Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur.

Chrysler PT Cruiser, 2006

Ekki virðast bandarískir bílaframleiðendur verða feitir af því að virða "óskir almennings" við hönnun nýrra bíla. Dæmin eru fleiri en Chevrolet Corvair og AMC Pacer. Skýringin kann að vera að kröfurnar hafi komið frá beturvitandi sérfræðingum bílatímarita en ekki frá almenningi. Á meðal markaðsérfræðinga er sú skoðun þekkt að best takist til þegar bílaframleiðandi hafi vit fyrir kaupendum. Dæmi um það er Ford Mustang 1964 og seinna stóru pallbílarnir.

Hve stór er PT Cruiser?
Standist áðurnefnd kenning sem regla er PT Cruiser (PT stendur fyrir Personal Transport) líklega undantekning sem sannar hana. Vissi maður ekki betur mætti ímynda sér að bíllinn hafi verið hannaður í vel heppnaðri samvinnu Chrysler og bandarísku neytendasamtakanna (Consumer Union). Að útlitinu slepptu, en um það eru að vonum skiptar skoðanir, er PT Cruiser búinn flestum þeim kostum sem fólk leitar að hjá litlum en rúmgóðum fólksbíl - það er einfaldlega leitun að praktískari bíl. Það sem hann hefur hins vegar umfram alla aðra smærri fólksbíla er styrkur. Bygging bílsins er áberandi sterk og sérstaklega gerð til að auka öryggi og höfða til kaupenda sem hræðast léttbyggða bíla. Til marks um það er að PT Cruiser, sem er af svipaðri stærð og algengir japanskir fólksbílar á borð við Mazda 323, Honda Civic, Nissan Sunny o.fl, er nærri 500 kg þyngri þrátt fyrir svipaða sparneytni.

Vegna þess að PT Cruiser er ekki eins aðrir bílar útlits - minnir á smækkaða mynd af algengum fólksbíl frá 1942 sem "lyft" hefur verið í anda hins ameríska "Hod Rod" - eða bara af því hann er örðu vísi, er hann sniðgenginn af hópi fólks sem fyrir bragðið fer á mis við einn sniðugasta fjölskyldubílinn á markaðnum, að mínum dómi. Ef til vill er það vegna fordóma (af því hann er amerískur) eða einhvers konar sjónhverfing að margir líta á PT Cruiser sem talsvert stærri bíl en hann er - jafnvel áður en þeir uppgötva hve rúmgóður hann er að innan. Því kemur það mörgum á óvart að PT Cruiser er ívið minni bíll en 4ra dyra Toyota Corolla.

Samanburður á Chrysler PT Cruiser og Toyota Corolla
(4ra d.5g beinsk. árg. 2006)
Toyota Corolla Sedan 1.6
Crysler PT Cruiser 1.6
Stærð botnflatar, m2
7,49
7,31
Hjólhaf, mm
2600
2617
Eigin þyngd, kg
1140
1617
Burðarþol, kg
515
367
Farangursrými, l
437
520
Dráttargeta, án br/m. br, kg
450/1300
500/1450
Vélarafl, hám. hö/sn
110/6000
115/5600
Vélartog, hám. Nm/sm
150/4800
158/2800
Snerpa, 0-100 km, sek.
10,2
11,5
Bensínnotkun, l/100 km *
7,0
6,4
Snúningshringur, innan kanta, m
11,0
10,8
Listaverð, mkr.
2.0
2.3 **
* Meðaltal í blönduðum akstri.
** Verð á Corolla er fengið frá Toyota-umboðinu. Verð á PT Cruiser er áætlað. Verð er einungis til viðmiðunar þar sem búnaðarstig bílanna er mismunandi.

 

Breytt útlit, 230 ha vél
Fyrsti PT Cruiser var kynntur vorið 2000 en hann er framleiddur í einni fullkomnustu bílaverksmiðju heims í Mexikó. Ef frá er talin öflugri 2,4 lítra turbóvél, sem var fáanleg frá og með árgerð 2003, hefur PT Cruiser verið að mestu leyti óbreyttur þar til nú að 2. kynslóðin birtist sem árgerð 2006. Ekki er þó um grundvallarbreytingar að ræða heldur ríflega andlitslyftingu með breyttu útliti að framan og aftan. Grillið er nýtt, ný ljósker að framan og þokuljós og samlit vindskeið að aftan. Á bandaríska markaðnum er bíllinn er boðinn með sömu vélarstærðum og áður þó með þeirri breytingu að 150 ha túrbóvélin hefur verið endurbætt og skilar nú 230 hö.

Útlit PT Cruiser frá Chrysler er sérstakt. Þótt hönnunin nefnist á ensku ,,Retrostyling", sem mætti kalla "fyrritíma stíl", er ekkert annað gamaldags við þennan bíl.

Evrópsk gerð
Sérstök gerð af PT Cruiser er sérstaklega ætluð fyrir evrópska markaðinn og er framleidd í Graz í Austurríki. Í fyrstu var sá einungis boðinn með 1.6 lítra 115 ha vél og beinskiptum 5g kassa. Sú vél var þróuð í samvinnu við BMW/Rover. Síðan vorið 2002 hefur betur búin gerð, StreetCruiser, einng verið fáanleg á evrópska markaðnum en sá er með 2ja lítra 140 ha bensínvél með tveirmur yfirliggjandi keðjuknúnum kambásum eða 2.2 lítra Benz-dísilvél. StreetCruiser er fáanlegur beinskiptur eða sjálfskiptur. Vélarnar í evrópsku gerðunum eru tæknilega þróaðri og talsvert sparneytnari en 2ja og 2,4 lítra vélarnar í bílunum fyrir bandaríska markaðinn.

Aukin sparneytni
1.6 og 2.0 lítra bensínvélarnar eru búnar nýju innsprautukerfi sem er með tveggja þrepa spíss fyrir hvert brunahólf án bakrásar en með því móti er kerfið talsvert einfaldara en flest önnur innsprautukerfi. 2.4 lítra bensínvélin er með kveikjulaust neistakerfi.

PT Cruiser er aðeins minni um sig en Toyota Corolla - sumum finnst þessi bíll vera miklu stærri en hann er. Það er sjónhverfing. Hins vegar er hann rúmbetri en flestir keppinautar. PT Cruiser er framleiddur í Graz í Austurríki fyrir evrópska markaðinn. Árgerð 2006 er m.a. boðinn með öflugri og sparneytinni túrbódísilvél frá Mercedes-Benz.

Þetta er talsverð endurbót frá því sem verið hefur því þótt bensínnotkun 2,4 lítra vélarinnar í eldri árgerðunum hafi verið uppgefin um 10 lítrar í blönduðum akstri, samkvæmt svokallaðir EPA-mælingu, hafa eigendur kvartað undan meiri eyðslu. Til að tryggja að eyðsla sé sem næst uppgefinni tölu hafa tæknimenn Chrysler einfaldað innsprautukerfið, eins og lýst er hér á undan, og endurbætt þannig að sparneytnin hefur aukist og helst óbreytt.

Dísilvél sem vekur athygli
Evrópudeild Chrysler kynnti PT StreetCruiser með nýrri dísilvél um þetta leiti í fyrra. Sú er ein af 4ra sílindra túrbódísilvélunum frá Mercedes-Benz (OM664). Athygli vekur að þessi 2.2ja lítra dísilvél skilar 143 hö og er með hámarkstog upp á hvorki meira né minna en 300 Nm/1600 sm. Með þessari vél er PT Cruiser líklega með sprækustu smærri dísilbílum og þrátt fyrir 1650 kg eigin þyngd bílsins er meðaleyðslan í blönduðum akstri 6,9 lítrar á hundraðið.

Hjá Evrópudeildinni er reiknað með að um helmingur allra seldra PT Cruiser verði með dísilvél og eins og gerst hefur á bandaríska markaðnum hefur Chrysler í Graz ekki undan að framleiða bílinn. Rífandi salan hefur ekki farið framhjá keppinautunum sem sjá má á því að einn af helstu sölubílunum hjá GM í Bandaríkjunum er nýr Chevrolet HHR sem er nánast eftirlíking af PT Cruiser í útliti, búnaði og innréttingu en HHR er byggður á hjólbotni Chevrolet Lumia og er eins og PT Cruiser framleiddur í Mexikó.

Rúmgóður, sterkur, lipur
Ýmsar minniháttar breytingar og endurbætur hafa verið gerðar á innréttingunni. Mest munar um nýja framstóla og aftursæti með 3ja punkta belti fyrir þrjá. Stólarnir eru efnismeiri, betur bólstraðir og með nýju áferðarfallegra áklæði auk þess sem fá má bílinn með vandaðri leðurklæðningu. Mælaborðinu hefur verið breytt með stærri mælum og afkastameiri blásturstúðum sem jafnframt er auðveldara að stilla. Útvarpstæki/diskspilari er nú ofar í miðju mælaborðinu sem eykur öryggi. Hægra megin á mælaborðinu er nú handfang til að auðvelda farþega að komast inn í og út úr bílnum. Hanskahólfið er talsvert stærra en áður. Stórir kortavasar eru í hurðaspjöldunum.

Á milli framstólanna er stokkur með armhvílu sem má renna til fram og aftur en undir er hirsla, m.a. fyrir diska, úttak fyrir farsíma (hleðsla) og haldari fyrir smámynt. Drykkjarhaldarar eru fyrir framstóla neðan við mælaborð og framan við stokkinn en aftan á honum fyrir þá sem sitja í aftursæti. Hljómflutningskerfið er með 368 vatta magnara, 6 hátalara ásamt hátíðnigjafa. Hátalarar í afturhurðum skila auknum bassa. Kerfið spilar MP3-diska. Varla þarf að taka það fram að allur venjulegur þægindabúnaður er boðinn með PT Cruiser.

Í árgerð 2006 er ný innrétting. Eins og um útlit PT Cruiser eru skiptar skoðanir um hvort innréttingin sé fallegri en sú sem var í fyrri kynslóð bílsins. Hvað sem því líður er þessi innrétting með þeim þægilegustu sem gerast.

Stólarnir eru þægilegir. Setuhæð þeirra og aftursætis er hæfileg þannig að sest er inn í bílinn en ekki niður í hann. Fyrir bragðið virkar bíllinn þægilegri og liprari. Rými er mjög gott, ekki síst fótarými bæði fram í og aftur í. Lofthæðin er meiri en í venjulegum fólksbílum og nýtist á fleiri en einn hátt til að skapa betra rými inni í bílnum.
Þaulhugsuð smáatriði í búnaði innréttingar og frágangi gera PT Cruiser að einstökum fjölskyldubíl. Speglar eru með lýsingu. Rofar fyrir afturrúðurnar eru ofar á miðjustokknum en áður og auk inniljóss eru kortaljós. Einfalt smáatriði sem sýnir vel útfærslu innréttingarinnar eru lítil úrtök á hliðum hillunnar yfir farangursrýminu þar sem hún nemur við aftursætisbakið - en þetta úrtak gerir litlum höndum kleift að komast að takkanum sem losar öryggislás sætisbaksins en það minnkar hættu á að börn geti lokast inni í bílnum við óhapp.

Auk rýmisins sem er áberandi þótt bíllinn sé hvorki stór né klossaður er hljóðeinangrun enn betri en í fyrirrennaranum (5 db minna hljóð á ferð). Í akstri er vind, vélar og veghljóð minna í þessum bíl en í sumum talsvert dýrari bílum. Aftursætið er tvískipt 35/65 og má taka hvorn hlutann úr bílnum með örfáum handtökum.

Leggur betur á
Ég fann að því á sínum tíma að eldri bíllinn hefði mátt leggja betur á. Endurbætur á stýrisbúnaði voru því fyrirsjáanlegar. Þótt þvermál snúningshrings sé nú einungis 30 sm minna (10,8 m) munar um það, ekki síst vegna þess að vökvastýrið hefur verið endurbætt með minni niðurgírun (16:1) sem þýðir að einungis þarf að snúa stýrinu 2,4 hringi botn í botn.

Vökvastýrið er með sérstaka álagsstýringu þannig að þrýstingur í kerfinu eykst sjálfvirkt þegar stýrinu er beitt í kyrrstöðu. Þetta atriði ásamt því hve hjólin eru nærri fram- og afturenda og því hve vel stýrið leggur nú á gerir nýja PT-Cruiser liprari borgarbíl en áður, t.d. er auðveldara að leggja honum í þröng stæði. Samanburðurinn við Toyota Corolla í þessu tilliti er athyglisverður.

Vandaður öryggisbúnaður
Við skoðun á undirvagni PT Cruiser dylst ekki að þessi bíll er sterkbyggðari en aðrir af sambærilegri stærð. Athygli vekur voldugur styrktarbiti þversum í botninum og sem gengur upp í dyrastafina. Langsum í sílsunum eru u-laga styrktarbitar og þversum innan í hurðunum miðjum eru einnig öryggisbitar. Til viðbótar þessari vörn gegn hliðarhöggi eru loftpúðar á ytri hliðum framstólanna. Fyrir framan ökumann og farþega í framsæti eru innbyggðir öryggisloftpúðar. Bílbeltin eru með innbyggðri skotstrekkingu/slökun. Fram- og afturstuðarar eiga að verja bílinn skemmdum og þola ákeyrslu á fasta fyrirstöðu á 8 km hraða án þess að láta á sjá.

PT Cruiser fær háar einkunnir (4-5 stjörnur fyrir áverkavernd) eftir ákeyrsluprófanir samkvæmt evrópskum og bandarískum öryggisstöðlum. Þá vekur sérstaka athygli hve vel er gengið frá festibúnaði fyrir barnabílstóla (ISOFIX) einnig hvernig umbúnaður afturdyranna er gerður með tilliti til þess að sem auðveldast sé að athafna sig við barn/bílstól. Þá er það ákveðið öryggisatriði að rúður renna sjálfvirkt upp og hurðir læsast þegar náð er ákveðnum hraða.

Góðar viðtökur gera það að verkum að Chrysler hefur ekki við að framleiða PT Cruiser. Keppinautar vilja eðlilega fá hluta af þessum markaði. GM setti fyrir skömmu á markaðinn Chevrolet HHR sem er í fljótu bragði nánast eftirlíking af Chrysler PT Cruiser.Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar