Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur:

Nissan Pathfinder 2006

Fyrsti Nissan Pathfinder var frumsýndur í Bandaríkjunum í september 1986 og skömmu síðar á evrópska markaðnum sem Terrano. Hann var framleiddur í Kyushu í Japan. Fyrsti Pathfinder var byggður á grind/undirvagni og vélbúnaði Nissan Pickup. Terrano var hannaður gagngert fyrri bandaríska markaðinn, var afar þægilegur fjórhjóladrifinn sportjeppi en eyðslufrekur (145 ha V6). í Evrópu var Pathfinder boðinn í fyrstu með 2,4 lítra 106 ha 4ra sílindra vél og 100 ha 2,7 lítra dísilvél og þótti einstakur sleði; aflvana og klossaður. Terrano II leysti hann af hólmi á evrópska markaðnum 1997 en sá eldri hélt áfram á bandaríska markaðnum. Terrano II, sem var nýr jeppi frá grunni, var fáanlegur með 116 ha 2,4ra lítra bensínvél og 2,7 lítra túrbódísilvél með tölvustýrðu eldsneytiskerfi. Dísilvélin var 125 hö og með henni varð Nissan Terrano II nánast strax að einum mest selda lúxusjeppanum á evrópska markaðnum, fyrst og fremst þó í Þýskalandi og í Bretlandi. Sá Pathfinder sem nú leysir Terrano II af hólmi sem árgerð 2006 er ný hönnun - einn af mörgum áhugaverðum nýjum bílum frá Nissan sem nú seljast sem aldrei fyrr - en þeir eiga það sameiginlegt að vera hannaðir eftir að Renault tók við stjórninni hjá Nissan Motors í Japan.

Nissan samsteypan sem var og hét
Um 1990 var Nissan eitt af stærstu fyrirtækjasamsteypum Japans. Meginumsvifin voru í fasteignarekstri og tryggingastarfsemi. Nissan Motors, næststærsti bílaframleiðandi Japans, var einungis eitt af mörgum minni fyrirtækjum innan samsteypunnar. Það er misskilningur að fjárhagsleg og tæknileg vandamál hjá Nissan Motors hafi leitt til þess að það var selt Renault. Nissan samsteypan, eins og fleiri japönsk risafyrirtæki, hrundi upp úr 1990. Ástæðurnar eru taldar hafa verið staðnað stjórnunarkerfi, sem þá var við lýði í Japan, m.a. byggt á hefðum (æviráðning starfsmanna var t.d. ein þeirra); samsteypuna dagaði uppi og er talið sönnun þess að fyrirtæki deyi ofanfrá.

Nýtískulegt og ferskt útilt. Pathfinder er mun kraftmeiri og liprari bíll en ætla mætti af stórum jeppa.

Nissan Motors
Á meðal björgunaraðgerða, en algjör viðsnúningur og uppbygging Nissan-samsteypunnar (Hitachi-fyrirtækin tilheyra henni) er talin á meðal efnahagsundra 20. aldar, var sala fyrirtækja. Nissan Motors var eitt þeirra sem enn voru einhvers virði og seljanleg þrátt fyrir erfiðleika móðursamsteypunnar. Renault keypti ráðandi hlut (36%) í Nissan Motors. Í framhaldi voru Nissan Motors og Renault sameinuð 1999. Nýr forstjóri, Carlos Ghosn, tók við í Japan. Undir hans stjórn hefur verið byggt upp nýtt stjórnunarkerfi að vestrænni fyrirmynd: Síðan hefur stefnan verið lóðrétt upp hjá Nissan Motors.

Sérhæfðir í jeppum
Jeppar eru í tísku sem stöðutákn og vörn gegn hættu í umferðinni. Þeir seljast mest allra bílgerða, ekki einungis í Bandaríkjunum heldur einnig í Evrópu. Nissan veðjaði á jeppa, dísilvélar og fólskbíla með dísilvél. Staða þess er gríðarlega sterk með nýja og spennandi jeppa og pallbíla í öllum gerðum og stærðum. Fólksbílamarkaðurinn hefur reynst minni en ætlað var; fyrir hvern Primera seljast t.d. tveir X-Trail jeppar, öfugt við áætlanir framleiðandans en X-Trail er byggður á sama grunni og Almera og með sömu dísilvél og Primera. Um 95% allra seldra jeppa í Evrópu eru með dísilvél. Mikil eftirspurn eftir jeppum þýðir að kaupendur greiða fullt verð án afsláttar. Tekjur framleiðandans af jeppum eru því miklar, hafi hann við að framleiða. Áhrifin eru m.a. sú að gangverðö á notuðum X-Trail er mjög hátt, t.d. hlutfallslega hærra í Bretlandi en á BMW 300 dísilbílum.

Nissan stendur uppi í hárinu á Toyota á öllum vígstöðvum: Nýi lúxusjeppinn Murano hefur í fullu tré við Lexus RX300; í Bandaríkjunum þykir nýi Titan pallbíllinn bestur í flokki fullvaxinna; nýjum pallbíll með grind, Nissan Navara, er spáð metsölu í Evrópu og andlitslyftur Patrol stendur enn fyrir sínu.

2,5 lítra 16 ventla túrbódísilvélin er ein sú þróaðasta á markaðnum - með beina innsprautun frá forðagrein og tölvustýrðan tíma á sogventlum. Krafturinn er meiri og viðbragðið betra en í LandCruiser með 3ja lítra túrbódísilvél!

Kraftmeiri en LandCruiser
Nýr Nissan Pathfinder er með 2,5 lítra dísilvél af sama stofni og 2,2ja lítra vélin í X-Trail og Primera. Með þessari dísilvél hefur Nissan slegið í gegn. Hún er ef til vill ekki sú lágværasta en varðandi afl, viðbragð og sparneytni slá fáar henni við. Þessi nýi Pathfinder er kraftmeiri, liprari og sneggri en nýi LandCruiser með 3ja lítra dísilvélinni og er þá miklu til jafnað. Það sýnir að samanburður á afl- og togsviðum dísilvéla segir bara hluta af sögunni; - inngjafarviðbragð vélar, handskiptur gírkassi (stikun og lipurð), drifhlutfall og undirvagn (veggrip) hafa einnig sitt að segja.

7 manna?
Útpæld hönnun 3ja raða sætanna í nýja Pathfinder er vel útfærð. Aðgengi að öftustu sætaröðinni er auðvelt því fella má 2 ytri sætin í miðröðinni fram og til hliðar með léttvægu handfangi. Séu báðar aftari raðirnar felldar myndast slétt gólf og mikið flutningsrými sem nýta má til fulls. Fella má bak farþegastóls við hlið bílstjóra sem m.a. þýðir að flytja má 3ja m tepparúllu í bílnum lokuðum. Aftan við 3. sætaröðina er 190 lítra farangursrými með neti og hlíf . Geymslur fyrir verkfæri o.fl. eru felldar í gólfið. Í innréttinguna vantar ekkert. Sætin eru jafn góð og í 2 mkr. dýrari bíl; innréttingin er áberandi glæsileg.
Ástæða þess að ég kýs samanburð við Land Rover Discovery 3 er að auk þess að vera líkir í útliti eru báðir auglýstir sem 7 manna jeppar. Munurinn á þeim er hins vegar sá að Discovery er með grind sem felld er inn í botn bílsins og er sem því nemur hærri að innanverðu og því er fótarými í öftustu röðinni nægilegt fyrir fullorðna. Í Nissan Pathfinder situr boddíið á hefðbundinni stigagrind og því hafa farþegar í öftustu röð ekki fótarými undir stólunum fyrir framan þá auk þess sem hæð upp á setuna er minni en í Discovery. Það þýðir að í öftustu sætum í Pathfinder situr ekki fullorðið fólk af eðllegri stærð í lengri ferðum. Nissan Pathfinder er því 5 + 2 manna fremur en 7 manna bíll. Fyrir flesta breytir þetta engu en heilmiklu fyrir þá fáu sem þurfa 7 manna bíl án málamiðlunar.

Það er ekki bara hægt að breyta innréttingunni eftir þörfum heldur er það létt og auðvelt verk með útpældri en einfaldri tækni. Auk þess að mynda slétt og vel nýtanlegt flutningsrými með því að leggja aftari sætaraðirnar niður má fella farþegastólinn fram. Með því móti má flytja 3ja metra tepparúllu í bílnum en sætisbakið nýtist einnig fyrir farþega í aftursæti, t.d. sem skiptiborð fyrir smábarn.

Draumabíll .....
Ég og fleiri erum haldnir fordómum gagnvart "grindarjeppum" því aksturseiginleikar þeirra eru oft trukkalegir; þeir vaga/kjaga oft meira og eru klossaðri í venjulegum akstri en grindarlausir jeppar/pallbílar (ég hef bent á Musso sem eina af fáum undantekningum frá þeirri reglu). Nýi Pathfinder er undantekning hvað þetta varðar þrátt fyrir grindina, sem er firna öflug (en sem jafnframt má eyðileggja , að mínu mati, á nokkrum árum með "íslenskri ryðvörn"). Fjöðrun er sjálfstæð á hverju hjóli. Fjórhjóladrifsbúnaðurinn tengist sjálfvirkt; afturdrif þar til aldrifs er þörf. Mismunardrifi að aftan og millidrifi má læsa í lága.

Skemmst er frá því að segja að Nissan Pathfinder er skemmtilegri í akstri en LandCruiser og með mýkri V6-dísilvél slægi hann jafnvel út miklu dýrari Range Rover. Að óreyndu hefði ég haldið að ekki þýddi að bjóða mér svona lúxusjeppa öðru vísi en sjálfskiptan: Þessi 6 gíra Nissan-handskipting breytti því. Til að girða fyrir misskilning skal það tekið fram að 5 gíra sjálfskiptingin í Pathfinder er af hefðbundinni gerð en ekki CVT-sjálfskipting eins og í sumum X-Trail og öðrum Nissan-bílum með bensínvél. (Ítarleg tæknilýsing á CVT-skiptingu er í grein um Nissan Micra).

Eins og gildir með alla bíla er álit manns persónubundið. Því legg ég meiri áherslu á að lýsa bílum og tæknilegum eiginleikum þeirra með tölulegum upplýsingum fremur en í löngu máli. Samanburður á tækninormum bíla (taflan) segir mörgum heilmikið.

Þeir sem velta fyrir sér kaupum á jeppa ættu að skoða Nissan Pathfinder og hafa hann með í dæminu. Þótt þjónusta umboðsins þyki með því lakasta sem gerist og þá alveg sérstaklega ábyrgðarþjónustan (en samkvæmt upplýsingum frá því er unnið að því að bæta hana) þurfa margir ekkert á þjónustu þess að halda (séu þeir heppnir) þar sem þeir endurnýja bílinn þegar hann er 3ja ára.

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar