SKRIÐDREKAR Í 2. HEIMSTYRJÖLD

Inngangur (! listi yfir greinar/tengla er neðar á síðunni)

Ég hef haft sérstakan áhuga á síðari heimstyrjöldinni frá barnæsku. Fæddur 1942 og uppalinn á Reynimelnum finnst mér ég muna eftir Kamp Knox við vesturenda götunnar um það leiti sem Bandaríkjamenn voru að flytjast þaðan og seinna, á 6 og 7. áratugunum, sem íbúðarhverfi sem maður hætti sér ekki of nálægt - hvað þá inn í, hvort sem það hefur verið vegna fordóma eða hugleysis. Sérstakur áhugi minn á skriðdrekum kviknaði haustið 1989. Ég var þá staddur á strandhóteli á Ermasundsströnd Frakklands og kynntist þar, fyrir tilviljun, írskum útvarpsmanni og fræðaþul frá Dublin, Ted Bonner (hann lést í maí 2002, þá um áttrætt). Ted hafði verið hermaður og tekið þátt í bardögum í Frakklandi á síðustu árum stríðsins. Talið barst að skriðdrekum sem hefðu verið á þessu svæði og hann fræddi mig á því að bandaríski M4 Sherman hefði verið líkkista á beltum og nánast dauðadómur að vera skriðdrekaliði á honum. Þetta hafði ég aldrei heyrt áður. Ég var, eins og flestir Íslendingar, alinn upp við tindáta, matrósarföt og lúðrasveit á sumardaginn fyrsta og með þeirri útgáfu af mannkynssögunni, sem sigurvegararnir höfðu ritstýrt; allt sem bandamenn höfðu notað í stríðinu var hið vandaðasta - sérstaklega þau tæki sem voru bandarísk. Ég vissi t.d. ekki betur en að það væri sannleikur sem stendur enn í sögubókum útgefnum á Íslandi; að Sherman-skriðdrekinn bandaríski hefði borið af öðrum skriðdrekum í stríðinu. Það var því talsvert áfall að komast að því, um fimmtugt, að þetta var fjarri lagi - þessu hafði verið logið að okkur.

Upp frá því fór ég að kynna mér ýmislegt í sambandi við síðari heimstyrjöldina og þau hergögn sem notuð voru. Minnugur þeirrar lexíu sem ég fékk hjá Ted Bonner um gildi hugtaksins ,,sagnfræði sigurvegarans" skoðaði ég málin í nýju ljósi og af meiri gagnrýni. Það hjálpaði einnig að geta lesið þýskar bækur og ýmis gögn - enda kom í ljós að ýmislegt virtist skolast til í þýðingum, sérstaklega skömmu eftir stríðslok. Á mörgum ferðum mínum erlendis vegna vinnu hef ég átt þess kost að skoða hergagnasöfn austan- sem vestanhafs. Einnig hef ég skoðað staði í Evrópu sem teljast sögulegir í tengslum við síðari styrjöldina. Í lok hverrar greinar bendi ég á söfn þar sem viðkomandi skriðdreki er til sýnis auk annarra upplýsinga fyrir þá sem kynnu að hyggja á ferðalag á svipaðar slóðir.

Auk yfirlitsgreinar um sögu skriðdrekans er hér birtur greinaflokkur um þýsku skriðdrekana Panzer III-VI og Köningstiger og auk þess stuttar yfirlitsgreinar eftir undirritaðan um þá herforingja sem öðrum fremur tengjast skriðdreka- og vélahernaði á 20. öld. Heimildum ber ekki saman um ýmis tæknileg atriði og framleiðlsutölur varðandi skriðdreka. Ég hef haft það fyrir reglu að nota engar tölur né ártöl án þess að hafa fyrir þeim a.m.k. 2 samhljóða heimildir. Upplýsingum um fjölda gerða og afbrigða hinna ýmsu skriðdreka, sem mest var af í síðari heimstyrjöldinni, ber illa saman þar sem iðulega er mismunandi skilgreining á því hvar einni gerð/afbrigð lýkur og önnur tekur við. Eftir því sem ég kemst næst, en birti með fyrirvara, voru bandarískir skriðdrekar af 12 tegundum og 32 gerðum (þar af 13 gerðir af M4 Sherman), breskir voru af 11 tegundum auk breyttra bandarískra Grant, Sherman Firefly og Achilles IIC, samanlagt 33 gerðir. Rússar beittu 10 tegundum af 48 mismunandi gerðum (þar af 6 gerðum af T-34). Skriðdrekar Frakka voru af 6 tegundum en ítalska draslinu hef ég sleppt. Sérstök grein um sovésku skriðdrekana er enn í vinnslu og mun bætast við í framtíðinni.

Upplýsingar um fjölda nothæfra skriðdreka í eigu hverrar þjóðar og fjölda framleiddra skriðdreka frá 1938 og út árið 1945 ber að treysta varlega. Eftir því sem lengra líður frá stríðslokum hafa nákvæmari tölur verið gerðar opinberar. Þjóðverjar virðast, samkvæmt opinberum tölum, hafa notað 29.900 skriðdreka á þessu tímabili. Giskað hefur verið á að samanlagður fjöldi skriðdreka Breta, Bandaríkjamanna og Sovétmanna hafi verið meiri en 200 þúsund á þessu sama tímabili. Þegar þessar tölur eru skoðaðar ber að hafa í huga að Þjóðverjar höfðu forskot - áttu fleiri og nýrri skriðdrekaí stríðsbyrjun en Bretar, Frakkar og Sovétmenn. Það er ekki fyrr en með gríðarlegri framleiðslugetu Bandaríkjamanna á seinni hluta stríðstímabilsins, sem þessi hlutföll breytast bandamönnum í vil.

Á Veraldarvefnum er mikið magn fjölbreyttra upplýsinga um skriðdreka og ærið misjafnt að gæðum. Þeir sem hyggjast skoða það geta stytt sér leið með því að nota leitarlýsingar svo sem ,,battletanks", ,,AFV", ,,wwii-allied afvs" og ,,panzer", svo dæmi séu nefnd.

Leó M. Jónsson

Saga skriðdrekans frá Mark I til Abrams

Þýsku skriðdrekarnir 1937-1945

J.Walter Christie og rússneski T-34

Skriðdrekaforingjar: (röð eftir aldri)

- George S. Patton Jr.

- Heinz Guderian

- Erwin Rommel

- Creighton W. Abrams Jr.

Síðari heimstyrjöldin: Gróf atvikaskrá í tímaröð