Toyota Tacoma Pickup 4x4

Toyota Tacoma af árgerð 2006 er 2. kynslóð - nýr og breyttur bíll. Hann er framleiddur í Bandaríkjunum sem þýðir að Toyota-umboðið á Íslandi fær ekki að selja bílinn þrátt fyrir eftirspurn. Seljandi þessa bíls sem hér er til prófunar er IB á Selfossi. IB selur bílinn með lögbundinni ábyrgð samkvæmt íslensku kaupalögunum (2 ár). IB rekur rekur jafnframt fullkomna þjónustumiðstöð á Selfosi sem er sérhæfð í þjónustu, bilanagreiningu og vélarstillingum fyrir bandaríska bíla, þ.m.t. jeppum og pallbílum auk þess að selja, panta og útvega varahluti og búnað í bandaríska bíla. Ath. á töflu neðar í greininni er að finna helstu tækniupplýsingar um Tacoma ásamt samanburði við nýja Hilux og Tundra.

Vegna krafna bandaríska markaðarins (og íslenska) hafa japanskir bílaframleiðendur boðið stærri pallbíla á borð við nýjan Toyota Tacoma af 2. kynslóð sem er fjórhjóladrifnn bíll með farangurs- og flutningsrými með skúffu - pallbíll sem breyta má í "station" með pallhúsi. Eins og gildir um bandaríska pallbíla er Tacoma með sparneytnustu bílum sinnar gerðar miðað við stærð og þyngd en hann telst vera af minni gerð í Bandaríkjunum enda nettur við hlið þeirra stærstu; - ferlíkja sem geta dregið allt að 6 tonna vagna en þeir sem eru stórtækari í hestamennsku þurfa iðulega að draga svo þunga vagna. Notagildi fjórhjóladrifinna pallbíla með farþegarými fyrir 3-5 vill gleymast en slíkir bílar uppfylla þarfir nútímafjölskyldu fyrir hvers konar flutning og frístundaiðju.

Eins og við er að búast er Tacoma, sem framleiddur er í Kaliforníu, stór í samanburði við japanska pallbíla - en þó ekki stærri en Ford Ranger 4x4 sem verið hefur metsölu-pallbíllinn í Bandaríkjunum. Nýi Toyota Tacoma er nú álitinn skæðasti keppinautur hans og þá einkum af tveimur ástæðum: 4ra lítra V6-vélin er 85 hö öflugri en V6-vélin í Ranger eða 245 hö við 5200 sn/mín og innrétting, sem er áberandi vönduð og með jafn miklum þægindabúnaði og boðið er upp á í bandarískum bílum. V6-bensínvélin í Tacoma er sú sama og er í Toyota LandCruiser á bandaríska markaðnum og innréttingin reyndar einnig sú sama, a.m.k. í stórum dráttum.

Toyota Tacoma með 2ja dyra húsi. Sá sem hér er til umfjöllunar er með sama hjólhaf en styttri gerð af skúffu og er4 4ra dyra (DoubleCab) og með sæti fyrir 5.

Fyrsta kynslóð Tacoma kom 1995. Önnur kynslóðin hefur fengið betri viðtökur í Bandaríkjunum en aðrir pallbílar frá Toyota. Tímaritið Motor Trend útnefndi Tacoma "Pallbíl ársins 2005". Önnur tímarit hafa tilnefnt hann sem "Bestu kaupin" auk þess sem samtök bílablaðamanna í Kanada völdu Tacoma sem "Besta nýja pallbílinn 2005".

Í 2ja dyra Tacoma er eins konar bekkur sem nota má sem sæti í styttri ferðum. Kostur er að seturnar má rétta upp og mynda þannig talsvert geymslurými. Í 4ra dyra DblCab er hins vegar fullkomið aftursæti.

Hönnun og bygging Tacoma er hefðbundin. Byggt er á þrautreyndum lausnum sem gert hafa Toyota-pallbíla sérstaklega endingargóða. Nýi Tacoma er lengri, með meira hjólhaf, breiðari og rýmri að innan en fyrirrennarinn. Og nú býður Toyota loks vélarafl sem svarar kröfum bandaríska markaðarins (og þess íslenska). Tacoma er þægilegur bíll í akstri, liprari en flestir pallbílar þrátt fyrir stærð, leggur t.d. betur á og er sparneytinn (13-14 lítra meðaleyðsla) þrátt fyrir stærðina og vélaraflið.

Þessi Tacoma frá IB á Selfossi var með lengra hjólhaf, styttri gerð af skúffu en 4ra dyra húsi með sætum fyrir 4 farþega auk bílstjóra, þ.e. hann er með 2 stóla fram í (en má sérpanta með tvískiptum bekk). Innréttingin er klædd með ljósdrapplitu mjúku leðri, með þykku Wilton-gólfteppi og búinn öllum helsta þæginda- og öryggisbúnaði og kostar þannig (í nóv. 2005) tæpar 3,4 mkr.

Á meðal þess sem mér finnst Tacoma hafa umfram marga pallbíla, og sérstaklega umfram þá stærstu, er lipurðin - hann er nánast í akstri eins og stærri fólksbíll. Mest munar um hve vel hann leggur á stýrið (sjá töflu), líflega og létta vinnslu vélarinnar, sem jafnframt er einstaklega hljóðlát og laus við titring, og betri bremsur en í mörgum, ef ekki öllum, palljeppum fram að þessu. Í akstri má greinilega merkja þau áhrif sem meira hjólhaf og tannstangarstýrið hafa á stöðugleikann og rásfestuna. Þetta finnst ekki síst í lengri keyrslu með því hve lítið maður þreytist undir stýri. Í fljótu bragði mætti ætla að að framstólarnir væru með of grunna setu til að vera þægilegir en þeir leyna á sér - vegna þess hvernig bakið er formað, til að veita stuðning til hliðanna, sýnist stóllinn vera grynnri en hann er - þegar til kastanna kemur er leitun að þægilegri stöðu undir stýri. Fjöðrunin er nokkru mýkri en á nýja Hilux - munurinn er þó ekki meiri en svo að hann gæti legið í mismunandi dekkjum en þrýstingur var mældur í báðum tilvikum (28 pund en á að vera, að lágmarki, 32 pund).

Öll innréttingin í Tacoma kemur mér fyrir sjónir sem mun vandaðri en gengur og gerist í pallbílum japanskra framleiðenda - ég sé t.d. lítinn mun á leðurklæddri innréttingunni í Tacoma og innréttingunni í Lexus.

Og af því ég bar nýja Tacoma saman við Ford Ranger sem verið hefur mest seldi pallbíllinn í Bandaríkjunum í brátt 2 áratugi - má geta þess að auk meira vélarafls (þrátt fyrir sama slagrými) er klafafjöðrunin að framan (gormar) betri í Tacoma en í Ranger sem er með liðhásingu að framan (Dana 35); hún er mýkri í Tacoma og dýpri misfellur og lægðir í vegyfirborði mynda minni högg í undirvagni og hafa ekki eins mikil áhrif á stýrið og hjá Ford Ranger - Tacoma er því þægilegri og þrátt fyrir meira vélarafl er meðaleyðslan svipuð í blönduðum akstri. Það vill svo til að samanburður er auðveldur því ég á sjálfur lengri gerðina af Ford Ranger 4x4 með 4ra lítra V6-vélinni, 5g handskiptan, sem eyðir í blönduðum akstri um 13 lítrum (og svo öllu sé nú til skila haldið þá er minn bíll fluttur inn af umboðinu).

 

 

 

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar