Erwin Rommell


Engan skyldi undra þótt Rommel sé goðsögn á meðal þeirra skriðdrekaforingja, sem hér er fjallað um, jafnvel þótt hann hafi ekki lagt jafn mikið til grundvallar skriðdrekahernaðar nútímans og Heinz Guderian. Erwin Rommel var eitt sérstakra viðfangsefna áróðursmálaráðuneytis Þriðja ríkisins sem vann að því að gera persónu hans að sannri ímynd hins sigursæla hermanns Þúsund ára ríkisins. Svo heppilega vildi til að andlit Rommels féll ágætlega að hugmyndum nasista um hinn ,,kynhreina Þjóðverja". Að vísu var Rommel lágvaxinn maður en það mátti ,,lagfæra" með ,,réttri" uppstillingu fyrir myndatöku. Ímyndarsköpunin með látlausum fréttum af afrekum átti þátt í gríðarlegum vinsældum Rommels á meðal þýsks almennings og jafnvel á meðal andstæðinga; um hann spunnust þjóðsögur sem smám saman fengu stoðir sem staðreyndir. Allt átti þetta eftir að snúast í höndum nasistastjórnarinnar og valda henni miklum vandræðum.

--------------------
Erwin (Johannes Eugen) Rommel fæddist í Heidenheim í Würtemberg 15. nóvember 1891. Hann gekk í herinn 1910 sem liðsforingjaefni og hlaut skjótan frama; særðist í fyrra stríði og var heiðraður með járnkrossinum fyrir vasklega framgöngu; kvæntist árið 1916 Lucie Maria Mallin og eftir að hafa barist í Kapatafjöllum 1918 varð hann höfuðsmaður.

Á millistríðsárunum gegndi Rommel ýmsum stjórnunarstörfum fyrir herinn. Um 1930 var hann kennari við landgönguliðaskóla hersins í Dresden. Þá var fyrsta bók hans ,,Infanterie greift an" (Innrás yfirvofandi) gefin út. 1933 var hann orðinn majór og stjórnaði fjallaherfylki.

1939 var Rommel gerður að undirhershöfðingja og settur yfir lífvörð Hitlers. Þegar honum var boðið að velja sér viðfangsefni sem herstjórnandi kaus hann skriðdrekaherdeild án þess að hafa reynslu af skriðdrekum. Í febrúar 1940 varð Rommel yfirmaður 7. bryndeildar sem varð hluti af 15. brynstórdeild undir Hoth hershöfðingja við undirbúning innrásar í Niðurlönd. Hersveit Rommels, sem beitti ,,leifturstríði" með miklum árangri, kom víða við sögu vorið 1940 þegar Þjóðverjar tóku Frakkland. Til þess að komast hjá stöðugum árekstrum við ,,landabréfa-herstjórnina", eins og starfsfélagi hans og lærifaðir, Heinz Guderian, beitti Rommel þeirri tækni að láta engan vita hvar hann væri staddur og lét jafnvel slökkva á talstöðvum. Upp frá því fékk hann viðurnefnið ,,hinn ósýnilegi".

Erwin Rommel

Rommel, eins og Guderian, stjórnaði sínum mönnum við hlið þeirra á vígstöðvunum, hann slóst gjarnan í för með könnunar til að njósna um stöðu andstæðingsins eða flaug sjálfur könnunarflug.

Snemma árs 1941 var Rommel falin yfirstjórn Afríkuhers öxulveldanna (Þýskaland, Ítalía og bandamenn þeirra) og steig á land í Trípólí í Líbýu 14. febrúar 1941. Ítalir höfðu goldið afhroð gegn Bretum, hergögn þeirra reyndust ónýt, herstjórn óhæf og þúsundir óbreyttra ítalskra hermanna höfðu gefist upp án mótspyrnu. Eftir að hafa kynnst ítölsku herforingjunum lýsti Rommel því yfir að ekki væri hægt að treysta þeim né vinna með þeim og hunsaði ítalska herinn upp frá því. (1950 gaf ekkja Rommels út bók með útdrætti úr dagbókum hans, ,,Krieg ohne Haß" (Stríð án haturs) en þar fór Rommel ekki dult með fyrirlitningu sína á ítölskum herforingjum).

Rommel tók Breta rækilega til bæna í N-Afríku, rústaði skriðdrekum þeirra og búnaði, rak þá á undan sér, vann hvert virkið á fætur öðru frá Trípólí um Beghasi og austureftir til Tobruk skammt frá landamærum Egiptalands veturinn 1941. Um herstjórn Rommels í N-Afríku hafa verið skrifaðar margar bækur en kænskubrögð hans, sem oft léku Breta grátt, áunnu honum viðurnefnið ,,Eiðimerkurrefurinn", ,,Der Wustenfuchs" á meðal meðherja en ,,The Desert Fox" á meðal mótherja. Hugtakið ,,leifturstríð" varð eitt af ,,vörumerkjum" Rommels.

Rommel var gagnrýndur af samherjum fyrir að taka of mikla áhættu og tefla mönnum sínum í meiri lífsháska en góðu hófi gegndi - jafnvel nánustu samstarfsmenn á meðal herforingja sökuðu Rommel um ábyrgðarleysi og æfintýramennsku. Hins vegar var á allra vitorði að Rommel hlífði sjálfum sér hvergi og var hermaður af lífi og sál. Stundum gleymist, í þessu samhengi, að eftir að Þjóðverjar fengu nýju þyngri skriðdrekana í hendur (Panzer III, Panzer IV og Panther) og 88 mm loftvarna-fallbyssur, sem þeir grófu niður í sandinn, áttu þeir allskostar við skriðdreka bandamanna um hríð.

Í maí 1941 var Rommel gerður að markskálki. Áróðursmálaráðuneyti Göbbels gerði mikið úr því og nefndi hinn ,,ósýnilega" Rommel ,,Volksmarschall" - markskálk fólksins. Svo illa lék Rommel Breta að þeir gripu til þess að senda sérsveit til næturárásar á dvalarstað hans í Líbýu nóttina 17. nóvember 1941 til að drepa hann. En Rommel ,,hinn ósýnilegi" reyndist vera að heiman. Tiltækið varð Bretum til háðungar. Á meðal Araba naut Rommel drjúgs stuðnings en margir þeirra litu á hann sem frelsara sinn undan oki Breta.

Tilgangur Þjóðverja var ekki aðeins að ná yfirráðum á Afríkuströnd Miðjarðarhafsins enda munaði ekki miklu að hersveitir Rommels næðu að Súezskurði sem hefði haft gríðarlega hernaðarlega þýðingu. Hernaður í N-Afríku varð ekki stundaður án þess að herlið hefði aðgang að strönd Miðjarðarhafsins fyrir birgðamóttöku. Af því leiddi gríðarlega bardaga um hafnarborgir á borð við Tobruk. Erfiðleikar í öflun birgða var stöðugt vandamál Rommels í N-Afríku frá ársbyrjun 1942 en haustið 1941 eftir innrás Þjóðverja í Sovétríkin fyrr um sumarið höfðu austurvígstöðvarnar forgang um birgðasendingar. Þó hafði útkeyrður og nánast birgðalaus her Rommels ,,rasskellt" bandarískt herlið í frægri orrustu um Kasserine-skarð á leiðinni vestur eftir við landamæri Alsír og Túnis þann 20. febrúar 1943.

Skortur á birgðum og nýtt hlutverk bandarísks hershöfðingja, George S. Patton sem stjórnanda herliðs bandamanna á svæðinu, urðu til þess að hamingjuhjól Rommels í N-Afríku hætti að snúast honum í hag: Patton hafði verið settur yfir her bandamanna í N-Afríku skömmu eftir ,,Kasserine-rasskellinn" fræga.

Þegar hér var komið sögu, síðla vetrar 1943, áttu þýsku hersveitirnar í N-Afríku nánast fótum sínum fjör að launa og sjálfur var Rommel þjáður af ofþreitu og alvarlega sjúkur af gulu sem hafði plagað hann lengi. Honum hafði áður orðið ljóst að stríðið í N-Afríku var vonlaust en ekki tekist að tala um fyrir ,,landabréfa-berserkjum" heima fyrir í Þýskalandi. Hann hélt til Berlínar 6. mars 1943 til fundar við Hitler sem ekki skilaði árangri. Tveimur mánuðum síðar gafst her Þjóðverja (og Ítala) í N-Afríku upp (200 þúsund manns).

Rommel var í veikindaleyfi frá mars og fram á sumar en 10 júlí 1943 var hann skipaður yfirmaður Þýska heraflans í Grikklandi. Hann var kallaður aftur heim um haustið og fengin yfirstjórn heraflans á Ítalíu en því starfi gegndi hann einungis 2 vikur. Í nóvember var Rommel sendur til Frakklands sem stjórnandi B-hersafnaðarins undir von Rundstedt markskálki og hlutverk hans var að skipuleggja starndvarnir á svæðinu frá Hollandi til Bordeux (Norðursjór, Ermasund og Biskajaflói). Á svæðinu má enn sjá ýmis ummerki þeirra gríðarlegu mannvirkja sem reist voru undir stjórn Rommels en hann særðist alvarlega í loftárás í Frakklandi 17. júlí 1944.

Frægt misheppnað en afdrifaríkt tilræði við Hitler 20. júlí 1944 þýddi endalok Rommels. Aldrei hefur verið sýnt né sannað á hvern hátt Rommel tengdist undirbúningi þess tilræðis. Engu að síður munu böndin hafa borist að honum. Vegna þess álits, vinsælda og virðingar sem Rommel naut á meðal þjóðarinnar og nýlega veittra heiðursviðurkenninga var áróðusrmaskínunni og innsta kjarnanum umhverfis Hitler vandi á höndum. Eftir jaml, japl og fuður var Rommel sóttur á sjúkrahús 8. ágúst og fluttur í stofufangelsi í Herrlingen. Honum voru settir 2 úrslitakostir: Annars vegar að fyrirfara sér og yrði þá látið sem hann hefði látist af sárum sínum og útför hans gerð með sérstakri virðingu en hins vegar að verða tekinn af lífi sem landráðamaður (með þekktum afleiðingum fyrir fjölskyldu hans). Rommel valdi fyrri kostinn. Gagnstætt því sem ætla mætti af ýmsum ,,heimildum" féll Rommel ekki fyrir byssukúlu úr eigin vopni heldur lést hann eftir að hafa tekið inn banvænan skammt af eitri.

-------------------

Einkasonur Rommels, Manfred Rommel (f. 24.12.1928), gerðist borgarstjóri í Stuttgart.

Copyright © Leó M. Jónsson

Helstu heimildir:
With Rommel in the Desert, Höf. Heinz-Warner Schmidt. G. Harrap & Co Ltd.
Kasserine. Höf. Ward Rutherford, Pan Books Ltd. London.
Rommel, The Desert Fox. Höf. Desmond Yong. Harpers & Brothers.
Eiðimerkurstríðið. Höf. Richard Collier. Ísl. þýðing J.S. Hannesson/S. Jóhannsson. Almenna bókafélagið. Ristjóri Örnólfur Thorlacius.
D-Day. Spearhead of Invasion. Höf. R.W. Thompson. Pan Ballantine Illustrated History og World War II. 1972.
Seinni heimstyrjöld. Höf. Ronald Heiferman. Ísl. Þýðing Þorsteinn Thorarensen. Fjölva-útgáfan.