Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur.

Chrysler PT Cruiser:

Smart bíll með karakter


PT Cruiser frá Chrysler minnir dálítið í útliti á þennan dæmigerða ameríska ,,Hot Rod" og er einn þeirra bíla sem vekur sérstaka athygli. Eins og var með Citroën DS (,,strauboltann") hér áður fyrr skiptist fólk í 2 hópa - það ýmist fellur flatt fyrir honum eða fussar. Þegar þessi nýstárlegi bíll var kynntur í Bandaríkjunum þann 1. maí 2000 var engu líkara en að allir nýir bílar hefðu verið steyptir í sama mótinu um árabil og að markaðsmenn hjá Chrysler hafi ákveðið að höggva á hnútinn. PT Cruiser ásamt Prowler, sem líktist dálítið breska Lotus Seven, voru verk ungra hönnuða sem hafði verið gefinn laus taumurinn. Reyndar hefur framleiðslu Prowler, sem þótti of stílfærður til að ná að höfða til hins íhaldssama meirihluta, verið hætt. PT Cruiser, sem er hannaður af Bryan Nesbitt, hefur hins vegar selst betur í Bandaríkjunum en þá bjartsýnustu hjá Chrysler óraði fyrir. PT er skammstöfun á ,,Personal Transport".

Þegar ég prófaði fyrstu árgerðina af PT Cruiser, sem er 5 manna bíll framleiddur í einni af nýjustu og tæknivæddustu verksmiðjum Chrysler, Toluca í Mexíkó, vakti það athygli mína að hann flokkast sem ,,Truck" í Bandaríkjunum og skýringin sögð vera flutningsgeta bílsins. Þótt hún sé vissulega í sérflokki hefði ég giskað á að þyngd þessa sterkbyggða bíls (um 1600 kg óhlaðinn) hefði ráðið flokkuninni en svo er þó ekki. Flokkunin er samkvæmt reglum Flutningaráðuneytisins (DOT) og Umhverfisstofnunarinnar (EPA) og mun vera hluti af Mengunarvarnarlögum (Clean Air Act = CAA) og eiga að stuðla að framleiðslu á hagnýtari og sparneytnari bílum.

PT, sem upphaflega var hannaður sem ,,Light Truck" er með þverstæða vél og drifið á framhjólunum. Jafnvel þótt vélin teljist mjög stór 4ra sílindra vél (2,4 lítrar) var þessi þungi bíll af árgerð 2001 ekki beint líflegur. Uppgefið vélarafl var 150 hö en það hámarksafl skilaði sér ekki fyrr en við 5500 sn/mín. Og þótt rauða strikið á snúningsmælinum hafi verið við 6240 sn/mín er 5500 snúningshraði sem flestir bílstjórar, með reynslu eða tilfinningu fyrir bíl, forðast. Önnur ástæða þess að mér fannst fyrsti PT-Cruiser ekki nógu líflegur, a.m.k. ekki fyrir bíl sem minnir í útliti á ,,Hot Rod", var takmarkað tog vélarinnar. Hámarkstogið er 227 Nm við 4000 sn/mín, sem virðist í fljótu bragði vera nokkuð gott fyrir vél af þessari stærð en það er hins vegar álíka og þykir hæfilegt í 300 kg léttari bíl. Þá fannst mér stikunin í sjálfskiptingunni vera eins og einn gír vantaði og dró það úr snerpunni. Manni varð hugsað til 2,3ja lítra vélarinnar í Saab Turbo (225 hö og 342 Nm við 1800 sn/mín !!) - túrbóvél var það sem PT Cruiser vantaði.

Það sannast á fyrstu árgerðinni af PT að varðandi aflið verður ekki bæði haldið og sleppt. Sparneytnin var látin vega þyngra en vélaraflið enda er hún mælanleg í peningum.

Veruleg endurbót

Í árgerð 2003 hefur þessari tveggja kambása 16 ventla vél, sem er í staðalgerðinni, verið breytt. Endurbótin veldur því að 150 hestöflin skila sér 500 snúningum fyrr og maður finnur greinilega muninn. Sparneytni staðalvélarinnar er hins vegar sú sama og áður en PT kemur sérstaklega vel út hvað varðar vísitölurnar ,,bensíneyðsla/á slagrýmiseiningu" og ,,afl/kg eigin þyngdar". Allar 4ra sílindra vélar með 2ja lítra slagrými og meira ganga grófan lausagang, jafnvel með slætti. Chrysler og fleiri leysa þetta vandamál með jafnvægisás sem þýðir að vélin verður flóknari og dýrari í framleiðslu. Reynslan hefur sýnt að sé vélarrými ekki takmarkandi þáttur er hagkvæmara fyrir framleiðanda að fjölga sílindrum í 5 eða 6 (V6) til að leysa þetta vandamál.

Mesta endurbótin á PT Crusier af árgerð 2003 er þó fólgin í 215 ha turbóvél. Í stað þess að setja pústþjöppu við fyrstu 2,4ra lítra vélina hefur vélin verið endurhönnuð. Og eins og fyrri daginn segja hestöflin (215 við 4500 sn/mín) einungis hálfa söguna það er togið sem skiptir mestu máli: hvorki meira né minna en 343 Nm við 3600 sn/mín og það sem einnig skiptir máli er að strax við 2300 sn/mín er togið komið í 308 Nm! PT Turbo er lygilega skemmtilegur bíll í akstri og ólíkur flestum öðrum bílum - tilfinningin fyrir þyngd bílsins, stöðugleiki og góð hljóðeinangrun minnir einna helst á Benz þótt fjöðrunin sé með amerískan karakter.

PT Turbo er með sömu 4ra gíra sjálfskiptingu og Touring og Limited Edition en þó með sérstakan búnað sem nefnist ,,AutoStick" en með honum má velja að aka bílnum eins og hann væri beinskiptur en án kúplingar. Þessi búnaður gerir bílinn mun sprækari en PT Turbo er um 7 sek frá 0 í 100 km/klst.

Uppgefin meðalbensínnotkun (staðalvél) er 11,2 lítrar í borgarakstri en 8,7 á þjóðvegi.

Talandi um flutningsrými ....

Innréttingin og rýmið er afrakstur pælinga sem fram hafa farið hjá Chrysler allar götur síðan Voyager sló í gegn á miðjum 9. áratugnum. Byggingarlag PT Cruiser gerir hann að draumabíl barnafjölskyldunnar; ungt fólk með börn mun kunna vel að meta kosti bílsins. Vegna hæðar innra rýmisins er auðvelt og áreynslulaust að koma barni í bílstól og taka það úr stólnum; innréttingunni er auðvelt að breyta með tilliti til flutnings á búslóð, farangri, útivistarbúnaði, reiðhjólum eða reiðtygjum. Rýmið má aðlaga þörfum barna á öllum aldri og síðast en ekki síst er auðvelt að þrífa áklæðið.

Ég tók eftir því fyrir löngu að í skrifum um bíla virðist lítrafjöldi farangurs- og flutningsrýmis ekki segja lesendum ýkja mikið nema um samanburð væri að ræða á milli bíla. Flutningsrými PT (þegar tvískiptu afursætinu hefur verið kippt úr) er nærri jafn stórt í lítrum og 5 farangursrými í fólksbíl af meðalstærð samanlögð (nánar tiltekið 1812 lítrar). Farangurrýmið aftan við aftursætið er 538 lítrar sem er um 43% meira en farangursrými fólksbíls af meðalstærð. Það þarf ekki annað en að líta á bílinn til að sjá í hverju þetta liggur: Þótt hjóhafið sé 2,62 m og lengd bílsins 4,3 m (svipað og hjá Mazda 323) eru fram- og afturhjól áberandi framar og aftar en á flestum öðrum bílum.

Skinnklæðning í Limited Edition og Turbo.
Tauáklæði í Touring. Aftursætinu er einnig hægt að kippa úr, annað hvort að hluta eða öllu.

 

PT er stuttur miðað við innanrými (breiddin er 1,7 og hæðin 1,6) og stýrið er í léttara lagi og legggur vel á (11 metra snúningshringur). Maður situr hærra í þessum bíl en í flestum öðrum og með hnén beygð, útsýn er mjög góð, t.d. mjög stór afturrúða og góðir baksýnisspeglar. Þessi atriði, þegar þau koma saman, gera PT að sérlega liprum borgarbíl - líklega liprasta fólksbílnum miðað við rými.

Þá er ónefndur einn af stærstu kostum þessa bíls að mínu áliti - atriði sem mér finnst vera staðfesting á góðri og vel heppnaðri hönnun: Mjög stórvaxið fólk getur látið fara vel um sig undir stýri á PT; - það rekur ekki höfuðið í þakið, þarf ekki að aka hokið til að sjá út né þarf það að kúldrast með hökuna á hnjánum eða með hálft stýrishjólið nánast innvortis. Jafnvel stærsti rumur hefur ágætt olnbogarými. En þetta er bara hálf sagan því smávaxið fólk getur, með auðveldri stólfærslu og stillingum, einnig setið þægilega með góða útsýn undir stýri á PT. Of fáir bílar eru þessum kosti gæddir en hann er einn þeirra sem gamlir refir á meðal atvinnubílstjóra þekkja til og kunna vel að meta eins og 57 lítra bensíngeyminn.

Einhverjum kann að koma það spanskt fyrir sjónir að afturfjöðrun og afturhjólabúnaður hafi eitthvað með innra rými bíls að gera. Ég ætla ekki að fara út í flóknar skýringar á þessu atriði en bendi á að algengasta gerð afturfjöðrunar krefst hjólskála sem rúma hjól, gorm og dempara og að hjólskálar rýra næstum undantekningarlaust innra rými bíls. Í PT Cruiser hefur Chrysler leyst þetta vandamál með heilum burðarbita þvert á milli afturhjóla og snerilfjöðrun. Árangurinn sést m.a. á því að þegar ég mældi bilið á milli hjólskálanna inni í bílnum reyndist það vera 1016 mm. Fyrir þá sem eru að leita að hentugum bíl fyrir fyrirtæki, t.d. vegna sölu/kynningarstarfa eða þjónustu, bendi ég á að í PT Cruiser er rennislétt gólf í öllu flutningsrýminu sem, samkvæmt minni mælingu, er rúmlega 2,4 metrar miðað við lokaðan afturhlera. Dráttargetan er 500 kg.

Aksturseiginleikar

Mér kom á óvart að PT er líkari fólksbíl í akstri en fjölnotabíl (sem Kaninn kallar Minivan). Hins vegar finnst það í akstri að þetta er praktískur og sparneytinn fjölskyldubíll fremur en sportbíll. (PT Turbo er aftur á móti með sprækari fólksbílum). Heili afturöxullinn veldur því að afturfjöðrunin er fremur slagstutt sem gerir það að verkum að bíllinn hoppar dálítið að aftan þegar ekið er yfir ójöfnur. Með hjólin svo nærri fram- og afturenda bílsins er engin furða þótt rásfesta og stöðugleiki sé áberandi þegar ekið er beint af augum. Þyngd bílsins (1600 kg óhlaðinn) segir til sín þegar beygt er á ferð, annars vegar á malbiki sem ákveðin stefnutregða en á malarvegi með tilhneigingu til undirstýringar, jafnvel með hættu á hliðarskriði.

Í þessu efni skipta dekkin miklu meira máli en margur hyggur og oft eru aksturseiginleikar bíla afgreiddir með sleggjudómum vegna þess að þeir hafa verið prófaðir á dekkjum sem ekki henta þeim. Einungis idjót ætlast til þess að aksturseiginleikar bíls á malarvegi séu eðlilegir á hraðbrautardekkjum með lágan prófíl og hefur mörgum orðið hált á því á vegaröxlum með lausamöl. Við íslenskar aðstæður þarf PT-Cruiser, eins og fleiri bílar, belgmikil og mjúk radíaldekk með djúpu munstri.

Spurning um hugarfar

Líklega hefur Chrysler ætlað að höfða til yngra fólks með PT Cruiser og varla átt von á að hann myndi höfða jafn sterkt til allra aldurshópa og hann hefur gert. Í því efni hefur verið bent á VW-bjölluna sem hliðstæðu en þá gleymist að upphaflega höfðaði hún ekki sérstaklega til yngra fólks - það varð ekki fyrr en hún hafði verið rúm 20 ár á markaðnum og varð uppáhald hippanna. Toyota ætlaði að höfða sérstaklega til yngra fólks með RAV-jepplingnum. Hérlendis er RAV hins vegar orðinn áberandi ,,eldrafólks-bíll" sem ungt fólk fúlsar við - líklega vegna fordóma því það hefur löngum þótt gæðastimpill á hönnun bíls þyki eldra fólki hann eftirsóknarverður því þá er hann yfirleitt þægilegur fyrir alla.

Bílasalar þurfa væntanlega ekki að hafa áhyggjur af þessu varðandi PT Cruiser - verði kaupendur hans dregnir í dilka verður það eftir hugarfari frekar en aldri; ungir og síungir með sjálfstæðan stíl. En það er með þennan bíl eins og svo marga aðra vel heppnaða bíla að tilviljun mun ráða hvort hann nær að vekja þá athygli sem hann verðskuldar hérlendis. Þótt ráðist yrði í mikla og skipulagða markaðssókn myndi hún ekki svara kostnaði hér vegna smæðar markaðarins - af þeirri einföldu ástæðu að íslenskir kaupendur nýrra bíla eru fáir en skiptast samt í jafn marga flokka og hjá milljónaþjóðum.

Samandregið:

Mín niðurstaða er eftirfarandi: PT Cruiser er með praktískustu bílum en öfugt við það sem hefur viljað fylgja praktískum bílum er hann skemmtilegur í útliti og akstri. Eins og við er að búast af amerískum bíl er búnaðurinn mjög mikill, öryggið í sérflokki (ekki síst vegna þess hve bíllinn er efnismikill og þungur), innrétting og flutningsmöguleikar henta hvaða fjölskyldu sem er (jafnvel fyrirtæki); í PT er fallegra mælaborð, vandaðri stjórntæki og fallegri frágangur á innréttingu en maður hefur átt að venjast í amerískum bílum og verðið er lægra en ætla mætti fyrir svo verklegan bíl og munar í því efni um hátt gengi krónunnar gagnvart Dollar. Mæli sérstaklega með PT Turbo með sjálfskiptingu og 17" felgum því hæð frá vegi má ekki minni vera (uppgefin fríhæð 165 mm).

Netfang höfundar

Fleiri bílaprófanir

Til baka á forsíðu