Nokkrir skrýtnir breskir jeppar frá stríðsárunum

Bretar voru ekki alveg úti að aka varðandi smærri torfærubíla á stríðsárunum. Þeir hönnuðu og gerðu tilraunir með alls konar furðuleg tæki sem fæst komust af forgerðarstiginu. Hér eru nokkrir sem aldrei náðu svo langt að verða framleiddir. Bretar framleiddu fjórhjóladrifna fólksbíla fyrir herinn. Slíkir bílar voru hérlendis á stríðsárunum. Á meðal þeirra var Humber 4x4 sem byggður var á Super Snipe og nefndist Heavy Utility Car en þetta voru 2,5 tonna þungir 4ra dyra station-bílar, einnig nefndir Humber F.W.D. og voru framleiddir á árunum 1941-1945 og voru ekki ósvipaði útlits og Ford WOA1 (sem voru einungis með afturhjóladrifi). Þá má nefna breska Willys-jeppa sem settir voru saman af Nuffield Mechanizations Ltd. úr Willys-hlutum en breytt þannig að þeir voru mun styttri á milli hjóla en þeir voru ætlaðir fallhlífarsveitum. Aðeins fáir munu hafa verið framleiddir en þá átti að láta svífa til jarðar í fallhlífum.

SS Car Ltd (en það var undanfari Jaguar) hannaði þessi torfærutæki. Vinstra megin er SS VB með vél úr Ford 10 en hægra megin SS VA sem var fislétt tæki með vél úr mótorhjóli. Bæði þessi tæki voru einungis með drifi á afturhjólum en sjálfstæða fjöðrun á hverju hjóli. Efstur er Standard 12 HP frá 1943 sem var afturhjóladrifinn, greinilega eftirlíking af Willys. Næstur er Standard FGPV (Farmers General Purpose Vehicle) sem var fjórhjóladrifið landbúnaðartæki sem var í prófun árin 1944-45. Í miðið er Standard JAB (Jungle Airborne Buggy) með drif á öllum. Neðstur er Standard Beaverette IV sem var brynvarinn með 10 mm þykkri klæðningu.

 

Standard Jungle Bug var skrýtið tæki. Vélin var sú sama og verið hafði í Standard 8 fólksbílnum. Fyrsta forgerðin, sem var blanda af mótorhjóli og dvergtraktor var með drifið á afturhjólunum.

 

Til baka