Netfang höfundar

Leó M. Jónsson: Eldri pistlar á www.leoeemm.com

21.04.2004

Nýr formaður Ferðafélags Íslands, Ólafur Örn Haraldsson, hefur verið í viðtölum í ýmsum fjölmiðlum að undanförnu. Þótt Ólafur sé hófsemdarmaður á meðal útivistarmanna hefur maður ekki komist hjá því að heyra í gegn um hann af sjónarmiðum annarra í Ferðafélaginu sem hafa mun ákveðnari og mótaðri skoðanir á því hvað þurfi að gera til að vernda hálendi landsins fyrir ágangi vélknúinna tækja sem þetta fólk telur að eigi ekki sama rétt og fótgangandi í óbyggðum. Þeir ákveðnustu fara ekkert leynt með þá skoðun sína að banna eigi t.d. umferð jeppa nema á fáum ákveðnum og skýrt afmörkuðum merktum leiðum.

Annar hópur útivistarfólks, sem ekki tengist Ferðafélagi Íslands, hefur uppi áróður um að takmarka eigi hámarkshraða breyttra jeppa vegna slysahættu og er þegar farinn að beita þrýstingi í þá veru í fjölmiðlum.

Í Fréttaskýringarþættinum Speglinum í Ríkisútvarpinu nú síðasta vetrardag (21/4/04) var umferð fólks á hálendinu til umræðu. Stjórnandi þáttarins spurði hvort svo kynni að fara að umferð jeppa og annarra véltækja yrði bönnuð á hálendinu. Rætt var við tvo útivistarmenn (annar þeirra var Jónatan Garðarsson úr Hafnarfirði en ég man ekki nafnið á hinum) sem báðir töldu að veruleg spjöll, hávaðamengun og vaxandi ónæði væri af jeppum, mótorhjólum og vélsleðum á hálendinu og á Reykjanesskaganum allan ársins hring - jafnvel þannig að gangandi ferðafólk væri hætt að sækja ýmsa staði vegna ágangs og truflana frá ferðamönnum á vélknúnum farartækjum. Báðir voru sammála um að á meðal útivistarfólks gætti vaxandi pirrings gagnvart jeppamönnum. Nefnt var sem dæmi að ekki væri lengur farandi fótgangandi á Langjökul vegna stöðugrar umferðar jeppa og að jeppamenn væru einnig á góðri leið með að hrekja fjallafólk frá Eyjafjallajökli. Nefndar voru aðrar leiðir sem fram að þessu hefðu verið gönguleiðir en nú væri farið að fara á jeppum.

Mig grunar að það sé einungis tímaspursmál hvenær Náttúruverndarsamtök Íslands fara að agnúast út í akstur jeppa inni á hálendinu og heimti að þar fari einungis hópar um í rútum eða fótgangandi.

Á meðal þess sem virðist hneyksla útivistarfólk og veldur illsku og pirringi eru tröllslegir jeppar í umferðinni í þéttbýli, jeppar sem eru ofvaxnir, of áberandi og ögra venjulegu fólki - torfærutæki sem, á götum í þéttbýli, eru, í augum náttúruunnenda, gargandi vitnisburður um skort á tillitsemi og óhóf. Eigendur slíkra tækja færa því andstæðingum sínum vopnin upp í hendurnar: Með því að benda á augljósa slysahættu af slíkum jeppum geta þeir áköfustu hæglega haft þau áhrif að við hinir, sem eigum hófsamari breytta jeppa, vöknum upp við það einn daginn að búið sé að banna okkur að nota þá nema í einhverjum sandgryfjum. Því miður virðast þrýstihópar sem bera fyrir sig náttúruvernd eiga greiðari leið að löggjafanum en við hin enda hættir okkur til að vanmeta ýtni þessara hópa og eigum því á hættu að vakna upp við vondan draum.

Til baka á aðalsíðu

09.04.2004

Ástand umferðarmála er slæmt, fyrst og fremst vegna skorts á eðlilegri löggæslu og umferðareftirliti. Hvernig sem umferðarmálin, slysatíðnin og tala ,,fallinna" er rædd er eins víst að ástandið mun lítið sem ekkert batna fyrr en löggæslu hefur verið komið í svipað horf og tíðkast í löndum næst okkur. Á meðan stjórnmálamenn og framkvæmdavald komast upp með að veita of litlu fé úr ríkissjóði, ár eftir ár, þannig að stöðugt hefur orðið að draga úr eðlilegri löggæslu, þar til hún er orðin að þeirri lágmarkslöggæslu sem nú er raunin, bera þeir ábyrgð á ástandinu og þeim fórnum sem vinnubrögð þeirra valda. Samtök eða félagskapur sem gæti með áróðri komið því til leiðar að umferðarmál og löggæsla (önnur en Rambó-draumar dómsmálaráðherra og ríkislögreglustjóra) yrðu að gæluverkefni póltíkusa, myndi fljótt ná meiri árangri en nú næst með ,,fræðslu" fyrir almenning. Venjulegur bílstjóri tekur ekkert mark á ,,umferðarfræðslu" henti hún honum ekki (frekar en sjálfur dómsmálaráðherran á lögum sem honum líkar ekki við). Hert eftirlit, sektir, leyfissvipting, samfélagsþjónusta/fangelsi - er það eina sem dugar hvort sem okkur hentar að viðurkenna það eða ekki. Í því efni er reynsla nágrannaþjóða, t.d. Svía, ólygnust. Allt kjaftæði um betrun á ekki við um bílstjóra sem valda öðrum limlestingum og dauða með kæruleysi, tillitsleysi, ölvunarakstri, fíkniefnaneyslu, frekju og skepnuskap.

Ég hef áður bent á þá staðreynd að það heyrir til undantekninga á Suðurnesjum sé Bandaríkjamaður á vegum Varnarliðsins eða annarra fyrirtækja á Keflavíkurflugvelli staðinn að umferðarlagabroti. Umferðarslys eru hvergi á Íslandi jafn fátíð, hvort sem miðað er við mannfjölda eða fjölda skráðra bíla, og á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Íslensku tryggingafélögin hafa staðfest þetta með því að krefjast mun lægri iðgjalda af skyldutryggingum bíla sem skráðir eru á varnarsvæðinu. Ástæðan er einfaldlega sú að löghlíðni bandarískra borgara á Keflavíkurvelli er miklu meiri gagnvart umferðarreglum en Íslendinga - það hafa landar fengið að þreifa óþyrmilega á þegar þeir hafa ætlað sér hunsa aðvörunarmerki og taka fram úr kyrrstæðum skólarútum við biðskýli á Vellinum - og verið ,,negldir" á staðnum og jafnvel handjárnaðir - og hafa lært af þeirri reynslu. Þar er umferðareftirlit og löggæsla virk og sjáanleg og árangur eftir því.

Það væri hægt að halda áfram ár eftir ár að tala fyrir nauðsyn aukinnar umferðarfræðslu og með þeim árangri að slett yrði einhverjum peningum í slík ,,átök" sem skila takmörkuðum árangri og alltaf tímabundnum. Án eðlilegrar löggæslu og virks og sjáanlegs umferðareftirlits verður árangurinn aldrei sá sem hann verður að vera, á að vera og sem skattgreiðendur eiga kröfu til. Ef hægt væri að setja það í lög að fjárframlög til löggæslumála skuli ávallt vera ákveðið hlutfall af kostnaði ríkissjóðs við utanríkisþjónustuna yrði það líklega til þess að bæta ástand mála - því ekkert virðist skorta á skilning pólitíkus á fjárþörfinni á þeim bæ, samanber sendiráð upp á milljarða í Tokyo og Berlín undir afturendann á útvalinni bílífs-elítu og afdönkuðum pólitíkusum, sem geyma verður í vínanda í hæfilegri fjarlægð á meðan þeir eru að brenna endanlega út.

Ekkert sýndi betur kæruleysi og ósvífni pólitíkusa gagnvart löggæslu í umferðinni en ,,pappírslöggur" þáverandi dómsmálaráðherra fyrir nokkrum árum. Þær voru fyllilega í samræmi við önnur leiktjöld þessa málaflokks sem lýsa sér ef til vill best í því að ólygnir fullyrða að 1998 hafi síðast sést fótgangandi lögreglumaður á vappi á rúmhelgum degi í Reykjavík.

Til baka á aðalsíðu

22.03.2004

Eins og aðrir einstaklingar sem ná að þroskast eðlilega verð ég meiri og harðsvírðari kommúnisti og herstöðvaandstæðingur með hverju árinu og er þeirrar skoðunar að það bráðvanti alvöru kommúnista í íslenska pólitík - hugsjónamenn sem þora að berjast fyrir þá sem lægst hafa launin og án þess að skammast sín fyrir það - eins og mér sýnist miðjumoðsfólkið gera - enda eru hugsjónir orðnar næsti bær við berkla.

Af einhverjum ástæðum hef ég starfað sjálfstætt lengst af minni starfsæfi, annað hvort sem atvinnurekandi eða einyrki. Sem einyrki undanfarna 2 áratugi hef ég tilheyrt þeim jaðarhópi sem búið hefur við mesta skattpíningu og minnstu, ef yfirleitt nokkur, félagsleg réttindi.

Það fékk ég að reyna árið 1997, þá 58 ára, þegar ég varð frá vinnu og tekjulaus í 18 mánuði, vegna hjartabilunar, lækningar/uppskurðar og endurhæfingar og stóð uppi staurblankur, atvinnu- og verkefnalaus en vinnufær eftir frábæra endurhæfingu á Reykjalundi. Ég fór á atvinnumálaskrifstofu að kanna með starf. Ekkert starf fyrir mann með mína menntun, reynslu eða þekkingu - það er einfaldlega engin eftirspurn eftir slíku fólki með mína kennitölu (úrelding). Þá tók ég fyrsta starfið sem bauðst: Verkamannavinnu og gekk sjálfvirkt í Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur eins og vera ber.

Það tók mig ekki langan tíma að uppgötva að ég og vinnufélagar mínir, sem unnu vaktavinnu, voru hlunnfarnir á skipulagðan hátt eftir þaulhugsuðu kerfi sem viðkomandi fyrirtæki hafði komið sér upp og byggði á því að hártoga ýmis ákvæði kjarasamninga og drepa öllum slíkum kvörtunarmálum á dreif, tefja og snúa út úr - allt af talsverðri kunnáttu og einbeittum vilja. Þegar við leituðum til verkalýðsfélagsins um aðstoð vegna brota á kjarasamningi mættum við, að mínu mati, sinnu- og áhugaleysi enda reyndist ekkert koma út úr því annað en fundur með einum stjórnarmanna. Sá ,,þekkti" málið - en ekkert var gert af hálfu félagsins og aldrei var haft samband við okkar að þess frumkvæði.

Ekki vantaði kjarasamningana og miklar útlistanir og skýringar á þeim. Vandinn var bara sá að verkalýðsfélagið hafði enga burði, nennu né áhuga á að standa í stappi við atvinnurekendur (það var miklu meira gaman að drekka með þeim kaffi og máta jeppana). Þá hefur það áreiðanlega dregið úr áhuganum að atvinnurekendur, margir þeirra smærri útgerðarmenn (og góðir kunningjar úr golfinu, heita pottinum eða Lyons) drógu félagsgjöldin reglulega af starfsmönnum og færðu verkalýðsfélaginu (bítur maður í þá hönd?).

Þetta var skóli og lífsreynsla. Eitt þóttist ég vita og fékk staðfest eftir þau tæp 3 ár sem ég vann sem verkamaður: Það virðist vera regla án undantekninga að yngri stjórnendur fyrirtækja sýni verkafólki lítilsvirðingu, yfirgang, frekju og hroka - og því meiri eru þessi einkenni sem þetta ,,bak-við-eyrun-blauta-lið" telur sig meira menntað. Á meðal þeirra eru stjórnendur sem hunsa kjarasamninga með skipulögðum hætti og segjast blása á verkalýðsfélög. Þótt oft hafi verið kvartað undan ákveðnum fyrirtækjum hefur verkalýðsfélagið enga burði til að fást við slíka stjórnendur.

Ég lærði margt fleira af þessari reynslu: Eitt er að semja um kjör og setja á langar tölur og ritað mál um réttindi, eins og nú er gert í sambandi við þá samninga sem nú eru bornir upp til samþykktar í verkalýðsfélögunum. Þessir samningar eru ef til vill góðra gjalda verðir á pappírnum og koma eflaust verkafólki ákveðinna stórra fyrirtækja að fullu gagni vegna þess að þar er samtakamáttur og starfsafl til að framfylgja þeim. En þessir samningar geta reynst harla lítils virði fyrir verkamenn hjá minni fyrirtækjum og fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu sem reka útibú úti á landsbyggðinni, m.a. á Suðurnesjum og eru staðráðin í að hlunnfara starfmenn sína í trausti þess að samtakamáttinn vanti og verkalýðsfélag viðkomandi svæðis sé of latt, of feitt, of værukært (og með formann sem telur sig hafa pólitíska tryggingu fyrir því að þurfa ekki að ,,rugga bátnum") til að aðhafast í ,,erfiðum" málum eða hafi bara ekki sérfræðilega þekkingu (eða leiti ekki eftir henni) til að beita sér að einhverju gagni.

Niðurstaða: Kjarasamningar eru sumum harla lítils virði vegna þess að ekkert eftirlit er með því að þeim sé fylgt og litlum verkalýðsfélögum ekki hjálpað í því efni. Af minni reynslu að dæma er verulegur misbrestur á því, sérstaklega úti á landi þar sem návígi, klíku- og kunningsskapur dregur úr einbeitni og vöku verkalýðsforkólfa. Vonandi verða nýir liðsmenn í röðum verkalýðsforkólfa, menn á borð við Sigurð Bessason, til þess að snúa þessum málum til betri vegar og stöðva þá stofnanavæðingu sem mér finnst verkalýðshreyfingin nú bera greinileg merki um.

Til baka á aðalsíðu

20.03.2004

Hekla er þessa dagana að kynna nýjan VW Golf og með talsverðum fyrirgangi eins og vera ber þegar einn þýðingarmesti sölubíll þess kemur af nýrri og endurbættri gerð. Af þessu tilefni dreifir Hekla nýjum myndskreyttum bæklingi þar sem Golf er lýst í máli og myndum. Við fyrstu sýn virðist þetta hinn glæsilegasti bæklingur. Hann er prentaður í Þýskalandi sem skýrir prentvillurnar - ritstjórinn hefur greinilega ekki næga reynslu í samskiptum við erlendar prentsmiðjur og hefur ekki tekist að skila síðustu próförk hreinni fyrir prentun.

En mér er svo farið að þegar ég fór að lesa þennan bækling um Golf frá Heklu fannst mér gljáinn á honum dofna. Bæði er að textinn er einn af þessum fáránlega vitlausu sem nú tíðkast - þar sem engu er líkara en að fábjánar í fíkniefnarússi hafi sett hluta hans saman og er enginn þýðandi öfundsverður af að koma slíku bulli yfir á íslensku.

En mér sýnist sem þýðandinn hafi bætt um betur því hann skreytir textann með fáraánlegum orðatiltækjum og sérvisku sem er þess eðlis að maður verður næstum því forvitinn að vita hvernig svona þýðandi lítur út - hlýtur helst að vera einhver Marteinn Mosdal týpa.

Ekki nenni ég að elta ólar við alla steypuna sem er að finna í texta þessa bæklings sem mér finnst vera Heklu til skammar. Bendi lesendum á að verða sér úti um hann og get lofað þeim að á nokkrum stöðum muni þeir geta hlegið með öllum kjaftinum - eins og karlinn sagði.

Víða er textinn á hreinu ,,gullaldarmáli" sem síðan vefst fyrir klaufanum sem er að reyna að berja hann saman í skiljanlegar setningar. Nokkur dæmi um gullkornin:

Á einum stað þar sem sagt er frá sjálfvirkri gangsetningu rúðuþurrka verður venjuleg íslensk bleyta að ,,vætumagni". Á öðrum stað er talað um að dragi úr ,,þreytuáhrifum" - hver andskotinn sem það getur nú verið annað en að draga úr þreytu! Sæti nefnast ,,sætabúnaður" (ha ?). Þá segir að jafnvel stórvaxnir farþegar í aftursæti ,,þurfi ekki að kreppa hnén" (maður gæti haldið að verið væri að lýsa sjúkraflutningabíl) - veit þessi álfur ekki að há seta og kreppt hné skapa þægilegustu stellinguna þegar setið er í bíl?

Á öðrum stað er talað um að stíga á ,,eldsneytisfetilinn". Líklega hefur þýðandinn fallið nokkrum sinnum á bílprófi því hann veit ekki hvað inngjöf er.

Og nú er allt í einu kominn hreyfill í nýja Golfinn í stað vélar eins og áður var! Maður sér í anda þar sem sjálfur Gunnar á Hlíðarenda brennir úr hlaði - fögur er hlíðin .... ha?

En ótrúleg tepra í málfari - ef ekki ómenguð heimska - hefur gert þennan þýðanda að einum helsta spaugara í faginu: Hvað finnst fólki um þessa stórkostlegu setningu - þessa málkennd - þekkingu á rótum hins ástkæra ylhýra - snilldina sem kristallast í þessari kjarnyrtu lýsingu á fyrirbærinu, sem á ensku nefnist ,,Cruise Control" og hlýtur að vera beint upp úr Blöndal:

(myndtexti á bls. 33)

,, 02 Engin áreynsla: Með einni fingursnertingu tekur skriðstillið við stjórn hraðans og heldur honum á stoðugu (sic) marki - forbrekkis og ábrekkis."

Með andlegt stórveldi af þessu tagi í stétt þýðenda þurfum við ekki að örvænta um framtíð íslenskunnar - eða hvað?.

 

24. 02.2004

Hvers vegna dettur manni einna helst í hug hugatkið ,,boðflenna" í sambandi við fyrirhugað framboð Ástþórs Magnússonar til forseta Íslands. Skyldi það vera vegna innrætingar okkar, sem komin eru yfir miðjan aldur, eða vegna fordóma. Er Ástþór Magnússon eitthvað síður til þess fallinn að vera fulltrúi íslenskrar þjóðar, þ.e. fulltrúi og sameiningartákn almennings, en t.d. Ólafur Ragnar Grímsson? Ég hallast að því að ástæðan sé innræting, fordómar og misskilningur. Innrætingin kemur fram í því að forsetaembættið sé eitthvað eftirsóknarvert og merkilegt; vegna fordóma finnist manni að það sé frátekið fyrir útvalda og vegna misskilnings haldi maður að embætti forseta Íslands hafi eitthvað með almenning að gera. Ef til vill stafar sá misskilningur af aukinni fjölmiðlun með aukinni lágmenningu sem okkur hættir til að túlka sem einhvers konar lýðréttindi. Þeim sem dýpst eru sokknir í misskilninginn, en á meðal þeirra sýnist mér vera Ástþór Magnússon, tala gjarnan um stjórnarskrárbundið jafnrétti í sambandi við forsetaembættið - en sá frasi hefur aldrei verið neitt annað en innihaldslaust kjaftæði. Stjórnarskráin er frá Dönum og var ætluð til að verja almenning fyrir stjórnvaldii. Þess vegna hefur henni alltaf verið sýnd hæfileg lítilsvirðing, og því er hún jafn úrelt og raun ber vitni og enginn áhugi á að lagfæra hana. Ný lög frá Alþingi, ganga stundum að mati sérfræðinga, gegn ákvæðum stjórnarskráinnar - eftir því sem hentar hverju sinni. Það er ekki nema einhver sérvitringur sætti sig ekki við lögin eða verði fyrir barðinu á þeim, nenni og hafi efni á að fara með málið fyrir alþjóðadómstól, að leiðrétting fæst - og rangindin eru kýld ofan í íslensk yfirvöld; - því erlendir dómarar skilja nefnilega ekki (ennþá) að gagnvart íslenskum lögum skiptir nafn einstaklings máli (eins og sjá mátti af meðferðinni á Sævari Sicelski hér um árið). Í þessu sambandi er mér minnistæð grein í Mogganum fyrir nokkrum árum eftir mann sem var mikið niðri fyrir því hann taldi sig hafa ,,uppgötvað" að lögin um fiskveiðistjórnunarkerfið væru ekki réttlát (og brytu gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar - eins og það væri eitthvað nýtt). Maðurinn var haldinn þeim misskilningi að halda að Alþingi setti lög í anda réttlætis! Hann trúði því að einhver réttlætiskennd væri leiðarljós við lagasetningu á Alþingi en ekki þessi ódulbúna hagsmunagæsla fyrir þrýstihópa. Einstaklingar sem nú setja kúrsinn á Bessastaði án þess að gera sér grein fyrir að þeir eru ekki af réttum ættum, tilheyra ekki réttum klíkum og að peningar þeirra hafi ekki safnast saman á viðurkenndan hátt (hver sem sá háttur er) - þeir eru haldnir þessum makalausa misskilningi gagnvart stjórnvaldi, Alþingi og stjórnarskrá: Þeir halda í einfeldni sinni að þau fyrirbrigði séu fyrir almenning en ekki útvalda. Af því verður heilmikið og dýrt leikrit og vonandi skemmtun þótt endirinn sé kunnur.

17.02.2004

Fyrir skömmu heyrði ég í fréttum Ríkisútvarpsins þegar verið var að tala um könnun á yfirborði reikistjörnunnar Mars. Eins og flestir vita sem fylgjast með notuðu Bandaríkjamenn sérstakt fjarstýrt fartæki til að aka umhverfis geimfarið og til að taka myndir og sýni úr jarðvegi, þ.e. einhvers konar Marsbíl. Fréttamaðurinn nefndi fartækið ,,geimreið" og hefur áreiðanlega verið stoltur af nýyrðinu, sem mér finnst hins vegar lítið til koma. Orðið minnir mig á annað orð, bifreið, sem sumir nota í stað orðsins bíll. Mér hefur alltaf fundist það lýsa stertimennsku ef ekki tepruskap að nota orðin bifreið fyrir bíl, knattspyrnu fyrir fótbolta, knött fyrir bolta, þilfar fyrir dekk, smálest fyrir tonn o.s.frv. Og hver skyldi vera réttlætingin fyrir notkun uppskrúfaðs máls í stað mælts máls? Bíll, fótbolti, dekk og tonn er sagt vera danska eða enska. Ég blæs á þau rök og bendi á móti á að orðið háskóli er jafn mikil danska eða enska. Viðhafnarmál er dautt mál. Íslenska sem ekki er nothæf í daglegu lífi hefur einungis gildi sem menningarlegur safngripur. Þrátt fyrir hrakspár hefur íslenskan haldið velli - ekki vegna þess að einhverjar stofnanir hafi hamast við að finna upp nýyrði sem enginn skilur né notar heldur vegna þess að kennsla móðurmálsins í leikskólum og fyrstu bekkjum grunnskólans hefur tekist vel hjá metnaðarfullu fólki í stéttum fóstra og barnakennara - fólki sem hefur skilning á því að með því að leyfa málinu að þróast í takti við tæknilega þróun samfélagsins og frjótt ímyndunarafl barna verður það nothæft í daglegu lífi. Ég hef áður bent á að að þetta venjulega tuð um vaxandi erlend áhrif á íslenskuna, nú með áhrifum af ensku, er bara nöldur í gömlum skröggum, sem hafa gleymt þeirri dönskuskotnu íslensku, sem margir þeirra ólust upp við á miðri 20. öldinni, nema ef til vill þeir sem komu síðastir með mjólkurbílnum í bæinn (sjá pistil frá 17.12.2003). Því miður sýnist mér að of miklir sveitamenn í hlutverki einangraðra íslenskufræðinga við Háskólann hafi haft mun minni árangur sem erfiði af málræktinni. Enn lakari hefur árangur annarra sveitamanna verið, fornmanna í röðum iðnaðarmanna - manna sem bera ábyrgð á alls konar fáránlega illa grunduðum orðum sem tröllriðið hafa fræðsluefni, t.d. á sviði bílgreinarinnar. Og þessir afturhaldsnaggar hafa meira að segja verið ,,fálkakrossaðir" fyrir hervirkið þegar nær hefði verið að flengja þá opinberlega. Mörg nýyrða þeirra bílgreinarmanna hafa verið sett fram af misskilningi eða tepruskap, eða jafnvel nýyrðanna sjálfra vegna. Sem dæmi nefni ég orðið bulla í stað stimpils (en bulla er beinlínis rangnefni - þótt hugsanlega mætti nota það fyrir ónýtan stimpill), strokkur sem er óþarft og óþjált orð í stað sílindra, höggdeifir í stað depmpara (en höggdeifir er della sem byggir á hugsanaskekkju og/eða vanþekkingu á eðli og tilgangi dempara), vélarhlíf fyrir húdd sem er góð og gild íslenska (ekki óskylt hödd og haddur). Þetta eru aðeins örfá af mörgum dæmum um durgslega málkennd manna sem eiga ekki betra orð yfir marsbíl en geimreið. Ég hef skrifað um tækni á mörgum sviðum lengur en flestir svokallaðir ,,málræktarmenn". Þau skrif hafa birst í blöðum og tímaritum sl. 30 ár og er það efni talsvert að vöxtum. Ég hef oft þurft að hafa mikið fyrir því að koma saman skiljanlegum setningum yfir eitt og annað, sem íslenskan virtist ekki eiga nein orð yfir. En það hefur yfirleitt alltaf tekist á endanum en ég hef haft það fyrir reglu að nota mælt mál frekar en illa heppnuð og/eða illskiljanleg nýyrði - nýyrðanna vegna. Mér er ekki kunnugt um að mín íslenska hafi þótt torskildari en annarra þrátt fyrir það.

Til baka á aðalsíðu

05.02.2004

Fíflafræði er nýjasta tækni í því að skapa markað (og er auk þess að eyðileggja netpóstinn). Fíflafræðin fór að mótast sem fræðigrein með Formúlu Eitt og er nú nýjasta tækni á sviði markaðsmála. Skotspænir þeirra sem beita fíflafræði erum við, sem nefnist einu nafni almenningur; þ.e. áhrifagjarnir unglingar, misþroska fólk og lítið menntað á ýmsum aldri og miðaldra karlmenn á Vesturlöndum sem eru orðnir efnaðir og er því hætt að standa - þá skortir allt nema fé - en það er skilgreining fíflafræðinnar á eftirsóknarverðasta viðskiptavininum. Tvær af þýðingarmestu lögmálum fíflafræða eru: Upphafslögmálið: ,, því heimskari - því ríkari" og altæka markaðslögmálið; ,,því ríkari - því heimskari". Fáeinar undantekningar eru taldar sanna regluna. Fíflafræðin mælir allt í prósentum og færir gild rök fyrir því að allt sem er minna en 10% sé einskis virði og tilgangslaust nema fyrir pólitíkusa og hið opinbera. Píramíti er byggingarlag fíflafræðinnar. 80% af viðfangsefnum fíflafræðinnar eru undir beltisstað - undantekningarlaust eitthvað sem enginn mælikvarði er til fyrir og enginn samanburðargrundvöllur. Lyf sem lengja og reisa ræfilinn og pillur sem megra og létta án hreyfingar eru tvö dæmi um vöruflokka sem tilheyra 80 prósentunum. Ruslpóstur nefnist upplýsingamiðlun á máli fíflafræðinnar. Öll umfjöllun verður að taka mið af athyglisgetu fíflsins sem takmarkast við 3 línur ritmáls og 10 sekúndna skjámynd sem hreyfist og skiptir litum. Ein af afurðum byggðum á fíflafræði er ,,raunveruleika-sjónvarp" þar sem atburðarrásinni er flýtt um 11% án þess að hugsun aðalpersónanna sé flýtt - sama tækni, í anda fíflafræðinnar, birtist okkur í mynd ,,ókeypis" dagblaða og dagblaða sem ,,framleiða" glæpi og glæpamenn sér til viðurværis. Hvaða fræði skyldi búa að baki fyrirbærum á borð við Valentínusardag og lítaaðgerðir í beinni sjónvarpsútsendingu? Fíflafræðin hefur gert athyglisþörf að fíkn - jafnvel ómennska, vesæld og ræfildómur er markaðsvara samkvæmt skilgreiningu fíflafræðinnar og þannig skapar fíflafræðin einnig markað fyrir ,,rauveruleika-bækur" þar sem viðkomandi fletur sig út eins og kunta á klett !

24.01.04

(Þessi klausa var send Morgunblaðinu (,,Bréf til blaðsins") en fékkst ekki birt !). Hvenær verður félagslíf að klíkuskap? Alls konar félögum, samtökum og klúbbum hefur fjölgað síðustu áratugina. Launþega- og stéttafélög skipta hundruðum. Frímúrarar, Oddfellóar,Rotary, Kiwanis, Lions o.fl. starfa í flestum þéttbýliskjörnum; alls konar félög starfa á vegum stjórnmálaflokka. Golfklúbbar hafa sprottið upp út um allt; líkamsræktar-, útivistar- og heitu-potta-klúbbum er haldið úti, veiðifélagar hafa með sér samtök. Til viðbótar mætti nefna áttahagafélög, bridge-, og keiluklúbba, karlakóra, flug-, bíla- og mótorhjólaklúbba - þannig mætti halda áfram nánast endalaust. Tilgangur félagsstarfsins er hagsmunagæsla, ræktun vináttu og/eða frændsemi og skemmtun, enda er maður manns gaman. Allt er þetta gott og blessað svo lengi sem samtakamátturinn er ekki notaður til að rýra félagsleg réttindi og samfélagslega möguleika fólks sem ekki tilheyrir viðkomandi félagsskap og kærir sig ekki um að tilheyra einhverju félagi eða klíku (ég er einn þeirra). Lengi voru svokölluð ,,lokuð leynifélög", sem eiga rót sína að rekja til ,,Gildanna" í Evrópu á miðöldum, grunuð um að beita samtakamætti utan félags til að hygla völdum meðlimum sínum. Þegar lýst var klíkuskap og andfélagslegum áhrifum hans voru gjarnan nefnd dæmi þar sem í hlut áttu karlmenn, sem vitað var að tilheyrðu einhverri reglunni. Núorðið er algengt að klíkuskapur sé kenndur við önnur og almennari félög. Miklu oftar eru karlmenn orðaðir við slíkan klíkuskap en konur. Aukinn almennur klíkuskapur hefur einnig birtst í mynd ,,vinavæðingar". Ég er þeirrar skoðunar að við séum fyrir löngu komin langt yfir mörkin þar sem eðlilegt félagslíf breytist í hættulegan klíkuskap og tel mig geta fært nokkur rök fyrir að svo sé. Ég fullyrði t.d. að miklu meira máli skipti að þekkja einhvern lykilmann, þegar sótt er um starf, heldur en að geta sýnt fram á menntun og færni til að inna starfið af hendi. Með þessu á ég ekki við að menntun og færni skipti ekki máli heldur að sú óeðlilega hefð hafi skapast, að meiru máli skipti hver einstaklingurinn sé en hvað hann getur, þ.e. fyrst er spurt ,,hver er hann/hún?" síðan ,,hvað kann hann og getur?" Önnur rök fyrir þessari fullyrðingu er að málshöfðunum vegna stöðuveitinga hjá hinu opinbera hefur fjölgað undanfarin ár, ekki einungis vegna ásakana um brot á jafnréttisreglum heldur einnig vegna meintrar mismununar, þ.e. að menntun og reynsla hafi ekki verið látin ráða úrslitum t.d. á milli tveggja hæfra einstaklinga. Í þriðja lagi, og sem ég tel vera aukna afleiðingu klíkuskapar, fullyrði ég að það sé orðin regla að einstaklingur, sem kominn er yfir 50 ára aldur og sækir um auglýst starf, sé ekki kallaður í viðtal né virtur svars. Ofnotkun kennitalna, sem er séríslenskt fyrirbrigði, stuðlar að slíkri mismunun; með kennitölum er auðveldara og fljótlegra að fremja óréttlæti í þágu klíkuskapar og nota aldur umsækjanda sem skálkaskjól. Of lítil opinber umræða er um þetta mál, sennilega vegna spéhræðslu og hégómaskapar - of margir eru haldnir þeim bjánalegu fordómum að þora ekki að sækja um störf af ótta við höfnun - eins og höfnun, í sjálfri sér, sé ekki einn af eðlilegum hlutum í gagnverkinu. Skortur á umræðu eykur ósvífni þeirra sem stunda mismunun í þágu vinavæðingarinnar. Ég tel að aukinn klíkuskapur sé þegar orðinn alvarleg meinsemd hérlendis og að klíkuskapur hamli eðlilegri þróun og tæknivæðingu íslenskra fyrirtækja - of margar lykilstöður séu mannaðar undirmálsfólki - fólki sem ekki hefur nægilega hæfileika, menntun og reynslu - fólki sem er ráðið vegna klíkuskapar í stað verðleika. Þetta kemur sérstaklega illa niður á ungu fólki sem sótt hefur framhaldsmenntun í erlenda skóla og því verið fjarri íslensku samfélagi í lengri tíma - og fyrir bragðið fer íslenskt þjóðfélag á mis við verðmæta starfskrafta - því þetta fólk sest að erlendis fyrir bragðið. Vegna klíkuskapar tel ég framleiðni íslenskra fyrirtækja hefta á svipaðan hátt og pólitískar stöðuveitingar hefta framleiðni og þjónustugæði opinberra stofnana. Og það er vegna klíkuskapar sem við manni blasa greinar í dagblöðum þar sem einhverjir hálfvitar eru að fjalla um málefni, án þess að þekkja undirstöðuatriði og eru jafnvel titlaðir forstöðumenn fyrirtækja eða stofnana sem með þau málefni fara. Mér fyndist eðlilegt að kannað sé hvort hægt sé með lögum að stemma stigu við því að klíkuskapur rýri eðlilega möguleika fólks til frama í atvinnulífi. Hins vegar er líklega lítil hætta á að slík lög yrðu nokkru sinni sett því þau hlytu jafnframt að rýra núverandi möguleika pólitíkusa á pólitískum hrossakaupum.

17.01.2004

,,Hvers vegna ertu að skrifa um þetta andskotans austantjaldsdrasl - hvers vegna skrifarðu ekki frekar um Mercedes-Benz?" Þessari spurningu var beint til mín í netpósti skömmu eftir að grein um rússneska bíla birtist á vefsíðunni minni. Erfitt getur verið að svara svona spurningu, en ég hef fyrir reglu að svara alltaf bréfum - því við henni geta verið fleiri en eitt svar - sérstaklega þegar þess er gætt að þessi vefsíða, öfugt við Fréttablaðið, þjónar einungis hagsmunum eiganda síns, sem geta verið breytilegir frá degi til dags, enda engin tilraun gerð til að dylja það. Margir þeir bílar sem ég hef skrifað um eru annað hvort bílar sem voru algengastir á mínum unglingsárum og/eða bílar sem ég hef átt sjálfur. Af nýjum bílum hef ég skrifað um þá sem mér hafa fundist áhugaverðari en aðrir (jafnvel Toyota - þótt ótrúlegt sé) - bílaumboð ráða þar engu um - og eru reyndar ekki spurð. Aðalatriðið er að ég skrifa um það sem mér sjálfum finnst áhugavert. Vefsíðan mín er ekki til sölu - hafi einhver áhuga á efni hennar er aðgangur ókeypis (eins og ruslpóstur/Fréttablaðið án útburðar). Á vefsíðunni minni eru engar auglýsingar, a.m.k. ekki sem ég veit um. Á henni er enginn teljari. Hvort lesendur eru 2 á dag eða 2 á mánuði hefur ekki áhrif á efnisval né efnistök. Og það er ekkert sem blikkar á vefsíðunni minni (svo merkilegt sem það er þá virðist ég aldrei hafa neitt gagn af vefsíðum sem eru með eitthvað sem blikkar, hvað þá hljóð!). Vefsíða Leós er einkaframtak, kostað af mér, ritstýrt af mér og næstum undantekningarlaust er efnið skrifað af mér og ég misnota og nýti mér aðstöðu mína á vefsíðunni pukrunarlaust - set mig aldrei úr færi að koma mínum skoðunum á framfæri. Ég er aldrei hlutlaus í nokkru máli - telji einhver að svo sé, og telji slagsíðuna ekki nógu áberandi, hef ég einfaldlega sofnað á verðinum og flokkast sem óheppni, ef ekki slys. Ég legg mig ekki í líma við að hafa greinar stuttar - þvert á móti ræðst lengd þeirra af efninu en þær eru heldur aldrei lengri en mér finnst þær þurfa að vera. Ég nota ekki illskiljanleg nýyrði heldur mælt mál enda er íslenska kennd í skólum af færari mönnum en mér. Ég á örugglega eftir að skrifa um Mercedes-Benz þótt ég verði aldrei sú hópsál að kaupa Toyota.

15.01.2004

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að svokölluð byggðastefna sé pólitískt prump sem hafi þann eina tilgang að fjármagna mútugreiðslur spilltra kjördæmapotara með skattfé almennings. Pólitísk samtrygging og hrossakaup hafa viðhaldið þessari peningabrennu. Mér er til efs að hægt sé að benda á mörg fyrirtæki úti á landsbyggðinni, sem byggð hafa verið upp með fjárframlögum úr Byggðasjóði, sem skilað hefur eðlilegum hagnaði og jafnframt staðið í skilum við sjóðinn. Samkeppni um heimsku einkennir byggðastefnu og mörg önnur pólitísk verkfæri til ,,vasaþjófnaðar". Það virðist algjörlega útilokað að veita megi opinberu fé til einhverra málefna sem gætu nýst landsbyggðinni allri til eflingar atvinnulífs og/eða menningar. Þess í stað skulu kjördæmin bítast um bitana eða að samið er um þá á bak við tjöldin. 300 milljón króna ,,gjöf" úr opinberum sjóði til vonlauss fyrirtækis í einu kjördæmi verður fordæmi og forsenda þess að a.m.k. 300 milljónum sé varið í enn vonlausara fyrirtæki í öðru kjördæmi. Sé skrúfað frá 1000 milljóna krananum til Svörtu herdeildarinnar á Vestfjörðum skulu aðrar 1000 milljónir fortakslaust tapast á vegum Gulu herdeildarinnar á Austurlandi. Þar með myndast jafnvægi og pólitísk sátt; alls konar snatar ná að krækja til sín milljón hér og milljón þar. Þess eru jafnvel dæmi að graskögglaverksmiðja í fámennri sveit, byggð fyrir opinbert fé, hafi orðið gjaldþrota á fáeinum árum og gjaldþrotið numið 10 milljónum á hverja fjölskyldu í hreppsfélaginu - og allir ánægðir. Skynsamlegar aðgerðir, sem komið gætu allri landsbyggðinni að jöfnu gagni, ekki síst yngri kynslóðinni, eiga síður upp á pallborðið enda erfitt að koma við pólitískum kvóta hrossakaupanna. Hliðstæða byggðastefnunnar í þéttbýlinu, en með öðrum formerkjum, er einkavæðing fyrirtækja í almenningseign - ekki til þess að auka eða bæta þjónustuna heldur eingöngu einkavæðingarinnar vegna. Þar eru pólitísk trúarbrögð á ferð, heimskunni jafnað út og forstokkunin slík að engin rök duga til andmæla. Þannig er Landsíminn kominn í hundskjaft og símakostnaður stefnir einungis upp á við. Nú virðist brennt fyrir að sveitir landsins verði símavæddar á sama hátt og höfuðborgarsvæðið þannig að fólk eigi þess kost, hvar sem er á landinu, að nýta sér þá möguleika sem fólgnir eru í Internetinu. Slík menningarleg brúargerð virðist þingmönnum ekki sýnast áhugaverð þótt líklega myndu fáar framkvæmdir gagnast dreifðum byggðum á landsbyggðinni betur. Nú teljast hugsjónir næsti bær við berkla enda liggja þingmenn í ferðalögum til að safna dagpeningum, að sögn Péturs Blöndal .......

14.01.2004

Einhvers staðar las ég að eitt af því sem fylgdi lýðræðinu væri að siðferðisstig stjórnmálamanna hlyti að vera siðferðisstig kjósenda. Rökin voru þau að ella ættu stjórnmálamenn takmarkaða möguleika á endurkosningu. Með svipuðum rökum hefur því verið haldið fram að kjósendur fengju þær ríkisstjórnir sem þeir ættu skilið að fá. Með fáum undantekningum hef ég óbeit á stjórnmálamönnum (og prestum) og hún hefur aukist með aldrinum. Ég er þeirrar skoðunar að sérlega auman karakter, ef ekki skítlegt eðli (svo notað sé frægt hugtak), þurfi til að ná ,,frama" í stjórnmálum og að undantekningar frá þeirri reglu séu neyðarlega sjaldgæfar. Í morgun (miðvikudaginn 14. jan. 2004) hlustaði ég á Pétur Blöndal í viðtalsþætti Arnþrúðar Karlsdóttur á Útvarpi Sögu en umræðuefnið var m.a. staða Péturs sem stofnfjáreiganda í SPRON og jafnframt staða hans sem formanns nefndar á Alþingi, sem fjallar um málefni almennra stofnfjáreigenda í því fyrirtæki. Andstæðingar Péturs, innan sem utan þings, hafa lagt sig í líma við að gera ekki greinarmun á stofnfjáreign Péturs, sem áður átti Kaupþing og fékk hluta af söluverði þess greiddan með stofnfjárhlutabréfum í SPRON, og stofnfjáreign annarra stjórnmálamanna og pólitískra pótintáta, sem fengu að kaupa stofnfé með sérstökum kjörum og sem almenningi stóð ekki til boða. Skítlega eðlið er samt við sig; reynt er að þyrla upp moldviðri í þeirri von að Pétur verði tortryggilegur í augum almennings þannig að kastljósið beinist síður að hinum ,,klassísku" pólitísku sóðum. Pétur Blöndal hefur ekki viljað láta hlut sinn fyrir ,,nagdýrunum", a.m.k. ekki bardagalaust enda einn þeirra stjórnmálamanna sem ekki skipta um skoðun eins og nærbuxur. Í áðurnefndu viðtali á Útvarpi Sögu lýsti Pétur áliti sínu á siðgæði andstæðinganna þegar persónulegir hagsmunir þeirra eru í húfi. Hann nefndi sem dæmi að þingmenn fengju greidda dagpeninga á ferðalögum erlendis og fengju auk dagpeninganna hótelkostnað greiddan! Pétur sagði þetta vera verulegar upphæðir, nefndi að hann hefði átt 700 þúsund króna afgang af dagpeningum s.l. 8 ára og þar sem hann hefði ekkert við þá peninga að gera hefði hann látið þá renna til Hjálparstofnunar kirkjunnar. Pétur tók það sérstaklega fram að honum væri ekki kunnugt um að þingmaðurinn Jóhanna Sigurðardóttir, sem gæfi sig út fyrir að vera sérstakur talsmaður þeirra sem minna mega sín, léti eitthvað af sínum dagpeningum renna til góðgerðarmála. Við það er auðvitað ekkert að athuga þótt það segi sína sögu - því tímar góðra fordæma eru fyrir löngu liðnir.

06.01.04

Birti hér eina af mörgum dæmigerðum fyrirspurnum sem berast Vefsíðu Leós. Hún er svona: ,,Mig langar að spyrja þig um nokkuð sem hefur bögglast fyrir mér þó nokkuð lengi. Það er all algengt þegar bílaumboð eru að segja frá nýju bílunum sínum að meðal þess sem talið er upp sem sérstkir kostir við gripinn er að undir honum séu 13, 14 eða 15 tommu felgur. Þessar upplýsingar má einnig sjá í auglýsingum um notaða bíla. T.d. smáauglýisingum DV. Ég verð að játa að ég skil alls ekki um hvað málið snýst. Eru þetta bara svona almennar upplýngar, rétt sem aðrar staðreyndir um bílinn? Ef svo er þá er auðvitað ekkert sem þarf að skilja frekar. Bíllinn er á 15 tommu felgum og þá veit ég það. Eða er í raun verið að segja manni eitthvað allt annað en orðin í tjá? Mér hefur dottið í hug að þetta sé aðferð til að segja mér (lesendanum) að bíllinn sé á "lágdekkjum". Það finnst mér þó vera hæpið. Það er varla almennur kostur við fjölkyldubíl ef hann er með slík hraðakstursdekk sem staðalbúnað. Mér hefur líka dottið í hug að það sé verið að benda á að þessi tiltekni bíll sé á ansi stórum hjólum, sem hlýtur þá eð vera kostur sem vert er að hampa. Ég sem sagt skil ekki hvað það er sem skiptir máli sem þarna er verið að koma á framfæri. Mér hefur líka sí svona dottið í hug að þetta bögglist fyrir fleirum.
Getur þú gefið mér skýringu?"

Svarið sem ég sendi er eftirfarandi: ,,Stór hjól eru minna næm fyrir ójöfnu yfirborði en lítil. Þess vegna voru stór hjól, þ.e. bæði stórar felgur og stór dekk undir Rolls-Royce - reyndar líka undir Volvo. Hins vegar byrjuðu stóru felgurnar, á þeim bílum sem nú tíðkast, með ABS-læsivörninni. Til að hún virki nægilega vel á hraðskreiðari bílum þarf bremsudiska með meira þvermál (meiri flöt) og þeir verða að vera á öllum 4 hjólum. Af því leiðir að felgur þurfa að hafa meira innra þvermál til að rýma diskinn. Þá kemur upp vandamál vegna þess að hjólskál rúmar ekki nema ákveðið heildarþvermál hjóls. Með stærri felgu er því notað dekk með lægri prófíl til að hjólið rúmist í hjólskálinni og taki ekki út í. Mörgum hönnuðum þótti hjól með mjög lágum dekkjum óprýða bíla. Til að hafa áhrif á almenningsálitið var því markaðsdeildum bílaframleiðenda falið að ,,selja" þetta útlit. Þær völdu að gera þetta að stæl; láta sem lægst dekk vera ,,töff". Og að venju dönsuðu idjótin með (því af þeim er nóg framboð) og nú er svo komið að þeir heimskustu (sem oft skortir jafnframt allt nema fé) telja það ,,mest töff" að hafa sem stærstar sportfelgur og dekkin svo þunn að engu líkara sé en að ekið sé á felgunum berum. Þótt með þessu verði bíllinn nánast ókeyrandi - jafnvel stórhættulegur - er það aukaatriði: Það er ,,lúkkið" (og bassinn í græjunum) sem skiptir máli.
Því má bæta hér við, að til að reikna út heildarþvermál hjóls er notuð eftirfarandi aðferð, tek sem dæmi dekkjastærð 245/50ZR17:
245 er breidd sólans í mm.
50 er prófíllinn = hæð dekks frá felgubrún er 50% af breidd sólans.
Z er hraðamerking (dekkið þolir meira en 210 km/klst - það þykir idjótunum flottast þótt þeir viti ekki að því meiri hraða sem dekk þolir, því klístraðra er gúmmíið í sólanum og því skemur endist það - þannig má ná af þeim miklu meiri peningum en fólki með eðlilega greind).
R þýðir að þetta sé radialdekk, þ.e. að strigalögin liggi þversum í burðarlagi sólans.
Þvermál hjóls er tvisvar sinnum hæð dekksins + þvermál felgunnar.
Hæð dekksins frá felgubrún er 245 x 0,5 = 122,5 mm.
Þvermál felgunnar er 17 tommur sinnum 25,4 = 431,8 mm
Þvermál hjólsins er þá: 122,5 + 431,8 + 122,5 = 676,8 mm"


05.01.2004

Fréttablaðið hefur þá sérstöðu að vera eini ruslpósturinn sem ég fletti, a.m.k. fyrstu 8 síðunum, auk þess sem ég lít á baksíðuna og les pistilinn, sé hann frá Þráni Bertelssyni. Mér finnst Fréttablaðið ómerkilegur miðill og ekki bera nafn með rentu; leiðist útlit þess og tel efnistökin óvönduð. Þetta er mín skoðun. Þrátt fyrir þetta hefur Fréttablaðið greinar eftir Guðberg Bergsson umfram Morgunblaðið (ég nenni ekki að nefna DV). Þær læt ég ekki fram hjá mér fara. Síðast las ég grein sem hann nefnir ,,Tannleysi" (3. jan) en þar fjallar Guðbergur m.a. um moldviðrið sem varð af fyrstu bók Hannesar Hólmsteins um Halldór Laxnes. Við lestur greinarinnar, sem er drepfyndin, má sjá að Guðbergur hefur ákveðna og öðru vísi skoðun á Halldóri Laxnes, sem persónu, en maður er alinn upp við. Mér finnst hún áhugaverð og bíð spenntur eftir að Guðbergur geri frekari grein fyrir henni og held því áfram að fletta Fréttablaðinu. Ég hef lesið allar bækur Halldórs Laxnes og sumar þeirra oft. Ekki veit ég hvernig síðustu 50 árin hefðu farið með mann hefði ekki mátt hverfa inn í bækur hans eftir ærandi streð dagsins. Guðbergur Bergsson má hafa sína skoðun á rithöfundinum og persónunni Halldóri Laxness - ég held jafn mikið upp á bækurnar fyrir því (reyndar hef ég lesið fyrstu bók Guðbergs nokkrum sinnum, enda er Tómas Jónsson metsölubók eina bók hans sem mér finnst púður í). Í einhverri blaðagrein um bók Hannesar Hólmsteins, Halldór, var minnst á bók Ólafs Ragnarssonar um Halldór Laxnes, sem kom út fyrir jólin 2002 og að ekkert uppþot hefði orðið af henni. Svo vill til að ég á bók Ólafs Ragnarssonar og lét mig hafa það að lesa hana alla og fannst þeim tíma því verr varið sem nær dró bókarlokum; hrútleiðinlegri samsuðu ,,almæltra tíðinda" og samtínings minnist ég ekki að hafa lesið. Þessi bók Ólafs finnst mér vera andlaus og ófrumleg flatneskja, einkennast af kjarkleysi (ritskoðun?) og einungis gefin út til þess að gefa hana út, þ.e. til að nýta rétt til tekjuöflunar en ritarinn hvorki haft getu né metnað til ýra yfirborðið, hvað þá meir - enda er þar ekkert nýtt. Mér kemur því ekki á óvart þótt bók Ólafs Ragnarssonar um Halldór Laxness hafi ekki valdið neinum úlfaþyti - hvað þá viðbrögðum. Hannes Hólmsteinn hefur skrifað nokkrar bækur um merkilega menn og verður ekki brigxlað um kjarkleysi: Ég las voldugt rit hans um verkfræðinginn og stjórnmálamanninn Jón Þorláksson en kunni ekki að meta það; náði ekki tökum á því; fannst efnið/maðurinn ekki spennandi og sögusviðið fjarlægt sem segir ef til vill meira um mig sjálfan en þá bók. Öðru máli fannst mér skipta með bók Hannesar um æfi Benjamíns H. J. Eiríkssonar hagfræðings og fyrrum bankastjóra sem ég hafði mikla ánægju af; fannst hún vel skrifuð, áhugaverð og spennandi auk þess að vera mjög skýr aldarfars- og atvinnulýsing fyrstu áratuga 20. aldar. Bókina Halldór mun ég lesa á næstunni án þess að láta nokkur öfl, utan bókarinnar, hafa áhrif á mig - sama hvað hundstungan kann að finna í fari eða vinnubrögðum Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar.

01.01.2004

Gleðilegt nýtt ár.
Of mikið frelsi á sviði athafna- og viðskiptalífs virðist vera helsta áhyggjumál landsfeðra um áramót, ef dæma má af árlegri værðarvellunni í fjölmiðlum. Of mikið frelsi, en ekki hrakandi siðferði og græðgi, heldur fyrir þeim vöku. Ætluð launahækkun framagosanna hjá Kaupþingi fór svo fyrir brjóstið á fomanni stærsta þingflokksins að hann skeiðaði niður í banka og tók út sparimerkin sín (eða var það gróðinn af stofnbréfum sem hann fékk að kaupa á nafnverði en ekki almenningur?) og trítlaði svo til baka í þingið til að stýra samþykkt ríflegasta eftirlaunasamnings sögunnar þar sem 60 þingmenn áttu, eina ferðina enn, sameiginlega hagsmuni í mynd peningagræðgi. Var einhver að tala um fyrirmyndir? Á sínum tíma voru lög samþykkt sem sköpuðu grundvöll að því frelsi sem nú er sagt ríkja í viðskiptum og orðið er eitt helsta áhyggjuefni stjórnvalda. Á undirbúningsstigi laganna virðist hafa gleymst að ríða hnútana þannig að áfram ríkti ,,gamla frelsið", sem fólst í því að einungis ákveðnir útvaldir og ráðamönnum þóknanlegir, hefðu frelsi til þess að okra á, pretta og svíkja almenna neytendur - svona stórmenni viðskiptalífsins eins og stóðu fyrir samráði olíufélaganna, með milljón króna mánaðarlaun, en sitja nú heima með stöðu grunaðra. Það gleymdist að búa þannig um hnútana að ættlausir ,,götustrákar", eins og ég og þú, gætu ekki með klókindum og vafasömum ,,dílum" náð einokunaraðstöðu á dagvörumarkaði - selt almenningi matvæli og annan varning á fimmföldu verði, í krafti fákeppni, miðað við næstu nágrannalönd (sem er þó lægra verð en þegar ,,eldra frelsið" var við lýði), hlaupið svo með gróðann til útlanda og notað til að braska með hlutabréf í fyrirtækjum og komið sér jafnframt upp fjölmiðlum til vinna að hagsmunum sínum og til að klappa fyrir sér svona eins og Mogginn gerði fyrir Kolkrabbann á árum áður.
Þegar ,,eldra frelsið" var við lýði höfðu bankar með sér samráð um það sem þeim þótti nauðsynlegt, svo sem um ,,eðlilegan vaxtamun" (því safna varð í sjóði til að mæta tapi af ,,pólitískum" lánveitingum), skiptu á milli sín fyrirtækjum landsins, okruðu ótæpilega á þjónustugjöldum og brenndu upp höfuðstól lífeyrissjóða landsmanna. Í þessu efni hefur ekkert breyst nema að hið ,,nýja frelsi" hefur gert bankana að hlutafélögum með gíruga hluthafa og því verða þeir, enn sem komið er, að gera opinberlega grein fyrir tekjum sínum (sem hlýtur að breytast - eða hvað ?). Hér áður fyrr voru bankastjórar pólitískir varðhundar og álitnir því betri sem þeir voru lítilvirkari. Nú eru stjórnendur bankanna ungir og duglegir framagosar, hvattir áfram af gírugum hluthöfum. Höfuðstóll lífeyrissjóðanna og okurtekjurnar, sem bankarnir hafa af almenningi, sem lætur allt yfir sig ganga af gömlum vana, er nú jafnframt notað til útrásar erlendis (eins og það nefnist), þ.e. til að hagnast á vafasömu braski, sem erlend dagblöð fullyrða að sé á jaðri þess að geta talist sæmandi. En tilgangurinn helgar meðalið; græðgi hluthafanna þarf að seðja. Svo setja þessir fuglar upp nýtt andlit í fjölmiðlum, þegar talið berst að einhverju öðru en fyrirtækjunum sem þeir keyptu í gær, og lýsa því yfir, með tárin í augunum, að því miður þá hafi ekki tekist að skila lífeyrissjóðum, í þeirra vörslu, neinni ávöxtun (nærri lagi að segja að reglan sé 20% neikvæð ávöxtun sem þýðir að 20% höfuðstólsins brennur upp á hverju ári). Síðasta tromp bankagosanna fyrir þessi áramót var að láta þau boð út ganga að nú myndu þeir bjóða mörlandanum húsnæðislán á eðlilegum vöxtum fyrir tilstilli alþjóðlegra umsvifa sinna. Ekki kæmi mér á óvart þótt þá vexti verði almennir viðskiptavinir bankanna látnir greiða niður (með enn meira okri á þjónustugjöldum) og að þetta sé eins konar ,,Trójuhestur" í því plotti að sölsa Íbúðarlánasjóð undir bankakerfið og komast þannig dýpra ofan í vasa almennings. En þrátt fyrir allt þá held ég, að af tvennu illu, sé ,,nýja frelsið" skárra - annars hefðu pólitíkusar ekki áhyggjur af því.

 

24.12-2003

Stundum getur tilætlunarsemi, frekja og hroki fólks gengið svo fram af manni að ákveðin mál birtast manni í nýju ljósi. Ég las lesendabréf á þýsku vefriti nýlega um að Íslendingar væru að fremja stórkostlegt hervirki gegn ósnortinni náttúru með virkjunarframkvæmdum á Austurlandi. Bréfritari vitnaði m.a. í nýlega grein í bresku dagblaði um Kárahnjúkavirkjun og sagði að verið væri að eyðileggja eina af örfáum, ómetanlegum, ósnortnum náttúrperlum Evrópu til þess eins, eins og það var orðað, að framleiða raforku fyrir þá tegund stóriðju sem ylli mestum náttúruspjöllum með mengun lofts, láðs og lagar. Þessi þýski bréfritari sagði að ósnortin náttúran inni á hálendi Íslands væri ekkert einkamál Íslendinga og væri skelfilegt til þess að vita að þeir spilltu henni fyrir ferðamönnum hvaðanæva úr veröldinni þannig að þeir ættu þess ekki kost að njóta hennar. Og áfram gekk dælan.

Nú get ég vel skilið að náttúruunnendur og útilífsfólk í Þýskalandi og víðar hafi áhyggjur af því að framkvæmdir á borð við virkjanir valdi umhverfisspjöllum. Hins vegar finnst mér skörin vera farin að færast upp í bekkinn ef erlendir nátturuskoðarar og ferðamenn eiga að fara að ráða því hvort og hvernig Íslendingar, af öllum vestrænum þjóðum, nýta land sitt sér til framfærslu. Hvernig getur Þjóðverji eða Breti - þjóðir sem hafa öldum saman nýtt náttúruauðlindir á landi án nokkurs tillits til umhverfis, mengað andrúmsloft með eitruðum útblæstri iðjuvera síðan um 1750, rányrkt fiskistofna heima fyrir og á alþjóðlegum hafsvæðum, farið með rányrkju í nýlendum í öðrum heimsálfum í krafti hernaðarofbeldis og auk þess háð stríð á sjó og um víða og endilanga Evrópu með eyðileggjandi eldi, eimyrju, eitrun og umhverfismengun öldum saman, - hvernig geta menn af þessum þjóðum krafist þess að Íslendingar, sem menga andrúmsloft minna en nokkur önnur þjóð og á engin nýtanleg efni í jörðu önnur en heitt vatn, nýti ekki orku fallvatna inni í óbyggðum Íslands af tillitsemi við þýska og breska ferðamenn? Getur verið að þetta fólk kunni einfaldlega ekki að skammast sín?

19.12.2003

Af einhverjum ástæðum grunar mig að fólk nenni ekki að benda Samkeppnisstofnun á ýmislegt sem brýtur gegn velsæmiskröfum í viðskiptum - enda sér maður sjaldan lesendabréf í dagblöðum þar sem vikið er að þessum málum. Af fréttum að dæma hafa afskipti Samkeppnisstofnunar af ,,Gönguhópi grænmetissala", sem gripinn var í Öskjuhlíð um árið, og sektaður fyrir samráð um okur á grænmeti, þær afleiðingar einar að neytendur þurfa að greiða sektir þeirra með ákveðinni álagningu - verðhækkanir á grænmeti eru nú um og yfir 50% á algengum tegundum. Eina ráðið sem dugar gegn ,,Gönguhópum" af þessu tagi er að gera þá, sem stjórna fyrirtækjunum, persónulega ábyrga - þannig að maður sem hefur verið dæmdur fyrir aðild að broti á samkeppnislögum, sem stjórnandi, megi ekki sitja í stjórn fyrirtækis í 5 ár frá því dómur fellur. Fyrir þessu eru fordæmi í bandarískri refsilöggjöf. Mig grunar líka að fáir ráðist í það að kæra óeðlilega viðskiptahætti til Samkeppnisstofnunar vegna þess að stofnunin hvetur á engan hátt til þess; vilji fá að vera í friði fyrir almenningi eins og títt er um opinberar stofnanir (hefur einhver reynt að senda Umferðarstofu netpóst ?) - það sé helst keppinautar sem kæra þegar þeir hafa orðið undir í viðskiptum og hafa engu að tapa - en líklegt geti verið að hinir þori ekki, fyrir sitt litla líf, að rugga bátnum af hættu við að ljóstra upp um sjálfan sig - þótt maður verði að vona að viðskipti séu ekki komin niður á svo lágt plan (en hvað á maður að halda í ljósi þeirra kveðja sem sjálfur ríkisskattstjóri sendir kaupahéðnum þessa dagana?).

Lesandi sendi mér netbréf vegna pistilsins frá 14.12 sl. um hina dularfullu værð Samkeppnisstofnunar. Hann var því sammála sem þar kom fram en vildi benda á enn eitt atriði sem dæmi um að Samkeppnisstofnun héldi ekki vöku sinni. Hann segir að kvikmyndahúsin í Reykjavík virðist laus við alla samkeppni og nefnir sem dæmi að í 99% tilvika sé sama verð á aðgöngumiðum. Hann bendir á að sýningartímar séu þeir sömu hjá öllum og ekkert kvikmyndahúsanna bjóði lengur upp á númeraða miða. Þá segir hann að öll kvikmyndahúsin viðhafi löng hlé til að selja sem mest af sælgæti og öll séu þau samtaka um að halda þrifum á milli sýninga sem næst lágmarki, sem hann segir að ali ungt fólk upp við að þetta séu sóðalegir staðir. Í lok bréfs síns bendir lesandinn á að kvikmyndahúsin hafi tekið sig saman um (án þess að hafa áhyggjur af Samkeppnisstofnun) að auglýsa ekki bíósýningar í Fréttablaðinu og DV og þröngvi þannig, beinlínis, viðskiptavinum sínum til að kaupa Morgunblaðið!

Getur verið að ástandið í eigin ranni Fréttablaðsins og DV sé þannig að þau hafi ekki talið þorandi að kæra samantekin ráð stjórnenda kvikmyndahúsanna um að skipta einungis við Moggann?

17.12.03

Ég les alltaf greinar og pistla eftir Pétur Pétursson þul mér til ánægju og fróðleiks. Ég tek undir með Pétri í baráttu hans gegn erlendum áhrifum á íslenskt mál þótt ég sé þeirrar skoðunar að staða íslenskunnar sé betri núna heldur en hún var þegar jafnaldrar Péturs af aldamótakynslóðinni mótuðu og notuðu hana. Ég er sannfærður um að erlendum heitum á fyrirtækjum og erlendum tökuorðum í daglegu máli hefur frekar fækkað en fjölgað þótt enn sé ástæða til að sporna við. Að gamni mínu setti ég saman eftirfarandi texta á þeirri íslensku sem ég heyrði talaða á mínum yngri árum upp úr 1950. Og dæmi nú hver fyrir sig:

Á jólatrénu voru kertaljós og kviknaði í því - pabbi snaraðist með það út á altan í björtu báli. Á gamlársdag fór rafmagnið af bænum upp úr miðjum degi - einhverjar sikringar gáfu sig hjá rafveitunni vegna álagsins. Síðustu áramótin á Reynimel höfðu bræður pabba, ásamt snikkara, lokið við byggingu bílskúrs á lóðinni úr timbri, klætt hann með krussfíner, strengt utan á hann rappnet og forskalað og fellt rennuna inn í gesimsinn. Úr stillassinum smíðuðu þeir stakket meðfram innkeyrslunni að skúrinni. Um þetta leiti var hitaveitan komin á Melana og búið að leggja fortófið, sem var gert áður en gatan var asfalteruð. Nokkrum árum áður hafði verið kynt með kolum og var fírinn niðri í vaskahúsi í kjallaranum. Til hliðar við tröppurnar var kolabox með lúgu. Karlarnir frá Kol & Salt höfðu leðurhlíf á herðunum og báru kolapokana á bakinu frá dálítið krambúleruðum Ford-vörubílnum og tæmdu í kolaboxið. Í eldri hverfum var enn kynt með kolum og var þá kolaboxið víða haft undir bíslaginu. Olíufíring var í nýrri hverfunum.

Kaffihús og sjoppur voru Café-þetta og Café-hitt - á meðal þeirra voru Adlon-bar og West End en þar sem var uppfartað nefndist Restaurant. Fólk dansaði í Þórscafé og Ingólfscafé. Sérstakar tóbaksbúðir voru London og Bristol. Leirtau, tarínur og bestikk fékkst í Liverpool, Hamborg og hjá Zimsen en smotterí á borð við sikkrisnælur, hattprjóna, batterí og ísóleringarband í Nora Magazin. Snæri, terpentínu á 2ja lítra beholler og pólitúr fékk maður í Ellingsen og í Slippnum, skrúfur, bolta og mutteringar hjá Vald Poulsen eða G.J. Fossberg en glerið hjá Ludvig Storr. Fatabúðir voru Haraldarbúð, Ragnar Hall, Jacobsen og Toledo, dömubúðir voru Chic og Pandora, sportidjótin versluðu hjá L.H. Muller. Minni og skrýtnari búðir nefndust Ókúlus, Hygea, Týli og Optik. Bensínstöðvar voru Shell, BP, Esso og Nafta og eitt af stærstu tryggingafélögunum var Troll & Rothe, sem ég held að hafi orðið fallítt (Alliance var þá útgerðarfélag).

Sanitas og Egill sáu um límonaðið og Hansa um hurðir og hillur, vörumerki nærfatagerðarinnar hans Ólafs Magnússonar (í Freyju) var Carabella og nýju vinyl-vinnuvettlingana framleiddi Max. Nathan & Olsen og O.Johnsen & Kaaber voru þekktar heildsölur en nýrri nefndust Mars Trading, Elding Trading, Everest Trading og Terra Trading. Fönix var í Suðurgötunni og Electric á Túngötu og Otto A. Michelsen á Laugavegi 11. Hjá SS Matardeildinni kunnu menn að hantera kjötið og hvergi var úrvalið meira af poleggi, meira að segja margar tegundir af leverpostei.

Einhver gárungi sem ekki mundi húsnúmer Landsbankans í Austurstræti hafði bara skrifað ,,Beint á móti London" utan á kuvertið en bréf hans hefur líklega lent í obligó eftir afgreiðslu eða í klíringu, hafi það innihaldið tjékka sem hefur verið debiteraður eða krediteraður sem saldo nema hann hafi verið innistæðulaus og jafnvel sendur pólitíinu?

Mublur voru innfluttar, danskir skenkar, breskar kommóður en tyrknesskar mottur þóttu lekkerar. Radíón voru frá Philips, Telefunken eða Marconi og á sumum heimilum voru einnig gammófónar. Á veggjum voru skilirí, m.a. ljósmyndir og veggteppi en lítið um alvöru málverk.

Revíur voru í Sjálfstæðishúsinu en leikrit í Iðnó og fylgdu miðunum prógramm eins og í bíóum. Eitt stykkjanna í Iðnó var Græna lyftan með Alfreð Andréssyni. Ég fékk að fara með pabba á generalprufuna. Fólk grenjaði af hlátri. Einn af leikurunum fékk hekseskud og var borinn út af senunni og fornermaðist vegna þess að tjaldið hafi ekki verið dregið fyrir á meðan. Í kjallaranum undir senunni voru búningsherbergin. Inn í þau flæddi sjór á háflóðinu sem ekkert varð við gert og því bara ollræt. Þar sminkuðu leikararnir sig, settu á sig parrukin og æfðu rullurnar.

Fólk ferðaðist á milli landshluta með strandferðaskipum því innanlandsflug var þá enn á frumstigi - þó hafði ég farið með Grumman-flugbáti til Ísafjarðar með Pabba. Á Esju var fína fólkið á 1. plássi og gat fengið frúkostinn sendan í káetuna á morgnanna en í hádeginu var ,,kalt borð" á buffeti. Kapteinninn á Esju bjó í næsta húsi á Reynimelnum en hoffmeistarinn, sem var frá Ísafirði eins og pabbi, bjó úti í Skjólum.

14.12.2003

Eins og oft virðist vera með nýjar stofnanir hérlendis (sem dæmi má nefna Manneldisráð, Persónuvernd, Umhverfisstofnun og fleiri) virðast þær fyrst og fremst verða til vegna fyrirmyndar í öðrum löndum frekar en að þeim sé ætlað að láta jafnframt til sín taka á sínu sviði - og stundum virðist beinlínis þannig um hnútana búið að viðkomandi stofnun sé uppálagt að skipta sér ekki að ákveðnum málum þótt þau virðist vera á verksviði hennar. Undantekning frá reglunni virðist vera Umboðsmaður Alþingis, a.m.k. ennþá. Nú þykist ég vita nokkuð grannt hvert hlutverk Samkeppnisstofnunar sé - hún á sér fyrirmyndir í nágrannalöndum, t.d. í Svíþjóð þar sem ég bjó um tíma. Það sem ég hef, hins vegar, aldrei skilið er hvers vegna ákveðin markaðsráðandi einokunarfyrirtæki hérlendis virðast ekki koma Samkeppnisstofnun við. Hvernig stendur á því að markaðsráðandi einokun ríkir í sölu og dreifingu mjólkurvara í Reykjavík sem eru dýrari en mjólkurvörur í nálægum löndum? Hvernig má það vera að sala á ostum, sem eru dýrari hér en í nokkru nágrannalandi, er í höndum eins fyrirtækis, Osta- og smjörsölunnar, sem hlýtur að teljast eins markaðsráðandi eins og hægt er að túlka það hugtak? Hvernig stendur á því að Samkeppnisstofnun sér ekkert athugavert við fyrirkomulag þessara mála þótt kannanir Neytendasamtakanna, hver á fætur annarri, sýna að þessar vörur eru dýrari hér en t.d. í þeim löndum sem miðað er við? Á meðal annarra fyrirbæra, sem virðist utan sjónsviðs Samkeppnisstofnunar, er fyrirtækið Ísaga í Reykjavík. Málmiðnaðarmenn, sem til þekkja, geta áreiðanlega verið mér sammmála að Ísaga, sem er einkafyrirtæki, sé með algjöra og markaðsráðandi einokun (og einokrun) í framleiðslu, sölu og þjónustu á acetylengasi til málmsuðu hérlendis. Svokölluð hylkjaleiga, sem Ísaga innheimtir hjá viðskiptavinum sem kaupa af því suðugas, hefur hækkað taktvisst eins og náttúrulögmál í áratugi. Samkeppni er engin. Í Bretlandi má kaupa í byggingarvöruverslunum gas og súr til logsuðu á litlun einnota hylkjum frá fleiri en einum framleiðanda (m.a. frá British Oxygen Co.) sem hentar þeim sem þurfa að geta soðið minniháttar suður af og til og þurfa þá ekki að taka á leigu stór og þung gashylki fyrir þúsundir króna og borga síðan árlega hylkjaleigu. Hvers vegna þessi ódýrari og hentugri búnaður, sem jafnframt stafaði minni hættu af í bílskúrum en stærri hylkjum, er ekki boðinn hérlendis, t.d. af Ísaga sjálfu, ætti, að mínu mati, að vera næg ástæða til þess að Samkeppnisstofnun skoðaði stöðu og fyrirkomulag þessara mála.

14.12.2003

Þann 27. mars 2003 skrifaði ég pistil þar sem inngangurinn var ,,Frumherji í fjárkúgun" og fjallaði um bellibrögð sem viðskiptavinir Frumherja voru beittir hjá skoðunarstöð þess í Njarðvík á Suðurnesjum - en þar var númeraplötum, sem legið höfðu inni meira en eitt ár, fleygt unnvörpum án þess að samband væri haft við bíleigendur. Þetta þýddi 6 þúsund króna aukaútgjöld fyrir fólk sem átti eitt bílnúmer geymt. Þegar kvartað var undan þessum óliðlegheitum svaraði nýr forstöðumaður stöðvarinnar fullum hálsi og sagði að farið hefði verið að ,,reglum" og að þetta væri nauðsynlegt vegna plássleysis! Þegar á það var bent að geymsla númeraplatna taki álíka pláss og geymsla rakvélablaða og að annars staðar væri þessi regla ekki viðhöfð, t.d. hringdu starfsmenn Aðalskoðunar í bíleigendur og leituðu skýringa áður en plötum væri fargað - varð lítið um svör en gefið í skyn að sumarafleysingafólki væri um að kenna!. Ég skrifaði forstjóra Frumherja bréf 28. febrúar og kvartaði undan þessum vinnubrögðum (sem kostuðu mig sjálfan 12 þúsund krónur auk annarra óþæginda og kostnaðar) og spáði því að áður en langt um lyki myndu stjórnendur Frumherja geta mælt tjón sitt af nýja forstöðumanninum á Suðurnesjum í minnkandi tekjum. Svar barst tæpum mánuði seinna. Í bréfinu sagði hinn seinheppni forstjóri að kvörtun mín um vonda þjónustu fyrirtækisins í Njarðvík væri ekki á nokkrum rökum reist - en sá frasi er viðtekið ,,bullshit" íslenskra viðvaninga í stjórnun, og gat þess m.a. að ýmsar skipulagsbreytingar hefðu verið gerðar hjá skoðunarstöðinni í Njarðvík og sagði af því tilefni orðrétt ,,Viðbrögð viðskiptavina okkar við þessum breytingum hafa verið mjög jákvæð." Hérlendis eru of margir ,,litlir karlar" að fikta við stjórnun fyrirtækja - Bretar kalla þessar týpur ,,Small timers". Til að opinbera smásálarskap sinni, bauðst forstjórinn, undir lok bréfsins, til að láta endurgreiða mér andvirði númeraplatna og benti mér á að hafa samband við ákveðinn deildarstjóra hjá Frumherja í því sambandi (góðar upplýsingar fyrir aðra sem telja sig hlunnfarna af Frumherja og hafa ekki tímt að fórna dýrmætum tíma sínum til að skrifa forstjóra þess og benda á brotalamir). Ég þáði það ekki. Málið snérist ekki um peninga, heldur viðbrögð vegna þess að manni var misboðið af einokunarfyrirtæki, sem misfer með vald, sem því virðist hafa verið veitt fyrir misskilning eða af slysni. Ég reyndist sannspár: Ég var ekki eini bíleigandinn á Suðurnesjum sem sætti mig ekki við þjónustu Frumherja í Njarðvík. Aðrir brugðust við eins og ég - fluttu öll sín viðskipti varðandi bílaskoðun og skráningarmál til Aðalskoðunar á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef t.d. skipt við Aðalskoðun í Hafnarfirði á þessu ári og mun halda því áfram enda tel mig fá þar betri þjónustu og skemmtilegra viðmót en mætti mér í hjá Aðalskoðun í Njarðvík. En nú hefur komið í ljós að aurasál forstjóra Frumherja er með einhvern innbyggðan mæli sem virkar. Það tók 40 vikur (meðal-meðgöngutíma) að kveikja á perunni - en þá virðist stjórn Frumherja, einangruð af 45 km fjarlægðinni á milli sín og skoðunarstöðvar fyrirtækisins í Njarðvík, hafa fyrir tilviljun látið telja í kassanum og spurt í framhaldinu: Hvers vegna eru Suðurnesjamenn hættir að skipta við okkur? Í framhaldi hefur verið skipt um forstöðumann. Ég legg til að Frumherji taki upp nýtt slagorð í auglýsingum sínum: FRUMHERJI -

BETRA SEINT EN ALDREI.

18.11.03

Áratugum saman kom Morgunblaðið ekki út á mánudögum og kom reyndar ekki út dögum saman á stórhátíðum ef það hentaði og blés einfaldlega á hagsmuni lesenda í krafti stöðu sinnar sem langstærsta dagblaðið. En þegar Fréttablaðið var orðið útbreiddara fór Morgunblaðið loks að koma út á mánudögum - að vísu með andköfum. Eigendur Fréttablaðsins ráða mörgum stærstu fyrirtækjum landsins á sviði verslunar. Með stjórnun auglýsingakaupa flýttu eigendur Fréttablaðsins fyrir gjaldþroti DV og eignuðust það og nú gætu þeir einnig eignast ráðandi hlut í einu stærsta sjónvarps- og útvarpsfyrirtæki landsins. Samkeppnisstofnun getur ef til vill ráðið einhverju um hve langt stjórnendur fyrirtækja með ráðandi stöðu á markaðnum geta sniðgengið og mismunað dagblöðum við kaup á birtingu auglýsinga. Samkeppnisstofnun getur hins vegar ekki neytt fyrirtæki til að auglýsa í miðlum sem ekki bjóða sambærilegt verð á birtingu. Morgunblaðið er háð sölu auglýsinga. Það stendur nú, í fyrsta sinn, frammi fyrir nýju útgáfu- og fjölmiðlaveldi sem munaði ekkert um að kaupa útgáfufyrirtæki þess, væri það falt. Nýja fjölmiðlaveldið er að því leyti sérstakt að eigendur þess njóta ekki trausts helstu ráðamanna þjóðarinnar með forsætisráðherra í fararbroddi. Ekki er spurt hvort saumað verði að Morgunblaðinu heldur hvenær aðgerðin hefjist, hvernig hún verður lögð upp og hve langur tími líði þar til hún skilar árangri. Gerum ráð fyrir að Morgunblaðið haldi ritstjórnarlegu frelsi og aki ekki seglum til að þóknast hagsmunum auglýsenda. Hluthafar útgáfufélagsins Árvakurs munu bregðast við. Spurningin er hvort þeir gera það eftir að auglýsingatekjur Morgunblaðsins hafa minnkað um 10% á ári, 20% eða 30%. Þá munu þeir verja hagsmuni sína með því að selja hlutafé sitt áður en það brennur upp í taprekstri eins og gerðist hjá DV og Norðurljósum. Milliliður, t.d. Búnaðarbanki-Kaupþing, mun kaupa hlutaféð og breyta útgáfufélagi Morgunblaðsins í almenningshlutafélag. Þá mun hefjast bardagi um nýtt eignarhald á útgáfu blaðsins. Hann verður án efa snarpur og spennandi. Við skulum gefa þessu 6-8 ár.

 

11.11.03

Á baksíðu Morgunblaðsins í gær, 10 nóvember, er frétt með eftirfarandi fyrirsögn: ,,Flugmaðurinn hefur störf fyrir Flugleiðir að nýju". Af fréttinni verður ekki annað ráðið en að flugmaður, sem fengið hafði heilablóðfall og þessvegna verið gert að hætta störfum, hafi nú fengið gilt heilbrigðisvottorð og sé að hefja störf að nýju sem flugmaður hjá Flugleiðum. Það kemur fram í fréttinni að læknar séu ekki sammála úrskurði Áfrýjunarnefndar, sem veitt hefur flugmanninum gilt heilbrigðisvottorð, að vísu með ákveðnum takmörkunum sem ekki eru skýrðar í fréttinni. Af þessu má skilja þau notalegu skilaboð að farþegar Flugleiða fái að ,,njóta" vafans. Nú trúi ég því ekki, fyrr en ég tek á því, að Flugleiðir ætli að bjóða mér og öðrum að fljúga með flugvélum þar sem við stjórnvölin eru flugmenn, sem læknar eru ekki sammála um að séu með höfuðið í fullkomnu lagi. Í sjálfu sér er þetta áhugavert mál út frá markaðstæknilegu sjónarhóli, þ.e. hvernig sölumenn Flugleiða hafa í hyggju að selja okkur farþegum þessa þjónustu, sem læknar eru ekki sammála um að geti talist fyrsta flokks. Hvernig á til dæmis að upplýsa tilvonandi farþega, annað hvort við kaup á farmiðum eða við mætingu á flugvöll, að það flugið, sem þeir hafi valið, sé ekki, að mati allra lækna sem með málin fara, eins öruggt og annað? Ætla Flugleiðir t.d. að hafa upplýsingabæklinga í sætisvösunum þar sem farþegum er sagt hvers vegna 2 flugmenn en ekki einn eru í hverri flugvél og hvað þeir eigi til bragðs að taka forfallist báðir flugmennirnir - t.d. leiðbeina farþegum um hvernig eigi að nauðlenda flugvélinni? Eða skyldu Flugleiðir ætla að bjóða sérstök afsláttarkjör í flugi þar sem flugmaður á í hlut, sem læknar eru ekki sammála um að sé með höfuðið í fullkomnu lagi? Eða skyldu Flugleiðir ætla að borga flugmanninum, sem áður tilvitnuð frétt fjallar um, full flugmannslaun fyrir að taka skrifstofustarf á jörðu niðri frá einhverjum lálaunaþrælnum - og sem ef til vill var rekinn vegna þess að hann fékk kransæðastíflu?

10.11.03

Fyrir nokkru stóð FÍB fyrir árlegu upphlaupi gegn tryggingafélögunum og gagnrýndi nú sölu þeirra á tjónabílum. Gagnrýnin fór fyrir ofan garð og neðan vegna þess að hún var illa undirbúin og órökstudd. Framkvæmdastjóri FÍB kom í fréttaviðtöl í sjónvarpi með hæpnar fullyrðingar og sleggjudóma sem urðu málflutningnum ekki til framdráttar enda blasti við að maðurinn hefur ekkert vit á bílaviðgerðum. Í umferðinni eru hættulegir bílar, m.a. illa viðgerðir tjónabílar. Það er ekki tryggingafélögum að kenna heldur skoðunarstöðvum, sem hleypa þessum bílum í gegn um árlega skylduskoðun, sem, samkvæmt lögum, á að vera öryggisskoðun - þau virðast sjá í gegn um fingur við menn eða vinna ekki verkið til fulls vegna takmarkaðrar gæðastjórnunar. Þeir sem fjallað hafa um málefni tjónabíla, og hafa sett fram ýmsar athyglisverðar ábendingar um endurbætur á núverandi fyrirkomulagi, hafa nánast undantekningarlaust beint máli sínu og gagnrýni að tryggingafélögunum. Vandinn er sá að jafnvel þótt tryggingafélögin létu umsvifalaust urða alla bíla sem þau leystu til sín myndu illa viðgerðir tjónabílar halda áfram að fara aftur út í umferðina. Ástæðan er sú að stór hluti bíla, sem skemmast í umferðaróhöppum eru tjónvaldar (í órétti) og ekki kaskótryggðir. Þá bíla leysa tryggingafélög ekki til sín heldur sitja eigendur þeirra uppi með bílinn og tjónið - stundum verulegt tjón sem þeir reyna, á mismunandi heiðarlegan hátt, að minnka sem mest, með sölu bílsins og jafnvel með því að klastra þeim saman sjálfir meira og minna hjálparlaust. Til viðbótar mætti nefna einstaklinga og fyrirtæki, sem hafa atvinnu af því að flytja til landsins tjónabíla, sem dæmdir hafa verið ónýtir erlendis, og láta gera við þá og selja - þá bíla má sjá í breiðum á geymslusvæðum skipafélaganna. Þessir tjónabílar eiga það sameiginlegt að koma aldrei til kasta tryggingafélaga og eru, að mínu mati, stærsta vandamálið. Það verður ekki leyst nema með hertum reglum um árlega skylduskoðun. Böndin berast því að skoðunarfyrirtækjunum. Þessum hluta málsins gleymdi FÍB og einnig verkfræðingur, sem stjórnar tjónaskoðunarstöð Sjóvár-Almennra og skrifar um þetta mál af takmarkaðri þekkingu í Morgunblaðið í dag (10/11). Stungið hefur verið upp á því að lögreglan fjarlægi númeraspjöld af skemmdum bílum á tjónsstað. Jafnvel þótt sett væru lög sem heimiluðu slíkt væri ekki hægt að framfylgja þeim af þeirri einföldu ástæðu að lögreglumenn hafa hvorki fagþekkingu né iðnréttindi til að meta tjón á bílum og jafnvel þótt númeraspjöldin yrðu fjarlægð kemur það til kasta skoðunarstöðva að leyfa notkun bílsins eftir viðgerð. Starfsmenn skoðunarstöðva hafa fagþekkingu og iðnréttindi. Böndin berast að þeim reglum sem þeim er gert að vinna eftir og þeirri furðulegu staðreynd að skoðunarstöðvarnar framkvæma ekki burðarvirkismælingar á viðgerðum tjónabílum en láta vottorð frá einhverjum verkstæðum úti í bæ nægja! Þær kröfur þarf að gera til skoðunarfyrirtækja að árleg öryggisskoðun, þjónusta sem bíleigendur verða að kaupa samkvæmt lögum, sé af eðlilegum gæðum þannig að þar fari ekki illa viðgerður tjónabíll í gegn frekar en á skoðurnastöðvum í Svíþjóð eða Þýskalandi.

09.11.03

Ferli DV er lokið með gjaldþroti og kom engum á óvart. Jónas Kristjánsson fyrrum ritstjóri finnst mér fullbrattur þegar hann fellir dóm yfir síðustu eigendum blaðsins - segir þá m.a. ekki hafa kunnað til verka, tapað frá sér lesendum með ,,miklum afköstum" o.s.frv. Þessir síðustu eigendur tóku ekki við DV fyrr en 2001. Svo ég tali fyrir mig, prívat og persónulega, þá sagði ég upp áskrift minni að DV árið 1995 vegna þess hve mér fannst blaðið vera orðið lélegt og leiðinlegt. Annars vegar fannst mér sem kjallaragreinum, sem lengi höfðu verið mergurinn í DV, hefði verið gert lægra undir höfði þannig að bestu pennarnir voru hættir að skrifa og hins vegar ofbauð mér blaðamennska DV sem oft jaðraði við að vera óþverri. Fram undir 2000 keypti maður þó helgarblað DV í lausasölu. Hrörnun DV hófst því undir stjórn Jónasar, að mínum dómi. Engu að síður voru leiðarar hans áfram það sem bar uppi DV þótt þeir nægðu ekki til að selja mér áskrift. Þegar Jónas Kristjánsson sendir Morgunblaðinu tóninn á vefsíðu sinni (www.jonas.is) og kallar útgáfu aukablaða, sem dreift er með Morgunblaðinu, hóruhús, finnst mér það koma úr hörðustu átt. DV er frumkvöðull á meðal hérlendra dagblaða í því að selja auglýsingar dulbúnar sem efni - það vill svo til að ég og Loftur Ásgeirsson ljósmyndari unnum nokkur slík aukablöð fyrir DV, m.a. um bíla, húsbyggingar, tölvur, ferðaþjónustu, svo eitthvað sé nefnt. Þar var hver stafkrókur seldur fyrirfram. Þar með var ekki sagt að það efni þyfti að vera illa unnið frekar en annað blaðaefni. Ef til vill hefur það verið gert til að friða ,,prímadonnuna" Jónas Kristjánsson að látið var að því liggja að þessum aukablöðum (Hóruhúsi DV) væri stjórnað af auglýsingadeildinni (Páli heitnum Stefánssyni) - ritstjórnarlega ábyrgð bar Jónas þó engu að síður. En svona verða menn þegar þeir eldast og fara að prófarkalesa eigið lífshlaup á seinni spelinum. Þegar nýir eigendur tóku við útgáfu DV árið 2001 réðu þeir sem ritstjóra, í stað Jónasar, sveitamann að norðan sem þá var nýorðinn ,,kassavanur" úr sjónvarpi. Það, út af fyrir sig, sýndi ótrúlegan barnaskap og dómgreindarleysi. Upp úr því fóru að birtast opnugreinar um vínsmökkun í helgarblaði DV, en þá tel ég að hálfvitar séu farnir að skrifa fyrir hálfvita, og þá hætti ég að kaupa helgarblað DV - köttur út í mýri - setti upp á sig stýri og úti var æfintýri.....

26.10.03

Með reglulegu millibili hafa neyendur og bændur skipst á skætingi í dagblöðum við neytendur og nú síðast við tannhvassa kennslukonu af Akranesi - nánast engum til nokkurs gagns. Mér sýnist málstaður bænda versna með hverju árinu. Þegar þeir kvarta undan því hve skammarlega lítið þeir fái greitt fyrir kindakjöt, sem neytendum er selt á okurverði, gleyma þeir gjarnan að um sjálfsakaparvíti þeirra er að ræða - vanda sem er heimatilbúinn og gert hefur sauðfjárbændur að alvarlegu félagslegu vandamáli. Bændur og forystumenn þeirra hafa samið um fyrirkomulag framleiðslu, vinnslu og sölu kindakjöts við hið opnbera fyrir milligöngu stjórnmálamanna og með pólitískum hrossakaupum. Hið opnbera hefur tekið að sér neyða rándýrt kjötið ofan í neytendur. Vandamálin byrja þegar neytendur neita að opna budduna og ginið og umframbirgðir tekst ekki að fela. Allur kostnaður, sem kjötið hleður á sig á leiðinni frá bændum til neytenda er afleiðing miðstýringar, sem samtök bænda og pólitíkusar á þeirra vegum hafa beitt til að viðhalda og beina jafnframt þeim kostnaði til fyrirtækja sem starfa undir ,,regnhlíf" bændasamtakanna og Framsóknarflokksins eða með öðrum orðum; að tryggja að milljaðra niðurgreiðslum sé beint í ,,réttan" farveg. Á sama tíma og miðstýringu hefur verið aflétt hérlendis á ýmsum sviðum, m.a. með afnámi ríkisrekstrar, ríkja grímulaus ríkisafskipti í anda forsjárhyggju varðandi landbúnaðinn - einan atvinnugreina. Ekkert getur komið í veg fyrir að sauðfjárbúskap, með núverandi lagi, dagi uppi hérlendis - það er einungis spurning um tíma. Framleiðslugrein þar sem einstaklingsframtak er afmáð með gæðastýringu af sama toga og beitt var í rússneskum samyrkjubúskap stenst ekki í markaðsvæddu samfélagi á 21. öld. Til þess að auka enn á vandræði sauðfjárbænda er kolrangri aðferð beitt við markaðsfærslu kindakjöts, - aðferð sem veldur bæði neyendum og sauðfjárbændum skaða og er því óskiljanleg. Hér á ég við það fyrirkomulag að velja besta kjötið til útflutnings, beita lögum til þess að greiða bændum lægst verð fyrir besta kjötið og neyða þá jafnframt til þess að selja þannig hluta af bestu framleiðslunni til útflutnings á undirverði. Feita kjötið og það lakara skal síðan í íslenska neytendur á orkurverði hvort sem þeir vilja það eða ekki - pólitísk samtrygging hefur þegar séð til þess að reikninginn verði þeir látnir greiða hvað sem um kjötið verður. Það eru ekki neytendur sem hafa sett þessar þumalskrúfur á sauðfjárbændur - það hafa þeirra eigin ,,hagsmunagæslumenn" gert. Í stað þess að svara lesendabréfum með skætingi ættu þeir, sem vilja bera blak af sauðfjárbændum, að snúa sér að forystumönnum þeirra sem stjórna og viðhalda þrælahaldinu hvort sem ástæðan er heybrókarháttur, annarlegir hagsmunir eða önnur þjónkun. Það fyrirkomulag, sem gerir neysluvöru á borð við kindakjöt sífellt dýrari samhliða því að rýra hag framleiðendanna, stenst ekki. Þá má það vera umhugsunarefni að fyrirkomulag, sem lagðist af í fyrrum Sovétríkjunum með falli kommúnismans, skuli vera enn við lýði á Íslandi árið 2003.

20.10.2003

Gagnrýni er merkilegt fyrirbrigði og hefur stundum allt önnur áhrif en henni er ætlað að hafa. Ég man enn eftir óheppni tónlistargagnrýnanda Dagblaðsins sem lýsti tónleikum (og gaf flytjendum einkunnir) sem höfðu aldrei verið haldnir - ég segi óheppni því honum láðist að ganga úr skugga um að tónleikarnir sem hann gagnrýndi hefðu örugglega verið haldnir. Gagnrýnandinn var rekinn - ekki vegna illa grundaðrar gagnrýni yfirleitt, heldur fyrir vinnusvik. Útvarpsstjóri lét nýlega ,,leka" frá sér gagnrýni á þáttastjórnendur vegna vinstri slagsíðu. Gagnrýni útvarpsstjóra varð hins vegar til þess að margir draga nú í efa að hann gegni einhverju hlutverki þótt hann eigi að heita æðsti stjórnandi RÚV - hann ræður nefnilega engu sem máli skiptir - hann varpaði sjálfur ljósi á þá staðreynd að engin þörf er fyrir útvarpsstjóra. Um leið kom enn betur en áður í ljós að ríkisrekið útvarp þjónar einungis þeim tilgangi að vera farvegur fyrir pólitísk trúboð. Útvarpsráð gegnir ekki öðru hlutverki en að reyna að tryggja jafnræði vinstri og hægri trúboða og þarf ekkert á útvarpsstjóra að halda í þeirri viðleitni. Jafnræði hefur aldrei ríkt hjá RÚV þótt útvarpsráði hafi ætlað sér að minnka slagsíðuna, t.d. með því að etja Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni á almenning - sem hefur áreiðanlega fjölgað vinstrisinnum frekar en öfugt. Hins vegar verður ekki betur séð en að ágætt jafnræði ríki á einkareknum útvarps- og sjónvarpsstöðvum. Niðurstaðan er sú að við þurfum hvorki ríkisrekið útvarpi né sjónvarp. Þennan ríkisrekstur á að afnema tafarlaust enda byrði á skattgreiðendum. Gagnrýni útvarpsstjóra á vinstri slagsíðu, nú árið 2003, er undarleg því sú slagsíða er engin nýbóla, a.m.k. í ríkisútvarpinu. Nefna mætti mýmörg dæmi þar sem áróður hefur verið grímulaus án þess að varðmenn svokallaðra hægriafla í útvarpsráði hafi fengið rönd við reist. Sem dæmi mætti nefna makalausan áróður sem hlustendur máttu sitja undir árum saman hjá fréttariturum hljóðvarpsins í Bandaríkjunum en dag eftir dag mátti heyra pistla frá Stefáni Jóni Hafstein og svo Jóni Ásgeiri Sigurðssyni þar sem dælt var yfir fólk öllum þeim óhróðri sem hægt var að setja saman um Bandaríkin og bandarískt þjóðfélag. Um þessa tvo ,,fréttamenn" gilti að það er fátt sem hundstungan finnur ekki. Hins vegar hvarflar ekki að mér að margur með fullu viti hafi látið þennan makalausa áróður hafa áhrif á skoðanir sínar á Bandaríkjunum. En að þetta skyldi vera álitið boðlegt efni á vegum Fréttastofu RÚV segir heilmikið um stjórnendur hennar sem njóta pólitískrar baktryggingar og geta gefið útvarpsstjóra langt nef. Mér hefði fundist áhugavert að fylgjast með þeim spreyta sig í samkeppni á almennum vinnumarkaði - bara rétt eins og við hin.

12.10.03

Nokkrum sinnum hef ég mætt í útvarpsþátt Sigurðar G. Tómassonar á Útvarpi Sögu og rætt við hann um málefni sem ég hef skrifað um á þessari vefsíðu - efni svo sem um bíla og skriðdreka. Sigurður er, eins og flestir vita, fjölfróður maður og fróðleiksfús; kunnáttumaður í bílasögu og áhugamaður á fjölmörgum sviðum og fagmaður á nokkrum. Á meðal þess sem Sigurður hefur umfram flesta aðra útvarpsmenn er lipurð og hæfileiki til að halda umræðu líflegri og að láta hana ,,streyma" eins og sagt er. Ég efast um að margir viti hvað sá hæfileiki skiptir miklu máli í klukkustundarlöngu viðtali, oft um sérhæfð mál sem þarf að matreiða til að sem flestir geti haft af gagn og ánægju. Oftast hef ég mætt nánast fyrirvaralaust í viðtal hjá Sigurði á Sögu - jafnvel ekki haft tíma til að fara yfir það málefni sem fjalla á um. Í viðtalið mætir maður án gagna enda hvorki aðstaða né tími til að blaða í bókum eða blöðum í beinni útsendingu. Eins og að líkum lætur þá man maður ekki alla hluti út í hörgul og því hættir manni til að ruglast í ríminu og jafnvel fara rangt með einhverjar tölur eða nöfn auk þess sem álagið getur leitt til mismæla. Eitt slíkt mismæli varð mér á í þættinum um Sögu Willys-jeppans þegar ég vitnaði í ranga bók Halldórs Laxness (Útirauðsmýri, Rauðsmýri- Mýri), þ.e. í Íslandsklukkuna þegar ég ætlaði að segja Sjálfstætt fólk. Sem betur fer virðist mér sem hlustendur Sögu hafi skilning á þessu enda geta þeir flestir slegið upp á Vefsíðu Leós og gengið úr skugga um hvort ég hafi farið rétt með. Ég stend í þakkarskuld við marga, sem hafa haft samband með netpósti og lagt ýmislegt til málanna, ítarlegri upplýsingar, leiðréttingar og ýmsar ábendingar sem ég kann að meta. Greinarnar um sögu einstakra bíla hef ég því uppfært og endurbætt með aðstoð hlustenda Sögu og lesenda Vefsíðu Leós. Í þessum greinum hef ég fyrst og fremst fjallað um bílinn, höfunda hans og framleiðendur. Ég hef minna fjallað um viðkomandi bíl í íslensku umhverfi þar sem ég tel aðra færari um það. Nú mun vera von á 2 bókum um sögu bílsins á Íslandi og þá væntanlega og jafnframt um sögu Willys-jeppans hérlendis. Annars vegar er bók eftir þá Örn Sigurðsson formann Fornbílaklúbbsins og Ingimund Bjarnason (Einarssonar frá Túni) en hins vegar bók eftir Sigurð Hreiðar ritstjóra og blaðamann.

27.09.03

,,Svindlari að sunnan" er hugtak sem skotið hefur rótum í þýsku máli. Hugtakið á rót sína að rekja til fordóma gagnvart svonefndu ,,gestavinnuafli" í Þýskalandi. Fordómarnir hafa náð að sá sér og birtast stundum í ákveðnum miðlum sem ódulbúið útlendingahatur. Innflytjendur frá svæðum syðst í Evrópu og frá Tyrklandi hafa lagt undir sig ákveðin viðskiptasvið í Þýskalandi, m,a, verslun með notaða bíla. Afleiðingin er sú að venjulegir Þjóðverjar kaupa ekki notaðan bíl á bílasölu nema í undantekningartilfellum. Verslun með notaða bíla var áður talin til fyrirmyndar í Þýskalandi, m.a. keyptu Íslendingar talsvert af notuðum bílum þaðan á sínum tíma. Nú heyrir það til undantekninga ef frá er talið einstaklingsbundið brask með útjaskaðar druslur. Þegar Þjóðverji er spurður um ástæðuna fyrir þessu eru svörin sem fást oft þannig að þau myndu flokkast undir kynþáttahatur ef ekki nazisma og eru ekki hafandi eftir. Menning er mismunandi, talað er um mismunandi menningarheima og oft í sambandi við átök og óeirðir. Svo mikið vitum við að fólki af mismunandi menningarheimum kemur oft illa saman og nægir að nefna stríðið í fyrrum Júgóslavíu í því sambandi. Í viðskiptum eru einnig mismunandi menningarheimar og ætti að nægja að nefna gyðinga í því sambandi. Viðskiptasiðferði er mismunandi eftir menningarheimum og heiðarleiki er afstætt hugtak. Á meðal Þjóðverja hefur sú skoðun verið viðruð að í augum Suður-Ítala og Tyrkja megi sá, sem lætur plata sig í viðskiptum, sjálfum sér og heimsku sinni um kenna og í framhaldi er fullyrt að svindl og prettir séu eins konar íþrótt eða sport hjá fólki af þessu þjóðerni eða menningarheimi. Hvort sem eitthvað er til í þessu eða ekki þá mega Þjóðverjar sjálfum sér um kenna því þeir opnuðu landamæri sín fyrir útlendu vinnuafli þegar þeir gátu hagnast á því og sitja nú uppi með vandamál sem þeir telja alvarlegt: Útlendinga. Þetta kemur í hugann þegar verktakar sunnan úr álfu gera lægra tilboð í virkjunarframkvæmdir á hálendi Íslands og undirbjóða innlenda verktaka. Nú er að koma í ljós að hér eru ,,svindlarar að sunnan" á ferð sem telja það einungis sniðugt að virða ekki hin ýmsu skilyrði útboðs, sem innlendir verktakar reiknuðu með að virða, ferkar en sem hentaði. Og sjálfsagt hlægja þeir að sveitamennsku og klaufsku Landsvirkjunar sem þeir telja sig hafa í fullu tré við. Nú er bara að vona að verkalýðshreyfingunni takist að stöðva þessa innrás ,,svindlara að sunnan". Takist það ekki er eins víst að íslensk verktakastarfsemi mun aldrei bera sitt barr og þeir sem verða fyrir mestum skakkaföllum verða venjulegir íslenskir launþegar. Eftir að ,,svindlarar að sunnan" hafa tekið við verktakastarfsemi á Íslandi verður að flytja inn vinnuafl því enginn Íslendingur getur lifað af þeim launum sem ,,svindlarar að sunnan" bjóða.

13.09.03

Hugtakið ,,barn síns tíma" á oft betur við en lýsingarorð þegar skoðuð eru fyrirbrigði úr fortíðinni. Lýsing hlutar getur verið mismunandi eftir því hver lýsir honum og sé hluturinn gamall verður lýsingin afstæð - sá sem lýsir tekur mið af sínum tíma, sínum hughrifum. Algengt er að afgreiða ásýnd hluta og form sem gamaldags, nýtískuleg, framúrstefnuleg - jafnvel púkó eða hallærisleg þegar ,,barn síns tíma" hefði betur átt við. Til frekari skýringar gæti ég nefnt nokkur dæmi um kvenfatatísku á ýmsum tíma en sleppi því. ,,Barn síns tíma" á vel við um bíla, t.d. bandaríska bíla frá síðustu öld en þarf hófst ,,bílaöld" og þar var bíllinn hafinn á stall sem þjóðfélagslegt tákn og mælikvarði um stöðu og velgengni einstaklings og fjölskyldna. Hve margir hafa ekki staðið sjálfan sig að því að hneykslast yfir gríðarlegri stærð amerískra bíla frá því um 1959; óhóflegu skrautinu, ofgnóttinni og sóuninni sem honum eða henni finnst fólgin í fyrirbærinu og notkun þess - þegar notað er viðmið nútímans? Hinn umfangsmikli Buick Roadmaster, vængjaði Chevrolet Bel Air og krómslegni Ford Galaxy, af árgerð 1959, létu drauma sinna kaupenda, á sínum tíma, rætast: Þeir þóttu glæsilegir og eftirsóknarverðir því almenning í Bandaríkjunum og víðar dreymdi um að eignast þá og láta sjá sig á þeim. Hönnuðir þeirra, séu þeir enn á lífi, hafa ástæðu til að vera stoltir af þeim og fráleitt að þeir skammist sín fyrir þá. Okkur finnst þessir bílar sjálfsagt ljótir nú og hvorki gætum né vildum gera þá út og nota vegna gjörbreyttra aðstæðna: Þeir eru börn síns tíma.
Íslendingar voru lengst af 20. öld haldnir minnimáttarkennd vegna hýbýlamenningar sem kennd hefur verið við moldarkofa og lús. Illt viðurværi og sú minnimáttarkennd, sem af skapaðist, varð að áráttu sem birtist m.a. í andúð á öllu gömlu sem gjarnan var stimplað ,,sveitó". Verðmætum fornritum hafði fyrr á öldum þurft að bjarga úr landinu og fela Dönum til varðveislu svo þau færu ekki í skóbætur eða væri brennt. Seinna var skipulega gengið til verks og nánast öll tæki og áhöld opinberra stofnana og fyrirtækja frá fyrri hluta síðustu aldar eyðilögð og urðuð - því þetta var ,,gamalt drasl". Strætisvagnar Reykjavíkur mega þakka fyrir að tekist hefur að varðveita nokkrar ljósmyndir af gömlum vögnum áður en þeir voru urðaðir. Póstur og Sími varð að kaupa gamlan Ford í Bandaríkjunum og láta gera upp til að eiga á safni bíl, sem líktist fyrstu póstbílunum, og þannig mætti áfram telja: Áhrifamenn af ,,torfhúsakynslóðinni" beittu sér, á sínum tíma, fyrir því að húsaröð við Bankastræti og Lækjargötu í Reykjavík yrði rifin til að rýma fyrir einhverri monthöll og kölluðu húsin, sem seinna voru gerð upp og mynda nú Bernhöftstorfuna, ,,danskar fúaspýtur". Sem betur fer hefur nýrri kynslóð tekist að snúa þessari þróun við og stöðva þá eyðileggingu menningarverðmæta, sem hamast hafði verið við lengst af fyrri öld - þessa makalausu herferð til að afmá menningararf, sem eldra fólk skammaðist sín fyrir í stað þess að líta á hann sem barn síns tíma.

31.8.03

Eftir frí á Akureyri síðustu vikuna í ágúst, en á þeim tíma hef ég verið fyrir norðan nánast samfellt í 10 ár tek ég undir með Akureyringum um að þar sé yfirleitt alltaf gott veður. Með því er ekki átt við að á Akureyri sé alltaf sólskin að sumri til heldur að veðurfarið sé milt - laust við slagveður og þræsinginn sem tilheyrir suðvesturhorninu; eins konar meginlands- eða innlandsloftslag ekki ósvipað því sem maður bjó við í Stokkhólmi fyrrum. Líklega er ekkert jafn óræk sönnun þess að veðráttan sé mildari á Akureyri en í Reykjavík en ending Fiat-bíla. Á Akureyri sá ég tvo Fiat 850 frá 8. áratugnum og var annar þeirra meira að segja í notkun. Ég hef aldrei farið dult með þá skoðun mína að Fiat sé vel hannaður en afspyrnu illa smíðaður bíll úr einstaklega lélegu efni. Ég varð þeirrar skoðunar strax eftir að hafa átt fyrsta Fiat-bílinn árið 1964 og ekkert í ferli Fiat allar götur síðan hefur gefið mér tilefni til að endurskoða það álit. Að tveir rúmlega 20 ára gamlir Fiat skuli standa standa á hjólunum á Akureyri eru ekki meðmæli með bíltegundinni heldur veðurfarinu. Þeir sem hafa gaman af gömlum bílum hafa því fulla ástæðu til að öfunda Akureyringa enda er þar marga fallega bíla að sjá. Af mörgum nefni ég vínrauðan Ford Taunus 17M af árgerð 1965 (A-140) sem er eins og nýr og í daglegri notkun. Við Bygðarveg sá ég áratugagamlan stríheilan Renault sendibíl. líklega þann eina sinnar tegundar hérlendis. Í Fjörunni mátti sjá stríheilan bláan Ford Corsair 1964 en þeir bresku bílar voru undanfari Cortina snemma á 7. áratugnum og nú sjaldgæf sjón. Í Fjörunni stendur einnig myndarlegur rússajeppi með íslensku húsi. Úti í Eyjafjarðarsveit sá ég 70 ára gamlan grænan Ford vörubíl á ferðinni og ofarlega á Oddeyrinni stendur stríheill Rambler Ambassador af árgerð 1966 á númerum. Sá bíll sem kom mér þó mest á óvart á Norðurlandi var ekki á Akureyri heldur í Skagafirði. Það er 1946 árgerð af Chevrolet vörubíl sem stendur þar við afskekktan sveitabæ sem sést ekki frá þjóðveginum. Það merkilega við þennan vörubíl er að húsið er lítið sem ekkert skemmt - meira segja grillið, sem var mjög áberandi á þessum bílum, er heilt og yrði eins og nýtt við endurkrómun. Þótt þessir vörubílar hafi verið nokkuð algengir fram á 7. áratuginn hef ég ekki séð neinn slíkan uppgerðan. Vonandi tekst að bjarga þessu eintaki frá urðun og í þeim tilgangi hef ég komið upplýsingum um geymslustað bílsins til Fornbílaklúbbsins. Myndir

20.6.03

Brátt mun áratugalöngu pólitísku þrefi um veru Varnarliðsins og aðild Íslands að NATO ljúka. Hvorki herstöðvarandstæðingar né herstöðvarsinnar munu hafa átt von á því að Bandaríkjamenn myndu höggva á hnútinn og hverfa sjálfviljugir með hernaðarstand sitt frá Íslandi. Ég hef fylgst með þrasinu um varnarmálin, frá því á táningsaldri á 6. áratug fyrri aldar, og hef ákveðna samúð með þrösurunum, hvorn flokkinn sem þeir hafa fyllt - því ,,glæpnum" hefur verið stolið af báðum. Herstöðvarandstæðingar voru að vísu orðnir of feitir og latir til að nenna að ganga frá Keflavík til Reykjavíkur í þágu málstaðarins en engu að síður er þeim viss vorkunn þegar ,,óvinurinn sjálfur" tekur af þeim málstaðinn og ómakið - enginn þeirra hefur átt von á því. En fylgismenn Varins lands og aðildarinnar að NATO verða þó enn verr úti: Áratugum saman höfum við mátt hlusta á þau rök þeirra, gegn fullyrðingum herstöðvarandstæðinga að Bandaríkjamenn væru einungis með her á Íslandi til að verja eigið land og gerðu Ísland þar með að einu af fyrstu skotmörkunum í nýju heimsstríði, að bandaríski herinn væri hér jafnframt til að tryggja varnir og öryggi Íslands og vitnað í ,,Varnarsamninginn" því til staðfestingar. Nú kemur í ljós að hafi það verið tilgangur Bandaríkjamanna, sem ég reyndar efast um, þá kemur nú í ljós að þeir hvorki nenna né tíma að verja eða gæta öryggis Íslands þegar aðstæður hafa breyst hjá þeim sjálfum; - þeir voru hér einungis í sinna eigin hagsmuna skyni. Enskt máltæki segir: ,, Með svona vini þarf maður ekki óvini." !

8. 5.2003

Í kosningaumræðum undanfarna daga hefur atvinnuleysisbætur borið á góma - m.a. þá furðulegu staðreynd að atvinnuleysisbætur og lágmarkslaun skuli vera lægri en nægir til lágmarksframfærslu samkvæmt opinberum hagtölum. Einn ráðherra taldi að atvinnuleysisbætur ættu að vera lægri en lágmarkslaun vegna þess, eins og hann sagði, að einhver hvati yrði að vera til þess að fólk leitaði eftir atvinnu. Þau ummæli bera vitni ótrúlegri nesjamennsku og andlegri einangrun og hlýtur að vera áhyggjuefni að stjórnmálamenn með aldargamla fordóma skulu teljast gjaldgengir hérlendis. Nútímasamfélagi fylgir atvinnuleysi í mismiklum mæli. Enginn hagfræðingur myndi telja það raunhæft markmið að útrýma atvinnuleysi eins og forkólfar ASÍ hafa lýst yfir. Hins vegar er það liður í hagstjórn að halda atvinnuleysi innan ákveðinna marka. Í þróaðri hagkerfum, t.d. í Svíþjóð, er litið á atvinnu sem forréttindi - það er ekki sjálfsagt mál að hafa launaða vinnu heldur eru það forréttindi. Af því leiðir að atvinnuleysisbætur er eðlileg greiðsla samfélagsins til einstaklinga sem ekki njóta þeirra forréttinda að gegna launuðu starfi. Einnig ber á það að líta að það er bæði atvinnulífinu og ríkinu í hag að einstaklingar, sem standa sig illa í vinnu, séu fremur á atvinnuleysisbótum en að taka upp störf fyrir fólki sem getur sinnt þeim betur. Í þróðuðum iðnríkjum Vestur-Evrópu er stór hópur fólks sem aldrei hefur haft fasta vinnu, jafnvel 2. og 3. kynslóð sem ekki þekkir aðrar fastar tekjur en atvinnuleysisbætur. Að gera þetta fólk að bónbjargarlýð með stjórnvaldsákvörðunum, eins og hér tíðkast, kæmi ekki til greina í þessum löndum. Vegna þessa úrelta hugarfars íslenskra ráðamanna fjölgar öryrkjum hérlendis með hverju árinu - fólki tekst að gera sér upp örorku með aðstoð lækna sem skilja að það er oft eina úrræði atvinnuleysingja til að komast af fjárhagslega og án þeirrar lítilækkunar sem fólk þarf annars að ganga í gegn um með skráningu/stimplun á 15 daga fresti. Fyrsta skrefið í átt til raunhæfra endurbóta á þessu ,,fátæktarkerfi" er að viðurkenna að atvinnuleysi verður ekki útrýmt né sé æskilegt að útrýma því frekar en hæfilegu offramboði á húsnæði. Næsta skref væri að viðurkenna þá staðreynd að félagslega fjárhagsaðstoð ber ekki að líta á sem góðgerðastarfsemi né svar við betli og í framhaldi af þyrftu sumir stjórnmálamenn að átta sig á því að þótt einhverjir einstaklingar misnoti félagslega þjónustu réttlætir það ekki takmörkun hennar frekar en að misnotkun fáeinna einstaklinga á heilbrigðiskerfinu réttlætti takmörkun almennrar læknisþjónustu við 75% lækningu meina. Og þótt það sé útúrdúr en samt tengt þessu efni skal það nefnt að á vefsíðu Hagstofu Íslands er leitarvél. Sé eitt eftirfarandi þriggja orða slegið inn; atvinnuleysisbætur, lágmarkslaun, skattleysismörk finnst ekkert svar. Það tel ég nokkuð dæmigert fyrir notagildi upplýsingamiðlunar opinberra stofnana.

24.4.2003

Í dag, Sumardaginn fyrsta 2003, er hleypt af stokkunum sérstakri kynningu á vetni sem orkumiðli og jafnframt látið í veðri vaka að farartæki munu verða knúin vetni jafnvel innan fárra ára sem er fjarstæða ef frá eru skilin farartæki tilheyrandi einhverjum tilraunaverkefnum. Ég hef ekki legið á þeirri skoðun minni að vetni eigi enga möguleika sem eldsneyti fyrir farartæki og hef rökstutt þá skoðun mína í fleiri en einni blaðagrein. Hins vegar hef ég ekkert á móti rannsóknum á hugsanlegum orkumiðlum eða orkugjöfum sem tekið gætu við hlutverki eldsneytis sem unnið er úr jarðolíu. Ég er ekki mótfallinn vísindalegum rannsóknum á erfðafræði og arfgengni sjúkdóma frekar en hver hugsandi maður en er hins vegar á móti því að slíkar rannsóknir séu fjármagnaðar með því að svíkja fé af almenningi með blekkingum, sjónhverfingum og áróðri eins og gerst hefur hérlendis. Takmarkalaus peningjahyggja með dyggilegri hjálp auðtrúa fjölmiðlafólks gerði það að verkum að margir töpuðu sparifé sínu, jafnvel aleigu, vegna kaupa á hlutabréfum í óskráðu fyrirtæki sem reynst hefur brenna peningum með meiri afköstum en a.m.k. Íslendingar eru vanir.
Óprúttnir pólitíkusar hafa uppgötvað að VETNI getur hjálpað þeim að spila á fjölmiðlafólk sem er auðtrúa og ógagnrýnið vegna skorts á sérhæfingu. Með þeim í för eru vísindamenn sem vonast til að umfjöllun fjölmiðla auðveldi þeim að afla fjár til rannsókna sinna frá skattgreiðendum (ríkissjóði), sjóðum og fyrirtækjum. Til hjálpar hafa komið ímyndarsérfræðingar á launum hjá olíufélögum og þróunardeild eins bílaframleiðanda sem sjá möguleika á að komast í heimspressuna fyrir milligöngu íslenskra einfeldninga - enda alltaf hægt að benda á Íslendinga ef farið væri að spyrja þá óþægilegra spurninga.
Einhver myndi sjálfsagt vilja skjóta skildi fyrir vísindamennina og halda því fram að málefnið sé gott og að viðfangsefnið hafi hagnýtt gildi. Hvorugt stenst. Hins vegar hafa vísindalegar rannsóknir alltaf hagnýtt gildi sem þekkingarleit ein og sér. Aðrir myndu ef til vill halda því fram að væru rannsóknir ekki fjármagnaðar með þessum hætti (blekkingum og lygum menntaðra manna sem almenningur hefur tilhneigingu til að trúa) yrðu engar framfarir eða þróunin yrði mun hægari. Það er hins vegar allt annað og flóknara mál - mál sem er heimspekilegs eðlis og sem eflaust er tímabært að heimspekingar tækju fyrir og ræddu.
Á bak við íslenska ,,vetnisverkefnið" er sama ódulbúna peningahyggjan og að baki miðlæga (líffræðilega) gagnagrunninum, sem nú hefur dagað uppi eftir að blekkingin varð ljós, - blekkingin varð svo augljós að tvær grímur runnu jafnvel á pólitíkusa, sem nú þora ekki að standa við ,,einkavinaloforð" um milljarða ríkisábyrgð (áhættan er almennings) - og kalla þeir nú ekki allt ömmu sína í þeim efnum. Auk peningahyggjunnar býr einnig að baki vetnisverkefninu þessi makalausa þjóðarlygi ,,ódýr íslensk orka" - um raforku sem er allt annað en ódýr fyrir almenning og svo ,,ódýr" fyrir atvinnurekstur að lengst af hefur verið mun hagkvæmara að keyra loðnubræðslur með því að brenna innfluttri olíu en með því að nota raforku til hitunar.

29.03.03

Nú vilja ,,úlfarnir" láta leggja Íbúðalánasjóð niður og færa íbúðareigendur í einkavæddar þrælabúðir frjálshyggjunnar, þ.e. inn í bankakerfið. Jafnvel þeir ósvífnustu þora samt ekki, enn að lofa því að það komi til með að lækka kostnað heimilanna af húsnæði - því þeir vita sem er að því fer víðsfjarri - en þyngstu rökin sem þeir bera á borð eru þau að ,,aukið hagræði muni skapast af því að sá sem skuldi geti haft öll sín mál á einum stað og þannig fáist betri yfirsýn yfir fjármálin". Ja hérna! Mikil má tjónkun ráðamanna vera við þessa einkavæðingarhugsjón sína, sem ekkert hefur leitt af sér fyrir íslenskan almenning nema aukinn framfærslukostnað, ætli þeir nú að afhenda úlfahópnum á silfurfati þá sem tekið hafa húsnæðislán.
Í ljósi reynslunnar verður almenningi fórnað sem fyrr til þess að nýríkt uppskafningaliðið geti rakað saman fé - ekki með eðlilegri þjónustu - heldur með skipulögðu okri í skugga fákeppni og ,,opinberrar velþóknunar".
Ekkert verra getur hent þá sem greiða af húsnæðislánum en að bankarnir yfirtaki Íbúðalánasjóð - það mun einungis auka greiðslubyrði almennings auk þess að auka misrétti og mismunun á milli einstaklinga og landshluta hvað varðar möguleika á fjármögnun íbúðarhúsnæðis - jafnvel þótt ríkisábyrgð á húsnæðislánum yrði áfram eftir yfirtöku bankanna. Í þessu efni er reynslan ólygnust. Íslensk bankaþjónusta er sú dýrasta í heimi og, eins og fram hefur komið, er ósvífni bankanna slík gagnvart almenningi að þeir lækka ekki útlánsvexti þótt Seðlabankinn lækki stýrivexti - heldur hirða sjálfir mismuninn til að safna meiri gróða.
Fátt sýnir betur við hverju íbúðareigendur mega búast, fari húsnæðislán yfir í bankakerfið, en samanburður á hagkvæmni húsnæðislána Íbúðalánasjóðs og bílakaupalána, sem bankar og lánastofnanir tengdar þeim og/eða tryggingafélögum veita. Þótt bílakaupalán séu ekki með ríkisábyrgð þá er lágmarkstrygging veð í bíl sem skilyrði er að kaskótryggja - og ekki aldeilis ókeypis.
Ekki er óalgengt að meðalfjölskylda skuldi 7 milljónir króna húsbréfalán hjá Íbúðalánasjóði og þyki í nógu staðið að greiða af því. Væri þetta 7 milljón króna lán hins vegar á þeim bestu kjörum sem bankar og lánastofnanir bjóða í formi bílakaupalána þyrfti fjölskyldan að greiða um 110 þús. kr. á mánuði í afborganir og vexti af láninu. Það er ákveðin vísbending um hvað býður okkar eftir að einkavæðingarforkólfarnir hafa afhent úlfahópnum húsnæðislán almennings.

22.03.03

Sagnfræði er forvitnileg fræðigrein. Í grunninn er hún sjálfsagt vísindaleg og fylgir ákveðnum fræðilegum lögmálum. Engu að síður er sagnfræði ein þeirra fræðigreina sem áróðursmeistarar allra tíma hafa misnotað í því skyni að ljúga að almenningi. Í því efni nægir að benda á hvernig Nasistar í Þýskalandi tóku sagnfræðina í sína þjónustu eða hvernig rússneskir sagnfræðingar sátu pungsveittir við að endurskrifa sögu Sovétríkjanna með föstu millibili eftir því hvaðan vindurinn blés.
Til er fyrirbrigði sem nefnist ,,sagnfræði sigurvegarans" og hefur verið beitt óspart af þeim sem sigrað hafa í hernaði en hún gengur út á það m.a. að lýsa stríðsglæpum þess sigraða og bera saman við mannúð sigurvegarans. Í sagnfræði sigurvegarans er allt á sömu bókina lært; jafnvel hergögn þess sigraða eru afspyrnu léleg, eða í versta falli ekki lýst frekar; hermenn þess sigraða brjóta iðulega Genfar-sáttmálann sem sigurvergarinn heldur í heiðri og hergögn og herkænska sigurvegarans er alltaf miklu meiri en þess sigraða. Og við þessu gleypir lýðurinn og hefur alltaf gert - í sumum tilvikum hefir meira að segja tekist að láta almenning sigraðrar þjóðar trúa því að hermenn hennar hafi brugðist föðurlandinu.
Þessi sagnfræði sigurvegarans kom í hugann við vinnslu greinar um sögu skriðdrekans, sem birt er á þessar vefsíðu (undir FRÁSAGNIR). Fólk af minni kynslóð, fætt á árum síðari styrjaldarinnar, var lengst af látið trúa því að öll amerísk hergögn hefðu verið framúr skarandi. Það var ekki fyrr en maður kynntist breskum jafnöldrum sem maður fór að efast um að allt væri þetta satt og rétt - en þorði samt ekki að hafa hátt um efasemdirnar því þá gat maður átt það á hættu að verða stimplaður sem nasisti enda settu margir samasemmerki á milli venjulegs þýsks hermanns og Svart- og Brúnstakka Nasista. Breskir jafnaldrar og foreldrar þeirra, sem börðust í stríðinu, höfðu undarlega lítið álit á amerískum bílum og þessrar andúðar verður enn vart í Bretlandi. Þegar farið var að kanna málið stafaði þessi vantrú af slæmri reynslu Breta af amerískum Sherman-skriðdrekum sem hermenn þeirra voru neyddir til að nota á vígvelli Evrópu í síðari heimstyrjöldinni - skriðdrekar sem þeir fullyrtu að hefðu verið afspyrnu lélegir og valdið dauða og örkuml þúsunda hermanna Bandamanna sjálfra. Eldri Bretar, sem barist höfðu í stríðinu, fullyrtu að þýsku skriðdrekarnir hefðu verið vandaðri og mun öflugri vígvélar en ,,þetta ameríska bölvaða drasl", eins og þeir orða það gjarnan.
Enn má sjá í sögubókum, t.d. amerískum, klausur sem ætlað er að lýsa gæðum amerískra skriðdreka. Af mörgum dæmum um ,,sagnfræði sigurvegarans" er þessi klausa úr amerísku ritröðinni ,,War Leader" Nr. 2 um Patton hershöfðingja eftir Charles Whiting (undir mynd á bls. 25): ,,The American Sherman M4 was the tank produced in the greatest numbers by the Western Allies, and performed nobly in North Africa, Italy, France and Germany.... The sheer number of these tanks, combined with their sturdy no-nonsense construction, good armour and powerful armament proved to be more than the Germans could take." Að frátöldu því sem sagt er um fjölda Sherman-skriðdrekanna er hvert orð í þessum tilvitnaða enska texta hrein og klár lygi.

21.03.2003

Ég fékk bréf um daginn frá fyrirbæri sem kallast Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda, sem ekki væri í frásögur færandi, ef ekki væri fyrir tóninn í bréfinu. Í bréfi sjóðsins er ég upplýstur um að samkvæmt upplýsingum frá Skattstjóra hafi ég ekki greitt í lífeyrissjóð ákveðna upphæð af tekjum ársins 2001, sem voru ekki fréttir fyrir mig, og fyrir bragðið krefji þessi söfnunarsjóður mig um greiðsluna og 40 þúsund krónur í dráttarvexti. Vísað er í lög. Í bréfinu segir að greiði ég ekki upphæðina innan 10 daga verði krafan afhent ákveðnu innheimtufyrirtæki.
Allur er tónn bréfsins fjandsamlegur, ruddafenginn og ókurteis. Á milli línanna má lesa: Í fyrsta lagi að ég hafi verið gómaður. Í öðru lagi að sjóðnum hafi bæst við enn eitt fórnardýrið (dráttarvextir) og í þriðja lagi að hrægammarnir voki yfir mér í mynd innheimtufyrirtækis (meiri dráttarvextir og kostnaður).
Ég átti reyndar von á því að sá lífeyrissjóður sem ég hafði greitt í myndi senda mér bréf og minna á að þessi greiðsla hefði ekki skilað sér og mátti búast við að þurfa að greiða dráttarvexti. En þannig ganga hlutirnir ekki fyrir sig lengur: Nú er engu líkara en að skipulögðum aðferðum sé beitt til þess að afla alls konar atvinnu-afætum tekna; fyrst sérstökum söfnunarsjóði og síðan sérstöku innheimtufyrirtæki.
Annað sem stingur í augu er frekjan og ruddaskapurinn sem einkennir texta innheimtubréfa frá opinberum og hálfopinberum stofnunum. Hvaðan kemur þessu fólki þessi hvatvísi, græðgi og hroki? Gæti verið að svona textagerð sé kennd á háskólastigi?
Hluti almennings virðist vera hrakinn undan úlfahópi í mynd alls konar rukkara. Harðast ganga þeir fram sem innheimta greiðslur í lífeyrissjóði sem skila neikvæðri ávöxtun - enda ekkert nema lög sem gera það að verkum að greitt er í þá. Þjófnaðurinn er því skipulagður og fer fram með stoð í lögum!

11.03.2003

Stundum mætti ætla að Suðurnesjamenn væru að því leyti öðru vísi en annað fólk að láta bókstaflega allt yfir sig ganga. Í Morgunblaðinu 4. mars sl. er ,,frétt" undir fyrirsögninni ,,Læknislaust á heilsugæslunni" en í Reykjanessbæ hefur ekki verið eðlileg læknisþjónusta í rúma 4 mánuði - eftir að læknar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja gengu út og réðu sig annars staðar.

Í þessari makalausu ,,frétt" er haft eftir forstjóra Heilbrigðisstofnunarinnar að ráðnir hafi verið nýir starfsmenn, þ.á.m. barnalæknir í hlutastarf, fjármálastjóri, hjúkrunarfræðingur og næringarráðgjafi - og það má skilja forstjórann á þann hátt að heilsugæslan sé nú bara í nokkuð góðu lagi þótt vanti læknana!

Ég vil benda stjórn Heilbrigðisstofnunarinnar á þá staðreynd að heilsugæslustöðvar eru mannaðar læknum annars staðar á landinu en á Suðurnesjum, m.a. með læknum í fullu starfi, og stjórn stofnunarinnar er því vorkunnarlaust að semja við lækna eins og gert er annars staðar á landinu í stað þess að standa í þrákelknislegu karpi, jafnvel í fjölmiðlum, eftir að hafa málað sig út í horn.

Fólk á Suðurnesjum á, lögum samkvæm, rétt á eðlilegri læknisþjónustu og ef stjórnandi og stjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja geta ekki tryggt hana er þess einfaldlega krafist að þeir segi af sér störfum tafarlaust.

Núverandi ástand í heilsugæslumálum á Suðurnesjum er hættulegt. Það þarf ekki stórslys til að um mannslíf verði að tefla. Þá er ljóst að öryggisleysið og fyrirhöfnin, sem þetta ástand skapar í sveitarfélaginu, t.d. fyrir aldrað fólk og fólk með veik börn, er gjörsamlega óþolandi. Og við þetta má bæta að læknislaus heilsugæslustöð er ekki til þess að auka öryggi alþjóðlegs flugvallar við bæjardyrnar.

Ábyrgðarleysi, ef ekki hreinn og klár glannaskapur stjórnenda Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja er með ólíkindum og Suðurnesjamenn hljóta að lýsa fullri ábyrgð á hendur þeim og stjórnendum Reykjanessbæjar í þessu máli. Bregðist hvorugur við nú þegar er hér með farið fram á að heilbrigðisráðherra taki af þeim völdin og komi þessari sjálfsögðu þjónustu aftur í eðlilegt horf.

 

6.3.2003

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Þetta gæti verið sameiginlegt kjörorð íslenskra símnotenda árið 2003. Eftir að einkaréttur Póst- og símamálastofnunar á rekstri símkerfa var afnuminn og Landssíminn einkavæddur hefur símakostnaður rokið upp hérlendis. Á tímabili fram að ,,einkavæðingunni" var símakostnaður lægri á Íslandi en í nágrannalöndum - þótt það kunni að hljóma ótrúlega. Nú eru afturúrsiglarar teknir við, stjórnendur sem skammta sér 10-15 föld mánaðarlaun Dagsbrúnarmanns (séu þeir hógværir) og mér kæmi ekki á óvart þótt innan tveggja ára verði símanotkun orðin dýrust á Íslandi í samanburði við nágrannalönd - þó ekki væri nema til samræmingar öðrum framfærslukostnaði í þessu nýja lénsskipulagi undir merkjum einkaframtaks þar sem okur er markmið í sjálfu sér.
Samkeppni er ekkert annað en brandari á Íslandi - fyrirbærið væri réttara nefnt samræmt okur og, ef eitthvað er, hefur sú samræming tekist betur eftir einkavæðinguna. Tökum Húsasmiðjuna og Byko sem dæmi. Í stað samkeppni skipta þessi fyrirtæki með sér markaðnum. Ef þau væru í raunverulegri samkeppni myndu þau ekki koma sér saman um samræmdan afgreiðslutíma verslana eins og þau gera t.d. hér á Suðurnesjum og séu þau í einhverri samkeppni er hún á kostnað almennra neytenda, en stórnotendur látnir njóta hennar.
Fyrir nokkru fór nýtt fyrirtæki, Halló, af stað á símamarkaðnum og, jafn ótrúlegt og það virtist, gat boðið og bauð lægri notendagjöld af heimilissíma en Landsíminn og Íslandssími. Margir viðskiptavinir Landssímans (þar á meðal undirritaður) tóku tilboði Halló og fluttu notendaþjónustu sína þangað þótt þeir yrðu að greiða fastagjaldið áfram til Landssímans. Símreikningar lækkuðu fyrst í stað. En ekki voru liðnir margir mánuðir þegar Landssíminn hækkaði fastagjaldið til að ,,bæta sér upp tekjutapið." Það reyndist hins vegar aðeins vera fyrsta skrefið í viðbrögðum í anda ,,frjálsrar samkeppni" því áður en árið var liðið hafði Íslandssími keypt bæði Halló og Tal og eins og hendi væri veifað hækkuðu afnotagjöldin sem nú hafa meira en tvöfaldast á fáum árum.
Trúir því einhver fullfrískur maður að íslensku olíufélögin stundi samkeppni? Trúir einhver því að einkavæðing póstþjónustunnar muni leiða til lækkunar á almennum burðargjöldum eða bæta þjónustu við almenning? Ekki ég. Og hvers vegna skyldi vera haldið uppi andófi gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið eða Efnahagsbandalagið. Skyldi það vera hagsmunagæsla í þágu þeirra sem vita að erfiðara verður að okra skipulega á almenningi í alvöru gjaldmiðilskerfi ???

27.02.03

Frumherji í fjárkúgun. Sú var tíðin að Bifreiðaeftirlit ríkisins var ein óvinsælasta einokunarstofnun hins opinbera. Svo komu frjálshyggjupostular og eftir að þeir höfðu barið trumbur sínar um tíma varð ,,einkavæðing" lausn á öllum vandamálum íslensks samfélags; það var talið miklu eðlilegra að einkaaðilar okruðu á almenningi heldur en hann sjálfur (ríkið). Og einkavæðing hófst. Í einu tilliti hefur almenningur orðið var við einkavæðingu og það er í hækkandi útgjöldum á flest öllum sviðum. Einkavæðing Bifreiðaeftirlits ríkisins leiddi af sér nýja stofnun sem nefndist Bifreiðaskoðun Íslands hf. Til að réttlæta einkavæðinguna var aðstaða til öryggisskoðana á bílum gerð þannig að hún þoldi dagsljós en einkavæðingin var þó ekki meiri en svo að Lögreglan færði fyrirtækinu viðskiptavinina hvort sem þeir óskuðu viðskipta eða ekki - mun það vera einsdæmi í Evrópu nema ef til vill í fyrrum einræðisríkjum kommúnista. Bifreiðaskoðun varð ekki vinsælt fyrirtæki. Til að klóra í bakkann var enn stofnað nýtt fyrirtæki, Frumherji, en með því átti að reyna að brúa gjána sem myndast hafði á milli Bifreiðaskoðunar og fyrirtækja sem, af einfeldni sinni, héldu sig vera í eðlilegri samkeppni um öryggisskoðanir fyrir bíleigendur. Síðan hafa nýir stjórnendur tekið við hjá Frumherja, nú síðast stór hluthafi, og hefur sá gefið út miklar yfirlýsingar um öll þau skoðunarsvið sem þetta fyrirtæki eigi að geta yfirtekið. Eftir stendur að Frumherji, eitt einkafyrirtækja á Íslandi, starfar eftir lögum og reglugerðum sem gerir því kleift að hafa almenning að féþúfu. Samkvæmt lögum ber að leggja inn númeraplötur af bílum séu þeir ekki færðir til lögbundinnar aðalskoðunar á réttum tíma. Til munu vera reglur (frá tíma Bifreiðaeftirlits ríkisins) um að númeraplötur beri ekki að geyma nema 1 ár - þrátt fyrir að fólk hafi verið látið greiða fyrir þær fullt verð eins og fyrir hverja aðra lausamuni. Starfsmenn Bifreiðaeftirlitsins framfylgdu yfirleitt ekki þessum reglum, vegna þess hve þær þóttu óréttlátar, nema ekki tækist að ná sambandi við eigendur viðkomandi bíla eftir að númer höfðu legið inni árum saman. Nú bregður svo við að hjá Frumherja á Suðurnesjum (í Njarðvík) hefur númeraplötum verið fleygt unnvörpum sem legið hafa inni lengur en 1 ár. Ekki verður annað séð en að ástæðan sé mannvonska, heimska og óliðlegheit nýs forstöðumanns. Aðgerðir hans hafa valdið því að Frumherji hefur haft fjölda fólks á Suðurnesjum að féþúfu - fólk sem þarf nú að greiða 6000 krónur fyrir ný númer sem það taldi sig eiga geymd, t.d. fólk sem greitt hafði tugþúsundir fyrir einkanúmer og taldi sig eiga númeraspjöld fasta númersins geymd þegar kom að endurnýjun bíls, jafnvel eftir 2 ár. Þetta er hrein og bein fjárkúgun. Rökin fyrir því að geyma ekki númeraspjöld lengur en eitt ár eru engin: Númeraspjöld taka minna rými í geymslu en flest önnur vara - það eru einungis rakvélarblöð sem taka minna pláss. Með þessu móti hefur Frumherji beitt bíleigendur á Suðurnesjum fjárkúgun. Ég læt ekki bjóða mér slíkt - mun ekki láta Frumherja skoða mína bíla héðan í frá - frekar skal ég hafa fyrir því að flytja þá (jafvel á vagni) á Reykjavíkursvæðið þar sem ég get skipt við önnur skoðunarfyrirtæki en Frumherja.

24.02.03

Það verður ekki af okkur Íslendingum skafið að löngum höfum við verið lítilla sanda menn - ,,small timers" eins og það er kallað á ensku. Hvergi birtist þetta skýrar í samfélagi okkar en með latri og bitlausri fjölmiðlun. Fjölmiðill sem byrjar herskár með lúðraþyt koðnar oftast fljótt niður í flata hagsmunagæslu og læðupúkalegan áróður þegar auglýsingakrónurnar fara að koma í kassann - dæmin eru bæði í dagblaðaútgáfu og á öldum ljósvakans. Nú keppast þekktar smásálir um að hneykslast á 70 milljón króna árslaunum forstjóra Kaupþings - enda stutt í kosningar - og alltaf grunnt á öfundinni hjá smásálum í öllum flokkum. Kaupþing starfar á alþjóðlegum markaði. Ef því tekst að græða peninga ættu starfsmenn þess að fá hlut í gróðanum - og ekki er það verra séu starfsmennirnir íslenskir skattborgarar. Í stað þess að fagna því að einhver á þessu volaða skeri hafi há laun geta smásálir með kóktappa fyrir himinn sameinast í djúpri hneykslan. En í á máli Kaupþingsforstjórans klikka íslenskir fjölmiðlar væntanlega eins og venjulega - þeir hamast við að éta upp hneykslun þekktra blaðrara en nenna ekki að rækja hlutverk sitt - upplýsingaskylduna. Alvöru fjölmiðill (að ekki sé nú minnst á stjórn Kaupþings eða hluthafa) myndi rannsaka hvort forstjórinn hafi raunverulega unnið fyrir þessari launauppbót. Í upplýsingum frá fyrirtækinu sjálfu hefur nefnilega komið fram að hluti af greiðslunni til forstjórans var ekki fyrir góða frammistöðu Kaupþings sem sérhæfðs fjármálafyrirtækis heldur vegna sölu á eignum. Aðferð Kaupþings við reikningsskil var einnig til umfjöllunar í sænskum (alvöru) fjölmiðlum fyrir um ári og ekki talin til eftirbreytni .... Forstjóri Kaupþings stjórnaði í eina tíð lífeyrissjóði (Einingu) sem vann sé það til frægðar að skila einni lökustu ávöxtun sem um getur (og kalla lífeyrissjóðir nú ekki allt ömmu sína í þeim efnum). Þessi 3 atriði hefðu alls staðar annars staðar en á Íslandi átt að leiða til þess að einhver fjölmiðill hefði rannsakað fyrirtækið Kaupþing og rekstur þess niður í kjölinn - tilefnið upplýsingar um myndarleg árslaun eins af mörgum stjórnendum þess.

26.01.03

Ég bý í dæmigerðu útgerðarplássi, Höfnum, þar sem trilluútgerð var löngum aðalatvinnuvegurinn (ég sé ekkert eftir honum). Kvótakerfið, eins og það er nú með sínum kostum og göllum, er talið mismuna þegnunum - þar sem réttur einstaklings til að sækja sér björg í bú er takmarkaður með lögum (jafnvel talað um brot á stjórnarskrárvernduðum réttindum manna). Ef við gæfum okkur að við byggjum í þjóðfélagi þar sem lýðréttindi og jafnrétti væru virk hugtök (sem ég efast reyndar um) - þá hlyti að vera talið brýnt að lagfæra augljósustu gallana á kvótakerfinu. Segjum sem svo að settar verði reglur um trillur: Trilla megi vera af ákveðinni lengd, breidd og með ákveðna djúpristu. Jafnframt verði lögleitt að hver sem er megi gera út trillu af þessari stærð og veiða á handfæri. Þarf einhverjar frekari takmarkanir til að réttlæti aukist? Trilla af þessari stærð rær á grunnslóð. Trilla af þessari stærð getur ekki komið með nema takmarkaðan afla að landi í hverjum mánuði. Íslenskt veðurfar takmarkar úthald trillu. Ég þekki veðurfar og sjólag hér við suðurströndina. Væru svona reglur í gildi myndi ég ekki fara að gera út trillu - ég þyrði það ekki - því þetta er líklega einn allra hættulegasti atvinnuvegur sem um getur (er það ekki staðfest í skrám yfir slasaða og dána sjómenn?). Heldur fólk, í alvöru, að væru svona ,,réttlátar" reglur í gildi að þá myndi hver einasti maður þora á skak? Ég tel engar líkur á því. Þess vegna tel ég að auðvelt væri að gera fiskveiðistjórnunarkerfið réttlátara - væri einhver áhugi fyrir því. Mig grunar hins vegar að markmiðið með kvótakerfinu sé ekki ,,réttlæti" og þar liggi hundurinn grafinn.

25.01.03

Baugur gerist stórtækari í umsvifum sínum erlendis með hverju árinu. Enginn fjölmiðill hefur spurt hvaðan þeim Baugsmönnum komi fé til milljarða fjárfestinga og brasks erlendis. Það er engu líkara en að maður eigi að trúa því að erlendir bankar hafi slíka tröllatrú á Baugi að þeir láni því ómælt. Reyndar kom annað á daginn þegar Baugsmenn gerðu tilraun til að kaupa breska verslunarkeðju árið 2002 en heyktust á því vegna þess að þeir gátu ekki fengið fé að láni til kaupanna. Á sama tíma og fjölmiðlar velta sér upp úr þessum umsvifum Baugs hafa kannanir sýnt að verð á matvöru er margfalt hærra hérlendis en í öllum nálægum löndum. Baugur selur stærstan hluta matvæla á íslenskum markaði. Er þetta ekki það sem kallað er okur á mannamáli? Sé ýjað að því að það fé sem Baugsmenn nota til fjárfestinga og brasks erlendis sé haft af íslenskum neytendum með okri og fákeppni (því ,,frjáls samkeppni" á íslenskum matvörumarkaði er bara brandari) - benda þessir kallar hróðugir á Bónus og segja ,,við erum ódýrastir". Þeir gætu alveg eins sagt ,,við okrum minna en hinir". Eftir sem áður er matvöruverð margfalt hærra á Íslandi en í nálægum löndum - einhvern tímann hefði svona ástandi verið líkt við ánauð ef ekki þrælahald. Nefnist þetta ekki að vera í tröllahöndum?

24.01.03

Kauphöllin hefur verið að sekta fyrirtæki að undanförnu. Um verulegar fjárhæðir er að ræða í sumum tilvikum. Ástæðan er sú að fyrirtækin hafa ekki farið eftir reglum Kauphallarinnar varðandi aukningu hlutafjár eða vegna viðskipta með hlutabréf. Hefur orðið talsvert fjaðrafok vegna þessa og þeim Kauphallarmönnum ekki verið vandaðar kveðjurnar og einhver fyrirtæki munu hafa hótað því að segja sig úr samstarfi við Kauphöllina. Ég tek ofan fyrir Kauphallarmönnum. Ef svo ólíklega skyldi vilja til að ég keypti einhvern tíma hlutabréf í fyrirtæki mun ég einungis kaupa í fyrirtæki sem skráð er hjá Kauphöllinni. Það virðist hafa gleymst að almenn verslun með hlutabréf fyrirtækja er ekki farvegur fyrir innherjabrask. Almenn verslun með hlutabréf er bráðnauðsynleg til þess að fyrirtæki geti aflað fjár til rekstrar og uppbyggingar á hagkvæman hátt og án þess að þurfa að eiga fjármögnun að öllu leyti undir bönkum og lánastofnunum. Því aðeins að almenningur og fagfjárfestar kaupi hlutabréf fyrirtækja verður þessi fjármögnunarleið fær. Til þess að almenningur hætti fé sínu til hlutabréfakaupa þarf tvennt til: Annars vegar góða ávöxtun en hins vegar þarf áhætta að vera innan ákveðinna marka. Til þess að almennir fjárfestar telji áhættu viðunandi þarf sérstakt eftirlit með viðkomandi fyrirtæki og aðferðum þess við kaup og sölu hlutabréfa. Þar koma fyrirtæki á borð við Kauphöllina til skjalanna og setja reglur og hafa eftirlit með því að þeim sé framfylgt. Klikki þetta eftirlit; - hætti almenningur að treysta eftirliti fyrirtækja á borð við Kauphöllina, er þessi möguleiki til fjármögnunar úr sögunni. Svo virðist sem einstök fyrirtæki telji það ómaksins vert að vera aðili að Kauphöllinni á meðan á fjármögnun stendur en telji það nánast vera sitt einkamál hvernig það ráðskist með hlutaféð eftir að það er fengið. Slíkan misskilning á Kauphöllin tvímælalaust að leiðrétta - og með sektum ef annað dugar ekki.

Nýrri pistlar

Aðalsíða