Skýring varðandi fyrri grein um Willys-jeppann (Ísraels-jepparnir)

Skömmu eftir að ég hafði skráð sögu Kaiser-Frazer og sú grein hafði birst á vefsíðu minni barst mér netbréf frá Jack Mueller gagnaverði Kaiser-Frazer Owners Club International með fyrirspurn um efni greinarinnar. Þegar ég hafði sagt honum að Kaiser-bílarnir hefðu komið frá Hafia í Ísrael og fyrir þá hefði verið greitt með freðnum fiski upplýsti hann eftirfarandi:

Kaiser-Frazer hafði stofnað sérstakt fyrirtæki upp úr 1950 sem nefndist ,,Kaiser-Frazer Export Corporation" (K-FC). Samhliða kom fyrirtækið upp samsetningarverksmiðjum utan Bandaríkjanna, þ.e. í Rotterdam í Hollandi, Haifa í Ísrael, Kawasaki í Japan og Bombay í Indlandi. Markmiðið var að selja Kaiser-bíla (og seinna einnig Kaiser-jeppa) þjóðum sem ekki áttu dollara með vöruskiptum. K-FC tók við greiðslu fyrir bílana í formi vöru samkvæmt ákveðnum reglum um gæði, frágang, verðmat og fluting. Varan sem fengin var í skiptum fyrir bílana varð eign K-FC sem síðan seldi hana áfram til 3. aðila. Þó ber að hafa í huga að reglan mun hafa verið sú hjá K-FC að það samþykkti ekki vöruskiptin fyrr en það hafði tryggt sér kaupanda að þeim vörum sem fengust í skiptum fyrir bílana. En með þessu móti tókst Kaiser-Frazer að skapa farveg fyrir viðskipti sem annars hefðu orðið allt of flókin og of áhættusöm til að geta átt sér stað.

Árið 1946 hafði Ingólfur H. Gíslason (Grenimel 35 í Reykjavík) umboð fyrir Kaiser-Frazer. Í bókinni ,,Hver á bílinn?" frá 1956 eru skráðir 3 Frazer-bílar af árgerð 1947. Ingólfur mun hafa samið við fyrirtækið Gísla Jónsson hf, líklega 1950, um að það tæki að sér umboðið fyrir K-F en þar var þá stjórnandi Guðmundur Gíslason (sem síðar stofnaði ásamt fleirum Bifreiðar- og landbúnaðarvélar hf. ). Guðmundur mun hafa farið til Haifa í Ísrael og samið þar um kaup á 200 Kaiser-bílum af árgerð 1951 og/eða 1952. Á þessum tíma, þ.e. fram á vor 1951, var Hjalti Björnsson konsúll (Vesturgötu 17 og síðar á Hagamel 8) umboðsmaður fyrir Willys-Overland.

Um 1950 hafði verið tekin upp ný stefna í utanríkisverslun eftir mikið haftaskeið. Ráðgjafar stjórnvalda, þeir Ólafur Björnsson og Benjamín H. J. Eiríksson, höfðu lagt til aukið frelsi í innflutningi og það verið samþykkt. Þetta var á tíma samsteypustjórnar sjálfstæðis- og framsóknarmanna undir forsæti Steingríms Steinþórssonar en hún hafði tekið við völdum í mars 1950 og stjórnaði fram á árið 1953. Björn Ólafsson mun hafa farið með viðskiptamálin en ekki er að orðlengja það að þeim Gísla Jónssonar-mönnum tókst að fá samþykki fyrir því að greiða Kaiser-bílana með fiski (og einnig fyrir Willys jeppa frá Ísrael). Sams konar vöruskiptaverslun stundaði KFEC í öðrum löndum og með annan varning en fisk í skiptum fyrir bíla.

Skip voru hlaðin fiski og siglt til Haifa, fiskinum skipað á land og bílarnir lestaðir í staðinn. Þegar heim var komið var þessum Kaiser-bílum úthlutað með sérstökum leyfum til atvinnubílstjóra.

Til baka í Kaiser

Til baka í fyrri grein um Willys

Til baka í seinni grein um Willys