(Þessi grein birtist upphaflega í tímaritinu Stíl í september 2002 - síðan þá hafa pólitíkusar gert möguleika Tetra-kerfisins að engu)

Með síma og talstöð í brjóstvasanum
eftir Leó M. Jónsson

Á Fnjóskadalsvegi eystri, á leið úr Grýtubakkahreppi yfir að Vaglaskógi er GSM sími sambandslaus. Þó er maður ekki nema 13 km frá Akureyri. Á Krísuvíkurvegi um Reykjanessfólkvang spöl austan Ísólfsskála framhjá Herdísarvík langleiðina að Krísuvík er GSM sími sambandslaus. Þó er maður ekki nema 13 km frá Hafnarfirði. Hvor tveggja er vinsæl leið og tvær af mörgum alfaraleiðum þar sem ferðalangar njóta ekki þess öryggis sem GSM-síminn veitir í þéttbýli. Með Tetra-síma í stað GSM er hins vegar símasamband á báðum þessum leiðum og skyldi það bregðast er möguleiki á talstöðvarsambandi með sama símtæki.

Við búum í landi sem er mjög sérstakt. Ísland er eitt af yngstu löndum jarðar og liggur auk þess á einu virkasta jarðeldabelti heims. Landið er stórt og þjóðin fámenn. Strandlengjan er um 6000 km á lengd (þar af þriðjungur á Vestfjarðakjálkanum). Hringvegurinn er 1339 km. Til viðmiðunar er stysta sjólína til Bretlands um 800 km og 1000 km til Noregs.

Láglendi, sem er neðan 200 metra yfir sjó (Kambabrún er í um 330 m hæð) - byggðir, er einungis 18% af flatarmáli landsins. Jöklar þekja um 11% - annað hálendi og óbyggðir eru rúm 70% landsins. Sumrin eru stutt og í svartasta skammdeginu er sólargangurinn vel innan við 3 klst. Þrátt fyrir þetta eykst straumur ferðamanna og umferð í óbyggðum á öllum tímum árs.

Þessar staðreyndir skýra vel þörf okkar fyrir löggæslu, eftirlit og öfluga neyðarþjónustu sem saman tryggja fólki ákveðið öryggi. Ein af forsendum þess er fjarskiptakerfi sem hægt er að stóla á þegar mest á reynir. Á undanförnum áratugum hefur hvert fjarskiptakerfið tekið við af öðru og jafnvel staðið um þau áralangar deilur. Frá árinu 1999 hefur verið byggt upp nýtt fjarskiptakerfi, Tetra-Netið, sem virðist henta íslenskum aðstæðum einkar vel - tækni sem er ekki er deilt um og síðast en ekki síst fjarskiptakerfi sem jafnframt er vaxandi þáttur í þeirri byltingu sem þráðlaus tölvusamskipti skapa.

Farsími, talstöð o.fl. í sama tæki
Fyrir notanda þýðir Tetra-Netið farsímaþjónusta með kosti umfram GSM og NTM en án helstu gallanna, talstöðvarþjónusta innan sem utan Tetra-Netsins sem notandinn getur haft þannig að ekki sé hægt að hlera. Tetra-Netið er jafnframt boðkerfi (til boðunar og til að senda skilaboð) og, þar sem kerfið er stafrænt, er það mjög öflugt, þráðlaust gagnaflutningskerfi.
Sjálf símtækin eru af ýmsum mismunandi gerðum eftir því hvers eðlis notkunin er en þau sem fólk ber á sér eru svipuð venjulegum GSM-símum. Á meðal þess sem notendur Tetra-Netsins veita fyrst eftirtekt er hve tengitími símtala innan Tetra-Netsins er mun skemmri en í öðrum símkerfum, t.d. GSM og talgæðin áberandi betri en í NMT. Með Tetra má hringja í alla síma innanlands (og utanlands á svipaðan hátt og með GSM). Símaviðmótið er svipað því sem við þekkjum í GSM og allur aukabúnaður sambærilegur.

Drægni er áberandi meiri - farsímaskuggar snöggtum minni úti á landsbyggðinni og hvergi á milli tveggja eða fleiri Tetra-símtækja. Meðaldrægni Tetra-síma er um 40 km á móti 5-10 km í GSM. Sjófarendur geta símað, stundað fjarskipti ásamt móttöku og sendingu gagna með aðgangi að Tetra-Netinu auk þess að nota það sem öryggis- og neyðarkerfi.

Stúlkan heldur á fyrstu kynslóð Tetra-símtækja. Nú eru Tetra-símtækin fyrirferðarminni og af sömu stærð og GSM-símtæki, með sams konar eiginleikum og sambærilegur aukabúnaður, t.d. handfrjáls búnaður, fáanlegur. Munurinn er sá að með Tetra ertu í einnig talstöðvarsambandi.

Allt landið og grunnmiðin
Tetra-Netið hefur verið byggt upp hratt og skipulega og hefur orðið þéttara með hverju árinu og mun, þegar þessi grein birtist, þekja um 2/3 landsins. (Mynd af núverandi Þekjun og næstu áfanga má skoða á http:tetra.is). Í fyrstu voru það einkum opinberir aðilar, björgunarsveitir og stærstu fyrirtæki sem tóku upp Terta-Netið sem síma- og fjarskiptakerfi og til að skrá hreyfingar fartækja til upplýsingar um feril og staðsetningu. Nú bætast önnur fyrirtæki, stór sem smá, unnvörpum í Tetra-hópinn auk einstaklinga sem þurfa virkari og öruggari farsíma innan og utan þéttbýlis.

Helstu notendur Tetra-Netsins

Upphaflega var Tetra-Netið hannað með þarfir neyðaraðila fyrir fjarskipti að markmiði. Það er notað af Neyðarlínunni og fjarskiptamiðstöð lögreglu, Embætti Ríkislögreglustjóra, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Securitas, Brunavörnum Suðurnesja, Strætó BS auk ýmissa ríkis- og borgarfyrirtækja. Björgunarsveitir nota kerfið og þess má geta að Landsbjörg er auk þess með samskiptaaðgengi á milli VHF-kerfis og Tetra-Netsins. Aðrir notendur eru ýmis fyrirtæki á landsbyggðinni t.d. í útgerð og flutningaþjónustu auk vaxandi fjölda einstaklinga.

Stofnkostnaður og rekstrargjöld
Eins og með síma fer stofngjald að Tetra-Netinu eftir umfangi og þörfum notanda fyrir þjónustu og búnað. Nefna má sem dæmi að stofngjald fyrir einstakling sem hyggst nota Tetra-Netið sem öruggari farsíma í og utan þéttbýlis er stofngjald 12.500 kr. Fast mánaðargjald er 990 kr. Hvert símtal frá Tetra í aðra síma kostar 32 kr. (en minna frá Tetra í Tetra eftir ákveðnum reglum). Sem dæmi um mánaðarlegt notkunargjald miðað við 10 símtöl í GSM-númer að meðaltali á dag yrði 11.490 kr. (Uppgefin verð giltu í september 2002. Virðisaukaskattur er innifalinn í verðupplýsingum).

Kostnaður vegna símtækja og búnaðar
Verð á Tetra símtækjumi, af álíka fyrirferð og með svipuðu viðmóti og GSM-sími, hafa verið að lækka og kosta nú svipað og vandaðri símtæki fyrir GSM. Frekari upplýsingar um Tetra-Netið og áskriftaleiðir er að finna á vefsíðunni www. tetra.is og upplýsingar um símtæki og fylgibúnað ásamt verði á www.rsh.is, (Radíóþjónusta Sigga Harðar á Dalvegi 16b, Kópavogi) auk þess sem á tetramou.com veitir ýmsar upplýsingar og fróðleik um tæknina.