BÍLAPRÓFUN

NISSAN TERRANO

Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur.


Einn af vinsælli fullvöxnum jeppum á íslenska markaðnum undanfarin 9 ár hefur verið Nissan Terrano sem upphaflega nefndist Terrano II og sem tók við af Pathfinder 1995. Ástæður eru m.a. hæfileg stærð, góð hönnun, þrautreyndur vélbúnaður og hagstætt verð fyrir fullbúinn jeppa. Síðasta árgerðin af Terrano er 2004 en við hlutverki hans snemma árs 2005 tekur nýr Pathfinder auk þess sem nýr jeppi, Murano, bætist þá einnig í Nissan-flotann.


,,ALLRA VEGA BÍLL"
Þeir sem velta fyrir sér kaupum á notuðum jeppa ættu að gefa gaum að Terrano. Í ensku er talað um ,,Off road" og ,,All Terrain" sem lýsingu á farartæki en með því er átt við það sem við köllum jeppa í daglegu tali. Nissan hefur notað hugtakið ,,All roader" til að ítreka fjölhæfni Terrano sem bíls fyrir venjulega notkun, lengri ferðalög og sem jeppa.

Terrano, sem er byggður á grind, var upphaflega hannaður sérstaklega fyrir evrópska markaðinn. Boddíið er hærra, rúðurnar stærri, fjöðrunin stinnnari og útlitið af öðrum ,,skóla" ef þannig má að orði komast en jeppar sem ætlaðir eru fyrir bandaríska markaðinn. Terrano er í útliti eins og Evrópubúinn telur að lúxusjeppi eigi að vera, þ.e. líkari jeppa en fólksbíl, og með ótvíræða eiginleika til ferðalaga utan malbiks - jafnvel þótt fæstir fari nokkru sinni út af malbiki - því þetta hefur með ímynd að gera. Terrano er í miðjunni hvað varðar verðflokk fullbúinna jeppa, þ.e. grindarbíla með hátt/lágt drif.

Terrano er hannaður fyrir evrópska markaðinn. Hann hefur m.a. vindustangarfjöðrun að framan umfram keppinauta. Þægilegur ferðajeppi með sætum fyrir 7 manns og mikið flutningsrými.

 

Aksturseiginleikar Terrano myndu sjálfsagt flokkast sem evrópskir. Dugnaður bílsins í torfærum er töluverður (óbreyttur) og talsvert meiri en prófari átti von á. Það kom prófara einnig á óvart hve bíllinn er þýður, hafandi í huga evrópsku aksturseiginleikana. Mest á óvart kom þó hve Terrano er snöggur og þægilegur sem brúksbíll, ekki síst í þéttri borgarumferð. Hann er mýkri en stóru dýru jepparnir svo sem Nissan Patrol og landbúnaðartækið Isuzu Trooper; lipur og sparneytinn af þessari stærð af jeppa að vera, t.d. léttari og liprari í akstri en MMC Pajero. Terrano er með betra rými fyrir bílstjóra en jafnvel stærri jeppar.


MEÐ SÆTI FYRIR 5 EÐA 7
Terrano er byggður á mjög sterkri stigagrind og með þrautreyndan niðurfærslu- og drifbúnaði. Dálítið sérkennilegt er að drifrásin er skásett. Að framan er stutt hásing og klafar með vindustangafjöðrun en að aftan stíf hásing með gormum. Um tvenns konar vélar er að ræða í eldri árgerðunum, 4ra síl. bensín eða dísilvél. Um tvær gerðir bílsins er að ræða; styttri gerð sem er 2ja dyra með sæti fyrir 5 fullorðna og lengri gerð sem er 4ra dyra með sæti fyrir 5 fullorðna og 2 krakka (sagður 7 manna).

Terrano er framleiddur af Nissan Motor Ibérica SA (NMISA) í verksmiðju þess í Zona Franca í nágrenni Barcelona á Spáni. NMISA er einn stærsti framleiðandi bíla á Spáni og rekur þar 5 verksmiðjur og 4 dótturfyrirtæki. Starfsfólk þess er rúmlega 8 þúsund manns. Nissan keypti sig inn í spánska fyrirtækið árið 1980 en það hafði fengist við framleiðslu á bílum og bílhlutum síðan 1920. NMISA framleiðir, auk Terrano, sem er hannaður í Bretlandi, evrópsku gerðirnar af Nissan Patrol Pickup og Patrol-vinnubíla í ýmsum mismunandi útfærslum.

EB-VERÐ?
Verðið á Nissan Terrano er talsvert lægra en á öðrum lúxusjeppum með sambærilegum búnaði. Sem dæmi kostar 4ra dyra 7 sæta bíllinn með bensínvél um 15% minna en sambærilega búinn Pajero, þ.e. með vökvastýri, rafknúnum rúðuvindum, fjarstýrðum samlæsingum, hallastilltu stýrshjóli, rafknúinni sóllúgu, sjálfvirkum driflokum, rafstilltum speglum og upphituðum framstólum.
Þetta er hagstætt verð þegar haft er í huga hve voldugur bíllinn er og vel búinn. Ef til vill er þetta verð til marks um árangurinn af margumtöluðum sameinuðum innra markaði Evrópu þótt skýringin kunni einnig að vera fólgin í harðnandi samkeppni á milli bílaframleiðenda. En í þessu efni gildir að sjálfsögðu fyrir hin almenna kaupanda að sama er hvaðan gott kemur.

Terrano er með vel útfærðri innréttingu, vel bólstruðum og þægilegum sætum og miðstöðvarkerfi sem hentar vel okkar aðstæðum.

VÉLBÚNAÐUR
Í þessum bíl er þrautreynt kram sem mun koma flestum jeppamönnum kunnuglega fyrir sjónir, m.a. Nissan millikassinn sem er keðjudrifinn. Þessi drifbúnaður hefur reynst sterkur en um leið hljóðlátur enda er Terrano hljóðlátari en margir fólksbílar, jafnvel þegar honum er ekið í fjórhjóladrifinu á fullri ferð. Niðurgírunin í 1. gír er 3,592, í millikassanum 2,02 og í drifum 4,625. Hlutföll eru þau sömu hvort sem bíllinn er með bensín eða dísilvél.

Með einföldum reikningi er hægt að gefa nokkra vísbendingu um torfærugetu jeppa, þ.e. hvað varðar afl út í hjól. Með því að margfalda saman niðurfærsluhlutföllin í fyrsta gír, lágadrifi í millikassa og í drifi. Í Terrano er mesta niðurfærslan í hjólnöf í fyrsta gír: 3,592 x 2,02 x 4,625 = 33,56. Þetta er há tala, þ.e. mikil niðurgírun. Af þeim japönsku jeppum sem prófaðir hafa verið er einungis Nissan Patrol með meiri heildarniðurfærslu.

Samanburður á jeppum (árgerð 2004)

Nissan Terrano 7manna, 5 dyra, árgerð 2004

Toyota Land-Cruiser LX, 7 manna 5 dyra, árgerð 2004
Vélargerð

4 síl. 3,0 lítra 16 ventla turbodísill

4 síl. 3,0 lítra 16 ventla turbodísill
Hámarksafl hö/snm
158/3600
166/3400
Hámarkstog Nm/snm
304/1600
410/1800
Millikassi Hlutadrif, sogst. driflokur, tregðulæsing í afturhásingu
Sídrif, millilæsing
Niðurfærsla í m.kassa
1,00/2,02
-
Gírkassi
Beinsk. 5g
Beinsk. 6g
1. gír
3,580
( - = engar uppl. á vefsíðu umboðs)
2. gír
2,077
-

3. gír

1,360
-
4. gír
1,00
-
5. gír
0,811
-
Bakkgír
3,636
-
Drif
3,900
-
Mesta niðurfærsla
28,2033,56
-
Að- og fráhorn °
35/26,5
32/27
Klifurgeta °
39
Hliðarhallaþol °
48
42
Lengd/breidd/hæð 4590/1740/1810 4730/1730/1860
Botnskuggi, ferm.
7,99
8,18
Eigin þyngd, kg
1870
1950
Dekkjastærð
235/70 R16
225/70 R17
Verð (10/11/04) kr.
3.790.000
4.390.000

Bensínvélin í eldri bílunum er 124 ha 4ra strokka, slagrýmið er 2400 rsm, blokk úr steypustáli en hedd úr álblöndu með ofanáliggjandi keðjudrifnum kambási. Þrír ventlar eru á hverjum sílindra og bein innsprautun
í sogport (4 spíssar). Einkennandi fyrir þessa vél er fremur kröpp togkúrfa. Það þýðir að beita á vélinni þannig að hún snúist hratt í hverjum gír. Þetta er sú vélargerð sem evrópskir bílstjórar þekkja og eru óhræddir við að þenja á gírunum enda þolir vélin að snúast hratt. Þrátt fyrir þessa útfærslu er seiglan talsverð.

Sá bíll sem prófaður var er með bensínvélinni. Vélin er öflug en jafnframt þýðgengari en maður á að venjast af svo stórri 4ra síl. vél (jafnvægisás). Terrano er ekki léttur bíll þannig að í fljótu bragði mætti ætla að ekki veitti af 124 hestöflunum. Því kemur á óvart hve bíllinn er kraftmikill og lipur; lítið loftviðnám á sinn þátt í því. Sparneytni er talsverð og með hana í huga er varla við því að búast að Terrano sé eins og tígrisdýr. Hins vegar kann það að segja meira en langt mál og mikið af tölum að með 5 fullorðna fer þessi jeppi á rúmlega 100 km hraða upp efstu brekkuna í Kömbum.

Eldri túrbódísilvélin er 100 ha 4ra strokka, slagrýmið er 2670 rsm. Við vélina er pústþjappa. Það sem einkennir þessa vél er þýður gangur og mikið tog, mest 221 Nm við 2200 sn/mín. Togið nær um 200 Nm strax við 1500 sn/mín og er það talsverður mælikvarði á góða upptöku og seiglu vélarinnar. Meðaleyðsla eldri dísilvélarinnar er tæpir 10 l/100 km.

Nýrri dísilvélarnar eru nýjasta tækni og vísindi, annars vegar 2,7 lítar túrbódísill 125 hö við 3600 snm og með hámarkstog 278 Nm við 2000 snm og hins vegar 3ja lítra túrbódísill 154 hö við 3600 snm og með hámarkstog 304 Nm við 1600 snm.

Gírkassinn er 5 gíra með báðum vélunum (sami kassi). Sjálfskipting var ekki fáanleg í fyrstu árgerðum af Terrano (upp úr 1995) en þá voru enn landlægir fordómar gegn sjálfskiptingum á evrópska markaðnum enda evrópskir um 30 árum á eftir bandarískum bílaframleiðendum á því sviði. Í Terrano er tannstangarstýrisvél með vökvaaðstoð.

INNRÉTTING
Í lengri bílnum eru sæti fyrir 7. Aftasta sætisröðin er þó varla nema fyrir krakka sem komast í og úr um skutdyrnar. Það fer vel um 2 fullorðna í fram og aftursætum en þokkalega um 3 í aftursæti. Aftursætið er tvískipt. Hvorn helming má fella fram. Sætið er þó fyrst brotið saman. Talsvert fer fyrir sætunum í þeirri stöðu og því ekki eins mikið flutningsrými í bílnum og ætla mætti í fljótu bragði. Þá er það ákveðinn ókostur að ekki skuli vera hægt að kippa aftasta sætinu úr bílnum. Þó mun vera hægt að fella sætin niður í hina áttina til þess að sofa í bílnum en það er, eins og í fleiri bílum, einungis fyrir einhverja masókista.

Sætin eru með áferðarfallegu og praktísku áklæði, vel bólstruð og fremur stinn. Framstólarnir eru með hitun og bílstjórastóllinn með sérstakri stillingu á halla setunnar auk þess sem hægt er að stilla stuðning við mjóhrygginn. Halla stýrishjólsins má stilla. Yfir dyrum eru handarhöld og önnur á dyrastafnum til að auðveldara sé að komast út úr bílnum. Athygli vekur að stillingar stóls og stýris gera það að verkum að Terrano er jeppi sem hentar jafn vel konum sem körlum - en það verður ekki sagt um alla jeppa á markaðnum.

Rafknúnu rúðurnar eru með sérstaka læsingu. Auk takkanna á hurðunum eru rúðutakkar í stokknum á milli framstólanna - ekki er það heppilegasti staðurinn fyrir þá. Afturrúðurnar fara einungis hálfa leið niður sem er öryggisatriði gagnvart börnum og jafnvel hundum.

Snemma árs 2005 tekur þessi nýi jeppi við hlutverki Nissan Terrano. Hann nefnist Pathfinder og er m.a. með meira innra rými en flestir keppinautar.

Mælar og stjórntæki eru samkvæmt þeim staðli sem gildir fyrir dýrari japanska bíla; þar er allt á sínum stað. Vandað útvarp/disktækii með merkilega góðum hátölurum er innifalið í verði bílsins. Það er efst í mælaborðinu eins og vera ber. Bílbeltin eru hin þægilegustu. Þá eru ágætar hirslur í mælaborði, kassi á milli stóla og vasar í framhurðum. Hanskahólfið er miðlungsstórt en fyrir ofan það í mælaborðinu er hvilft til frálags og er til þæginda. Ofan á mælaborðinu tollir t.d. vegakort.

Miðstöðin er eins og nú eru í japönskum bílum, þ.e. hraðvirk, aflmikil og lágvær. Sérstakar blástursristar eru í stokknum fyrir framan gírstöngina. Þær beina m.a. heitum blæstri aftur í bílinn.
Útsýn er mjög góð enda situr maður hátt í bílnum. Prófari spáir því að það eigi eftir að koma sér vel í skafbyljum að vetri til. Þá er það kostur við Terrano að varadekkið, sem geymt er á skuthurðinni, fellur niður í hvilft í afturstuðaranum, og teppir því minna útsýn um afturrúðuna en ella. Af öðrum búnaði sem innifalinn er í verði eru álfelgur, rafknúin sóllúga og aukaljós felld inn í framstuðarann.

AKSTURINN - NIÐURSTAÐA
Nissan Terrano er áberandi lipur í borgarakstri af jeppa að vera - í því efni munar um hve maður situr hátt í bílnum með góða útsýn sem eykur öryggiskennd. Á þjóðvegi er þessi jeppi þægilegur og góður ferðabíll; vel hljóðeinangraður, fremur þýður og með rásfestu sem verkar traustvekjandi.

Bensínvélin er nógu aflmikil við flestar aðstæður þótt dísilvélarnar henti þessum betur. Sparneytnin er einn af kostum bílsins en þó mun dugnaður í ófærð vera sá eiginleiki hans sem mun koma flestum á óvart þrátt fyrir að Terrano sé ekki léttur jeppi, vegur mest 1850 kg óhlaðinn. Dráttargetan er 2800 kg sé vagn með bremsum.

Vökvastýrið er hæfilega létt eins og bremsurnar, diskar að framan en skálar að aftan. Í eldri árgerðum fram að 1998 er sjálfvirk þrýstijöfnun á milli fram- og afturhjóla sem dregur úr líkum á því að afturhjólin læsist við nauðhemlun. Í nýrri árgerðunum er ABS læsivörn. Gírskiptingin mætti vera liprari - einn af fáum mínusum.

SAMANDREGIÐ:

  • Áberandi er hve vel hefur tekist að samræma kosti jeppa og fólksbíls í Terrano án þess að fórnað sé eiginleikum jeppa en fyrir bragðið hentar hann sérstaklega vel hérlendis hvað varðar veðurfar, lífsmáta og landshætti. Líklega hentar þessi jeppi engum jafn vel og Íslendingum.
  • Fráhornið er 26,5° og má varla minna vera til að jeppinn setist ekki á stuðarann þegar farið er upp úr kröppum skorningi. Stærri dekk gera það að verkum að að- og fráhorn aukast og um leið torfærugetan.
  • Aðhornið er 35° sem er vel viðunandi.
  • Skuthurðin opnast út, ca 80°. Þetta fyrirkomulag hefur bæði kosti og galla: Auðvelt er að komast inn í bílinn að aftanverðu en honum er hins vegar ekki hægt að bakka að rampi til lestunar/losunar.
  • Þótt afturdyrnar séu ekki stórar eru þær ekki þröngar. Tæknin liggur í lögun dyranna og að efri lamir hurðanna eru framar en þær neðri. Með því móti hallar hurðin fram að ofanverðu þegar dyrnar eru opnar og auðveldara er að komast í og úr bílnum.

  • Í Terrano er gert ráð fyrir að notandinn þurfi að hafa með sér ýmislegt t.d. vegna starfa. Alls konar geymsluhólf eru í og við mælaborðið sem koma sér vel fyrir ferðafólk, ljósmyndara, landmælingarmenn, eftirlitsmenn, verkstjóra, vinnuflokka o.fl.
  • Um 25 sm eru undir lægsta punkt á Terrano á 30" dekkjum. Hæð upp á þröskulda er 50 sm og 85 upp á stólsetu. Dyrahæð er 116 sm að framan en 117,5 að aftan. Á þessum dekkjum er 90 sm upp í brettakant að aftan en 85 sm að framan.

  • Nissan Terrano með 2,4 lítra bensínvél fer á rúmlega 100 km hraða upp efstu brekkuna í Kömbum með 5 fullorðna. Í torfærum nýtur hann mjög mikillar niðurgírunar í 1. gír. Á þjóðvegi rennur hann eins og hraðskreið límúsína. Meðaleyðslan er innan við 14 lítrar á hundraðið með bensínvél en um 10 lítrar með dísilvél.

 

Aftur á aðalsíðu