Skriðdrekar í síðari heimstyrjöldinni:

Rússneski skriðdrekinn T-34

Eftir Leó M. Jónsson vélatæknifræðing.

Í öðrum greinum hér á Vefsíðu Leós hef ég fjallað um sögu skriðdrekans og um þýsku skriðdrekana sérstaklega og þá frá sögulegu sjónarmiði. Margir sérfræðingar eru sammála um að tveir skriðdrekar hafi borið af öllum öðrum í síðari heimstyrjöldinni sem frábær tæki til síns brúks en það eru rússneski T-34 og þýski Panther (Panzer V). T-34 á sér merkilega sögu.Því er stundum haldið fram að T34 hafi verið hannaður í Bandaríkjunum og að Rússar hafi keypt hönnun hans af bandaríska hugvitsmanninum J. Walter Christie. En það er ofsögum sagt þótt vissulega sé fótur fyrir því - það vantar einfaldlega einn hlekk í keðju merkilegrar atburðarásar. En meira um það síðar.

Ein af fjölmörgum hugmyndum Walters Christie var að útbúa ,,Fljúgandi virki" þannig að það gæti flutt léttbyggða skriðdreka og sleppt þeim í fallhlíf að baki víglínunnar.

En hver var hann þessi Walter Christie sem svo oft kemur við sögu þegar bandarísk hergögn og þróun þeirra ber á góma?
Þótt Walter Christie sé oft nefndur í sambandi við hugmyndir og uppfinningar furðulega fjölbreyttra hergagna, aðallega tækja til flutninga á vopnum og herbúnaði, er ekki miklar upplýsingar að hafa um manninn sjálfan. Þó kom út æfisaga hans 1985 skrifuð af syni hans Edward J. Christie. Það mun vera eina bókin sem jafnframt fjallar um manninn sjálfan auk ferils hans og starfa. Hún nefnist ,,Steel Steeds Christie: A Memoir of J. Walter Christie. (Útgefandi Sunflower University Press, ISBN: 0897450590). Þetta er lítil bók, 86 blaðsíðna kilja sem upphaflega kostaði 16 dollara hjá útgefandanum en hefur verið illfáanleg í lengri tíma og kostaði t.d. rúma 50 dollara síðast þegar hún var fáanleg hjá Amazon.com. Ég tek það fram að ég hef ekki lesið þessa bók.

Ég hef mínar heimildir úr öðrum bókum og tímaritum þar sem Walters Christie er getið í sambandi við hergagnasmíði og hernað. Í þeim er gefin heldur einhæf mynd af manninum en flestum heimildum ber þó saman um að Walter Christie hafi verið sérkennilegur um margt; yfirgengilega kappsamur vinnuhestur og ekki við alþýðuskap. Hann virðist hafa staðið einn og án samstarfs- eða stuðningsmanna að flestum þeim málum sem hann vann að og virðist hvorki hafa haft fjárstuðning né sambönd til að afla sér voldugra og áhrifamikilla vina eins og löngum hefur þótt nauðsynlegt þegar um hergagnasölu er að ræða og lesa má um í bókum um iðnjöfra á borð við Howard Hughes, Henry Ford og Henry J. Kaiser.

John Walter Christie, eins g hann hét fullu nafni, fæddist í River Edge í New Jersey 1865. Skólaganga hans varð ekki mikil umfram barnaskóla því hann þurfti snemma að vinna fyrir sér.
Á yngri árum starfaði hann hjá Delamater-stáliðjuverinu í New Jersey og sótti tíma samhliða vinnu í kvöldskóla hins þekkta Cooper Union- menntaskóla í New York og síðar við tækniskóla. Um tíma var Christie tæknilegur ráðgjafi kaupskipaútgerða en uppúr stríði Bandaríkjamanna og Spánverja fann hann upp betri undirstöðubrautir fyrir fallbyssur herskipa. (Bandaríkin sögði Spáni stríð á hendur 1898 vegna deilna um yfirráð yfir Kúbu).
Um svipað leiti, þ.e. um aldamótin 1900, hafði hann hannað framdrifinn bíl sem hann sýndi og ók sjálfur í kappakstri á hinum og þessum brautum og tók meðal annars þátt í kappakstri í Frakklandi skömmu fyrir 1900.

Skriðdrekar komu fyrst fram í fyrri heimstyrjöldinni. Walter Christie var fljótur að koma auga á möguleika þessa nýja tækis í hernaði. Þótt hann tæki strax til óspilltra málanna við að þróa röð hraðskreiðra skriðdreka verður ekki sagt að hann hafi haft erindi sem erfiði - en ástæðan mun einkum hafa verið íhaldssemi, hefðir mont og dramb herstjórnenda - einkum foringja riddaraliðssveita sem höfðu í hávegum svokallaða hefðbundna herstjórnarlist samkvæmt bókinni - í augum þeirra var hesturinn tákn hins stolta riddara en hvers konar vélknúið skran einungis til að skapa hávaða. Ekki er hægt að loka augunum fyrir því að persónuleiki Walters Christie hafi gert það að verkum að framsýnni hátt settir menn innan bandaríska hersins hafi ekki treyst sér til að styðja hann því hann hafði strax orð á sér fyrir að vera erfiður - ef ekki ómögulegur í samstarfi. Margir hershöfðningjar voru tregir til að fallast á að þau hergögn sem Christie fann upp hentuðu hernum.

Í stað þess að reyna málamiðlun reyndist Christie ósveigjanlegur og þver og virstist alls ekki geta tekið gagnrýni - urðu af því stöðugir árekstrar. Svo virðist sem einþykkni hafi verið sterkur dráttur í persónuleika Walters Christie - jafnvel svo að jaðraði við þráhyggju - honum virtist ekki nægja að finna upp hergögn, en ýmsar hugmyndir hans þóttu snjallar, heldur vildi hann einnig kenna æðstu mönnum bandaríska hersins herstjórnarlist. Þannig tókst honum að móðga hátt setta hershöfðingja sem þoldu hann ekki fyrir bragðið - fannst hann einstaklega uppáþrengjandi ef ekki manískur.

Walter Christie var að mestu leyti sjálfmenntaður vélahönnuður. Sem slíkur var hann óþreytandi við að fitja upp á nýjungum í gerð færanlegra hergagna. Sumar hugmyndir hans þóttu áhugaverðar en aðrar miður heppnaðar - að ekki sé meira sagt - en hann lagði alla tíð mesta áherslu á að þróa hraðskreiðari skriðdreka sem gætu rofið víglínu óvinarins og þeyst yfir skotgrafir.

Af ýmsu má ráða að á milli Walters Christie og sérfræðinga bandaríska hermálaráðuneytisins hafi verið ríkjandi tortryggni sem oft skapast þegar sjálfmenntaðir uppfinningamenn og tæknimenntaðir reyna að vinna saman í andrúmslofti sem þrungið er tortryggni og spennu vegna vanmetakenndar annars vegar og mentahroka hins vegar.

1912 reyndi Christie fyrir sér með framleiðslu á beltadrifnum vatnsdælum fyrir slökkvilið. Þótt tækin þættu athyglisverð virðast takmarkaðir hæfileikar Christies sem sölumanns hafi valdið því að kaupendur urðu örfáir. 1916 reyndi hann að selja bandaríska hernum fjórhjóladrifinn fallbyssuvagn og hófst þá löng og ströng barátta hans við þá sem stjórnuðu innkaupum á hergögnum. Þeir höfðu lagt línurnar með áætlun um hvers konar tækjum herinn skyldi búinn - en þær hugmyndir gagnrýndi Christie opinberlega og hlaut af litlar vinsældir hjá yfirmönnum hersins.

Þótt herinn prófaði ýmis hergögn hönnuð af Christie á árunum frá 1916 til 1942 varð ekkert úr samningum og var ósveigjanleika Christies kennt um. það fór einnig í taugarnar á yfirmönnum í hermálaráðuneytinu að Walter Christie stóð samtímis í samningamakki við erlenda aðila - án nokkurs samráðs við ráðuneytið. Enda keyptu bæði Rússar og Bretar af honum leyfi til framleiðslu á ýmsum hergögnum.

Þrátt fyrir að vera nánast óþreytandi við að kynna innkaupastjórum bandaríska hersins ýmis ný og byltingarkennd hergögn náðu Christie og herforingjarnir ekki saman. Eftir að hafa varið 5 árum í þróun á nýjum skriðdreka sem upphaflega nefndist M1928 og eftir endurbætur M1929, M1931 og loks M1940 - en verkefnið hafði kostað Christie 382 þúsund dollara sem var gríðarlegt fé á þeim tíma, virtist sem Christie hefði loks tekist að slá í gegn.

Endurbætti M1940-skriðdreki Christies var með búnaði til að aka mætti honum hratt án belta eins og sá upphaflegi en með stærri hjól innan í beltunum og nýstárlega fjöðrun sem gerði hann hraðskreiðari en aðra skriðdreka. Eldri gerð, M1928, hafði verið prófuð hjá hernum í Fort Mayer í október 1928 og reynst það vel að herráðsforinginn Charles P. Summerall beitti sér óspart fyrir því að samið yrði við Christie um framleiðslu.

Frekari prófanir á vegum hermálaráðuneytisins reyndust hins vegar ekki jafn hagstæðar, ekki síst vegna hönnunargalla og lélegrar smíði af hálfu Christies, en í kjölfar þeirra risu hatramar deilur á milli Christie og tæknimanna hersins - og varla hafa þær liðkað fyrir málinu. Og jafnvel þótt sjálfur George S. Patton, sem þá var höfuðsmaður í riddaraliði landhersins, og aðrir sem sátu í matsnefnd riddaraliðsins mæltu með skriðdreka Christies kom það fyrir ekki. Hermálaráðuneytinu fannst verðið, sem Christie setti upp, allt of hátt, maðurinn ósveigjanlegur ef ekki ómögulegur í samningum og vísði málinu frá.

En Christie gafst ekki upp. Um þetta leiti voru pólskir og rússneskir herstjórnendur að leita fyrir sér um kaup á hergögnum í Bandaríkjunum og þeir höfðu sýnt undirvagni og fjöðrunarbúnaði skriðdreka Christies sérstakan áhuga. Til að gera langt mál stutt urðu langar og strangar samningaviðræður á milli Christie og rússneskra embættismanna til þess að gera samskipti hans við bandaríska herinn enn stirðari. En lyktir urðu þær að Rússar keyptu framleiðslurétt af Christie og notuðu grunnhönnun hans til framleiðslu og þróunar hraðskreiðra skriðdreka. Sá síðasti í röðinni og sá best heppnaði var sá frægi T34 sem kom Þjóðverjum rækilega á óvart í innrásinni í Sovétríkin 1941.

Fast að áttræðu um 1942 náði Walter Christie að sjá nokkrar hugmyndir sínar verða að veruleika í hergögnum hjá bæði Rússum og Bretum. En málareksturinn, þrasið, stappið og vonbrigðin höfðu bugað hann - hann lést 1944 tæplega áttræður.

Og áður en vikið er að skriðdrekaframleiðslu Rússa ætla ég að lýsa lauslega grunnhönnun þeirra tveggja skriðdreka sem kenndir eru við Walter Christie, þ.e. M1929 og M1940. Það voru einkum 3 atriði sem greindu skriðdreka Christies frá öðrum á þessum árum frá 1929 til 1940. Í fyrsta lagi var undirvagninn þannig gerður að í stað burðarhjóla úr stáli voru burðarhjól beltanna mun stærri og með slitlag úr gúmi og voru þau 5 hvoru megin. Sérstakir hraðlásar voru á beltunum og fljótlegt að taka þau af og setja aftur á. Án beltanna mátti aka skriðdrekanum á allt að 100 km hraða á sléttum vegi. Í öðru lagi var hvert burðarhjól með sjálfstæða fjöðrun. Innan við beltin var hólf með löngum gormum fyrir hvert burðarhjól. Fjöðrunarsvið var mikið og vegna þess að hvert hjól fjaðraði stálfstætt mátti aka skriðdrekanum á beltunum á undraverðum hraða yfir torfærur án þess að áhöfnin rotaðist. Í 3 lagi voru útlínur Christie-skriðdrekans rúnnaðar og hann lágt byggður sem gerði það að verkum að erfitt var að hæfa hann. Og við þeta má bæta að vegna þess hve undirvagninn hafði góða fjöðrun og beltin mikið grip var stöðugleikinn mikill sem gerði kleift að nota stærri og öflugri fallbyssu - fallbyssu sem hefði þeytt öðrum skriðdrekum til við hvert skot og gert þá stórhættulega áhöfninni.

Allt voru þetta ótvíræðir kostir sem gerðu hönnun Christies eftirsóknarverða miðað við það sem þá var við lýði. En skriðdreki Christies var ekki gallalaus, t.d. þótti hann of þröngur fyrir meðalmenn á bandarískan mælikvarða sem þó var ekki frágangssök í Bretlandi. En það var grunnhönnunin sem Rússar og Bretar sóttust eftir og fengu með kaupum á hönnun Christies um 1930.

Á miðjum 4. áratug síðustu aldar var efnahagslífið í Bandaríkjunum að byrja að rétta úr kútnum eftir Kreppuna sem hafði hafist ,,svarta föstudaginn" seint í október 1929 með skyndilegu hruni verðbréfa í kauphöllinni á Wall Street. Bandarískir kaupsýslumenn höfðu verið tíðir gestir í Sovétríkjunum og Rússar fengu notið efnahagsástandsins í Bandaríkjunum og keyptu þaðan iðnaðarvélar, alls konar framleiðslutæki, m.a. heila bílaverksmiðju af Ford ásamt tækniaðstoð á ýmsum sviðum. Hluti af viðskiptunum við Bandaríkjamenn og Breta á þessum tíma fór til að byggja upp hernaðarmátt Sovétríkjanna.

Skriðdrekar höfðu verið framleiddir um árabil í Sovétríkjunum þótt ekki væri í stórum stíl. Um 1936 áttu Sovétmenn létta (6 tonna) skriðdreka sem byggðir voru eftir hönnun sem keypt hafði verið af breska Vickers og nefndust T-26 en slíka sendu þeir skjólstæðingum sínum á Spáni sem notuðu þá gegn herjum Frankós í borgarstyrjöldinni. T-28 var nokkru stærri og var rússneskt afbrigði af breska Vickers Independent. Rússar tefldu T-26 og T-28 gegn þýsku Panzer III og IV í upphafi síðari heimstyrjaldarinnar en þeir reyndust ekkert hafa í þá þýsku að gera.

Sovéski skriðdrekinn sem byggður var eftir teikningum Walter Christie nefndist BT og hófst framleiðsla hans strax 1932. Sú endurbót hafði verið gerð á fjöðruninni að í stað gorma fyrir hvert burðarhjól beltis var snerilfjöðrun - þ.e. vindustöng úr stáli. Með því móti hvarf gormakassinn og innra rými skriðdrekans jókst. BT-dskriðdrekanum, sem framleiddur var í 5 útfærslum, frá BT einum til og með BT sjö, mátti aka á hjólum eftir að beltin höfðu verið tekin af. Mestum sögum fór af BT-5 sem framleiddur var eftir 1935 en hann var knúinn með flugvélarhreyfli, þótti með afbrigðum hraðskreiður og gat farið hratt yfir þar sem aðrir skriðdrekar sátu fastir. Nokkur þúsund BT-5 gegndi mikilvægu hlutverki hjá sovéska hernum fram undir 1941. BT-7 var betur vopnum búinn, var með samansoðnum kassa og turni og öflugri ávalari brynhlíf.

Þegar innrás Þjóðverja í Rússland hófst (Barbarossa-aðgerðin) í júní 1941 kom strax í ljós að BT-skriðdrekar Rússa réðu ekki við þýsku Panzer III og IV. En þá kom nýr rússneskur skriðdreki til sögunnar sem átti eftir að setja strik í reikninginn - a.m.k. um sinn. Það var T-34.

Til vinstri er T-34/76 af fyrstu gerðinni. Hægra megin er T-34/85 af einni af síðustu gerðunum.

Þótt færa megi gild rök fyrir því að T-34 hafi verið áframhald þróunar BT-7 og því átt rót sína að rekja til hönnunar Walter Christie og þeirrar reynslu sem Rússar höfðu af henni. Engu að síður var T-34 að miklu leyti ný hönnun þótt undirvagninn væri áfram sá sem kenndur er við Christie og notaður var í síðustu BT-skriðdrekunum.

Líði einhverjum betur með það má segja að fyrsti T-34 skriðdrekinn sé rússnesk hönnun byggð á undirvagni, sem sé upphafleg hugmynd bandaríkjamannsins Walter Christies, en sem Rússar hafi endurbætt.

Stóru burðarhjólin, 5 hvoru megin, einkenndu T-34. Vegna þess hve hjólin voru stór var hátt undir botninn. Beltin voru breiðari en á öðrum skriðdrekum og ásamt frábærri fjöðruninni gerðu það að verkum að T-34 fór leikandi um á fullri ferð þar sem þýsku Panzer III og IV sátu fastir í drullunni eða þar til þeir voru búnir breiðari beltum (Ostketten).
500 hestafla V12-dísilvélin í T-34, en hún var vatnskæld, var bæði öflug og sparneytin þannig að þessi rúmlega 30 tonna dreki, sem hafði 4ra manna áhöfn, komst 460 km á fullum tanki - ef lélegur gírkassinn gaf sig ekki áður.
76 mm fallbyssan og 70 mm brynhlífin að framan gerðu það að verkum að Þjóðverjum varð snemma ljóst að vissara var að taka T-34 alvarlega enda fengu þeir að finna fyrir honum í fyrstu eða þar til hinn þýski 650 hestafla Panther (Panzer V) birtist 1942 og snéri taflinu við eftir vonda byrjun vegna smíðagalla.

Þeir T-34 sem Rússar notuðu í síðari heimstyrjöldinni voru af tveimur aðalgerðum, annars vegar T-34/76 en hins vegar T-34/85. Aðalmunurinn var hlaupvídd fallbyssunnar, 76 mm og 85 mm. Eftir að gírkassinn hafði verið endurbættur og varð til friðs var til þess tekið hve lipur og öflugur T-34 var. Og þótt smíði hans og frágangur stæðist ekki gæðasamanburð við skriðdreka Þjóðverja voru þýskir herforingjar yfirleitt á einu máli um að T-34 væri frábært tæki og þar til Panther skriðdrekunum hafði fjölgað nægilega sóttust þýskir skriðdrekaliðar eftir að nota hertekna T-34.

Ótalinn er þó stærsti kostur T-34 en hann var sá að hönnunin var sérstaklega gerð og útfærð með það fyrir augum að framleiðsla skriðdrekans væri eins einföld og fljótleg og kostur væri. Það tókst og það þýddi jafnframt að allt viðhald og viðgerðir var einfaldara og fljótlegra en ella.

T-34 var í notkun í rúmlega 40 ár - síðast um 1980 í Júgóslavíu, Albaníu og í Afríku. T-34 var lengi í notkun í Tjekkóslóvakíu, Finnlandi, Austur-þýskalandi, Ungverjlandi, Rúmeníu, Póllandi, Sýrlandi, Alsír, Norður-Kóreu auk Rússlands.

Skriðdrekagreinar - yfirlit

Saga skriðdrekans

Aftur á aðalsíðu

-------------------------------------------