Dieselolían stefnir í 250 kr: Þú getur sparað 15-25% eldsneyti
með heilasellum og fótunum.

Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur.

Af og til er ég spurður álits á nýju tæki eða búnaði sem á að spara eldsneyti. Undantekningarlaust kostar fyrirbærið talsvert, undantekningarlaust fylgja með umsagnir, mismunandi traustvekjandi, um að með þessu sparist X-XX prósentustig. Með örfáum undantekningum er um gagnslaust drasl að ræða. En allan andskotann virðist vera hægt að selja. Ótrúlegasta dæmið dæmið eru pillur (pillur = lyf = lækning) sem átti að blanda út í eldsneytið og mynda efnasamband (ég man ekki lengur delluna). Þetta reyndist algjör steypa, að sjálfsögðu, en upphafsmönnum svindlsins tókst að byggja upp píramída-sölukerfi sem tafði raunverlegar mælingar árangurs - en þegar búið var að selja ættingjum og vinum pillurnar sem reyndust auðvitað gagnslausar, voru svindlararnir horfnir, eins og jörðin hefði kyngt þeim kvikum, - en sölufólkið sat uppi með birgðir af einskisnýtum pillum, sem það hafði staðgreitt dýru verði með von um mikinn gróða, að ekki sé minnst á öskureiða ættingja (jafnvel slagsmál í fermingarveislum)! Nú á metanbreyting að vera lausnin. Metanbreyting, eins og hún er framkvæmd hérlendis, er nánast úrelt, alltof dýr og verðið á gasinu óskiljanlega hátt og mun einungis eiga eftir að hækka.

Lykilatriðin
1. Loftkæling með frystingu (AC) er þægileg þegar heitt er í veðri. En þessi búnaður þarf orku og hún er framleidd með eldsneytinu. Því meira sem þú notar loftkælikerfið, t.d. til að halda sjálfvirkt stöðugu hitastigi inni í bílnum (Auto), því meiru eyðir bíllinn. 10-20%. Aktu því með opna glugga og/eða notaðu kælinguna minna.

2. Skafðu af rúðunum, sérstaklega afturrúðunni og speglunum að vetri til frekar en að nota hitara til þess. Sætishitari, rúðuhitari og speglahitari, þrátt fyrir sjálfvirkan útslátt, auka eyðsluna um og yfir 10%.

3. Geymsluhólf á þakrekka eykur loftviðnám og eyðslu. Geymdu það í skúrnum þegar ekki er þörf fyrir það. Notaðu bílinn ekki sem geymslu - skildu draslið eftir heima. Léttari bíll eyðir minna.

4. Hafðu aldrei minni þrýsting í dekkjunum en 30 psi (pund) og helst meiri. Bíll eyðir minna með hörð dekk vegna þess að vegviðnám þeirra er minna en linari dekkja. Vönduðustu dekkin á markaðnum eru hljóðlát og tiltölulega mjúk með 30 punda þrýstingi þegar dekk af lakari gæðum verða grjóthörð og jafnvel hættuleg á malarvegum. Slitin dekk auka vegviðnám og eyðslu. Endurnýjaðu dekkin þegar munsturdýptin er 3 mm. Víxlaðu dekkjum reglulega á 8-10 þús. km. fresti á milli fram- og afturhjóla sömu megin - eykur endingu dekkja um allt að 50%.

5. Haltu dagbók yfir viðhald bílsins. Endurnýjaðu reglulega (einu sinni á ári) loftsíu og eldsneytissíu. Fylgstu með smurolíumagni og endurnýjaðu smurolíu og síu með 10-15 þús. km. millibili. Notaðu alsyntetíska smurolíu 5w-40. Mæli með Valvoline hjá Poulsen (verð og gæði). Með vél í góðu standi nærðu mestri sparneytni og girðir fyrir dýrar bilanir.

Velgt og slitin mynd af fallegum bíl sem ég átti 1970-1972. Þetta er 2ja tonna „dekkjabrennari’’; Oldsmobile Super 88 Rocket V8 HardTop Coupe af árgerð 1956. Hér gilti gamla lagið að stíga varlega á gjöfina. Undir húddinu var 5,3ja lítra V8-villidýr með Rochester QuadraJet (4ra hólfa) blöndungi og væri ekið með hressilegum inngjöfum (tökurnar voru æfintýralegar) var eyðslan ekki undir 40 lítrum. En færi maður varlega með inngjöfina datt eyðslan niður í 16-18 lítra. Þannig aksturslag hentar ekki nýlegum bílum nútildags. (þessi bíll er enn í fullu fjöri).

Pældu í því hvernig þú keyrir
Hvers vegna skyldi Skoda Octavia Station með dísilvél komast nærri einn og hálfan hring umhverfis landið á einni tankfylli í mælingu og prófun á eldsneytisnotkun á vegum FÍB, eins og sagt var frá í fjölmiðlum og vakti óskipta athygli - eða rúmlega tvöfalda þá vegalengd sem bíllinn kemst í venjulegri notkun? Svarið er sparakstur, - aksturstækni sem allir geta tileinkað sér með réttum upplýsingum. Galdurinn er fólginn í því að beita heilasellunum við akstur. Það besta er að árangurinn er öruggur, þótt hann kunni að vera misjafnlega mikill milli einstaklinga og ástands bíls; sparakstur sparar eldsneyti án stofnkostnaðar í einhverju "hókus-pókus-tæki.'' Auk eldsneytissparnaðar, sem getur t.d. numið 20 lítrum á mánuði í rekstri venjulegs fjölskyldubíls, fer sparakstur betur með vélina og minnkar líkur á dýrum bilunum.
Boðið hefur verið upp á námskeið í sparakstri. Þau eru yfirleitt miðuð við akstur stærri vinnubíla svo sem vöruflutningabíla, rúta og strætisvagna en sparaksturstæknin við akstur þungra dísilbíla er frábrugðin og flóknari en sparakstur venjulegra fólksbíla.

Málið snýst meira um upplýsingar en tækni
Vélar í fólksbílum hafa breyst umtalsvert á sl. 20 árum vegna aukinna krafna um minni útblástursmengun og aukna sparneytni; þær eru aflmeiri, þýðgengari, snúast hraðar og hafa mun betra viðbragð við inngjöf. Vísitölubíllinn með bensínvél var 13,5 sek. að ná 100 km hraða 1985 en 12,2 sek. 2005 - hröðunin er 10% meiri með 13% minna bensíni. Aukin sparneytni og minni mengun er vegna tæknilegra eiginleika vélarinnar til að brenna eldsneytinu betur, m.a. með því að vera fljótari að ná upp snúningshraða við inngjöf: Vélarnar eru sprækari og viðbragð bílsins betra. Sparneytnin er í hámarki þegar þessir eiginleikar eru nýttir, þ.e. þegar bílstjórinn veit í hverju þeir eru fólgnir.

Nýir tímar: Lincoln LS V6 Sedan 262 hö. Hér gildir nýja tæknin. Þessi bíll, sem er 1800 kg, er kraftmeiri en Oldsmobile 1956 þrátt fyrir að vélin sé einungis 3ja lítra. Eyðslan, sé beitt þeirri aksturstækni sem lýst er í þessari grein, er um 10 lítrar á hundraðið.

.. sem þýðir - á mannamáli
Að ekki er sama hvernig inngjöf og gírum er beitt. Dæmi: Tveir sams konar handskiptir fólksbílar bíða hlið við hlið á móti rauðu ljósi á gatnamótum Grensásvegar og Miklubrautar. Báðir stefna upp brekkuna í vestur. Annar þeirra nær leyfilegum hámarkshraða í 3. gír og skiptir í fjórða, sleppir inngjöfinni þegar hann nálgast gatnamót Háaleitisbrautar og stöðvar mjúklega á móti rauðu ljósi. Hinn er seinn af stað, nær ekki hámarkshraða, kemur seinna að gatnamótum Háaleitisbrautar, ennþá í 3. gír og þarf að beita bremsunum til að stöðva. Mæling myndi sýna að seinni bíllinn hafi notað 15% meira eldsneyti á milli þessara gatnamóta!

Kjarni málsins er að beita inngjöf og gírum þannig að vélin sé sem fljótust að ná þeim snúningshraða þar sem hún togar mest. Flestir þekkja áhrif togsins af því að fara léttilega upp langa brekku í hæsta gír sé passað upp á að missa ekki snúningshraða vélarinnar niður fyrir ákveðin mörk. (þau mörk geta verið mismunandi eftir tegund og gerð bíls). Sá sem ekur með inngjöf og gírvali þannig að vélin vinni á því snúningssviði þar sem tog hennar er sem næst hámarki, sparar ekki bara eldsneyti heldur fer hann betur með vélina en ella.

Þá kann einhver að spyrja: Hvernig getur maður vitað að vélinni sé beitt með sem mestu togi, t.d. sé enginn snúningshraðamælir og kunni maður ekki að lesa vélargraf? Svarið er einfaldara en ætla mætti: Því minna sem þú þarft að beita bremsunum (án þess að tefja þá sem eru fyrir aftan þig) því betur nýtir þú vélaraflið og togið og því minna eldsneyti notar bíllinn. Sem sagt bremsaðu sem mest með vélinni/gírunum.

Vélarafl, tog og gírstikun
Með vélarafli (mældu í hestöflum) nær bíll hraða. Því meira vélarafl á hvert kg eigin þyngdar bíls - því meiri ætti hröðun hans að vera. Með vélartogi (mældu í njútonmetrum) viðheldur bíllinn hraða. Því betur sem vélin togar því betur heldur bíllinn hraða þrátt fyrir utanaðkomandi krafta svo sem vegna mótvinds, halla o.s.frv. Fjöldi gíra og gírstikun (hlutföll gíra) gerir kleift að nýta hámarksafl og hámarkstog betur á mismunandi hraða. (Þú eykur hraða með afli en heldur hraða með togi).

Sé hámarkstog vélar við 3750 sn/mín er það sá snúningshraði sem ræður gírskiptum við hagkvæmustu hröðun frá kyrrstöðu. Með öðrum orðum inngjöf og gírum er beitt til að ná sem fyrst þeim hraða sem vélin ræður við í sem hæstum gír (4. eða 5.). Dæmi: Tekið af stað í 1. skipt fljótt í 2. gefið inn til að auka hraða upp að 3750 sn/mín; skipt í 3. gefið inn til að ná sem fyrst löglegum hámarkshraða. Á jafnsléttu má jafnvel sleppa 4. gír og skipta beint í 5.

Snögg og ákveðin hröðun til að komast sem fyrst í hæsta gír er lóðið - þannig sparast eldsneyti. Ath. Hér er ekki átt við botngjöf eða neins konar glannaskap.

Og með öfugu formerki
Snúum þessu alveg við og skýrum frá hinni hliðinni. Hér er dæmi um aksturslag sem örugglega eykur eyðslu: Venjulegur fólksbíll. Tekið af stað á grænu ljósi og inngjöf takmörkuð í 2. og 3. gír (draugur), lengi á ná eðlilegum umferðarhraða, (trúir því að takmarkaður snúningshraði vélar spari eldsneyti eins og fyrir 30 árum þegar blöndungar voru á vélum í stað innsprautunar). Þetta aksturslag hefur í för með sér óþarfa eyðslu og pirrar aðra bílstjóra. Það sem verra er: Með þessu aksturslagi, t.d. að vetri til, sótar vélin sig og veldur meiri loftmengun en ella. Það er engin tilviljun að þeir sem aka með þessu lagi lenda frekar en aðrir í því að ventlar festist í vélunum - með ærnum óþægindum og kostnaði.


Meira fræðsluefni

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar