Jamestown Pensacola.

Í tengslum við enska þýðingu þessarar greinar spunnust samskipti við starfsmenn sjóminjasafna á austurströnd Bandaríkjanna sem voru forvitnir að skoða hvort þetta skip hefði komið við sögu á þeirra svæði. Það er reyndar ólíklegt þar sem Jamestown fór einungis einu sinni frá Bandaríkjunum (jómfrúarferð) og mun þá hafa haldið rakleiðis frá Maine í átt til Englands.

Á meðal þeirra sem ég skrifaðist á við vegna sögu Jamestown er Carolyn Prime safnvörður hjá Pensacola Historical Society í Flórída. Hún hafði haft pata af þessari sögu minni af Jamestown-strandinu 1881 og fann í sínum gögnum heimild um að skonnortan Jamestown hefði lagt upp frá Pensacola hlaðin timbri og haldið áleiðis til Evrópu. Gallinn var bara sá að það var árið 1865 og því löngu áður en það Jamestown sem ég fjallaði um var byggt enda báru mörg fley nafnið Jamestown.

En Carolyn sendi mér athyglisverða lýsingu á ýmsu sem snerti umfangsmikinn timburútflutning frá Pensacola á 19. öld og á fyrstu áratugum þeirrar tuttugustu en hann gerði það að verkum að mikil auðæfi söfnuðust upp í Pensacola og nágrenni. Gríðarlegir furuskógar voru hoggnir og ræktaðir og timbrið selt til Evrópu. Algengt var að um 100 timburflutningaskip væru samtímis í höfninni í Pensacola sem er við Mexíkóflóa skammt austan New Orleans. Trjáviðnum var fleytt með straumnum niður að höfninni frá sögunarmillum og haldið í kvíum þar til því var lestað í skipin.

Lestunin fór þannig fram að timbrinu var fleytt inn í lestar skipanna um op á bógnum en opnin voru þannig útbúin að þau mátti færa upp eftir því sem skipið risti dýpra vegna hleðslu þar til lestar höfðu verið fylltar. Þegar um sérstök timburflutningaskip var að ræða, þ.e.a.s - farmur skips var eingöngu timbur voru sérþjálfaðir menn fengnir til að hlaða og ganga frá farminum en til þess þurfti sérþekkingu. Væri timbrið flutt langa leið mátti það ekki haggast, ekki einn einasti planki eða staur. Það sem margir vita ekki er að timburflutningur á sjó er með hættulegri förmum vegna eldhættu; sé minnsta los á timbrinu getur það náð að núast saman þar til eldur kviknar (sama hátt og indíánar kveiktu eld með því að núa saman pílviði og harðviði). Kæmi upp eldur í fulllestuðu timburflutningaskipi var nánast vonlaust að komast að honum til slökkvistarfs. Það var því engin furða þótt Suðurnesjamönnum gengi hálfbrösuglega í fyrstu að losa um farminn í Jamestown - frá honum höfðu kunnáttumenn gengið.

Skipin sem komu tóm að sækja timbur til Pensacola höfðu alls konar barlest; salt, grjót, marmara, múrstein svo nokkuð sé nefnt. Skipin voru látin losa barlestina á skipulagðan hátt í höfninni þannig að úr varð veruleg landfylling.
Þegar gulusóttarfaraldur var í borginni, en það mun nánast hafa verið árlegur viðburður, fengu skipin ekki að leggjast uppað heldur var þeim gert að liggja við akkeri á flóanum fyrir utan höfnina. Þar varð að losa barlestina til að hægt væri að sótthreinsa skip. Þannig myndaðist eyjan Sabine af barlest skipanna og á henni reis sóttvarnarstöð. Á Sabine-eyju eru enn byggingar frá því um aldamótin 1900 og á eyjunni eru nú aðalstöðvar alríkisstofnunarinnar U.S. Biological Service í Florída.

Stærstur hluti þeirra skipa sem komu á þessum tíma til Pensacola, þ.e. á árunum 1870 - 1920, voru að sögn Carolyn Prime, frá Skandinavíu og einkum frá Noregi. Af því leiddi að fjölmargir Norðmenn settust að í Pensacola og þar eru afkomendur þeirra enn áberandi. Norska sjómannakristniboðið reisti heimili og kirkju fyrir sjómenn í Pensacola. Kirkjan brann til grunna skömmu eftir 1930. Í Pensacola voru fram eftir 20. öld ræðismenn Danmerkur, Noregs og Hollands og einn vararæðismannanna var jafnframt umsvifamesti skipamiðlari borgarinnar.