Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur:

Kia Sorento 4x4 2006


Kia Motors er elsti bílaframleiðandinn í Suður-Kóreu, stofnað 1944 og nú í eigu Hyundai-samsteypunnar. Á heimavelli er Kia þekktast fyrir framleiðslu á litlum ódýrum fólksbílum auk þess sem það hefur framleitt herjeppa áratugum saman en einn slíkra fyrir almennan markað var Kia Sportage - fullvaxinn jeppi með grind og hátt og lágt drif fram að árgerð 2002 þegar Sportage breyttist í grindarlausan aldrifsbíl með jeppaútlit.

Mikil sókn og vöxtur Kia í Bandaríkjunum hefur vakið athygli, ekki síst vegna þess hve bílar frá Kia (og Hyundai) hafa komið vel út úr gæðaprófunum á sama tíma og aðrar bílaframleiðendur í Suður-Kóreu hafa þurft að innkalla fjölda bíla vegna bilana/galla (www.chosun.com). Á meðal ástæða sem nefndar hafa verið er sú staðreynd að eftirspurn eftir nýum kóreönskum bílum er margfalt meiri á heimamarkaði en sem nemur framboði en framleiðendum er gert samkvæmt lögum að selja ákveðinn hluta framleiddra bíla til útflutnings; kröfur kaupenda heima fyrir um gæði eru því mun minni en ella.

Talsvert hefur verið selt af Kia hérlendis enda hafa þeir verið með ódýrustu bílum á markaðnum. Umboðið hefur skipt nokkrum sinnum um eigendur/stjórendur sem varla hefur orðið til að bæta þjónustuna en á undanförnum árum hefur töluvert verið kvartað undan tíðum bilunum hjá Kia Sportage og Sorento frá 2003. Samkvæmt upplýsingum frá Kia Motors hafa gæði bílanna batnað og bilanatíðni lækkað. Fréttir af bandaríska markaðnum virðast staðfesta það (m.a. gæðaprófanir á www.jdpower.com). Því til viðbótar má gera ráð fyrir að Kia-umboðið sé nú komið á lygnari sjó sem hluti af Benz-umboðinu Öskju.

Stærðin dylst
Nýr fullvaxinn jeppi frá Kia í stað eldri gerðar af Sportage kom 2003 en það er Sorento; 4ra dyra jeppi með sæti fyrir 5. Sorento, sem er fáanlegur af tveimur búnaðarstigum, LX og EX, er byggður á stigagrind með sjálfstæða gormafjöðrun að framan en stífa hásingu með gormum að aftan.

Lagið á Sorento er nýtískulegt. Það leynir stærðinni og því gerir maður sér ekki fulla grein fyrir því hve stór hann er fyrr en við samanburð á Mercedes-Benz ML og Lexus RX300 - en Sorento er stór jeppi og reyndar meiri jeppi en þær tvær fyrirmyndir. Ef til vill hljómar það ótrúlega en margir þekkja ekki sundur Kia Sorento, Mercedes-Benz ML og Lexus RX300 sem telst meðmæli með útlitshönnuninni þótt þetta séu ólíkir bílar að öðru leyti. Sem samanburð má hafa að flatarmál botnskugg Sorento, Benz ML og Lexus RX er 8,51, 9,13 og 8,78 m2. Hafi maður talið sig þekkja einhver sameiginleg einkenni hjá bílum frá Suður-Kóreu get ég ekki merkt þau í þessum Kia Sorento. Áferðarfalleg smíði og vandaður frágangur er hins vegar áberandi að mínu mati.

Nýtískulegur jeppi
Kia Sorento er útlitshannaður sem evrópskur bíll. Þetta er fyrsti nýi bíllinn sem hannaður er hjá Kia eftir að Hyundai eignaðist fyrirtækið. Lag bílsins er nýstískulegt en hentar ekki jafn vel byggingu hans eins og hjá áðurnefndum tveimur fyrirmyndum. Sem dæmi má taka samspil dyra og sæta. Grind bílsins takmarkar höfuðrýmið. Sætin eru með fremur lágum, þunnum og stuttum setum sem gera þau óþægilegri, sérstaklega í lengri akstri og vegna grindarinnar eru framdyr bílsins víðar en fremur lágar. Af þessu leiðir málamiðlun í samspili dyra og sæta sem er ekki nægilega hagkvæm og ein afleiðing er sú að manni hættir til að reka höfuðið upp í karm framdyra þegar sest er inn í bílinn.

Afturhlerinn er tvískiptur og opnast báðir hlutar hans upp. Hagræði er að því að opna má efri hlutann, þ.e. rúðuna eina sér. Eins og fullgildum jeppa sæmir er veghæð rífleg eða 203 mm þar sem hún er minnst (undir hásingu) á 16 tomma felgum með 245 mm breið dekk með 70% prófíl. Vaðdýpt bílsins er 450 mm. Sorento snýr innan í hring með 11 m þvermáli og er því ágætlega lipur í borgarakstri með álagsnæmu vökvastýri (tannstangarstýrisvél/veltistýri). Burðarþol þaksins er 75 kg.

Grindarbíll
Ekki er óeðlilegt að spyrja hvað fengið sé með grind í bíl af þessari gerð og stífri afturhásingu því hvort tveggja hefur ákveðna ókosti. Kia Sorento er einn ódýrasti fullvaxni jeppinn á markaðnum og sá sá best búni miðað við verð. Hluti af skýringunni liggur í byggingu bílsins en stífa afturhásingin er ódýrasti afturhjólabúnaður sem völ er á í jeppa. Helstu kostir hennar eru mikið burðarþol auk þess sem hún gefur bíl þekkta og trausta akstureiginleika. Ókostirnir eru höst fjöðrun og takmarkaðri torfærugeta sem þó má fullyrða að mjög sjaldan komi að sök. Í Sorento er stigagrind (með þverbitum eins og stigi). Grindin gefur jeppa mikinn snerilstyrk bæði í lóðréttu plani (uppásnúningur) og í láréttu plani (tíglun). Með grind hefur jeppi, að öðru jöfnu, meiri dráttargetu en grindarlaus. Sú dráttargeta er ódýrari á hvert tonn en dráttargeta í grindarlausum jeppa. Þar að auki hentar grindarbíll mun betur til dráttar, þolir meiri högg, kippi og hliðarálag án þess að hætta sé á skemmdum.

Ákveðin regla er höfð til viðmiðunar við útreikning á dráttargetu jeppa. Hún er sú að jeppinn geti dregið vagn, sem ekki er búinn eigin bremsubúnaði, sem vegur 85% af skráðri eigin þyngd bílsins. Kia Sorento vegur með ökumanni og fullum eldsneytisgeymi um 2100 kg. Samkvæmt því ætti að vera óhætt að draga 1785 kg þungan bremsulausan vagn (uppgefið 750 kg). Uppgefin dráttargeta er 2800 kg sé um að ræða vagn með bremsum. Ásetufarg (lóðrétt) á dráttarkúlu má vera 112 kg. Dráttargeta Kia Sorento er meiri en hjá mörgum öðrum jeppum og sennilega meiri en fæst hjá nokkrum öðrum 4ra dyra jeppa með hátt/lágt drif og sem kostar innan við 2,7 mkr. Þetta ættu hrossaeigendur að hafa í huga því ég fæ ekki betur séð en að Kia Sorento sé kjörinn fyrir þann flutning sem flestum þeirra fylgir. Og þá er ekki verra að flutningsrýmið (1,4 metrar á breidd) er 1960 lítrar með sætin felld en 900 lítrar fyrir aftan aftursæti og burðarþolið um 500 kg.

Ekki sportjeppi
Þrátt fyrir sportlegt útlitið er Kia Sorento fyrst og fremst jeppi og þolir að vera notaður sem slíkur, t.d. til dráttar. Eins og við er að búast er fjöðrunin með þessu hjólastelli í hastara lagi án þess að geta kallast óþægileg. Sjálfstæða fjöðrunin að framan er með gormaturn og klafa að neðanverðu sem eykur rásfestu merkjanlega. Sorento er ágætur ferðabíll á möl sem malbiki og hefur flesta þá eigileika sem fullvaxinn jeppi á að hafa. Hann er með diskabremsum á öllum hjólum sem eru nægilega öflugar til að stöðva þennan 2ja tonna bíl á 100 km hraða á 43 metrum. Á lengri leiðum mun mörgum þykja aftursætið óþægilegt, sérstaklega fólki sem er yfir meðalstærð því fótarýmið er af skornum skammti.

Kia Sorento er ekki sportjeppi og það er lítið um sportlega takta í aksturseiginleikum hans - t.d. er varla hægt að ímynda sér ólíkari bíla í akstri en Sorento og BMW X5. En skyldu allir gera sér grein fyrir því hve svokallaðir sportlegir eiginleikar rýra aðra mikilvæga eiginleika bíls, ekki síst notagildið? Ekki fæ ég séð að þetta rýri gildi Sorento - a.m.k. sakna ég ekki sportlegra eiginleika og mér finnst athyglisvert að það er ekkert verið að reyna að leyna því að Sorento er fremur jeppi með kosti vinnuþjarksins fremur en sportbílsins - þetta er "no nonsense" farartæki eins og Ameríkaninn segir.

Fremur ber að líta á það sem kost og kaupbæti að margir, sem ekki aka Sorento, finnst hann jafn flottur tilsýndar og sportjepparnir frá Lexus og Benz. Það mun hins vegar koma fleirum á óvart en mér hve Kia Sorento er skemmtilegur jeppi og einnig að hann er ekki síður glæsilegur að innanverðu.

Vélbúnaður
Bensínvélarnar í Sorento eru frá Hyundai og eru þær sömu og í Santa Fe og fleiri bílum frá Hyundai. Báðar eru með hedd úr áli, 4 ventla á hverju brunahólfi og þjöppunarhlutfall 10 : 1.

Annars vegar er 2,4 lítra 4ra sílindra vél með tveimur ofanáliggjandi kambásum (tímareim sem vissara er að endurnýja tíalega , þ.e. 60-90 þús. km). Hámarksafl 4ra sílindra bensínvélarinnar er 139 hö við 5500 sm. Hámarkstog er 196 Nm við 2500 sm. Þótt aflið sé ekki mikið nægir það í öllum venjulegum akstri með beinskiptum kassa sé gírunum beitt. Með þessari vél er bíllinn ódýrastur og sparneytnin með því besta sem gerist hjá jeppa með lágu drifi. (LX beinskiptur á kr. 2.69 mkr. er mun betur búinn en verðið gefur tilefni til að ætla eins og sjá má á www.kia.is). Ódýr gerð af bíl er, að öðru jöfnu, hagkvæmust í rekstri og verðrýrnunin við notkun hlutfallslega minni en hjá dýrari og betur búinni gerð sömu tegundar.

3,5 lítra V6-vélin með 4 ofanáliggjandi kambása (tímareim). Hámarksaflið er 195 hö við 5500 sm og hámarkstog 300 Nm við 3000 sm. Viðbragð 0-100 km/klst með 195 ha vélinni og sjálfskiptingu er 10,2 sek. Reikna má með eyðslu allt að 14 lítrum í borgarakstri ef ekki meiru.

Sorento er með túrbódísilvél (CRDi) sem hönnuð er hjá Kia upp úr 2000 og er að ýmsu leyti athyglisverð enda sérstaklega hönnuð fyrir jeppa. Vélin er 2,5 lítra 4ra sílindra með tveggja kambása álheddi og 16 ventla (2 tímakeðjur). Innsprautukerfið er með rafstýrðum spíssum sem ýra beint inn í brunahólf frá forðagrein (common rail). Með hefðbundinni pústþjöppu og framhjáhlaupsgátt er hámarksafl vélarinnar 140 hö við 3800 sm. Hámarkstogið er 343 Nm við 2000 sm. Snerpan með nýju túrbódísilvélinni er um 14 sek 0-100 km/klst sem telst athyglisvert þegar haft er í huga að slagrýmið er 2,5 lítrar og bíllinn rúm 2 tonn á þyngd. Athygli vekur að viðbragð dísilbílsins er ívið betra með 4ra gíra sjálfskiptingunni en með 5 gíra beinskiptingu (14,3 og 14,6 sek). Annað sem vekur athygli manns er áberandi góð hljóðeinangrun - en inni í bílnum í akstri heyrist jafnvel minna í dísilvélinni en í 4ra sílindra bensínvélinni. Sorento með 2,5 lítra túrbódísilvélinni eyðir 8,5 - 9,0 lítrum á hundraðið en það vil ég meina að sé merkileg sparneytni hjá 2ja tonna alvöru-jeppa - reyndar er það minni eyðsla en hjá sumum talsvert léttari aldrifsbílum sem líta út eins og jeppi án þess að vera það. Nýrri Sorento er með 2ja lítra dieselvél (CRDi) með tímakeðju. Sú vél er rmun sprækari en eldri vélin (sama vél er í Sportage) enda er árgerð 2010 af Sorento grindarlaus jepplingur án lágs drifs (þar fór góður ekta jeppi í hundskjaft).

Endurbætt gerð af þessari nýju vél er kominn á markaðinn erlendis en hún er búin pústþjöppukerfi frá BorgWarner (BV43) með tölvustýrðri álagsbeitingu (VGT) í stað framhjáhlaupsgáttar, m.a. með breytilegum inntaksleiðurum sem beina pústinu inn á hverfilinn eftir því hvernig vélinni/inngjöfinni (barkalaus) er beitt. Þessi nýja tækni eykur hámarksafl vélarinnar úr 140 í 174 hö við 3800 sm og sparneytnina um 11% (2 tímakeðjur).

Drifbúnaður
Með 2,4 lítra besínvélinni er einungis boðin 5 gíra beinskipting með handskiptum millikassa, sjálfvirkum driflokum á framhjólum og tregðulæsing í afturdrifi. 4ra gíra sjálfskipting er fáanleg með V6-bensínvélinni og dísilvélinni. Í þeim dýrari gerðum er millikassinn rafstýrður og með sjálfvirka aflmiðlun á milli fram- og afturdrifs (TOD = Torque On Demand sem ég hef þýtt sem "Grip við gjöf"). Þessi drifstýribúnaður, sem er hannaður af BorgWarner og framleiddur í Suður-Kóreu, er tæknilega flókinn og byggir á tölvustýringu. Hann er í einnig að finna í bílum frá Hyundai og SsangYong og hefur reynst misjafnlega.

Vel búinn + öryggi
Það er talsverð fyrirhöfn að bera saman búnaðarstig bíla, ekki síst vegna þess að búnaðarlistar eru ólíkt uppsettir og bílasalar nota ekki sömu heiti í öllum tilfellum. Ódýrasti Kia Sorento kostar innan við 2,7 mkr. Það út af fyrir sig er hagstætt verð fyrir stóran jeppa með fullvaxinn drifbúnað. Á þessu verði á maður varla von á öðru en að ýmsan þægindabúnað vanti - maður gerir t..d. ekki ráð fyrir að upphitun sé í framsætum. En að þessu leyti kemur Kia Sorento verulega á óvart því ódýrasti bíllinn er miklu betur búinn en maður á að venjast í þessum flokki bíla. Á vefsíðu umboðsins (www.kia.is) er að finna upplýsingar um verð og innifalinn búnað. Ég hef það á tilfinningunni að þær upplýsingar muni koma mörgum á óvart.
Og að endingu má nefna að varðandi öryggisbúnað þolir Sorento samanburð við miklu dýrari bíla en hann er ríflega 4ra-stjörnu-bíll samkvæmt bandarískum NCAP-árekstrarprófunum.

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar