George S. Patton Jr.

George S. Patton Jr. fæddist 11. nóvember 1885 í San Gabriel í Kaliforníu. Hann var af hermönnum kominn í nokkra ættliði og af forríku fólki. Patton kvæntist Beatrice Ayers sem var dóttir auðkýfings frá Boston. Hann nam við ýmsa herskóla og gerðist að námi loknu atvinnuhermaður, undirliðsforingi í 15. riddaraliðssveit hersins 1909. Að loknu framhaldsnámi gerðist hann aðstoðarmaður John J. Pershing hershöfðingja 1916 og fylgdi honum sem majór til Frakklands ári síðar þegar bandaríski herinn gerðist þáttakandi í fyrri heimstyrjöldinni (1914-1918). Í nóvember 1917 var Patton á meðal fyrstu manna sem skipuðu nýstofnaðar skriðdrekasveitir bandaríska hersins og stjórnaði m.a. þjálfun þeirra í meðferð franskra Renault-skriðdreka. Patton, sem gerður var að ofursta tímabundið, stjórnaði skriðdrekaherfylkjum í bardögum í Frakklandi og særðist alvarlega í einum þeirra og var sæmdur heiðursmerki (æðri þjónustuorðunni) fyrir vasklega framgöngu.

Á millistríðsárunum aflaði Patton, sem þá var majór, sér frekari menntunar í herstjórn auk þess að stjórna ýmsum verkefnum fyrir herinn. Í júlí 1940 var honum falin stjórn stórfylkis 2. brynherdeildar sem hafði bækistöð í Fort Benning í Georgíu. Ári seinna var hann skipaður stjórnandi herdeildarinnar og var þá gerður að undirhershöfðingja tímabundið. Snemma árs 1942 varð hann yfirstjórnandi 1. brynstórdeildar sem hann þjálfaði eftir sínu eigin kerfi í eiðimörk nærri Indio í Kaliforníu.

Patton vakti athygli fyrir snöfurlega takta í N-Afríku. Þegar 2. stórfylki bandaríska hersins var endurskipulagt eftir að hafa farið halloka, svo ekki sé meira sagt, fyrir hersveitum Rommels í Kasserine-skarði í mars 1943 var Patton fengin stjórn þess. Innan mánaðar hafði hann verið gerður að undirhershöfðingja varanlega (3ja stjörnu) og hóf þá undirbúning að innrás á Sikiley. 10. júlí 1943 var honum falin stjórn bandaríska 7. hersins og samhliða 8. hernum undir stjórn Montgomerys var andstæðingunum rutt frá Sikiley á 38 dögum. Það afrek var ekki síst þakkað hnitmiðaðri stjórn Pattons.

George S. Patton Jr.

En Patton, sem þótti sérvitur og smámunasamur gagnvart næstu undirmönnum og óbreyttum og krafðist fullkomins aga, átti iðulega erfitt með að hemja skap sitt. Á Sikiley hljóp hann illilega á sig og varð sér til skammar þegar hann veittist með offorsi að sjúkum manni á herspítala. Málið vakti mikið uppnám og neyddist Patton til að biðjast opinberlega afsökunar á framkomu sinni. Sem herstjórnandi þótti Patton skorta ýmislegt en náði árangri þótt aðferðirnar þættu iðulega ruddafengnar og frekar í ætt við hrottaskap en stjórnun - en kjarkinn vantaði hann ekki. Patton átti í stanslausum erjum við yfirboðara sína vegna hroka, sjálfumgleði og raups.

Í mars 1944 var Patton falin stjórn 3. hersins í Bretlandi og átti að vinna að leynilegum áætlunum um hernað í norðvestanverðri Evrópu. Patton þótti aldrei diplomatískur og ummmæli sem hann lét falla opinberlega um Sovétmenn, sem hann fyrirleit innilega, hentu bresk dagblöð á lofti. Ummælin þóttu afar óheppileg og koma á versta hugsanlega tíma þegar Sovétmenn höfðu gerst bandamenn Breta og Bandaríkjamanna. Til að reyna að bjarga málinu neyddist Eisenhower yfirhershöfðingi til að veita Patton áminningu og varð af mikið fjölmiðlafár. Þetta mál og fleiri urðu til þess að Patton eignaðist dyggan hóp andstæðinga á meðal bandarískra pólitíkusa og diplómata sem hugsuðu honum þegjandi þörfina.

Í ágúst 1944 kom Patton með 3. herinn til norðvesturstrandar Frakklands. Þá hófst sú atburðarrás sem, ásamt afrekum í Ítalíustríðinu, hefur skipað Patton og skriðdrekasveitum hans á bekk með þekktustu skólabókardæmum um herkænsku, skipulag og áætlanagerð, markvissa stjórnun og gildi aga og þjálfunar í hernaði. Þjóðverjar höfðu þá hafið öfluga gagnsókn nærri Avaranches eftir að 1. her bandamanna hafði brotist þar í gegn nokkrum dögum áður. Nú sýndi Patton hvers megnugar skriðdrekahersveitir voru þegar þeim var stjórnað af yfirburðaþekkingu og áræði því þrátt fyrir að skriðdrekar bandamanna ættu undir högg að sækja hjá öflugri og betur hönnuðum þýskum Panzer IV, Panther og Tiger tókst Patton að nýta sér þann fjölda skriðdreka og tækja sem var umfram það sem Þjóðverjar höfðu. Til þess var tekið hvílík bardagaharka einkenndi hersveitir Pattons en hann, eins og þýsku starfsfélagar hans, Heinz Guderian og Erwin Rommel, var einatt sjálfur á vígstöðvunum og hlífði sér hvergi, og jók þannig þrótt og þor manna sinna með góðu fordæmi. Skriðdrekaforingi í herdeild Pattons var Creighton W. Abrams, þá þrítugur en Patton sagðist sjálfur hafa lært allt sem hann kynni í skriðdrekahernaði af ,,Abe" Abrams. Abrams varð síðar einn af æðstu hershöfðingjum Bandaríkjanna og beitti sér m.a. fyrir hönnun og smíði fullkomnasta skriðdreka allra tíma sem jafnframt ber nafn hans.

Á nokkrum mánuðum haustið 1944 geistust hersveitir Pattons vestur og suðureftir Frakklandi og brutu á bak aftur mótstöðu andstæðingsins í hverri orrustunni á fætur annarri. Í stað þess að halda inn í París og baða sig í frægðarljómanum um stund, eins og búast hefði mátt við af ýmsum öðrum herstjórnendum á þessum tíma, þustu hersveitir Pattons framhjá París og suðureftir Frakklandi uns framsókn hans stöðvaðist við Metz og Nancy, annars vegar vegna gríðrlegrar mótspyrnu þýsku hersveitanna en hins vegar vegna þess að birgðaflutningakerfið hélt ekki í við her hans.

Frægasta aðgerð Pattons, og sem Omar Bradley hershöfðingi hefur lýst sem einu ótrúlegasta afreki í herstjórn fyrr og síðar, var þegar hann snéri her sínum við og þusti til baka norður eftir Frakklandi, á móti birgðaflutningaliðinu, og braut á bak aftur einhverja hörðustu sóknaraðgerð Þjóðverja í Ardennafjöllum í Belgíu sem hófst 16. desember 1944, en þar tjölduðu Þjóðverjar öllu sem til var í hrikalegum orrustum..

Nærri janúarlokum 1945 var 3. herinn tilbúinn til að ráðst gegn hinu gríðarlega varnarmannvirki Þjóðverja, Sigfried-línunni á milli Saarlautern (nú Saarlouis) í norðri til St. Vith í Belgíu. Fjögur herfylki Pattons náðu í gegn um þessi varnarvirki eftir eins mánaðar látlausar árásir og um miðjan mars voru þær komnar inn í Eifel-héraðið. Hófst nú enn einn kaflinn í myljandi framrás hersveita Pattons sem börðust á öllu svæðinu við Mósel og Rín uns þær fóru yfir Rínarfljót við Oppenheim um að kvöldi og um nóttina 22./23. mars og höfðu tekið Franfurth am Main 3 dögum síðar.

Ekki voru liðnar fullar 3 vikur af apríl þegar skriðdrekafylki Pattons höfðu farið þvert yfir Suður-Þýskaland að landamærum Tjékkóslóvakíu enda hafði, þegar hér var komið sögu, dregið verulega af þýska hernum vegna birgða- og skotfæraskorts. Hluti herliðs Pattons var komið inn í Austurríki fyrir apríllok. Á fyrstu vikunni í apríl, skömmu fyrir vopnahléð, höfðu sveitir úr 3. hernum brotist inn í Tjékkóslóvakíu og tekið Pilzen-héraðið.

Um miðjan apríl var Patton hækkaður í tign og gerður að 4ra-stjörnu hershöfðingja. Skömmu síðar var hann skipaður ríkisstjóri í Bæjaralandi. En eins og fyrri daginn virtist Patton ekki njóta sín nema á vígvellinum - diplomatíska hæfileika virtist hann enga hafa; þótti aldrei orðvar - þvert á móti yfirlýsingaglaður langt yfir meðallagi: Opinber ummmæli hans og gagnrýni á það sem hann nefndi ,,linkind við þessa nasista-tíkarsyni" eftir stríðið, olli miklum úlfaþyt á meðal bandarískra þingmanna og diplómata. Vegna ,,pólitísks þrýstings" var Patton leystur í snatri frá stjórn 3. hersins og lítillækkaður með ýmsu öðru móti eftir því sem ,,fornir fjendur innan og utan hers" fengu við komið.

Síðla hausts 1945 slasaðist Patton alvarlega í bílslysi nærri Mannheim. Hann lést af völdum þess á sjúkrahúsi í Heidelberg, 21. desember 1945, þá nýorðinn 60 ára.

Copyright © Leó M. Jónsson

Helstu heimildir:
Supreme Command. Höf. Forrest C. Pouge
Brute Force. Höf. John Ellis. 1990.
Kasserine. Höf. Ward Rutherford, Pan Books Ltd. London.
Patton, War Leader Book No. 2. Höf. Charles Whiting. Pan Books Ltd. London.