Panzer III og Panzer IV


Panzerkampfwagen, eins og skriðdreki nefnist á þýsku og stytt var í Panzer, höfðu ekki verið framleiddir í Þýskalandi síðan 1918 þegar farið var að framleiða Panzer I árið 1934 og af takmörkuðu upplagi til 1941. Árið 1935 hóf MAN framleiðslu á Panzer II sem var öflugri en Panzer I en þó með svo ræfilslegan vopnabúnað að varla var hægt að tala um hann sem bardagatæki. Eftir endurbætur, m.a. með öflugri 50 mm fallbyssu var Panzer II notaður m.a. í N-Afríkustríðinu, sem hófst veturinn 1941, en framleiðslu hans var hætt 1943. Panzer I og II (einnig Marder II, Wespe, Grille og Hetzer), voru ekki vel til þess fallnir að vera teflt á móti þyngri skriðdrekum bandamanna og gegndu því ýmsum öðrum hlutverkum, aðallega sem farartæki. Af þessum ástæðum koma þeir ekki við þessa sögu. Til að auðvelda lesendum staðsetningu í tíma hefur nokkrum helstu og eftirminnilegum atvikum síðari heimsstyrjaldarinnar verið skipað í grófa tímaröð 1939-1945, sjá Atvikaskrá seinna stríðs

----------------------------------

Með Panzer III hefst nýr kafli í vopnasögu Þýska hersins en hann var fyrsti þungi skriðdrekinn af þeim 5 gerðum (Tæknitölur yfir þýska skriðdreka 1937-1945) sem mest mæddi á hjá þýsku hersveitunum í seinni hluta síðari heimstyrjaldarinnar. Panzer III var byggður á hugmyndum fremsta skriðdrekasérfræðings Þjóðverja og höfundar vélahernaðar, Heinz Wilhelm Guderian hershöfðingja, sem hann hafði sett fram á árunum 1934-35 um ný hergögn. Guderian hafði umsjón með hönnun skriðdrekans sem fleiri en eitt fyrirtæki gerði tillögur um en hönnun Daimler-Benz var valin. Forgerðir (prototypes) Panzer III voru prófaðar 1936/37 í Kummersdorf og Ulm en fyrstu gerðirnar (A, B, C og D) voru forgerðir, framleiddar í takmörkuðu upplagi, hentuðu ekki til fjöldaframleiðslu enda hver um sig endurbætt útgáfa, t.d. var engin þeirra gerða með sams konar fjöðrun.

Fjöldaframleiðsla Panzer III, sem vóg 16-22 tonn eftir gerðum og þekkist tilsýndar á 6 stórum fjaðrandi burðarhjólum beltanna, hófst með E og F-gerðunum í september 1939 en þær gerðir voru búnar snerilfjöðrun sem Dr. Ferdinant Porsche hafði hannað. Helstu kostir þeirrar fjöðrunar, en hún var sjálfstæð fyrir hvert burðarhjól beltis, voru að með henni komst Panzer III hratt yfir fjöll og firnindi án þess að ganga af áhöfninni dauðri. Þessa fjöðrun tóku Bandaríkjamenn upp og notuðu seinna, m.a. í M26 Pershing-skriðdrekanum.

Panzer III af fyrri gerð sem m.a. hersveitir Rommels notuðu í N-Afríku.

 

Panzer III var framleiddur af Daimler-Benz, Henchel og MAN auk þess sem hann var settur saman hjá öðrum fyrirtækjum svo sem Alkett, FMO, Wegmann, MNH, MIAG o.fl.

Panzer III var fyrsti þýski skriðdrekinn sem var búinn innra talkerfi sem tryggði talsamband á milli allra í áhöfn sama hve mikill gnýrinn var. Þessi búnaður var, ásamt þráðlausu fjarskiptakerfi á milli yfirstjórnar og hvers einstaks skriðdreka, hugmynd Guderians og voru þýsku skriðdrekarnir fyrstir með slíkan búnað en hann gerði kleift að beita þeim á miklu hraðari og beinskeyttari hátt en áður hafði tíðkast. Innra talkerfið var síðar í öllum þýskum skriðdrekum. (Tæknitölur - yfirlit yfir þýska skriðdreka 1937-1945

Nýstárleg hönnun

Panzer III var byggður sem 4 sjálfstæðar samansoðnar einingar; botn, turn, framstykki með turnopi og afturstykki sem síðan voru boltaðar saman. Þessi hönnun, sem var langt frá því að vera gallalaus, gerði kleift að setja skriðdrekann saman á mörgum stöðum og raða saman heilum skriðdreka úr nokkrum löskuðum. Botninum var skipt í 2 hólf með lokanlegu skilrúmi, í framhólfinu var gírkassi og stýrisbúnaður en vélbúnaðurinn var í afturhólfinu. Botn, yfirbygging og aðstaða áhafnar var óbreytt allan tíman sem Panzer III var fjöldaframleiddur.

Vélin var 12 lítra 265 ha V12-bensínvél frá Maybach (dótturfyrirtæki Daimler-Benz). Gírkassinn var 10 gíra með hálfsjálfvirkri skiptingu, einnig frá Maybach og nefndist Variorex 10. E-gerðin vóg 19,5 tonn með 30 mm þykkri brynhlíf að aftan og framan. Ein af frægum ummmælum Heinz Guderan, sem hann viðhafði við þjálfun skriðdrekaforingja var: ,,Der Motor des Panzers ist ebenso seine Waffe wie die Kanone." (Vél skriðdrekans er ekki síður vopn hans en fallbyssan). Þegar vélarafl skriðdreka er vegið og metið ber að hafa í huga þá miklu niðurgírun og stikun sem er í gírkassanum (10 gírar og hámarkshraði 40 km/klst). Panzer III þótti ekki aflvana (13,6 hö á hvert tonn) en Guderian beitti áhrifum sínum óspart í því skyni að vélaraflið væri aukið (varð mest 16,3 hö á hvert tonn með 21 lítra vélinni í Panther (Panzer V). Færsla skotturnsins var rafknúin. Rafstrauminn fékk búnaðurinn frá rafstöð sem knúin var með lítilli tvígengisvél frá DKW.

Forgerðirnar af Panzer III, búnar 37 m fallbyssu, voru notaðar í innrásinni í Pólland 1939. Þeim var síðan breytt á ýmsa vegu, m.a. sett á suma ítutönn og þeir notaðir til að hreinsa til í rústum eftir loftárásir. Snemma í innrásinni í Rússland 1941 voru Panzer III búnir aftanívagni og gátu þannig dregið með sér aukaeldsneyti. Gerð J, sem kom fyrst í júlí 1942 var með 50 mm hlaupstuttri fallbyssu (Kwk 39 L/42) og m.a. sérstaklega útbúinn til eiðimerkurhernaðar. Þjóðverjar notuðu hann í N-Afríku en þar reyndist hann í fyrstu ekki ráða við M4 Sherman né hinn rússneska T-34. Úr þessu var bætt með gerð H sem var með betri 50 mm fallbyssu (Kwk 39 L/60) og 30 mm brynhlífum sem stóðust 45 og 57 mm kúlur úr skriðdrekafallbyssum bandamanna. Með Gerð H, sem vóg 21,8 tonn, hvarf hálfsjálfvirki gírkassinn, Variorex, en í stað hans kom nýr 6 gíra Maybach-kassi (SSG77). Næsta gerð, J, var með 50 mm brynhlífum.

Panzer III með 37 mm fallbyssu

 

Panzer III var aðalskriðdreki þýska hersins í Rússlandsstríðinu. Hann reyndist áreiðanlegt, mjög lipurt og öflugt tæki og lagði grunninn að hönnun næstu skriðdreka þjóðverja og reyndar Bandamanna. Þrátt fyrir þetta réð Panzer III ekki við rússneska veturinn frekar en aðrar vélar. Í október 1943 var svo komið að einungis 5 skriðdrekaherdeildir Þjóðverja á austurvígstöðvunum réðu yfir 1 eða fleiri undirfylkjum með Panzer III og rúmu ári síðar voru einungis 79 Panzer III í nothæfu ástandi á öllum austurvígstöðvunum.

Fyrstu gerðirnar af Panzer III voru með 360 mm breiðum beltum en síðari gerðirnar með 400 mm beltum sem komu sér vel í rússnesku drullunni. Mismunandi gerðir fallbyssa voru notaðar; 37 mm í fyrstu gerðunum en 50 mm frá og með gerð G (37 mm fallbyssunni á gerðum E og F var skipt út fyrir 50 mm í ágúst 1940). Síðasta gerðin sem framleidd var af Panzer III var gerð N sem kom fyrst í júní 1942 og var í framleiðslu fram í ágúst 1943. Sá var með 75 mm fallbyssu (Kwk L/24) og tvær MG 34 hríðskotabyssur.

Köfunarbúnaður o.fl.

Ýmsar nýjungar sáu dagsins ljós í síðustu gerðunum af Panzer III og margar þeirra héldu áfram í Panzer IV og V (Panther). Meðal annars var gerð M (október 1942 til febrúar 1943) búin þannig að hann gat vaðið 1,3 m djúpt vatn (í stað 0,8 m áður). Nefna má búnað sem var í gerð L og gerði það að verkum að samtengja mátti kælikerfi tveggja skriðdreka og hita vél annars með með kælivatni hins og mun sá búnaður hafa komið sér vel í fimbulkuldunum í Rússlandi. Gerð L fyrir N-Afríku var búinn öflugri loft- og olíusíum og kælikerfi og auk þess öflugri loftvarnabyssu. Merkilegast mun þó vera sérstaklega útbúin gerð af Panzer III, svokallaður U-Panzer, en hann var þannig útbúinn að honum mátti aka í sjó eða vatni á allt að 15 m dýpi. Þjóðverjar notuðu U-Panzer m.a. til að komast yfir fljótið Bug í Rússlandi og hugðust nota hann til innrásar á eyjuna Möltu en hætt var við þá ráðagerð.

Ýmsir hönnunargallar ollu því að afköst urðu aldrei mikil í framleiðslu á Panzer III en henni lauk, ein sog áður sagði, í ágúst 1943. Til uppfyllingar, þegar ekki hafðist undan að framleiða notaði þýski herinn tjékkneska skriðdreka, Pzkpfw 35 (t) og 38 (t) sem framleiddir voru af Skoda og voru tékknesk hönnun en ekki smíðaðir eftir þýskum teikningum eins og sums staðar er haldið fram.

Panzer III höfðu ýmist viðnefnið ,,stuttur" eða ,,langur" eftir hlauplengd fallbyssunnar. Þótt Panzer III hefði þótt öflugur í fyrstu var hann orðinn úreltur strax árið 1942. Mörgum var því breytt fyrir annars konar notkun. Af slíkum má nefna Flammpanzer sem búinn var eldvörpu í stað fallbyssunnar en var misheppnaður, m.a. vegna þess hve auðveldlega kviknaði í honum sjálfum; farar- og flutningatæki fyrir tæknisveitir, sem björgunartæki (Bergepanzer) útbúinn með lyftikrana, sem fallbyssudráttartæki (Schlepper), sem skotfæraflutningavagn (Munitionspanzer) og sem jarðsprengjuspillir en sá mun hafa misheppnast.

Þá voru nokkrir af forgerðunum endurbyggðir sem ,,Shienene-Ketten-fahrzeug" en þeir gátu farið á 100 km hraða eftir járnbrautarteinum og voru notaðir til eftirlits með járnbrautarkerfum. Nokkrum af forgerðunum var breytt í foringjavagna sem búnir voru sérstökum fjarskiptabúnaði og höfðu ekki annan vopnabúnað en hríðskotabyssu og gervifallbyssu úr tré. Skriðdrekaliðar Rommels í N-Afríku breyttu nokkrum löskuðum Panzer III í færanlega fallbyssuvagna með 150 mm fallbyssu og reyndust þær þannig mun öflugra vopn vegna hreyfanleikans.

Í stríðslok 1945 voru nokkrir heilir Panzer III til í Hollandi og Noregi. Einhverjir voru í notkun fram undir 1970 austantjalds og finnski herinn átti og notaði Panzer III fram til ársins 1967. Mörg stríðsminjasöfn í Evrópu og Ameríku eiga Panzer III.

Panzer IV

Eins og Panzer III var Panzer IV byggður á hugmyndum Heinz Guderian. Daimler-Benz, MAN (skammstöfun fyrir Maschinenfabrik Augsburg-Nurnberg) og Krupp lögðu öll fram tillögur sínar að hönnun og var þeim falið að smíða forgerð til prófana. Að þeim prófunum loknum varð niðurstaðan sú að hönnun Krupps á Panzer IV var valin til fjöldaframleiðslu og byggðist á vopnabúnaði frá Krupp en vélbúnaðaði framleiddum af MAN (þótt vél hafi verið Daimler-Benz-hönnun og gírkassi hannaður af ZF). Panzer IV var ekki með snerilfjöðrun Porsche heldur blaðfjöðrun. Ein af ástæðum þess var sú að með blaðfjöðrun jókst innra rými sem gerði meðferð skriðdrekans auðveldari fyrir áhöfnina.

Munurinn á hönnun Panzer III (Daimler-Benz) og Panzer IV (Krupp), sem eru að mörgu leyti svipaðir og nota m.a. vél- og drifbúnað sömu gerðar, er í því fólginn að Panzer IV hentaði mun betur til fjöldaframleiðslu enda var hann framleiddur í stærra upplagi en nokkur annar skriðdreki Þjóðverja.

Gerðir A, B og C af Panzer IV voru forgerðir sem framleiddar voru á tímabilinu frá október 1937 og fram á mitt ár 1939, um 100 eintök sem voru aðallega notuð til prófana og við þjálfun. Í október 1939 og fram í maí 1941 var gerð D framleidd (229 eintök) en með henni hófst fjöldaframleiðsla á Panzer IV og stóð óslitið fram í maí 1945.

Frábært tæki til síns brúks

Þegar Panzer IV af gerð G með 50 mm brynhlífum, 75 mm Krupp-fallbyssu (hlauplengd 43) og 2 MG 34 hríðskotabyssur birtist í Norður-Afríku haustið 1942 urðu hlutverkaskipti sem um munaði en þá hafði Rommel, í fyrsta skipti í langan tíma, í fullu tré við her Bandamanna. Bretarnir nefndu Panzer IV ,,Panzer Special" en hann reyndist miklu öflugri en bandarísku og bresku skriðdrekarnir. H-gerð sem var 9. gerðin af Panzer IV , kom í apríl 1943 og var í framleiðslu til júlí 1944 en í júní það ár hófst framleiðsla síðustu gerðarinnar, J-gerð, og stóð yfir fram í mars 1945. Þessar tvær síðustu gerðir voru með 80 mm brynhlífum að framan. Hliðarbrynvörn sem náði vel niður á hliðunum hafði komið á miðju ári 1943 en með henni hvarf einn af fáum veikum punktum Panzer IV. Í J-gerðinni var rafknúnu turnfærslunni, þeirri sömu og upphaflega hafði komið í Panzer III, fórnað fyrir handvirka færslu sem þýddi að koma mátti fyrir 200 lítra aukaeldsneytisgeymi sem jók vegalengd á eldsneytisbirgðum í 300 km.

Eins og Panzer III var Panzer IV gerður út með aftanívagn fyrir eldsneytisbirgðir snemma í innrásinni í Rússland 1941 og vorið 1944 var hann búinn enn breiðari beltum fyrir austurvígstöðvarnar (Ostketten).

Fljótt varð ljóst að Panzer IV var frábært tæki; mjög öflugur skriðdreki sem hafði yfirburði gagnvart bæði sovéska T-34, bandarísku Grant og Sherman og bresku Matthildi og Crusader. Hann þótti öruggt og gangvisst tæki sem þar að auki var mjög auðvelt í meðförum. Panzer IV var aðalskriðdreki þýsku skriðdrekaherjanna í síðari heimstyrjöldinni, honum var beitt á öllum vígstöðvum og naut virðingar og álits hjá áhöfnum jafnt sem andstæðingum. Sem dæmi um skotþunga má nefna að í bardögunum á Caen-svæðinu í kjölfar innrásar Bandamanna í Normandí grófu Þjóðverjar Panzer IV niður í sand þannig að einungis skotturninn stóð uppúr og því nánast ómögulegt að hæfa hann með fallbyssu en með þessu móti tókst Þjóðverjum að valda hersveitum andstæðingsins gríðarlegum skaða.

Panzer IV af gerð F2 með 75 mm fallbyssu

 

Eins og Panzer III voru nokkrir Panzer IV útbúnir sem U-Panzer og gátu farið í kafi á 6-15 metra dýpi. Þeir munu hafa verið notaðir sem slíkir í einhverjum mæli í Rússlandi. Vegna vaxandi skorts á eldsneyti á síðari stigum stríðsins prófuðu Þjóðverjar ýmist annað eldsneyti en bensín fyrir skriðdrekana. Panzer IV, sem notaðir voru til prófana og þjálfunar, voru t.d. knúnir jarðgasi og einnig búnir kola-gas-búnaði.

Í júní 1945 voru uppi ráðagerðir um að búa Panzer IV 10,3 lítra V-12 loftkældri tjékkneskri dísilvél en þær runnu út í sandinn. Einnig voru gerðar tilraunir með tvær 75 mm fallbyssur í sama turni, tvær eldflaugabyssur í sérturni o.fl.

Þótt Panzer IV væri framleiddur í stærra upplagi en aðrir skriðdrekar Þjóðverja var fjöldinn hvergi nærri jafn mikill og fjöldi sovésku T-34 eða bandaríska Sherman. Væri hægt að tala um galla á Panzer IV voru það hliðarbrynhlífarnar á fyrstu gerðunum sem ekki náðu að hlífa beltabúnaðinum fyrir skotum. Í ljósi þess hve Panzer IV var stór hefði hann orðið öflugri og jafnframt erfiðara skotmark hefði hann verið hraðskreiðari.

Vígfimi - þjálfun

Mörg skjalfest dæmi eru til um vígfimi og getu Panzer IV í höndum vel þjálfaðra áhafna:

7. febrúar 1944 gerðu fáeinar áhafnir Panzer IV skriðdreka, sem eftir voru úr 5. SS-skriðdrekaherdeildinni* Wiking, tilraun til útrásar úr herkví við Cherkassy í Rússlandi. Þrátt fyrir ofurefli sovéskra herflokka gerði SS-undirstormsveitarforinginn Kurt Schumacher, sem réð yfir tveimur Panzer IV, árás á sovéskt skriðdrekaherfylki og réði niðurlögum átta T-34 skriðdreka á einu bretti. Degi síðar grönduðu sömu Panzer IV undir stjórn Schumachers 21 sovéskum brynvögnum og skriðdrekum (AFVs = Armoured Fighting Vehicles) til viðbótar. Kurt Schumacher var sæmdur riddarakrossi fyrir afrek sitt.

Síðdegis þann 11. júní 1944 réðst 8. undirfylki 12. þýsku SS-skriðdrekahersveitarinnar* til atlögu við 6. brynhersveit Kandamanna í því augnamiði að ná undir sig svæðinu við Le Mesnil-Patry í Normandí. Panzer IV-sveitin, sem var undir stjórn SS-yfirstormsveitarforingjans Hans Siegel, réði niðurlögum 37 Sherman-skriðdreka í bardaganum og neyddu Kanadamenn til að hörfa. Þjóðverjarnir misstu 2 Panzer IV í átökunum.

(* Þessi lið tilheyrðu SS-HitlerJugend, þ.e. SS-hersveitum Hitlersæskunnar).

Undirfylkisforinginn Willy Kretzschmar stjórnaði einum af Panzer IV 5. undirfylkis 12. SS- skriðdrekahersveitarinnar í Normandí í júní 1944 og lenti í hörðustu bardögunum á Caen-svæðinu. Hann og áhöfn hans réði niðurlögum 15 skriðdreka bandamanna og tókst svo að forða sér aftur fyrir varnarlínuna á síðustu bensíndropunum.

Panzer IV var einnig notaður af Ungverjum, Rúmenum, Finnum, Spánverjum og Króötum. Nokkrir af gerð G voru seldir Tyrkjum 1943. Þá hertóku Rússar marga Panzer IV á árunum 1941-1943 og notuðu suma þeirra í bardögum, m.a. til að villa um fyrir Þjóðverjum. Eftir stríð voru Panzer IV í notkun víða, m.a. í Tyrklandi, Sýrlandi, Jórdaníu og í Finnlandi, jafnvel til 1967. Sýrlendingar höfðu selt nokkra Panzer IV til Kúbu áður en Castro komst til valda og nokkra tugi notaði sýrlenski herinn í 6 daga styrjöldinni við Ísraela 1967.

Á Mattituck stríðsminjasafninu á Long Island, New York, er Panzer IV af gerð H/J til sýnis en þann skriðdreka hertóku Ísraelar af Sýrlendingum í Golan-hæðum 1967.
(Fleiri hergagnasöfn: Sjá Panther, Tiger, Köningstiger).

Copyright © Leó M. Jónsson

Helstu heimildir:
Achtung Panzer! Die Entwicklung der Panzerwaffe, ihre Kampftaktik und ihre operativen Möglichkeiten. Höf. Heinz Guderian. Stuttgart 1937. (Fáanleg í enskri þýðingu frá Arms and Armor Press . Enskt heiti: ,,Achtung Panzer!").
Tanks of the World. Höf. David Miller. MBI Publishing. 2000.
Deutsche Kampfpanzer im Einsatz 1939-1945.Höf. Wolgang Fleischer. Nebel Verlag.
Motoren und Getriebe dautscher Panzer 1935-1945. Höf. Fred Koch. Podzun-Pallas. 2000.