Vefsíða Leós
www.leoemm.com

Möguleg bilun í inngjöf Toyota

Eftirfarandi er tekið af vefsíðunni www.toyota.is
Listinn sýnir hvaða Toyotabílar koma til greina varðandi innköllun. Viðkomandi eigendum er bent á að hafa samband við næsta Toyota-umboð og panta tíma. Viðgerð er eiganda að kostnaðarlausu.

Innköllun á Toyotabifreiðum (29/01/2010)
Toyota í Evrópu hefur ákveðið að kalla inn 8 gerðir af Toyota bifreiðum vegna mögulegs vandamáls í eldsneytisgjöf.
Bifreiðarnar sem um ræðir og framleiðslutími þeirra er sem hér segir:
" AYGO (Febrúar 2005 - Ágúst 2009)
" iQ (Nóvember 2008 - Nóvember 2009)
" Yaris (Nóvember 2005 - September 2009)
" Auris (Október 2006 - 5 Janúar 2010)
" Corolla (Október 2006 - Desember 2009)
" Verso (Febrúar 2009 - 5 Janúar 2010)
" Avensis (Nóvember 2008 - Desember 2009)
" RAV4 (Nóvember 2005 - Nóvember 2009)

 

(Eftirfarandi upplýsingar eru á hinum ýmsu Netsíðum Toyota í Bandaríkjunum og Evrópu)

Hver er orsök vandamálsins?
Eins og í flestum nýrri bílum er inngjöfin, sem um ræðir i Toyota, þrepalaus rofi sem gefur mismunandi boð eftir stöðu. Rofinn (inngjafarpedallinn) er tengdur vélartölvu bílsins með rafleiðslum en ekki streng/barka eins og tíðkaðist fyrir 10 árum eða svo. Samkvæmt upplýsingum Toyota geta ákveðnir hlutar rofans slitnað mismunandi mikið eftir mismunandi langan tíma við mismunandi aðstæður. Slitið getur valdið því að fyrirstaða myndast í rofanum, hann getur orðið stirður við ástig, komið seint upp aftur og, í versta tilfelli staðið fastur í inngjafarstöðu. (Því má bæta við til upplýsingar að inngjafarrofar eru tvenns konar eftir framleiðanda, annars vegar rofi framleiddur af Toyota en hins vegar rofi framleiddur af Nippo Denso. Einungis önnur gerðin hefur bilað. Þjónustufulltrúar Toyota þekkja þessa rofa sundur - sem flýtir afgreiðslu við innköllun).

Að hverju á bíleigandi að huga?
Bíleigandi eða bílstjóri gæti veitt því athygli að inngjöf sé stífari en hún hafi verið og sé lengur að koma upp aftur í byrjunarstöðu. Einnig er til í dæminu að inngjöfin virki grófari, jafnvel með hnökrum við ástig og þegar henni er létt.

Í hverju er viðgerðin fólgin?
Skipt er um inngjöf/rofa. Toyota hefur endurbætt rofann og þaulprófað og samkvæmt yfirlýsingu þess á vandamálið að vera úr sögunni eftir að nýr inngjafarrofi er kominn í stað þess gamla og engin hætta á að inngjöfin geti staðið á sér.

Er þetta vandamál enn í nýjum Toyotabílum?
Toyotabílar, af öllum gerðum, sem framleiddir hafa verið í Evrópu síðan í ágúst 2009 eru búnir endurbættum inngjafarrofa. Samkvæmt upplýsingum frá Toyota var sú aðgerð á þeim tíma liður í skipulögðu gæðaeftirliti (endurbætur) en ekki aðgerð vegna fyrirsjáanlegs vandamáls sem myndi leiða til innköllunar bíla.

Ennfremur segir í yfirlýsingunni að lengri tíma þolprófanir, sem alltaf eru í gangi hjá Toyota, hafi í einstaka tilviki leitt athygli gæðastjóra að inngjafarrofa sem ekki skilaði sér nógu fljótt til baka í byrjunarstöðu og það hafi gefið tilefni til að skoða þennan ákveðna hlut nánar - en þrátt fyrir að í engu þeirra tilfella hafi verið um skert öryggi að ræða hafi reglur um gæðaprófanir leitt til þess að ástæða þótti til að endurbæta þennan hlut til að gæta hagsmuna kaupenda.

Engu að síður hafi komið í ljós, eftir að þessi endurbót var komin í framleiðslu, að ný og alvarlegri tilfelli, inngjafarrofar sem festust, uppgötvuðust af þjónustuaðilum Toyota. Það leiddi til frekari rannsóknar. Niðurstöður hennar urðu þær að innkalla skyldi ákveðna bíla í öryggisskyni.

Til vinstri er sýndur stækkaður sá hluti eldri inngjafarrofans sem slit myndast í og orsakar vandamálið. Til hægri er sýndur stækkaður sá hluti nýja rofans sem hefur verið endurbættur, m.a. með styrkingar úr ryðfríu stáli og styrktarslá, einnig úr ryðfríu stáli, neðan á pedalanum.

Fleiri greinar um bíltækni


Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar