Mín skoðun

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar

Mín skoðun:

24. október 2011
Leó M. Jónsson:

Ég á fátt sameiginlegt með Samfylkingarfólki og, ef út í það er farið, nokkrum öðrum stjórnmálaflokki: Hef alla tíð haft andstyggð á íslenskri pólitík sem ég hef aldrei getað skilið öðru vísi en samkeppni um heimsku. En ég er sammála þeim Samfylkingarmönnum sem telja hag Íslands best borgið innan Efnahagsbandalagsins þótt mín rök fyrir aðild séu allt önnur en þeirra (og allt önnur en erlendra fræðimanna og hagfræðinga sem þekkja ekki félagslegu hliðina á þessu ,,föðurlandi öfundarinnar"). Ég þekki nokkuð vel til í Belgíu og Frakklandi og hef starfað með þarlendum og fólki frá löndum EB og Evrópu. Sé frátalið fólk frá fyrrum leppríkjum Rússa, hefur sérfræðimenntað fólk næstum undantekningarlaust betri kjör en við Íslendingar (að teknu tilliti til skattgreiðslna), menntun þess og hæfileikar tryggja því möguleika á atvinnumarkaði og það býr við meira félagslegt öryggi en hér tíðkast.
Íslenskt þjóðfélag er enn gegnsýrt af spillingu: Ein birtingarmynd hennar eru þau afgerandi áhrif sem frændsemi, ættartengsl og klíkuskapur hefur haft og hefur enn á möguleika fólks til að njóta menntunar og hæfileika sinna á sviðum atvinnu- og þjóðlífs. Hér stafar almenningi ógn af spilltu réttar- og dómskerfi; - það getur ráðist af ættartengslum hvernig lög eru túlkuð. Með örfáum undantekningum hafa einstaklingar eða samtök þeirra tapað sóttum réttindamálum á hendur ríkinu fyrir Hæstarétti, - ekki á grundvelli gildandi laga heldur vegna túlkunar meirihluta hæstaréttardómara á gildandi (óljósum) lögum. Með inngöngu Íslands í EB mun skapast fyrsta umtalsverða réttarbót almennings frá stofnun lýðveldisins. Dómarar, sem ekkert tillit taka til þess af hvaða ætt málsaðilar eru eða hvaða klíku þeir kunna að tilheyra, munu fella úrskurð sinn á grundvelli laganna sjálfra.
Með aðild okkar að EB mun Alþingi ekki komast upp með að hnoða saman lögum sem jafnvel brjóta í bága við stjórnarskrá, lögum sem brjóta gegn almennum mannréttindum eða lögum sem sérstaklega eru höfð óljóst orðuð þannig að gjörspillt embættismannakerfi geti hunsað þau eftir hentugleikum eða gert þau gagnslaus með ,,túlkun." (Lög skulu vera ótvíræð og þeim skal vera hægt að fylgja eftir með aðför að lögum).

Aðild að EB mun smám saman stöðva þann umfangsmikla atgervisflótta sem staðið hefur látlaust í hálfa öld vegna klíkuskapar við ráðningu á öllum sviðum.
Þessi atgervisflótti hefur reynst þjóðinni dýrari en allar kreppur samanlagðar sl. 50 ár; hann hefur stuðlað að rányrkju náttúruauðlinda, haldið niðri verðmætasköpun, hlaðið upp stjórnkerfi þar sem lykilstöður eru mannaðar undirmálsfólki og gert það m.a. að verkum að nú sitjum við uppi með Alþingi þéttskipað hálfvitum. Aðild að EB mun gera það að verkum að ráðningar, eins og nú síðast að Bankasýslu ríkisins, mun ekki þýða að reyna auk þess sem ríkisborgarar annarra EB-landa munu geta sótt um störf og stöður jafnt hjá fyrirtækjum sem hinu opinbera á Íslandi.

Aðild að EB mun gera það að verkum að eðlilegur aðgangur mun verða tryggður að auðlindum þjóðarinnar en ekki einskorðaður við hagsmunahópa og klíkuskap kvótagreifa. Á embættismenn EB mun ekki duga nein bætiflákalygi um að umgegni íslenskra útgerða um auðlindina í sjónum sé, eða hafi verið til fyrirmyndar enda hefur afli rýrnað, í tonnum talið, hvert ár síðan við öðluðumst fullan umráðarétt yfir fiskimiðunum! (sem mig grunar að nú þegar sé búið að stela af þjóðinni eins og fleiru ...). Erlendir fræðimenn vita nánast ekki neitt um þessar skuggahliðar íslensks þjóðfélags og því skyldum við taka aðvörunum þeirra um að EB muni gleypa okkur með fyrirvara - það er örugglega skárri kostur en áframhaldandi íslenskt lénsskipulag á 21. öld.

18. október 2011
Leó M. Jónsson:
Undanfarna 2 mánuði hafa staðið miklar umræður um verðtryggingu lána, þ.e. hvort hún sé verjandi en sumt fólk, sem átti skuldlausan hluta í eignum fyrir 4-5 árum, situr nú uppi með skuldir sem nema 40-50% af söluverði fasteignar vegna verðtryggingar. Þeir sem öskra hæst krefjast afnáms verðtryggingar, m.a. gerði núverandi forsætisráðherra það þegar hún var í stjórnarandstöðu og gat bullað ábyrgðarlaust (sem hún gerir reyndar enn). Í ágúst 2007 var einbýlishús í Garðabæ selt á 67 millónir króna. Þá var gengi evrunnar 93 kr. Fyrir húsið fengust því 720 þúsund evrur. 4 árum seinna, í ágúst 201,1 hefur gengi evrunnar hækkað úr 93 í 164 kr. Það þýðir að einbýlishúsið hefur lækkað í verði sem nemur 312 þús. evrum, úr 720 í 408 þús. evrur. En ekki nóg með það: Samkvæmt útreikningum sérfræðinga við HÍ (Ársæll Valfells o.fl.) hefur meðalfasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkað um 33% á sl. 4 árum (að raunvirði). Það þýðir að fyrir einbýlishúsið sem keypt var á 720 þús. evrur fengist ekki nema 307 þús. evrur nú. Raunvirði hússins hefur minnkað um 57,4% á 4 árum; - verðgildi þess hefur minnkað úr 67 mkr ísl.í 50,4 m. ísl. kr. eða um 57,4%. Hefði söluverðið verið greitt með óverðtryggðu láni fyrir 4 árum með veði í húsinu má ljóst vera að sá sem lánaði til kaupanna hefur tapað tugum milljóna króna. Og þá er ekki úr vegi að spyrja: Hver á að bera það tap? Sá sem lánaði eða sá sem tók lánið? Svari nú hver fyrir sig! (Ath. að með því að ákveðnum rökum mætti sýna að verðgildi hússins hafi rýrnað enn meira, jafnvel um 75%, talið í evrum!).

11. október 2011
Leó M. Jónsson:
Ég ætla ekki að kaupa metanbreytingu í bílinn minn. Ástæðurnar eru margar. Þótt bíllinn minn sé miðlungsstór bandarískur fólksbíll og vegi tæp 1800 kg er hann tæknilega mjög vel úr garði gerður og eyðir 9-11 lítrum (það samsvarar 4-5 lítra eyðslu smádósar). Ég bý á Reykjanesskaganum og hef ekki aðgang að metangasi. Frá því bensínið hækkaði umfram 200 kr. lítrinn hef ég endurskipulagt allan akstur heimilisins. Útgjöld vegna eldsneytiskaupa eru 12% minni í krónum talið heldur en fyrir 3 árum. Ég er þeirrar skoðunar að sá metanbúnaður sem verið sé að selja fólki á okurverði sé tæknilega úreltur (hann byggir á um 60 ára gamalli tækni). Ég er jafnframt þeirrar skoðunar að metangas eigi einungis eftir að hækka í verði og geti ekki keppt við aðrar gastegundir, t.d. gas framleitt úr húsdýraskít eða lífmassa. Rökin fyrir því eru að N1, sem nú einokar framleiðslu og dreifingu, varð nýlega gjaldþrota. Við endurreisn þess, með strandkafteininn áfram við stýrið, þurftu lánardrottnar að afskrifa 4000 milljónir króna af skuldum þess. Forstjóri N1 er þegar byrjaður að jarma um of háan kostnað við framleiðslu á metangasi (síðast á Bylgjunni í morgun). Að öllu þessu samanlögðu sé ég ekki nokkurn möguleika á því að láta metanbreytingu (sem er okrað á) borga sig upp. Og til að skýra frekar það sem ég segi um úreltan metan-búnaðinn bendi ég fólki á að kynna sér það sem er að gerast í ,,gasmálum" á heimsvísu, m.a. með fljótandi jarðgasi sem eldsneyti en með þeirri tækni (ofurkælingu gass) eykst drægni bíls á einni hleðslu úr 200 km í 1200 og metanstöðvar, eins og þær tvær sem hér eru, eru þegar úreltar. www.lngjournal.com/

9. október 2011
Leó M. Jónsson:
Spaugstofan er löngu búin að vera. Hún er ekki vitund fyndin frekar en hálftíma kyrrmynd af borgarstjóra Reykjavíkur. Ég skil ekki hvers vegna ágætir leikarar eru að niðurlægja sig vikulega með hallærislegum bjánagangi og aulabröndurum. Getur verið að enginn hafi þorað að gagnrýna Spaugstofuna, misheppnaðan grínþátt sem dagað hefur uppi og er, ranglega" auglýstur sem vinsælasti þáttur í sjónvarpi fyrr og síðar. Ef til vill hefur hann mælst með mikið áhorf einhvern tímann en örugglega ekki lengur: Landinn er ekki svo skyni skroppinn, þrátt fyrir fjárhagsleg áföll, að hann geti haft gaman af því að horfa upp á góða leikara gera sig að fíflum í verkefni sem þeir ráða ekki við - löngu útbrunnir og uppiskroppa með nothæfar hugmyndir. Í guðs bænum losið okkur við þetta hneyksli sem Spaugstofan er orðin að !

8. október 2011
Leó M. Jónsson:
Gjaldeyrishöft? Ætli margir geri sér grein fyrir því hvaða áhrif takmarkanir á gjaldeyrisyfirfærslu hafa á venjulegt fólk? Til hvers voru settar hömlur á millifærslu fjár úr íslenskum krónum í erlenda gjaldmiðla. Hvernig stendur á því að venjulegur Jón fær ekki keyptar 300 danskar krónur til að senda dóttur sinni, sem býr í Danmörku, í afmælisgjöf? en á sama tíma getur hver sem hefur krítarkort keypt það sem honum sýnist erlendis? Þessi mismunun er dæmigerð fyrir þá hentistefnu sem stjórnmálastéttin hefur tamið sér. (Það nýjasta er launahækkun til þingmanna á dögunum - sem þeir ,,slysuðust" til að samþykkja, nýbúnir að þverneita að endurskoða laun lögreglumanna). Um 10 þúsund manns hafa flúið land og fengið vinnu erlendis. Það samsvarar því að Akureyri stæði yfirgefin og hvert hús tæmt. Það gefur augaleið að flóttafólkið á húseignir hér heima sem kæmi því vel að geta notað erlendis. Það getur flutt með sér búslóðina en vegna gjaldeyrishaftanna getur það ekki selt húseign og fengið peningana yfirfærða. Gjaldeyrishöftin eru því átthagafjötrar, m.a. sett til að gera fólki erfiðara fyrir að yfirgefa ,,sæluna." Eins og með fleiri ráðstafanir íslenskra stjórnvalda standast þær áreiðanlega ekki ýmsa mannréttindasáttmála sem þau hafa undirgengist í trausti þess að þurfa ekki að virða, samanber valdnýðsluna gagnvart trillusjómönnum sem unnið hafa mál fyrir alþjóðlegum dómstóli gegn ríkinu en samt ekki fengið leiðréttingu sinna mála. Ráðherrar geta ekkert gert í málunum vegna þess að þeir ráða ekki við heimaríka embættismenn sem kæra sig kollótta. Þegar við erum gengin í Efnahagsbandalagið fær íslenskur almenningur sjálfkrafa vernd gegn valdnýðslu og misneytingu embættismanna. EB-aðild verður því einhver mesta réttarbót íslandssögunnar. Þá verður ekki hægt að dæma fólk fyrir morð án þess að fyrirliggjandi séu 3 meginatriði sakfellingar; lík, vopn eða sönnunargögn!

7. október 2011
Leó M. Jónsson:
Ég hitti gamlan starfsfélaga í flugstöð erlendis og við tókum tal saman. Eins og oft vill verða beindust samræðurnar að bílamálum. Hann rakti fyrir mér raunir sínar af rekstri VW Touareg sl. 5 ár. Ég hef fengið ýmsar fyrirspurnir undanfarin ár frá eigendum Touareg, aðallega vegna okurs á varahlutum, en hafði hins vegar engar traustar heimildir fyrir því að þessir jeppar væru jafn miklir vandræðagripir og þessi verkfræðingur taldi eftir 5 ára reynslu. Eins og oft vill vera þegar lélegir bílar eiga í hlut er reynslan af þeim æði misjöfn milli eigenda, sumir sleppa betur frá draslinu en aðrir. Annað sem einkennir illa smíðaða bíla er skipulegt viðnám framleiðanda gegn samþykkt krafna vegna galla. Beitt er ýmsum þekktum brögðum sem ,,claim-sérfræðingar" framleðenda kunna. Sé viðkomandi bílaumboð ekki með menn á sínum snærum sem gjörþekkja ,,kleim-kerfin" er eins víst að illa fari (stjórnendur umboða hafa yfirleitt enga þekkingu á þessum málum). Vandaræða-bílar á borð við VW Touareg eru martröð bílaumboðs og oftar en ekki rústa slíkir gallagripir orstír þess. Vandræðin, sem skapaast hjá slíku bílaumboði, geta haft skelfilegar afleiðingar; annars vegar er þjónustudeild/verkstæði sem gefist hefur upp á óleysanlegum tæknilegum vandamálum, ,,kleim-deild" sem fær engar úrlausnir hjá framleiðanda á sama tíma og aðrar deildir umboðsins eru í því frá morgni til kvölds að slökkva elda (kvartanir og hótanir frá foxillum eigendum). Til viðbótar má nefna yfirtöku banka á fyrirtækinu eftir gjaldþrotameðferð með tilheyrandi okri á varahlutum og þjónustu. Fyrir starfsfólk umboðsins verður þetta að einni samfelldri martröð frá morgni til kvölds og fólk brynjar sig með ,,ég vinn bara hérna."

Þegar heim kom fór ég að skoða VW Touareg-mál á Netinu
(gúgglaði gripinn). Þá kom í ljós að félagi minn, verkfræðingurinn, hafði ekki farið með neitt fleypur. Aðrar eins lýsingar erlendra eigenda á vandræðum, bilunum, vondri þjónustu, okri og óánægju kaupenda man ég ekki eftir að hafa séð lengi nema ef til vill frá ,,brjáluðum" amerískum eigendum Audi.

3. október 2011
Leó M. Jónsson:
Jæja, þá hefur ríkisstjórnin tekið til við skattahækkanir á nýjan leik. Beitt er þeirri tækni að bíta í hvað sem að kjafti kemur og dulbúa endurtekna skattheimtu með nýjum nöfnum til að láta líta út eins og vinnubrögðin væru vönduð. Boðuð 5% hækkun á bensíngjaldi þýðir að útsöluverð bensíns ætti að hækka um 4-5 kr. (eða um 1,17 %). En eins víst er að olíufélögin, sem enn stunda samráðið enda öll að selja sama bensínið, noti nú tækifærið eins og fyrri daginn og hækki sinn hlut, sem mun vera 127-130 kr (innkaupsverð, flutningur og álagning) um leið þrátt fyrir lækkandi heimsmarkaðsverð - sem alltaf má ljúga sig út úr. Þegar ríkisstjórnin ákveður að hækka skattlagningu bensíns gerir hún það vitandi að afleiðingin verður minni bensínsala. Þeir sem geta minnka notkun bílsins. Byrðin lendir því á barnafólki og þeim sem ekki hafa efni á að búa í Reykjavík en þurfa bíl til að komast til og frá vinnu. Ríkisstjórninni, sem kallaði sig ,,norræna velferðarstjórn" (svei henni) er skítsama um þetta fólk og skítsama þótt skatttekjur af bensíni minnki - það sem hún er á eftir er að hækka vísitölur þannig að skuldir almennings hækki enn meir (með verðbótum) en bensínverð er inni í vísitölum og mokar þannig alls konar auknum gjöldum til ríkis og sveitarfélaga (þess vegna vilja þessar ,,velferðarhetjur með vitið í afturendanum" ekki afnema verðtryggingu af lánum - heldur af ellilaunum!

Og nú hefur ríkisstjórnin boðað að steinolía skuli vera gjaldskyld. Þar með munu stærstu jepparnir hverfa úr umferð á nokkrum misserum - því metanbreyting hefur þegar verið okruð út af markaðnum - og eins víst að verð á metangasi mun ekkert nema hækka. Þessi eignaupptaka hjá eigendum stærri jeppa mun vera alveg sérstaklega kærkomin hjá kommunum og umhverfisfasistum (það eru þeir sem læðast í erlend sendiráð og biðja um þvingunaraðgerðir gegn eigin þjóð svo sem gagnvart löglegum hvalveiðum en ég er þeirrar skoðunar að þá andskota eigi að draga fyrir dóm og kæra fyrir landráð). Að uppræta þá jeppamenningu sem hér hefur þróast,vakið hefur verðskuldaða athygli erlendis, eflt innlenda tækniþekkingu og aflað gjaldeyris með jeppaferðum fyrir ferðamenn og útflutningi breyttra jeppa, er alveg dæmigert fyrir stjórnina; hún leggur sína dauðu hönd á allt sem heitir framfarir. Svona ríkisstjórn gæti lagt heilu sólkerfin í eyði ..

1. október 2011
Leó M. Jónsson:
Frá stofnun, 1997/1998, hefur Vefsíðu Leós verið skráð með heimili og varnarþing í Bandaríkjunum. Ástæður eru margar en ein þeirra er lægri kostnaður. Helsti ókosturinn er auðvitað com-lénið, án þess að ég hafi einhverja mælingu að styðjast við, en giska á að ókosturinn hafi farið þverrandi nú síðari árin. En óprúttnir náungar eru alls staðar, - einnig í Bandaríkjunum sem gjarnan monta sig af drífandi afli óheftrar samkeppni. Upphaflega keypti ég þjónustu vegna vefsíðunnar af einu bandarísku fyrirtæki. Allt í einu, og án míns samþykkis, eru þessi þjónustufyrirtæki orðin tvö og árlegur kostnaður nærri tvöfaldur. Þegar ég leita skýringa á þessu rignir yfir mig alls konar yfirlýsingum um aukna þjónustu (sem ég hef enga þörf fyrir). Þegar ég krefst skýringa á ,,innrás" þessa seinna fyrirtækis fæ ég loks að vita að upphaflega fyrirtækið hafi verið selt því síðara og þannig sé þetta til komið! Í framhaldi ákvað ég að segja upp samningi um þessa þjónustu þrátt fyrir að hafa greitt fyrir hana nokkur ár fram í tímann og án þess að eiga rétt á endurgreiðslu. Þá tók við 3ja vikna látlaus bardagi við útpælt þvælukerfi þessara tveggja fyrirtækja. Ekki vantaði að vefsíður þeirra væru flottar og fullar af alls konar tilboðum. En að fá einhver vitræn viðbrögð - hvað þá aðgerðir, þegar um var að ræða uppsögn þjónustunnar, virtist vera gjörsamlega ómögulegt. Ótal starfsmenn melduðu sig sem fulltrúar og til þjónustu reiðubúna en þegar til kastanna kom gátu þeir ekki afgreitt málið; hvorki netleiðis né símleiðis. Ég þóttist sjá að allt væri þetta fyrirfram skipulagt; - þreyta átti viðskiptavininn þar til hann gæfist upp á að reyna að sleppa úr ,,mjaltavélinni." En Það er alríkisstofnun í Bandaríkjunum sem hefur eftirlit með Net-refum og eftir að hafa kært þetta lið til hennar varð handagangur í öskjunni; mér tókst að flytja skráningu og vistun yfir til nýs fyrirtækis sem veitir alla þjónustu á einni hendi fyrir mun lægri þóknun og með samskiptakerfi sem ég hef þegar prófað og sannfærst um að virki. Samt er ég ekki alveg laus við græðgis-hálfvitana því nú þykjast þeir ekki geta afskráð sjálfvirka framlengingu á samstarfssamningi í lok gildistíma nema með flóknu samspili gagnkvæmra skjáboða og símtals (lóðið virðist vera að komast hjá því að ég fái einhverja skriflega niðurstöðu). Við skulum nú sjá hver viðbrögðin verða þegar ég hef kært þetta bandaríska fyrirtækið til VISA International.

30. september 2011 (B)
Leó M. Jónsson:
FIGIEFA er skammstöfun á International Ferderation of Automotive Aftermarket Distributors (alþjóðleg samtök framleiðenda og dreifara bílavarahluta). Þessi samtök eru í Brussel í Belgíu. http://www.figiefa.org Þau standa m.a. fyrir útgáfu, fundum og ráðstefnum um hin ýmsu mál sem snerta bílaiðnað og tengd viðskipti. Meðlimir hafa auk þess aðgang að fjölbreyttu gagnasafni með niðurstöðum hagfræðilegra kannana á ýmsu efni varðandi viðskipti með bíla, tengdar vörur og þjónustu. Í framhaldi af fundi í París á þessu ári, þar sem fjallað var um áhrif sparnaðar (niðurskurðar) á hönnun og gæði bíla, spunnust líflegar orðræður á veitingahúsi á milli þekktra manna í ,,bransanum" um þróun hugtaksins ,,gæð.i" Það kom undirrituðum ekki á óvart að kunnáttumenn í faginu voru sammála um að ISO-gæðavottun hefði ekkert með hefðbundin gæði bíla að gera - þeir bentu jafnvel á hið gagnstæða - rauður þráður í svokallaðri gæðavottun væri aukið ,,fóður" fyrir svokallaða ,,pappírstígra" (væntanlega blýantsnagara ... á okkar ylhýra). Annað umræðuefni sem varð líflegt og gaman að hlusta á var hugtakið ,,Glæsilegt drasl" á ensku Elegant piece of junk. Nefnd voru nokkur fræg dæmi studd rökum svo sem af Jaguar frá því á 8. og 9. áratugnum en þar var eitt af mörgum gæðavandamálum nýir bílar sem ekki tókst að gangsetja og því ekki hægt að afhenda nýjum kaupanda! - en þá er almennt talið að botninum sé náð.(20 árum seinna var Jaguar á meðal þeirra nýju bíla sem lægsta bilanatíðni höfðu í Bandaríkjunum, að mati JD.Power, og er afrek sem of lítill gaumur er gefinn). Þegar framleiðandi missir tökin á gæðamálunum liggur að baki flókinn samtvinnaður vefur alvarlegra stjórnunar-mistaka á efstu hæðum valdapíramítans. Merkilegt er að viðbrögð stjórnenda hafa ýmsa sameiginlega þætti, m.a. þá að auka áherslu á glæsilegt útlit bíla og íburðarmiklar auglýsingar. Jaguar, Renault, Benz, Nissan, VW og Chrysler eru allir dæmi um framleiðendur sem hafa fetað þennan stíg til hruns og enduruppbyggingar. Ég hef bent á (í Brotajárni 39/40) að Audi sé komið á þessa braut, þ.e. sé nú, 2010/2011 að framleiða ,,glæsilegt drasl." Hvernig skyldi það enda?

30. september 2011 (A)
Leó M. Jónsson:
Ég reyni að svara öllum fyrirspurnum um bílamál sem beint er til mín. Einungis fáar birtast í vikulegum pistlum í sérblaði Mbl. Finni. Ástæðan er einfaldlega sú að rýmið þar er knappt og sum mál er ekki hægt að afgreiða í örstuttu máli. Ég hef mælst til þess að fyrirspurnum sé beint til mín með netpósti frekar en símleiðis. Þótt flest heimili hafi aðgang að Netinu eru á því undantekningar og hef ég fullan skilning á því. Það er ekki af einhverjum óliðlegheitum sem ég tel netpóstinn æskilegri en símtal: Ég er ekki alltaf við tölvuna en í henni eru alls konar gögn sem ég styðst við. Sumt man ég hreinlega ekki og því er hætt við að upplýsingar, veittar símleiðis, séu ekki eins áreiðanlegar og þær sem fást frá mér með netpósti. Dæmi: Spyrjandi er í vandræðum með LandCruiser Diesel 1999 sem vill ekki í gang heitur. Ég man ekki hvenær forðagreinin (Common rail) tók við af tölvustýrða olíuverkinu - en það skiptir höfuðmáli við greiningu á svona bilun. Hins vegar tekur mig enga stund að fá það á skjáinn.

15. september 2011
Leó M. Jónsson:
Maður er orðinn vanur subbuskapnum í kringum gjörspillta stjórnmálastéttina og lífeyrissjóðina og hættur að kippa sér upp við ,,smámuni." En samt ofbýður manni þegar saman fer í einum mánuði 5 stórhneyksli sem virðast ætla að takast að þagga niður:

Sjálfur forsætisráðherrann er uppvís að lygum í sambandi við skuldastöðu heimilanna. Hún virðist ætla að komast frá því máli með því að einfaldlega halda kjafti. Formaður samtaka skuldara hefur fært rök fyrir lygum forsætisráðherrans með grein í dagblaði (Fréttablaðið 13.09.2011. bls. 18, ,,Ósannindi forsætisráðherra," Guðmundur Andri Skúlason talsmaður samtaka lánþega.)

Fjármálaráðherrann er, í greinaflokki í Morgunblaðinu, sakaður um að hafa vísvitandi spillt fyrir atvinnuþróun á Suðurnesjum með því að beita áhrifum sínum í samningum við Magna Energi sem leiddu til þess að framkvæmdir stöðvuðust við álver á Suðurnesjum. Fjármálaráðherrann mun komast upp með þessi bellibrögð með því einu að halda kjafti.

Illugi Gunnarsson hefur fengið ,,pantaða" uppreisn æru og fer aftur inn á þing eftir að hafa virkað sem skósveinn ,,stórmenna" við skítverk í sambandi við Peningamarkaðssjóð 9 sem starfaði undir hatti Glitnis að hluta. Lögmannsstofa var fengin til að skoða málið. Niðurstaða: "Miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir og raktar eru hér að framan í kafla I er ekki sjáanlegt að neitt hafi verið athugavert við fjárfestingarheimildir, fjárfestingastefnu eða samsetningu eigna Sjóðs 9 miðað við þágildandi lög og reglur." Þar með er Illugi hvítþveginn og getur skriðið inn á þing (þar sem hann nýtur friðhelgi - ha ?) og það þrátt fyrir að málið sé eftir sem áður til skoðunar hjá Sérstökum saksóknara! Og nú kemur bankaleyndin að góðu gagni því auðvitað grunar venjulegt fólk að milljarðarnir sem greiddir voru úr ríkissjóði, 10 mínútum fyrir hrunið 2008, hafi bjargað eignum útvalinna!

Þórunn Sveinbjarnardóttir sagði af sér þingmennsku um mánaðamótin ágúst/sept. Hún hafði þegar innritað sig í nám í Háskólanum, en það hafði hún þurft að gera í vor - eins og aðrir nemendur! Hvers vegna valdi hún að bíða með að segja af sér þingmennsku þar til í haust? Skýringin er sú að samkvæmt samlegðarreglu öðlaðist Þórunn ekki rétt til 500 þús. kr. mánaðarlegrar greiðslu úr lífeyrissjóði þingmanna/ráðherra fyrr en í haust. Þannig fær þessi þingmaður og fyrrum ráðherra starfslokasamning upp á 500 þús. á mánuði í 6 mánuði plús 500 þús. úr lífeyrissjóði mánaðarlega. Þannig veltir vinstri manneskjan og lýðræðissinninn Þórunn Sveinbjarnardóttir sér upp úr vilpu spillingarinnar á kostnað almennings. Er ekki eitthvað bogið við þessi ,,réttindi"?

Almennir launþegar töpuðu milljörðum á gjaldþroti N1 þar sem lífeyrissjóðir neyddust til að afskrifa 4 milljarða af hlutafé sínu. Því rekur mann í rogastans þegar maður les á Netinu að sömu lífeyrissjóðir í nafni Framtakssjóðs undir forystu Finnboga Jónssonar hafi keypt nýtt hlutafé í endurreistu N1fyrir milljarða! Frá mínum bæjardyrum séð virðist þetta gert (á kostnað lífeyrisþega) til þess eins að koma Finnboga í stjórnunarstöðu hjá þessari rúst sem N1 er. Sér fólk ekki fyrir sér fréttirnar í fjölmiðlum eftir 4-5 ár þegar næst þarf að afskrifa hlutafé í N1 fyrir milljarða, vegna fjárausturs í ýmsar áttir (botnlausar hítar) á kostnað lífeyrissjóða?

24 ágúst 2011
Leó M. Jónsson:
Á blaðsíðu 11 í Financial Times í gær (23. ágúst) er frétt sem boðar merkilega og örlagaríka breytingu fyrir alþjóðlega bílaiðnaðinn í nánustu framtíð. Þar segir að Kínverjar ætli að breyta stefnu í þróun bíla - þeir hafi ákveðið að hætta að leggja sérstaka áherslu á þróun og framleiðslu rafbíla. Ekki get ég sagt að þessi ákvörðun Kínverja komi mér á óvart. Eftir að hafa selt eina milljón Prius tvinnbíla á 10 árum í Bandaríkjunum hefur Toyota náð þeim árangri sem að var stefnt, m.a. komist að þeirri niðurstöðu að rafknúinn bíll muni aldrei ná viðunandi markaðshlutdeild. Þótt reynslan af Prius sé góð, hann hefur t.d. reynst hafa bilanatíðni vel undir meðaltali, eru rafhlöðurnar of dýrar, of þungar og förgun þeirra of kostnaðarsöm. Þrátt fyrir umtalsverðar rannsóknir hafa framfarir í hönnun rafgeyma ekki orðið samkvæmt væntingum. Ástæður eru frekar markaðslegs eðlis en tæknilegar. Umhverfismálin hafa snúist rafbílum í óhag enda mun stærsti hluti raforku í veröldinni vera framleiddur með brennslu jarðefnaeldsneytis og rafbíll því ekki eins vistvænn kostur og fyrir 10 árum, ekki síst vegna þess hve mengun frá bensín- og dieselvélum hefur minnkað mikið.

19. júlí 2011
Leó M. Jónsson:
Iceland Express (Íslenska aulalestin), sem mér skilst að sé hvorki flugfélag né ferðaskrifstofa heldur einhvers konar farfuglaþjónusta undanþegin opinberu eftirliti, gerði rækilega í brækurnar um síðustu helgi. Þá var flugvél á vegum Íslensku aulalestarinnar kyrrsett í París vegna bilana. Farþegar sem héldu að um millilendingu í París væri að ræða og farþegar sem bókað höfðu far frá París með innágreiðslu, jafnvel mánuðum áður (en þannig mun margt fólk tapa ómældum upphæðum þegar þetta svikafyrirtæki verður gjaldþrota, - þetta aukaatriði (farþegar) gleymdust; vantaði bara að Aulalest Pálma Haraldssonar landhlaupara og gjaldþrotameistara, týndi þeim. Þegar það spurðist hingað heim, eftir krókaleiðum (því farþegar koma áhöfn vélarinnar ekki við frekar en einhverjir pappakassar) að fólk væri búið að hanga í reiðileysi á einhverjum flugvelli í París, án þess að haft væri samband við það eða það upplýst um hvort áhöfnin hefði stungið af eða félagið væri gjaldþrota eins og flest sem Pálmi Haraldsson snertir á (ryfja má upp Sterling-málið), dúkkaði upp einhver rola sem titluð var fjölmiðlafulltrúi. Af því sem hún lagði til málanna var enginn nokkru nær enda fór hún strax í felur og hefur ekki síðan sést: Bættur er skaðinn. Við tók forstjóri Aulalestarinnar og kenndi frönskum umboðsaðila um þjónustuleysið en þegar loks var haft samband við fólkið var því raðað niður á hótel með ókunnugum í herbergjum eins og tíðkast þegar vista þarf flækingshunda eftir rassíu. Flugmenn sem vissu allt um ástand flugvélarinnar, gátu haft samband við stjórnendur á Íslandi (en hafa sennilega ekki nennt því enda búnir að koma sjálfum sér á fín hótel) - gerðu ekki rassgat - því farþegar koma þeim ekki við!
(Flugmenn Icelandair eru nú í verkfallsaðgerðum vegna bágra kjara og upplagt að taka þetta mál upp í því samhengi).
Í ljósi þess að þetta hneyksli, sem endaði ekki í París heldur eftir að farþegum var flogið til Íslands með 5 flöskur af vatni sem kost, sýnir að hvaða heybrækur sem er geta selt fólki flutning með flugvélum, jafnvel fúskarar sem ekki kunna lágmark í mannlegum samskiptum, hvað þá skipulagningu eða þjónustu, sýnist mér vera full ástæða til þess að stjórnvöld, t.d. Flugmálastjórn, geri strax gangskör að því að kanna hvort þessir amlóðar hafi ekki gleymt fleiri farþegum einhvers staðar úti í heimi - sem bíða jafnvel enn á einhverjum skítahótelum eftir því að ,,fjölmiðlafulltrúi" sem greinilega kann hvorki á Internet né farsíma, láti frá sér heyra! Fólk getur ímyndað sér hve mikils lánstrausts Íslenska aulalestin nýtur í ljósi þessa atburðar í París. En það á ekki að koma í veg fyrir lágmarksaðstoð við fólk, sem vegna aulaskapar og vanhæfni einhverra draslara, sem selt hafa þeim flugmiða, tefst um 30 klst. Er ekki kominn tími til að setja lög sem gera flugstjóra ábyrga fyrir þeim farþegum sem þeir flytja? Hvernig brygðist fólk við ef skipstjóri og aðrir yfirmenn bilaðs farþegaskips rykju fyrstir í land og hyrfu út í buskann?

6.júlí 2011
Leó M. Jónsson
Þegar Stjórnlagaþing var ákveðið tókst Alþingi að klúðra því. Hvort sem það voru venjuleg vinnubrögð eða viljandi gert hvarflaði strax að manni að lítil eftirsjá væri í fyrirbærinu af hálfu þingmanna - það átti nefnilega að fara að taka til í bæli þeirra. Því kom það á óvart að málið skyldi ekki falla niður dautt. Á einhvern hátt tókst að koma annarri skikkan á sama mál með því að breyta heiti þess í Stjórnlagaráð. Eftir að hafa fygst með þeirri samkeppni um heimsku sem íslensk stjórnmál hafa snúist um sl. 55 ár, eða frá því ég komst ekki hjá því að veita þeim athygli, hugsaði ég sem svo að bættur væri skaðinn; lítill munur á kúk og skít. Svo álpaðist ég inn á vefsíðu þar sem fjallað var um viðfagnsefni og verklag á þessu Stjórnlagaþingi. Því meira sem ég las því furðulegra þótti mér að þarna var fólk í alvöru að ræða um bráðnauðsynlegar endurbætur á ýmsum réttlætismálum út frá stjórnarskránni. Ég dáist að bjarsýni þessa fólks, ef ekki einfeldnislegu hrekkleysi. Reynslan hefur nefnilega sýnt manni að það eru einmitt þessi mál sem Alþingi hefur alla tíð verið sammála um að ekki mætti fyrir nokkurn mun hrófla við (samtrygging fyrir hönd þrýstihópa). Því er ég að velta því fyrir mér hvernig og með hvaða brögðum Alþingi muni bregða fæti fyrir Stjórnlagaráðið til að tryggja að ekkert, sem varði fjárhagslega hagsmuni pólitíkusa, nái fram að ganga. Af fenginni reynslu vek ég athygli á að Alþingi, sem frekar er kennt við samkeppni um heimsku en skynsemi, hefur á sinni tíð hvorki skort hugmyndaflug né ósvífni, þegar þurft hefur að verja persónulega hagsmuni (peninga) þingmanna á kostnað almúgans (skattgreiðenda). Loksins er komið upp spennandi mál í íslenskri pólitík: Að Alþingi fari allt í einu að lúffa fyrir almennu gáfumannaliði undir merkjum Stjórnlagaráðs, (sem jafnvel hótar framboði, verði ekki tekið tillit til tillagna þess), þar sem ekki einu sinni Engeyjarættin er í meirihluta: Áttu annan?

4. júlí 2011
Leó M. Jónsson:
Kellíng sem hringdi í Útvarp Sögu í morgun og hafði margt á hornum sér sagði m.a. orðrétt: ,,Við eigum að segja okkur úr þessu helvítis EES því það er svo vont að bera það fram þegar maður er tannlaus..."

Um þessr mundir keppist hver sem betur getur um að hneykslast á verðtryggingu lána. Hvert dæmið af öðru er dregið upp sem sýnir, það sem ég og fleiri hafa bent á í áratugi, hve óréttlát skattlagning er fólgin í verðtryggingu útlána og að sá sem mestan hag hefur af þessu geggjaða fyrirkomulagi er ríkissjóður (þess vegna skiptir svo miklu máli að ,,góðir menn" séu fengnir til að reikna út vísitölurnar).

Út af fyrir sig er verðtrygging ákveðin leið til að tryggja hag þeirra sem lána peninga í sveiflukenndu hagkerfi þar sem mistök stjórnmálafúskara eru leiðrétt með verðbólgu. Án hennar gætu t.d. lífeyrissjóðir ekki ávaxtað fé landsmanna nema utanlands og með ólíkt meiri áhættu (hver veit nema það væri skárri kostur en að láta einhverja elítu landhlaupara stela stórum hluta lífeyrissjóðanna hér innanlands).

Væri verðtryggingin ekki eitt af kúgunartækjum stjórnvalda til að ræna almenning (takið eftir því að komið hafa tímabil þar sem Hagstofan hefur gefið út tilkynningu um að verðbólga mældist varla - en samt eru reiknaðar verðbætur á fasteignalán fólks á þeim sama tíma). Lausn vandans er er einföld, hún tæki sáralítinn tíma, myndi, að sjálfsögðu, rýra fjármagnstekjur forréttindahópa og gæludýra, en koma á réttlæti í þessum málum. Réttlæti er að vísu ekki hátt skrifað hjá ráðandi stéttum landsins og hefur ekki verið síðan þrælahald var afnumið með dönskum lögum (vistarbandið). Lausnin er jafn einföld og hún er sjálfsögð (þótt ASÍ hafi ekki komið auga á hana): Verðtryggjum öll laun í landinu með sömu vísitölu og lánin! (þÞví má bæta hér inní að pistlahöfundur er einn þeirra sem var rændur af ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins árið 1983 þegar verðtrygging launa var afnumin með einu pennastriki. Húsnæðislán okkar, sem þá stóðum í húsbyggingu (Sigtúnshópurinn) hækkuðu í óðaverðbólgu á meðan laun stóðu í stað. Þessi þjófnaður var aldrei bættur nema með sjónhverfingum. Sama er uppi á teningnum núna þrátt fyrir kjaftæði stjórnvalda um ,,norræna velferðarstjórn" sem gæta myndi hagsmuna heimilanna. Hefur einhver séð merki um hana?

28. júní 2011
Leó M. Jónsson:
Í rúm 30 ár hef ég búið í einu mesta veðravíti á Íslandi 50 km. frá Reykjavík. Árum saman upp úr 1980, en þá sótti maður vinnu til Reykjavíkur, var það daglegur viðburður vikum saman að vetri til að aka á milli heimilis og höfuðborgarinnar í vitlausum veðrum, skafbyl og ófærð. Síðan kom tímabil, sem stendur enn, að ekki festi snjó að vetri en sumur leiðinleg. En svo virtist sem öllu mætti venjast - maður lagaði sig að aðstæðum, klæddi sig rétt þótt stundum bölvaði maður þræsingnum sem gerði það að verkum að ekki hélst manni á hamri í hendi utanhúss. Nærri heimilinu var eitt af stórum kríuvörpum á Suðurnesjum. Þar kom fyrir 3 árum að breytt veðurfar varð til þess að krían fann ekki æti og hætti að koma upp ungum - í vor sást varla kría. Og nú er svo komið að farnar eru að renna á mann tvær grímur: Ég hefði aldrei trúað því að veður gæti orðið eins leiðinlegt og fráhrindandi og verið hefur nú í maí og júní; stanslaus kuldi, rok og þræsingur. Ég hélt að öllu mætti venjast en nú er ég farinn að efast - gæti maður átt eftir að upplifa það að ólíft verði hér á suðvestanlands vegna óþolandi veðráttu?

15.maí 2011
Leó M. Jónsson:
Harpa í Reykjavík fyrir 17 milljarða? Getur það verið að ekki megi byggja boðlegt hús fyrir tónlistarflutning, sem 10-15 % 320 þúsund manna þjóðar nýtir, fyrir minna fé? Er þetta ekki það sem Laxnes heitinn hefði kallað ,,monthús"? Er einhver ástæða til þess að hætta að gagnrýna byggingu þessarar ,,hrunhallar" þótt tekist hafi að koma henni saman með viðunandi hljómburði fyrir 17 þúsund milljónir? Í sjálfu sér er alveg sama hvernig litið er á framtakið (og alveg sama þótt 300 tónlistarmenn séu í vímu vegna eðlilegs hljómburðar) - að það skuli hafa kostað 17 þúsund milljónir er óverjandi. Og í ljósi sögu annarra stórframkvæmda þarf ekki að koma neinum á óvart þótt þessar 17 þúsund milljónir eigi eftir að vaxa töluvert þegar öll kurl koma til grafar - reynslan lýgur sjaldan.

Sömu firrtu ráðamenn eru að tala, í alvöru, um byggingu hátæknisjúkrahúss í Reykjavík. Talað hefur verið um að það kynni að kosta 60 þúsund milljónir. Er þá er oft vitnað til þeirrar upphæðar sem þeir höfðu upp úr krafsinu sem stálu Símanum, með pólitískri vernd, skömmu fyrir hrun. Á sama tíma yfirgefa læknar landið í stórum stíl og ekki er hægt að reka þau sjúkrahús sem fyrir eru í landinu vegna fjárskorts!

Á sama tíma og opnað er 17 þúsund milljóna tónlistarhús og undirbúin bygging 60 þúsund milljóna hátæknisjúkrahúss virðist algjörlega vonlaust að koma veikum 93 ára einstaklingi, sem auk þess er blindur, fatlaður og ófær um að sjá um sig hjálparlaust, fyrir á hjúkrunarheimili. Borið er við niðurskurði, skorti á vistunarúrræðum, skorti á rými, skorti á starfsfólki o.s.frv. o.s.frv.

Hvernig í andskotanum getur þetta þrennt (svo ekki séu fleiri fáránleg dæmi nefnd) farið saman? Ráðamenn eru spilltir, ábyrgðarlausir tækifærissinnar sem ekkert hafa lært og eru greinilega staðráðnir í að sitja sem fastast, að vísu rassbrenndir. En er ekki eitthvað að fólki, sem telur sig þjóð, sem lætur svona lagað yfir sig ganga? Til hvers voru refarnir skornir?

15.maí 2011
Leó M. Jónsson:
Lögreglan í New York-borg tók engum vettlingatökum á forstjóra Alþjóða gjaldeyrissjóðsins þegar hann var ákærður fyrir að hafa beitt hótelþernu kynferðislegu ofbeldi. Maðurinn var sóttur um borð í flugvél á Kennedyflugvelli þar sem hann beið brottfarar til Parísar og fluttur í handjárnum á lögreglustöð á Manhattan. Hvort sem nafn mannsins og staða kann að skipta máli þegar rannsókn málsins hefst, breytti hún í engu stöðluðum viðbrögðum lögreglunnar við ákærunni.
Á Útvarpi Sögu var fjallað um einn af þingmönnum okkar sem er í, að mér skilst, launalausu leyfi, á meðan verið er að rannsaka, hvort hann hafi ásamt fleirum stolið 11 milljörðum úr ríkissjóði, korteri fyrir hrun, og flutt yfir í fjárfestingarsjóð sem hann veitti forstöðu, til þess að forða honum frá ,,persónulegum álitshnekki" vegna sjóðþurrðar sem blasað hafi við. Hver skyldu viðbrögð lögreglunnar í New York-borg hafa verið við gruni um slíkt brot?
Annað dæmi úr ,,Lísu í Undralandi". Ímyndum okkur að forstjóri eins af stærstu fyrirtækjum hérlendis væri kærður fyrir að ráðast (fullur eða edrú) á þernu á hóteli í Reykjavík (t.d. af asískum uppruna). Dytti einhverjum í hug að lögreglan í Reykjavík myndi sækja hann og leiða í handjárnum til yfirheyrslu?

3.maí 2011
Leó M.Jónsson:
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) a) gaf út skýrslu 1999 sem fjallaði um rannsókn á kostnaði heilbrigðisþjónustu vegna loftmengunar frá umferð í 3 löndum; Austurríki, Frakklandi og Sviss. Þar kemur fram að loftmengun vegna umferðar varð fleira fólki að aldurtila en umferðarslys. Í skýrslunni kemur jafnframt fram að lengri tíma innöndun afgasmengaðs lofts og göturyks hjá fólki eldra en 30 ára, olli 21 þúsund ótímabærum dauðsföllum vegna lungna- og hjartakvilla. Á sama tíma létust á sama svæði rétt innan við 10 þúsund manns vegna umferðarslysa. Ennfremur segir í sömu skýrslu: ,,Árlega veldur afgasmengað loft og rykbundin mengun 300 þúsund tilfellum bronkítis hjá börnum og 15 þúsund innlögnum á sjúkrahús vegna hjartasjúkdóma; 395 þúsund astma-tilfellum hjá fullorðnum og 162 þúsund slíkum tilfellum hjá börnum." Í skýrslu WHO eru helstu mengunarvaldar taldir kolmónoxíð, nituroxíð, kolvetni, benzen, ósón, blý og mengað ryk.
Heimild: WHO: Health Costs due to Road Traffic-related Air Pollution. An impact assessment project of Austria, France and Switzerland. Prepared for Ministrial Conference for Environmental and Healt, London , June 1999.

Þessa dagana er ryk- og óhreinindamengunin slík í andrúmslofti í Reykjavík að viðkvæmu fólki er ráðlagt að halda sig innandyra. Reynt er að telja okkur trú um að þessi loftmengun sé afleiðing umferðarinnar - aðrir þættir komi þar varla við sögu:þessari megun stafi allri frá umferðinni. Hvergi er minnst einu orði á trassaskap borgaryfirvalda og slóðaskap svo sem saurveituna í Vatnsmýrinni vegna aulaskapar við frárennsli - stórhættulega sýklaveitu og sóðaskap sem er hluti af glæpsamlegu kæruleysi og er stór þáttur í þessu ófremdarástandi: Götur eru ekki þrifnar eins og vera ber og borið við sparnaði?

Í París er í gangi stórátak í að verjast hættulegri loftmengun með auknum þrifnaði gatna og eiga þeir þó við ramman reip að draga sem er alvarlegur vatnsskortur, nokkuð sem við þekkjum ekki.
Blaðamenn, sem ættu að upplýsa almenning um staðreyndir málsins, taka við dellunni frá Reykjavíkurborg gagnrýnislaust eins og venjulega.

Í stað þess að reyna að koma sökinni af þessum sóðaskap einvörðungu yfir á umferðina en minnast ekki orði á þær skyldur sem borgaryfirvöld sinna ekki væri þeim nær að taka sér tak og kom aftur á eðlilegri gatnahreinsun. Með því móti mætti draga úr atvinnuleysi og snúa um leið vörn í sókn gegn alvarlegu heilsufarslegu vandamáli og sótthættu sem að stórum hluta stafar af trassaskap pólitíkusa sem skattleggja umferðina gegndarlaust en rækja ekki skyldur sínar á móti nema með hangandi hendi.

19. apríl 2011
Leó M. Jónsson:
Í hádegisfréttum Gömlu Gufunnar í dag var viðtal við forstöðumann Húsavíkurstofu, sem mun vera safnahús á Húsavík, þar sem hann lýsti áhyggjum sínum af fyrirhuguðum flutningi Reðurstofu til Reykjavíkur - þaðan sem hún hafði upphaflega komið. Taldi hann, áreiðanlega með réttu, að ferðamönnum myndi fækka á Húsavík, þegar það fréttist að Reðursafnið væri á bak og burt, en það hefði, að sögn viðmælanda, dregið að fjölda ferðamanna þau ár sem það hefði verið á Húsavík.

En það er dálítið undarlegt hve hugmyndasnautt fólk virðist vera (og væri rannsóknarefni að skoða hvort landsbyggðarfólk sé hugmyndasnauðara en fólk á höfuðborgarsvæðinu) en það var menntaskólakennari sem upphaflega stofnaði Reðursafnið í Reykjavík.

Ekki virðist þeim á Húsavík hafa dottið í hug að setja upp safn með samsvarandi líkamshluta kvenkynsins. Ekki kæmi á óvart þótt það safn þætti áhugavert og gæti dregið að ferðamenn úr víðri veröld. Og Skapasafnið á Húsavík yrði líklega, eins og Reðursafnið, einsdæmi í veröldinni.

Og svo getur fólk spunnið þessa hugmynd áfram og velt fyrir sér hvaða þekkta kjarnakona yrði til þess að ánafna P...safninu á Húsavík ,,sínu allra heilagasta" þar sem t.d. þekktir karlar úr þjóðlífinu (Séð & Heyrt-steggir) hefðu gengið um garð! Væri það áreiðanlega tilefni verulegrar umfjöllunar um safnið og vekti athygli á framtakinu.

16. apríl 2011
Leó M. Jónsson:
André Citroën varð fyrstur evrópskra bílaframleiðenda til að fjöldaframleiða bíla á færibandi úr stöðluðum einingum að hætti Henry Ford. Það var vorið 1919. Citroën varð ekki einungis fyrsti bíllinn sem venjulegt fólk í Evrópu hafði efni á að kaupa heldur jafnframt gangöruggari, hagkvæmari í rekstri og endingarbetri en bílar keppinauta. Það var Model A af árgerð 1919; einfaldur, sterkbyggður en búinn ýmsum nýjungum svo sem rafstarti: Um haustið hafði fyrsta sendingin komið til Danmerkur, 50 bílar. Einkaumboð var í höndum P.Andersen ,,Jyden" í Himmerland. Það var samsteypa margra fyrirtækja sem þá þegar rak vel skipulagt sölu- og þjónustunet fyrir bíla, reiðhjól o.fl. í flestum borgum og bæjum. Stærst fyrirtækjanna og umsvifamesti seljandi Citroën-bíla var ,,Autojyden" í Kaupinhöfn sem þeir áttu saman Valdemar Hansen og Jens Kragholm. Mál þróuðust þannig að Jens Kragholm ásamt Walther Langer yfirtóku einkaumboðið fyrir Citroën 1922. Varla hafði blekið þornað á samningnum að hafin var einhver árangursríkasta markaðssetning bíltegundar í Evrópu, - skólabókardæmi sem enn er vitnað til í markaðsfræðum.

Fyrirtækið Kragholm & Langer seldi ekki einungis Citroën í Danmörku heldur einnig í öðrum löndum Skandinavíu;í Þýskalandi, Póllandi og Eystrasaltslöndunum - Jens Kragholm gerði Kaupinhöfn að evrópskri miðstöð bílasölu og það sem hann skipulagði og gangsetti í Danmörku á fyrstu áratugum 20. aldar er enn við lýði og sígilt alþjóðleg dæmi um hvernig byggja á upp bílaumboð og selja bíla.

Þegar André Citroën stofnaði sín eigin dótturfyrirtæki víðsvegar í Evrópu 1924 og keypti Kragholm & Langer réði það Jens Kragholm til að annast markaðssetningu utan Kaupinhafnar. Sú ráðning skilaði sér heldur betur. Kragholm einbeitti sér að því að tryggja Citroën-þjónustu á landsvísu. Innan skamms var eitt af því fyrsta sem blasti við þegar ekið var inn í borg eða bæ skiltið ,,Citroën Service." Kragholm sá til þess með þaulunnu skipulagi að skiltið stóð fyrir góða og hagkvæma þjónustu - það vafðist aldrei fyrir honum að þjónustan ætti að vera númer eitt - bílasalan númer tvö. Fyrstu ár Kragholm & Langer fór hagnaður fyrirtækisins óskiptur í að byggja upp þjónustukerfið.

Á hverju vori fór Jens Kragholm fyrir Citroën-sýningarlest sem þræddi hverja borg og bæ Danmerkur; - Citroën-dagurinn varð fastur viðburður með skemmtiatriðum og uppákomum ásamt kynningu á nýjum bílum og þjónustu og er það enn. Ár eftir ár var Citroën efst á lista yfir mest seldu bíla.

Danir urðu fyrstir Citroën-eigenda og kaupenda nýrra bíla í Evrópu til að fá bíla með 3ja ára ábyrgð. Frá 1954 voru þjónustuskoðanir á 10 þús. km. fresti, að 30 þús. km, innifaldar í söluverði Citroën-bíla í Danmörku og jafnframt var danska Citroën fyrst evrópskra fyrirtækja til að taka upp skipulagt forvarnarviðhald tengt þessum skoðunum. Bilanatíðni Citroën Traction Avant (1934 -1955) og Citroën ID 19/DS 1955-1974, en þeir bílar voru tæknilega 20 árum á undan keppinautum, var lægri í Danmörku en jafnvel í Frakklandi!

Enn þann dag í dag njóta danskir Citroën-eigendur þessa frumkvöðlastarfs sem m.a. sést á því að bilanatíðni Citroën-bíla er lægri í Danmörku en víða annars staðar í Evrópu, endursöluvirði með því hæsta og sala nýrra bíla lífleg og jöfn.

Það kemur áreiðanlega einhverjum á óvart að sömu sögu er að segja um gengi Citroën í Ástralíu - en þar nýtur Citroën sérstaks álits fyrir hagkvæmni í rekstri, örugga endursölu og hátt endursöluvirði. Og það er ekki tilviljun því Ástralarnir byggðu þjónustukerfið í einu og öllu eftir danskri fyrirmynd. Niðurstaða: Þjónusta selur fleiri bíla til lengri tíma og skapar traustari tekjugrunn en flogaveikiskenndar auglýsingar landhlaupara sem ekkert kunna.

12. apríl 2011
Leó M. Jónsson:
Í hvellnum sem gekk yfir landið sl. laugardag (10/4/2011) fuku bílar m.a. út af Keflavíkurvegi. Bílstjórar stærri bíla náðu að beita upp í vind og halda bílum sínum kyrrum á meðan mest gekk á. Það sem vekur óhug er vitneskja um að framrúður losnuðu úr 2 fólksbílum í þessum hamförum. Sem betur fer lentu þær ekki framan á öðrum bílum því það hefði getað valdið mjög alvarlegum slysum.

Tryggingafélög, sem bæta framrúður samkvæmt sérstakri tryggingu (sem fylgir sjálfsábyrgð), hafa ekki, mér vitandi, vakið athygli á því að framrúður, sem nánast undantekningarlaust eru límdar í föls bíla, gegna sama hlutverki og burðarhluti yfirbyggingar sem vörn gegn utanað komandi höggum og hlutum. Tryggingafélög hafa heldur ekki vakið athygli bíleigenda á því lykilhlutverki sem framrúðan gegnir sem þáttur í slysavörn öryggisloftpúða.

Loftpúði, sem springur upp við högg fyrir framan bílstjóra, veitir vernd gegn áverkum vegna stuðnings sem hann fær frá stýrishjóli og stýrishólki. Loftpúðinn fyrir framan farþegann í framsæti springur lóðrétt upp og hefur allan sinn stuðning af framrúðunni. Höggið sem hann myndar veldur iðulega hringlaga sprungusvæði í rúðunni. Það gefur augaleið að eigi þetta öryggistæki að gagnast þarf líming rúðunnar að vera pottþétt; - losni framrúðan úr bílnum við högg er farþeginn í framstól berskjaldaður þrátt fyrir loftpúða auk þess sem aðrir í bílnum eru óvarðir fyrir utanað komandi hlutum.

Framrúður losna úr bílum vegna ófullnægfjandi frágangs (fúsks). Þegar framrúða er endurnýjuð skiptir máli að hún sé af viðunandi gæðum (falli í fals viðkomandi bíls), undirvinna og líming sé rétt framkvæmd, rétt efni og áhöld notuð og þeim beitt af fagmanni á þessu sviði: Þetta er mikilvægur öryggisbúnaður.

Því ættu bíleigendur, sem fá framrúðu-beiðni frá tryggingafélagi að vanda val þess sem þeir fela verkið. Sérhæfð fyrirtæki eru í rúðuþjónustu auk þess sem margir bílasmiðir réttingaverkstæða eru sérþjálfaðir í rúðuísetningum.

Margir munu sammála mér um að eðlilegt væri að tryggingafélög og/eða þeir sem annast öryggismál upplýstu fólk um hlutverk framrúða. Skoðunarstöðvar gætu haft eftirlit með ástandi framrúða - það myndi auka öryggi almennings.

Í lokin bendi ég á að allir bíleigendur geta sparað sér töluverða peninga með því að blanda sinn eigin rúðuvökva. Því er lýst í þessum kafla vefsíðunnar:

http://www.leoemm.com/brotajarn38.htm

P.S. Þessi pistill var sendur út með póstlista sem áhugasamir hafa skráð sig á (innritunarreitur efst til hægri á aðalsíðu) og fá þá sent efni af ólíkum toga sem ýmist birtist í áframhaldi á Vefsíðu Leós eða einungis er sent á póstlistann. Tekið skal sérstaklega fram að ekki er um auglýsingar að ræða nema þá til að vekja athygli á einhverju sem sparað getur bíleigendum útgjöld.

9. apríl 2011
Leó M. Jónsson:
Af stórum framleiðendum eru Nissan, Honda og Ford þeir sem veðjað hafa á þrepalausu sjálfskiptingarnar (CVT = Constant Variable Transmission) bæði á evrópska og bandaríska markaðnum. Handskiptir bílar seljast enn í Evrópu en heyra til undantekninga í Bandaríkjunum. Í um 15 ár, fram að 2006 árgerð, bauð Nissan fólksbíla og jepplinga með CVT, m.a. Micra og Primera. Reynslan af þeim skiptingum hefur ekki verið góð. Af fenginni vondri reynslu kvikna eðlilega fordómar sem bílaframleiðandi og seljendur geta átt erfitt með að yfirvinna þótt tæknilegar endurbætur hafi upprætt ástæðu fordómanna. Í því efni er ekki við neinn að sakast nema framleiðandann sjálfan. Hvort honum tekst að sannfæra kaupendur um að viðkomandi sjálfskipting sé peninganna virði ræðst ekki síst af gæðum þjónustunnar. Litlu máli skiptir þótt hér sé fullyrt að CVT-skiptingar í Nissan-bílum frá og með árgerð 2006, hafa, með fáum undantekningum, reynst vel. Miklu máli skiptir að þjónustuskoðanir séu framkvæmdar á réttum tíma og af til þess bærum verkstæðum. (Því má skjóta hér inn í að Honda er enn í vondum og verri málum en Nissan varðandi þessar þrepalausu sjálfskiptingar og svokölluð MMT-skipting í Toyota, sem er nær því að vera sjálfvirk kúpling, er, að mínu mati, vonlaust fyrirbæri og kæmi mér ekki á óvart, eftir að hafa skoðað það ,,drasl," þótt Toyota-fólksbílar með þeim búnaði ættu eftir að verða endalaus uppspretta vandamála og kostnaðar).

Nissan upplýsti fyrir skömmu að það hefði selt rösklega eina milljón CVT-skiptinga á sl. 5 árum. Það segir sig sjálft að með stóran hluta þeirra enn í ábyrgð hefur fyrirtækið trú á að það hafi komist yfir erfiðleikana. Kanni maður orðstír CVT-skiptinga frá Nissan á bandaríska markaðnum kemur í ljós að kvörtunum, frá og með 2006 árgerð, virðist hafa fækkað þótt fordómar séu enn áberandi (vélbúnaður öðlast þann orðstír sem hann á skilinn).
Frá upphafi hefur þrepalausa skiptingin, byggð á belti/beltum sem knýja trissur með breytilegu þvermáli spors, haft tæknilega yfirburði umfram hefðbundnar sjálfskiptingar hvað varðar töp. Vandamálið með eldri CVT-skiptingar frá Nissan var að viðbragð, þegar tekið var af stað, var ólíkt því sem tíðkaðist hjá hefðbundinni skiptingu og fram að 2006 var smíði CVT-skiptinganna einfaldlega ábótavant auk þess sem þær þurftu sérstakt og frábrugðið eftirlit og viðhald.
Ástæða þess að Nissan og aðrir hafa valið CVT eru vaxandi kröfur um sparneytni og mengunarvarnir og aukin samkeppni á milli bílaframleiðenda um vistvænni bíla, ekki síst vegna aukins þrýstings frá almenningi sem velur tvinnbíla í vaxandi mæli. CVT-skiptingin minnkar eldsneytisnotkun fólksbíls af minni meðalstærð að jafnaði um 10% miðað við hefðbundna sjálfskiptingu. Það eitt réttlætir þá áherslu sem Nissan leggur á hana, þ.m. á að endurbæta hana til að auka endingu og rekstraröryggi.

Ég hef kynnt mér sérstaklega tæknilega þróun CVT-skiptinga og reynsluna af nýjustu gerðinni í Nissan bílum frá og með árgerð 2006. Að undanskildum gölluðum skynjara, sem olli vandræðum í fyrstu, hef ég ekki getað fundið dæmi um óeðlileg vandamál varðandi þessar skiptingar (fordóma verður maður var við, eins og áður segir, - en það er og verður vandamál umboðsins hérlendis). Rétt er að það komi fram hér, vegna ýmissa gagna sem birt eru á Netinu, að á bílum, sem fluttir eru inn og seldir af IH/BL, með CVT-skiptingu, er 3ja ára ábyrgð eins og á öðrum vélbúnaði (upplýsingar frá þjónustustjóra).
Ástæða er til að ljúka þessum pistli á að geta þess, sem oft vill gleymast, að svokallaðar hefðbundnar sjálf-skiptingar hafa ekki allar reynst gallalausar og nægir í því efni að benda á að ZF-skiptingar í ýmsum evrópskum bílum hafa hrunið unnvörpum, jafnvel eftir 60 þús. km. akstur!

7. apríl 2011
Leó M. Jónsson:
Þegar Daimler-Benz og Chrysler sameinuðust 1998 var látið eins og skapaður hefði verið nýr og sterkur risi á sviði bílaframleiðslu. Árið 2000 var komið í ljós að í stað styrkari framleiðanda höfðu veikleikar tveggja komið saman og úr orðið tvöfalt umfangsmeiri vandamálasteypa. Tæknileg vandamál, sem höfðu lengi loðað við Chrysler, versnuðu með tilkomu Daimler-Benz og gæðavandamál, sem lengi höfðu verið falin hjá Mercedes-Benz, urðu nánast óleysanleg. Og ástandið fór versnandi hjá Daimler-Chrysler með hverju árinu (og endaði með gjaldþroti). Árið 2003 var ég að leita að bíl til að taka við af Ford Thunderbird (1985) sem ég hafði notað lengi og var byrjaður að endurbyggja. Ég var á því að nú væri hver síðastur að eignast alvöru amerískan fólksbíl. Ég hafði látið glepjast af glæsilegum auglýsingum Daimler-Chrysler og leist vel á Dodge 300, sérlega flottan og töff 4ra dyra fólksbíl með 2,7 lítra V6-vél.

Það vill svo til að ágætur kunningi minn gegndi, á þessum tíma, stjórnunarstöðu hjá Hertz-bílaleigunni í Baltimore. Ég hafði samband við hann og spurði hvort þeir væru með þennan Dodge 300 í útleigu. Hann sagði að þeir væru með Dodge Charger sem væri sami bíll með stærri vél (3,5 lítra V6) og 4ra gíra sjálfskiptingu. Ég sagði honum að ég væri að pæla í að kaupa þannig bíl 1-2ja ára. Þótt hann segði það ekki beint, en starfsmenn Hertz í Bandaríkjunum mega ekki gefa neinar upplýsingar um reynslu fyrirtækisins af bílaleigubílum, heyrði ég strax á honum að þetta væri ekki bíll sem ég skildi kaupa. Hann fór þess í stað að benda mér á 2 aðra afturhjóladrifna bíla, sem flokkast sem millistærð í Bandaríkjunum og sem m.a. Hertz leigir út; annars vegar Cadillac CTS (2003) og hins vegar Lincoln LS. Ég hafði ekki áhuga á Cadillac. Þessum Lincoln LS, sem var ný gerð (á markaðnum frá og með 2000 til og með 2006), hafði ég ekki veitt neina athygli þegar hér var komið sögu. Þegar ég fór að kynna mér málið vaknaði áhugi á þessum bíl sem er að mörgu leyti sérstakur og ólíkur flestum öðrum amerískum bílum. Þótt vélbúnaðurinn væri frá Ford var Lincoln LS framleiddur af sérstöku sameignarfyrirtæki Ford og Mazda í Detroit, Premium Automobile Inc. Lincoln LS er hannaður hjá Jaguar og Ford Studios. Undirvagninn er frá Jaguar, sá sami og er í Jaguar S. Vél og sjálfskipting eru frá Ford.
Til að gera langa sögu stutta keypti ég 2002 árgerðina af Lincoln LS. Bíllinn var eins og nýr, ekinn 22 þús. mílur. Ég á hann enn (eins og nýjan) og mælirinn stendur í 80 þús. km. Bíllinn hefur aldrei slegið feilpúst og er einhver þægilegasti og best búni fólksbíll sem ég hef kynnst. Læt líklega grafa mig í honum, neyðist maður ekki til að selja hann ríki hér áframhaldandi óstjórn!
En þessi vísbending frá Baltimore árið 2003 hefur sparað mér ótrúlega mikla peninga og óþægindi. Því hefði ég asnast til að kaupa Dodge Charger í stað Lincoln LS hefði ég lent í ótrúlegustu bilunum. Chrysler-bílar voru illa smíðaðir fyrir sameininguna við Daimler en eftir hana versnaði ástandið í stað þess að batna, Dodge Charger er t.d. illræmd, síbilandi drusla: Á meðal þess sem hefur gefið sig í Chrysler-fólksbílum eru vélarnar, sjálfskiptingarnar (sagðar þær lélegustu sem fyrirfinnast í amerískum bílum), stýrisbúnaður (hættulegur), stólar, öryggisbúnaður svo sem bílbelti og þannig mætti halda áfram endalaust .....

27. mars 2011
Leó M. Jónsson: Að skipta um banka er minna mál en ég hélt. Ég komst að því í síðustu viku. Í rúm 30 ár hef ég haft öll mín bankaviðskipti hjá Sparisjóðnum í Keflavík. Þar hef ég fengið alla þá þjónustu sem ég hef þurft á að halda og alltaf verið ánægður með hana. Það var því talsvert áfall að komast að því að hópur ástríðubraskara, hafði, blindaður af græðgi, stolið öllu steini léttara úr sparisjóðnum. Í stað þess að vera með traustustu sparisjóðum landsins var Sparisjóðurinn í Keflavík svo illa staddur að stjórnvöld treystu sér ekki til að rétta hann við - og er þá miklu til jafnað. Undir forystu umsvifamikils bílapartasala, sem einnig hefur átt þátt í því að setja Reykjanesbæ á hausinn, hafði stjórn og forstjóri skafið og skeint sparisjóðinn að innanverðu þar til ekkert stóð eftir nema berir útveggirnir. Eins og venjulega eru það við, viðskiptavinir og skattgreiðendur, sem borgum brúsann - kúnstin hjá þessu braskaraliði er öll fólgin í því að stela frá okkur almenningi.
Þegar Landsbankinn, sú fjármálastofnun sem verst orð fer af hérlendis (og sem sveik m.a. stórfé út úr aldraðri móður minni með því að selja henni hlutabréf sem reyndust einskis virði), yfirtók rekstur Sparisjóðsins í Keflavík, fannst mér mælirinn fullur. Fjandinn hafi það maður lætur ekki bjóða sér hvað sem er.

Ég kærði mig ekki um að vera einn af viðskiptavinum Landsbankans - ég treysti ekki því fyrirtæki, alveg sama hver kennitala þess er þessa dagana. Ég ákvað að skipta um banka eftir 30 ára viðskipti. Ég hugsaði sem svo; - fjandinn hafi það þótt það kosti mig fyrirhöfn og alls konar snúninga: Hingað og ekki lengra.

Ég valdi Byr. Nýjan sparisjóð sem ég veit reyndar ekkert um annað en að þar hefur ekki landsþekktur glæpalýður verið við stjórn - hvort það sé einhver trygging á svo eftir að koma í ljós. Ég labbaði mig inn í Byr. Tók afgreiðslunúmer þjónustufulltrúa. Biðin var innan við 10 mín. Settist niður og óskaði eftir að öll mín bankaviðskipti, innlánsreikningur og kortaviðskipti yrðu færð frá SpKef/Landsbanka yfir í Byr. Sú afgreiðsla tók nákvæmlega 18 mínútur. Eftir að hafa framvísað persónuskilríkjum (og var um leið bent á að gildistími ökuskírteinisins var að renna út - sem ég hafði ekki hugsað út í), þurfti ég að fylla út og undirrita 2 skjöl, kortin mín voru ljósrituð og mér sagt að ný kort yrðu gefin út og þau myndi ég geta sótt innan 7 daga.

Sem sagt: Þið sem ekki viljið láta spilltar fjármálastofnanir bjóða ykkur hvað sem er getið alltaf sagt nei takk. Það er miklu minna mál að skipta um banka en margur hyggur.

6. mars 2011
Leó M. Jónsson:
Íslendingar virðast vera heilaþvegnir skipulega af fjölmiðlum. Liður í því er að brengla minni þeirra þannig að þeir geti ekki sett hlutina í eðlilegt samhengi - þeir eru fljótari að gleyma en annað fólk. Allt skráningarkerfi hérlendis virðist þannig skipulagt að engin leið sé að rekja feril landhlaupara, ástríðubraskara og annarra grínista í viðskiptum. Ný vísindagrein innan viðskiptafræði hefur þróast smám saman á þessu sviði. Mælikvarði á færni manna í hinni nýju grein nefnist flækjustig: Það er að ganga þannig frá eftir ,,rassíur" stórsnillinga (sem áður fetuðu framabrautina frá smákrimmum upp í stórglæpamenn) að enginn hafi minnstu hugmynd um hver hafi stolið hverju og hvernig. Síðasta atriði leikritsins er ávallt sviðin jörð.

Nú hafa spunameistarar og aðrir faglegir bætiflákalygarar þannig um vélað að engin man lengur eftir því þegar þekktustu landhlauparar nútímans voru að byrja að þreifa fyrir sér um ,,nýja viðskiptahætti" sem nefndust samráð á neytendamarkaði og miðuðu að því að hafa fé af almenningi með því að sniðganga samkeppnislög.

Kannski örvar það minnissellurnar hjá sumum þegar minnst er á að ákveðnir ,,sómadrengir" voru að rotta sig saman um stórþjófnað fyrir 16 árum síðan með því að bindast ólöglegum samtökum um verðstýringu grænmetis og ávaxta. Þessi fyrirtæki nefndust Fengur, Bananar, Sölufélag garðyrkjumanna, Ágæti og Mata.

Fundarstaðurinn lýsir ágætlega eðli ,,viðskiptanna" því hann var í rjóðri uppi í Öskjuhlíð, jafnvel í vitlausum veðrum - þar húktu þessir stórmenni hríðskjálfandi og niðurringd að plotta. Fólk getur ímyndað sér hvort ekki hafi verið um stórar upphæðir að ræða (Þýfi) úr því þeir þorðu ekki að láta sjá sig saman á opinberum stöðum.

En þeir voru ekki nógu lærðir né klókir og svindlið komst upp. Þessi áðurnefndu fyrirtæki voru dæmd í Hæstarétti árið 2001 til að greiða 47 milljónir í sekt til ríkissjóða fyrir brot á samkeppnislögum.

Og hver skyldi nú hafa verið forsprakki þessarar þokkalegu iðju? Sá heitir Pálmi Haraldsson (gjarnan kenndur við Fons). Hann hafði ekki unnið nema tæp 4 ár sem framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna, sem þá stefndi í gjaldþrot, þegar honum datt þetta snjallræði í hug að kippa samkeppninni úr sambandi (á bak við tjöldin, niðurrigndur uppi í Öskjuhlíð). Og viti menn, hann var svo heppinn að ýmsir, sem síðar urðu þekktir fyrir alls konar sjónhverfingar í miklu stærri stíl og stjórnuðu þessum fyrirtækjum sem kepptu við SF/Pálma, höfðu bara ekki þorað að minnast á þennan möguleika - sem þó svo gott sem blasti við - því íslenskir neytendur eru jafn varnarlausir og kornabarna á víðavangi. Þótt Pálmi hefði stúderað æðri viðskipti við háskóla í Gautaborg virtist hann vera klaufskur við að plotta (þótt rjátlaðist af honum seinna svo um munaði). 2001 lak eitthvað út og blaðran sprakk og hver sem betur gat reyndi að flýja frá ,,Öskjuhlíðarsamsærinu" enda með eindæmum neyðarlegt þótt 47 milljón króna sekt þætti vel sloppið peningalega.

Síðan þá hefur Pálmi lært ýmislegt og safnað í dótakassann, jafnvell svo að honum er líkt við frægustu glæframenn í viðskiptum. En skyldi fólk vera búið að gleyma þessum kónum sem síðan urðu allir þekktir ,,óreiðumenn" í viðskiptalífinu - en samt hvergi á skrám til að almenningur gæti varað sig á þeim?

17. febrúar 2011
Leó M. Jónsson
: Fljótlega eftir að ég hóf tækninám í Noregi fannst mér það vera tímasóun. Skólinn, sem var rekinn af ríkinu, var í nýrri sérhannaðri byggingu með öllum hugsanlegum tækjabúnaði og flottheitum en kennararnir, með fáum undantekningum, voru opinberir starfsmenn sem dagað hafði uppi tæknilega. Rétt er að taka það fram að þetta var þekktur og virtur skóli. Skipulagið átti einfaldlega ekki við mig. Ég hafði aukatekjur af því að spila ,,dinnertónlist" og taldi mig því hafa efni á að stunda tækninám við sænskan, franskan eða bandarískan tækniskóla, jafnvel þótt það þýddi skólagjöld umfram uppihaldskostnað. (Þetta var í upphafi 7. áratugar 20. aldar). Ég fékk inngöngu í tækniskólann STI í Stokkhólmi, en mælt hafði verið með honum. STI er sjálfseignarstofnun undir stjórn nokurra sænskra iðnaðarsamsteypa. Skólagjöldin voru há; hraðinn og kröfurnar meiri en í norska tækniskólanum. Kennt var í niðurníddu, lyftulausu, húsnæði á tveimur stöðum í miðborginni. Húsgögnin voru gömul og illa farin, loftræsting var ekki önnur en opnanlegir gluggar, gluggatjöldin druslur. Hins vegar var kennslan í hæsta gæðaflokki. Á meðal deildarstjóra voru þekktir tækni- og vísindamenn og flestir sérkennarar störfuðu samhliða kennslunni hjá fyrirtækjum í fremstu röð svo sem AGA, SKF, Esab, Skåska cement o.fl. Mestu munaði um annakerfi að bandarískri fyrirmynd. Náminu (samsvarandi BS-gráðu) var skipt í 6 haust- og vorannir og þurfti að standast lokapróf í fagi eða faghluta með ákveðnum lágmarksfjölda eininga til að flytjast upp um önn. Þetta þýddi þrotlausa vinnu en á móti fann maður greinilega hvort hún var að skila manni áfram eða ekki. Þetta átti við mig. Maður varð að standa sig og sýndi maður það ekki í verki var ekki um neina miskunnsemi að ræða - forsjárhyggjuna, sem talin var einkenna sænska ,,velferðarkerfið" á þessum árum, varð maður ekki var við.
Öfugt við prófin í norska skólanum, en þar voru kennarar á vappi í stofunni til að fylgjast með að ekki væri verið að svindla, var einn starfsmaður til aðstoðar í sænska skólanum enda mátti maður hafa með sér ,,öll hjálpargögn" (nema aðstoðarmann). Ástæða fyrir því var einföld. Miklu meiri vinna var lögð í samningu prófa hjá STI en tíðkaðist í norska skólanum. Kunni maður ekki eða skildi ekki undirstöðuatriði í viðkomandi fagi átti maður ekki möguleika frekar en snjóbolti í helvíti - sama hvaða handbækur maður hafði með sér. Þarna var ekki verið að framleiða tæknifræðinga í gróðaskini með einhverjum páfagaukalærdómi heldur sérhæfða tæknimenn fyrir sænsk fyrirtæki, - ekki fólk sem gat romsað upp úr sér heilu köflunum úr kennslubókum, heldur fólk sem kunni að leysa mismunandi flókin vandamál á grundvelli undirstöðuþekkingar. STI í Stokkhólmi er t.d. eini skólinn sem ég veit um þar sem verðandi tæknimönnum var sérstaklega kennt að nota tæknibókasöfn!

1. febr. 2011
Leó M. Jónsson: Eitt af vandamálum stjórnvalda hérlendis er að ungt fólk vill nýta tímann, sem það hefur vegna atvinnuleysis, sem er bein afleiðing vanhæfra stjórnvalda, til að mennta sig. Aðsókn að háskólum hefur aukist en ekki að sama skapi að iðn- og tæknigreinum, þ.e. verklegu námi, þótt iðnaðarfólk hafi yfirleitt verið verið tekjuhæst af ,,vinnandi" fólki ásamt sjómönnum. Það eru ekki allir fæddir með hæfileika til handanna og enginn nær langt á sviði iðngreinar nema vera sæmilega handlaginn. Því liggur verklegt nám ekki fyrir öllum. Þar að auki er verklegt nám miklu dýrara en nám í tugumálum eða húmanískum fræðum, svo einungis tvö dæmi séu nefnd. Ríkið hefur verið ákaflega nískt gagnvart verknámi þrátt fyrir viðhafnar- og bætiflákalygi ráðamanna um úrbætur. Fjöldi fólks, sem hugðist leggja fyrir sig iðnnám á nýjum brautum Borgarholtsskóla, en gat ekki lokið því af persónulegum ástæðum, svo sem stofnunar heimilis, barneignum o.fl, stendur uppi réttindalaust vegna þessa að það gat ekki lokið bóklega- eða verklega þættinum. Það heltist því úr lestinni eftir mikla fyrirhöfn og útgjöld. Ríkið hefur næsta lítið gert til að aðstoða þetta fólk til að tryggja arðsemi fjárfestingar sinnar og þess. Hafi heyrst af einhverjum fyrirætlunum um að gera verknámsfólki kleift að öðlast þau iðnréttindi, sem upphafleg var stefnt að, hefur námið reynst illa skipulagt. Hins vegar hefur ekkert vantað upp á hugarflug stjórnenda Borgarholtsskóla til að plokka peninga af fólkinu.

Í háskólunum sker ríkið niður fjárveitingar þannig að takmarka verður innritun nýnema. Inn í sumar deildir er skammtað örfáum einstaklingum, jafnvel að því virðist til að vernda peningalega hagsmuni þeirra sem fyrir eru í viðkomandi grein. Fyrir ríkinu vakir að spara peninga (sem það virðist eiga eins og skít þegar reisa þarf sparisjóði upp frá dauðum eftir ap haf averið tæmdir innanfrá af þjófahyski undir pólitískri vernd). En hvert ungmenni, sem vísað er frá háskóla og á ekki kost á vinnu, reiknar ríkið sem sparnað (fundið fé)!

Idjótin, sem stjórna þjóðfélaginu, vita ekki að um 1960 ríkti neyðarástand í þýskum og sænskum iðnaði. Skammsýni þarlendra stjórnvalda leiddi af sér axarsköft sem fældu milljónir ungmenn frá langskólanámi, aðallega í tæknigreinum. Tækni- og verkfræðinga vantaði á öllum sviðum og hamlaði nauðsynlegum efnahagslegum framförum: Leiðrétting tók 20 ár. Þó vantar enn mikið upp á að eðlilegt framboð sé á tæknimenntuðu fólki. Ungir Svíar og Þjóðverjar höfðu fengið nóg, treystu ekki stjórnvöldum og létu ekki sjá sig í tækniskólunum um árabil en því meira bar á þeim við ýmsa vafasama iðju svo sem í götuóeirðum, mótmælum, upplausn og jafnvel hermdarverkum!

Við megum þakka fyrir að enn er til ungt fólk á Íslandi sem vill og nennir að leita sér framhalds- og háskólamenntunar. Vonandi eigum við aldrei eftir að kynnast því ástandi að háskólar standi meira og minna auðir vegna þess að ungt fólk hafi ekki áhuga á að afla sér aukinnar menntunar. Þá væri kominn tími til að biðja Guð að hjálpa sér!

Þegar syrtir í álinn vegna klúðurs misvitra stjórnvalda eða vegna stórþjófnaðar gæðinga úr fjármálastofnunum, er eðlileg lausn að fresta framkvæmdum, sem geta beðið, draga úr neyslu á því sem hægt er að vera án, skera niður óþarfa kostnað í rekstri opinberra fyrirtækja og stofnana (sendiráða), hækka neysluskatta um leið og leitað er leiða til að finna leiðir til að auka framleiðslu, sölu og tekjur þjóðarinnar.

Í þessu tilliti hafa þó menntamálin, sem afmarkað svið, sérstöðu og eru ósnertanlegt. Sjálfsagt er að leita leiða til að reka skóla á hagkvæmari hátt, frá leikskólum og upp í háskóla, og allt þar á milli. En að minnka afköst skólanna, með samdrætti og niðurskurði á fjárveitingum þannig að yngra fólk fái ekki jafn góða þjónustu og næsti árgangur á undan er hugsanaskekkja og mistök sem eru ólíðandi. Þegar aðgangur ungs og áhugasams fólks er takmarkaður að námi á háskólastigi með niðurskurði á fjárveitingum, erum við að fremja einhver verstu og afdrifaríkustu mistök sem um getur.

Byggingu orkuvers má fresta og vinna upp með peningum; byggingu flugafgreiðslustöðvar eða tónlistarhúss um nokkur ár má bæta seinna með peningum. En leikskólabörn verða ekki kölluð aftur eftir nokkur ár til að bæta þeim upp það sem þau fóru á mis við við niðurskurð þjónustunnar í leiksólanum; - skaðinn gagnvart þessum börnum verður ekki bættur með nokkru móti því þau vaxa. Afleiðingarnar verða, í mörgum tilfellum, félagsleg vandamál sem við ráðum illa við. Sama er uppi á teningnum á háskólastigi; - samdráttur sem útilokar áhugasama nemendur með frávísun gerir drauma þeirra að engu og sjaldnast verður skaðinn bættur síðar; - draumar sem ekki rætast vegna heimsku eða ólýðræðislegra ákvarðana utanaðkomandi verða sjaldan bættir síðar. Margt af því fólki hefur misst af tækifæri sem ekki skapast aftur. Skaðann getur verið ógerlegt að bæta en afleiðingarnar skelfilegar fyrir samfélagið vegna þess að þær eru óyrirséðar og vondar hjá mörgum - eins og ýmis dæmi sýna úr veraldarsögunni..

Því á skólakerfið að vera ósnertanlegt gagnvart niðurskurði pólitíkusa. Margítrekaðar yfirlýsingar um að allir eigi jafnan rétt til náms verða að standast, - það er einfaldlega fjöregg þjóðarinnar, - og því sem nú verður spillt í skólakerfinu með vanhugsun og fljótfærni ráðamanna og undantekningarlaust án samráðs við námsfólk verður ekki unnið upp seinna nema að litlu leyti. Þessi fljótfærnislegu mistök eiga eftir að valda gríðarlegu fjárhagslegu tapi auk þess að skerða möguleika stúdenta til náms við erlenda háskóla. Þessi mistök mun einangra okkur frá háaskólasamfelögum annarra þjóða.
Fólkið, sem verður af tækifæri lífs síns varðandi menntun er um og innan við tvítugt og á sjaldan kost á að taka þráðinn upp aftur - því þess bíður stofnun fjölskyldu, barneignir og lífsbarátta. Ekki þarf nema einn heiðarlegan og menntaðan heimsborgara á meðal ráðamanna, ásamt kjarki til að stöðva aftúrsiglarana, til þess að snúa af þessari villu. Nú er nefnilega rétta tækifærið til að efla og bæta skólakerfið á meðan illa árar í stað þess að minnka afköst þess með niðurskurði.
Fjárfesting í ungu áhugasömu fólki er arðsamari en flest annað, þegar til lengri tíma er litið. Megi, með samstilltu átaki, forða ungu fólki frá vítahring atvinnuleysis, með þeirri eymd, niðurbroti og vonleysi, sem því fylgir, og sem við Íslendingar höfum einungis þekkt af afspurn undanfarna áratugi, væri það fjárfesting í framtíðinni. Með eflingu menntakerfisins, í stað þess að lama það með niðurskurði, mætti leysa hluta af framtíðarvanda þjóðarinnar og girða fyrir félagslegt böl yrði alvarleg meinsemd í þjóðarsálinni á komandi árum. Skilningur og vilji er allt sem þarf
!

19.des. 2010
Leó M. Jónssson:
Bíleigandi skrifar mér - segist eiga 4ra ára Nissan Murano með þrepalausri CVT-sjálfskiptingu. Fyrir skömmu gerðist það að bíllinn dróst af stað að morgni, komst smáspöl og stöðvast. Hjá umboðinu er honum sagt að sjálfskiptingin sé ónýt, ábyrgðin útrunnin og ekki sé annað að gera en að endurnýja sjálfskiptinguna. Honum er sagt að það muni kosta a.m.k. 800 þúsund krónur. Hann er ekki sá eini sem hefur lent í þessu. Er ábyrgðin á sjálfskiptingunni 3 ár eða 5 ár? Það skal tekið fram að Nissan Murano með handskiptingu hefur reynst vel og bilanatíðni lág. Hins vegar hafa verið stöðug vandamál með þessar CVT-sjálfskiptingar í Nissan-bílum og af þeim orsökum hefur Nissan framlengt verksmiðjuábyrgðina í 5 ár í Bandaríkjunum þar sem handskiptir bílar seljast ekki. (Innskot höfundar 21. apríl 2011: Samkvæmt nýrri upplýsingum frá Bandaríkjunum hefur Nissan endurbætt CVT-skiptinguna og að undanskildri bilun sem orðið hefur vegna gallaðs skynjara, sem er lítið mál að endurnýja, hafa engar alvarlegar bilanir verið í þessum skiptingum frá og með árgerð 2006, þ.m.t. Nissan Murano).
Í handbók bíls eða sérriti sem fylgir nýjum bíl eru ábyrgðarskilmálar skýrðir (smáa letrið sem fáir virðast gefa sér tíma til að lesa og vita því ekki að dekk, bremsuhlutir, kúpling, slithlutir, reimar, pústkerfi, dekk, perur, þurrkublöð og fleira er undanþegið verksmiðjuábyrgð).
Bilun, sem ekki hefur komið fram í öðrum bílum sömu tegundar og gerðar, fyrstu 6 mánuði eftir markaðssetningu, telst ekki galli nema framleiðandi ákveði að svo skuli vera. Þetta ákvæði á að vernda framleiðanda gegn skemmdarverkum, t.d. af hálfu afbrotamanna (tryggingasvik) og/eða keppinauta.
Nýir bílar eru með 3ja ára verksmiðjuábyrgð eða 100 þús. km. eftir því hvort kemur fyrr. Á meðal undantekning eru Toyota-bílar sem eru með 5 ára ábyrgð. Nýlega hóf Opel, sem er gjaldþrota, að selja nýja bíla með ,,ævilangri" ábyrgð. Bornar hafa verið brigður á að þeir ábyrgðarskilmálar fái staðist og mun það væntanlega verða úrskurðað af dómstólum.
Sérstök íslensk lög, nr. 48/2003 um neytendavernd, gilda um bíla eins og aðra lausamuni. Samkvæmt þeim er 2ja ára ábyrgð á öllum lausamunum. Þeir sem selja nýja og/eða nýskráða notaða bíla geta látið 2ja ára ábyrgð gilda. Þetta þýðir að ábyrgð seljanda bíls, tækis eða búnaðar gildir aldrei skemur en 2 ár frá afhendingu.
Færri vita að í 27. gr. laga um neytendavernd er ákvæði sem lengir kvörtunarfrest í 5 ár frá afhendingardegi komi fram bilun eða galli í búnaði sem eðlilegt teljist að endist lengur. ,,Sé hlut ætlaður verulega lengri endingartími en almennt gerist um söluhluti skal kaupandi hafa 5 ára frest (frá afhendingardegi) til að tilkynna um galla." Í 27. grein eru ekki nefnd dæmi um hluti sem greinin gæti átt við. Hafi bíll verið í þjónustueftirliti á ábyrgðartíma og bili t.d. gírkassi, drif eða vél eyðileggist að útrunninni 3ja ára ábyrgð en innan 5 ára frá afhendingu, má ætla að 5 ára ábyrgðin myndi gilda. Sú ábyrgð er án takmarkana, bæta skal hlutinn að fullu en um kostnað við endurnýjun hans gilda skilmálar verksmiðjuábyrgðar. Frekari upplýsingar um neytendavernd fást hjá Neytendastofu.

ES-samkeppnisreglur gilda fyrir bílgreinina - þótt fáir starfsmenn bílaumboða virðist vita af þeim
Það er engin nýbóla að kvartað sé undan lakri varahlutaþjónustu bílaumboða hérlendis. Algengt er að bíleigendum í vandræðum mæti jafnvel óliðlegheit. Margir sem komið hafa að tómum kofanum hjá bílaumboði og vilja reyna að útvega varahlut erlendis frá upp á eigin spýtur og til þess þurft varahlutarnúmer, hefur verið neitað um það. Umboði er ekki stætt á því að neita að gefa upp varahlutarnúmer hafi það ekki varahlutinn til reiðu. Samkvæmt aðild Íslands að EFTA og Evrópska efnahagssvæðinu gilda hér samkeppnisreglur á sviði bílasölu og bílaþjónustu. Reglugerðin nefnist nefnist EC 1400/2002 B.E.R. (B.E.R. er skammstöfun fyrir Block Exception Regulation). BER-reglugerðin, eins og hún er nefnd í daglegu máli tók fyrst gildi seint á árinu 2002 og gildir hérlendis með síðari breytingum og viðaukum.
Ekki þarf að lesa lengi til að sjá að ýmis ákvæði samkeppnisreglnanna eru gróflega brotin dags daglega, einkum og sér í lagi varðandi þjónustu og ýmis skilyrði sem bílaumboð setja varðandi verksmiðjuábyrgð - hiklaust þótt þau hafi enga heimild til þess. Enginn virðist gæta hags bíleigenda varðandi þessa reglugerð og líklega vita fæstir bíleigendur hvert þeir ættu að snúa sér til að kæra brot á henni. Mér er meira að segja til efs að bíleigandi eigi aðgang að þessari reglugerð á íslensku. En hér er reynt að bæta úr því með útdrætti á íslensku. Í honum eru nefnd mörg þeirra atriða sem ætla mætti að skiptu íslenska bíleigendur og þjónustuaðila mestu máli. http://www.leoemm.com/ber2.htm

Ath. Á aðalsíðunni er hægt að skrá sig á póstlista (rammi efst til hægri). Þeir sem eru á listanum fá senda tilkynningu um nýtt efni á Vefsíðu Leós. Undantekning eru þessir pistlar og ástæðan sú að um er að ræða persónulega skoðun L.M.J. og auðvelt fyrir áhugasama að velja PISTLA á aðalsíðunni. Þeir, sem eru á póstlistanum fá sendan sérpóst um ýmislegt sem varðar hag bíleigenda, t.d. um þessa ábyrgðarskilmála og samkeppnisreglur, áður en það er birt á Vefsíðunni, jafnvel efni sem ekki er birt á Vefsíðunni. Sem dæmi má nefna tilkynningu um 50% afslátt á þurrkublöðum hjá Poulsen núna í desember - tilboð sem getur sparað bíleiganda þúsundir króna vegna þess að okrað er á þessari vöru á bensínstöðvum. Um er að ræða upplýsingamiðlun. Skilyrði er að hún geti auðveldað bíleiganda rekstur bíls og/eða sparað honum útgjöld. Vefsíða Leós birtir ekki auglýsingar, en kjósi einhver að líta á þessa upplýsingamiðlun sem óæskilega auglýsingu/ruslpóst þarf hann ekki annað en að senda netbréf á leoemm(hjá) simnet.is og nafn hans er fjarlægt af listanum, oftast samdægurs.

17. des. 2010
Leó M. Jónsson:
Þjóðin telur 318 þúsund einstaklinga samkv. tölum Hagstofunnar. Það er svipað og borgin Malmö í Svíþjóð. Muni ég rétt eru 2 háskólar í Malmö, hvor um sig með um 24 þúsund nemendur. Hérlendis eru 7 háskólar og innan við 15 þúsund nemendur við HÍ þar sem flestir eru skráðir. Það segir sig sjálft að 5 af þessum íslensku háskólum eru einhvers konar gerviháskólar, þ.e. ekki með stöðu ,,universitets" nema þá til að geta greitt kennurum prófessorslaun: Í stað þess að borga kennurum eðlileg laun eru stofnaðir háskólar til að fara í kringum málin. Út úr gerviháskólum kemur fólk með gervimenntun til að taka við störfum sem það veldur ekki.
Ein af neyðarlegri myndum þeirrar stórmennskugeggjunar, sem á sér djúpar rætur í vanmetakennd fólks sem skreið út úr jarðhýsum fyrir 200 árum, var þegar forráðamenn HÍ, sem kennir m.a. sálarfræði og læknisfræði, stigu á stokk og strengdu þess heit að gera HÍ að einum af 100 bestu háskólum heims (ræða háskólarektors við útskrift 2006). Ári síðar barði rektor sér enn á brjóst og fullyrti að þessu markmiði yrði náð fyrr en gert hefði verið ráð fyrir. Svo kom HRUNIÐ. Fyrsta alþjóðlega könnunin eftir þessa makalausu og ógrunduðu yfirlýsingu sýndi að HÍ var langt frá því að komast á blað yfir 200 bestu háskóla í heimi. Allir bestu háskólarnir reyndust vera í Bandaríkjunum.
Um svipað leiti (2006) rauk þáverandi utanríkisráðherra upp eins og rassbrenndur og taldi sjálfsagt að fulltrúi Íslands væri eftirsóttur í Öryggisráði SÞ. Og það er til marks um firringuna í embættis-mannaliðinu að undir þetta tók jafnvel fólk sem ekki var undir annarlegum áhrifum. Í þessa geggjun var sóað nokkur hundruð milljónum króna og það eina sem kom út úr málinu, auk þess að gera þessa montnu dvergþjóð norður í rassgati að alþjóðlegu athlægi, var að ambassadorinn í Washington var dreginn í hálfa stöng og gerður að sendiherra í Þórshöfn í Færeyjum!

Ólafur Sigurðsson fyrrverandi fréttamaður, einn af fáum íslenskum blaðamönnum sem hefur færni til að fylgjast með því sem er að gerast á alþjóðlegum vettvangi, hefur bent á þá merkilegu staðreynd að þjóðartekjur á hvern íbúa Íslands eru miklu hærri en á hvern íbúa ríkustu olíuríkja Arabíuskagans þar sem velmegun er almenn og engir skattar innheimtir af almenningi. Af því má ráða hve miklu er stolið og sóað í íslensku atvinnulífi - ekki síst í útgerð sem nýtir náttúruauðlind ókeypis en safnar samt skuldum!

Hvernig skyldi íbúum Malmö verða við væri þeim gert að reka íslensku utanríkisþjónustuna upp á eigin reikning? Og hvað hefur þessi utanríkisþjónusta unnið sér til frægðar, ef frá er talið bumbubarningur Jakobs Magnússonar og aðstoðarfólks í London um árið, sem komst auðvitað á síður blaðanna og gerði þessa klikkuðu dvergþjóð að viðundri eina ferðina enn.

En svo kom HRUNIÐ - óumflýjanlega - og montspilaborgin féll. Í ljós kom að öllu steini léttara hafði verið skipulega stolið af þjóðinni undir styrkri stjórn stjórnmálastéttarinnar.Og samt reyndu ráðherrar að ljúga því að erlendum fjölmiðlum, fram á síðasta dag, að gagnrýni danskra fjölmiðla ætti ekki við rök að styðjast - væri jafnvel sprottin af öfundinni einni. Er nú von að maður hafi ekki hátt um það í útlöndum hvaðan maður sé?

16. des. 2010
Leó M. Jónsson:
Ekki eru ýkjamörg ár síðan ég heimsótti FRAM-verksmiðjuna í Cardiff í Welsh en hún framleiðir síur af öllum gerðum fyrir bíla, vélhjól, vinnuvélar, flugvélar, önnur vélknúin tæki auk sía fyrir glussakerfi. FRAM er bandarískt fyrirtæki og stærsti framleiðendi sía í heiminum. Verksmiðjan í Cardiff annar markaðnum í Norð-Vestur Evrópu. Áhugavert var að fá að fylgjast með framleiðslunni, sem er eins sjálfvirk og hægt er að hugsa sér. Gæðaeftirlitið er að mestu leyti sjálfvirkt, byggt upp af leysigeislum og tölvubúnaði og einnig pökkunin í umbúðir og flutningur í birgðageymslu. Hæfileikar mannsins eru nýttir til að prófa með slembiúrtökum hvort varan standist kröfur gæðastaðla. Afköstin eru gríðarleg og framleiðnin með ólíkindum. Það sem vakti athygli mína og annarra gesta var að af einu færibandinu runnu smur- og loftsíur málaðar í svörtum lit með merki Rolls-Royce og fóru yfir á annað færiband þar sem róbóti smeygði þeim í svartar Rolls-Royce-umbúðir. Á næsta færibandi voru síur merktar Perkins, á þarnæsta síur merktar Ford. Allar síurnar, hvort sem þær voru málaðar appelsínugular með FRAM-merki eða merktar einhverju öðru fyrirtæki komu upphaflega úr sömu framleiðsluvélunum.

Ég hafði séð nákvæmlega sama háttinn hafðan á hjá Bendix-bremsuhlutaverksmiðju í Bandaríkjunum - þar voru sömu bremsukjálkarnir ýmist merktir BENDIX, Rolls-Royce, Ford eða öðrum. Þriðja dæmið: TurboHydramatic sjálfskiptingar hafa í áratugi farið beint af færibandinu hjá GM í Rolls-Royce-bíla í Bretlandi (af því RR hefur ekki fengið neinar betri).

Hér heima hafa bílaumboð reynt að telja fólki trú um að væri ekki notaðir vara- og rekstrarhlutir, sérstaklega merktir sem frumbúnaður (Genuine) við viðhald bíla á ábyrgðartíma gæti það ógilt verksmiðjuábyrgðina. Umboðunum er ekki stætt á þessu. Það sem meira er þau kaupa sjálf varahluti í stórum stíl, sem ekki eru merktir sem frumbúnaður og nota á eigin verkstæðum og selja sem varahluti. Það er einmitt gegn þessum óréttmætu viðskiptaháttum (blekkingum) sem svonefnd BER-reglugerð Evrópusambandsins var samþykkt fyrir nokkrum árum að bandarískri fyrirmynd. Aðalatriði hennar má nálgast í íslenskri þýðingu L.M.J. B.E.R.-reglugerðin. Sjálfa reglugerðina má nálgast á Netinu á ensku og er það áhugaverð lesning. Margir stjórnendur bílaumboða hérlendis hafi ekki haft fyrir því að lesa þessa reglugerð, sem Ísland er aðili að, þótt þeir þyrftu þess og sumir bráðnauðsynlega.

9. des 2010
Leó M. Jónsson:
Ég hef lengi haft illan bifur á Árna Finnssyni sem titlar sig formann Náttúruverndarsamtaka Íslands. Hann hefur m.a. margoft verið spurður, t.d. í ,,Bréfum til Morgunblaðsins" hve margir félagar séu í þessum samtökum sem hann segist veita forystu. Hann hefur einnig verið beðinn að nefna einhverja sem sitja með honum í stjórn samtakanna. Hann hefur alltaf komið sér hjá því að svara þessu öðru vísi en með einskisnýtum útúrsnúningi. Hann sækir ráðstefnur (jafnvel sem fulltrúi Íslands?) erlendis og er fastur álitsgjafi hjá kommunum á fréttastofu RÚV. Nú hefur fréttaveitan Wikileaks afhjúpað Árna Finnson sem umhverfisfasista; - mann sem biður erlend ríki að beita sér gegn hagsmunum okkar Íslendinga til að stöðva löglegar hvalveiðar (meira að segja meig hann utan í bandaríska sendiherrann - en Bandaríkin eru eitt af fáum ríkjum sem stunda hvalveiðar í atvinnuskyni á norðlægum slóðum, að því sagt er til að vernda lífsskilyrði frumbyggja). Ljóst er að Árni Finnson greiðir ekki kostnaðinn af því að sækja erlenda fundi eða halda uppi starfsemi hér heima með peningum úr eigin vasa. Hann er greinilega styrktur til þess, jafnvel af okkur skatt-
greiðendum! Viðbrögð hans við eðlilegum spurningum um Náttúruverndarsamtök Íslands eru þess eðlis að mann grunar að hann sé eini meðlimurinn og stjórnin sé hann einn. Samtök, jafnvel sem ekki þyggja styrki af opinberu fé, hafa verið rannsökuð opinberlega af minna tilefni.
Þegar Ástþór Magnússon, sem er m.a. atvinnuflugmaður að mennt, benti á þá augljósu staðreynd að vera Íslands á lista yfir ríki vinveitt innrás Bandaríkjanna í Írak á sínum tíma, yki hættu á hryðjuverkum gagnvart íslenskum flugfélögum, stóð ekki á yfirvöldum lögreglu- og dómsmála og Ástþór var hnepptur í varðhald! Ástþór hafði þó ekki gert annað en að benda á rökrétta afleiðu ,,stríðsyfirlýsingar" gagnvart erlendu ríki - hans ummæli áttu ekkert skylt við landráð. Ekki verður sama sagt um Árna Finnson: Lögspekingar munu skipa honum á bekk með forsprakka Sea Shepherd-samtakanna sem er eftirlýstur glæpamaður m.a. fyrir skemmdarverk hérlendis.
Ég legg til að Árni Finnsson, sem er einráður í sínum samtökum, og nú er hvort eða er búinn að vera, taki niður grímuna og breyti heiti samtakanna í Ónáttúruverndarsamtök Íslands.

----------------------------------------------------------------
7. des. 2010
Leó M. Jónsson

 

MYNDIR ÞÚ KAUPA
NOTAÐAN BÍL AF
ÞESSUM MANNI ?


Ljósmynd: www.thismoney.co.uk/

 

 

 

---------------------------------------------------------------------------------

6. nóvember 2010
Leó M. Jónsson:
Árið 1999 skrifaði ég grein sem, merkilegt nokk fékkst ekki birt í Morgunblaðinu, undir fyrirsögninni ,,Opinbert fikt við vísitölur." Tilefnið var að forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands (sem þá var Tryggvi Þór Herbertsson) hafði skömmu áður framið þau ,,helgispjöll" að fullyrða í fjölmiðli að útreikningur á hinum ýmsu vísitölum, sem stjórnvöld fælu völdum stofnunum, væri gagnrýni verður. Þá stukku óðara til a.m.k. 2 varðhundar KERFISINS og ,,geltu fyrir húsbóndann". Annar þeirra var hagstofustjóri sem sagði Tryggva fara með bull og fleypur. Ég sendi því bréf til Morgunblaðsins þar sem ég óskaði eftir því að forstöðumaður Hagfræðistofnunar HÍ svaraði spurningum til að skýra hvað hann hefði átt við með þessum ákveðnu ummælum. Þessi seinheppni forstöðumaður Hagfræðistofnunar H.Í. (sem á þeim tíma virtist ekki gera sér fyllilega grein fyrir því í hvaða landi hann var staddur) lýsti því m.a. yfir í svarbréfi til Morgunblaðsins að til stæði að halda sérstaka ráðstefnu á vegum Hagfræðistofnunar Háskólans um útreikning og meðferð vísitalna. Sú ráðstefna var auðvitað aldrei haldin því Háskólanum er hollt að hafa sig hægan: Frá stjórnvöldum koma peningarnir!

Hvers vegna var þessi snefsni út af jafn daglegu brauði og vísitölu? Það er vegna þess að stjórnvöld, nánara tiltekið Fjármálaráðuneytið fyrir hönd ríkissjóðs, hafa lengi notað falsaðar vísitölur til fjáröflunar, t.d. við útreikning og innheimtu verðbóta af fasteignalánum þorra almennings. Að geta gengið að því gefnu að lánskjaravísitala, byggingarvísitala, neysluvöruvísitala og fleiri hentug smáatriði séu frekar reiknaðar í hærri kantinum (ef ekki beinlínis af pantaðri stærð) þýðir að hundruð milljóna mokast sjálfvirkt í ríkissjóð með alls konar innheimtum gjöldum af almenningi, svo sem verðbótum, lægri endurgreiðslum, styrkjum o.s.frv. Hrunið 2008 hefur m.a. gert það að verkum að almenningur veit nú betur en áður hvernig hann er plokkaður með pólitískri glæpamennsku.

Almenningur gerði sér tæplega grein fyrir þeim stærðum sem um ræddi þegar ég skrifaði greinina 1999 og á það treystu pólitíkusar. Þegar nauðsynlegt þurfti að leggja Húsnæðismálastofnun niður (til að losna við að kæra nokkra hátt setta starfsmenn hennar til Rannsóknarlögreglu vegna misferlis) og stofna Íbúðalánasjóð, kom fram að einungis íbúðalán almennings árið 1998 voru á þriðja hundrað milljarða. Gefum okkur að þau hafi verið 220 milljarðar króna. 1 prósentustigs hækkun á lánskjaravísitölu þýddi að þessi lán hækkuðu um 2200 milljónir króna; 0.1 prósentustigs hækkun hefði þýtt 220 milljónir króna í Ríkissjóð o.s.frv. (Þetta er að sjálfsögðu aldrei nefnt í opinberri umræðu enda íslenskt ,,tabú").

Pólitíkusar vita því að miklu skiptir að hafa ,,góða menn" til að reikna út vísitölurnar. Þeir treysta því jafnframt að almenningur sé svo heimskur og dofinn að enginn fetti fingur út í það þótt hann hafi greitt hundruð þúsunda í verðbætur af húsnæðisláni á ákveðnu árabili þótt verðbólga hafi verið lítil eða engin samkvæmt sömu opinberu heimildum á sama tíma!

Auðvitað var maðkur í mysunni. Vísitölur hafa verið falsaðar í stórum stíl hérlendis hvort sem verðbólga hefur verið mikil, lítil eða engin og eru enn falsaðar en nú eftir atvikum hverju sinni (verðtrygging lána). Nú er farið miklu fínna í að falsa vísitölur en áður enda segir það sig nánast sjálft þegar tilgangurinn er að rukka almenning um verðbætur, á sama tíma og verðbólga mælist lítil eða engin.

Þetta átti Tryggvi Þór Herbertsson, þáverandi forstöðumaður Hagfræðistofnunar H.Í, líklega við þegar honum varð á að álpast inn á þetta forboðna svið íslenskrar hagstjórnar árið 1998 og varðhundarnir vöknuðu með felmtri. Núna eru miklu sérhæfðari og hámenntaðri menn að fást við vísitölurnar og útreikningur þeirra er orðinn að sams konar ,,vísindum" og fiskifræðin hjá Hafrannsóknastofnun - þ.e. vísindi sem hvorki þola né þarfnast gagnrýni. Og þá er tími til að spyrja - eru það vísindi eða ,,lifandi trú" ? Vísitölur og útreikningur þeirra er því ,,tabú" á Íslandi eins og gjarnan vill verða þegar tilgangurinn er sá að féfletta pöpulinn og allir, sem ættu að reisa upp viðvörunarskilti, gera það ekki vegna þess að þeir hafa fjárhagslegra hagsmuna að gæta, græða á verðtryggingu sem byggð er á fölsun vísitalna. Ríkið, bankarnir, lífeyrissjóðir og jafnvel verkalýðshreyfingin hafa verðtrygginguna sem axlabönd til viðbótar beltinu. Þess vegna greiðir íslenskur almenningur hæstu vexti í heimi á sama tíma og bankar og lánastofnanir tapa milljörðum.

Næsta pistlaröð á undan

Eldri pistlar

Til baka á forsíðu