Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur

Rússajeppinn og ,,rúblugrín"

Margir munu enn minnast fyrstu Moskvitch-bílanna sem munu hafa komið til landsins 1955. Þeir voru nánast eins og Opel Kadett frá því fyrir stríð. Ástæðan var sú að þeir voru framleiddir í Opel Kadett-verksmiðju sem Rússar höfðu tekið herfangi í Brandenburg, skammt frá Berlín í Þýskalandi í stríðslok, skrúfað sundur og flutt til Rússlands þar sem reist var bílaverksmiðjan MZMA (Moskowskii Zavod Malolitrajnikh Avtomobilei sem mun þýða Smábílaverksmiðja Moskvu).

Fyrsti Moskvitch, sem var af árgerð 1947 og nefndist gerð 400, var í öllum aðalatriðum sami bíll og þýski Opel Kadett af árgerð 1939 - með sama boddí, sama undirvagn og sömu 4ra sílindra 1074 rsm hliðarventlavél og 3ja gíra ósamhæfðan gírkassa. Moskvitch 400 var framleiddur lítið sem ekkert breyttur fram til ársins 1957 þegar gjörbreyttur bíll, Moskvitch 402 með 1220 rsm hliðarventlavél en sama 3ja gíra kassa leysti hann af hólmi.

Ein af fyrstu rússnesku limosínum var þessi ZIS 101A af árgerð 1942 sem Stalin er hér að klappa. Þessu ,,rúblugríni" var líkt við amerískan bíl af árgerð 1935 sem hefði fengið andlitslyftingu og gilti það um fleiri rússneska bíla fyrir stríð, m.a. bíla sem voru framleiddir með tækjum keyptum af Packard fyrir framleiðslu á árgerð 1938. GAZ-12, öðru nafni ZIM var 8 manna með sjálfberandi boddí. Þessi bíll, sem framleiddur var síðast skömmu fyrir 1960 og þótti minna dálítið á 1948 árgerð af Cadillac þótt um gjörólíka bíla væri að ræða að öðru leyti. ZIM var notaður af leigubílstjórum í Reykjavík. Eftir því sem best er vitað mun eitt eintak vera til hérlendis.

Evrópskir bílar frá því um og eftir 1950 áttu það einna helst sameiginlegt að ryðga bæði hratt og örugglega - rússnesku bílarnir voru hvorki verri né betri hvað ryðtæringuna varðaði - en Benz og Volvo töldust hins vegar undantekningar. Rússnesku bílarnir voru greiðsla fyrir sjávar- og landbúnaðarafurðir, þ.e. gjaldmiðill í umtalsverðri vöruskiptaverslun á milli Íslands og Sovétríkjanna. Og eins og vænta mátti voru margir haldnir fordómum gagnvart rússneskum bílum - ekki síst þeir sem höfðu ekki kynnst þeim af eigin raun. Mér er til efs að bifvélavirkjar, sem störfuðu á árunum í kringum 1960 myndu telja að Moskvitch hafi verið lélegri en aðrir smábílar á íslenskum vegum um þær mundir. Reyndar voru rússneskir bílar með miklu vandaðra rafkerfi heldur en maður átti að venjast í evrópskum bílum á þessum tíma. Mér kæmi reyndar ekki á óvart þótt jafn margir ef ekki fleiri heillegir Moskar væru til hérlendis frá því fyrir 1960 heldur en t.d. Fiat, Vauxhall eða Peugeot, svo dæmi séu tekin. Strákar, sem spókuðu sig á amerískum og þýskum lúxusbílum feðra sinna á rúntinum upp úr 1956, sögðu farir sínar ekki sléttar - lúpulegir - eftir kappakstur í kringum tjörnina við Jón Sigurðsson á Moskvitch 402 (R1200) sem stakk þá alla af en átti þó enga möguleika á móti sjálfum Sigga (Haraldssyni) ,,Spyrnu" sem þandi gamla Chrysler-bíla af mikilli snilld um 1960.

Moskvitch var miklu betri bíll en opinberlega var viðurkennt vegna fordóma (,,Rússagrílan"). Lengst t.v. er fyrsti Moskinn (Model 400 af árgerð 1955 og '56) en hann var Opel Kadett frá 1939. Þá kemur 402 af árgerð 1957 með hliðarventlavél og 3ja gíra kassa, þá 407 frá 1959 (með toppventlavél og 3ja gíra kassa) og síðast bíll sem greinarhöfundur átti lengi, Model 403, árgerð 1963 með toppventlavél og 4ra gíra kassa.(408 kom 1966 með gjörbreytt útlit og allt aðra vél og 412 mun hafa tekið við af honum frá 1968).

Önnur rússnesk bílaverksmiðja átti einnig eftir að koma við sögu hérlendis. Sú nefndist GAZ (Gorkovsky Avtomobilni Zavod sem mun þýða Bílaverksmiðjan í Gorkí en sú borg, sem heitir eftir skáldinu Maxim Gorkij, nefndist Nizhní Novgorod til 1932 og er ein af helstu iðnaðarborgum Rússlands en þar hafa verið framleiddir járnbrautarvagnar, alls konar vélar, skip auk bíla. Nafni borgarinnar hefur nú aftur verið breytt til hins upprunalega, þ.e. Gorkí heitir nú Nizhní Novgorod á ný).

GAZ-iðjuverið, sem var fyrsta bílaverksmiðja Sovétríkjanna, var reist upp úr 1930. Verksmiðjubyggingarnar voru hannaðar af ameríska arkitektinum Albert Kahn og framleiðslutækin komu að miklu leyti frá Ford í Ameríku og hjá Ford í Dearborn voru tugir rússneskra tæknimanna í þjálfun um 1930. GAZ-iðjuverið, sem náði yfir 103 hektara lands og var vinnustaður 12 þúsund manns, var sagt stærsta bílaverksmiðja Evrópu á 4. áratug 20. aldar. Fyrstu GAZ-bílarnir voru framleiddir í janúar 1932 en það voru Ford AA-vörubílar með 4ra sílindra vél og málsettir með metrakerfinu í stað tomma. Á næstu árum framleiddi GAZ ýmsar útgáfur af vinnubílum byggðum á Ford A, m.a. með 6 sílindra vél. Um 1938 var framleiddur fjórhjóladrifinn bíll, byggður að miklu leyti á hlutum úr Ford A og seinna jeppi, GAZ-64, sem var eftirlíking af ameríska Bantam-herjeppanum. Meira um það seinna.

Á meðal GAZ-bíla, sem notaðir voru lengi hérlendis má nefna Pobeda (Pobieda mun þýða ,,sigur" á rússnesku) og nefndist einnig GAZ-M20 - nokkuð stór og sterkbyggður bíll, kúptur af aftanverðu eins og Ford ´41, Chrysler-bílar, Volvo PV og fleiri frá svipuðum tíma. Pobeda, sem var framleiddur á árunum 1946 - 1958, var með einstaklega vandaða fjöðrun sem var eins og sniðin fyrir íslenskar aðstæður. Vélin var 4ra sílindra hliðarventlavél með 2,1 lítra slagrými. GAZ-72 nefndist fjórhjóladrifinn Pobeda fólksbíll sem framleiddur var 1955 og var slíkur bíll til hérlendis. Þá var einnig framleiddur GAZ-73 sem var Pobeda Pikköpp 4x4. Pobeda var um árabil algengasti leigubíllinn í Sovétríkjunum og öðrum Austur-Evrópulöndum.

Pobeda og breski Standard Vanguard þótti mörgum grunsamlega líkir. A.m.k. einn fjórhjóladrifinn Pobeda var til hérlendis. Pobeda var níðsterkur bíll en vegna fordóma hirtu fáir um að varðveita þá. Einn er þó til sýnis hjá B&L. Volga birtist 1955. Um 1958 hafði hann tekið við hlutverki Pobeda sem algengasti leigubíllinn austantjalds. Nýr og breyttur Volga kom 1968 og 1982. Í Finnlandi er Volga-klúbbur með vefsíðu (á sænsku)
www.vcf.fi

 

M 678 er Volga M-21K af árgerð 1959 (en skráður sem árgerð 1960). Eigandi er Guðmundur Bragason í Borgarnesi Ljósmyndina tók Kristján E. Einarsson fyrir tímaritið Bílinn á bílasýningu í Laugardalshöll fyrir tæpum áratugi. Volga (GAZ M-24) birtist með nýtt útlit 1968. Af þessari gerð var talsvert til hérlendis.

Annar rússneskur bíll, sem margir af eldri kynslóðinni muna eftir var GAZ M-12, öðru nafni ZIM; langur svartur bíll sem minnti í útliti á 1948 árgerðina af Cadillac; 8 manna límósína sem var nokkuð algengur bíll um árabil í leiguakstri. GAZ framleiddi og framleiðir enn ýmsar límósínur (KIM, ZIS og ZIL) en ZIM er eini bíllinn þeirrar gerðar sem seldur hefur verið hérlendis. Á meðal leigubílstjóra sem áttu ZIM var Guðni Erlendsson á Hreyfli. ZIM (sem er skammstöfun á Zavodi Imeni Molotova sem ég veit ekki gjörla hvað þýðir en hefur greinilega eitthvað með fyrrum utanríkisráðherran Molotov að gera - skiptir ekki máli ...) var grindarlaus, sjálfberandi með lengdan og styrktan hjólbotn úr Pobeda og var framleiddur frá 1951 til 1960. Þótt útlitið minnti á ameríska bíla var ZIM tæknilega þróaðri - reyndar meira en áratug á undan sem sjálfberandi einstykkishönnun og því er út í hött að tala um hann sem stælingu á einhverjum amerískum bíl. Utan Sovétríkjanna er ZIM afar sjaldséður enda var hann ekki framleiddur fyrir almennan markað og ekki ætlaður til sölu. Um 21.500 ZIM munu hafa verið framleiddir þar til lúxusbíllinn GAZ-13 Chaika (Mávurinn) leysti hann af hólmi um 1959 (Sovéska sendiráðið í Reykjavík átti ZIM og síðar Chaika). Vitað er að nokkrir ZIM voru seldir til Svíþjóðar auk þeirra sem komu hingað. ZIM var gríðarlega sterkbyggður bíll og allur frágangur hans vandaðri en gekk og gerðist með bíla á þessum tíma. Sem dæmi má nefna að boddíið var sérstaklega vatns- og rykþétt og mátti aka bílnum í 55 sm djúpu vatni án þess að dropi kæmist inn í hann. Í ZIM var 90 ha 6 sílindra hliðarventlavél. Slagrými hennar var 3,5 lítrar. Beinskiptur kassinn var 3ja gíra. Til þess að hröðun þessa 8 manna bíls væri viðunandi var drifhlutfallið haft lágt (4,55) og mætti segja mér að hann hafi varla þótt skemmtilegur í lengri akstri fyrir bragðið og þótt hámarkshraðinn væri sagður 120 km/klst. hefur álagið á vélina án efa verið meira en góðu hófi gegndi.

Hver stældi hvern? GAZ-M20 Pobeda (t.v) var forsýndur 1945. Vélin var 4ra sílindra 2,1 lítra 50 ha hliðarventlavél og 3ja gíra beinskiptur kassi. Framleiðsla á Pobeda hófst seint á árinu 1946. Standard Vanguard (t.h.) var hannaður af Walter Belgrove og talinn draga dám af ameríska Plymouth. Standard Vanguard var frumsýndur 1947 með 4ra sílindra 2,1 lítra 68 ha toppventlavél og beinskiptum 3ja gíra kassa. Framleiðsla hans hófst 1948. Af þessu leiðir, öfugt við það sem sjá má haldið fram í mörgum uppsláttarritum um bíla, að Standard Vanguard hefur frekar verið stæling á Pobeda heldur en öfugt. Lífseigar fullyrðingar um að rússneskir bílar hafi verið stælingar á amerískum eða evrópskum bílum, byggjast á fordómum og eiga ekki við rök að styðjast varðandi þá rússnesku bíla sem framleiddir voru eftir síðari heimstyrjöldina. Pobeda var t.d. ekki stæling á ameríska Ford '41 frekar en Volvo PV444 þótt finna mætti svipaðar línur í bílunum eins og mörgum öðrum bílum mismunandi framleiðenda á 5. og 6. áratug 20. aldar.

Volga var fyrst framleiddur 1955 samhliða Pobeda og tók við hlutverki hans upp úr 1958. Í honum var stærri 70 ha hliðarventlavél með 2,5 lítra slagrými. Volga er framleiddur enn þann dag í dag, fyrsta breytingin á bílnum kom 1968 og svo aftur 1982. Öfugt við Pobeda og ZIM hefur Volga verið fluttur út í stórum stíl og var algengur bíll víða í Evrópu framundir 1990 og mikið notaður til leiguaksturs. Í Vestur-Evrópu, t.d. í Belgíu og Hollandi, var Volga seldur með 65 ha dísilvél úr Land Rover. Í Rússlandi hefur Volga 3102 verið fáanlegur um árabil með Indenor-dísilvél (Peugeot). Auk GAS-verksmiðjanna framleiða verksmiðjur í Togliatti, sem er ein af útborgum Samara við Volgu, bæði fólksbíla og jeppa (Lada fólksbíla og Lada Niva-jeppa).

Nýji Volga er fallegur bíll þótt hann standist ekki sömu tæknilegu kröfur og gerðar eru til árgerða 2004 af bílum.

 

Rússajeppinn
Á meðal fyrstu fjórhjóladrifinna rússneskra fartækja af léttari gerð var GAZ-61 sem hannaður var 1938. Sá var endurgerður frá grunni undir stjórn Vitaliy Grachev veturinn 1941 - og birtist þá sem jeppi og nefndist GAZ-64. Sá leit út eins og ameríski Bantam-herjeppinn, var m.a. með sömu sporvídd. GAZ-64 þótti einstaklega illa heppnaður jeppi og varð meira til vandræða en gagns. Áætlanir um framleiðslu GAZ-64 komust aldrei af frumstigi enda lögðu Ameríkanar rússneska hernum til ameríska herjeppa þegar þá var komið sögu. Nýr jeppi var hannaður á grudvelli GAZ-64 og sérstaklega sniðinn fyrir rússneskar aðstæður. Sá nefndist GAZ-67 og var fyrsta forgerðin smíðuð vorið 1943. Sá hafði meiri sporvídd, sérkennileg frambretti, gangbretti, betri vél og aukaeldsneytisgeymi undir framsætinu. Framfjöðrunin var mjög sérkennileg, með 2 fjaðrir fyrir hvort framhjól. Framleiðsla GAZ-67 hófst svo haustið 1943 og stóð fram á haust 1953; samanlagt tæplega 93 þúsund eintök. GAZ-67 þótti ekki vel heppnaður jeppi og þrátt fyrir alls konar endurbætur olli hann rússneska hernum alls konar vandræðum, m.a. vegna rosalegrar eyðslu (40 lítrar á hundraðið), tíðra bilana og erfiðleika við viðgerðir. Eftir stríð voru nokkrir GAZ-67 seldir til útflutnings, m.a. til Ástralíu. Frá því 1947 hafði rússneski herinn fengið miklu betri jeppa frá GAZ en í takmörkuðu upplagi þar til 1953.

GAZ-64 (lengst t.v. og lengst t.h.) var endurbót á fyrsta rússneska jeppanum GAZ-61 sem var stæling á ameríska Bantam-herjeppanum. GAZ-64 þótti ekki vel heppnaður og komst aldrei af frumstiginu. Þá tók við GAZ-67 (í miðið) en hann þjónaði rússneska hernum í síðari heimstyrjöldinni. GAZ-67 var gallagripur og jók ekki hróður rússneskrar bílaframleiðslu.

Sá endurbætti rússajeppi átti eftir að verða algengur á Íslandi en hann nefndst GAZ-69. Hönnuður hans var Grigory Vasserman. Fyrsti GAZ-69 var framleiddur 1947 og var að hluta byggður á GAZ-67, sem Rússar höfðu notað í stríðinu, þótt hann væri í veigamiklum atriðum frábrugðinn, m.a. með allt aðra og betri framfjöðrun. Fyrstu árin var GAZ-69 einungis framleiddur fyrir rússneska herinn en frá og með 1. september 1953, en þá var jeppaframleiðslan flutt frá Gorkí til Ulianovsk, sem er einnig við Volgu en sunnar (og heitir nú Simbirisk) og þar til framleiðslu hans lauk í desember 1972 (en þá tók hinn 7 sæta UAZ-469 við hlutverki hans) var hann fjöldaframleiddur til sölu á almennum markaði og til útflutnings. Rúmlega 643 þúsund eintök voru framleidd í Rússlandi fyrir utan þá GAZ-69 sem framleiddir voru í N-Kóreu frá og með 1960 og í Kína.

GAZ-69 Helstu mál (mm) og drifhlutföll
Heildarlengd 3850

Breidd

1750
Mesta hæð 2030
Hjólhaf 2300
Sporvídd 1440
Hæð undir lægsta punkt 210
Eigin þyngd, kg 1525
1. gír 3,115
2. gír 1,772
3. gír 1,00
Bakk 3,738
Millikassi, háa 1,15
Millikassi, lága 2,78
Drif (41 og 8 tennur) 5,125
Mesta niðurfærsla, 1g/lága 44,38
Dekkjastærð 6.50-16

GAZ-69, sem var framleiddur sem 2ja dyra og 4ra dyra með blæju og sæti fyrir 8 manns, er sterkbyggður jeppi með sveigjanlega stigagrind. Hann er 3,85 m langur, 1,75 m á breidd og um 2 m upp á þakboga. Hjólhafið er 2,3 m (30 sm meira en á Willys-herjeppanum og 10 sm meira en á Land Rover). Sporvíddin er 1,44 m. Hásingarnar eru með fljótandi öxlum, armdempurum og öflugum, mjúkum blaðfjöðrum. Drifbúnaður er hátt og lágt hlutadrif með tannhjóla-millikassa (sem er með hús úr steypustáli). Millikassinn er knúinn með stuttu drifskafti frá 3ja gíra beinskiptum kassa. GAZ-69 var, eins og títt var um rússneska bíla, með mikla niðurfærslu í gírkössum og drifum. Af því leiddi að hann gat eytt talsverðu og þótt hámarkshraði væri gefinn upp sem 90 km/klst þá var gat hann ekki talist hraðskreiður jeppi vegna gírgnauðs og álags á vél. Á móti kom firnalegt átak í 1. gír og lága drifinu, sem var t.d. mun meiri heildarniðurgírun en hjá mörgum jeppum, eða 44,38 :1 (sjá töflu yfir hlutföll). Þeir sem reynt höfðu Rússann og þekktu til annarra jeppa vissu að hann hafði ýmsa eiginleika umfram flesta aðra jeppa; mest munaði um mýktina í keyrslu en mýktin og sveigjanleg grind ásamt mikilli niðurfærslu í drifbúnaði gerði það að verkum að laginn bílstjóri komst ýmislegt á Rússanum sem ekki hefði þýtt að reyna á sumum öðrum fjórhjóladrifnum bílum - það var helst að Dodge Weapon léki það eftir. Það var heldur ekki verra að að og fráhorn Rússans eru hagstæð, 45° að og 35° frá. Stýrisvélin er kúlusnekkja með niðurgírun 18,2 : 1 og má snúa jeppanum innan í hring með 12 metra þvermáli. GAZ-69 kom á 16 tommu felgum með dekkjum af stærðinni 6.50-16.

GAZ-69, sem nefnist ,,Græna geitin" í Rússlandi og er betur þekktur sem Rússajeppinn hérlendis, kom til landsins 1956 og var algeng sjón til sveita hérlendis fram undir 1980.

Vélin í GAZ-69 er 4ra sílindra slaglöng (100 mm) hliðarventlavél og mjög lágþrýst - þjöppunarhlutfall var var frá 6,2 til 6,5 : 1. Það gerði kleift að keyra bílinn á lélegra bensíni og á steinolíu án mikilla vandræða. Slagrými er 2,12 lítrar. Þvermál stimpla er 82 mm. Kveikjuröðin var nokkuð sérkennileg, 1-2-4-3 en annars er vélin af hefðbundinni byggingu; efnismikil, nokkuð stór fyrirferðar en einföld - tímagírinn var t.d. með fíber-tannhjóli á kambásnum; vélin gæti þess vegna verið amerísk frá því um 1940. Hámarksafl vélarinnar er 55 hö við 3600 sn/mín. Hámarkstog er 129 Nm við rúmlega 2000 sn/mín. Ýmsar sögur voru af eyðslu rússajeppans en séð hef ég mælingu uppá 14 lítra á hundraðið á meðalhraða sem var 40 km/klst. Eiginþyngd rússajeppans (með blæju) er 1525 kg.

Grindin í GAZ-69 var allt í senn; sterk, sveigjanleg og létt. Vélin var svo lágþrýst að hún gat gengið fyrir steinolíu með minniháttar tilfæringu. Sterkbyggð vél sem var auðveld í viðhaldi. Hámarksaflið var 55 hö við 3600 sn/mín og hámarkstogið 129 Nm við 2000-2200 sn/mín. Eins og sjá má á myndinni voru sérstakar ráðstafanir gerðar (blöndungur, lofthreinsari og olíuáfylling) til þess að aka mætti jeppanum í djúpu vatni. Á myndinni sést hins vegar ekki sérstakur búnaður og frágangur á kveikjuloki og kertaþráðum til varnar gegn vatni og raka.

Á meðal þess sem telja má sérkennilegt við GAZ-69 rússajeppann er einstaklega öflugt, vandað og vel varið 12 volta rafkerfi. Hann er með 2 bensíngeyma; aðalgeymirinn tekur 48 lítra en aukageymirinn 27 lítra. Eins og gengur með bíla þá var rússajeppinn ekki gallalaus frekar en aðrir. Á meðal þess sem olli vandræðum voru sætin fyrir legur mismunardrifsfhússins. Eftir að gert hafði verið við hásingarnar á renniverkstæði voru þær til friðs. Hins vegar mun ekki hafa verið mikið úrval af drifhlutföllun né læsingum og því voru flestir breyttir rússajeppar seinna á amerískum hásingum. Einn minnist ég að hafa séð á Unimog-hásingum (með niðurfærslu í hjólnöfunum).

Netfang höfundar

Aftur til forsíðu