Toyota Prius tvinnbíll
----------------------------------------

Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur:


Talsvert hefur verið spurt um ýmislegt sem varðar tvinnbílinn Prius frá Toyota enda hækkar eldsneyti stöðugt í verði. Hér er reynt að svara algengustu spurningunum auk þess sem ýmis tækniatriði eru borin saman hjá Prius og Avensis.

Hvernig hefur Prius reynst?
Hann hefur reynst vel. Prius er algengasti tvinnbíllinn í Bandaríkjunum en þar eru um ein milljón þeirra í notkun . Samkvæmt gæðakönnun J.D.Power eru Prius-eigendur með ánægðustu bíleigendum í Bandaríkjunum og í Frakklandi. Bilanatíðnin er lág. Þjónusta er ekki flóknari né dýrari en gengur með hefðbundna bíla og fylgir sömu km-tölu á ábyrgðartímanum.

Toyota Avensis 2010 Toyota Prius 2010

Um verksmiðjuábyrgð
Fyrsta kynslóð Prius (árgerð 1997 til og með 2002) er með 8 ára/150 þús. km. ábyrgð á rafdrifsbúnaðinum. 2. kynslóðin (árgerð 2003 til og með 2008) er með 5 ára ábyrgð á öllum hlutum bílsins og sama gildir um þann nýjasta, 3. kynslóð, árgerð 2009 og áfram.

Er ábyrgð á Prius sértæk?
Nei. Ábyrgð er með sömu stöðluðu skilmálum og reglum Toyota. Viðhald og eftirlit á ábyrgðartíma Prius skal fylgja sömu reglum og gilda um aðra nýja og notaða Toyota-bíla.

Hvað kostar drifgeymir fyrir Prius?
Nú í mars 2010 kostar nýr háspennurafgeymir um 470 þús. kr. Á E-bay uppboðsmarkaði hafa verið boðnir notaðir háspennugeymar fyrir 500 dollara og upp úr. Í tvinnbílnum Prius eru NiMH-rafhlöður (nikkel-málm-hýdríð) sem endast mun lengur en NiCd-rafhlöður eins og eru í rafbílum. Toyota miðar við að ending Prius sé að jafnaði 290 þús. km eða 10 ár og að NiMH-einingin endist jafn lengi. Reynslan í Bandaríkjunum, en þar er Prius mest seldi tvinnbíllinn, er að einungis um 1% rafgeyma 1. kynslóðar Prius entist ekki út 8 ára ábyrgðartímann en það samsvarar því að bilun í rafgeymum sé einungis í einum af hverjum 40 þúsund bílum (sjá www.priusChat.com). Talsvert framboð er af notuðum geymum því þeir eru aftast undir bílnum og vel varðir þannig að þótt bíll skemmist í umferðaróhappi eru geymarnir oftast heilir.

Kaup á notuðum Prius?
Eins og fram kemur í meðfylgjandi töflu er Prius ekki ódýr bíll. Sala hans fór hægt af stað en jókst eftir því sem fleiri uppgötvuðu að hann er ekkert frábrugðinn hefðbundnum fólksbílum í akstri nema sparneytnari. Nú hefur Prius verið 10 ár á bandaríska markaðnum og unnið sér þar traustan sess (fá hann færri en vilja). Sala á notuðum Prius hefur smám saman orðið eins og á öðrum notuðum bílum. Sama ætti að verða uppi á teningnum hérlendis.

Hleðslubúnaður
Prius er knúinn venjulegri bensínvél og tveim rafmótorum. Sjálfvirkur búnaður skiptir á milli vélar- og rafdrifs án þess að það finnist í akstri. Vélin hleður rafgeymana auk þess sem krafti, sem myndast við hemlun, er breytt í rafhleðslu. Með þessu móti þarf minna eldsneyti til að knýja bílinn. Stilla má á rafdrif eingöngu með hnappi. Árgerð 2010 er fyrsti Prius sem er þannig útbúinn að hlaða má rafgeymana með því að tengja þá húslögn.
Hjá Háskólanum á Akureyri mun eldri Prius hafa verið breytt fyrir hleðslu frá húslögn.

Er meðaleyðslan 3,8 lítrar?
Uppgefnar eyðslutölur samkvæmt staðalmælingu (EC-mæling) ber að líta á sem viðmiðunargrundvöll frekar en raunverulega eyðslu sem fer eftir aksturslagi hvers og eins. Samkvæmt reynslu Prius-eigenda (sjá www.PriusChat.com og www.hybridcars.com) virðist mega reikna með 30% meiri eyðslu, þ.e. 4,94 lítrum að meðaltali á hundraðið. Reynist það rétt er sparneytni þessa tiltölulega stóra bíls athyglisverð. Samanburður við Toyota Avensis segir einnig töluvert (tafla).

Kostir - ókostir
Sparneytni Prius orkar ekki tvímælis og er umhverfisvernd í sjálfri sér. Losun koldíoxíðs er mun minni en frá bíl með hefðbundnum vélbúnaði (tafla). Prius telst umhverfisvænn bíll og þarf því ekki að greiða bílastæðagjöld í Reykjavík og ef til vill víðar. Prius er ekki ódýr bíll. Fyrir suma er það ókostur að drifbúnaður Prius er ekki gerður fyrir kerrudrátt og fæst bíllinn því ekki með dráttarbúnaði.

Fleiri greinar um bíltækni

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar