Og nú skal Íslandssagan lúta lögmálum markaðarins!

Fíflagangurinn í kringum Íslending, trébát sem er vönduð eftirlíking báts eins og talið er að hafi verið notaðir á landnámsöld, virðist engan endi ætla að taka. Ástæðan er góðar viðtökur sem báturinn fékk á austurströnd Bandaríkjanna - þar sem Íslendingur var, af rómantískum og viðskiptalegum ástæðum, kynntur sem víkingaskip frekar en farþega- og flutningaskip. Og nú hafa Keflvíkingar keypt Íslending og ætla að nota sem uppistöðu og aðdráttarafl fyrir ,,víkingabæ" og ,,víkingasafn" sem hvort tveggja er neyðarleg sögufölsun í höndum lítt lesinna braskara.

Þegar ég var í barnaskóla (en það var á árunum 1948 - 1954) var okkur m.a. kennt að Íslendingar væru afkomendur manna sem hefðu flúið undan ofríki herkonunga í Skandinavíu; - friðsamra bænda, aðallega af Sunnmæri í Noregi, sem ekki gátu sætt sig við að sleikja tærnar á einhverjum drullusokkum sem höfðu verið dubbaðir upp í að vera kóngur. Þessir ,,flóttamenn" voru greinilega of miklar liðleskjur til að berja frá sér (minni áhersla var lögð á þann ræfildóm).

Innrætingunni fylgdi ávalt það viðhengi að Íslendingar hefðu aldrei verið víkingar, héðan hefðu aldrei verið gerð út víkingaskip til að rupla, ræna og nauðga konum í öðrum löndum - það hlutverk var eftirlátið ,,frændum" okkar í Danmörku og Noregi (og gott ef ekki var minnst á Svíþjóð sem enginn virtist þekkja að ráði í þá daga). Í framhaldi var okkur kennt hvílík varmenni og skítalýður víkingar hefðu verið - og til að undirstrika það var okkur kennt ýmislegt um heldur illa þokkaða gesti, sjódraslara sem hingað bar að garði - nema nú hétu þeir ,,Hundtrykinn" - tyrkneskir sjóræningjar (en ekki tyrkneskir víkingar!). Nú 50 árum seinna sé ég að þeir sem stjórnuðu menntamálunum og heilaþvættinu á þeim tíma unnu samkvæmt langtímaáætlun; - tyrkneskir sjóræningjar voru vondir kallar en víkingar hins vegar eitthvað sem tengdist menningu forfeðranna en með ævintýraljóma: Víkingar voru ekki það sama og tyrknesk ómenni sem svívirtu fólk. Það var greinilega verið að búa okkur undir framtíðina!

Og ég og fleiri ólumst upp við þá sögulegu staðreynd að Íslendingar hefðu aldrei lagst svo lágt að stunda sömu iðju og hundheiðnir Tyrkir (og víkingar) - að herja með vopnum á saklaust varnarlaust almúgafólk í fjarlægum löndum, ræna það aleigunni og hneppa jafnframt í þrældóm. Hvað þá að nokkur sannur Íslendingur myndi hreykja sér af slíkum verkum.

En markaðurinn,- hinn nýi Mammon, hefur áhrif. Nú 50 árum seinna er komin upp ný staða í málinu. Víkingar eru ,,in" eins og það heitir á máli nútímafólks sem aðhyllist ,,Markaðinn" sem hið nýja goð. Nú er áhugi erlendis fyrir víkingum - því þeir þykja smart; taka með krafti það sem þá langar í (en það heitir að kunna að bjarga sér á nútímamáli - skítt með þótt valtað sé yfir einhvern). Og allt í einu erum við þessir gamlingjar, sem vorum skólaðir upp á gamla úrelta mátann, - en okkur var kennt að Íslendingar hafi aldrei stundað víkingu, - orðnir gamaldags og púkó. Víkingaskip er smíðað, sett í það vél sem lítið ber á og áhöfn fengin og haldið, eins og ,,víkingarnir", yfir Atlantshaf til Ameríku (þar sem stóri markaðurinn er) alveg eins og víkingarnir (sem nú heita Íslendingar af hagkvæmisástæðum). Auðvitað er lítið talað um fylgdarskipið með ratsjá og áttavita (hver veit nema þessir víkingar hafi haft fylgdarskip með ratsjá og áttavita - hvern varðar um það þegar peningar, frægð og umfjöllun fjölmiðla er annars vegar?)

Og svo tala íslenskir sagnfræðingar, með sérstakri fyrirlitningu, um ýmsar breytingar sem Sovétmönnum hafi þótt henta að gera á mannkynssögunni á ákveðnu tímabili vegna þess að hún hafi ekki hentað marxískum markmiðum?

Hvað segja þeir um nýjustu breytinguna á sögu Íslendinga, breytingu sem gerð er með fulltingi Utanríkisráðuneytisins, þar sem beinlínis er gefið í skyn (af hagkvæmnisástæðum) að í Bandaríkjunum sé fólki aldeilis óhætt að setja samasemmerki á milli Íslendinga og víkinga?

Það hefur oft læðst að mér sá grunur að við Íslendingar séum rígmontnir og hégómlegir. Nú finnst mér blasa við að við séum einnig athyglissjúkir asnar sem myndum gera hvað sem er fyrir peninga.

Hins vegar skal ég verða fyrstur manna til að taka ofan fyrir skipasmiðnum sem byggði Íslending og þorði að sanna gæðin með því að sigla honum til Ameríku frá Íslandi. Fyrir honum hefur örugglega vakað að leggja íslenskri menningu til nákvæma eftirlíkingu af farkosti sem flutti landnámsmenn frá Noregi og eyjunum við Skotland á sínum tíma. Eflaust hefur honum, eins og mörgum landsmönnum, fundist það sjálfsagt menningarmál að íslenska ríkið tæki því með þökkum að fá að kaupa Íslending af honum til að auðga íslenska menningu og um leið til að veita honum verðskuldaða viðurkenningu fyrir framtakið. Skipasmiðnum varð hins vegar á ein reginskissa sem næstum því kostaði hann aleiguna: Hann fékk forseta Íslands til þess að vera stafnbúa við fyrstu kynningu Íslendings í fjölmiðlum. Samkvæmt íslenskri þrætubók, þar sem sálarflækjur pólitíkusa eru alltaf ofar almannahagsmunum, varð framtakið þar með að ,,allaballafyrirtæki". Þar með var skipasmiðurinn kominn á ,,aftökulistann" hjá forsætisráðherra sem hefði orðið þeirri stund fegnastur að Íslendingur hefði verið boðinn upp í Bandaríkjunum og settur á Disneyland og notaður sem íssjoppa.

Og vegna þessa slæma byrjunarleiks skipasmiðsins var um leið girt fyrir að ,,eigendur Íslands" í stjórn Eimskips gætu sýnt af sér þann myndarskap að kaupa Íslending - jafnvel þótt á hann vanti ,,Engeyjarlagið" - þótt fátt hefði hæft ,,Óskabarni þjóðarinnar" betur til að leggja íslenskri menningu lið.

Vegna þessa afleiks skipasmiðsins í opnun taflsins verða örlög Íslendings þau að verða hluti af sögufölsunarmáli lítt lesinna braskara í Keflavík.

OG BÆTA NÚ UM BETUR ...

Í Morgunblaðinu í september 2002 birtist heilsíðugrein frá Suðurnesjum með fyrirsögninni ,, Landnámsþorp lífvætt með fólki að störfum". Þar segir frá því að Keflvíkingingar hafi fengið þá snjöllu hugmynd að byggja landnámsþorp í Njarðvík þar sem m.a. skuli koma víkingaskipinu Íslendingi fyrir í sérstöku húsi. Markmiðið er að laða að ferðamenn og hafa af þeim tekjur með víkingakúnstum. Arkitekt hafði þegar gert uppdrátt af herlegheitunum og nú skyldi víkingamenningin markaðsett.

Seinheppni Keflvíkinga er við brugðið. Þeir hafa aldrei þótt vera mikið fyrir bókina (þótt þeir eigi ágætt bókasafn) en staðið sig því betur í boltaleikjum og poppi. Hvernig áttu þeir greyin að vita að þorp voru engin á Íslandi á landnámsöld og heldur engir víkingar?

Í riti Dr. Björns Þorsteinssonar ,,Ný Íslandssaga, þjóðveldisöld" sem út kom 1966 segir á bls. 150:

,,Víkingaferðir fóru Íslendingar einkum með Norðmönnum á 10. og 11. öld eða gerðu út slíka leiðangra frá norska ríkinu. Ókunnugt er um það, að skip hafi siglt héðan til sjórána eða árása á önnur lönd á miðöldum."

Rannsóknir hafa leitt rök að því að landnám Íslands (870 - 930) hafi tekist friðsamlega þótt það hafi átt sér stað á víkingaöld á Norðurlöndum (800-1050) og þess er sérstaklega getið að engar vísbendingar sé að finna um myndun þorpa eða þéttbýlis á Íslandi eins og þá voru í Noregi, Englandi, Skotlandi og á eyjunum fyrir vestan og sunnan Skotland. Fjölmargar bækur hafa verið gefnar út um rannsóknir á landnámi Íslands þar sem ein af sameiginlegum niðurstöðum er að víkingamenning hafi aldrei verið hérlendis né þorpslifnaður. Auk Björns Þorsteinssonar hafa Jón Aðils, Páll Eggert, Jón Jóhannesson, Hermann Pálsson að ógleymdum Magnúsi Magnússyni heiðursrektor í Skotlandi og fleiri skrifað um þessi mál. Þá má benda á merkilega grein Halldórs Laxness í bók hans Íslendingaspjalli sem hann nefnir Víkingar (8. kafli) en þar bendir Halldór m.a. á að Ari Þorgilsson (braskarar í Keflavík hafa ef til vill heyrt hans getið sem ,,Ara fróða") nefni ekki víkinga á nafn í Íslendingabók sinni.

Á að horfa upp á það þegandi að braskarar í Keflavík, í krafti vanþekkingar, geri Íslendinga að athlægi með því að ljúga því að útlendingum að hér hafi verið víkingabæli til forna?

Umræðuhornið

Stungið á fleiru

Frásagnir

Berchtesgaden. Strand Jamestown. Lýsing Hafnahrepps. Saga uppfinninga, Saga skriðdrekans, ofl