PRÓFUN:

Renault Laguna af árgerð 1996-2004

Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur

Renault Laguna tók við af Renault 21, bíl sem Íslendingar fóru á mis við af ýmsum ástæðum sem ekki verða raktar hér. Þeir sem hafa gaman af því að keyra rösklega, en þurfa praktískan fjölskyldubíl, ættu að taka í Renault Laguna, þó ekki væri nema sér til skemmtunar og til að kynnast þeim þægindum sem Frakkar líta á sem sjálfsagðan hlut í bíl á þessu verði. Þá eru Frakkarnir fyrir löngu hættir þeirri sérvisku að fela fyrir manni flauturofann, varahjólið og tjakkinn enda Laguna alþjóðlegur bíll. Þeir, sem vegna fordóma gegn frönskum bílum, láta undir höfuð leggjast að skoða og prófa Renault Laguna, séu þeir að hugleiða kaup á bíl í þessum flokki á annað borð, komast a.m.k. aldrei að því hve þeir fordómar eru dýru verði keyptir. Og af því fjallað er um Renault þá er ástæða til að benda á að þótt sveitamenn á Ríkisútvarpinu haldi að Renault sé borið fram sem ,,Runó" (kunna greinilega ekki frönsku) þá halda Frakkar áfram að bera þetta heiti fram sem ,,Renó".

METSÖLUBÍLL

Þjóðverjar eru kröfuharðir varðandi bíla. Innfluttir bílar sem seljast vel í Þýskalandi hafa þurft að sanna sig, auglýsingar og bækslagangur sölumanna, duga ekki. Íslendingar eru að byrja að læra að meta Renault. Það er því ástæða til að benda á að fjölskyldubíllinn Renault Laguna er mest seldi innflutti bíllinn í sínum stærðar/verð-flokki í Þýskalandi, selst mun betur en t.d. Toyota og Saab af svipaðri stærð. Það sem Þjóðverjar telja Laguna helst til tekna er mjög ríflegt innanrými fyrir farþega og farangur, öruggir ksturseiginleikar, þægileg fjöðrun, hljóðværð og vandaður frágangur. Í augum Þjóðverja er helstu ókostir Laguna mikil sólarhitun farþegarýmis og ekki nógu þægileg framsæti. Nú mun vera búið að bæta úr því.

Þegar komið er upp í þessa stærð bíls er vert að hafa í huga að Frakkar eru góðu vanir því engir geta státað af því að hafa hannað og framleitt þægilegri bíla en Citroën DS og CX og í þessu sambandi má einnig minnast Renault 25 sem Íslendingar fóru á mis við eins og Renault 21 en Renault 25 seldist vel á sínum tíma m.a. í Þýskalandi og þótti framúrskarandi lúxusbíll í sínum verð- og stærðarflokki.


FJÖLSKYLDUBÍLL MEÐ ....

Straumlínan er áberandi í Laguna og mun mörgum finnast bíllin fallegur í laginu. Vindviðnámsstuðull er með því lægsta sem gerist hjá bílum af þessari stærð (0,29). Til að ná þeim árangri þarf meira en straumlínulag; öll samskeyti þurfa að vera með minnsta mögulega fríbili en slík nákvæmni krefst háþróaðrar tækni við framleiðslu og samsetningu enda notar Renault til þess fullkomnustu hugvélar (róbóta) og leisigeisla við gæðaeftirlit. Allur frágangur þessa bíls er áberandi vandaður og ekki síður fallegur - handbragðið, t.d. á innréttingunni er aðdáunarvert.

Það sem einkennir Laguna, að mínu mati, er hve málamiðlunin er vel heppnuð á milli útlits, notagildis og ýmissra praktískra atriða. Árangurinn er álitlegur og eigulegur fjölskyldubíll. Ágætt dæmi eru dyrnar á bílnum, sem er 4ra dyra. Þær eru breiðar, þar sem þær þurfa að vera breiðar og háar þær sem þær þurfa að vera háar. Þar að auki opnast hurðinar vel. Þessi atriði, ásamt því að hæð upp á setu framstóla og aftursætis er meiri en í mörgum öðrum bílum, gera það að verkum að hægt er að bjóða öldruðum ættingjum í bíltúr án þess að eiga það á hættu að þeir fari sér að voða við að reyna að komast út úr bílnum (eða uppúr bílnum eins og ef til vill ætti betur við um suma bíla). Sérkennilegt lagið á afturdyrunum, á móts við hurðarhaldið, er eitt dæmi af mörgum, sem sýnir hvernig þessum mörgu þýðingarmiklu atriðum hefur verið gaumur gefinn. Mér finnst t.d. undarlegt að atvinnubílstjórarar skuli ekki kunna að meta þessa kosti Laguna meira en raun ber vitni - líklega hafa þeir ekki áttað sig á þeim ennþá.

Renault Laguna mun mörgum þykja fallegur bíll. Fjöldi praktískra smáatriða auka notagildi hans sem fjölskyldubíls. Laguna er skemmtilegur bíll, með talsvert líflegri aksturseiginleika en tíðkast í þessum verð/stærðarflokki. Útlitið er þó ekki framúrstefnulegt - frekar íhaldssamt en með ákveðinn glæsileika.

Fjölskyldubíl á að vera hægt að nýta til ýmissa flutninga. Í Renault Laguna er tvískipt aftursæti, bæði seta og bak, sem hvort tveggja má fella fram og niður. Engu að síður er niðurfellanlegur armpúði í miðju bakinu. Þegar sætin eru felld myndast drjúgt flutningsrými. Til marks um rýmið má flytja 1,9 m langan hlut með skottið lokað.

Í fjölskyldubíl skiptir máli að vel fari um börn, t.d. þurfa krakkar að sitja það hátt í bílnum að þau sjái vel út. Laguna er með þessi mál í góðu lagi og auk þess er sérstakt barnasæti, með bílbelti, fellt inn í aðra setu aftursætisins og kemur það upp þegar tekið er í handfang. Barnasætið er ætlað fyrir minni krakka. Innbyggð sólargardína er innan við afturrúðuna. Hún er dregin upp og henni krækt fastri í til þess gerða festingu og kemur þannig í veg fyrir óþægilegan hita vegna sólarljóss. Svona innbyggðan búnað hef ég ekki séð í öðrum bílum þegar þetta er skrifað.

Sætin eru vel bólstruð, minna dálítið á sætin í gamla stóra Citroën DS, með fremur stutta en háa setu; mjúk, þykk og nokkuð þægileg þótt setan mætti vera dýpri (ná lengra fram). Áklæðið í prófunarbílnum var tvílitt flosefni sem virðist praktískt og samkvæmt upplýsingum í handbók má þvo úr því óhreinindi með sápuvatni.

LOKSINS SÁU ÞEIR LJÓS...

Nú er Renault loksins kominn með flauturofann á réttan stað, þ.e. í miðju stýrishjólsins eftir að hafa verið að þráast við frönsku sérviskuna að hafa rofann í einum sprotanna á stýrishólknum í langan tíma. Þetta er mikil framför því þess eru dæmi að fólk hafi ekki getað forðast árekstur með hljóðmerki vegna þess að það fann ekki fluturofann í fátinu.

Þýski bílamarkaðurinn er sagður einn sá erfiðasti, m.a. vegna kröfuhörku þýskra kaupenda. Það segir því talsvert um Renault að hann skuli vera mest seldur allra innfluttra bíla í Þýskalandi. Nú er varahjólið í skottinu eins og á venjulegum bílum. Og Frakkarnir eru meira að segja hættir að fela fyrir manni tjakkinn og hafa hann nú undir varahjólinu.

Og meira - því nú hefur önnur frönsk sérviska loksins verið látin víkja; varahjólið er ekki lengur geymt undir bílnum, þar sem felgan fyllist af drullu og ryðgar heldur í botni farangursrýmisins eins og í venjulegum bílum.

VÖNDUÐ INNRÉTTING

Innréttingin í Laguna er ein sú fallegasta sem ég hef séð í bíl í þessum flokki. Fegurðin er ekki síst fólgin í afar vönduðum frágangi og þeirri sérkennilegu tilfinningu fyrir línum sem maður sér oft greinilegar í frönskum bílum en í öðrum.

Stefnuljósum, aðalljósum og skipti, þurrkum og rúðusprautum er stjórnað með sprotum á stýrishólknum. Þeim er komið þannig fyrir að til þeirra næst án þess að losa þurfi takið af stýrinu. Auk þess er Laguna með fjarstýrt hljómtæki/útvarp, en það er sproti hægra megin við stýrið. Þessi fjarstýring er merkilegt öryggisatriði sem ástæða er til að vekja athygli á því mörg dæmi munu vera um að óhöpp hafi hlotist af þegar fólk er að bjástra við að stilla viðtæki neðarlega í miðju mælaborði.

Renault Laguna er ekki síst fyrir þá sem kunna að meta tækni og hafa gaman af að pæla í henni. Eitthvað af þeim búnaði sem var í bílnum, sem við prófuðum, mun hafa verið sérpantaður. Smáatriðin, sem sjaldan er minnst á, eru mörg og sum nýstárleg í þessum bíl: Í skottinu eru teygjubönd til að halda hlutum, t.d. skjalatösku eða innkaupapoka á sínum stað. Þurfi að draga bílinn er ugla skrúfuð í aftur- eða framstuðarann. Uglan er þess á milli í sérstakri festingu í skottinu. Fyrir ofan dyrnar, bílstjóramegin, er sérstakur haldari fyrir sólgleraugu. Læsingar eru rafknúnar og auk þess með fjarstýringu. Sérstök barnalæsing er á afturhurðum. Rúður eru rafknúnar og með sérstökum lásrofa til öryggis.

Í Laguna er öflugt þjófavarnarkerfi. Það virkar á tvo vegu: Annars vegar gerir það viðvart, með sírenuhljóði, sé reynt að þvinga upp hurð, húdd eða skottlok og/eða verði bíllinn fyrir höggi. Hins vegar kemur kerfið í veg fyrir að hægt sé að gangsetja vélina nema viðkomandi sé með fjarstýringuna fyrir læsingarnar. Liður í þjófavörninni er hljómtæki, undir loki (að sjálfsögðu), sem er kóðað. Það þýðir að sá sem ekki hefur talnaröðina getur ekki notað hljómtækið. Um leið og fjarstýring er notuð til að læsa bílnum er þjófavarnarkerfið virkt, þ.m.t. kóðalásinn á hljómtækinu. Þetta þjófavarnarkerfi er betur útfært en maður á að venjast. Mér kæmi ekki á óvart þótt faglegri þjófar, með ráð og rænu, forðist að eiga við Laguna fyrir bragðið. Þannig virkar kerfið ekki síður sem forvörn. Erlend tryggingafélög, í eðlilegri samkeppni, veita sérstakan afslátt af kaskótryggingum þegar svona búnaður er í bíl. Í nýrri gerð Laguna er enginn lykill notaður heldur aðgangskort sem læsir og aflæsir dyrum á sjálfvirkan hátt þegar farið er frá bílnum eða komið að honum auk þess sem það er notað til gangsetningar.

Innréttingin er ein sú fallegasta sem maður sér í bíl í þessum verðflokki: Fjarstýrt útvarp, tvískipt fellanlegt aftursæti, innbyggður barnastóll, góð miðstöð o.fl. Þegar aftursætið er fellt fram myndast 1334 lítra flutningsrými.

Af öðrum smáatriðum má nefna upplýstan spegil á sólskyggni, hæðarstillt aðalljós, hækkanlegt bílstjórasæti með stillanlegum stuðningi við mjóhrygg, stillanlegt stýrishjól, stórt læsanlegt hanskahólf, stillanlega axlarhæð á bílbeltum, hnakkapúða á aftursæti, öryggjabox ásamt tengikorti á aðgengilegum stað (undir sérstöku loki á löm) og fjarstýrt bensínlok.

Yfir afturdyrum og hægri framdyrum, að innanverðu, eru handarhöld og aftur í bílnum eru sérstök lesljós. Baksýnisspeglarnir eru rafstilltir og er stillingin fyrir þá á takkabretti innan á bílstjórahurðinni.

Þetta spjald kemur í stað lykils, því er stungið í til þess gerða rauf til gangsetningar. Það virkar jafnframt sem fjarstýrður lykill að hurðum - þegar maður fjarlægist bílinn með spjaldið í vasanum læsist hann sjálfkrafa og aflæsist á sama hátt þegar maður nálgast bílinn.

Sem sérbúnað má fá ABS-bremsur, rafknúna sóllúgu, hitun í framstóla, hraðafesti (cruise control), tölvustýrt loftkælikerfi, upphitaða framrúðu o.fl. Mjög öflugur öryggisbúnaður er í Laguna, loftbelgir, sjálfvirk strekking á bílbeltum, árekstrarvörn, krumpusvæði o.fl. enda hafa þessir bílar fengið hæstu einkun í stöðluðum árekstrarprófunum. Í Laguna má gera loftpúðann beint fyrir framan farþegann í framsæti óvirkan með sérstökum rofa. Sérstakt gaumljós gefur til kynna þegar loftpúðinn er óvirkur. Þessi búnaður gerir kleift að hafa ungabarn í til þess gerðum öryggisstól í framsæti (stól sem snýr bakinu fram).

Rafknúnu rúðuvindurnar eru kapítuli útaf fyrir sig. Renault hefur lagt sig fram um að gera þennan búnað öruggari og þægilegri. Fjarstýring læsinga virkar einnig á rafknúnu rúðurnar þannig að sé rúða opin, þegar bílnum er læst, nægir að þrýsta aðeins lengur á hnappinn á lyklakippunni til að allir opnir gluggar lokist, þ.e. rúðurnar renni sjálfkrafa upp - þetta atriði er sjálfvirkt með aðgangsspjaldinu.

Til öryggis er vindubúnaðurinn með innbyggða álagsskynjun. Verði einhver fyrirstaða á leið rúðunnar upp, t.d. hönd á barni, stöðvast rúðan sjálfkrafa og rennur niður um 5 sm. Annað öryggisatriði í Laguna er aukaafl, sem beita má á rúðu sem hefur stirðnað. Til þess er sérstakur hnappur undir lokinu á öryggjaboxinu. Rúðuvindurnar eru virkar eftir að drepið hefur verið á vélinni og þar til dyrum hefur verið lokað einu sinni. Þær virka einnig eftir að aflæst hefur verið með fjarstýringunni og aðrar eða báðar framdyr standa opnar. Einhverjum kann að finnast þessi smáatriði lítilsgild. En sá sem stússar við bílinn sinn úti í skúr, t.d. við þvrif og bón, mun fljótt læra að meta þessi atriði.

ÖFLUG MIÐSTÖÐ

Mælarnir, en þeir eru snúningshraðamælir, hraðamælir með stafrænum km-teljara, bensínmælir og hitamælir eru með greinilega kvarða og vísa. Ofan við þá er ljósstafagluggi bíltölvunnar en til hliðanna gaumljós. Neðan við hraðamælinn er stafagluggi sem gefur til kynna þjónustustöðu. Fyrir miðju mælaborðinu ofarlega er stafræn klukka. Á hana sést vel, jafnvel í sólskini; hún sýnir einnig útihitastig.

Hluti af rafeindakerfi bílsins er bíltölva svipuð þeim sem hafa verið í bandarískum bílum sl. áratug. Með tölvunni má reikna út vegalengd, aksturstíma, meðalhraða og meðaleyðslu og getur það, ef til vill, gagnast þeim sem þurfa að færa akstursdagbók.

Miðstöðvarkerfið í Laguna er bæði fljótvirkt og öflugt. Blástursstokkar eru í báðum framhurðunum og ristar í miðju mælaborðinu; blásturinn kemur því frá báðum hliðum.
Sérstakar ristar eru fyrir hliðarrúðurnar auk þess sem miðstöðin blæs um ristar niðri við gólf, bæði fram í og aftur í. Miðstöðin er, eins og annað í þessum bíl, hljóðlát en þó fljót að ná upp hita. Vegna hljóð- og varmaeinangrunar helst jafn hiti í bílnum og hann kólnar hægt að innanverðu.

Frá miðstöðinni heyrist ekki nema þegar blásarinn er á mesta hraða. Í inntökum eru sérstakar síur, sem eiga að stöðva ryk, frjóagnir og sót. Öllu starfi miðstöðvarinnar er stjórnað með þremur stórum snerilhnöppum og getur varla einfaldari verið.

AKSTURINN

Þessi Renault Laguna var með 4ra síl. 2ja lítra vél en það er vinsælasta vélin. Laguna hefur einnig verið fáanlegur með 3ja lítra V6-vél en hún er orðin mjög roskin, jafnvel gamaldags. Árgerð 1998 er hins vegar fáanleg með spónnýrri 3ja lítra V6-vél sem hönnuð hefur verið í samvinnu Renault og PSA og verður einnig í Citroën og Peugeot. Sú vél er nýjasta tækni og vísindi (190 hö).

Vélin í 1998 árgerðinni sem var til prófunar er með 1998 rúmsm. slagrými, með 8 ventla og einn yfirliggjandi reimdrifinn kambás. Þetta er sama vélin og Renault bauð fyrst upp á í Williams Clio 1993, en þá með 16 ventla heddi (150 hö). Vélin er byggð á 1,8 lítra 16 ventla vélinni í 19 Sport og Clio Sport, útboruð í 2 lítra slagrými og með 8 ventla heddi. Vélin, sem er þverstæð og knýr framhjólin, er þýðgeng og sæmilega kraftmikil fyrir þennan bíl (113 hö við 5400 snm), jafnvel þótt hann sé sjálfskiptur. Aflið er samt meira en hestaflatalan ein gefur í skyn. Skýringin á því er sú hve vélin hefur mikið tog: Hámarkstogið, 168 Nm, er við 4250 sn/mín.

Nýrri árgerðirnar eru með mjög tækilega fullkomnum vélum, 4ra sílindra 16 ventla vél með yfirliggjandi kambásum, 190 ha V6-vél með yfirliggjandi kambásum og 1,9 og 2,2ja lítra 16 ventla turbódísilvélum.

GÍRKASSAR

Eldri Laguna er með þýskri sjálfskiptingu frá ZF. (ZF er skammstöfun á Zahnradfabrik Friedrichshafen en það er þýskt fyrirtæki og stærsti evrópski framleiðandi sjálfskiptinga). ZF-sjálfskiptingar eru m.a. í BMW, Porsche, Volvo, Jaguar, VW, Audi o.fl. Sjálfskiptingin í Laguna er með rafeindastýringu og tveimur prógrömmum; fyrir sparakstur og sportakstur. Í nýjustu bílunum hefur einu prógrammi, fyrir vetrarakstur (W), verið bætt við. Þegar það er valið, t.d. í hálku, tekur skiptingin af stað í 2. gír og með mýksta mögulega átaki. Þessum búnaði skal ekki ruglað saman við spólvörn en þá er ABS-bremsukerfinu beitt með W-prógramminu til að jafna snúningshraða drifhjólanna. Ekki er hægt að setja í gír nema staðið sé á bremsunni. Eldri sjálfskiptingin er 4ra gíra og virkar óaðfinnanlega.

Í nýrri Laguna er beinskipti kassinn 6 gíra en ZF-sjálfskiptingin 5 gíra með snertiskipti (TipTronic) en það þýðir að sjálfskiptinguna má einnig nota eins og beinskiptan kassa án kúplingar.

Vökvastýrið mun mörgum þykja nokkuð þungt. Á móti kemur að bíllinn er mjög rásfastur þegar ekið er beint af augum. Fjöðrunin er í stinnara lagi; McPherson gormaturnar að framan en Renault snerilfjöðrun að aftan, sams konar og í Clio og Renault 19. Laguna hallar lítið sem ekkert í beygjum og hann má keyra mjög hressilega án þess að maður sé með lífið í lúkunum. Og þennan bíl er gaman að keyra - hann hefur sömu sportlegu eiginleikana og BMW og Audi en engu að síður sinn sérstaka karakter, t.d. mýkri fjöðrun.

Útsýn er góð fram á við. Þó virka rúðuþurrkurnar truflandi, ef til vill er það vegna þess hve framrúðan hallar mikið.

Algeng mistök innflytjenda bíla er að huga ekkert að því hvers konar dekk eru undir bílunum. Algengt er að bílar komi á sérstökum hraðbrautadekkjum, jafnvel með hraðamerkingunni V sem þýðir að bíllinn er búinn fyrir hraðbrautir en beinlínis hættulegur á malarvegi. Undir þessum bíl voru hraðbrautardekk af tegundinni Continental Super Contact. Þau standa undir nafni á malbiki en gera bílinn nánast ókeyrandi á möl, veggripið er nánast ekki neitt og bíllinn því nánast ókeyrandi á malarvegi. Þessi dekk eru með lágprófíl (185/65 R14). Auk þess að spilla aksturseiginleikum bílsins við íslenskar aðstæður gera þau bílinn lágskreiðari. Mér finnst hæpið að fólk, sem kaupir þetta dýran bíl , sé tilbúið að fórna aksturseiginleikum og öryggi fyrir stældekk af þessu tagi. Mér gafst kostur á að prófa þennan sama bíl eftir að sett höfðu verið undir hann belgmeiri dekk og með hærri prófíl (Michelin heilsársdekk af stærðinni 195/70 R14) og það var eins og við manninn mælt - bíllinn gjörbreyttist til hins betra.

Laguna tilsýndar gefur tilefni til að halda að bíllinn skæfi götuna. En þetta er sjónhverfing sem stafar af byggingarlaginu. Hæð undir lægsta punkt er 155 mm á lágprófíldekkjunum en um 187 mm á hærri dekkjunum. Við dekkjabreytinguna leiðréttist 9,9% skekkja sem við mældum á hraðamælinum (sýndi of mikinn hraða).


Renault Laguna er afar hljóðlátur bíll í akstri. Meðaleyðsla í blönduðum akstri (á stærri dekkjunum og með réttan hraðamæli) mældist 11,65 lítrar á hundraðið. Hafa ber í huga að hér er um bílaprófun að ræða en ekki sparakstur og því ekkert óeðlilegt þótt uppgefnar eyðslutölur framleiðanda séu lægri.

P.S.

Íslendingar eru haldnir fordómum gagnvart frönskum bílum. Þeir fordómar eru ekki að ástæðulausu; stafa af slæmri reynslu á 7. og 8. áratug 20. aldar af efnisrýrum bílum sem hannaðir voru til að mæta sérstökum kröfum og skattlagningarreglum sem þá giltu í Frakklandi og áttu að tryggja sparneytni smærri bíla. Sú forsjárhyggja reyndist, þar sem annars staðar, vond pólitík sem gerði það að verkum að hannaðir voru lélegri bílar en ella. Eftir að þessar reglur voru felldar úr gildi upp úr 1980 breyttist hönnun franskra bíla, einkum minni bíla; í stað ,,franskra bíla" hófst framleiðsla alþjóðlegra bíla í Frakklandi, hjá Renault með R19 árið 1989. Síðan hafa gæði franskra bíla aukist jöfnum takti. Það er t.d. athyglisvert að Renault selur rúmlega 2 bíla í Þýskalandi þegar Toyota selur einn. Sjálfur hef ég reynslu af gæðum og endingu Renault eftir að hafa átt í rúm 10 ár Renault Clio og ekið honum 250 þúsund km. Renault Clio er besti smábíll sem ég hef átt, sá sem hefur yfirburðaaksturseiginleika umfram aðra smábíla (nema ef til vill Nissan Micra), betur hljóðeinangraður en aðrir smábílar og sá smábíll sem kostaði minna í reksti á hvern km en aðrir, t.d. minna en Daihatsu Charade sem ég átti þar á undan en sá reyndist einnig vel. L.M.J.

 

Aftur á aðalsíðu