BMW frá Suður-Kóreu?
Eftir Leó M. Jónsson vélatæknifræðing

Fyrir rúmum áratug var hlegið að Japönum þegar þeir lýstu því yfir að með lúxusútgáfu af Toyota (Aristo), sem þeir kynntu á alþjóðlegum bílasýningum sem Lexus, ætluðu þeir keppa á lúxusbílamarkaði við Mercedes-Benz, BMW og Cadillac!

Það er langt síðan skens og aulabrandarar hættu að birtast um Lexus í bandarískum fjölmiðlum - Lexus hefur verið þar 11 ár í röð efstur á lista yfir þá bíla sem sjaldnast bila og er fyrir löngu orðið sígilt stöðutákn sem aðrir framleiðendur, þar á meðal Benz og BMW, miða sína markaðsstarfsemi við að meiru eða minna leyti.

Fyrir tæpum 6 árum lýstu stjórnendur Hyundai í Suður-Kóreu því yfir að sérstakt gæðaátak í bílaframleiðslu þeirra hefði það að markmiði að Hyundai bílar myndu innan fárra ára mælast með meiri gæði en Toyota. Þá var víða hlegið. Nú hlær enginn að Hyundai því á þessu ári birtu bandarískir fjölmiðlar fréttir af því að niðurstaða mælingar þekkts fyrirtækis á sviði gæðakannana, á gæðum bíla af millistærð í Bandaríkjunum hefði Hyundai (Sonata) orðið nr. 1, Toyota nr. 2 (Camry) og Honda nr. 3 (Accord). Það hefði í einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar!

Bandarísk framleiðsla fólksbíla virðist vera öllum heillum horfin, ef frá eru taldar dýrar gerðir stærri bíla á borð við Cadillac og Lincoln og tískubílinn Chrysler 300. Langt er síðan Japanir hættu að hafa teljandi áhyggjur af samkeppninni í Bandaríkjunum, nema á sviði pallbíla sem þeir hafa nú nýlega snúið sér að og ætla að yfirtaka. Japanir hafa áhyggjur af samkeppninni frá Suður-Kóreu og ekki að ástæðulausu.

Chevrolet Epica/Tosca sem er framleiddur í GM DAT-verksmiðjunni í S-Kóreu - einni fullkomnustu bílaverksmiðju heims (áður í eigu Daewoo sem GM keypti) er seldur í Evrópu af Chevrolet Europe sem hefur aðalstöðvar í Sviss. Af skiljanlegum ástæðum selur GM ekki þennan bíl í Bandaríkjunum en hann er þegar búinn að ryðja öðrum Chevrolet af svipaðri stærð út af markaðnum í Kanada.

25-30% ódýrari
Flestir vita að bílar frá S-Kóreu eru talsvert ódýrari en bílar keppinauta og miklu ódýrari sé búnaðarstig sambærilegt. Sem dæmi eru bílar af millistærð (Hyundai Sonata, Chevrolet Epica/Tosca um 8-9% ódýrari í í Bretlandi en verr búnir Vauxhall (Opel) Vectra og Ford Mondeo). Hins vegar gera margir sér ekki grein fyrir því hve mikið gæði bíla frá Suður-Kóreu hafa batnað á undanförnum 5 árum - og verða því forviða þegar þeir uppgötva hve mikið fæst fyrir peningana í þessum bílum. Í Þýskalandi, svo dæmi sé tekið, eiga innlendir framleiðendur nánast enga möguleika lengur á markaði fyrir smærri bíla - þeir framleiða sína smábíla með dúndrandi tapi, jafnvel á láglauna-svæðum í Austur-Evrópu, á sama tíma og s-kóreönsku framleiðendur selja sína bíla með góðum hagnaði og gætu lækkað verð enn meira.

Öflugt menntakerfi - lykilatriði
Og hvers vegna virðast evrópskir og bandarískir bílaframleiðendur ekki eiga nokkra möguleika gagnvart þeim s-kóreönsku - sem sést m.a. á því að bandarískir framleiðendur hafa keypt bílaverksmiðjur í S-Kóreu og stofna nú s-kóreanskar bílaverksmiðjur í Bandaríkjunum? Einhverjum kann að finnast fyrirsögn þessarar greinar glannaleg - ekki síst sé honum ókunnugt um að Mercedes-Benz-bílar eru þegar framleiddir í S-Kóreu!

Á meðal þess sem nefnt er sem skýring á styrk og samkeppnishæfni tækniiðnaðar í S-Kóreu er öflugt skólakerfi en gríðarlega áhersla hefur verið lögð á menntun á verknámsstigi og framhaldsmenntun á háskólastigi í S-Kóreu undanfarna 3 áratugi. Þar er nú mjög vel þjálfað starfsfólk í hátækniiðnaði og nokkrir af bestu tækniháskólum heims. Almennt menntunarstig - vísinda- og tæknistig þolir samanburð við það sem best gerist í Asíu.

Lífseigir fordómar
Sú míta er furðu lífseig að S-Kóreu-bílar séu bilanagjarnari en einhverjir aðrir bílar. Sem dæmi er nefnt að (út)ventlar hafi átt það til að festast í 16-ventla heddum Daewoo-bíla en gleymist að það er algengur galli sem fylgir kaldara loftslagi; kom m.a. fyrst upp í Subaru og Nissan og hefur verið algengur kvilli í Opel, Ford, jeppum frá Daimler-Chrysler o.fl. Þeir sem skrifa um bíla í tímarit hafa oft ekki mikla þekkingu á viðfangsefninu þótt þeir láti drýgindalega. Margir þeirra fylgja reglum úr ,,fordómabókinni" samanber hugtök eins og ,,evrópskir aksturseiginleikar", ,,eyðslufrekir amerískir bílar", ,,ítölsk hönnun", ,,sjálfskiptingar eru bara fyrir Ameríkana" (þessir ,,sérfræðingar" myndu þó líklega hika við að velja beinskiptan Rolls), o.s.frv. Þegar þessir ,,sérfræðingar" reynsluaka bíl frá S-Kóreu tala þeir gjarnan um ,,plastið í innréttingunni" - um að það sé betra eða verra en í eldri gerðum o.s.frv. (því þannig á að skrifa um bíl frá S-Kóreu, samkvæmt ,,bókinni"). Þegar þeir reynsluaka BMW eða Benz er hins vegar aldrei fjallað um ,,plastið í innréttingunni". Úr hvaða efni skyldu þeir halda að mælaborðið í BMW sé?

Margir virðist trúa því, í alvöru, að Toyota-bílar séu gallalausir. En svo er, því miður, ekki enda væri það óeðlilegt því engin mannanna verk eru gallalaus - jafnvel ekki frá Toyota. Kvartað hefur verið undan nýjum LandCruiser-jeppum sem eru nánast ókeyrandi vegna galla í tölvustýringu sjálfskiptingar og sem umboðið virðist ekki ráða við. Það eru nefnilega umboðin sem ráða ekki við algenga galla vegna takmarkaðrar þjálfunar og ófullnægjandi skipulags í þjónustu - og hafi einhver haldið að það einskorðist við bíla frá S-Kóreu fer hann villur vega.

Nýr Hyundai Sonata hefur slegið út bæði Toyota og Honda í gæðamælingum á bandaríska markaðnum (www.edmunds.com)

Enginn bíll er gallalaus en starfsmenn þjónustudeilda bílaumboða eiga að vera þjálfaðir til að leysa slík mál sem aðrar kvartanir - vandinn er bara sá að starfsmenn ráða oft ekki við verkefnið - eru með allt á hælunum (því allir treysta sér til að vera þjónustufulltrúi, jafnvel þjónustustjóri - því margir virðast halda að það snúist bara um að vera nógu tungulipur og lofa upp í ermina - oftast upp í ermar annarra starfsmanna!). Það er ekki að ástæðulausu sem bílaframleiðendur tala um þjónustudeildir umboða sem ,,After-Sale-Service" - um er að ræða ákveðna aðstoð bílaframleiðanda við bíleiganda á ábyrgðartíma sem jafnframt er gagnkvæm upplýsingamiðlun. Viðkomandi umboði er ætlað að virka sem tengiliður samkvæmt ákveðnu kerfi sem nefnist ,,Claim Management". Það kerfi þekkja því miður ekki allir þjónustustjórar/fulltrúar sem jafnvel standa hins vegar í þeirri trú að þeirra hlutverk sé að vernda viðkomandi umboð gegn kröfum og nöldri einhverra nörda á meðal bílakaupenda.

Ég fæ ýmsar fyrirspurnir vegna ófullnægjandi þjónustu umboða á ábyrgðartíma nýrra bíla. Stundum eru frásagnir bíleigenda þannig að jafnvel mér blöskrar og er ég þó orðinn ýmsu vanur eftir rúm 30 ára samskipti við íslensk bílaumboð - sem ég tel, þó ekki án undantekningar, að séu sér á parti í V-Evrópu - enda hef ég sagt það áður að enn hef ég ekki hitt svo mikinn bjána að hann treysti sér ekki til að reka bílaumboð. Einstaka svokölluð umboð hérlendis virðast vera útibú aðalumboðs viðkomandi bílaframleiðanda í Skandinavíu sem oftar en ekki er danskt fyrirtæki - afleiðingin getur verið æfintýralegt verð á varahlutum.

Vanmetið gildi þjónustudeilda
Hlutverk þjónustudeildar er mikilvægt og langt frá því að vera auðvelt. Því skiptir máli að þar sé staðið að málum af þekkingu og mál afgreidd eftir skýrt skilgreindum verklagsreglum. Nefni hér tvö dæmi, af fjölmörgum, um mikilvægi þess að þjónustudeild bílaumboðs standi rétt að málum. Þessi ákveðnu dæmi sýna jafnframt hve erfitt hlutverk þjónustudeildar getur verið (ég þekki það af eigin raun sem ráðgjafi á þessu sviði).

Dæmi A
Af ákveðnum ástæðum eru reglur í aðgerðaskrám allra bílaframleiðenda, yfir þjónustuskoðanir/eftirlit á ábyrgðartíma. Sumir framleiðendur ætlast til að kæli- og bremsuvökvi séu endurnýjaðir með ákveðnu tilteknu millibili (sem getur verið misjafnlega langt eftir framleiðanda en 2-3 ár er algengt). Varðandi kælivökvann getur ástæðan verið öryggisráðstöfun frekar en þörf vegna þess að bíleigendur eða viðkomandi þjónustuaðilar nota ekki kælivökva af þeirri gerð/gæðum sem bílaframleiðandi mælir með. Í þeim tilvikum þarf þjónustudeild að fylgjast mjög vel með því að þetta sé framkvæmt, ekki einungis á eigin verkstæði heldur einnig hjá þjónustuverkstæðum úti á landi. Það eftirlit er hvorki einfalt né auðvelt því til eru bifvélavirkjar/verkstjórar/verkstæði sem virðast ekki vita hvers vegna þetta er nauðsynlegt; nenna ekki að framkvæma það (sóðalegt verk), hafa ekki áhöld til þess, kunna það ekki eða einfaldlega svíkjast um það (þótt eigandi bílsins sé látinn greiða fyrir vinnu og efni). Afleiðingin er m.a. algengar ótímabærar heddpakkningarbilanir og tæring í bremsudælum.

Dæmi B
Sölumenn nýrra bíla benda gjarnan væntanlegum kaupanda á hve mikið hagræði sé fólgið í lítilli viðhaldsþörf. Sem dæmi benda þeir á að í vél bíls sé t.d. sérstök tegund kerta (með skaut úr platínu eða irridíum) sem endast margfalt á við venjuleg hefðbundin kerti - jafnvel vel yfir 100 þús. km. Í slíkum tilfellum þarf þjónustudeild að gera sérstakar ráðstafanir til þess að fyrirmælum framleiðanda varðandi þessi kerti sé fylgt á ábyrgðartíma (sem lið í þjónustuskoðunum) en þau þarf að skrúfa úr og í aftur með sérstöku smurefni með vissu millibili. Sé þetta ekki gert festast kertin vegna útfellingar í gengjum (hedd úr áli) en það getur valdið mjög dýrum viðgerðum, jafnvel kostað nýtt hedd (250 þús. kr. eða meira) um það leyti sem ábyrgð rennur út. Í sumum bílvélum er þetta einfalt mál og auðvelt að komast að kertunum. Í öðrum (t.d. sumum bílum frá Chrysler og GM í Bandaríkjunum) getur verið meira en klukkutíma vinna að komast að kertum til að losa þau úr heddum. Þar sem oftast er greitt fast verð fyrir þessa þjónustu þarf þjónustudeild að ganga ríkt eftir því að þessu verki sé sinnt. Oft er eina örugga leiðin sú að miðla upplýsingum um þetta til bíleigenda. Og hvers vegna skiptir máli að fylgst sé með málinu? Það er vegna þess að tíðar bilanir af þessu tagi (A og B) minnka endursöluvirði viðkomandi bíltegundar.

Niðurstaða
Sá sem hyggst kaupa bíl frá S-Kóreu ætti ekki einungis að skoða bílinn. Hann ætti að taka sér einhvern tíma í að kynna þér orðspor sem fer af þjónustu og tæknistigi viðkomandi umboðs - því það er umboðið og ástandið hjá því innanhúss, sem ræður því hve hagkvæm útgerðin verður. Ágæt byrjun er að kynna sér niðurstöður kannana FÍB á varahlutaverði undanfarin ár en upplýsingar um þær kannanir ætti að vera hægt að finna á www.fib.is

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar