Nýr Toyota Hilux af 6. kynslóð

Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur.

Toyota Hilux Pick-up , sem var frumsýndur1967, hefur upp frá því verið á meðal mest seldu vinnubíla veraldar. 1983 kom endurhönnuð gerð og aftur 1989 þegar hann var fyrst fáanlegur með 150 ha V6-bensínvél og með 4ra dyra húsi (SR5/DoubleCab). Nú hafa 12 milljón stykki hafa runnið af færiböndunum hjá Toyota.

Árgerð 2005/2006 er 6. kynslóðin - talsvert breyttur og stærri en samt í aðalatriðum sami einfaldi, sterkbyggði og vandaði vinnubíllinn. Byggingin er hefðbundin; efnismikil stigagrind, klafar/gormar að framan (ný og breytt útfærsla) en stíf hásing með blaðfjöðrum að aftan. Nú er tannstangarstýri (hlutf. 19,4/3,72 hringir b-b), 297 mm bremsudiskar að framan (25 mm þykkir) en 295 mm skálar að aftan. ABS-læsivörn er á afturhjólum og bremsurnar með sjáfvirka átaksjöfnun á milli fram- og afturhjóla eftir hleðslu bílsins.

Kraftmikil dísilvél
Hilux 4x4 er með 2,5 lítra 16-ventla 102ja ha túrbódísilvél, 5 gíra beinskiptan kassa, fernra dyra 5 manna húsi og ríflega 1,5 m palli. Þessi dísilvél mun koma mörgum á óvart: Hún er með tvo ofanáliggjandi kambása, beina innsprautun frá forðagrein og þjöppunarhlutfall 18,2 :1. Vélin er miklu öflugri en ég átti von á enda gónir maður gjarnan á hestaflatöluna; 102 hö við 3.600 sm. Margir Hilux-eigendur vita þetta hins vegar því sama vél hefur verið við lýði frá og með árgerð 2002. Viðbragð við inngjöf er snöggt, vélin rýkur upp í snúningi. Togið er mest 260 Nm og jafnt frá 1.600 og upp í 2.400 sm. (Ný 3ja lítra túrbódísilvél er væntanleg að ári. Hún er þegar í boði annars staðar, t.d. í Ástralíu. Sú vél er með 60% meira afl og rúmlega 30% meira tog!).

2,5 lítra dísilvélin er mikil framför miðað við þá eldri 2,4ra lítra en með henni var Hilux (Talibana-trukkurinn) ótrúlegur sleði - jafnvel eftir að pústþjappan kom. Sá nýi er fyrsti Hilux með dísilvél sem er kraftmikill vinnubíll. Dísilvélin er laus við titrun og áberandi þýðgeng og hljóðlát. Hámarkshraði er 150 km/klst. og snerpan 17-18 sek. frá kyrrstöðu í 100 km/klst. (12,7 sek með 3ja lítra dísilvélinni).

Þægilegri gírkassi
Ef lýsa ætti helsta mun á nýja Hilux og þeim eldri fyrir utan útlitsbreytinguna, sem er veruleg og alls ekki öruggt að öllum þyki til bóta, er sá nýi með meiri fólksbíla-eiginleika jafnframt því að vera öflugri vinnubíll. Á meðal þess sem gerir bílinn þægilegri er nýr 5 gíra kassi - beinskipting sem er eins og í venjulegum fólksbíl; auk þess að vera lipur hentar stikun gíranna umferð í þéttbýli (4,3 - 2,3 - 1,4 - 1,0 og yfirgír 0,838). Þá miða ég við upprunaleg dekk (29" á 15" felgum) og staðalhlutfall í drifum (3,909). Þó skal bent á að á jafn breiðum dekkjum en með 16" felgum er þvermál hjólanna 30" sem ætti að henta enn betur með þessu drifhlutfalli.

Aðrar breytingar
Sá nýi er um 130 kg þyngri, 34 sm lengri (meira hjólhaf) með 30% meiri burðargetu á 16,5 sm lengri skúffu. Hann er auk þess bæði breiðari og hærri en forverinn. Meira hjólhaf breytir hreyfingum bílsins; hann er stöðugri og þægilegri í akstri. Ný og endurbætt framfjöðrun gerir bílinn áberandi þýðari en forverann. Til mótvægis við aukið hjólhaf (3.085 mm) hefur snerilstyrkur undirvagnsins verið aukinn um 45%. Veggrip er því betra, ef eitthvað er, sem bætir stöðugleika og torfærugetu.

Innanrými hefur verið aukið verulega og er það mesta breytingin á bílnum; mun betra rými er fyrir farþega auk þess sem vel fer um stórt fólk (190 sm) hvort sem um farþega eða ökumann er að ræða. Sem dæmi um aukin þægindi má nefna að nú eru 90 sm á milli farþega í framsæti og farþega í aftursæti en það er alþjóðlegt viðmið og þykir meira en viðunandi í fólksbíl af millistærð. Innréttingin er nánast eins og í fólksbíl og sé hægt að nöldra eitthvað varðandi þennan nýja Hilux mætti finna að því að hann sé orðinn of fínn að innan sem vinnubíll.Nýi Hilux þarf hring með minnst 13 metra þvermáli til að snúa. Það finnst í akstri að þetta er stærri bíll en forverinn, sérstaklega í þrengslum í miðborginni. Aukið vélarafl og snerpa gera þó bílinn liprari en búast hefði mátt við en til samanburðar má hafa að flestir amerískir pallbílar þurfa um 15 m þvermál fyrir sömu athöfn.

Drifkerfi
Hilux er með hlutadrif, þ.e. honum er ekið að jafnaði í afturhjóladrifi. Fjórhjóladrifið er valið með hnappi og tengibúnaður framhjóla er sjálfvirkur þannig að hægt er að setja í fjórhjóladrifið í háa á fullri ferð en í lága á innan við 8 km/klst. Millikassinn er keðjuknúinn. Hlutfallið er 1,0 í háa en 2,566 í lága. Handvalin rafknúin læsing er í mismunardrifi afturhjóla.

Önnur atriði
Þjónusta Toyota-umboðsins er yfirleitt til fyrirmyndar og er án efa aðalástæða þess að Toyota er mest selda tegundin hérlendis - en það er nánast einsdæmi í Evrópu. Samkvæmt upplýsingum sérfræðinga hjá Toyota-salnum á Selfossi er þessi túrbódísilvél með tímareim og þarf að endurnýja hana eftir 150 þús. km. akstur. Smurolíu á vélinni á að endurnýja með 7.500 km millibili, samkvæmt tilmælum umboðsins. Dráttargeta er 750/2.250 kg. Leyfileg heildarþyngd er 2.760 kg en eigin þyngd um 1.800 kg. Meðaleyðsla er um og innan við 10 lítrar á hundraðið (óhlaðinn). Fáanleg hafa verið drif með 5,29 hlutfall sem hafa verið notuð með 38" dekkjum í forveranum með þessa sömu vél og gefist vel. Frítt bil á milli hjólskála í skúffu er 1020 mm en innanmál skúffu er 1520 x 1515 og dýpt 450 mm. Yfirhaf að framan er 885 mm en að aftan 1.285 mm. Aðhorn er 30° en fráhorn 23°. Verðið er 2,68 mkr.

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar