Nokkur atriði varðandi vélarolíu

Það væri hægt að flytja langan fyrirlestur um smurolíu, þykktarflokkun, fjölþykktareiginleika og gæðastig. Oft mætti ætla af því sem fullyrt er um smurolíu að hún væri öll af sömu rót runnin. En svo er ekki. Smurolíur skiptast í tvo flokka, annars vegar er smurolía sem unnin er úr jarðolíu með hreinsun en hins vegar smurolía sem framleidd er með efnafræði, þ.e. syntetísk smurolía. Syntetíska smurolíu er auðveldara að efnabæta þannig að hún öðlist ýmsa eiginleika sem olía unnin úr jarðolíu hefur ekki. Flokkun á þykktarsviði, séreiginleikum og gæðum smurolíu er flókið mál, ekki síst vegna þess að ekki er notast við sömu staðla - bæði í Bandaríkjunum , Evrópu og Asíu eru í gildi mismunandi staðlar um ýmsa flokkun á smurolíu auk þess sem einstaka bílaframleiðendur styðjast við eigin staðla (t.d. M-B og VW).

Eðlis síns vegna þynnast feitir vökvar við hitnun: Tólg rennur ekki fyrr en hún hefur hitnað og flýtur - það er þegar hún er orðin að floti. Því heitara sem flotið verður, því þynnra verður það og því hraðar rennur það. Í grundvallaratriðum gildir það sama um smurolíu. Af því leiðir og má augljóst vera að smurolía sem er af ákveðinni þykkt við 5°C er ekki af sömu þykkt við 75°C heldur þynnri. Rennslishraði smurolíu með seigjutöluna 5 breytist meira með hitastigi en rennslishraði smurolíu með seigjutöluna 30 - því hærri sem seigjutala smurolíu er því minni áhrif hefur hitastigsbreyting á rennslishraða hennar.

Með því að blanda ákveðnum kemískum efnum saman við smurolíu má draga úr áhrifum hita á rennslishraða; annars vegar má koma í veg fyrir að smurolía storkni í miklum kulda og hins vegar og jafnframt - má varna því að hún þynnist um of við að hitna. Smurolía sem þannig er efnabætt nefnist fjölþykktarolía. Þessi eiginleiki smurolíunnar sem gerir hana óháðari hitabreytingum er mælanlegur og mælikvarðinn nefnist seigjusvið. 5W20 er minna seigjusvið en 15W40. Í 10 stiga frosti er rennslishraði 5W20 meiri en 15W40. Við 90°C er rennslishraði 5W20 meiri en 15W40. Þetta þýðir í grófum dráttum að smurolía með seigjusviði 5W20 er þynnri og flýtur betur við lægra hitastig og þynnist meira við hærra hitastig en 15W40.

Vandinn er sá að margir misskilja seigjusvið og taka það sem mælikvarða á þykkt. Verra er að margir gera sér ekki grein fyrir því að kemísku efnin sem gefa smurolíu fjölþykktareiginleika eyðast úr olíunni með notkun, þau hverfst með kolefni (sóti) og brennisteinssýru, eimast við margendurrekna hitun og kælingu, brenna jafnvel og /eða falla út. Fjölþykktarolía sem verið hefur á vél 15 þúsund km hefur ekki þá fjölþykktareiginleika sem hún hafði ný og að þessu leyti eru gæði smurolía mælanlega misjöfn á milli tegunda/vörumerkja. Þetta þýðir að smurolían með mestu fjölþykktareiginleikana - víðasta seigjusviðið, getur reynst skaðlegust vél sé hún notuð of lengi. Það er í því ljósi sem ber að skoða hátækniolíur með tiltölulega þröngt seigjusvið, t.d. 5W20.

Varðandi íslenskar aðstæður myndi ég álíta að smurolíu með seigjusviðið 5W20 ætti að mega nota á nýlega vél sé hún endurnýjuð á 10 þús. km. fresti. Tilgangurinn er þá að draga sem mest úr innra núningsviðnámi vélarinnar, ekki síst við gangsetningu en þótt það kunni að hljóma ótrúlega veldur gangsetning kalldrar vélar um 80% af sliti. Annað atriði er að nýjustu túrbódísilvélarnar, sem eiga það sameiginlegt að vera með háþrýsta forðagrein (Common rail) og rafspíssa í stað olíuverks og gormaspíssa, nota smurþrýsting sem eina af breytunum sem vélartölvan notar fyrir brunastýringu. Því skiptir miklu máli að nota einungis smurolíu á þessar vélar sem standast þann gæðastaðal sem framleiðandinn gefur upp - næstum umdantekningarlaust eru um að ræða syntetískar smurolíur. Gæðastaðll VW 505 gildir t.d. fyrir nýjar túrbódísilvélar frá VW af árgerðum frá 2004/2005.

L.M.J.