Tjaldvagn - húsvagn og sjálfskipting

Sjálfskiptingar geta auðveldlega eyðilagst þegar þungur tjaldvagn er dreginn með fullhlöðnum bíl lengri vegalengd á 90-100 km hraða eins og eðlilegur umferðarhraði er á vegunum. Sjálfskiptingin getur einnig orðið fyrir yfirálagi og yfirhitnað þegar ekið er lengri vegalengd talsvert undir hámarkshraða, t.d. vegna umferðar, og þá vegna takmaraðrar kælingar. Sjálfskiptingar geta verið viðkvæmar fyrir þessu aukna álagi, sérstaklega í lengri akstri og hafa eyðilagst; vökvinn soðið á skiptingunni, kúplingar brunnið o.s.frv. Í flestum tilfellum er um verulegt tjón að ræða og getur kostnaður hlaupið á hundruðum þúsunda.

Bíleigendur geta dregið úr hættu á að sjálfskipting eyðileggist vegna yfirálags. Magn vökvans á sjálfskiptingunni þarf að vera eðlilegt og mælt á réttan hátt (sé gert ráð fyrir mælingu - en margar nýrri skiptingar eru án mælikvarða). Yfirleitt er reglan sú að vökvastöðuna á að mæla eftir að vél og skipting hafa náð eðlilegum vinnsluhita, með vélina í gangi og skiptinguna stillta á P eða N. Upplýsingar eru í handbók bílsins. Oft getur yfirfylling (jafnvel einungis um hálfan lítra) valdið truflunum, t.d. óreglulegum gírskiptingum. Mælingin er því nákvæmnisverk.

Regluleg endurnýjun vökvans á skiptingunni skiptir sköpum. Vökvinn safnar í sig slitögnum úr innviðum skiptingarinnar og flytur þær í sérstaka síu. Þá síu þarf að endurnýja reglulega og er það gert um leið og skipt er um vökvann. Þegar panna er tekin undan sjálfskiptingu og vökvanum hellt úr henni er þar einungis um þriðjung vökvans á skiptingunni að ræða - 2/3 hlutar eru eftir í vökvakúplingunni (túrbínunni) og í vökvarásum í húsi og ventlaboxi. Af þessu ástæðum ætti að fela verkið bílaverkstæði sem býður sérhæfða sjálfskiptingarþjónustu þar sem það hefur rétt tæki til að tæma skiptinguna.

Rétt tegund sjálfskiptivökva, að notaður sé sá sem framleiðandi bílsins tiltekur, skiptir einnig máli. Sjálfskiptingarvökvi hefur mismunandi eiginleika, t.d. mismikinn eiginleika til að flytja varma. Þetta þýðir að ákveðnar tegundir sjálfskiptingarvökva þenjast minna út við að hitna en aðrar. Til þess að geta haft fyrirferð sjálfskiptingar sem minnsta hanna framleiðendur skiptingar þannig að þær eigi að geta kælt sig með minna magni vökva, t.d. stór skipting sem nú notar 10 lítra en hefði notað 14 lítra áður. Til þess þarf sérstakan vökva. Þessar skiptingar þekkjast m.a. á því að á þeim er hvorki mælikvarði né áfyllingarrör. Ástæðan er sú að vökvaþenslan í skiptingunni við hitun er slík að bunan myndi standa út úr venjulegu áfyllingarröri. Sé notaður annar vökvi á slíka skiptingu, t.d. ódýrari vökvi sem þenst meira við hitun getur það valdið skemmdum við álag. Mér er kunnungt um að hérlendis hafi verið notaður annar sjálfskiptingarvökvi en viðkomandi framleiðandi bíls ætlast til og hvet bíleigendur til kynna sér málið (handbók bílsins) og fylgjast með því.


Sé ekki sérstakur kælir fyrir sjálfskiptinguna má fá auka-olíukæli, oft hjá viðkomandi bílaumboði, sem minnkar verulega hættu á yfirálagi. Slíkan kæli, sem passar í margar gerðir bíla, má kaupa í Bílanausti fyrir 12 þús. kr. og fylgir honum allt sem þarf til ísetningar sem er 2ja tíma verk.

Aksturslag getur dregið verulega úr álagi á sjálfskiptingu þegar hlöðnum bíl er ekið lengri vegalengdir og/eða bíl með tjaldvagn. Með því að handskipta í lægri gír þegar farið er uppímóti eða ekið hægar (sú stilling er ýmist merkt 2, D2 eða S og 3 hjá sumum frönskum bílum) minnkar álagið á sjálfskiptinguna vegna meiri niðurgírunar og þar með minna viðnáms vegna sliðrunar og varmamyndun verður minni. Mismunur niðurgírunar á efsta og næstefsta gír í sjálfskiptingu er algengur 27-30%. Sé næstefsti gír notaður á 90 km hraða þýðir það að vélin snýst tæplega þriðjungi hraðar, t.d. um 800 sn/mín hraðar. Þar sem vökvadæla sjálfskiptingarinnar er á inntaksöxlinum strax aftan við túrbínuna snýst hún jafn hratt og vélin. Með því að velja næstefsta gírinn hækkar þrýstingur í vökvakerfi skiptingarinnar, vökvaflæðið eykst og um leið eykst kælingin.

Í handbókum sem fylgja bílum er yfirleitt kafli sem fjallar um aftanívagn (Trailer towing) með leiðbeiningum og ábendingum sem getur komið sér vel að þekkja.

Að lokum er ástæða til að brýna fyrir bíleigendum að tryggja nægan þrýsting í dekkjum. Of lin dekk stórauka hættu á óhöppum og sú hætta eykst með aukinni hleðslu bíls.

Aftur á forsíðu
Netfang höfundar