7.01.2004

,,Hvers vegna ertu að skrifa um þetta andskotans austantjaldsdrasl - hvers vegna skrifarðu ekki frekar um Mercedes-Benz?" Þessari spurningu var beint til mín í netpósti skömmu eftir að grein um rússneska bíla birtist á vefsíðunni minni. Erfitt getur verið að svara svona spurningu, en ég hef fyrir reglu að svara alltaf bréfum - því við henni geta verið fleiri en eitt svar - sérstaklega þegar þess er gætt að þessi vefsíða, öfugt við Fréttablaðið, þjónar einungis hagsmunum eiganda síns, sem geta verið breytilegir frá degi til dags, enda engin tilraun gerð til að dylja það. Margir þeir bílar sem ég hef skrifað um eru annað hvort bílar sem voru algengastir á mínum unglingsárum og/eða bílar sem ég hef átt sjálfur. Af nýjum bílum hef ég skrifað um þá sem mér hafa fundist áhugaverðari en aðrir (jafnvel Toyota - þótt ótrúlegt sé) - bílaumboð ráða þar engu um - og eru reyndar ekki spurð. Aðalatriðið er að ég skrifa um það sem mér sjálfum finnst áhugavert. Vefsíðan mín er ekki til sölu - hafi einhver áhuga á efni hennar er aðgangur ókeypis (eins og ruslpóstur/Fréttablaðið án útburðar). Á vefsíðunni minni eru engar auglýsingar, a.m.k. ekki sem ég veit um. Á henni er enginn teljari. Hvort lesendur eru 2 á dag eða 2 á mánuði hefur ekki áhrif á efnisval né efnistök. Og það er ekkert sem blikkar á vefsíðunni minni (svo merkilegt sem það er þá virðist ég aldrei hafa neitt gagn af vefsíðum sem eru með eitthvað sem blikkar, hvað þá hljóð!). Vefsíða Leós er einkaframtak, kostað af mér, ritstýrt af mér og næstum undantekningarlaust er efnið skrifað af mér og ég misnota og nýti mér aðstöðu mína á vefsíðunni pukrunarlaust - set mig aldrei úr færi að koma mínum skoðunum á framfæri. Ég er aldrei hlutlaus í nokkru máli - telji einhver að svo sé, og telji slagsíðuna ekki nógu áberandi, hef ég einfaldlega sofnað á verðinum og flokkast sem óheppni, ef ekki slys. Ég legg mig ekki í líma við að hafa greinar stuttar - þvert á móti ræðst lengd þeirra af efninu en þær eru heldur aldrei lengri en mér finnst þær þurfa að vera. Ég nota ekki illskiljanleg nýyrði heldur mælt mál enda er íslenska kennd í skólum af færari mönnum en mér. Ég á örugglega eftir að skrifa um Mercedes-Benz.

Fleiri pistlar ?