Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur:

Árgerð 2006 af GMC Sierra HD Picup 6.6 Diesel

Endurbætur og 60 hö öflugri

Um árabil hefur "trucking" verið sérstakt amerískt fyrirbrigði. Hvergi hefur sala pallbíla verið jafn mikil og notkun þeirra jafn almenn og í Bandaríkjunum. Einungis hluti þeirra er notaður sem vinnubíar. Pallbíllinn er eitt þeirra ytri tákna sem Ameríkanar kaupa sem "merkimiða" um lífstíl og ímynd.

Í Bandaríkjunum eru alríkislög um skilgreiningu, stofnun, stöðu og skattalega meðferð sjálfstætt starfandi einstaklings- og smáfyrirtækja (Small Business Act). Í þeim lögum eru ýmis ákvæði um skattafslátt, m.a. við kaup smáfyrirtækja á vinnubílum og nefnd hafa verið dæmi um að stærstur hluti kaupverðs pallbíls fáist jafnvel endurgreiddur í formi skattafsláttar. Ekki hefur það orðið til að draga úr eftirspurn eftir þessari gerð bíla. Gárungar hafa nefnt ýmis dæmi um hvernig "Smáfyrirtækjalögin" auki hagvöxtinn, m.a. með því að þegar "smá- bissnissmaðurinn" hefur keypt pallbílinn verður hann að kaupa húsvagn eða bát til að hafa eitthvað að draga.

 

Aðlöguð aðflutningsgjöld
Stór hluti amerískra pallbíla, jafnvel af stærri gerðum, eru einungis með drif á afturhjólum. Stór hluti fjórhjóladrifinna GM-pallbíla eru ekki með lágt drif í millikassa en þess í stað með gripmiðlun/spólvörn og mjög lágan 1. gír.

Amerískir pallbílar, eins og eru algengastir í Bandaríkjunum, eru sjaldséðir í Evrópu (nema í nágrenni herstöðva NATO) en víða stighækka innflutningsgjöld af bílum eftir vélarstærð og það nánast útilokar þessa gerð bíls. Ísland sker sig úr í þessu efni því fyrir áratug eða svo var innflutningsreglum breytt varðandi vélarstærð þannig að amerískir pallbílar og jeppar, sem hér eru eftirsóttari en í nágrannalöndum, gætu keppt um kaupendur við minni pallbíla, aðallega japanska. Til viðbótar var lögum um vörugjald breytt þannig að það er lægra af pallbílum (vinnubílum) en fólksbílum og jeppum og jafnframt eru stærstu og þyngstu pallbílar án vörugjalds. Stærstur hluti þeirra pallbíla sem fluttir hafa verið inn frá því aðflutningsgjöld voru lækkuð eru bílar sem vega meira en 3.500 kg að heildarþyngd.

Réttindaleysi?
Svo virðist sem mörgum hafi sést yfir ýmis ákvæði í umferðarlögum (Nr. 50/1978) sem eiga við stærstan hluta þeirra amerísku pallbíla sem notaðir eru hérlendis:

Samkvæmt umferðarlögum (Nr. 50/1987) er heildarþyngd það sem ökutæki vegur með ökumanni, farþegum, farmi og viðfestum vinnutækjum. Og samkvæmt umferðarlögum er leyfð heildarþyngd ökutækis sú heildarþyngd, sem leyfð er við skráningu þess.

Í 38. grein umferðarlaga segir að ökuhraði annarra bifreiða, sem vega meira en 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd, má aldrei vera meiri en 80 km/klst.

Í 50 grein umferðarlaga segir að aukin ökuréttindi (meirapróf) þurfi til að stjórna bifreið sem vegur meira en 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd. (Í sömu grein er þess getið að ráðherra geti breytt þessum reglum þegar ekki á í hlut hópferðabifreið).

Svo virðist sem margir hafi misskilið þetta með leyfilega heildarþyngd (lhþ) og rugli saman eigin þyngd bílsins, sem skiptir ekki máli í þessu samhengi, og leyfilegri heildarþyngd, telji t.d. að ekki þurfi meirapróf á þessa bíla óhlaðna.

Staðreyndin er einfaldlega sú að sé skráð leyfileg heildarþyngd pallbíls meiri en 3.500 kg, en það má sjá í 7. reit , talið ofan frá hægra megin, á skráningarskírteini bílsins, þarf ökumaður að hafa meirapróf og ekki er leyfilegt að aka bílnum hraðar en 80 km/klst. Þetta gildir um minni GMC 2500 og 3500 (lhþ = 4.173 - 5.171 kg) en ekki um GMC 1500 (lhþ = 3.175 kg).

Flestir munu sammála umað þessar greinar umferðarlaga þarfnist endurskoðunar enda séu þær úreltar og upphaflega miðaðar við hægfara evrópska vinnubíla með takmarkaða aksturseiginleika og litlar og aflvana vélar - þ.e. vinnubíla sem næsta lítið eiga sameiginlegt með amerískum pallbílum sem eru þeir öflugustu, hraðskreiðustu og öruggustu á markaðnum.

Mætti segja mér að það yrðu ekki lítil læti færi lögreglan að framfylgja þessum lögum - því þau eru í fullu gildi hvað sem tautar og raular.

"Vandamálasögur"
Nýjum bílum eða meiriháttar nýjungum á markaðnum fylgja oft ýmsir hnökrar sem þarf að lagfæra. Til þess er ábyrgð framleiðanda og tilheyrandi kerfi til að bregðast við kvörtunum og göllum með sérhæfðri þjónustu og upplýsingamiðlun. En vegna þess að talsvert er af nýlegum bílum sem af ýmsum ástæðum eru ekki í ábyrgð, t.d. vegna þess að þeim hefur verið stolið, þeir hafa verið afskráðir sem tjónabílar, gerðir upptækir af fíkniefnalögreglu eða eru á "gráa markaðnum", hafa sumir eigendur orðið fyrir fjárhagslegu tjóni. Af því spinnast síðan alls konar "hryllingssögur" sem takmarkaður fótur reynist vera fyrir eða þá vegna atvika sem eiga sér eðlilegar skýringar.

6.6 lítra dísilvélin
6.6 lítra V8-túrbódísilvélin DuraMax, er þróuð í samvinnu GM og Isuzu, og kom fyrst 2001 (310 hö). Vélin er með blokk úr steypustáli með 4ra bolta höfuðleguklossum (2 láréttir boltar) og álhedd með 4 ventlum á hverju brunahólfi (ítarleg tæknileg lýsing er annars staðar á þessari vefsíðu). Vélin hefur reynst vel og er ein sú gangmýksta og sprækasta á markaðnum. Þau vandamál sem komu upp á fyrstu árunum voru vegna spíssa sem reyndust gallaðir en á mismunandi hátt; annars vegar voru spíssar sem láku til baka (yfirfall) vegna þess að hulsur sprungu en hins vegar spíssar sem biluðu vegna tæringar sem mynduðust á nálum þeirra. Spíssar í Duramax eru framleiddir af Bosch. Þessi galli var bættur af GM. Ábyrgð á öðru en vélbúnaði (árgerð 2001 og nýrri) er 5 ár (eða 160 þús. km) en á vélbúnaðinum 3 ár (eða 58 þús. km). GM bætti við sérstakri ábyrgð á spíssum í Duramax fyrir árgerðir 2001/2002 og gildir hún 7 ár (eða 320 þús. km). Einhver misbrestur mun hafa verið á því að upplýsingar um þessa sérstöku "spíssaábyrgð" hafi náð til eigenda.

360 ha DuraMax
Snemma í október koma fyrstu GM-pallbílarnir með 360 ha DuraMax dísilvélinni og verða sýndir hjá IB á Selfossi. IB hefur flutt inn stærstan hluta þeirra nýju amerísku pallbíla sem hér er í notkun auk þess sem fyrirtækið rekur sérhæft þjónustuverkstæði fyrir ameríska bíla, m.a. pallbíla frá GM, Ford, Chrysler og Jeep.

Helstu breytingar á vélbúnaði eru eftirfarandi: Vélarafl hefur verið aukið í 360 hö við 3200 sm. Hámarkstog vélarinnar er 881 Nm við 1600 sm. Ýmsar endurbætur hafa verið gerðar á vélinni og innsprautubúnaði sem gera hana merkjanlega hljóðlátari, ganginn mýkri og minnka mengun í útblæstri. Til að minnka titrun hefur blokkin verið styrkt og þjöppun lækkuð úr 17,5 í 16,8 : 1. Ný 32ja bita E-35-vélartölva, virkari forkæling EGR-hringrásar, 1000 vatta hitari í loftinntaki og hækkun ýrunarþrýstings úr 23 í 26 þúsund psi með nýrri gerð spíssa, sem ýra með 5 skotum beint á endurbætt glóðarkertin, minnka mengun og auka sparneytni.

Við DuraMax-vélina er pústþjappa með sjálfvirkum búnaði í inntaki sem beinir pústinu yst eða innst á hverfilblöðin eftir snúningshraða vélarinnar en með því móti nær þjappan fyrr upp þrýstingi en ella. Þessi búnaður hefur verið endurbættur þannig að hann virkar jafnframt sem hamlari (mótorbremsa) og er fáanlegur með miðlungs- og stærri HD-pallbílunum frá GM.

6 gíra Allison 1000-sjálfskipting
Tölvustýrðar sjálfskiptingar eru, eðlis síns vegna, flóknara fyrirbæri en mekanískar; tölva stýrir vinnslu þeirra með breytum eftir ákveðnu forriti. Breyturnar eru boð frá skynjurum sem nema ástand og stöðu mismunandi hluta í vél- og drifbúnaði. Það segir sig sjálft að líkur fyrir truflunum/hnökrum og bilunum vegna svo margra áhrifavalda eru meiri.

5 gíra Allison 1000-sjálfskiptingin í GM-bílum hefur ekki farið varhluta af slíkum truflunum. Að undanskildum tilfellum þar aflaukandi tölvukubbur er við vél hafa bilanir oftast verið í utanaðkomandi búnaði fremur en að burðarþol skiptingarinnar hafi ekki reynst nægilegt í þungum drætti.

Ný 6 gíra sjálfskipting er endurbætt. Hún er með sérstakt dráttarprógram eins og sú eldri. Með þumaltakka má nú einnig handskipta milli gíra. Yfirgírar eru nú tveir þannig að aka má á rúmlega 90 km. hraða á jafnsléttu með vélina á 1500 sm. Þá er skiptingin búin sjálfvirkri niðurskiptingu sem virkar þegar farið er niður í móti - sem einnig heldur við þegar ekið er með hraðastillinum. Niðurgírun er 3,10 í fyrsta, fjórði er beinn, fimmti 0,71, sjötti 0,61 og bakk 4,49. Staðal-drifhlutfall er 3,73. (Í Sierra HD er fjórhjóladrif með hátt og lágt drif - rafknúið val).

Gríðarleg dráttargeta
GMC Sierra HD 2500 og 3500 eru með stærstu og öflugustu vinnubílum. Reikna má dráttargetu með því að draga frá leyfilegri heildarþyngd stærsta 2500-bílsins með 4ra dyra std-húsi, sem er 9.980 kg, þyngd farþega og leyfilega hleðslu. Þá fæst hámarksdráttargeta sem er 7.258 kg. Sé húsið stærra er bíllinn þyngri og dráttargetan að sama skapi minni.

Eldsneytiseyðsla
Engu er líkara en að tröllasögum um mikla eyðslu amerískra pallbíla með dísilvél sé skipulega komið á kreik. Sumir virðast ekki átta sig á að dráttur þungra vagna hefur í för með sér verulega aukna eyðslu sem er eðlilegt. DuraMax-vélin hefur reynst 15-20% sparneytnari en 6.5 lítra GM túrbódísilvél í lagi.

Sem viðmiðun og samanburð á eyðslu þessara stóru GM-pallbíla má hafa eftirfarandi:

- Eyðsla óhlaðins dísilbíls með 6.6 lítra vél í blönduðum akstri: 11,2 - 13,9 l/100 km.

- Eyðsla dísilbíls með 6.6 lítra vél í drætti (80-90 km/klst): 15,1 - 18,1 l/100 km.
- Eyðsla óhlaðins bensínbíls með 6.0 lítra vél í bl. akstri: 15,7 - 19,6 l/100 km.

- Eyðsla bensínbíls með 6.0 lítra vél í drætti (80-90 km/klst): 26,1 - 29,4 l/100 km.

Af þessu má sjá hvers vegna dísilbíllinn hentar miklu betur ef notkunin innifelur kerrudrátt. (Heimild: www.thedieselpage.com )

Þægilegur vinnubíll
GMC Sierra HD 2500/3500 er mjög þægilegur vinnubíll en hann er ekki fólksbíll þótt sæti séu fyrir 5-6. Þetta er ekki bíll sem hentar í venjulegri miðborgarumferð enda er hann ekki gerður til þess. Maður situr mjög hátt sem hefur ákveðna kosti en fyrir bragðið eru staðir á jörðu umhverfis bílinn sem maður sér ekki í speglunum. Engu að síður eru GM-pallbílarnir meiri fólksbílar en Ford-pallbílar með svipað burðarþol. Sérstök ástæða er til að geta þess að stýrisgangur í GM-pallbílum er veikbyggðari en í Ford F250/350 og sá sem setur stærri dekk en 31"-33" undir GM-pallbíl kallar yfir sig vandamál og má eiga von á að stýrisliðir gefi sig fljótt. Ég mæli með upprunalegri dekkjastærð því þá er stýrisgangurinn til friðs.

Leðurklædd innréttingin er bæði vönduð, glæsileg og vel úr garði gerð, t.d. er mælaborðið og aðstaða bílstjórans með því besta sem gerist og betri stólar eru vandfundnir. Rými er í sérflokki, t.d. er leitun að bíl þar sem fer jafn vel um farþega í aftursæti í lengri ferðum. Hljóðeinangrun er meiri en í flestum algengum fólksbílum.

Búnaður þessara bíla er sambærilegur á við það sem gerist í dýrustu amerískum lúxusbílum. Á meðal þægindabúnaðar má nefna að auk sérstakra ljóskera fyrir sjálfvirk dagljósin stjórnar ljósnemi ökuljósunum sem kvikna sjálfvirkt t.d. þegar dimma tekur eða þegar ekið er inn í jarðgöng. Um aksturseiginleika er það að segja að á milliríkjabrautunum í Bandaríkjunum fara þessir trukkar um að tæplega 130 km hraða eins og hraðskreiðari fólksbílar.

Fleiri bílaprófanir

Til baka