Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur:

Toyota Tundra Double Cab 2006

Þeir sem eru komnir yfir miðjan aldur þekkja margir til í Luxemborg - en þangað var farið á árum áður til að hefja ferðalag um Evrópu (flug og bíll). Þeir sem óku út úr Luxemborg á bílaleigubíl í áttina að Moseldalnum fóru í gegn um útbæinn Wasserbillich um þjóðveginn þar sem voru bílasölur, bílaumboð, bensínstöðvar og þjónustuverkstæði á báðar hendur, hlið við hlið, á um 5 km löngum beinum kafla - en þarna var miðstöð bílaviðskiptanna Luxemborg - öll á einum stað og hagræðið af því augljóst - ekki síst nú þegar umhverfisgát er ein af forsendum skipulags og reksturs slíkra fyrirtækja í sveitarfélagi.

Selfoss er að verða vísir að miðstöð bílaviðskipta á Suð-vesturlandi. Nú fer fólk á Selfoss af höfuðborgarsvæðinu til að kaupa bæði nýja og notaða bíla. Á Selfossi hafa skapast sérstakar aðstæður fyrir bílaviðskipti sem eru farin að setja ákveðinn svip á bæinn. Þar má t.d. kaupa fleiri gerðir af nýjum Toyota pallbílum en á höfuðborgarsvæðinu.

Hjá Toyota-salnum, sem er glæsilegt stórhýsi á hægri hönd þegar komið er að Selfossi úr norðri, má kaupa nýjasta Toyota Hilux sem nú er tekinn við hlutverki ,,Talibanatrukksins". Í sama húsi er Bílasala Suðurlands sem jafnframt er með gríðarlegt úrval notaðra bíla, og ein fárra bílasala landsins sem sérhæfir sig í fjórhjóladrifsbílum og er með vel skipulagt plan með nægt rými fyrir skoðunarumferð. Spölkorn neðar við sömu götu er glæsileg verslunar- og þjónustubygging IB þar sem boðið er upp á nýja stærri ameríska pallbíla, m.a. þann stærsta frá Toyota sem er Tundra - framleiddur í Indiana í Bandaríkjunum ("Pallbíll ársins 2000").

Toyota Tundra er bæði stór, kraftmikill og glæsilegur vinnubíll. Með 282 ha V8 og miklum aukabúnaði kostaði hann um 4. mkr. hjá IB í byrjun október 2005.

Stærri - flottari - þægilegri
Tundra er byggð á sama hefðbundna hátt og Hilux með grind, klafafjöðrun að framan með gormum og stífri afturhásingu með blaðfjöðrum. Húsið á "DoubleCab" er með venjulegum afturhurðum sem opnast vel og þolir samanburð við marga 4ra dyra fólksbíla; framstólar (40/60 staðalbúnaður) eru vel bólstraðir og þægilegir og aftursætið er fullboðlegt hverjum sem er, jafnvel í lengri akstri og er það stór framför frá því sem var. Innra rými er þægilegt fyrir 5 og meira lagt í innréttinguna en maður hefur átt að venjast í pallbílum Toyota. Frágangur er áberandi vandaður. Þá er, eins og títt er um bíla sem ætlaðir eru bandarískum markaði, þæginda- og lúxusbúnaður hvergi skorinn við nögl.

En eins og vill verða með ameríska pallbíla er Tundra ekki lipur bíll til snattferða í þéttbýli enda er þetta eins konar lúxus-vinnubíll - maður snýr þessum bíl ekki á punktinum því til þess þarf hring með tæplega 15 metra þvermáli eigi öryggi að vera sæmilegt. Þótt mér finnist það ókostur hve þessi Tundra DoubleCab er langur (og nýr Tundra af árgerð 2007 mun verða enn lengri) eru hreyfingar bílsins þægilegar; því veldur mikið hjólhafið því ekki er fjöðrunin mjúk; rásfesta er ágæt, bíllinn er lítt næmur fyrir hliðarvindi og tannstangarstýrið, sem er með átaksstýringu í ákveðnu hlutfalli við snúningshraða vélarinnar, en þó á afmörkuðu sviði, bætir aksturseiginleikana, t.d. þannig að jafnvel 350 km akstur í einni striklotu þreytir mann ekki að ráði.

"Kvartmíluvél"
Toyota Tundra er með bensínvél, annað hvort 245 ha 4ra lítra V6 - en það er sama vélin og er í LandCruiser eða 4,7 lítra V8-vél. Báðar eru með tímakeðju. V8 vélin er, frá og með árgerð 2005, sú sama og er í fólksbílnum Lexus með 4 ofanáliggjandi kambása, 4 ventla á hverju brunahólfi, beinni innsprautun og breytilegum ventlatíma svo það helsta sé nefnt. Aflið er 282 hö við 5400 sm. Hámarkstog er 450 Nm við 3400 sm.

Eins og við er að búast af bandarískum bíl er Tundra fáanlegur með öllum hugsanlegum lúxusbúnaði. Inréttingin er bæði vönduð og sérlega glæsileg.

Aflið vantar ekki hjá þessum pallbíl frá Toyota, svo mikið er víst. Reyndar segja tölurnar um afköst vélarinnar ekki nema hálfa söguna. Svo dæmi sé nefnt er viðbragð við inngjöf sneggra en gengur og gerist með amerískar V8-vélar og eru þó flestar þær nýrri líflegar - en þessi slær þeim við. Tölvustýrð 5 gíra sjálfskipting með yfirgír eykur snerpuna sé henni er beitt í því augnamiði og þótt það kunni að hljóma ótrúlega fer þessi rúmlega 2ja tonna óbreytti pallbíll kvartmíluna á um 16 sekúndum! Að vélin skuli vera sú sama og í Lexus, sem verið hefur 11 ár í röð í efsta sæti á lista J.D. Power yfir þá bíla sem sjaldnast bila á bandaríska markaðnum, er betri trygging en miklar yfirlýsingar á prenti.

Drifbúnaður - eyðsla
Athygli er vakin á því að skráð leyfileg heildarþyngd Toyota Tundra Pickup er 2990 kg - honum má því ekki einungis aka með 90 km hámarkshraða heldur nægja venjuleg ökuréttindi (mörkin eru við 3500 kg). Dráttargetan er tæp 3100 kg sem nægir flestum verktökum, bændum og hestafólki. Þilplötur af staðlaðri breidd rúmast á milli hjólskálanna á pallinum.

Með V8-vélinni og sjálfskiptingu er staðlaða drifhlutfallið hjá DoubleCab 3,92:1. Rafskiptur millikassinn er með 2,57 niðurfærslu í lága og hægt að skipta í fjórhjóladrif á fullri ferð (upp undir 100 km/klst). Afturhásingin er með seiglæst mismunardrif sem maður stjórnar sjálfur með rofa og finnst mér það kostur. Að öðu leyti fjölyrði ég ekki um fjórhjóladrifsbúnaðinn - hann er sígilt Toyota-kram (hlutadrif með múffuloku í framdrifi) sem engan svíkur. Að- og fráhorn eru 27°/23°.
Það má eflaust aka Tundra, með þessari silkimjúku "kvartmíluvél" úr Lexus, þannig að sýna megi eyðslu upp á 13 lítra í lengri akstri. En mín tilfinning segir mér að þetta sé 16 lítra bíll í blönduðum akstri og það finnst mér ekki mikið fyrir svona snerpu.

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar