Er rafgeymirinn ónýtur *
eða leysir hleðsla málið ?


Fremur einföld prófun mun svara spurningunni. Til að framkvæma prófunina þarf spennumæli og helst einnig sýrustigsmæli** (Af Vefsíðu Leós, http://www.leoemm.com)

* Á við notaðan rafgeymi en ekki nýjan /gallaðan. Á við rafgeymi með opnanlegu selluloki/töppum.
** Sýrustigsmælar fást á bensínstöðvum og kosta ekki mikið.

Sýrustig mælt
Eðlisþyngd (rúmþyngd) geymasýru eykst með pólspennu. Í fullhlaðinni 12 volta geymissellu er rúmþyngd sýrunnar 1,28 kg/l. við 20°C.
Rúmþyngd sýrunnar á að vera jöfn í öllum sellunum og a.m.k. 1,24 kg/l

Hleðsla
· Nánast öll hleðslutæki eru með sjálfvirka stýringu á hleðslustyrk (hleðslustraum).
· Hitni geymir (sella/sellur) merkjanlega á meðan á hleðslu stendur bendir það til skammhlaups (botnfalls) í sellu/sellum og er þá geymirinn ónýtur.
· Sé venjulegur rafgeymir ekki farinn að taka hleðslu eftir 1 klst. má gera ráð fyrir að hann sé ónýtur. Á þessu er undantekning - lokaðir geymar með ,,auga", t.d. Delco - en þeir geta þurft 10-20 tíma hleðslu áður en þeir taka við sér.
· Sé rúmþyngd sýru mismunandi eftir 2ja tíma hleðslu skal halla geymi og láta sýru renna á milli sella og hlaða áfram í 2 tíma áður en geymir er dæmdur ónýtur.
· Leki geymir sýru, t.d. vegna skemmda, þýðir það ekki að hann sé ónýtur. Efni eru fáanleg sem til að þétta geymakassa.
· Eldfimt gas myndast í geymi við hleðslu. Haldið því eldvökum og neistagjöfum fjarri á meðan á hleðslu stendur.
· Sé geymir hlaðinn of hratt getur hann hitnað og sprungið í loft upp. Geymar þola mismunandi hraða hleðslu. Sama gildir um hleðslu með alternator.
·

Athugið !
· Vökvaborð í sellum á að vera jafnt og rétt fljóta yfir selluplöturnar. Vanti vökva skal bæta á með eimuðu vatni.
· Reikna má með því að vandaður rafgeymir skili fullum afköstum í 3 ár en fari að dala upp úr því.
· Algeng ástæða þess að rafgeymir eyðileggst eða endist stutt er titringur, t.d. vegna þess að honum er ekki fest tryggilega.
· Tíð afhleðsla fer illa með rafgeymi.
· Mælist pólspenna minni en 10,8 volt má reikna með að geymir sé ónýtur.
· Rúmþyngd sýru segir meira um ástand geymis en pólspenna.
· Hagkvæmast er að hlaða geymi með hleðslustraum (A) sem er 10% af afli hans í Ah.
· Pólspenna hlaðins 12 volta rafgeymis skal mælast 14,4 volt .
·

Sé rúmþyngd sýrunnar jöfn í sellum á bilinu 1,17 - 1,23 þarfnast geymirinn hleðslu. Sé hún lægri en 1,17 hefur geymirinn tæmst. Orsök getur verið bilun í rafkerfi (ónóg hleðsla), yfirálag, margra mánaða notkunarhlé, geymir tæmdur (t.d. ljós gleymst á). Hlaðið og mælið pólspennu klukkustund eftir fulla hleðslu.
Ath. Mælist rúmþyngd sýru 1,2 við 20°C telst geymirinn hálfhlaðinn.

0,05 eða meiri mismunur á rúmþyngd sýru á milli sella bendir oftast til þess að geymir sé ónýtur og ástæðan óeðlileg notkun/álag. Dæmi um ójafna mælingu:
1,24 1,25 1,25 1,10 1,24 1,25
eða
1,26 1,26 1,25 1,14 1,18 1,24

Væri um nýjan eða nýlegan geymi að ræða er líklegasta skýringin á þessum mismun verksmiðjugalli.

Vertu betur búinn undir vetraraksturinn

Fyrsti vetrardagur bar nafn með rentu í ár, a.m.k. hér á suðvesturhorni landsins. Næstu 4-5 mánuði má gera ráð fyrir að um 80% árlegs slits á venjulegum einkabíl eigi sér stað. Kuldinn en ekki eknir kílómetrar slíta vélinni en snjórinn, klakinn, slabbið og saltið sjá um undirvagninn, fjöðrunina, stýrisganginn, bremsurnar og lakkið. Það er yfirleitt á veturna sem greiða þarf stóru reikningana vegna útgerðar bílsins og undantekningarlaust eru það trassarnir sem greiða mest - fyrir viðgerðir og vegna verðrýrnunar bílsins. Hvað getur venjulegur bíleigandi gert til að draga úr áhrifum vetrarkuldans á ástand og rekstur bíls? Heilbrigð skynsemi segir okkur að álag aukist á rafkerfið þegar kólnar; kælikerfið þurfi að þola kuldann og vera jafnframt fært um að hita upp bílinn; viðnámið í vélinni aukist í kulda og því þurfi að huga að smurkerfi; með kólnandi veðri sé mikilvægt að eldsneytis- og kveikujkerfið sé fullvirkt. Hér eru ráðleggingar sem allir geta nýtt sér - eina sérþekkingin sem er nauðsynleg er að kunna að opna húddið á bílnum.

Byrjum á rafkerfinu

Rafmagnsnotkun eykst þegar kólnar og munar þar mest um afturrúðuhitara, speglahitara og miðstöðvarnotkun. Rafhleðsla þarf því að vera í lagi og rafgeymir fær um að gegna sínu hlutverki. Tvennt getur bíleigandi gengið úr skugga um:
Annars vegar að alternatorinn geti framleitt nægilega raforku en til þess þarf hann að snúast eðlilega undir álagi. Alternatorinn, sem er á stærð við melónu, þekkist á reiminni og rafleiðslum sem liggja frá honum. Þegar rafhleðsla geymis hefur minnkað, t.d. fyrst eftir start, eykst álag á alternatorinn sem verður þyngri í vöfum og sé reimin slök ýlfrar hún og slúðrar þegar alternatorinn þyngist. Hafi reimin slúðrað lengi er hún að öllum líkindum ónýt. Sé reimin það slök að hún gangi niður sem nemur þykkt þumalfingurs þegar þumli er þrýst á hana á milli trissanna er ástæða til að láta strekkja hana eða endurnýja.
Hins vegar þarf rafgeymirinn að geta tekið við þeirri hleðslu sem alternatorinn framleiðir og skilað til baka sem fullu afli við start í kulda. Til þess þurfa póltengingar geymisins að vera í lagi, tryggilega fastar og án útfellingar, þ.e. sýruhrúðurs. Flestir eiga verkfæri sem nota má til að herða lausar pólklemmur á rafgeymi. Sé hrúður á pólunum er auðvelt að fjarlægja það með volgu vatni, ekki síst ef blandað er einni matskeið af matarsóda (natron) út í 1/4 lítra af volgu vatni og því hellt á hrúðrið.
Þá er ástæða til að benda bíleigendum á að kaupa peru í aðalljós á næstu bensínstöð og geyma til vara í hanskahólfinu.


Kælikerfið

Í handbókum flestra bíla er eigendum bent á að endurnýja eigi kælivökvann á vélinni á 2-3ja ára fresti. Ástæðan er sú að flestar vélar eru með hedd úr áli. Kælivökvi súrnar með aldri og tærir þá álið sem getur leitt til þess að heddpakkningin gefi sig en það er ávísun á mjög dýra viðgerð. Ekki er nóg að tappa kælivökvanum af vatnskassanum heldur þarf að skola kerfið út og endurnýja. Einn hluti af óblönduðum frostlegi á móti 1 hluta af vatni (50%) þolir mestu frost sem hér gerast. Öfugt við það sem mætti ætla minnkar frostþol kælivökvans í flestum tilfellum sé hlutfall frostlagarins meira eða minna en 50%. Kælikerfið er undir þrýstingi og því varasamt að skrúfa lokið af yfirfallsgeymi eða vatnskassa þegar kælivökvinn er heitur.
Vanti á kerfið skal bæta á það blönduðum kælivökva þegar vélin er köld en jafnframt er það vísbending um leka. Sé hann ekki augljós, t.d. með hosu vegna klemmu sem nægir að herða, er ástæða til að láta yfirfara kælikerfið á verkstæði. Í framhaldi af þessu er tilvalið að bæta frostþolnum rúðuvökva á geyminn fyrir rúðusprautuna og þrífa þurrkublöðin um leið með tusku vættri í kveikjarabensíni. Til að koma í veg fyrir ískur í þurrkublöðunum og varna Því að þau frjósi föst má bera á þau svokallað yngingarefni (sama efni og notað er til að fríska upp plast, t.d. ,,Son of a Gun").

Smurolían
Hlutverk smurolíunnar hefur breyst á sl. áratugum. Auk þess að smyrja slitfleti vélarinnar gegnir smurolían nú einnig því hlutverki að binda alls konar efni, mismunandi eitruð og skaðleg, sem myndast innan í vélinni og flytja þau til smursíunnar þar sem þau eiga að verða eftir. Með þessu móti er unnt að farga spilliefnum með notuðum síum og olíu sem annars hefðu farið út í andrúmsloftið. Til að þetta hreinsikerfi virki þarf öndun vélarinnar að vera lokuð hringrás sem flytur gufur, sem myndast í olíunni, til brunahólfanna. Á öndunarrásinni er einstefnuloki (PCV). Sá er yfirleitt í ventlalokinu og þekkist á slöngu sem liggur frá honum og í soggreinina. Fyrstu merki um að þessi loki sé stíflaður er olíusmit utan á vélinni, oft með ventlalokinu. Sé PC-lokinn tekinn úr og hristur á að hringla í lausri kúlu innan í honum sé hann í lagi. Festist kúlan í lokanum vegna óhreininda teppist öndunin og tærandi skúm myndast innan í vélinni og þá er yfirleitt stutt í meiriháttar skemmdir, t.d. á kambási.
Mín reynsla er sú að borgi sig að endurnýja smurolíu á vél sé hún orðin áberandi dökk á litinn, t.d. á 7-8 þús. km. fresti á venjulegri bensínvél - þrátt fyrir að framleiðandi bílsins mæli með 15-20 þús. km. Mín reynsla er einnig sú að hagkvæmara sé að kaupa ódýrustu smurolíuna á markaðnum og skipta oftar um olíu og síu, heldur en að kaupa dýra smurolíu og nota hana lengur. Verð á smurolíu endurspeglar fremur auglysingakostnað en gæði en það hafa t.d. bandarísku neytendasamtökin, Consumer Union, sýnt fram á með prófunum.
Sé smurolían ekki látin mettast um of af óhreinindum og sóti (dökkna) er það ákveðin trygging fyrir því að gangsetning í kuldum verði eðlileg og slit vegna kulda í lágmarki.

Bremsuvökvinn
Mörgum hefur komið á óvart þegar ég hef bent þeim á að kynna sér kaflann ,,Preventive maintenance" í handbókinni sem fylgir bílnum. Þar stendur nefnilega skýrum stöfum að auk þess að endurnýja kælivökvann á 2-3ja ára fresti skuli einnig endurnýja bremsuvökvann á 2-3ja ára fresti. Margir bíleigendur virðast ekki vita þetta. Það er í sjálfu sér ekki undarlegt því margir starfsmenn bílaverkstæða virðast ekki vita þetta heldur og mörg bílaverkstæði hafa ekki sérstakan búnað til að endurnýja bremsuvökva á hraðvirkan hátt. Fyrir bragðið er fólk að borga tugi þúsunda fyrir viðgerðir á bremsukerfum bíla, m.a. með endunýjun hjóldælna í afturhjólum, á tiltölulega nýlegum bílum - viðgerðir sem í flestum tilvikum ættu að vera óþarfar. Bremsuvökvi, sama hvað hann er sagður vandaður, safnar í sig raka. Rakinn safnast fyrir í þeim hlutum bremsukerfisins sem eru lengst frá höfuðdælunni, oftast í dælum afturhjólanna.

Sé bremsuvökvinn ekki endurnýjaður reglulega veldur rakamettun hans pyttatæringu í bremsudælunum og þær eyðileggjast. Enn alvarlegra er að raki í bremsuvökva getur valdið tímabundinni gufumyndun í bremsukerfi þannig að bremsur ,detta" allt í einu af bíl þegar mest á reynir, t.d. þegar farið er niður langar brattar brekkur og skálabremsur afturhjóla ná að hitna að því marki að vökvinn sýður í dælunni; rakinn breytist í gufu og bremsupedallinn skellur í gólfið þegar stigið er á hann. Ekki þarf að fara í grafgötur um afleiðingarnar og ástæða til að benda á að þegar bremsukerfið hefur kólnað verða bremsurnar oft eðlilegar á ný - og því er sjaldan vitað með vissu hver orsök slyssins gæti hafa verið og eins víst að ekki er bremsuvökvinn alltaf rannsakaður í slíkum tilfellum.

Undirvagninn
Ónýtir eða lélegir demparar gera það að verkum að veggrip hjóls minnkar til mikilla muna. Þeir sem spóla mest í sköflunum á vetrum geta verið á bílum með ágæt vetrardekk en lélega dempara. Það er því góð pólitík að láta athuga demparana næst þegar farið er á smurstöð.
Ísvari
Sé allt með felldu á ekki að þurfa að blanda ísvara saman við bensín að vetri til. Þurfi ísvara er það jafn líklegt að það sé vegna lakra gæða bensínsins (vatnsmengað) fremur en að raki þéttist í bensíngeymi bíls af einhverjum öðrum orsökum. En þurfi að nota ísvara hættir mörgum til að setja alltof mikið af honum í bensíngeyminn - næstum undantekningarlaust nægir ein tappafylli (10 ml) í 40-50 lítra bensíngeymi. Ísvari fyrir bensín er ísóprópanól og ætti aldrei að setja saman við dísilolíu þar sem efnið eyðileggur þéttingar í olíuverki. Til að koma í veg fyrir kekkjun dísilolíu í kuldum á að nota steinolíu, 10-20% saman við dísilolíuna.

Umhirða
Á vetrum rífa nagladekk upp yfirborð malbiks. Við það myndast tjara sem festist á bílum. Saltið sem borið er á göturnar binst í tjörulaginu á bílnum og myndar ákjósanlegustu skilyrði fyrir tæringu - jafnvel minniháttar lakkskemmdir verða fljótt að áberandi ryðupphlaupi. Eina ráðið gegn þessu er að halda bílnum hreinum og verja lakkið með bóni. Um leið ætti að vera ljóst að það er á haustin sem rétti tíminn er til að láta laga skemmdir á lakki til að vörn þess gegn tæringu sé sem mest.

Leó M. Jónsson október 2004

Aftur á aðalsíðu