Gæðastimpill?

Í Þýskalandi starfar tæknieftirlitsstofnun sem nefnist ,,Technisher Überwachungs Vereinigte", í daglegu tali TÜV . Þetta er samheiti yfir mörg sjálfstæð fyrirtæki sem starfa í helstu sambandsríkjunum. Margir munu kannast við að hafa séð bílavörur auglýstar eða kynntar sem TÜV-viðurkenndar. Sem ritstjóra Bílsins í um 15 ára skeið bárust mér ýmsar tilkynningar um nýjungar í bílavörum og oft var þess getið að viðkomandi vara væri ,,viðurkennd" af TÜV eins og það var oftast orðað. Stundum fylgdu með miklar skýrslur frá þessari stofnun sem kynnir sig á ensku sem: ,,An international testing and certification organization." á einni af mörgum vefsíðum (www.tuev-nord.de).

Árið 1995 setti breska fyrirtækið Lemark á markaðinn nýja gerð af kertaþráðum sem nefndust ,,Hotwires". Einn helsti kostur þessara sílikon-einangruðu kolþráða, sem í upphafi voru appelsínugulir á litinn, var tengikerfi sem gerði kleift að búa til kertaþráðasett úr 19 þráðum sem passaði fyrir hvaða vél sem var - eins og það var auglýst. Auk þess sem tengiskórnir voru einkaleyfisvernduð hönnun fylgdi með í kynningunni að framleiðandi Hotwires væri jafnframt fyrstur framleiðenda kertaþráða til að fá gæðavottorð frá þýsku stofnuninni TÜV .

Jafnframt var tekið fram í tilkynningu frá framleiðanda Hotwires, Lemark, að kertaþræðirinir hefðu fengið hæstu einkun í samanburðarkönnun á gæðum sem gerð hafði verið á vegum breska tímaritsins ,,Auto Trade" og fylgdu niðurstöður tímaritsins með. Á tímabili fletti maður ekki svo bresku bílatímariti að þar blasti ekki við auglýsing um Hotwires kertaþræði.

Frá því er skemmst að segja að ekki höfðu rauðgulu Hotwires kertaþræðirnir verið á markaði hérlendis nema rúmt ár þegar bílaverkstæði voru farin að rekja ýmsar gangtruflanir til þeirra og oftar en ekki fólst viðgerðin í því að rífa nýlega Hotwires úr og fleygja þeim.

Einhvern pata virtist framleiðandinn hafa haft af því að gæði vörunnar væru ekki sem skyldi - þrátt fyrir að hafa keypt ,,vottun" af TÜV. Tilkynning barst seljendum um að innkalla skyldi alla óselda rauðgula Hotwires og farga. Í staðinn kæmu svartir Hotwires. Og fylgdi mikil auglýsingaherferð í kjölfarið. Þeir svörtu reyndust lítið betri en rauðgulu kertaþræðirnir. Á vegum Bílsins var sú prófun framkvæmd að nýir svartir Hotwires voru settir á vél í Renault Clio og þeir vatnsvarðir með sílikonefni. Vélin var gangsett, látin ganga lausagang og úðað vatni yfir kertaþræðina. Vélin drap á sér. Þegar sama var gert með upphaflegu kertaþræðina í (4ra ára gamla) gekk vélin án þess að hiksta.

Fljótlega upp úr þessu var hætt að bjóða Hotwires kertaþræðina hérlendis. Eftir stendur spurningin: Hvaða gæði Hotwires var TÜV að votta ?

Leó M. Jónsson