Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur:

Tröllasögur af pallbílum

Ath. Þessi grein var uppfærð 27. mars 2008

Tíðarandi og lífstíll ræður líklega meiru um val fólks á bílgerð en notagildi og efnahagur þótt almenn velsæld skipti án efa miklu máli. Nefna mætti tvö ólík dæmi sem styðja þessa kenningu. Annars vegar er VW-bjallan sem var í tísku frá því um 1958 og fram yfir 1970 og var keypt og notuð af fólki án tillits til efnahags og ekki fjarri lagi að á einhverjum tíma hafi ný VW-bjalla verið stöðutákn, jafnvel á meðal efnaðs fólks.

Hins vegar fjórhjóladrifinn Ford Bronco, sem var í tísku og viðurkennt stöðutákn í uppganginum um 1965, jafnvel hjá fólki sem fór sjaldan lengra út úr höfuðborginni en upp í Heiðmörk.

GMC Sierra með V8 bensín eða dísilvél er öflugri og þægilegri en margan grunar, sem ekki hefur prófað bílinn. Eyðslan er einnig miklu minni en margir virðast hafa talið sér trú um, eða 15 lítrar að meðaltali í blönduðum akstri með 6,6 lítra túrbódísilvél en með henni er þessi bíll einn sá snarpasti á götunum. GM pallbíllinn er meiri fólksbíll en trukkur - öfugt við Ford-pallbílana. Þegar fyrstu bílarnir af þessari gerð fóru að sjást á þýsku hraðbrautunum ætluðu Þjóðverjarnir ekki að trúa sínum eigin augum þegar þeir sáu þá á vinstri akreininni á yfir 180 km/klst.

Upp úr 1985 hófst sérstakt tímabil jeppa-sýndarmennsku, annars vegar lúxusjeppa og hins vegar breyttra jeppa. Stærsti hluti þeirra mun sjaldan eða aldrei vera settur í lága drifið og í mörgum þeirra virkar jafnvel ekki framdrifið vegna þess að skiptibúnaðurinn hefur stirðnað vegna lítillar notkunar.

Svo komu palljeppar
Nýjasta tískubylgjan eru palljeppar sem eru sérbúnir til dráttar. Þeir henta vel því fólki sem stundar hestamennsku eða dregur húsvagna á sumrum um landið þvert og endilangt. Það skyldi þó ekki koma á óvart leiddi könnun í ljós að stærstur hluti palljeppa sé sjaldan notaður til dráttar - hlutverk þeirra sé fyrst og fremst að auglýsa ákveðinn lífsstíl eins og opinn sportbíll gerir í Kaliforníu.

GMC Sierra. Stýri og mælaborð. Hér er allt á eðlilegum stað, allir takkar kirfilega merktir og stjórntækin það einföld að hver sem er getur ekið bílnum án tilsagnar. Hér eru engar stílfærðar franskar gestaþrautir eða önnur sérviska ...

Eins og gerist með tískubylgjur halda neytendur þeim gangandi þrátt fyrir andúð mismunandi háværra hópa og vissulega gildir það um palljeppana hérlendis. Nefna mætti margar gildar ástæður fyrir stjórnvöld til að beita tiltækum ráðum til að draga úr innflutningi og notkun pallbíla. Auðvelt væri að réttlæta slíkar aðgerðir með skírskotun til almannahagsmuna svo sem vegna umferðarþrengsla og umhverfisverndar, svo fátt sé nefnt af því sem þrýstihópar geta bent á og hafa bent á.

Tekjulind
Tekjuhlið þessa máls vill gleymast. Vitna má í fræg ummæli írska skáldsins Oscars Wilde sem mun hafa sagt að leiðin til helvítis væri vörðuð góðum ásetningi. Aðgerðir og aðgerðarleysi stjórnvalda gagnvart aðflutningsgjöldum hafa aflað ríkissjóði gríðarlegra tekna af innflutningi amerískra pallbíla á undanförnum árum. Auk aðflutningsgjalda, sem ríkið innheimtir af innkaupsverði pallbíla, erlendum kostnaði og flutningsgjöldum, innheimtir það virðisaukaskatt af kaupverði, flutningskostnaði og aðflutningsgjöldum. Svo þegar innheimt hafa verið skráningargjöld innheimtir ríkið árlegt bifreiðagjald af hverju kg þessara stóru þungu bíla auk gjalda og virðisaukaskatts af hverjum lítra eldsneytis, rekstrarvara, varahluta og þjónustu.

CMC Sierra er ekki einungis einn af allra öruggustu bílum í umferðinni heldur með vandaðri innréttingu en margir gera sér grein fyrir, vandaðra leðuráklæði, betur saumað og þægilegri stóla fær maður tæplega í nokkrum bíl á svipuðu verði - hvað þá allan lúxus-aukabúnaðinn! Þessi er ,,Einn með öllu" og fluttur inn nýr af IB á Selfossi.

Jafnvel einkaaðilar virðast hafa tekið sér bessaleyfi til að skattleggja pallbíla sérstaklega eins og dæmi er um í Hvalfjarðargöngunum en gjaldskrá Spalar fyrir pallbíla finnst mörgum endurspegla frekar skattheimtu en þjónustugjald. Skatttekjur af pallbílum, einum og sér, eru því miklu meiri en margan órar fyrir og er ekkert undarlegt þótt gæslumenn ríkissjóðs séu ekki óðir og uppvægir að skrúfa fyrir kranann - a.m.k. ekki fyrr en streymið tekur að minnka - eins og nú er útlit fyrir en nú þegar hefur tekist að kjafta niður gengi íslensku krónunnar til að sefa kór grátkellínga í sjávarútvegi.

Fleiri græða
Jafnvel þótt pallbílar séu tískubóla gera þeir gagn jafnvel þótt eigandinn eigi hvorki hross né húsvagn því með pallbíl er auðvelt að flytja ýmislegt. Einhver myndi segja að það mætti gera með kerru aftan í fólksbíl. En sá sem heldur því fram hefur örugglega ekki mikla reynslu af því að nota kerru í stað palls/pallhúss. Sá sem hefur reynt að leggja bíl með kerru á bílastæði verslunar veit að kerra leysir ekki málið og þar fyrir utan þarf að njörva niður og vatnsverja allt sem flutt er á kerru.

Lengi var Hilux pallbíllinn með dísilvélinni steinmáttlaus en þrælsterkur sleði. En svo virðist Toyota loks hafa séð ljósið: Nú (2008) er boðinn nýr Hilux með nýrri 3,0 lítra, 170 ha túrbódísilvél. Þessi bíll er ekki bara á meðal þægilegustu pallbílanna - meiriháttar skemmtilegur í akstri, hann er orðinn einn af þeim sprækari og örugglega sá sparneytnasti miðað við stærð og burðargetu. Eyðslan er 10-11 lítrar á hundraðið.

Fólk kaupir alls konar hluti beinlínis af því það á pallbíl og getur flutt þá án sérstakrar fyrirhafnar og án aukakostnaðar. Lífið er ólíkt auðveldara fyrir sumarbústaðareiganda eða húsbyggjanda eigi hann jafnframt pallbíl en flestir pallbílar eru með sæti fyrir 3 eða 4 farþega. Þessir bílar eru því mjög hentugir fyrir marga - ekki síst þegar tekið er tillit til íslenskrar veðráttu sem er allt önnur en fólk er vant t.d. í Stokkhólmi, Kaupmannahöfn eða Boston.

Það skyldi því ekki koma á óvart þótt hagvöxtur af völdum pallbíla, einna og sér, sé verulegur og mun meiri en ætla mætti í fljótu bragði.

Innréttingin í nýja Hilux er ólíkt betur hönnuð og betur gerð en maður hefur átt að venjast í þessum þrælsterka vinnubíl fram að þessu enda er hún nú líkari því sem maður á að venjast í fólksbíl. Gírskiptingin er ekki lengur þessi grófa trukkalega heldur sú sama og er í Corolla; létt og lipur.

Tröllasögur um eyðslu
Ég er einn þessara pallbílaeigenda. Og þótt minn sé orðinn rúmlega 10 ára gamall vekur hann ákveðin viðbrögð hjá sumu fólki sem virðist sannfært um að hann eyði 25 lítrum af bensíni á hundraðið en ekki innan við 14 lítrum og myndi hvort eða er ekki trúa mér þótt ég færi að segja því hvað þessi öflugi fjórhjóladrifsbíll er í raun sparneytinn. Þeir sem halda uppi andróðri gegn pallbílum virðast vera með það á hreinu að þeir eyði miklu, valdi mikilli loftmengun og losi mikið af gróðurhúsalofttegundum. En það er einfaldlega rangt. Þeim sem vilja sannfærast um að svo sé er bent á að kynna sér samanburð á eyðslu og mengun dísilbíla sem er á meðal umfjöllunarefna í sérstakri skýrslu eftir undirritaðan og er aðgengileg á þessari vefsíðu. Mengunarskýrsla.

Ég furða mig á því hvaðan þetta fólk hefur þessar upplýsingar - finnst sem ég kannist við sígildan áróður og róg sem skipulega er haldið uppi gegn bandarískum bílum víða í Evrópu og er ígildi þarlendrar tollverndar.
Staðreyndin er sú að stærstur hluti nýlegra pallbíla er með dísilvélar sem standast strangari bandarískar kröfur um mengunarvarnir en áður hafa þekkst og talsvert strangari en gildandi mengunarreglur í Evrópu, þótt maður sjái öðru haldið fram - líklega af hreinni óskhyggju ef ekki heimsku. Því á þessi áróður ekki við rök að styðjast. (Mörgum kemur á óvart að bandarískir fólksbílar skuli vera þeir sparneytnustu í heimi og margir virðast halda að Volvo hafi fundið upp öryggið en ekki neyðst til að setja öryggisbúnað í bíla sína til þess að þeir stæðust kröfur um öryggi á bandaríska markaðnum (1978) sem þá voru ekki gerðar á þeim sænska!).

Þeir sem hafa haldið uppi andróðri gegn pallbílum héldu því m.a. fram að í kjölfar breytingar á skattlagningu eldsneytis 1. júlí 2005, en upp frá því kostar dísilolía svipað og bensín, myndu bílasölur fyllast af pallbílum sem jafnframt yrðu illseljanlegir vegna eyðslu. Raunin hefur orðið önnur. Framboð af notuðum amerískum pallbílum með dísilvél hefur lítið breyst s.l. hálft ár en hins vegar virðist lítið lát hafa orðið á innflutningi þeirra. Einu dísiljepparnir sem eru óseljanlegir eru 6-7 ára gamlir Patrol-jeppar - en ástæða þess er ekki bara eyðsla heldur kemur þar fleira til svo sem lélegar vélar og lök þjónusta.

Dæmi um eyðslu
Hér eru nokkur dæmi um eyðslu mismunandi pallbíla við mismunandi aðstæður. Pallbílarnir eiga það sameiginlegt að vera amerískir og af þeim gerðum sem vinsælar eru hérlendis. Þessar tölur geta eigendur pallbíla staðfest en þær eru að sjálfsögðu miðaðar við bíl í fullkomnu lagi:

  • · 1985 árgerð af Chevrolet Suburban með 5,7 lítra bensínvél eyðir að meðaltali 24 lítrum á hundraðið. Sami bíll með 6,2 lítra dísilvél eyðir að meðaltali, í sömu notkun, 13,1 lítra og enn minnu með 6,5 lítra dísilvél með tölvustýrðri innsprautun (6.5 innsprautukerfið reyndist gallað í fyrstu árgerðum en í lagi frá og með árgerð 1999).
  • · 1997 - 2003 árgerð af Ford F-250 HD CrewCab Pickup með 7,3ja lítra dísilvél eyðir að meðaltali, í blönduðum akstri, 13,1 - 13,8 lítrum á hundraðið. Með 3ja tonna hestaflutningavagn í drætti (með dráttarforrit í sjálfskiptingu) er eyðslan 16,8 - 18,1 lítri á hundraðið.
  • · 2002 árgerð af Chevrolet Silverado 2500 með 5,7 lítra bensínvél eyðir að meðaltali, í blönduðum akstri, 15,7 lítrum en 21,4 - 23,6 lítrum með vagn í drætti. Sami bíll með 6,5 lítra dísilvél eyðir í sömu notkun 12,8 lítrum að meðaltali í blönduðum akstri og 15 lítrum með vagn í drætti.
  • . 1998 árgerð af Dodge 1500 Pickup Regular Cab með 5,2ja lítra V8-bensínvél (318) eyðir að meðaltali, í blönduðum akstri án hleðslu 15-16 lítrum á hundraðið. Dodge Ram 2500 með 5,9 lítra Cummins dísilvél og tölvustýrðri innsprautun er sparneytnastur allra amerískra 3/4-tonns pallbíla - meðaleyðsla hans í blönduðum akstri (og drætti) er um 14-15 lítrar.

  • · 2003 og nýrri árgerð af Chevrolet Silverado 2500 með 6,6 lítra Duramax dísilvél eyðir að meðaltali í blönduðum akstri (og drætti) 15,7 lítrar. Sami bíll með 5,3 lítra V8-bensínvél eyðir 16-17 ítrum í blönduðum akstri (ekki við drátt).
  • . 2004 árgerð af Ford F-150 Super Cab (5 manna) pallbíl með 4,6 lítra V8-bensínvél eyðir að meðaltali 16 lítrum í blönduðum akstri (ekki drætti) á 32-33" dekkjum og með orkuaukandi tölvukubbi. Snerpan 0-100 er innan við 7 sek. (byggt á eigin mælingu).

Af ásettu ráði hef ég sleppt Ford pallbílum með 6 lítra PowerStroke Navistar dísilvélinni. Þótt hönnun þeirrar vélar hafi verið mjög merkileg í upphafi (sjá sérstaka grein um dísilvélar og Ford F-250 (reynsluakstur í Bandaríkjunum 2003) verður að segja það eins og er að þessi hönnun hefur að meiru eða minna leyti verið eyðilögð á framleiðslustiginu. Það hefur vakið bæði mér og fleirum furðu hve illa smíðaðar þessar vélar eru og samsetning þeirra hroðvirknislega unnin. Reynslan sl. 3 - 4 ár af 6 lítra PowerStroke-dísilvélinni í Ford er, vægast sagt slæm; þessar vélar hafa einfaldlega aldrei verið til friðs og rekstur þessara bíla einkennst af látlausum vandræðum. (GM Duramax, eftir að nýir rafspíssar komu í stað þeirra gölluðu frá og með árgerð 1999 hefur, hins vegar, reynst með bestu dísilvélum á markaðnum).

Við þetta má bæta að fjórhjóladrif eykur eyðslu. Flestir pallbílar eru búnir hlutadrifi, þ.e. þeim er yfirleitt ekið í afturhjóladrifi eingöngu. Sé fjórhjóladrif (4H) notað í drætti, eykur það eyðslu umtalsvert, t.d. er 20 % eyðsluaukning ekki óeðlileg. Röng stærð dekkja getur valdið því að drifmiðlunarkerfi (TOD) sé sívirkt í stað þess að hafa drifið einungis á afturhjólunum þegar minnst álag er. Þetta getur aukið eyðslu um 20-25%.

Uppgefnar eyðslutölur
Þær tölur sem framleiðendur bíla gefa upp um eyðslu (EPA-tölur í Bandaríkjunum og EEC-tölur í Evrópu) ber að taka með ákveðnum fyrirvara. Þetta eru ekki raunverulegar upplýsingar um eyðslu bílanna í eðlilegri notkun heldur niðurstöður mælinga sem gerðar eru við ákveðnar aðstæður sem tilteknar eru í stöðlum, sem gefnir eru út af opinberum aðilum og öllum bílaframleiðendum gert að fara eftir þannig að samanburðargrundvöllur sé sá sami hver sem framleiðandinn er. Tilgangurinn er sá að fá fram nothæfan samanburð á milli bíla - þ.e. vísbendingu um eyðslu. Dæmi: Sé uppgefin meðaleyðsla, mæld samkvæmt EEC-staðli, sögð vera 11 lítrar fyrir bíl A en 9 lítrar fyrir bíl B þýðir það ekki að bíll B eyði 2 lítrum minna að meðaltali á hverja hundrað km í venjulegri notkun. Hins vegar er þetta vísbending um að bíll B sé sparneytnari en bíll A - og vísbending um að munurinn kunni að vera hlutfallið á milli 9 og 11.

Eftirfarandi dæmi skýrir ef til vill betur hvers vegna ekki ætti að taka uppgefnar staðaltölur um eyðslu of bókstaflega (eins og bílasalar gera í blekkingarskyni - því þetta hljóta þeir að þekkja) - því þær eru einungis ætlaðar sem viðmiðun. Séu 2 bílar af mismunandi tegund með uppgefna sömu eyðslu samkvæmt EPA-mælingu gæti annar þeirra eytt talsvert meiru vegna þess að hann tekur á sig meiri vind en hinn - staðalmælingin fer nefnilega fram í logni. Mismunandi lofthiti, mismunandi hæð yfir sjávarmáli, mismunandi hleðsla bíls, mismunandi akstrushraði, mismundandi aksturslag bílstjóra - allt hefur þetta áhrif á eyðslu bíls - það eru því aðstæður sem ráða því hver eyðslan er, þegar til kastanna kemur, en uppgefin staðaleyðsla framleiðandans er einungis vísbending.

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar