Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur:

Dæmi um kostnað vegna tímareimar sem slitnar

Sveigjanleg tímareim í stað tímakeðju, til að tengja saman sveifarás og ofanáliggjandi kambás/ása, hefur verið algeng í brunavélum síðan upp úr 1970. Tímareim er ódýrari, léttari, þarfnast ekki smurningar og er stundum hljóðlátari en tímakeðja. Þótt tímareim sé oft réttlætt með því síðastnefnda er það fyrirsláttur; - bílaframleiðandi nýtir kosti tímareimar en bíleigandi situr uppi með ókostina. Þökk sé samkeppni víkur tímareim fyrir tímakeðju í sífellt fleiri nýjum bílum, ekki síst Diesel-bílum.

Tímareim endist takmarkaðan tíma (60 - 145 þús. km eða 4-5 ár). Tímakeðja endist oft vélina. Tímareim getur slitnað án þess að það geri boð á undan sér. Tímakeðja, sem eyðileggst, skröltir yfirleitt lengi áður en hún slitnar sundur.

Nútíma brunavélar eru þannig byggðar að stimplar og ventlar ganga á misvíxl svo lengi sem tímareim er strekkt. Sé trassað að endurnýja tímareimina (einn af kostum hennar fyrir bílaframleiðanda og þjónustuaðila) slitnar hún. Slitni tímareimin skella stimplar og ventlar saman og af verða misjafnlega miklar skemmdir á vélinni, jafnvel eyðilegging í verstu tilfellum.

Þegar tímareim er endurnýjuð í tíma er yfirleitt skipt um strekkjara eða strekkjarahjól um leið og oftast um vatnsdælu, sé hún knúin með tímareiminni. Það sem réttlætir endurnýjun vatnsdælu gagnvart bíleiganda er að endingartími hennar er oft svipaður og tímareimar og vinna við að komast að vatnsdælu, til að endurnýja hana eina og sér, er sú sama og vinna við að komast að til að skipta um tímareim. Þannig má koma í veg fyrir tvíverknað og óþarfa kostnað.

Dæmigerð viðgerð
VW Golf með 1,6 lítra 16 ventla vél. Trassað er að endurnýja tímareimina við 70 þús. km. Hún slitnar sundur eftir 130 þús. km. Það gerist þegar bíllinn er á ferð.
Skemmdir verða frekar vægar en þó eyðileggjast 10 ventlar af 16. Ventlarnir bogna en brotna ekki (vel sloppið). Stimplar og stimpilstangir reynast óskemmd. Losa verður heddið af vélinni.

Varahlutir eru keyptir þar sem þeir eru ódýrastir og eru eftirfarandi (apríl 2011):

Slípisett (pakkningar)
9.308.-
Heddboltasett
4.569.-
Tímareimarsett
25.704.-
Vatnsdæla
6.327.-
8 útventlar
15.312.-
2 innventlar
3.528.-
Alternatorreim
2.000.-
Smurolía og frostlögur
3.800.-
Samtals varahlutir
72.548.-
Vinna (bíla- og renniverkstæði)
183.857.-
Samtals. Kr.
254.405.-
Virðisaukaskattur
64.873.-
Heildarkostnaður Kr.
319.278.-

Vinnuþátturinn í þessu dæmi er um eða innan við meðallag, sérstaklega þegar þess er gætt að Volkswagen er illa hannaður með tilliti til viðgerða sem hafa tilhneigingu til að verða dýrari en gengur og gerist. Varðandi kostnað við tímareimarsettið er rétt að geta þess að þessi 16 ventla VW-vél er með 2 tímareimar, eina langa sem knýr sveifarás og kambás og aðra stutta sem knýr kambásana og eru strekkjarar fyrir báðar innifaldir í settinu.

Eðlileg tímareimarskipti
Til samanburðar er hér tekið saman hvað kostað hefði að endurnýja tímareimina, á sama verkstæði, eftir 70 þús. km. án skemmda á vélinni.

Varahlutir keyptir á sama stað:

Tímareimarsett
25.704.-
Vatnsdæla
6.327.-
Alternatorreim
2.000.-
Smurolía og frostlögur
3.800.-
Samtals varahlutir
40.331.-
Vinna (bílaverkstæði)
56.000.-
Samtals. Kr.
90.031.-
Virðisaukaskattur
22.958.-
Heildarkostnaður Kr.
112.989.-


(Trassaskapurinn í þessu dæmi, sem þykir þó vel sloppið, kostaði kr. 200.893.-)

Fleiri greinar um bíltækni

Pistlar

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar