Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar

Mín skoðun


12. Október 2010
Leó M. Jónsson:
Ég hef áður í þessum pistlum lýst þeirri skoðun minni að pólitíkusar hafi löngum treyst því að almenningur sé svo heimskur að ljúga megi að honum hverju sem er og endalaust. En þar hefur þeim skjöplast á skötunni, eins og sagt er. Það er að sannast þessa dagana, sem aldrei fyrr, að heimskan hamlar pólitíkusum miklu meira en almenningi. Almenning hefur lengi og í vaxandi mæli grunað pólitíkusa um heimsku. Á síðustu 2 árum hefur hann fengið það staðfest og vottað (í beinum útsendingum) að pólitíkusar eru, með örfáum undantekningum, andlegar liðleskjur (aular), verktækni þeirra er á sama stigi og smábarna í sandkassa, árangursleysið er skipulega falið með lygi, þeir eru, með nokkrum áberandi undantekningum, tækifærissinnaðir, óheiðarlegir - og á þingi sitja jafnvel dæmdir þjófar. Almenningur lítur á þingmenn sem ákveðna óværu - pólitíska stétt; hagsmunahóp sem þrífst á ranglæti, sjálftöku og valdníðslu svo sem lífeyrisréttindum langt umfram almenning, vistun (fyrir mestu drullusokkana) á lúxuselliheimilum ríkis-aðalsins, m.a. í sem gæludýr í gervistofnunum og í sendiráðum.

Sú lítilsvirðing og dónaskapur sem ráðamenn hafa sýnt almenningi á undanförnum árum er ótrúleg. Nokkur dæmi: Neytendastofa sett á laggirnar í framhaldi af handónýtum lögum um neytendavernd. Þar hlaðast óleyst verkefni upp og skjólstæðingum mætt með skætingi. IceSave-lausn Steingríms/Jóhönnu/Svavars, algjört pólitískt klúður, sem átti að þrýsta í gegn um þingið án þess að þjóðin fengi að vita hvað hún væri að kalla yfir sig (logið án þess að depla auga). Dónaskapur forsætisráðherra sem lítilsvirti rétt þjóðarinnar til kjósa um IceSave-klúðrið. Og nú er enn einni blekkingarstofnuninni slett í lýðinn: Umboðsmaður skuldara (í framhaldi af annarri gagnslausri stofnun - Ráðgjafarstöð heimilanna) sem almenningur nennir ekki að leita til því hann veit að sú fyrirhöfn er vita-gagnslaus fyrir þá sem þurfa á raunverulegri aðstoð að halda: Endalaus eyðublöð, kjaftháttur og prump enda víkja ríkisstofnanir ekki tommu frá sínum kröfum hvaða nafni sem þær nefnast sem sýnir ágætlega vinnubrögðin á bak við svona ,,leiktjöld".

En nú hefur almenningur fengið nóg. Kommastjórnin sem nú gnauðar á kostum þjóðarinnar og hefur logið hlutfallslega meiru en nokkur forveri hennar (og er þá ekki litlu til jafnað), er kornið sem fyllti mælinn: Kannanir á stöðu og fyrirætlunum þeirra, sem nú bíða lokauppboðs á fasteignum sínum og birtar eru í fjölmiðlum eru ákaflega skýr skilaboð til ríkistjórnarinnar: Hún getur stungið þessum síðbúnu ,,úrræðum" sínum þversum upp í rassgatið á sér!

Þar með hefur almenningur loks tekið ,,völdin" í landinu - og hefði mátt vera fyrr. Nú munu bankarotturnar bókstaflega kafna í eignum sem verða þeim að því minna gagni sem þær verða fleiri. Með því að kasta þessu í bankana, sem hafa hagað sér eins og sjakalar gangvart almenningi í umboði ríkisstjórnarinnar, verða þeir jafn óstarfshæfir og hún.Þjóðargjaldþrot, ný valdstjórn og uppstokkun mun fylgja í kjölfarið. Hvort það verður til að leysa einhver vandamál má sjálfur fjandinn vita. Það sem almenningur veit hins vegar og sýnir nú með auknum skipulögðum mótmælum í verki er að ástandið getur ekki versnað þótt við losum okkur við það glæpahyski sem leitt hefur okkur fram á brúnina.

Mín skoðun

28. September 2010
Leó M. Jónsson:
Stjórnvaldsaðgerðir hafa oft verið svo óréttlátar og ósvífnar í garð almennings að engu er líkara en að æðstu ráðamenn þjóðarinnar og ráðgjafar þeirra, embættismennirnir, hafi fyrir löngu sannfærst um að íslenskur almenningur sé svo nautheimskur að hann láti bjóða sér allt. Nú er að renna upp fyrir mér, heimskum manninum, að þessu mun líklega öfugt farið. Búsáhaldabyltingin, sem losaði okkur í einni svipan við ríkisstjórn duglauss lúða (fengum að vísu duglausa lúðu í staðinn), og fyrirhugaðar aðgerðir fjármálaráðherra núverandi óstjórnar, sýna að það er ekki almenningur sem er svona heimskur, heldur seinþreyttur til vandræða vegna manneklu - hvaða fólk með viti fæst í framboð? Það eru æðstu ráðamenn þjóðarinnar, pólitíska stéttin, sem er svona gjörsamlega ga - ga.

Dæmið um væntanlega skattlagningu sparnaðar (fjár sem búið er að skattleggja margfalt áður í mynd tekjuskatts, virðisaukaskatts, stimpilgjalds, bensíngjalds o.s.frv.) - en maður þarf ekki einu sinni að vera hagfræðingur til að vita að einungis heimskingjar skattleggja sparnað og einungis idjót skattleggja sparnað þannig að hann beri neikvæða vexti - eins og nú mun vaka fyrir þúfnabananum að norðan.

Hann fattar greinilega ekki að við gamlingjarnir erum enn með eitthvað virkt á milli eyrnanna: 94ra ára gömul kerling sem ég þekki til tók milljónir út úr bankanum, setti hluta af því undir koddann, keypti sér nýja eldhúsinnréttingu í IKEA og mánaðar-reisu um Karabíska hafið á lúxusskipi - enda sagðist hún ekki treysta bönkum - og allra síst sagðist hún treysta Landsbankanum, sem hafði logið út úr henni eina milljón til kaupa á hlutabréfum í ,,Nýjum Landsbanka," - sem hún tapaði eins og hendi væri veifað. Af öllum bönkum, í hvaða eigu sem þeir kynnu að vera, sagðist hún síst treysta Landsbankanum. Hún sagðist ekki vera ein um það eftir að þjónustufulltrúar LÍ sóttu skipulega hundruð milljóna í handraðann hjá gömlu fólki sem ekki þekkti Landsbankann öðru vísi en sem sjálfseignarstofnun á ábyrgð ríkisins en ekki sem svikamyllu undir stjórn bankstera.

Það litla sem ég átti sjálfur í banka notaði ég til að kaupa margt sem mig vantaði og hafði ekki tímt að kaupa fyrr en nú - betra að eiga góð verkfæri en að borga ríkinu fjármagnstekjur umfram raunvexti af því litla sem maður, vegna hugsunarleysis og gamals vana geymdi á bankareikningi sem ríkið er með nefið niður í.

Og bíðið bara: Ég spái því að þegar líði að áramótum fari þessi aftúrsiglari og jarðfræðidurgur, sem er fjármálaráðherra í ,,lömuðu stjórn hálfvitanna" að barma sér yfir því að eitt af stóru vandamálunum sem við sé að eiga í íslenskum efnahagsmálum sé ,,hinn ört minnkandi sparnaður". Og þá hækkar hann örugglega vextina því hann kann ekkert annað - veit ekki að almenningur kemur ekki með neina peninga í bankana - einungis þeir ríku, þeir sem eiga trygg skuldabréf og hafa grætt (verðbætur) á fölsun vísitölunnar og of háum vöxtum fá þannig yfirfært enn meira frá almenningi yfir í sína hít. Og hvernig á að fjármagna það? Þar skortir durginn ekki hugmyndaflug: Lækka skattleysismörk, hækka innritunargjöld á sjúkrahús, hækka virðisaukaskatt, draga úr styrkjum til tannviðgerða barna o.s.frv. Engin hætta er á að hugmyndaflug lækki að því marki að farið verði að ræða um sparnað í opinberri stjórnsýslu enda er ekki tæknilega framkvæmanlegt að leggja niður og spara þjónustuna á Vogi samtímis því að loka sendiráðum erlendis!

11. september 2010
Leó M. Jónsson:

Eins og sjá má á dagsetningum pistlanna hefur þeim fækkað. Ástæður eru tvær. Ég nenni ekki að skrifa um íslenska pólitík lengur og ég er farinn að verja meiri tíma í áhugamál sem of lengi hafa setið á hakanum , svo sem óuppgerðir gamlir bílar. Þótt ég sé orðinn hundgamall og hættur að kippa mér upp við flest er ég að reyna að forðast að verða einn af þessum gömlu fretkörlum sem allt hafa á hornum sér - en eitt einkenni þeirra er að þeir eru hættir að verða hissa. Hafi maður unnið við að fylgjast með þróuninni í bílaiðnaðinum og bíltækni, jafnvel í áratugi, fer ekki hjá því að maður sjái gengna þróun í bylgjum, ýmist niður á við, stöðnun eða framfarir. Bílar frá ákveðnum tímabilum finnast mér leiðinlegri en frá öðrum, - jafnvel eftir þjóðerni framleiðandans. Á tímum hefur mér verið farið eins og flestum öðrum að finnast t.d. allir amerískir bílar eins. Fyrir um 8 árum sótti ég sem oftar alþjóðlegu bílasýninguna í Genf. Eins og fleirum varð mér starsýnt á einn af nýjum bílum frá General Motors. Í Buick-deildinni nefndist hann Rendezvous en einhverju öðru nafni í Pontiac-deildinni. Þetta er einhver ljótasti bíll sem ég hef augum litið, átti að vera einhvers konar sambland af jepplingi, station og fjölskyldubíl. Afstyrmið leit út eins og honum hefði verið hnoðað saman úr afgöngum í einhverri blikksmiðju. Skömmu seinna var aðalforstjóri GM (Robert Stempel) rekinn. Þessi bíll var kosinn ljótasti bíll allra tíma, að mig minnir, af tímaritinu Motor Trend. Mér kom ekki á óvart þegar farið var að ræða í alvöru um gjaldþrot þessa risafyrirtækis sem GM er - þessi bíll æpti bókstaflega á mann að fyrirtækinu væri stjórnað af mönnum sem ekki væru í neinum tengslum við bíla eða bíleigendur. Þótt það hafi blasað við í 20 ár að það eina sem bjargað gæti bandarískri bílaframleiðslu væru hagkvæmir smábílar, sem keppt gætu við minnstu bíla Japana, hefur lítið heyrst af hreyfingum í þá átt nema ef vera skyldi samvinna GM og DaimlerChrysler við Fiat (sem er frægast fyrir að framleiða lélega smábíla og á ekkert annað eftir en að pakka saman og hætta þessu streði). En nú virðist hins vegar hafa orðið merkilegur viðsnúningur hjá GM og grunar mig að þar hafi ráðið sjónarmið hins háaldraða ,,unglings" Bob Lutz sem hefur bjargað risunum þremur frá stöðnun, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, á sl. 50 árum. Lausnin virðist hafa verið í því fólgin að hefja í fullri alvöru hátæknilega bílaframleiðslu í stórum stíl og í samvinnu við Daewoo í Suður-Kóreu - enda hafa S-Kóreumenn sýnt að engir geta keppt við þá í verði og gæðum bíla (Dæmi: Gæði Hyundai mælast nú meiri í Bandaríkjunum en Toyota).
Tilviljun olli því að ég hafði til umráða á meginlandi Evrópu um tíma nýjasta smábílinn frá Daewoo, Chevrolet Spark (sem mér hætti til að kalla Start) - 80 hestafla vöðvabúnt í vasabroti sem ég spái að eigi eftir að koma jafn mörgum skemmtilega á óvart og mér. Gæti trúað að upp væru runnir nýir tímar í bílaframleiðslu og innan tíðar myndu flestir framleiðendur verða komnir á fulla ferð að keppa við Start. Framtíðin í bílaiðnaði er, eins og ég hef áður spáð, í Suður-Kóreu og Kína. Tækninýjungarnar munu koma frá S-Kóreu, fjöldaframleiðslan frá Kína en bílar verða keyptir en ekki framleiddir í Bandaríkin, Evrópu og Japan.

20. ágúst 2010
Leó M. Jónsson: Frá því ég byrjaði að skrifa greinar í blöð og tímarit, en það var um 1974, hef ég verið að læra íslensku; - reynt að skrifa skiljanlegan texta og endurbæta hann með tilraunum, yfirlestri, mismunandi uppsetningu og með leiðbeiningum mér færari einstaklinga (m.a. góðra prófarkalesara). Í skólum hér heima hafði ég 3 íslenskukennara sem kenndu mér að gagni (ég lærði lítið af málfræðistagli). Þeir heiðursmenn voru Erlendur Jónsson og öðlingurinn Hjálmar Ólafsson í Gagnfræðaskóla Austurbæjar og seinna Bjarni Einarsson (Eglu-sérfræðingur) í Vélskólanum en Bjarni lagði áherslu á einfaldan stíl og var óþreytandi að benda á góðar bækur og höfunda sem mætti læra af. Hann var líka óspar á athyglisverð dæmi.

Sem greinahöfundur í Dagblaðinu (og DV) um árabil naut ég góðra ráða Hauks heitins Helgasonar hagfræðings og aðstoðarritstjóra; lærði margt af honum og gat jafnframt treyst á vandaðan prófarkalestur á þeim bæ. Ég var lengi blaðamaður og ritstjóri hjá Frjálsu framtaki, seinna Fjölni og Fróða. Hjá þeim útgáfum var sérstök áhersla lögð á vandaðan prófarkalestur. Árum saman átti ég mjög góða samvinnu við þær stöllur, sem lengst af önnuðust prófarkalesturinn af kunnáttu og kostgæfni; íslenskufræðingana Þórunni Hafstein og Guðlaugu Konráðsdóttur.

Ekkert kemur í stað prófarkalesturs. Fáum textahöfundum tekst að hreinsa allar villur úr texta með eigin yfirlestri og mun þar mannlega þættinum um að kenna. En þrátt fyrir vandaðan yfirlestur fagfólks geta slys gerst. Skrár geta víxlast, týnst, skemmst o.s.frv. Verst er þó þegar einhver, sem kann minna í íslensku en höfundur og prófarkalesari, breytir texta á síðasta stigi fyrir prentun - og án þess að spyrja hvorki kóng né prest. Nöturlegast er þegar fyrirsögnum er breytt án samráðs því margur lesandi eignar þær greinarhöfundi.

,,Á þessum stað voru lögð á ráðin ...". Þessu breytti einhver snillingur, án samráðs við mig, í ,,Á þessum stað var lagt á ráðin ...". ,,Hann hafði lengi verið á vonarveli" (gengið með betlistaf) var breytt í ,,Hann hafði lengi verið á vonarvöl.
Ég hafði sett sem fyrirsögn ,,Íslenskar ,,olíulindir" og átti þar við möguleika á nýtingu hauggass. Af einhverjum ástæðum fjarlægði prófarkalesari gæsalappirnar sem gerði fyrirsögnina afkáralega.
Sami prófarkalesari spillti setningu með því að breyta réttu falli - þannig varð setningin mín; ,,minni hættu stafar af metangasi en vetni" að hortittinum; ,,minna hætta stafar af metangasi en vetni" (algeng málvilla). Nefna mætti fleiri dæmi því af nógu er að taka. Tvennt vil ég þó nefna í lokin: Nú virðist sparnaður í rekstri fjölmiðla hafa leitt til þess að prófarkalestur hefur lagður niður með öllu eða falin fólki sem ekki veldur verkefninu. Sé sú ályktun mín rétt kvíði ég afleiðingunum.
Svonefndur Púki, en það er leiðréttingarforrit, er gallað vegna vanþekkingar höfunda. Of margar villur eru í því og lítið virðist fara fyrir endurbótum. Sem eitt dæmi nefni ég orðið ,,unnvörpum" (í stórum stíl) en það vill Púkinn leiðrétta með ,,umvörpum."

Áratugum saman hefur hluti af starfi mínu verið þýðingar á tæknimáli eða samning tæknileiðbeininga. Margir virðast telja tæknimál erfiðara viðfangs vegna meintrar orðafæðar íslensku, ekki síst varðandi tækni. Mín reynsla er önnur:Til er, að mínu mati, mun verrri texti að þýða en sá sem fjallar um tæknileg efni - verstur er íslenskur texti sem fjallar um pólitískar kreddur (umhverfisfasismi og feminismi eru 2 dæmi) sem þarf að þýða á erlent tungumál. Ég hef yfirleitt ekki átt í erfiðleikum með tæknina og þakka það sæmilegri þekkingu og reynsluá tæknisviðum og einfaldra reglna, sem ég hef reynt að temja mér:
Í fyrsta lagi nota ég mælt mál en sleppi slettum.
Í öðru lagi forðast ég nýýrði sem ekki eru gegnsæ.
Í þriðja lagi reyni ég að forðast teprulegt málfar. Nokkur dæmi: Bíll er betra en bifreið eða bifvél, bolti er betra en knöttur, rör er betra en pípa/æð, kúpling er betra en tengsli, glussi er betra en þrýstivökvi o.s.frv.). Málhreinsun er ekki hlutverk þýðanda frekar en að kennsla í íslensku - til þess eru íslenskukennarar. Málhreinsunarmönnum, sem stundum gerast dálítið öfgakenndir, mætti benda á að orðið ,,háskóli" er danska! Leiðinlegastir þykja mér gagnrýnendur sem eru að hamast gegn málfari og tískubylgjum yngri kynslóðarinnar eins íslensku stafi mestri hættu úr þeirri átt (sem er fjarri lagi). Engu er líkara en verstu kverúlantarnir hafi fæðst gamlir með fullnaðarpróf í málinu.
Hlutverk þýðanda, sem atvinnumanns, er að breyta upplýsingum á erlendu máli í skiljanlega íslensku. Jafnframt ber þýðanda að gæta þess að flytja ekki ábyrgð frá framleiðanda yfir á seljanda með röngu orðavali, orðaröðun, tvíræðni eða óljósri meiningu. Nefni tæknilegar leiðbeiningar um samsetningu hluta, notkun þeirra og öryggismál í því sambandi.

14. ágúst 2010
Leó M. Jónsson:
Hvers vegna kemur mér ekki á óvart að ráðherrann, sem síðast var staðinn að því að ljúga að þingi og þjóð, var ekki látinn taka pokann sinn?
Hvers vegna kom mér ekki á óvart að nefndin, sem nú síðast var skipuð til að rannsaka Magmna-braskið með orkulindir, er skipuð fólki sem er fyrirfram hlutdrægt (handvalið)?
Hvers vegna kemur mér ekki á óvart að enn sé verið að ræða um frekari skattheimtu almennings, m.a. hækkun erfðafjárskatts (af eignum sem hafa verið margskattaðar á æviferli launafólks)?
Hvers vegna kemur mér ekki á óvart þótt ekkert verði úr digurbarkalegum yfirlýsingum stjórnvalda um að skatta skuli hækka á þeim sem meira megi sín?
Hvers vegna kemur mér ekki á óvart þótt eldsneyti, sem olíufélög selja hérlendis, sé lakara að gæðum en á meginlandi Evrópu, verðlagning matvara miklu hærri, lyfjaverð allt að fimmfalt og vextir miklu hærri en annars staðar?
Mér kemur heldur ekki á óvart þótt við búum við réttarkerfi sem er fjandsamlegt almenningi, svo lengi sem það þorir, og að frægir dómar þess gegn almennum borgurum hafi verið ógiltir af erlendum mannréttindadómstólum. Almenningur hefur ástæðu til að vantreysta réttarkerfinu og líklega mun það koma enn betur í ljós áður en langt um líður (undirbúningur er hafinn að því að fá ,,rétta" niðurstöðu í gengistryggingarmálinu í Hæstarétti).
Enn síður kemur mér á óvart að almenningur skuli ekki treysta bankakerfinu og að eldri borgarar taki sparifé sitt út úr bönkum og komi fyrir í öruggari geymslu til að varna því að skúrkar bankanna steli skipulega af því með alls konar blekkingum (t.d. með upplognu gengi hlutabréfa sem er ótrúlegt hjá menningarþjóð í Vestur-Evrópu á 21. öld).
Ekki kemur mér á óvart að gamalmenni, með ellilífeyri sem einu tekjur, skuli vera ætlað að lifa á þeim þótt upphæðin sé lægri en opinber lágmarkslaun í landinu - ekki nóg með það heldur þarf ellilífeyrisþeginn að greiða opinber gjöld af ,,ölmusunni" og hefur til ráðstöfunar innan við 90 þús. kr. á mánuði.
Mér kemur ekki á óvart þótt utanríkisráðherra sé staðinn að því að ljúga opinberlega í Brussel
að viðmælendum varðandi ES-mál og staðinn að verki af fjölmiðlum í Brussel, því íslensk pólitík er fyrst og fremst lygi og blekkingar. Það hefur forsætisráðherra hamast við að staðfesta frá því hún álpaðist í þetta embætti, sem hún veldur ekki, en safnar lífeyrisréttindum sem eru langt umfram það sem almenningur í landinu nýtur.
Ég er er sannfærður um að Danir hefðu reynst okkur betri lénsherrar en þetta forspillta pakk, hvaða flokki sem það tilheyrir, sem breytt hefur gjaldmiðli þjóðarinnar í maðkað mjöl.

22. júlí 2010
Leó M. Jónsson:
,,Rútuslys í Reykjadal. Gömul rúta með 17 farþega á leið að Mývatni valt eftir að bremsur gáfu sig í brattri brekku skammt frá Einarsstöðum". Það fylgdi fréttinni að farþegar slösuðust, sumir alvarlega en enginn lét lífið, sem betur fer (að þessu sinni). Ég hef margoft vakið athygli á að hérlendis eru í notkun eldgamlar og stórhættulegar rútudruslur. Næstum því á hverju sumri lenda þessir safngripir í óhöppum úti á þjóðvegunum - oftast með fullfermi af erlendum ferðamönnum. Þessi gamla drusla sem valt í Reykjadalnum mun hafa farið í gegn um skylduskoðun nýlega án þess að nokkuð fyndist athugavert við bremsukerfi hennar. Samt segja fjölmiðlar að talið sé að bremsur hennar hafi ofhitnað og brugðist. Venjulegt fólk þekkir ekki tæknileg atriði glussabremsa. Því finnst einkennilegt að gömul rúta skuli fá fulla skoðun en bremsur hennar skuli svo gefa sig skömmu seinna þegar á þær reynir. Venjulegt fólk túlkar svona fréttamennsku sem svo að verið sé að gefa í skyn að þessi rúta hafi sloppið í gegn hjá einhverri skoðunarstöð, af einhverjum óeðlilegum ástæðum, með hálfónýtar bremsur. En svo þarf alls ekki að vera þótt bremsur rútunnar kunni að hafa verið stórhættulegar. Hvers vegna? Það er vegna þess að við hefðbundin skoðun bíla hérlendis, og þá sérstaklega atvinnutækja, er ábótavant, m.a. vegna þess að rakastig bremsuvökva er ekki mælt. Ég hef ótal sinnum varað fólk við og bent því á að í handbókum sem fylgja bílum er skýrt tekið fram að endurnýja skuli bremsuvökva á 2-3 ára fresti. Svo virðist sem bílvirkjar séu smám saman að taka við sér hvað þetta varðar - en mér er kunnugt um gamalreynda bílvirkja sem hafa fullyrt að þetta sé bara rugl og della úr mér.
Málið er að við skoðun virka bremsur gamallar rútu eðlilega vegna þess að þær eru kaldar. Trassaskapur kann að valda því að í bremsukerfinu er gamall glussi mettaður raka. Þegar þessi gamla rúta fer niður langa brekku (bílstjórinn kann ef til vill ekki að beita gírunum til að láta vélina halda við) og bílstjórinn stendur á bremsunni myndar viðnám á milli borða og skála, diska og dælu hita. Við það hitnar bremsuvökvinn. Sé hann mettaður raka sýður hann við mun lægra hitastig en ella, gufa myndast í hjóldælum og bremsurnar ,,detta af " rútunni. Daginn eftir virka bremsurnar eðlilega vegna þess að þær hafa náð að kólna.
Ég geri mér ekki miklar vonir um að þessi enn ein grein mín um þetta mál breyti miklu því hér ráða ,,besserwisserar" með leðurhlustir. En vonandi holar dropinn steininn og vonandi verður eftirlit með þessum druslum, sem braskarar í ferðagreininni draga fram á vorin, hert áður en fleiri dauðaslys (því þau hafa orðið) verða vegna rakamettaðs bremsuvökva sem trassað hefur verið að endurnýja í tæka tíð.

13. júlí 2010
Leó M. Jónsson:
Í tilefni nýjustu frægðarverka íslenskra pólitíkusa, mér liggur við að segja drullusokka, - sem nú ætla að selja af auðlindum okkar erlendum bröskurum (á ólöglegan hátt um sænskt leppfyrirtæki) til að bjarga Reykjanesbæ sem annars yrði gjaldþrota og svo ...

Dóttir mín býr í Danmörku. Hún þarf að greiða vatnskatt (fyrir notkun blávatns) samkvæmt mæli. Hún kaus að flytja úr einbýlishúsi í íbúð í fjórbýlishúsi, m.a. vegna þess hve dýrt var að vökva gróður og blóm í garðinum til að varna því að allt skrælnaði í mestu hitunum á sumrin. Stjórnvöld, þ.m.t. sveitarstjórnir, stefna greinilega að því að koma á því fyrirkomulagi hérlendis að einhverjir geti krafist greiðslu fyrir ferskt vatn. Munurinn á Íslandi og Danmörku í þessu tilliti er þó sá að vatnsbúskapur Dana byggir að mestu leyti á nýtingu grunnvatns (regn) á meðan á Íslandi er gnægð vatns sem engin sérstök þörf er á að takmarka með sölu.

Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands trúði því að stöðva mætti taprekstur járnbrautakerfis í ríkiseign með því að selja það einkaaðilum. Og hún fylgdi þeirri skoðun sinni eftir með aðgerðum. Ekki var liðið ár frá einkavæðingunni þegar bilanir vegna skorts á forvarnarviðhaldi ullu alvarlegri röskun á almenningssamgöngum; - tafir urðu daglegt brauð. Stjórnleysi, skortur á þekkingu og skipulag ásamt stöðugum átökum einkaaðila við verkalýðsfélög átti svo sinn þátt í alvarlegum járnbrautaslysum þar sem fjöldi breskra borgara lét lífið og/eða slasaðist.

Einkavæðing orkudreifingar í Kaliforníu fyrir áratug hafði leitt til þess að hvergi í Bandaríkjunum voru rafmagnstruflanir algengari en þar. Sjálfsagt muna einhverjir enn að núverandi ríkisstjóri, Arnold Swartzenegger, var beinlínis kosinn í það embætti út á loforð um að koma raforkumálum ríkisins í viðunandi horf, m.a. með því að koma í veg fyrir að einkafyrirtæki gætu mergsogið orkufyrirtækin á sama tíma og þau tímdu ekki að halda við búnaði og kerfum.Um árangurinn má lesa á Netinu.

Á Nýja Sjálandi er raforkuframleiðslan svipuð því sem gerist hjá okkur, þ.e. fallvatn og jarðvarmi en auk þess framleiða Þeir raforku með vindrafstöðvum. Orkuframleiðslan er á vegum hlutafélags í eigu ríkisins, TransPower, en dreifing til almennra notenda var einkavædd á 10 . áratug síðustu aldar. Stærstu dreifingarfyrirtækin eru Vector (Auckland og nágrenni), Powerco (Wellington-svæðið), Orion o.fl. Stjórnunarleg mistök, græðgi og brask ásamt skorti á eðlilegu viðhaldi hjá þessum fyrirtækjum leiddu til þess að um 1300 þúsund íbúar Aucklands og nágrennis urðu að búa við algjört rafmagnsleysi samfellt í 5 vikur árið 1998. Af sömu ástæðum varð höfuðborgin Wellington (390 þúsund íbúar) rafmagnslaus dögum saman árið 2006. (Athugið að þetta eru nýtísku borgir á borð við Hamborg og Gautaborg).

23. júní 2010.
Leó M. Jónsson:
,,Guð er miskunnsamur - við góða menn," sagði sá skrautlegi Otto Katz, herprestur og ógleymanlegur karakter í sögunni af góða dátanum Sveik, - og átti auðvitað við þau sígildu sannindi að í mörgum málum er ekki sama hver á í hlut. Seðlabandastjóri var látinn gefa tóninn á fundi með fréttamönnum í morgun. Eftir að hafa tilkynnt örlitla lækkun stýrivaxta (þeirra hæstu í heimi) fór hann að viðra persónulegar skoðanir sínar á nýlegum hæstaréttardómi um ólögmæti gengistryggðra lána. Hann taldi m.a. að væri dómurinn látinn standa án þess að hið opinbera fiktaði í vaxtakjörunum myndi það fara mjög illa með bankana. Viðskiptaráðherra var ekki seinn á sér að hoppa um borð hjá seðlabankastjóranum og sagðist sammál um að nauðsynlegt væri að hækka upprunalegu vextina á þessum nú óverðtryggðu lánum almennings TIL AÐ DRAGA ÚR ALVARLEGU TJÓNI BANKANNA (sem eru nýbúnir að monta sig af methagnaði).

Viðskiptaráðherra hefur hingað til ekki fundist nauðsynlegt að grípa inn atburðarrásina þótt bankar og kaupleigufyrirtæki á þeirra snærum, gengju að lántakendum með eignaupptöku eftir að hafa keyrt fólk í þrot með glæpsamlegum kröfum. Pöbulnum mátti blæða. En um leið og flett er ofan af svikahröppum á meðal stjórnenda innan banka- og fjármálageirans og við blasir að þessar stofnanir gætu þurft að standa reikniskil gerða sinna, - bera ábyrgð á umboðssvikum, fölsunum, ólöglegri vörslusviftingu, ólögmætum aðfaragerðum og öðrum lögbrotum, sem tíðkast hafa í bönkunum undanfarin ár og líkja má við kerfisbundinn þjófnað, - þá finnst viðskiptaráðherra ástæða til að taka undir spangól seðlabankastjórans: Hann telur að nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir að bankarnir þurfi að taka afleiðingum gjörða sinna, sem myndi þýða að þeir töpuðu stórfé. Hann telur nauðsynlegt að almenningur (þolandi óréttsins), sá sem þessar stofnanir brutu gegn og kostað hefur mörg heimili aleiguna, taki á sig hluta af fyrirsjáanlegu tapi bankanna! Rökin sem hann færir fram er að ríkið eigi bankana og því verði almenningur að greiða tapið af þessari mislukkuðu okurstarfsemi (honum fannst hún eiga rétt á sér - þar til Hæstiréttur snýtti honum).

Er von að spurt sé hvort ráðherrann sé með með lausa skrúfu? Er ekki eitthvað brogað við þá hagfræði sem hann hefur lært og/eða tileinkað sér? Getur verið að viðskiptaráðherrann sé svo veruleikafirrtur að hann viti ekki hvar mörkin liggja milli ósvífni og siðblindu? Getur verið að ráðherraembættið veiti honum falska öryggiskennd og því sé honum fyrirmunað að vita hvenær hann, sem stjórnvald, gengur of langt í yfirlýsingum og skapar með þeim hættuástand sem leitt gæti til mjög alvarlegra atburða, - atburða sem hann og aðrir innan valdstjórnarinnar réðu ekkert við. Dylst það einhverjum með eðlilega dómgreind að venjulegt fólk, jafnvel friðsemdarfólk, er fyrir löngu komið á suðupunkt. Viðskiptaráðherra virðist ekki skynja að hann er með yfirlýsingum sínum að ögra almenningi og beinlínis að eggja til óeirða. Við þurfum að losna við manninn strax!

19. júní 2010
Leó M. Jónsson:
Vek athygli á grein í Morgunblaðinu í gær undir fyrirsögninni ,,Við ættum að ná árangri," eftir Steinþór Jónsson bílapartasala í Reykjanesbæ og formann Félags íslenskra bifreiðaeigenda. Þar er fjallað um aukna áherslu FÍB, á undanförnum 2 árum, á umferðaröryggismál, ekki síst hvað varðar endurbætur á vegakerfi landsins (um 60% af vegakerfinu er enn malarvegir og enn eru einbreiðar brýr á Þjóðvegi nr. 1). Flestir geta verið sammála megininntaki þessarar greinar þótt í henni örli á 2007-rembingi, sem nú virkar sem bjánaskapur samanber eftirfarandi málsgrein: ,,Stærsta verkefni okkar er þó að ná árangri hér innanlands og vera leiðandi í umræðunni á heimsvísu." Það er engu líkara en að partasalinn ætli sér jafnframt að beita FÍB til að hafa vit fyrir öðrum þjóðum! Vonandi tekst FÍB að hafa áhrif á stjórn vegamála Þannig að hún breytist úr kjördæmapoti í framkvæmdir sem gagnist sameiginlegum hagsmunum þjóðarinnar með öruggara vegakerfi. Mikilla endurbóta er þörf. Ríkið tekur til sín 50-60 milljarða af bíleigendum árlega en skilar einungis rúmlega fjórðungi til baka með endurbótum á vegakerfinu. Því er löngu kominn tími til að samtök bíleigenda beiti sér í auknum mæli til að auka þrýstingi á stjórnvöld og veita pólitíkusum aukið aðhald.

15. juní 2010
Leó M. Jónsson:
Ég er þessi dæmigerði íslenski kjósandi, læt ljúga að mér takmarkalaust, ekki bara einu sinni heldur fyrir allar kosningar. Svo horfir maður á þessa andskota svíkja loforðin eins og ekkert sé sjálfsagðara. Meira að segja lét einn þeirra hafa eftir sér í útvarpi að kosningaloforð væri ekki ,,venjulegt" loforð, - sá er ráðherra í þessari ræflslegu ríkisstjórn, hann hangir að vísu á bláþræði.
Flestir eru sjálfsagt búnir að gleyma því út á hvaða loforð Steingrímur Sigfússon varð fjármálaráðherra. Því skal það ryfjað upp að þessi Íslandsmeistari í loddaraskap hét kjósendum því að standa vörð um hagsmuni þeirra gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum! Sjálfur er hann greinilega búinn að gleyma þessu loforði því nú er hann búinn að samþykkja, að kröfu AGS, að hleypa hýenunum á pöbulinn; hann var nefnilega, rétt í þessu, að samþykkja að uppboð skyldu hafin á ný! Þetta kusum við og þetta eigum við skilið.
Því miður vantaði afl frá almenningi til að krefjast þingrofs og nýrra kosninga til Alþingis í kjölfar sveitastjórnar-kosninganna nú í maí. Fáir efast um að þá hefði fjórflokkurinn hlotið makleg málagjöld. En því miður varð það ekki og því lengra sem líður frá skellinum því ósvífnari munu pólitíkusar verða (ósvífnin gagnvart kjósendum í Hafnarfirði, sem var bókstaflega sagt að halda kjafti strax daginn eftir kosningar, hlýtur þó að teljast með endemum). En allt mun sækja í sama horf - mér kæmi hreint ekki á óvart þótt Sjálfstæðisflokkurinn fengi hreinan meirihluta í næstu kosningum, ekki vegna þess að almenningur hafi gleymt því að sjálfstæðismenn stýrðu hér öllu lóðbeint til andskotans, heldur vegna þess hve vonlaus vanhæfni núverandi ríkisstjórnar er æpandi neyðarleg með Jóhönnu ,,Skjaldborg" við stýrið.

Því mun það eiga eftir að gerast enn og aftur að umhverfisfasisti verði Umhverfisráðherra. Það er nánast orðin hefð að Umhverfisráðuneytið sé álitið einskis virði í pólitísku samhengi og því sé allt í lagi að sletta því í kjaftinn á fordómafullum frekjuhundum, sjálfskipuðum náttúruverndarpostulum og/eða græningjum, til að þagga niður í þeim. Áranginn höfum við fengið að sjá hjá þremur umhverfisráðherrum í röð; ráðherrum sem hafa verið í gíslingu náttúrverndarsamtaka (sem enginn kannast við að vera meðlimur í, að undanskildum einum manni); ráðherra sem ekkert hafa gert sem að gagni kemur á nokkru sviði. Umhverfisráðuneytið er álíka pólitískur skandall og Iðnaðarráðuneytið var á sínum tíma undir stjórn Hjörleifs Guttormssonar - af öllum mönnum! Umhverfisráðherrar hafa, með glannaskap og ofstæki, tafið þær fáu stórframkvæmdir sem kostur er á og dregið geta úr atvinnuleysi. Þótt það sé nánast borin von þyrfti að veljast sem umhverfisráðherra einhver með heilbrigða skynsemi í stað lausrar skrúfu.

17. maí 2010
Leó M. Jónsson:
Ég hef ekki lesið SKÝRSLUNA og mun ekki gera - mér nægir að fylgjast með umræðum um hana. Fæst hefur komið mér á óvart. Ég fann skítalyktina af þessu samfélagi mæta mér þegar ég steig út úr flugvélinni 1969 eftir námsárin erlendis og sannreyndi síðar á sjálfum mér spillinguna og klíkuskapinn, ekki síst eftir að ég fór að gagnrýna pólitíska samtryggingarkerfið í greinum í Frjálsri verzlun og Dagblaðinu á 8. áratug síðustu aldar; ég fékk strax Kerfis-stimpilinn ,,ekki góður maður." Einhver bestu meðmæli sem ég tel mig hafa fengið var viðvörun starfsmanns ráðuneytis, þegar stungið var upp á mér í einhverja nefnd um 1980, en hann varaði við því ,,vegna þess að maður veit aldrei hvar maður hefur hann" - ég dansaði ekki eftir nótunum.

Líklega er mörgum farið sem mér að vera búinn að fá nóg af íslenskri pólitík. Ég ætla ekki að láta þetta lúðalið draga mig oftar á kjörstað. Þó myndi ég fara og kjósa byggi ég í Reykjavík og þá einungis til að kjósa Besta flokkinn - þannig finnst mér a.m.k. hægt að senda pólitíkusum verðskuldað spark í rassgatið að leiðarlokum. Vona að Jón Gnarr fái meirihluta í borgarstjórn, ekki endilega til að sýna núverandi pólitíkusum hve lítils þeir eru metnir, heldur vegna þess að mér finnst, sem upprunalegum Reykvíkingi, þeir eigi það skilið, eftir allt ógeðið á síðasta kjörtímabili, að fá að prófa fulltrúa í borgarstjórn sem ekki roðna verði þeim á að segja satt!

En maður skyldi aldrei segja aldrei. Nái Besti flokkurinn góðum árangri í sveitarstjórnarkosningunum er það ótvírætt merki um að hann eigi einnig erindi á sviði landsmála. (Á meðal þess sem skilur þá að Jón Bjarnason ráðherra og Jóni Gnarr er sá að Gnarr leikur fífl). Fari svo að Besti flokkurinn bjóði fram til Alþingis myndi ég drífa mig á kjörstað. Ég er sannfærður um að Besti flokkurinn er eina aflið í landinu sem getur losað okkur við þessa landlægu pest sem Fjórflokkurinn er. Fyrst eftir að því blóðsugukerfi hefur verið rústað er von til þess að hér megi byggja upp mannvænt þjóðfélag - sé það yfirleitt hægt!

13. maí 2010
Leó M. Jónsson: Fólk, sem var á miðjum aldri um 1980, var alið upp við að Landsbanki Íslands væri öryggið uppmálað. Starfsmenn Landsbankans voru aldrei hátt launaðir. En á árunum upp úr seinna stríði var ekki litið á mánaðarlaunin sem aðalatriðið (launin voru greidd fyrir 13 mánuði á ári) heldur mikilvægi þess fyrir fjölskyldu, sem þá hafði eina fyrirvinnu, að húsbóndinn hefði örugga atvinnu. Þetta fólk, sem nú nálgast 100 ára aldurinn, sé það enn á lífi, hafði ekki gleymt hörmungum atvinnuleysis og tilheyrandi örbirgð í kjölfar kreppunnar upp úr 1930. Því var ekki óeðlilegt að einmitt þetta fólk, sem farið hafði á eftirlaun upp úr 1975 og átti eitthvað sparifé, félli fyrir gylliboðum um að ávaxta sparifé í hlutabréfum í svo traustu fyrirtæki sem Landsbanki Íslands var enn í þeirra augum. Það sem fólkið gerði sér ekki grein fyrir var að Landsbankinn var ekki ríkisbanki, þegar farið var að selja hlutabréf í honum, heldur einkavæddur og rekinn sem hlutafélag af glæpamönnum sem nutu sérstakrar verndar þáverandi ríkisstjórnar. Aldrað fólk átti því afar erfitt með að skilja að þessi hlutabréf þess í Landsbankanum voru skyndilega orðin verðlaus. Sumt tapaði þannig öllu sparifé sínu á einu bretti annað tapaði hluta þess.
Ég veit um 92ja ára gamla ekkju sem tapaði 900 þúsund krónum á hlutabréfum í Landsbankanum, sem henni höfðu verið seld af þjónustufulltrúa sem örugg fjárfesting - þjónustufulltrúa sem gamla konan treysti. Ég veit um aðra ekkju 75 ára sem tapaði aleigunni, bæði sparifénu og húsinu sínu, vegna þess að hún treysti ráðgjöf um góða ávöxtun - og vegna þess að hún, eins og fleiri, lét blekkjast af fyrrum góðum orðstír Landsbankans (hvernig átti þetta fólk að vita að þjófagengi ynni að því nótt sem nýtan dag að ræna bankann innanfrá - undir verndarhendi stjórnvalda?).

Vestur í Húnavatnssýslu keypti fólk stofnbréf í sameinuðum sparisjóði Húnavatnssýslu og Stranda. Hann fór á hausinn. Það fólk var ekki blekkt með góðum orðstír forvera sameinaðs sparisjóðs heldur fagurgala og lygi óprúttinna hagsmunaseggja og pólitíkusa sem sátu í stjórn sparisjóðsins. Þetta fólk trúði því að það gæti efnast verulega án þess að taka nokkra áhættu (bara það hefði átt á hringja viðvörunarbjöllum).

En sá er munurinn á fólkinu, sem tapaði sparifé og jafnvel aleigunni, með því að kaupa stofnbréf í sparisjóði sem fór á hausinn eins og Landsbankinn, og ekkjunum tveimur á höfuðborgarsvæðinu, að það býr í kjördæmi þar sem hvert atkvæði hefur miklu meira vægi í alþingiskosningum en atkvæði einstaklings á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur enginn minnst einu orði á bætur til handa því fólki sem tapaði á hlutabréfum í Landsbankanum. En við Hrútafjörð er hver fundurinn af öðrum haldinn, með eða án þingmanna kjördæmisins, þar á meðal fjármálaráðherra, sem er að vísu úr næsta kjördæmi norðan við, um þennan ,,gríðarlega vanda" sem blasir við þeim sem græddu ekki heldur töpuðu á stofnfjárbréfunum. Forsmekkurinn af því sem koma skal eru orð fjármálaráðherra um að erfitt geti orðið að hjálpa þessu fólki með sértækum aðgerðum en vissulega sé þetta ,,félagslegt- og byggðatæknilegt vandamál sem þurfi að skoða gaumgæfilega" (BJÖLLUR !). Á einum fundinum nyrðra var meira að segja rætt um það í alvöru að kanna á hvern hátt Byggðastofnun gæti komið að málinu (BJÖLLUR !). Við blasti nefnilega að fólk, sem tók þessa áhættu, gæti flæmst af býlum sínum. Ekki var minnst einu orði á þann fjölda fólks um land allt sem tók áhættu og tapaði á því að kaupa hlutabréf í Landsbankanum.

Nú skulum við fylgjast vel með þessu máli. Hafi einhver haldið að pólitísk spilling hefði verið upprætt vegna þess að Alþingi hefði verið rifið upp á rassgatinu með skýrslu - skyldi það ekki gleymast að engin skýrsla hefur enn verið gerð um þá pólitísku spillingu og glæpamennsku sem viðgengst á sveitarstjórnarsviðinu (trúir því einhver að hún sé minni?). Fylgist nú með því hvernig þessu stofnfjárbréfamáli verður reddað fyrir horn þannig að allir verði kátir fyrir norðan og pólitískur geislabaugur Steingríms í Norð-austurkjördæmi muni blika sem aldrei fyrr...

17. apríl 2010
Leó M. Jónsson:
Þótt ég hafi ekkert vit á klassískri tónlist hlusta ég stundum á hana þegar ég er að vinna við ritstörf, viðgerðir eða smíði, mest á höfunda á borð við Chopin, Bach, Debussie, Sibilius, Grieg, Monk, flytjendur á borð við Mariu Callas, Jussi Björling, Mario Lanza, Billie Holiday, Oscar Peterson, Keith Jarret, Vladimir Askenazy og fleiri. Ég man rógsherferðina í kjölfar þess að Askenazy hafði gagnrýnt áhugamannaformið á Sinfóníunni forðum - en hún var dæmigerð fyrir okkar frægu ,,small timers" - að reynt var að koma því inn hjá fólki, m.a. af tónlistargagnrýn-
endum, að Askenazy væri svo sem ágætur píanisti hvað varðaði tækni en hins vegar ekki mikill túlkandi. Þetta hafa íslenskar ,,hundstungur" talið að væri Askenazy sérlega viðkvæmt mál. En það gleymdist að Askenzy skipti máli á alþjóðlegum vettvangi en ekki Íslendingar. Sá sem hlustar á hljómdisk þar sem Askenazy spilar etíður Chopins og hrífst ekki af túlkun hans er á lægra stigi en ég, þ.e. líklega alvarlega stropaður.
Síðastliðinn Páskadag var útvarpað nýju hljóðriti þar sem ungur og upprennandi snillingur, Ástríður Alda Sigurðar-dóttir píanisti, spilaði Ástarjátningu Chopins; píanókonsert með Sinfóníunni. Tónlistin var frábær (stjórnandi Robert Spano). Hins vegar varð ég fyrir vonbrigðum vegna þess hve upptakan og útsendingin var af takmörkuðum gæðum - það er engu líkara en að tæknimenn RÚV ráði ekki við upptökur í Háskólabíói þegar einleikari er með Sinfóníunni. Okkur er sagt að í Háskólabíói sé hljómburður meingallaður en það gleymist að kvartað er undan hljómburði víðar, m.a. í sumum af frægustu óperuhúsum veraldar - en samt nást þar frábærar upptökur á tónlistarviðburðum sem eru flóknari og krefjast sérstakrar tæknilegrar hæfni af upptökumönnum. Sem dæmi má nefna að stjórnandinn Herbert von Karajan er og var ekki einungis gæðastimpill á tónlist sem við hann var bendluð heldur jafnframt á upptökuna - nánast var sama hvar í heiminum karlinn beitti sprotanum. Efist einhver um hver gæði upptöku skuli og geti verið, bendi ég á www.youtube.com þar sem hlusta má á Karajan stjórna Valse Triste (úr Dauðanum) eftir Jan Sibilius.
Ég hef verið að velta fyrir mér undanfarið hvert sé markmið tónlistardeildar RÚV varðandi klassíska tónlist. Mér er minnisstæð þáttaröð í sjónvarpi fyrir áratugum þar sem Leonard Bernstein fræddi almenning um tónlist og opnaði mörgum áður lokaðan heim enda metáhorf. Einnig mætti nefna sjónvarpsþætti Chick Corea þar sem hann fjallaði um jazz. Varla þarf að minna á útvarpsþætti Rögnvaldar Sigurjónssonar píanista, sem oft hafa verið endurfluttir, enda urðu þeir eitt vinsælasta útvarpsefnið, ekki vegna heldur þrátt fyrir að fjalla um klassíska tónlist! (Hún er nefnilega misjöfn eins og önnur). Eigum við engan sem getur farið í föt Rögnvaldar? Eða er hvorki áhugi né metnaður fyrir slíku hjá tónlistardeild RÚV? Ég spyr vegna þess að það er orðið langt síðan ég hef haft einhverja ánægju af að hlusta á klassíska tónlist á Rás 1 í útvarpinu. Hins vegar finnst mér dæmigert fyrir ástandið á tónlistar-deildinni útsending að kvöldi áðurnefnds Páskadags (4 apríl) þar sem boðið var upp á 45 mínútna prógramm þar sem spiluð voru stykki eftir Mozart á þrjú bassethorn (veiðihorn); sérlega leiðinlegur og langur konsert. Hvaða vildarvinum skyldi hafa verið klappað á bakið með því framtaki? Og af því einhver, sem kynni að lesa þennan pistil, er þegar kominn inn á www.youtube.com bendi ég á leitarvélina til að hlusta á eftirfarandi, vonandi honum/henni til ánægju þótt það sé klassísk tónlist: Tomaso Albioni, Adagio in G Minor * Debussie, Arabesque #1 * Keith Jarret, All the things you are * Maria Callas, Mamma morta.
Góða skemmtun!

12. apríl 2010
Leó M. Jónsson:
Ég minnist þess þegar ég var krakki á Melunum að ég og systir mín fórum í Sunnudagaskóla í kapellu Háskólans - aðallega til að fá svokallaðar Biblíumyndir sem við krakkarnir söfnuðum og skiptumst á eins og hasarblöðum seinna. Man enn eftir myndinni af Júdasi Ískaríot og sögunni af honum og hvað manni varð oft hugsað með hryllingi til þessa versta, eða í það minnsta frægasta, óþokka sögunnar - held reyndar að mannfýlan Stalín hafi slegið hann út. En Postulasagan, sem mig minnir að sé í Jóhannesarguðspjalli Nýja testamentinu, segir að þessi 12. lærisveinn hafi svikið Jesú í hendur æðstu presta Gyðinga. Og til að gera glæpinn enn ógeðslegri og sem allra minnst úr Júdasi þessum, vann hann ,,dáðina" fyrir mútur sem námu 30 silfurpeningum - en upphæðin mun hafa nægt fyrir lóð undir geitakofa á þeim tíma.

Hjá FL-Group komst kona í framkvæmdastjórn fyrir nokkrum árum. Hún hafði ekki starfað lengi hjá fyrirtækinu, segir í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um ,,Hrunið", þegar hún tók eftir því að forstjórinn var að braska með fé félagsins - gott ef hún taldi sig ekki geta sannað að verulegar upphæðir vantaði í sjóði hér og þar. Henni mun hafa runnið blóðið til skyldunnar og hótaði forstjóranum að fara með málið til lögreglunnar bætti hann ekki félaginu skaðann hið snarasta.

Stuttu seinna var þessi kona hætt sem framkvæmdastjóri, þrátt fyrir stuttan stans. Það fylgdi sögunni að hún hefði verið leyst út með 130 milljón króna starfslokasamningi. Á þeim sama tíma var labbakútur í bankastjórastöðu kominn í 50 milljón króna laun á mánuði svo maður fór ekki úr límingunum þótt kostað hefði FL-Group 130 milljón krónur að losna við óhæfan framkvæmdastjóra!

Það er ekki fyrr en áðurnefnd skýrsla kemur út, mánudaginn 12. apríl 2010, að málið tekur á sig aðra og skuggalegri mynd: Konugarmurinn hafði þá látið fallerast fyrir 30 silfurpeninga eins og Júdas karlinn forðum. Þegar framan í hana var flaggað 130 milljónum vék löghlýðnin, umhyggjan fyrir félagi og hluthöfum; - hún seldi æruna uppsprengdu verði, nema hvað?. Hvaða Íslendingur vill ekki frekar vera ærulaus og eiga 130 milljónir á vöxtum heldur en að vera heiðarlegur og blankur - eins og pöbullinn?

27. mars 2010
Leó M. Jónsson
:
Ég ritstýrði tímaritinu Bílnum í 12 ár, frá miðju ári 1986 og út árið 1998. Bíllinn hafði lengi verið hornreka hjá útgáfunni Frjálsu framtaki hf. og var orðið leiðinlegt og metnaðarlaust tímari þegar FF var keypt, seinna sameinað Fjölni og varð að Blaða- og bókaútgáfunni Fróða hf. sem, eftir 10 ára látlausan taprekstur, endaði sem þrotabú. Nokkrum árum áður en Fróði fór á hausinn keypti ég og kunningi minn, Bílinn af Fróða og var útgefandinn síðustu árin Humall hf. Eftir að Bíllinn losnaði við Fróða, en þar snérist allt um útgáfu tísku- og glanstímarita, náðist að að margfalda fjölda áskrifenda. Lausasala gekk vel - mörg tölublöð seldust upp. Auglýsingasíður voru 1/3 af heildarsíðufjölda (föst stærð) og seldust upp í hverju einasta tölublaði enda var Bíllinn aldrei upp á bílaumboðin kominn með auglýsingar. Þegar Bíllinn var borinn saman við stærsta bílatímaritið í Svíþjóð, árið 1997, kom í ljós að selt upplag Bílsins var hlutfallslega stærra en þess sænska ,,Vi bilägare." Sá mælikvarði segir meira um takmörk tímaritaútgáfu á Íslandi en möguleika því þrátt fyrir góðan árangur Bílsins síðustu árin olli fólksfæðin því að mjög erfitt var að láta útgáfu svona sérhæfðs tímarits standa undir sér. Maður hafði lágt tímakaup við þetta streð - en síðustu árgangana skrifaði ég tímarið nánast einsamall.
Enn er ég spurður um hvað hafi valdið því að útgáfu Bílsins var hætt. Ég hef þegar nefnt aðalástæðuna en fleira kom til svo sem síhækkandi prentkostnaður (þrátt fyrir tölvuvæðingu prentiðnaðarins). Kornið sem fyllti mælinn var breyting á póstburðargjöldum í aðdraganda að einkavæðingu Pósts og síma. Sérstakur afsláttur, sem átti að hvetja til útgáfu sérhæfðra tímarita með takmarkað upplag, var felldur niður. Burðargjald margfaldaðist og þar með var ,,ballið búið." Og því má bæta við að allar götur síðan, með aukinni einkavæðingu, hefur almennur skilningur á því að iðn- og verkþekking sé hluti af menningunni farið jafnt og þétt dvínandi. Sú þróun var reyndar hafin áður með ,,kerlingarvæðingu" Grunnskólans og tilheyrandi niðurfærslu raungreina.
Efist einhver um það sem ég hef hér sagt um möguleika tækni- og bílatímarits bendi ég á að þótt 12 ár séu síðan síðasta tölublað Bílsins kom út hefur ekkert sambærilegt tímarit náð fótfestu á markaðnum. Tímarit, sem á sínum tíma var beinlínis stofnað til höfuðs Bílnum (með tilheyrandi rógburði í anda íslenskra viðskiptahátta) , kom út tveimur tölublöðum áður en útgáfan lognaðist út af og varð gjaldþrota.
Enn eru menn að spyrja um ákveðin tölublöð af Bílnum en sumir eiga heilu árgangana og hafa jafnvel látið binda þá inn. En því er fljótsvarað - eldri tölublöð af Bílnum eru ófáanleg og menn eru jafnvel tregir til að lána þau. Ég spurði um Bílinn á tveimur bókasöfnum og var sagt á báðum stöðum að búið væri að stela flestum tölublöðunum!
Vefsíða Leós er eins konar framhald af því sem ég var að gera í Bílnum, m.a. ókeypis upplýsingaþjónustan. Hins vegar verða ekki birtar auglýsingar á Vefsíðu Leós svo lengi sem ég held um taumana. Staða vefsíðunnar og fjöldi heimsókna mun áfram, eins og hingað til, ráðast einungis af gildi efnisins (Vefsíða Leós er hvergi auglýst þótt vísað sé á hana í pistlum mínum í bílablaði Mbl.) en ekki einhverjum tæknibrellum og/eða svindli á Google. Til að halda kostnaði innan viðráðanlegra marka er Vefsíða Leós vistuð í Bandaríkjunum. Þetta er einstaklingsframtak. Tilgangurinn er sá að auðvelda meðborgurum hagkvæmari rekstur bíla ásamt útgáfu á ýmsu efni sem haldið er aðskildu, svo sem persónulegum skoðunum mínum og greinum um annað efni.

25. mars 2010
Leó M. Jónsson
:
Undanfarin áratug hefur það smám saman orðið regla, frekar en undantekning, að íhlutir sem bila í bílum eru endurnýjaðir í stað þess að gera við þá. Þetta gengur jafnvel svo langt að nýr startari er keyptur og settur í í stað þess að endurnýja slitin kol. Þegar loftdæla, sem sér loftfjöðrun fyrir þrýstingi, bilar, eru viðbrögð viðkomandi bílaumboðs þau að bjóða nýja dælu fyrir 250 þús. kr. Viðgerð á dælunni er ekki einu sinni reynd. Helstu ástæður þessarar þróunar er ákveðið samspil:

Útseldur tíma á bílaverkstæði hefur jafnt og stöðugt hækkað í verði sem gerir það að verkum að endurnýjun getur stundum verið hagkvæmari en viðgerð, taki hún einhvern tíma. Rúmlega fimmtungur af upphæð verkstæðisreiknings er virðisaukaskattur (fyrir utan öll önnur opinber gjöld sem verkstæði þarf að greiða). Þrátt fyrir himinhátt verð á útseldri vinnu eru bílvirkjar láglaunastétt.

Bílaframleiðendur hafa gjörbreytt framleiðslutækni á 20 árum. Síaukin aðkaup hafa gert það að verkum að íhlutir eru samsettir í meiri mæli nú en áður. T.d. mun vera leit að bílaframleiðendum sem setja saman alternatora og/eða startara - þessir hlutir koma tilbúnir til ísetningar. Samhliða hafa bílaframleiðendur minnkað birgðahald og algengt er að hlutir komi frá undirverktökum samhliða framleiðslu (right-on-time). Af því leiðir að varahlutaþjónusta bílaframleiðenda er ólík því sem áður tíðkaðist og áhersla lögð á samsettar einingar í stað íhluta.

Græðgi bílaframleiðenda og bílasala er þáttur í þessari þróun. Sala samsettra hluta í stað íhluta margfaldar afrakstur varahlutaþjónustu, annars vegar með hærri álagningu (okri í sumum tilvikum) og hins vegar með minni vinnu, minni úreldingu og minni birgðakostnaði (auknum veltuhraða).

Síðast en ekki síst er er komin til starfa ný kynslóð bílvirkja sem er þjálfuð á allt annan hátt en áður tíðkaðist. Þeir hafa, að sjálfsögðu, þurft að aðlagast þeirri þróun sem lýst er hér á undan; - þeirra verklag er fremur að endurnýja hluti í heldur en að gera við þá. Þetta kemur sér illa nú í Kreppunni. Margir hafa kvartað undan dýrum bílaviðgerðum en aldrei sem nú. Á mörgum verkstæðum fækkar verkefnum og biðlistar styttast. Bíleigendur krefjast hagkvæmari viðgerða, viðgerða sem krefjast meiri þekkingar og lægni en margir bílvirkjar ráða yfir. Ef til vill væri lausnin sú að senda hópa bílvirkja af íslenskum verkstæðum til Kúbu. Þar geta þeir séð hvernig málin eru leyst með útsjónarsemi, verklægni og kunnáttu.

19. mars 2010
Leó M. Jónsson
: Ég er sammála Jónasi Kristjánssyni um að smala ætti skilanefndum bankanna saman í gæsluvarðhald eins og tíðkast þegar um stórtækari þjófnað á vörslufé (sköttum) er að ræða. Tilgangur gæsluvarðhalds er að koma í veg fyrir að meintir sakborningar geti hulið slóð sína og/eða samræmt framburð með lygum.
Nýir bankar fengu keyptar kröfur gömlu bankanna af skilanefndum þeirra fyrir helming af nafnverði. Stjórnendur byrjuðu strax að semja við fyrirtæki um afskriftir. Þekktir landhlauparar fengu fyrirtæki, sem þeir höfðu keyrt í þrot og rúið, afhent aftur eftir að létt hafði verið af þeim skuldum sem jafnvel námu tugum milljarða. Venjulegt fólk, íbúðareigendur, fólk sem hafði keypt bíla með lánum - pöbullinn, átti hins vegar að greiða sínar kröfur með álagi, fullum vöxtum, dráttarvöxtum og innheimtukostnaði. Þannig hugðist ,,yfirstéttin" (lénsherrarnir sem tóku við af þeim dönsku 1874 og hafa alla tíð reynst harðsvíraðri og óréttlátari) fjármagna afskriftirnar sem færðar voru fjárfléttum á silfurfati - þessum búrtíkum sem kenndar eru við útrás - fyrirbæri sem byggðist á blekkingum, klíkuskap, þjófnaði og lygi í svo stórum stíl að þeir ganga allir lausir ennþá, - að vísu rassbrenndir og flestir í útlöndum.
Og nú hafa þessar heybrækur sem þykjast stjórna landinu komið með lausn á vanda almennings - eftir að hafa klórað sér í 18 mánuði! Og hrokinn er slíkur að það fylgir bitanum, sem fleygt er til lýðsins út um dyragættina, að sama hvað hann segi þá sé þetta endanlegt úrræði og ekki sé neinna frekari aðgerða að vænta úr þeirri átt.
Það þarf að fjármagna mistök, spillingu og fjármálasóðaskap undanfarinna ríkisstjórna. Í næstu kosningum má velja á milli ríkisstjórnar sem er á móti atvinnulífi en drepur tímann með því að ,,skoða" tillögur þar til þær eru úeltar eða ríkisstjórnar manna sem skitu á sig í beinni útsendingu upp á mitt bak og er varla búið að verka ennþá. Og þótt fnykinn leggi af þessu pakki eru kjósendur í afneitun strax farnir að lofa þeim atkvæðum í skoðanakönnunum: Það er stundum sagt um undarlegt fólk að því sé ekki viðbjargandi.
Suðurnesjamenn hafa farið verr út úr hruninu en nokkur annar þjóðflokkur í landinu. Skyldi það vera tilviljun að þar hafa alla tíð gargað hæst slorbarónar - þeir sem fást við útgerð og fiskvinnslu? Svokölluð slorhagfræði hefur leitt af sér algjört bjargarleysi á Suðurnesjum eftir að Herinn fór (sjá Víkurfréttir 19/3/10); hvergi eru fleiri á atvinnuleysisbótum, hvergi fleiri öryrkjar, hvergi lægra menntunarstig, hvergi lélegri námsárangur - hvergi lakari skólar. Svo kvarta pólitíkusar á Suðurnesjum undan því að fólk fáist ekki til að mæta á námskeið hjá ÞEIM í frumkvöðlastarfsemi; - venjulegt vinnandi fólk sem hvorki hefur menntun, metnað, löngun né áræði (næga fíflsku?) til að rjúka í stofnun fyrirtækis (sem ekki má vera álbræðsla - nota bene). Þetta fólk hefur kosið þessa drullusokka áratugum saman til þess að þeir sæu því fyrir atvinnutækifærum, launavinnu - jafnvel þótt vinnudagurinn yrði að vera langur til að lág laun dygðu. Hvar er nú hið brynjaða og kjaftfora belgingslið sem nefndist verkalýðsforysta á Suðurnesjum? Getur verið að baráttusveitin sé búin að koma sér notalega fyrir í dýrustu og flottustu nýbyggingunni í Keflavík - á kostnað verkafólks?
Vinstri grænir er furðulegasti stjórnmálaflokkur sem ég man eftir (og er þá Kvennalistinn meðtalinn). Umhverfisráðherra og heilbrigðisráðherra koma úr röðum grænjaxla. Báðir virðast vera á móti atvinnulífi yfirleitt. Helstu afrek ráðuneytanna eru eltingarleikur við ísbirni annars vegar og lækna hins vegar. Svo virðist sem útvaldir eigi í framtíðinni að geta gengið að þægilegu skrifstofustarfi hjá Evrópusambandinu en hinir eigi að stunda frumkvöðlastarfsemi (dunda sér); glápa á fjöll sem ekki má nota til vinnslu byggingarefna, ár sem ekki má virkja og land sem ekki má nota til urðunar o.s.frv. Framlag grænjaxla til atvinnumála virðist einna helst vera fólgið í störfum við eftirlit sem á að koma í veg fyrir hvers konar framkvæmdir sem fram að þessu hafa verið taldar forsenda framfara.
Suðurnesjamenn ættu að verða fyrstir til að gera allsherjar uppreisn gegn þessum grænjaxla-hálfvitum, sem vinna gegn atvinnuuppbyggingu, því þeim mun blæða út fyrstum, eins og sjá má á auglýstum nauðungaruppboðum hér syðra.

19. febrúar 2010
Leó M. Jónsson:
Hvernig ætli standi á því að hjá þessari dvergþjóð snýst nánast öll opinber umræða um vandamál af einhverju tagi. Hvernig stendur á því að fjölmiðlar á borð við útvarp og sjónvarp leggja alla fréttatíma undir eltingarleik við pólitíkusa, sem enginn ber virðingu fyrir né trúir lengur? Þeir og fjölmiðlarnir hafa verið á einhverju IceSave-trippi í meira en ár, - trippi sem allir nema örfáir klikkhausar hafa fengið upp í kok af fyrir löngu. Almenningur hefur loks uppgötvað að Alþingi er ekki virðingarvert fyrirbæri, stjórnmálamenn hafa tapað þeirri litlu virðingu sem þeir kunna að hafa notið vegna skorts á upplýsingum um atferli þeirra ef ekki dæmalausan ræfilskap. Almenningur ber ekkert traust lengur til banka, stjórnsýslu eða dómstóla, - og hafði áður glatað trausti til trygginga- og olíufélaga eftir að upp komst um umboðssvik og samráð í stað samkeppni. Jarðvegurinn fyrir spillingu, ef ekki ótínda glæpastarfsemi, er gengdarlaus klíkuskapur á flestum sviðum. Í vægari tilfellum hefur dómgreindarskortur orðið til að grafa undan trausti fólks á fræðslukerfinu en dæmi um það er fíflagangur stjórnenda Tækniskólans nýlega (réttnefnið ,,Verknámsskóli" hefur líklega ekki þótt nógu fínt til að falla heppilega að launaflokkakerfi ríkisstarfsmanna). Skyldi það vera tilviljun að líkur eru á því að stofnun millidóms, til að létta álagi af Hæstarétti, verði frestað vegna fjárskorts? Hverjir skyldu hafa mestan hag af því núna að sakamál taki sem lengstan tíma í Kerfinu - jafnvel fyrnist - gætu það verið þeir sem fara með fjárveitingavaldið? Spyr sá sem ekki veit!

Þegar ég var yngri man ég eftir mönnum sem nefndir voru ,,verkalýðsleiðtogar" og oft sagðir kommar - svona til að sýna þeim hæfilega lítilsvirðingu því þeir voru að berjast fyrir kjörum verkafólks og launþega á lægstu töxtum. Svo hurfu kommarnir og í stað þeirra komu ,,allaballar" sem ekki unnu neitt að gagni fyrir launþega; ídealistar, sófakommar - kaffihúsa-nördar og, innan um, umhverfisfasistar. Verkalýðshreyfing, sem einu sinni var áberandi og oftast á hrakhólum með húsnæði, breyttist í gáfumennageymslu - glerhöll fulla af blýantsnögurum; stofnun sem er of fín til að umgangast skóflupakk. Nú þegar fjölmörg heimili landsins standa frammi fyrir því að missa aleiguna og meira til er engin verkalýðshreyfing til að halda uppi vörnum - engir alvöru-kommar sem geta og þora.

Um árabil vann ég sem ráðgjafi á sviði iðnaðar- og þjónustu. Verkefnin voru m.a. á sviði stjórnunar og áætlanagerðar. Það sem mér fannst einkum einkenna íslensk fyrirtæki voru smákóngar - meira en helmingur starfsmanna fyrirtækis gat verið í forstjóraleik í stað þess að vinna að sameiginlegu markmiði. Ef til vill má það rekja til sömu rótar að næstum sameiginlegt einkenni allra íslenskra fyrirtækja, sama á hvaða sviði þau starfa, virðist vera sjúklegur skortur á hrósi. Flest fyrirtækin virtust þarfnast aðstoðar vinnusálfræðings. Miðað við venjuleg þjónustufyrirtæki í Bandaríkjunum var munurinn sláandi: Hvatningu, sem eðlileg viðurkenning fyrir vel unnin verk, vantar yfirleitt. Afleiðingin er ómarkviss stjórnun, starfsleiði, leiðinlegur vinnuandi og lítil framleiðni = lág laun. Væru rædd málefni einstakra starfsmanna við stjórnendur var alltaf byrjað á aðfinnslum í stað þess að skoða hæfileika og kosti viðkomandi og hvernig best mætti nýta þá fyrirtækinu í hag. Mér sýnist lítið hafa þokast í þessu efni þrátt fyrir fjölgun háskóla.

17. janúar 2010
Leó M. Jónsson:
Væri til meðferð, lyf eða efni sem yngdi mann upp um 30 ár værum við hjónin í óða önn að stafla nauðsynlegasta dótinu okkar í gám og á förum til Danmerkur. Þó ekki til að setjast endanlega að þar heldur tímabundið til að undirbúa frekari flutning til Kína. Hvergi er eftirspurn jafn mikil eftir fólki með menntun og reynslu svipaða okkar hjóna og í Kína. Við myndum stefna að því að vera búin að fá atvinnuleyfi og koma okkur upp nýju heimili í Kína, t.d. í Hebei-héraði sem er í Norður-Kína en þar eru helstu útflutningshafnir og miðstöðvar bíla- flugvéla- og tækniiðnaðarins í nágrenni Beijing. Ég er búinn að vera að pæla í Kína í meira en ár og er sannfærður um að þar séu eftirsóknarverðir framtíðarmöguleikar, ekki síst fyrir fólk með vestræna tæknimenntun.
Ég myndi vinna að því hörðum höndum að fá börnin mín til að flytjast til Kína, einnig þau sem nú eru svo heppin að vera búsett í Skandinavíu. Eftir það sem maður er búinn að horfa upp á hérlendis áratugum saman skammast maður sín fyrir að vera ekki búinn að koma sér burtu fyrir langa löngu. Hrunið, í október 2008, tók þó steininn úr: Það eru liðnir 15 mánuðir síðan flett var ofan af einu mesta þjófnaðar- og spillingarmáli í Evrópu.
Gengi þaulskipulagðra þjófa og falsara lögðu mörg helstu íslensk fyrirtæki í rúst auk þess að ræna stærstu banka þjóðarinnar innanfrá. Þrátt fyrir 15 mánaða jaml, japl og fuður hefur enginn þessara afbrotamanna verið fangelsaður og er þó löngu vitað hverjir þeir helstu eru. Það er, í einu orði sagt, óþolandi. Enn er komin ríkisstjórn sem hefur það að markmiði að beita nýju skattakerfi til að gera hjól atvinnulífsins ferköntuð. Nýja skattakerfið, sem er það eina sem ríkisstjórnin virðist taka á af einhverri alvöru mun draga úr sköpunarmætti, frumkvæði og tekjumöguleikum alls þorra fólks og gera Ísland að glæsilegustu þrælabúðum Evrópu næstu áratugina eða þar til það endar sem niðursetningur innan Evrópusambandins í krafti einhverra prófventu; - auðlindar sem gleymst hefur að stela.
Fólk á þrítugs-, fertugs- og jafnvel fimmtugsaldri, sem einhverja verkkunnáttu hefur, á að flytja frá Íslandi núna. Með því sýnir það nauðsynlega ábyrgðartilfinningu gagnvart börnum sínum og sjálfu sér.
Það ætti að hafa okkur gömlu asnana sem víti til varnaðar; okkur sem höfum látið pólitískan skríl og meðreiðarpakk vaða uppi ljúgandi og stelandi áratugum saman. Reynslan lýgur ekki. Nú á miðaldra og yngra hraust og verkfært fólk að forða sér á meðan það er enn hægt!

1. janúar 2010
Leó M. Jónsson:
Ég óska lesendum Vefsíðu Leós farsældar á nýju ári. Síðastliðið ár finnst mér hafa verið einstaklega leiðinlegt hérlendis. Fyrst og fremst vegna þess hve fjölmiðlun hefur hrakað, ekki síst hjá RÚV undir stjórn Plötusnúðar ríkisins - meira að segja Kastljós telur hann ekki þorandi að senda út án skemmtiatriða og popps. En ég er sennilega ekki dómbær á þetta mál, er með þeim ósköpum gerður að það síðasta sem ég myndi lesa í dagblaði eða tímariti er svokallaður leiðari - á allri minni hundstíð man ég aldrei eftir að hafa lesið innblástur á borð við Reykjavíkurbréf eða línuskot á borð við Staksteina. Ég hlusta aldrei á ávarp forseta eða forsætisráðherra um áramót - því ég er handviss um að ég græði ekkert á því og, með örfáum undantekningum, fylgist ég ekki með sjónvarpsútsendingum frá Alþingi því sú stofnun er ekki hátt skrifuð hjá mér enda safnast þangað flest fífl þjóðarinnar fyrr en seinna. Mig grunar að ég sé ekki einn um þá skoðun að engin stofnun sé jafn lítilsvirt og Alþingi - ekki vegna skipulagðs rógs heldur vegna þeirrar einföldu staðreyndar að verkin tala. Þyrfti ég að ráða stjórnanda myndi ég síðast leita hans í röðum ráðherra eða þingmanna og er ég heldur ekki einn á báti í því efni. Ekki er fordómum um að kenna heldur staðreyndum; verkin tala!
Ég kann ekki á blogg - hvorki blogga né les blogg. Jónas Kristjánsson, einn merkasti blaðamaður okkar á 20.öld (sem nýverið gaf út bitlausa bók i símskeytastíl - líklega vegna þess að hann nennti ekki að skrifa það sem hann hefði þurfti að skrifa um (skil hann vel), - en Jónas telur að bloggið sé besta blaðamennskan um þessar mundir. Hann hefur oft rétt fyrir sér. Maður ætti því að fara að skoða þetta fyrirbæri.
Fésbók hef ég forðast eins og pestina - því þar sýnist mér allir vitleysingjar vera saman komnir á einum stað. Eins og af þessu má sjá er ég forpokaður og sérvitur og væri sennilega orðinn ,,út úr heiminum" fyrir löngu hefði ég ekki Netið með ADSL-tengingu til að hlaða vitundina og til að nálgast áhugamál mín, t.d. með lestri erlendra tímarita sem, merkilegt nokk, virðist sumum vera enn treystandi þrátt fyrir ,,Mördokk-væðinguna."

Talandi um bækur. Bókaútgefendur eru kaupsýslumenn. Hvorki hugsjónir né pólitískur rétttrúnaður (trúboð) rekur þá áfram. Þeir vita að kaupandi (jóla)bókar les hana ekki - en kannski sá sem fær hana að gjöf. Auglýsingaskrumið ræður því sölunni. Þær bækur sem mest eru auglýstar og þeir höfundar sem komið hafa fram í öllum kjaftaþáttum eru seldar í Bónus. Vandaðar bækur seljast jafnvel treglega. Meiriháttar höfundum (skáldum) hefur meðalmennskan útrýmt. Alls konar draslbækur fara á metsölulista (jafnvel án prófarkarlesturs). Ritskoðað og bætiflákalogið æviskeið landsþekkts fyrrverandi embættismanns er ekki bók sem mig langar að lesa, heldur ekki hraðsoðinn söluvænn samtíningur um mann sem gaf út bækur en lifði á því að framleiða smjörlíki.
Sú (jóla)bók sem ég las er ,,Þjófur, fíkill, falsari" eftir Guðberg Guðmundsson - óþekktan höfund en ,,heimsfrægan" íslenskan glæpon (hafi ég skilið hann rétt), sem skreið út úr tréverkinu á aðventunni; óhugguleg en góð lýsing á líferni ræfla og samviskulausra landeyða undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Þrátt fyrir að margt orki tvímælis í þessari bók, enda lýsir höfundurinn sér m.a. sem hraðlygnum svindlara, og þótt nokkuð sé um endurtekningar og skort á ritstjórn, er bók Guðbergs vel og lipurt skrifuð þannig að maður les hana nánast í einum rykk. Ég ætla ekki að spilla fyrir þeim sem eiga eftir að lesa þessa bók. En þegar menn hafa sagt A þá er eðlilegt að þeir segi líka B. Það er ýjað að ýmsu miður þokkalegu í opinbera kerfinu sem varðar dóms- og refsimál. Stundum eru nöfn nefnd, en stundum ekki og þá jafnvel gefið í skyn að ,,innvígðir" viti við hverja er átt. Til þess að vera ekki talinn reyfarahöfundur og froðusnakkur eingöngu finnst mér sem Guðberg skuldi okkur lesendum aðra bók þar sem hann gengur hreint til verks og flettir ofan af öllum djöfulsins ósómanum; - hlífi engum og láti á það reyna hvort viðkomandi óbótamenn í opinberum stöðum þori að stefna honum fyrir meiðyrði. Samtakamáttur hefur sýnt að jafnvel þeir sem hafa orðið undir í lífsbaráttunni (Breiðavíkursamtökin) geta hrist upp í samtryggðu KERFINU. Án þess framhalds verður bókin ,,Þjófur, fíkill, falsari" einungis með betri reyfurum og hefði eins getað heitið ,,Þá riðu hetjur ......"

8. desember 2009
Leó M. Jónsson:
Umhverfisfasistar er furðulegur söfnuður. Þeir börðust með kjafti og klóm gegn hagnýtingu kjarnorku til orkuframleiðslu og tókst, á sínum tíma, með lygum að æsa bandarískan almenning til andstöðu við kjarnorkuvæðingu rafmagnsiðnaðarins. Afleiðingin er miklu meiri mengun í Bandaríkjunum nú en ella. Kanadamönnum tókst með skipulagðri upplýsingamiðlun að koma í veg fyrir að umhverfisfasistum tækist að stöðva kjarnorkuvæðingu rafmagnsframleiðslunnar. Kanada er því í betri málum með sína orkuframleiðslu og mengunarmál en Bandaríkin. Evrópuríkjum, svo sem Frakkland og Svíþjóð o.fl. hefur tekist að halda aftur af umhverfisfasistum og framleiða nú um og yfir 40% af allri sinni raforku með kjarnorku og með miklu minni mengun en þjóðir austar í álfunni sem brenna stein- og brúnkolum til framleiðslu á raforku. Um 70% af orkuþörf Íslendinga er fengin með fallvötnum og jarðvarma. Hjá okkur mun kjarnorka, að öllum líkindum, taka við af fallvötnum til raforkuframleiðsla - rætist sú spá að jöklar hverfi.
Umhverfisfasistar hafa með áróðri, hindurvitnum, þekkingarskorti og ofstæki beinlínis aukið mengun lofts, láðs og lagar. Hefði verið hlustað á vísindamenn í stað þessa skríls og farin sama leiðin og Kanadamenn og Svíar fóru, þ.e. að nýta kjarnorku í stað þess að banna hana, væri núverandi staða Bandaríkjamanna í loftslagsmálum miklu mun betri.Óhappið í kjarnorkuverinu á Th
ree Mile Island 1979 var minniháttar en ýkt og blásið út af fjölmiðlum og kynt rækilega undir af umhverfisfasistum.

Umhverfisfasistar hafa falsað og ýkt ástandið í loftslagsmálum, t.d. logið því að hnatthlýnun hafi orðið sl. 10 ár - sem er rangt (sjá vef Veðurstofu Íslands). Þetta er hópur atvinnumótmælenda sem lifa á hræðslu sem þeir skapa með áróðri. Þeir hafa stuðlað að aukinni mengun en ekki minnkað hana og nú er sá árangur að koma betur í ljós en áður. Í aðdraganda umhverfisráðstefnu (kjaftaþings), sem mun standa núna í desember í Kaupinhöfn, er ljóst að ætlast er til þess að vanþróuðu ríkin í Austur-Asíu og Afríku og fátæku löndin í Suður-Ameríku borgi þá botnlausu mengun og sóðaskap sem gert hefur íbúa Vesturlanda og Norður-Ameríku ríka með orkuframleiðslu, byggða sóun eldsneytis, síðan í iðnbyltingunni á miðri 18. öld. Iðnríkin hafa byggt upp auðsæld með rányrkju á sjó og landi og ótrúlegum sóðaskap við brennslu á kolum, mó, trjáviði og olíu til raforkuframleiðslu. Nú þegar þau hafa efnast og vaxtarverkir og meltingartruflanir vegna ofátsins, sem stórspillt hefur umhverfi þeirra og annarra, skal loks kippt í taumana: En það á ekki að gera í eigin ranni heldur skal nú koma í veg fyrir að vanþróuðu og fátæku ríkin í veröldinni, - fólkið sem sveltur, geti orðið sjálfbjarga með tækniþróun. Það á að banna þeim að framleiða raforku með brennslu - Það fólk á nú að koma til Kaupinhafnar og samþykkja að draga úr losun á þessum og hinum efnum, vegna þess að ríku þjóðirnar, undir áhrifum frá umhverfisfasistum, ætla nú loks að fara að taka til hjá sér. Svo heldur þessi pólitíski skríll og fasistafíflin, sem flykkjast til Kaupinhafnar á einkaþotum og á lúxusfarrýmum og aka um í límósínum (til að kóróna mengunina/sóunina), að Þriðji heimurinn hljóti að vera þeim sammála - því það sé vá fyrir dyrum! Það verður aldrei enda væri þá réttlætiskennd venjulegs fólks á Vesturlöndum verulega misboðið. Byrjum á því að veita 3. heims löndum aðgang að matvælamörkuðum í Evrópu. Það myndi lækka himinhátt, niðurgreitt, matvælaverð, losa iðnríki við of dýra og óþarfa bændur og gefa 3ja heims landbúnaði, sem er illa nýttur, eðlilega möguleika til að auka lífsgæði almennings bæði heima fyrir í Afríku og á Vesturlöndum. Engin von er til þess að stórþjóðirnar komi sér saman um að hætta rányrkju auðlinda Þriðja heimsins en hana tryggja þeir í skjóli styrjalda. Bandaríska CIA þykist, með hnattavæddu njósnakerfi af fullkomnustu gerð, geta lýst upp í rassgatið á öðrum hverjum Bandaríkjamanni en er lífsins ómögulegt að finna Osama bin Laden - útilegumann í fjöllum á landamærum Afganistans og Pakistans. Auðvitað yrði það stórslys ef karlfjandinn fyndist og til öryggis er verið að breyta ástæðu stríðsins í Afganistan í hættu sem sögð er stafa af Talibönum - því stríðið þarf að halda áfram þar til Haliburton (fyrirtæki Dick Chaneys) og fleiri hafa lokið við að kortleggja olíubirgðirnar undir Afganistan og tryggja aðgang að þeim með spillingu í stjórnkerfinu. Og því mun ekkert lát verða á sirkusnum. En það verður mikið brennivín drukkið í Kaupinhöfn í desember!

22. nóvember 2009
Leó M. Jónsson:
Sú var tíðin að menn stofnuðu fyrirtæki á Íslandi utan um einhverja góða hugmynd eða þekkingu sem talin var markaður fyrir. Í flestum tilfellum lögðu stofnendur aleigu sína undir því ekki var um aðra fjármögnun að ræða, hvorki þolinmótt lánsfé né sölu hlutabréfa á almennum markaði. Rekstrarfé var oftast fengið með skammtímalánum (víxlum) og mátti lítið út af bera til að vandræði sköpuðust. Fjöldi íslenskra frumkvöðla sem urðu gjaldþrota og eyðilögðu líf sitt og fjölskyldna sinna á þennan hátt er legíó. Frá því nýtt fyrirtæki hóf starfsemi varð einn af höfuðþáttum í rekstri þess daglegur bardagi við opinbera aðila og þess voru dæmi að sjálfur fjármálaráðherrann legði öflugt verktakafyrirtæki í einelti þar til tókst að knésetja það. Enginn veit hvers vegna - þetta var einhvers konar pólitískt sport sem tíðkaðist fram undir aldamót. Einungis glæpamenn sluppu frá gjaldþrotum öðru vísi en slyppir og snauðir - og margir þeirra andlega skaðaðir fyrir lífstíð.
Eitt furðulegasta fyrirtæki sem stofnað hefur verið hérlendis, Íslensk erfðagreining, er nú komið í greiðslustöðvun (eða var það Decode sem mun vera móðurfélagið?) eftir að hafa tapað hrikalegum upphæðum hvert einasta ár sem það hefur verið starfrækt. Taprekstri ÍE hefur alla tíð verið stjórnað af einum og sama manninum, forstjóranum Kára Stefánssyni. Eina skýringin á því hvers vegna ekki var skipt um forstjóra, ef trúa má fjölmiðlum, er sú að hann er jafnframt stærsti, eða einn af stærstu hluthöfum fyrirtækisins - hann var sem sagt alltaf að tapa prívat og persónulega!
Hvergi hef ég getað fundið nein skráð einkaleyfi í eigu þessa merkilega fyrirtækis þótt þar séu sagðir hafa unnið færustu sérfræðingar heims frá fyrsta degi.

Í fjölmiðlum hef ég hvergi séð þess getið að forstjórinn sé á flæðiskeri staddur fjárhagslega - þvert á móti er hann sagður sterkefnaður maður þrátt fyrir uppgjöf fyrirtækisins - og hlýtur maður að dáðst að því. Í bók, sem skrifuð var um forstjórann (Kári í Jötunmóð), er ýjað að því að hann hafi aldrei lokið fullgildu (bóklegu og verklegu) prófi í læknisfræði. Ritstjóri Læknablaðsins var rekinn á sínum tíma fyrir að birta grein eftir lækni þar sem bornar voru brigður á gildi lækningaleyfis forstjórans. Þegar forstjórinn hljóp í skarðið sem afleysingalæknir á sjúkrahúsi í Reykjavík fullyrti sami læknir að það væri hneyksli.

Fleira er furðulegt við uppgjöf Íslenskrar erfðagreiningar því aldrei í manna minnum mun fyrirtæki í einkaeigu hafa notið jafn mikillar opinberrar fyrirgreiðslu. Pólitíkusar, á landsmála- og sveitarstjórnarsviði, og allt upp í ráðherra, bókstaflega fórnuðu sér fyrir málstað þessa fyrirtækis (auk þess að veita því opinbera fyrirgreiðslu, bankalán án tryggingar og fleira. En allt kom fyrir ekki; aldrei varð hagnaður af rekstri þessa hátæknimusteris útrásarinnar - bara tap. Endalaust tap! Megi draga lærdóm af ævintýrinu er hann sá að ekki sé hægt að reka þekkingariðnað á Íslandi, jafnvel þótt allt sé gert sem mannlegur máttur megnar og þrátt fyrir að stjórnendur séu haldnir einstakri meirimáttarkennd. Ljósið í myrkrinu er að forstjórinn missti ekki aleiguna. Hann mun, meira að segja, stýra nýju fyrirtæki sem reist verður á rjúkandi rústunum og, af viðtölum við hann í fjölmiðlum að dæma, hefur hann ekki beðið tjón á sálu sinni, - nema síður sé!

19. nóvember 2009
Leó M. Jónsson:
Það þurfti um 1000 siðblinda græðgistryllta landhlaupara og slangur af klikkuðum pólitíkusum til að gera þessa hlægilegu, rígmontnu dvergþjóð, sem hélt hún væri einhvers virt vegna menningar, að alþjóðlegu fífli. Þessar 300 þúsund hræður montuðu sig af ríkidæmi sem fólst ekki í öðru en yfirstétt sem skorti allt nema fé og gat rekið við í gegn um silki. Vitlausasti utanríkisráðherra í Evrópu trúði því í raun og veru að þessar 300 þúsund hræður ættu erindi í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna! Bara sú firra lýsti slíku stórmennskubrjálæði að útlendingar gátu hlegið að okkur með öllum kjaftinum, eins og þeir sögðu vestfirðingar.
Þegar ríkidæmið reyndist ekki annað en glæpamennska, kjaftaglamur og sjónhverfingar fengum við að reyna þau gömlu sannindi að sá sem er blankur á fáa vini. Að við ættum innhlaup hjá frændþjóðum í Skandinavíu reyndist viðhafnarlygi þegar á reyndi. Aldrei hefur það verið ljósara en nú að við erum í NATO sem ginningarfífl.
Varnarlið (Bandaríkjanna) pillaði sig á brott strax og Sovétríkin höfðu runnið sitt skeið.
Ég kaus núverandi forseta á sínum tíma. Nú skammast ég mín fyrir þessa fígúru og er orðinn sammála Hannesi Hólmsteini og kó um að þetta embætti eigi að leggja niður hið snarasta - ekki einungis vegna þess að það sé óþarft heldur einnig og ekkert síður vegna þess að það er vond auglýsing fyrir 300 þúsund stropaða asna hér norður í rassgati.
Við eigum að segja okkur úr Norðurlandaráði. Aðild að því þjónar engum tilgangi öðrum en að halda spilltum pólitískum skríl uppi á lúxushótelum á kostnað almennings. Sama gildir um NATO - við eigum að segja okkur úr því strax. Til að koma í veg fyrir að pólitíkusar, sem hafa beinar tekjur (dagpeninga og lúxusflakk), geti tafið málið, þyrfti að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um úrsögn úr Norðurlandaráði og NATO - ekki einungis til að spara skattgreiðendum óheyrilegan kostnað heldur einnig til að rassbrend þjóðin geti sýnt að hún er ekki svo skaplaus að láta hafa sig að fífli án þess að berja frá sér.
Við eigum að leggja utanríkisþjónustuna niður eins og hún leggur sig - loka hverju einasta sendiráði - jafnvel þótt tífalda þyrfti rýmið á Vogi. Kostnaður af því yrði aldrei nema skítur á priki miðað við það sem kæmi inn fyrir sölu á fasteignum erlendis og sparaðist í rekstrarkostnað einskisnýtra sendiráða. Sé þess þörf má alltaf semja við Litháa um hagsmunagæslu - enda eiga þeir sameiginlegt með okkur Íslendingum að vera eins konar ,,Nigeríumenn" Norðursins.

10. nóvember 2009
Leó M. Jónsson:
Ég var liðléttingur á strandferðaskipinu Esju tvö sumur og fór einn túr veturinn 1959 - en ég var þá á milli skóla. Komið var til Vestmannaeyja síðdegis 18. febrúar að austan og haldið til Reykjavíkur eftir stutt stopp. Á kajanum í Eyjum hitti ég Helga Vattnes Kristjánsson, strák á mínu reki sem hafði verið með mér á Esjunni um sumarið en var nú aðstoðarmaður í vél á vita- og varðskiptinu Hermóði, sem lá þarna við bryggju og verið var að gera klárt fyrir siglingu til Reykjavíkur. Ekki hvarflaði að manni hvað beið okkar á Esjunni á leiðinni fyrir Reykjanes og Stafnnes. Hermóður, sem fór frá Eyjum hálftíma á eftir okkur, sökk með allri áhöfninni (12 manns), að því virtist án þess að ráðrúm gæfist til að senda út neyðarkall. Frystiskipið Vatnajökull, sem við mættum úti fyrir Höfnum, sendi út neyðarkall. Ég ætla ekki að lýsa djöfulganginum á leiðinni frá Reykjanestá og fyrir Garðskagann, maður bara hélt sér þar sem maður gat og var staddur. Ekki man ég hvað þetta tók langan tíma en mun hafa vera með versta sjólagi á þessari leið sem gerist og ætla ég ekki að lýsa því frekar. En á meðan á þessum ósköpum stóð hvarflaði það aldrei að mér við kynnum að vera í lífshættu - það var ekki fyrr en seinna sem það varð manni ljóst: Manni fannst maður öruggur vegna þess að í brúnni var Guðmundur Guðjónsson skipstjóri við stjórn; maður sem áhöfnin treysti fullkomlega.

Seinna bjó ég í Svíþjóð um árabil og hef fylgst nokkuð með sænskum stjórnmálum. Nýlega fylgdist ég með viðtali við Frederik Reinfeldt, forsætisráðherra Svía, í beinni útsendingu í sænska sjónvarpinu. Umræðuefnið var fyrirhugað kjör forseta ES og væntanleg loftslagsráðstefna í Kaupinhöfn nú í desember. Sænskt atvinnu- og efnahagslíf á nú við mjög alvarlega erfiðleika að glíma. Ég tók eftir tvennu í þessu viðtali: Sænski forsætisráðherrann var í fullkomnu jafnvægi, talaði hiklaust og skýrt og maður var fróðari eftir að hafa hlustað á svör hans við spurningum viðkomandi fréttamanns. Ég hugsaði með mér hve mikils virði það væri fyrir Svía að hafa svo trausta forystu þegar hart væri í ári.

Forsætisráðherra okkar hefur logið að okkur stanslaust síðan hún tók við þessu starfi sem hún veldur ekki (Péturslögmálið). Innantóm loforð, slagorðaglamur, viðhafnarlygi (Skjaldborgin), hik, tafir og ruglandi hafa einkennt vinnubrögð hennar.Þegar hún talar í suður tala ráðherrar í norður; hún ryðst um eins og naut í flagi og kann greinilega hvorki samráð né að deila ábyrgð sem skilur fúskara frá fagmanni í stjórnun. Aldrei er maður nokkru fróðari um nokkurn skapaðan hlut eftir að hafa hlustað á hana tjafsa. Fyrir nokkrum dögum mátti fylgjast með henni í ræðustól á Alþingi þar sem hún sagðist ekki getað svarað því núna hvort stjórn hennar myndi standa við gefið loforð (Skjaldborgin) um að hækka persónuafslátt um 2000 krónur! Íslenskur almenningur hefur fulla áðstæðu til að vera bæði skelkaður og kvíðinn: Það er hálfviti í brúnni.


Næsta pistlaröð á undan

Eldri pistlar

Til baka á forsíðu

Greinar um bíla