Panther (Panzer V)


Þýski hershöfðinginn Heinz Guderian átti stærstan þátt í því að koma upp brynvörðum vélahersveitum. Hann var jafnframt aðaldriffjöðrin á bak við hönnun og þróun þýsku skriðdrekanna og skrifaði greinar og bækur um efnið. Þekktasta bók hans er ,,Achtung Panzer! sem kom út 1937. Í einni af bókum Guderans ,,Erinnerungen eines Soldaten" (,,Panzer Leader" í enskri þýðingu), sem kom út 1950, er eftirfarandi málsgrein sem skýrir upphafið að Panther, - einum frægasta skriðdreka sögunnar:

,,Fjöldi nýrra rússneskra T34/76 réðust til atlögu og grönduðu mörgum þýskum skriðdrekum við Mzensk síðla sumars 1941. Fram að því höfðum við haft yfirburði hvað skriðdreka varðaði en nú snérist þetta við. Horfurnar á skjótum sigri urðu þar með að engu. Ég gerði skýrslu um þetta ástand, sem var ný reynsla fyrir okkur, og sendi herstjórninni. Í skýrslunni gerði ég grein fyrir, á mjög einfaldan hátt, helstu yfirburðum T-34 í samanburði við okkar Panzer IV og sýndi hvaða áhrif þeir hlytu að hafa á skriðdrekaframleiðslu okkar í framtíðinni. Sem niðurstöðu lagði ég til að strax yrði send nefnd til míns hluta vígstöðvanna og að hana skipuðu fulltrúar hergagnadeildar hersins, hermálaráðuneytisins, skriðdrekahönnuðir og fulltrúar þeirra fyrirtækja sem framleiða skriðdreka. Væri slík nefnd á staðnum gæti hún ekki einungis skoðað laskaða og óvíga skriðdreka á vígvellinum heldur gæti hún einnig nýtt reynslu og þekkingu þeirra sem stjórnuðu skriðdrekunum og nýtt sér við hönnun á nýjum skriðdrekum fyrir okkur. Ennfremur óskaði ég eftir því að framleidd yrði, eins fljótt og unnt væri, öflug skriðdrekafallbyssa með nægilegum skotkrafti til að ná inn úr brynvörn T-34 og til að granda honum. Nefndin var komin á vígstöðvar 2. skriðdrekahersins 20. nóvember."

Skjótt hefur því verið brugðist við tilmælum Guderians. Sérstök áhersla var lögð á að hönnun Panzer V, sem nefndist jafnframt Panther, væri þannig að hann mætti framleiða með miklum afköstum. Verkefnið hófst fyrir alvöru með hönnun og smíði forgerða (prototypes) í desember 1941. Snemma árs 1942 hafði stríðið staðið á 3. ár og eftir innrásina í Rússland 1941 börðust Þjóðverjar á tveimur langt aðskildum vígstöðvum. Ljóst var að miklu fleiri skriðdreka þurfti á móti ört fjölgandi skriðdrekum Bandamanna. Hönnun á þessum forsendum skilaði m.a. þeim árangri að unnt var að framleiða tvo Panther á sama tíma og einn Tiger (Panzer IV) sem var stærri skriðdreki sem byrjað var að framleiða skömmu á undan Panther. (Tæknitölur - yfirlit yfir þýsku skriðdrekana 1937-1945)

Valkostir

Með Panther varð bylting í hönnun og framleiðslu skriðdreka en Panther er fyrsti MBT-skriðdreki sögunnar (MBT = Main Balttle Tank). Panther og sovéski T-34, sem upphaflega var hannaður af bandaríkjamanninum Walter Christie 1929 (sem yfirleitt er aldrei getið um), eru taldir bestu skriðdrekarnir sem notaðir voru í síðari heimstyrjöldinni. (Atvikaskrá seinna stríðs).

Eins og tíðkaðist gerðu nokkrir framleiðendur tillögur að Panzer V og smíðuðu forgerðir sem voru prófaðar og sýndar. Hönnun MAN var valin til fjöldaframleiðslu. Skriðdrekinn var nefndur Panther 11. maí 1942; grænt ljós var gefið á undirbúning framleiðslu hans um mánaðamótin júní/júlí sama ár og skyldi framleiðslan hefjast í desember (mun hafa hafist í nóvember 1942). Þessi stutti tími, um 12 mánuðir, fyrir hönnun, prófanir, tilraunir, þróun og undirbúning framleiðslu á jafn flóknu tæki átti eftir að draga dilk á eftir sér.

Panther (af Daimler-Benz-gerð, VK3002)

 

Svo einkennilegt sem það er þá ber stærstum hluta heimilda sæmilega saman varðandi Panzer I, II, III og IV. En þegar kemur að Panther (Panzer V) verður áberandi breyting á. Til þess að átta sig á hvað sé rétt og hvað sé rangt varðandi Panther er nauðsynlegt að bera saman margar mismunandi heimildir til að finna hvað sé líklegt til að vera sem næst raunveruleikanum.

Sem dæmi um þetta má nefna að algengt er að sjá því haldið frama að hönnun Panther hafi verið stæling á sovéska T34/76 og að þótt Panther sé stærri og þyngri en T-34 og búnaður hans að mörgu leyti frábrugðinn, hafi ýmsir veigamiklir þættir verið bein eftirlíking svo sem breið belti, öflug vél, mikill ferðahraði, umtalsverð torfærugeta og slútandi brynhlífar. Þetta er að mörgu leyti rangt og á sér þá skýringu að verið er að rugla saman tveimur forgerðum af Panzer V, annars vegar forgerð sem hönnuð var af Daimler-Benz og var nánast eftirlíking af T-34, m.a. með MB-507 dísilvél, en sá komst aldrei á framleiðslustig og hins vegar forgerð sem hönnuð var af MAN og var síðan framleidd sem Panther en sá er eins þýskur eins og skriðdreki getur verið og á fátt sameiginlegt með T-34 nema ef til vill breiðu beltin og slútandi brynvörnina sem hratt af sér skotum.

Hitler sjálfur ?

Einnig er algengt að sjá því haldið fram að Hitler hafi sjálfur ákveðið að hönnun MAN á Panzer V skyldi valin til fjöldaframleiðslu. Það fær tæplega staðist og bendir ýmislegt til þess að þótt Hitler kunni að hafa bein afskipti af hönnun veigameiri hergagna sé það einfaldlega þjóðsaga að hann hafi persónulega ákveðið hver skyldi framleiða Panther. Í skjölum nefndar á vegum Waffenprüfamt 6 (Vopnaprófunarskrifstofu þýska hermálaráðuneytisins) frá því í apríl 1942, en sú skrifstofa hafði yfirumsjón með hönnun brynvarinna hreyfanlegra hergagna, er frá því greint að yfirhönnuður Waffenprüfamt (en sá var Ing. Kniepkampf (Ing. = tæknifræðingur) - þekktasti hönnuður þýskra skriðdreka á árunum 1936-1945, hafi ákveðið að VK 3002 (MAN), en ekki VK 3002 (D-B), yrði sá Panther sem hér um ræðir. Engar líkur eru á því að Ing. Kniepkampf hafi tekið þessa ákvörðun nema vitandi að foringinn væri henni samþykkur. Hefði Hitler tekið þessa ákvörðun hefði þess áreiðanlega verið getið í opinberum skjölum Waffenprüfamt 6..

Ástæða þess að Ing. Kniepkampf beitti sér fyrir því að hönnun MAN væri valin mun hafa verið sú að ein af frumforsendum verkefnisins var að nýja skriðdrekann mætti framleiða með sem mestum afköstum en MAN-hönnunin féll að þeirri framleiðslutækni, sem þegar var fyrir hendi í Þýskalandi, - Daimler-Benz-eftirlíkingin af T-34 var allt annar handleggur sem hefði þýtt tímafrekar breytingar og tafir vegna breytinga í verksmiðjum.

Fyrst kom D ......

Gerðarmerkingar Panzer V (MAN-Panther) voru að því leyti öðru vísi en fyrri Panzer að þær voru ekki í réttri stafrófsröð. Gerðirnar þrjár voru framleiddar í eftirfarandi röð; D, A og G og hefur ruglingur orðið í síðari tíma umfjöllun af þessum orsökum. Flestir Panther voru af gerð A, sem var verulega endurbætt útgáfa af gerð D, en A-gerðin kom ekki úr framleiðslu fyrr en í ágúst 1943. Síðast kom G-gerðin í mars 1944.

Undirvagn Panther er sérstaklega voldugur, með 8 áberandi stórum gúmlögðum burðarhjólum innan í beltunum á hvori hlið, 4 ytri hjól og 4 innri hjól. Þannig dreifðist þunginn jafnt á mjög stóran flöt sem ásamt snerilfjöðrun gerði skriðdrekann bæði duglegan, stöðugan og hraðskreiðan (46-55 km/klst sem var álíka og hjá T-34). MAN-Panther hafði drifið á fremsta beltatannhjólinu (T-34 hafði drifið á því aftasta). Beltin, sem voru 660 mm á breidd, var fljótlegt að taka af og mátti þá aka Panther á vegum á miklum hraða. Vel þjálfuð áhöfn var um klukkustund að setja beltin aftur á. Panther komst mjög hratt yfir á beltunum eða 46 km/klst utan vegar á sléttlendi, 30 km/klst yfir ójöfnur og 55 km/klst á vegi. Skriðdrekanum mátti snúa innan í hring með 20 m þvermáli.

Panther (Panzer V), Gerð G

 

Fyrstu Panther-skriðdrekarnir komu frá MAN í nóvember 1942. Upphaflega vélin var 21 lítra Maybach V12-bensínvél sem skilaði 650 hö en fljótlega var skipt yfir í stærri vél, 23,1 lítra Maybach V12-vél sem skilaði 700 ha hámarksafli við 3000 sn/mín. Með 700 ha vélinni var Panther af gerð D, sem vóg 43 tonn óhlaðinn, kraftmesti þýski skriðdrekinn með 16,3 hö á hvert tonn eigin þyngdar. Gírkassinn var með 7 gíra áfram en 1 aftur á bak. Stýrisbúnaðurinn var vökvaknúinn. (Panther hafði um 11% meira afl en öflugasti M-4 Sherman bandamanna sem vóg 34 tonn með 500 ha vél. Eftir því sem best er vitað höfðu andstæðingar Þjóðverja einungis einn skriðdreka sem var kraftmeiri en Panther; sovéska T-34/76, sem framleiddur var 1940, en hann var með 19,2 hö/tonn).

75 mm Rheinmetall ....

Panther var búinn 75 mm hlauplangri fallbyssu í mjög fullkomnum fallbyssuturni. Byssan, sem var af nýrri gerð (KwK 42 L/70), var, eins og fallbyssuturninn, hönnuð og framleidd af Rheinmetall-Borsig. Afl hennar var slíkt að skjóta mátti í gegn um 150 mm þykkt stál á allt að 1000 m færi en það var jafnvel meiri skotkraftur en náðist með 88 mm fallbyssu stóra Tiger-skriðdrekans. Auk þess voru gerðir A og D búnar 2 hríðskotabyssum (MG34) en gerð G, sem vóg 45,5 tonn, hafði 3 hríðskotabyssur (tvær MG34 og eina MG42).

Brynvörn var meiri og þykkari en á fyrri Panzer-skriðdrekum og öflugust á gerðum G og A sem höfðu t.d. 110 mm brynhlífar framan á skotturni. Engu að síður er það merkilegt að sameiginlegt með öllum gerðum Panzer er að fyrstu gerðirnar voru allar með ónógri brynvörn á hliðunum og því var beltabúnaðurinn veikasti punktur þeirra gagnvart þungum skotum. Panther var engin undantekning að þessu leyti og reyndist nauðsynlegt að bæta hliðarbrynvörnina á gerðum A og G. Hins vegar hafði Panther það fram yfir eldri Panzer að byggingarlag hans og brynvörn (slútandi) gerði það að verkum að hann stóðst mun harðari og þyngri skothríð og vegna þess hve hann var hraðskreiður og snöggur var hann langt frá því að vera auðvelt skotmark.

Vond byrjun

Máltækið ,,fall er faraheill" sannaðist áþreifanlega á Panther sem beitt var í fyrsta sinn í bardaga í júlí 1943 þegar 51. og 52. bryndeildir ásamt 39. flokki brynvélahersins, sem voru hluti af ,,Suður-hersafnaðinum", tefldu fram rúmlega 200 nýjum Panther af gerð D gegn sovéskum her á Kursk-víglínunni (200 km norður af borginni Kharkov) í Úkraínu. Þar biðu Þjóðverjar afhroð - fyrst og fremst vegna þess að Panther-skriðdrekarnir brugðust, - biluðu jafnvel áður en til bardaga kom. Afleiðingar takmarkaðs tíma til undirbúnings og framleiðslu komu nú í ljós því nánast allt sem bilað gat - bilaði. Gírkassar, drif og fjaðrabúnaður brotnuðu; kælikerfi vélarinnar reyndist ófullnægjandi auk þess sem blöndungar vildu yfirfyllast sem, ásamt yfirhitnun, kveikti í skriðdrekanum. Af 250 Panther, sem framleiddir voru í fyrstu rununni og sendir á austurvígstöðvarnar í júní 1943, voru einungis 43 gangfærir í ágúst sama ár.

Strax í ágúst 1943 kom endurbættur Panther (gerð A). Þá hafði verið ráðin bót á alvarlegustu göllunum í gírkassa, drifi og fjöðrun. Kæling vélarinnar hafði verið lagfærð og brynvörnin efld. Af gerð A voru framleidd 2200 eintök fram í maí 1944. Framleiðendur voru MAN, Daimler-Benz, Demag og Henschel.

Með gerð A snérist dæmið við - nú voru það Þjóðverjar sem tóku Rússana á beinið og það svo um munaði því auk endurbótanna á skriðdrekanum höfðu betur þjálfaðar Panther-áhafnir jafnframt öðlast notadrjúga reynslu við að beita þeim.

Síðasta gerðin af Panther, gerð G, var framleidd í 2950 eintökum af MAN, Daimler-Benz og MNH (skammstöfun á Maschinenfabrik Niedersachsen-Hannover) á tímabilinu mars 1944 til apríl 1945. Hafa ber í huga að eldri gerðir Panther sem komu til viðgerða voru endurbættar og búnar nýjungum sem þá höfðu komið fram.

Ógnvaldur

Haustið 1943 var staðan orðin sú að með Panther gátu þýsku brynfylkin ráðið niðurlögum hvaða skriðdreka Bandamanna sem var innan 2000 m skotfæris. Á meðal þess sem gerði Panther jafn bardagahæfan og raun bar vitni var mjög vandað og traust innra talsambandskerfi á milli manna í áhöfn og öflugt fjarskiptakerfi sem gerði kleift að samhæfa aðgerðir á milli flokkstjóra og hvers skriðdreka og á milli yfirstjórnar og flokkstjóra. Stjórnun og samhæfing aðgerða var tryggð með virkum samskiptum og aðgerðir því oft ótrúlega hraðar, hnitmiðaðar og markvissar. Panther-áhafnir höfðu reiknað út að væri færi innan við 1000 m hittu þær skotmarkið í 90 af hverjum 100 tilvikum. Samkvæmt upplýsingum, sem gerðar voru opinberar löngu eftir stríðslok, höfðu sérfræðingar bandaríska hersins reiknað út að 5 Sherman-skriðdreka þyrfti til að mögulegt væri að granda einum Panther og ekki færri en níu ef um væri að ræða T-34 í stað Sherman. (Við þetta hafa sumir viljað bæta að Bandaríkjamenn hafi alltaf haft tilhneigingu til að vanmeta hinn rússneska T-34, sem aðrir vilja meina að hafa verið öflugri en Sherman. Auk þess hefði lánið þurft að leika við Bandamenn til að hafa við Panther með 5 Sherman).

Panther af gerð G með 75 mm fallbyssu (KwK42 L/70)

 

Í tilkynningu til sovéskra herdeilda frá hermálaráðuneytinu í Moskvu, síðla árs 1944, var mælt með því að þær notuðu hertekna Panzer III og IV vegna þess hve þeir væru gangvissir og auðvelt að nálgast varahluti. Hins vegar mætti nota nýju Panther og Tiger, sem teknir væru herfangi, þar til þeir biluðu en alls ekki skyldi reynt að gera við þá því, eins og þar segir, ,,þeir eru með lélegar vélar, drifbúnað og fjöðrun."

En Rússar komust brátt að því að Panther var ekki sami gallagripurinn og hann hafði verið í upphafi og brátt fór sovéska herstjórnin að gefa áhöfnum T-34 hertekinn Panther í verðlaun fyrir góða frammistöðu og þótti rússneskum hermönnum það mikils virði. Til að halda herteknum Panther gangandi þröngvuðu Rússar þýskum vélvirkjum á meðal stríðsfanga til að vinna að viðgerðum á Panther sem var auðvitað brot á Genfar-samþykktinni um meðferð stríðsfanga. Rússar höfðu, meira að segja, gefið viðhaldshandbókina yfir Panther út 1944 þýdda yfir á rússnesku.

Ýmislegt reynt

Eins og gengur með hergögn voru gerðar tilraunir með alls konar endurbætur á Panther þann tíma sem hann var í notkun, bæði varðandi skriðdrekann sjálfan og vopnabúnað hans. Ýmsar ólíkar vélar voru prófaðar svo sem loftkæld MAN/Argus-vél, breyttur BMW-flugvélarhreyfill auk dísilvéla frá Daimler-Benz og Skoda. Vökvafjöðrun af fleiri en einni gerð var prófuð, vaðbúnaður, sérstakur lofthreinsibúnaður til að nota þar sem efnamengun var í lofti o.fl. Af sérbyggðum Panther fyrir ákveðin verkefni var Bergepanther sá merkilegasti en sá var eitt öflugasta og liprasta ruðnings- og björgunartækið í síðari heimstyrjöldinni, m.a. búinn krana og gat með honum komið skriðdreka á réttan kjöl. Á árinu 1944 voru nokkrir Panther búnir nætursjá - búnaður sem beitti innrauðri geislun til að gefa mynd á skjá af umhverfi í myrkri.

Af vígvelli ....

Þann 13. september 1943 réðst 1. sveit 2. SS bryndeildar undir stjórn Holzer yfirstormsveitarforingja með 7 Panther gegn sovéskum herflokki við Kolomak í Úkraínu. Á 20 mínútum grönduðu Þjóðverjar 28 af þeim 70 T-34-skriðdrekum sem Sovétmenn tefldu fram. Allir 7 Panther komu heilir frá þeirri viðureign.

2. herfylki 5. sveitar SS bryndeildar háði orrustu við sovéskar hersveitir við Siedle í Póllandi 28. og 29. júlí 1944. Á þessum 2 dögum grönduðu Þjóðverjar 107 skriðdrekum Rússa af gerðunum T-34, Sherman og Valentine en misstu sjálfir 6 skriðdreka (5 Panther og 1 Panzer IV).

Bretar, Kanadamenn, Frakkar og Bandaríkjamenn notuðu hertekna Panther-skriðdreka í bardögum. Franska andspyrnuhreyfingin notaði nokkra hertekna Panther en tveimur þeirra var grandað við Rúðuborg á miðju ári 1944 af þýskum Tiger-skriðdrekum og hlýtur það að hafa verið sérkennileg en verðmæt reynsla fyrir þýsku skriðdrekaforingjana.

Bandamenn fengu að finna rækilega fyrir Panther sem var aðalskriðdreki Þjóðverja í bardögunum í V-Frakklandi í framhaldi af innrásinni í Normandí þar sem bandarísku Sherman-skriðdrekarnir áttu aðeins einn möguleika gegn Panther - flótta. Frægasti Panther-foringinn var Ernst Barkmann yfirfylkisforingi í 2. SS-bryndeildinni ,,Das Reich" en hann var sæmdur riddarakrossi fyrir frammistöðu sína í Normandí og Ardennafjöllum í Belgíu.

Það sem hefði getað orðið (Panther II)

Um það leiti sem framleiðsla Panther hófst, rétt fyrir áramótin 1942/43, voru áætlanir gerðar fyrir Panther II. Sá skyldi vera með öflugri brynvörn að framan og á hliðum og með öflugri vél og hámarkshraða 46-56 km/klst. Um var að ræða 57 tonna skriðdreka sem átti að sameina það besta úr Panther og Tiger. Vélin var 23,4 lítra Maybach V12-bensínvél sem skilaði 800 hö. Vopnabúnaður var sá sami og á Tiger. Aldrei kom til framleiðslu á Panther II en 2 forgerðir voru smíðaðar og fyrir tilviljun er önnur þeirra varðveitt á safni í Bretlandi. Ýmis tæknileg atriði sem þróuð voru fyrir Panther II voru notuð til endurbóta og birtust í gerð G af Panther I.

Á söfnum

Eftir stríð notaði franski herinn Panther frá 1946 og fram á árið 1950. Frakkar framleiddu eigin skriðdreka eftir stríð og notuðu á hann skotturninn og 75 mm fallbyssuna af Panther. Búlgarar, Tékkar, Ungverjar, Rúmenar og Júgóslavar notuðu Panther fram á 7. áratuginn. Það er órækur vitnisburður um gæði 75 mm fallbyssunnar frá Reinmetall-Borsig að Ísraelar notuðu hana til að gera sína M50 Super Sherman nægilega öfluga og eru þeir skriðdrekar enn í notkun þegar þetta er skrifað 2003.

Þeir sem eiga leið um Danmörk og Norður-Þýskaland geta skoðað Panther á sérstöku skriðdrekasafni í Münster (í Vestfalíu) og þeir sem eru á ferð um Móseldalinn eða Rínarlönd geta skoðað hann og fleiri á stríðsminjasafninu í Koblenz. Þýskir skriðdrekar eru á hergagnasöfnum í Englandi, Hollandi, Frakklandi og í Rússlandi. Í Bandaríkjunum og Kanada eru nokkur stór hergagnasöfn sem eiga Panther.

Copyright © Leó M. Jónsson

Helstu heimildir:
Tanks of the World. Höf. David Miller. MBI Publishing. 2000.
Deutsche Kampfpanzer in Einsatz 1939-1945. Höf. Wolgang Fleisher. Nebel Verlag.
Panzer in Russland. Höf. Horst Scheibert/Ulrich Elfrath. Nebel Verlag. 2000.