Tiger

Panzer VI sem nefndist Tiger og vóg um 56-57 tonn var stærri og þyngri en Panther. Königstiger (einnig nefndur Tiger II), sem var enn stærri skriðdreki, var sá stærsti sem notaður var í síðari heimstyrjöldinni, vóg 68 tonn. Áhöld eru um hvort Tiger og Köningstiger teljist sami skriðdrekinn því Köningstiger var annað hönnunarverkefni. Hér hefur verið valið að halda þessum 2 Tiger aðskildum. (Tæknitölur - yfirlit yfir þýsku skriðdrekana 1937-1945)

Tiger var vissulega öflugur og mjög hættulegur andstæðingum en hann var þó ekki jafn gallalaus og ætla mætti í fljótu bragði því bæði reyndist hann bilanagjarn, klossaður og nokkuð stirður enda einna líkastur massivum stálklumpi. Vegna drægni og skotþyngdar þurftu áhafnir skriðdreka eða farartækja, sem hann hæfði - oft af ótrúlega löngu færi, sjaldan að binda um skeinur. Fyrir bragðið varð Tiger eins konar goðsögn; sveipaður dulúð - jafnvel draugalegur enda voru möguleikar þeirra, sem náðu að sjá hann í návígi, yfirleitt ekki ýkja miklir til að segja frá frekari tíðindum. Tiger hafði ótvíræð sálræn áhrif - hvetjandi á Þjóðverja en letjandi á bandamenn en á meðal hermanna bandamanna var fyrirbrigðið ,,Tigerfóbía" vel þekkt - sumir töldu sig sjá Tiger hvert sem litið var og ef komið var að rjúkandi útflöttum herflutningabíl var ekki að sökum að spyrja - menn kenndu það hinum ósýnilega Tiger.

Þungur skriðdreki hafði verið á framkvæmdaáætlun þýska hermálaráðuneytisins um árabil og 1937 höfðu nokkri hönnuðir komið að málinu, m.a. Dr. Ferdinant Porsche. Eftir að forgerðir (prototypes) höfðu verið prófaðar hjá skriðdrekaskólanum í Berka varð niðurstaðan sú að Henschel var falið verkefnið, sem nefndist ,,Tigerprojekt". Fyrstu Tiger-skriðdrekarnir, en þeir voru framleidir í Sohn-verksmiðjum MAN í Kassel, voru tilbúnir um mánaðamótin júlí/ágúst 1942 og háðu sína fyrstu bardaga við rússneskan her við Mga suðvestur af Leningrad 29. ágúst og 21./22. september 1942. (Atvikaskrá seinna stríðs). Vegna bilana í vélbúnaði tókst ekki betur til en svo að einn af fyrstu Tiger-skriðdrekunum féll í hendur Rússum og má ímynda sér hvílíkt áfall það hefur verið fyrir Þjóðverja.

Of lítil afköst

Framleiðsla Tiger var flókin, seinleg og dýr. Því til viðbótar var hráefni af skornum skammti auk þess sem loftárásir torvelduðu bæði að- og fráflutninga. Tiger var framleiddur frá því í ágúst 1942 og fram í ágúst 1944 en á þeim 2 árum tókst ekki að framleiða nema 1355 eintök, mest voru afköstin 105 eintök á einum mánuði. Af þessum 1355 mun SS-vopnaliðið (SS-þung-bryndeildir) hafa fengið 500 eintök til afnota. Þjóðverjar fluttu Tiger-skriðdrekana til vígstöðvanna og á milli staða með járnbrautum og þurfti ýmsar tilfæringar til þess að þessi stóru tæki rúmuðust á vögnunum. Eyðslan í utanvegaakstri var um 780 lítrar á 100 km (800 lítrar á geymi) og því gefur augaleið að Tiger var ekki ekið að óþörfu enda eldsneyti af skornum skammti.

Til þess að auðvelda framleiðsluna, auka afköstin og bæta viðhaldsþjónustu höfðu Tiger af síðari gerðum ýmsan vélbúnað sameiginlegan með Panther og Köningstiger. Útlit Tiger og Panther var líkt með brotnum línum og hallandi flötum sem gerðu það að verkum að erfitt var að koma á þá skotum - þau hrukku oftast af. Brynvörnin var mjög þykk og öflug. T-34 og Sherman áttu nánst engan möguleika á að laska Tiger með 76 mm fallbyssum sínum nema af mjög stuttu færi.

Tiger var búinn gríðarlega öflugri skriðdrekafallbyssu sem upphaflega var 88 mm loftvarnabyssa (36 L/56) en breytt fyrir skotturn. Fallbyssan dró 10 km og með henni mátti skjóta í gegnum skriðdreka bandamanna á allt að 4000 m færi. Þótt snúningur skotturnsins væri vökvaknúinn var hæðar- og fínstilling (miðun) handvirk. Til að hækka eða lækka miðið þurfti skyttan að snúa hjóli sem gat verið seinlegt vegna þess hve hlaupið var þungt og niðurgírun því mikil. Þetta var einn þeirri 3ja veiku punkta sem sérfræðingar bandamanna fundu brátt á Tiger en hinir tveir voru brynhlífin aftan á honum og vélin sem þurfti stöðugt viðhald. Einnig má ljóst vera að Tiger hefur verið aflvana þar sem sá kraftmesti hafði einungis 12,3 hö/tonn (til samanburðar hafði T-34/76 19,2, Panther 16,3 og Sherman 14,3).

Allt varð undan að láta ..

Auk fallbyssunnar var Tiger búinn 2-3 hríðskotabyssum og reyksprenguvörpu. Skotfærin sem hann flutti með sér vógu nokkur tonn. Hvert 88 mm fallbyssuskot (92 stk) vóg um 20 kg. Þau voru af mismunandi gerðum. Annars vegar voru brynrofsskot af mismunandi gerðum, sem fóru í gegn um 100 mm þykkt þolstál með 30° áskotshorni á færi innan við 1000 m; í gegn um 171 mm þykkt stál af stuttu færi og í gegn um 110 mm þykkt með 90° áskotshorni á innan við 2000 m færi. Hins vegar voru sprengihleðslur sem notaðar voru á önnur skotmörk en skriðdreka.

Tiger skriðdrekinn var miklu öflugri en nokkur skriðdreki bandamanna (Bandaríkjamanna, Breta og Rússa). Þessi er af seinni gerðinni og vegur 57 tonn. Í baksýn sést í öflugasta skriðdrekann sem notaður var í seinni heimstyrjöldinni, hinn þýska Köningstiger (af seinni gerð sem vóg 70 tonn. en sá er einn fárra með Porsche-skotturni).

 

Undirvagninn var í stórum dráttum sama hönnun og á Panther. 16 stór veghjól innan í hvoru belti, í ytri og innri röðum, dreifðu 56-57 tonnunum jafnt á undirlagið. Hvert hjólapar hafði sjálfstæða snerilfjöðrun. Tvenns konar belti, sem knúin voru af fremsta tannhjólinu, voru notuð, annars vegar 520 mm breið fyrir akstur og hins vegar 720 mm breið fyrir bardaga. Þjálfuð áhöfn var allt að 2 klst að skipta um belti en mestur tími fór í hliðarhlífarnar og hjólin sem taka þurfti af.

Fyrstu 250 Tiger voru með 21 lítra 650 ha Maybach V12-bensínvél - þeirri sömu og notuð hafði verið í fyrstu 250 Panther. Vélin var í aftara hlutanum, vélarrýmið byrjaði strax aftan við turninn. Vélaraflið reyndist of lítið, einkum í torfærum. Til að bæta úr þessu voru Tiger, framleiddir frá og með maí 1943, búnir öflugri 23,1 lítra 700 ha vél sömu tegundar en þó talsvert breyttri. Gírkassinn var frá Maybach með sjálfvirku forvali og voru 8 gírar áfram og 4 afturábak. Tiger náði mestum hraða í akstri 38 km/klst. Til þess var tekið hve hljóðið í Tiger, þegar honum var ekið af stað, var magnað - það ,,sánd" þekktu flestir hermenn bandamanna og minnast þess með sérstakri virðingu.

Stór en samt þröngur

Fyrstu 495 Tiger voru búnir til köfunar, m.a. með öndunarpípu, og gátu farið um í 4-5 m djúpu vatni í allt að 2,5 klst.

Eins og aðrir þýskir Panzer hafði Tiger 5 manna áhöfn, stjórnanda, skyttu, skotliða/hlaðara, loftskeytamann og ökumann. Innra rýmið var fjórskipt; stýrisrými, vélarrými, skotrými og stjórnstöð. Innanrými í Tiger var þó talsvert þrengra en ætla mætti af stærð skriðdrekans, en grunnflötur hans var um 30 fermetrar, því stóran hluta flatarins tók beltabúnaðurinn auk þess sem kælibúnaður vélarinnar og skotfærageymslur voru mikillar fyrirferðar.

Á framleiðslutímanum frá því í júlí 1942 og fram í ágúst 1944 voru stöðugar endurbætur, tilraunir og prófanir gerðar á Tiger og komust sumar þeirra í gagnið en aðrar ekki. Af sérstökum hliðargerðum sem smíðaðar voru í takmörkuðu upplagi var Jagdtiger sem var undirtæki stórrar fallbyssu, sérstaklega útbúinn m.a. til að granda stærri skriðdrekum á löngu færi, Befehlstiger sem var foringjaskriðdreki sérstaklega búinn fjarskiptatækjum, Sturmtiger (nefndist einnig Sturmpanzer) búinn skotbúnaði fyrir þungar eldflaugar og Bergetiger sem var mjög öflugt ruðnings- dráttar- og björgunartæki.

Sagt var að Bretar hefðu notað þá viðmiðun að til að granda Tiger þyrfti 5 Sherman og ekki skyldi reikna með að fleiri en einn þeirra snéri aftur frá þeirri viðureign. Í því sambandi var ekkert minnst á heppni því ljóst má vera að á Sherman hefur þurft að læðast að Tiger til að 76 mm fallbyssa hans hefði nægilega stutt færi til að koma að gagni. Annað atriði sem gerði þetta gríðarlega öfluga vopn, sem Tiger-skriðdrekinn var, enn áhrifameira, er fyrirbærið ,,þagnarsvið" (Silent Zone); eðlisfræðileg gáta sem gerir það að verkum að sprenging/skot frá fallbyssu heyrist ekki á sviði sem er á milli 5 og 10 km fjarlægðar.

Hrikalegar orrustur

Innrás Þjóðverja í Rússland (Barbarossa-áætlunun) hófst í júní 1941. Af skriðdrekum höfði þeir á þeim tíma eldri Panzer (I og II) , Panzer III (22t), Panzer IV (20t) en Panther (43t) og Tiger (56t) ekki fyrr en haustið 1942. Á árinu 1941 höfðu sovétmenn á að skipa ýmsum eldri gerðum skriðdreka en nýrri og öflugastir voru T-34/76 (26t) og KV1 (45t). (Þungi KV-skriðdrekinn var hannaður af Klimmorososhilov, síðari endurbættar gerðir hans nefndust JS-I og JS II (JS=Josef Stalin, nefndist einnig Stalin-skriðdreki). Herlið Þjóðverja, 6. herinn undir stjórn Friedrich Paulus, gafst upp fyrir sovéska hernum í Stalingrad 31. janúar1943. (Atvikaskrá seinna stríðs).

Sovéski skriðdrekinn T-34/76 af árgerð 1938 (sem var upphaflega hannaður af Bandaríkjamanninum Walter Christie árið 1929 og Rússar keyptu af honum - sjá ,,Saga skriðdrekans ... ") var, ásamt Panther talinn besti skriðdrekinn í síðari heimstyrjöldinni. Hann hafði þó ekkert í Panther að gera fyrr en hann var endurbættur , m.a. með 76,2 mm fallbyssu 1940. Ekki þurfti nema eitt skot á T-34 frá Tiger til að hann færi ekki lengra.

Ófarir Þjóðverja á austurvígstöðvunum í Stalingrad í upphafi ársins 1943 þýddi þó ekki að þeir ættu ekki áfram í höggi við sovéska herinn. Á undanhaldinu, sem hófst snemma árs 1943 í vesturátt frá Stalingrad eftir ósigurinn þar, áttu mestu og hrikalegustu skriðdrekaorrustur sögunnar eftir að eiga sér stað í einhverjum djöfullegustu vetrarveðrum sem hugsast getur. Þar komu bæði Panther og Tiger við sögu svo um munaði (Kharkov í mars og Kursk í júlí).

Órækur vitnisburður um afhroð sovéska hersins gegn skriðdrekaher Þjóðverja á svæðunum umhverfis Kursk, 200 km norður af Kharkov í Úkraínu, sumarið 1943 voru ,,fréttir" sem rússneska Novosti-fréttastofan dreifði til sovéskra herflokka um að T-34 og KV-skriðdrekar sovéska hersins hefðu grandað fleiri hundrað þýskum Tiger. Þannig ,,upplýsingum" beitti áróðursmaskína Rauða hersins óspart til að stappa stálinu í sína menn í hvert skipti sem staðan virtist vonlaus.

Af bardagaslóð

Í bardögum skammt frá Túnis í N-Afríku í desember 1942 beitti Þungbryndeild 501, undir stjórn Rommels ,Tiger í fyrsta sinn. Í skýrslu bandarísks herforingja til yfirstjórnar sagði m.a. að Tiger væri í aðalatriðum frábær skriðdreki og skot frá Tiger, sem hittu bandaríska skriðdreka, hefðu undantekningarlaust farið í gegn um þá.

Wakker höfuðsmaður, fyrirliði 3. undirfylkis Þungbryndeildar 506 og áhöfn hans á Tiger grandaði sovéskum T34/67 skriðdreka með einu skoti af 3900 m færi.

Þann 7. júlí 1943 réðst áhöfn Tiger undir stjórn Franz Staudegger SS-yfirfylkisforingja úr 2. flokksdeild 13. brynundirfylkis 1. SS-bryndeildar ,,LSSAH" einskipa gegn 50 sovéskum skriðdrekum við Psyolkne, skammt frá Kursk í Rússlandi. Áhöfnin notað öll skotfæri skriðdrekans og náði að granda 22 sovéskum skriðdrekum og hrekja þá sem eftir voru til undanhalds. Fyrir þessa frammistöðu var Staudegger sæmdur riddarakrossi.

Frægustu Tiger-stjórnendur voru yfirstormsveitarforinginn Mikael Wittmann og yfirliðsforinginn Otto Carius. Áhöfn Wittmanns á Tiger barðist m.a. eins síns liðs gegn heilli breskri herdeild við Villers Bocage nærri Bayaux í Frakklandi síðsumars 1944 og skildi hana eftir óvíga á nokkrum mínútum með 19 Sherman skriðdreka, 14 hálfbeltabíla og 15 Bren-fallbyssuvagna í einni rjúkandi rúst. Skömmu áður, við Caen ekki langt frá,höfðu þýskar bryndeildir með um 400 Tiger og Panther grandað a.m.k. 300 Sherman-skriðdrekum ásamt alls konar öðrum herbúnaði í bardaga sem stóð samfellt í 72 klst.

Á söfnum

Tiger er sýndur á mörgum hergagnasöfnum erlendis. Hér er mælt með 2 slíkum söfnum í Frakklandi, annað þeirra er í Saumur, bæ sem er mitt á milli borganna Nantes og Tours á Bretanskaga (um 250 km akstur í suðvestur frá París í gegn um LeMans) en hitt í bænum Vimoutiers sem er nokkru norðar, um 100 km vestur af París í héraðinu Pays d'Auge í Normandí en þar skammt frá eru Caen og Villers Bocage þar sem hörðustu orrusturnar voru háðar í kjölfar innrásar bandamanna 6. júní 1944 og sjást þeirra enn merki víða á svæðinu.

Í Bretlandi má skoða Tiger ásamt flestum öðrum skriðdrekum og hergögnum síðara stríðs í einu myndarlegasta herminjasafni Evrópu í Bovinton sem er í sérlega fallegu sveitahéraði í Dorset um 150 km akstur suður af London nærri Southampton. (Svo vill til að spölkorn frá Southampton, á þessu sama svæði, er British National Motor Museum í Beaulieu Abbay í New Forest en það er eitt stærsta og glæsilegasta bílasafn heims (opið 10-18 yfir sumarmánuðina frá maí /10-17 yfir vetrarmánuðina frá október). Með lest frá Victoria Station tekur ferð til Southampton um 45 mín.

Copyright © Leó M. Jónsson

Helstu heimildir:
Tanks of the world. Höf. David Miller. MBI Publishing. 2000
Deutsche Kampfpanzer in Einsatz 1939-1945. Höf. Wolgang Fleisher. Nebel Verlag.