þýða tvífari á grísku, eða því sem næst).

10. SMÁRINN, 1950. John Bardeen, Walter Brattain og William Shockley hjá AT&T Bell Laboratories fundu upp smárann (transistorinn), sem ásamt síðari afleiðu, samrásinni, er grundvöllur allrar rafeindatækni dagsins í dag.


Um höfundinn:
Oliver E. Allen er þekktur bandarískur rithöfundur. Hann hefur þegar skrifað á annan tug bóka. Á meðal þeirra er ,,The Tiger: The Rise and Fall of Tammany Hall", sem gefin var út af Addison-Wesley 1993.


Um þýðinguna:
Grein þessi nefnist á frummálinu: ,,The Power of Patents". Hún birtist í sérstöku hefti, ,,Great Inventions that Changed the World" sem fylgdi tímaritinu ,,American Heritage of Invention & Technology" haustið 1994. Útgefandi er American Heritage/Forbes Inc. N.Y. U.S.A. Skýringarteikningar einkaleyfa eru í upphaflegu greininni en þær eru fengnar með sérstöku leyfi frá U.S. Patent and Trademark Office. Aðrar myndir með þessari grein hafa áður birst í tímaritinu ,,American Heritage of Invention & Technology. (Subscription Office, P.O. Box 5338. Harlan IA 515-2838.U.S.A.). Þessi grein birtist upphaflega í íslenskri þýðingu í tímaritinu Bílnum. Þýðing: Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur Netfang.