Mín skoðun:
Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur.

Íslenska ryðvarnar-ruglið

(og eftirmál - sjá ljósmyndir í Brotajárni 40)

Frá því á 7. áratug 20. aldar hefur íslenskum kaupendum nýrra bíla verið seld ryðvörn - oftast innifalin í verði nýs bíls. Ryðvörnin var fólgin í því að sprauta sérstöku ryðvarnarefni inn í holrými og þykkara grjótvarnarefni á botn bílsins og innan í hjólskálar. Þessi ryðvörn kann að hafa gert eitthvað gagn þar sem nýir bílar voru yfirleitt ekki sérstaklega ryðvarðir af hálfu framleiðanda fyrr en seint á 8. áratugnum. Gallinn við þessa íslensku ryðvörn var aftur á móti sá að gæði hennar voru æði misjöfn - verkið var misjafnlega vel (eða illa) unnið eins og ákveðin úttekt í tímaritinu Bílnum sýndi á sínum tíma.

Um 1980 höfðu margir bílaframleiðendur tekið upp sérstaka tækni við ryðvörn bíla á framleiðslustigi. Þeirri ryðvörn má skipta í tvo hluta; annars vegar bætt hönnun sem gerði það að verkum að raki þéttist síður í lokuðum hólfum og hins vegar galvanhúðun stáls fyrir og eftir samsetningu bíls. Verksmiðjuryðvörnin var misjafnlega vel heppnuð framan af en um 1990 má segja að allir helstu bílaframleiðendur beittu, í grundvallaratriðum, sambærilegri tækni við tæringarvörn stáls þótt mismunur væri á milli framleiðenda varðandi hve mikið væri í lagt. Árangurinn varð sá að bílar af árgerðum um og eftir 1990 ryðguðu áberandi minna en bílar af eldri árgerðum. Á þessu voru þó undantekningar eins og við var að búast. Við þetta bætist að vegakerfið hefur gjörbreyst þannig að núorðið aka bílar að mestum hluta á bundnu slitlagi.

Þrátt fyrir þessar framfarir varðandi ryðvörn nýrra bíla með verksmiðjuryðvörn og 6-8 ára ryðvarnarábyrgð bílaframleiðenda varð engin breyting á ,,íslensku ryðvörninni" - sem umboðin hafa haldið áfram að selja bílakaupendum eins og ekkert hefði í skorist. Hérlendis höfðu byggst upp sérhæfð fyrirtæki, fleiri en eitt og fleiri en tvö, sem selja þessa ,,ryðvarnarþjónustu" með aðstoð og milligöngu bílaumboðanna og þrátt fyrir að flest benti til að ekkert gagn væri að henni - reyndar hafa bílaframleiðendur bent á að sú ryðvörn væri ekki einungis gagnslaus heldur til óþurftar. Einhverjir ryðverjendur hafa haldið því fram að hluti af því sem þeir væru að selja væri ,,hljóðvörn". Það er hins vegar kjaftæði og byggist á vanþekkingu (enda eru þessir náungar yfirleitt ófaglærðir) á því hvernig bílar eru hljóðeinangraðir (mottur í botni bíls eða innan á hurðir, milli spjalds og ynnra byrðis, er hljóðeinangrun og hefur ekkert með ryðvörn að gera - enda þarf að greiða fyrir slíkt aukalega).

Hvers vegna er haldið áfram að selja bílakaupendum þessa ryðvarnarþjónustu þrátt fyrir breyttar forsendur? Ein skýringin er, að mínum dómi, samsæri á milli bílaumboða og ryðvarnarfyrirtækja um að nýta þessa óþörfu þjónustu sem tekjulind. Bílaumboðin virðast hafa það í hendi sér að innifela ryðvörn í verði nýs bíls, ryðvörn sem þau kaupa af ryðvarnarfyrirtæki og endurselja með álagningu. Ryðvarnarfyrirtækin berjast auðvitað gegn örlögum sínum þrátt fyrir að ljóst megi vera að þau hafi dagað uppi. Og eins og með fleira í bílaviðskiptum (t.d. jeppabreytingar) er ekkert eftirlit með gæðum þeirrar þjónustu (ryðvarnar) sem bílakaupendum er gert að greiða fyrir, þ.e. hvort hún er vel eða illa unnin - enda skiptir það minna máli en margur hyggur - því tilgangurinn er sá að hafa fé af almenningi með blekkingum en ekki að lengja endingartíma bíls.

Árið 1990 var mér og öðrum bílablaðamönnum boðið í heimsókn til Renault í Frakklandi. Farið var í kynnisferðir í nokkrar verksmiðjur og í hönnunar- og þróunardeild þar sem m.a. fóru fram prófanir á bílum á ýmsum stigum. Á meðal þess sem blaðamönnum var sýnt var sú tækni sem Renault hafði þróað og notaði við yfirborðsmeðhöndlun á stáli til varnar gegn tæringu. Á meðal þess sem sérfræðingar Renault lögðu áherslu á var að öll auka-ryðvörn ofan á verksmiðjuryðvörnina væri óþörf og einungis til óþurftar. Sérstaklega var tekið dæmi af nýjum bíl sem þá var að koma á markaðinn, Renault Clio.

Ári seinna keypti ég nýjan Renault Clio. Ég samdi sérstaklega við umboðið um að fá bílinn afhentan án íslenskrar ryðvarnar. Þennan bíl átti ég í 10 ár og hafði ekið honum rúmlega 250 þúsund kílómetra þegar ég seldi hann - þá enn í fínu lagi og hvergi vott af ryði að finna í honum.

Rúmum 7 árum seinna (1998) keypti ég nýjan Mazda 626 og fékk hann einnig afhentan án íslenskrar ryðvarnar. Þann bíl hef ég nú notað í brátt 6 ár. Á meðal þess sem er áberandi er að hvergi hefur ryðtæringar orðið vart í bílnum og þó er botninn einungis með þeirri vörn sem sett var á í verksmiðjunni.

Mín skoðun er sú, og hana byggi ég m.a. á eigin reynslu, að íslensk ryðvörn sé óþörf og jafnvel til þess líkleg að flýta fyrir tæringu fremur en tefja hana. Ég er þeirrar skoðunar að íslenska ryðvörnin hafi engan annan tilgang en að svíkja fé af bílakaupendum með blekkingum. Ég er einnig þeirrar skoðunar að það sé í raun og veru hneyksli að hagsmunasamtök á borð við FÍB skuli ekki vera búin að stöðva þessa makalausu svikamillu fyrir löngu.

Eftirmáli: (Svo ég haldi nú áfram að viðra skoðanir mínar á þessu máli): Eftir að þessi grein (áberandi merkt sem skoðun mín) birtist hér á vefsíðunni óskaði umsjónarmaður bílablaðs Morgunblaðsins leyfis að fá að birta hana óbreytta sem að sjálfsögðu var veitt. Hún birtist í Mbl. 7. júlí 2004. Í Mbl, en þar var einnig sérstaklega tekið fram að um skoðun mína, L.M.J. væri að ræða, kom jafnframt fram að stóru bílaumboðin þrjú; Toyota/P. Samuelsson, Ingvar Helgason og Hekla hefðu hætt fyrir nokkru að láta ryðverja nýja bíla hérlendis að því undanskildu að breyttir jeppar væru ryðvarðir vegna breytinganna enda væri allt að 12 ára ryðvarnarábyrgð frá framleiðanda á þeim bílum sem þessi fyrirtæki seldu. Daginn eftir, þann 8. júlí, höfðu minni spámenn rumskað - en þá birtist í Mbl. torskilin ummæli (nöldur ?) forstjóra Brimborgar (hann hefur ekki tæknilega þekkingu á bílum og eins og sjá mátti af ummælum hans veit hann t.d. ekki hvernig bílar eru hljóðeinangraðir) og yfirlýsing um að ,,ummæli mín um samsæri bílaumboða og ryðvarnarfyrirtækja ættu ekki við rök að styðjast" (hvern fjandan veit hann um það?). Mér er ekki kunnugt um að forstjóri Brimborgar hafi umboð frá öðrum en sínu eigin fyrirtæki til að gefa slíka yfirlýsingu - a.m.k. kom það ekki fram í því sem eftir honum var haft í Mbl. Honum fer eins og fleirum að gera ekki greinarmun á skoðun og fullyrðingu (verum þakklát fyrir að afturúr-siglarar af þessari gerð skuli ekki vera falið að hafa eftirlit með skoðana- og tjáningarfrelsi í landinu!).

Varðandi þann fyrirslátt að líta beri á íslensku ryðvörnina sem hljóðeinangrun (,,hljóðvörn") þá byggist hann á misskilningi (og eins og áður er bent á, líklega á takmarkaðri þekkingu hjá forstjóra Brimborgar) á því hvernig bílar eru hljóðeinangraðir. Sem dæmi þá eru innri bretti fólksbíla og flestra jeppa úr plasti. Þau eru með sérstaka hljóðeinangrun á bakhliðinni, þeirri sem snýr frá hjólinu, oftast úr rúmþungri glerull, enda er fylgt þekktri tækni í því að fanga og deyfa hljóð með gildru. Kvoða sem sett er á þá hliðina sem snýr að hjólinu hefur lítið sem ekkert hljóðeinangrunargildi þann stutta tíma sem hún þolir grjótáreitið. Sérstakur massi sem seigstorknar á yfirborðinu (Teroson og Gravitex) er hins vegar notaður sem grjótvörn og er jafnframt takmörkuð hljóðdeyfing en hefur ekkert með ryðvörn bíls að gera. Og bara til að undirstrika það enn og aftur: Ég tel að íslenskt ryðvarnarefni ofan á verksmiðjuryðvörn framleiðanda (með 8 - 12 ára ábyrgð) sé engum til gagns nema þeim sem selur hana - hins vegar er , eftir sem áður, nauðsynlegt að ryðverja endursmíðaða bíla og eldri bíla sem ekki komu ryðvarðir frá verksmiðju - minni hér á að það sem snéri blaðinu við hjá Audi var heitgalvanisering (bað) sem yfirvögnum var dýft frá og með 1980 - en fram að þeim tíma átti Audi það sameininglegt með Fiat að það mátti „heyra þá ryðga.’’

Aftur á forsíðu

Netfang höfundar: