Mitsubishi Outlander(viðbót 7/3/04)

Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur


Samdráttarskeiði hjá MMC (Mitsubishi Motor Corporation) er lokið og vörn hefur verið snúið í sókn; sala MMC-bíla hefur aukist 2 ár í röð og hagnaður hefur komið í stað taps. Átaksverkefni hefur skilað árangri: Skipulagsbreytingar eiga að auka árangur enn frekar, m.a. hefur framleiðsla vörubíla og rúta verið aðskilin frá framleiðslu fólksbíla og jeppa með stofnun nýs fyrirtækis. Nýjar gerðir bíla munu birtast á næstunni; 15 í Japan, 12 í N-Ameríku, 12 í Asíu og 14 í Evrópu. Við höfum þegar séð fyrsta nýja bílinn, Outlander. Gandis (sem er nýr bíll í stað SpaceWagon) kemur í sumar og nýr og breyttur Lancer í haust.

Samstarf við Daimler-Chrysler

Mitsubishi og Daimler-Chrysler (D-C) hafa tekið upp samstarf á ýmsum sviðum. Á meðal þess er samvinna MMC og Smart-deildar D-C um þróun nýrra miðborgarbíla sem ætlunin er að komi á markaðinn árið 2004 en þá smábíla á að framleiða bæði sem D-C Smart og Mitsubishi hjá NedCar í Hollandi. Þá er verið að reisa bílvélaverksmiðju í Þýskalandi sem verður sameign MMC og D-C en hún mun m.a. framleiða vélar fyrir Smart-bílana. MMC hefur einnig hafið samstarf við Daimler-Chrysler um þróun og hönnun á stærri fólksbílum og jeppum. MMC-bílar, svo sem Colt, Lancer, Galant, Pajero og nú síðast Lancer Evo, hafa verið í efstu sætum í alþjóðlegum rallaksturs- og þolkeppnum, m.a. hefur Pajero unnið Paris-Dakar-rallið mörgum sinnum en sú keppni er talin með þeim erfiðustu. Þessi árangur hefur náðst m.a. vegna tækniþekkingar og reynslu hjá MMC sem Daimler-Chrysler sækist nú eftir.

Mitsubishi Outlander 2003. ,,SUV-bíll" af nýrri hönnun

,,Sport Utility Vehicle"

Frá því um 1975 hefur MMC framleitt fjórhjóladrifna jeppa, vinnubíla og fólksbíla og hefur jafnframt verið frumkvöðull á sviði forþjöppuvéla (turbo). Af fjórhjóladrifnum fólksbílum frá MMC eru Galant og Lancer þekktastir en þeir eru með sérstakt sítengt aldrif sem MMC hefur þróað, m.a. í rallbílum í næstum 2 áratugi.

Bílar, sem á ensku nefnast ,,Sport Utility Vehicle" eða SUV, eru vinsælir. Í þeim sameinast notagildi fólksbíls og sendibíls með miklu flutningsrými sem myndast vegna þess að SUV-bíllinn er með hærra boddí. Hæðin gerir SUV-bílinn jafnframt þægilegri en venjulegan fólksbíl. Vinsælustu bílarnir af þessari gerð hérlendis hafa verið Toyota RAV, Hyundai Santa Fe og Honda CRV. Nú hafa 2 nýir bæst við annars vegar Nissan X-Trail og Mitsubishi Outlander. Sumir SUV-bílar eru einnig framleiddir með framdrifi (2WD). Sú gerð þætti varla eftirsóknarverð hérlendis.

SUV-bílar eru byggðir á hjólbotni fólksbíls. Þótt þeim svipi til jeppa eiga þeir ekkert sameiginlegt með jeppa nema útlitið. ,,Jepplingur" er því óheppilegt samheiti á þessari gerð bíla, - það gefur í skyn tæknilegan skyldleika við jeppa sem ekki er til að dreifa og veldur því oft misskilningi. Tilgangurinn með SUV-bílnum er ekki sá að búa fólksbíl eiginleikum torfærubíls heldur að uppfylla þarfir nútímafjölskyldu fyrir daglegt farar- og flutningstæki með hámörkun innanrýmis. S-ið (fyrir Sport) á að skapa ímynd útivistar og/eða íþrótta. (Sé S-ið tekið burt höfum við UV-bíla á borð við Renault Megane Scenic, VW Touran, Opel Zafira o.fl.). Fjórhjóladrif gegnir því hlutverki að auka veggrip og þar með akstursöryggi en ekki torfærugetu enda eru þessir bílar, öfugt við jeppa, ekki búnir millikassa (lágu drifi). Ástæða þess að margir þessara bíla eru boðnir með framdrifinu einu er sú að fjórhjóladrifsbúnaður þyngir bíl og eykur viðnám í drifbúnaði sem ófrávíkjanlega eykur eldsneytiseyðslu.

Mismunandi fjórhjóladrif

Fjórhjóladrifið er tvenns konar í þessum bílum; annars vegar hlutatengt en þá má velja um 2WD eða 4WD með hnappi en hins vegar sítengt en þá er bíllinn alltaf í 4WD. Munurinn á þessum kerfum er sá að bíll með hlutatengt drif eyðir minna eldsneyti en bíll með sídrif er öruggari í akstri. Valið stendur á milli sparneytni eða aukins öryggis. Sítengt aldrif er fyrst og fremst öryggisbúnaður og er, sem slíkum, of lítill gaumur gefinn og oft vanmetinn. Sítengt aldrif myndi ég tvímælalaust velja umfram hlutatengt drif sé bíl ekið allan ársins hring á vegum utan þéttbýlis. Um leið skal bent á að hlutatengt drif sem stillt er á 4WD er yfirleitt ekki sambærilegur öryggisbúnaður á við sítengt fjórhjóladrif - sumum hlutatengdum drifum má jafnvel ekki beita í 4WD nema á takmörkuðum hraða.

Bili bíll með sítengt fjórhjóladrif verður að flytja hann á vagni eða á palli á verkstæði.

Um aldur hönnunar

SUV-bílar á markaðnum skiptast í grófum dráttum í 2 flokka eftir því hvort hönnun þeirra telst gömul eða ný. Gömul hönnun þekkist á varahjóli sem fest er utan á afturhlerann sem, fyrir bragðið, opnast til hliðar. Ný hönnun þekkist á því að varahjólið er ekki geymt utan á bílnum og afturhlerinn opnast upp sem er þægilegra og hagkvæmara. Mitsubishi Outlander tilheyrir síðari flokknum og er nýrri hönnun en t.d. Toyota RAV og Honda CRV.

Í hverju liggja þægindin ?

SUV-bílar, eins og hér eru til umfjöllunar, eru um 1,70 á hæð eða um 30 sm hærri en venjulegir fólksbílar. Fríhæð yfir vegi er um 4 sm meiri en fólksbíls. Á SUV er því boddíið, mælt frá neðri brún síls og upp á þak, um 26 sm hærra en fólksbíls eða um 19%.
Kostir þessa byggingarlags eru meira flutningsrými, auðveldara aðgengi og betri nýting, m.a. vegna þess að gólf flutningsrýmisins er yfirleitt slétt.

Þægindi þeirra sem aka eða ferðast í SUV-bíl eru fyrst og fremst fólgin í setuhæð sætanna. Í algengum fólksbílum, sem þykja vel hannaðir, er hæðin frá vegi upp á setu sætis (nefnist mjaðmahæð á fagmáli) yfirleitt um 50 sm. Í Mitsubishi Outlander er þessi hæð 65,5 sm, sem er dæmigert fyrir SUV-bíl, en hún er lykilatriði hvað varðar þægindi; annars vegar þegar setið er í bílnum á löngu ferðalagi en hins vegar við að setjast inn í og fara út úr bílnum. Vilji maður sannfærast um gildi þessa atriðis er einfaldast að prófa að setjast ofan í hjólbörur og standa upp úr þeim og bera það saman við að setjast á venjulegan borðstofustól.

Fersk hönnun Outlander

Mitsubishi Outlander kom fyrst á markaðinn í Japan í júní 2001 og nefnist þar Airtrek, hann var kynntur í Bandaríkjunum í mars 2002 og kom á evrópska markaðinn í maí 2003. (Í Japan er Airtrek með 240 ha turbó-vél sem segir talsvert um styrk bílsins). Outlander er 5 manna 4ra dyra með afturhlera sem opnast upp. Vélin er 4ra sílindra 2ja lítra 16 ventla með ofanáliggjandi kambás; blokk úr steypustáli en hedd úr áli. Fyrst um sinn er Outlander einungis boðinn með 5 gíra beinskiptan gírkasa og sítengt fjórhjóladrif en búast má við öflugri turbó-vél og sjálfskiptingu fyrir árslok 2004. Sítengda fjórhjóladrifið er með seiglæstri stýringu sem flytur afl og miðlar því á milli fram- og afturhjóla eftir veggripi. Þetta er sama drifkerfið og er í Lancer Evolution sportbílnum og sannað hefur gildi sitt í rallakstri.

Stílhrein innrétting. Fallegt áklæði.
Drjúgt flutningsrými sem er einfaldara og fljótlegra að mynda þar sem ekki þarf að taka hnakkapúðana af til að fella bökin.

Outlander er ný hönnun sem sést m.a. á því að varahjólið er ekki geymt utan á honum eins og á þeim keppinautum sem farnir eru að reskjast. Outlander er lengri á milli hjóla (hjólhaf) en flestir keppinautar og er 100-150 kg þyngri en það er betri mælikvarði á öryggi bíls, að mínu mati, en tilvísanir í árekstrarpróf enda er Outlander áberandi efnismikill bíll. Í því efni munar mest um fjöðrunina, sjálfstæða fjöðrun að framan með gormaturnum en að aftan eru gormar og hjólfesting með liðörmum framan við hjólið. Þessi fjöðrun ásamt sítengdu fjórhjóladrifinu á stærstan þátt í aksturseiginleikum sem henta sérstaklega vel íslenskum aðstæðum - afburða stöðugleika í akstri bæði á möl og malbiki. Outlander fjaðrar eins og fólksbíll og er mjög þægilegur ferðabíll.

Vélin

Á bandaríska markaðnum og víðar er Outlander boðinn með stærri 2,4ra lítra vél. Ástæðan er sú að þar eru 9 af hverjum 10 SUV-bílum sjálfskiptir. Í augum bandarískra bílakaupenda eru allar bílvélar undir 3ja lítra slagrými ,,litlar" og ,,aflvana". Á stærstu mörkuðum Evrópu eru tollar og bifreiðagjöld notuð til að stýra eldsneytisnotkun með því að hygla bílum með litlar vélar (lítið slagrými). Sams konar reglum hefur verið breytt hérlendis til að stuðla að því að stærri jeppar væru síður með aflvana vélar enda beinlínis hættulegt.

Til að ,,friða" þá sem telja allar vélar kraftlausar sem ekki hafa meira en 100 hestöfl beita bílaframleiðendur misvísandi upplýsingum um mælt afl og sleppa því gjarnan að birta gröf sem sýna afl- og togkúrfur vélanna. Í þessum anda er afl vélarinnar í Outlander sagt vera 136 hö við 6000 sn/mín. (vélin í Honda CRV er sögð skila 150 hö við 6000 sn/mín.). Vilji einhver ganga úr skugga um hversu fráleit þessi mæling er getur hann prófað að aka bíl sínum á lægri gírunum þannig að vélin snúist 6000 snúninga (flestir venjulegir bíleigendur myndu sleppa bensíngjöfinni áður en vélin nær að snúast 5000 sn/mín.). Þetta segir álíka mikið um afl vélar eins og 250 hö við 11 þúsund snúninga hjá vél sem getur ekki snúist hraðar en 6500 sn/mín.

Af þessu leiðir að sumir bílaprófarar, sem hafa ef til vil ekki mikla fagþekkingu eða reynslu, þora ekki annað en að taka sérstaklega fram að þessir SUV-bílar, með 2ja lítra vél, séu fremur kraftlausir þegar réttara væri að segja að vélaraflið sé viðunandi en fólk þurfi að læra að beita vélinni (snúningshraða og gírum) eins og það þarf t.d. að gera þegar um 1,7 lítra turbódísilvél er að ræða.

Outlander, eins keppinautar með 2ja lítra vél, er með viðunandi vélarafl en ég tel það hiklaust viðunandi að geta haldið 90 km hraða á honum í 4. gír upp Kambana með 2 farþega án botngjafar. Þá sjaldan svona bíl er ekið fullhlöðnum þarf að gæta þess með gírunum að snúningshraði vélarinnar fari ekki niður fyrir 2500 sn/mín. Og eins og um alla venjulega bíla þarf jafnframt að gæta sérstakrar varkárni við framúrakstur sé bíllinn mikið hlaðinn.

Hámarkstog vélarinnar er 176 Nm við 4500 sn/mín. Til að nýta vélartogið sem best er drifhlutfallið haft lágt (4,687) en það veldur því að vélin snýst 2950 sn/mín á 100 km hraða í 5.gír. Það er vissulega nokkuð mikið en vegna þess hve vélin er þýðgeng kemur það ekki að sök. (Afl nýrrar bílvélar skilar sér oft ekki að fullu fyrr en eftir fyrstu 3000 km.). Þessi Outlander vegur 1550 kg. Með þyngd bílsins í huga verður þessi 1997 rsm vél að teljast merkilega spræk en það skýrist að hluta með því hve hún á auðvelt með að snúast hratt, t.d. er ekkert tiltökumál að þenja hana í 5500 snúninga án þess að silkimýktin minnki. Í lausagangi er hún svo hljóðlát og þýðgeng að maður verður bókstaflega að leggja við hlustirnar. Smurolíukerfi vélarinnar rúmar 4 lítra.

Einföld, látlaus og stílhrein

Innréttingin í Outlander er einföld og látlaus en ber það með sér að vera vönduð. Stýrishjólið er með hallastillingu og hvíldarfjöl er fyrir vinstri fótinn. Stórir og skýrir mælarnir eru hringlaga með vísum. Ágæt geymsluhólf eru í innréttingunni ásamt venjulegum glasahöldurum. Auk hanskahólfs eru 2 opin hólf í mælaborðinu og tvöfalt hólf í armhvílunni á milli stólanna. Speglar eru innfelldir í bæði sólskyggnin. Festiuglur eru í farangursrýminu. Sætin eru vel bólstruð, vönduð og traust, bílstjórastóllinn með hæðarstillingu og ágætan stuðning við mjóhrygg (þó ekki stillanlegur) og bólstraður stuðningur er við mjóhrygginn í aftursætunum. Ný tegund áklæðis er einkar smekklegt. Framstólarnir eru með rafhitun.

Ótvíræður kostur er að ekki þarf að eiga neitt við hnakkapúðana í Outlander þegar aftursætisbakið er fellt fram en það er tvískipt (60/40). ISOFIX-festingar eru fyrir barnastóla. Öll 5 sætin eru með 3ja punkta belti og gegnumsjáanlega hnakkapúða. Stilla má axlarhæð beltanna frammí. Stór geymsluvasi er í sætisbaki. Í miðju aftursætinu er armhvíla með innbyggðum drykkjahöldurum. Útsýn barna er nokkuð takmörkuð vegna þess hve neðri gluggalína bílsins er há.

Eins og áður er minnst á er hæð upp á stólsetu í Outlander 65,5 sm sem skýrir hvers vegna þessi bíll er jafn þægilegur og lipur t.d. í borgarsnatti og raun ber vitni.

Farangursrýmið er 690 lítrar (949 lítrar í Honda CRV). Til viðbótar farangursrýminu eru haganlega gerð geymsluhólf undir gólfhleranum en varahjólið er í hólfi undir honum. Flutningsrými er 1706 lítrar (2039 lítrar í Honda CRV). Flutningsgólfið er ekki alveg slétt. Þægileg hæð er upp á hleðslugólf, 76 sm. Upprúllanleg hlíf er yfir farangursrýminu og má kippa henni úr festingunum og geyma í sérstöku hólf í gólfinu þannig að hún flækist ekki fyrir og skemmist þegar bíllinn er notaður til flutninga. 12 volta rafúttök eru 3 þar af eitt í farangursrými. Á bílnum er voldugur þakrekki.

Innanrými í Outlander er einstakt. Hár maður (um 190 sm) situr t.d. þægilega í aftursæti þegar framstóll er í öftustu stöðu. Höfuðrými er fullnægjandi og 4 fullorðnir, jafnvel stórvaxnir, ferðast þægilega í þessum bíl. Rafknúnar rúðuvindur eru í fram- og afturhurðum og barnalæsingar á rúðuvindum og afturhurðum. Hliðarrúða bílstjóramegin fer alla leið niður og upp við eitt stuð á takkann. 2ja hraða rúðuþurrkur eru með stillanlega töf. Þurkurnar má senda eina ferð yfir með því að ýta rofasprotanum örlítið upp. Auk þessa er afturrúðuþurrka með töf. Inni í bílnum eru lesljós auk þess sem ljós er í svissnum.

Aksturseiginleikar- eldsneytisnotkun

Vélin er áberandi hljóðlát, viljug og ótrúlega þýðgeng. Til að halda kröftugu vélarviðbragði þarf að beita gírunum þannig að snúningshraði fari ekki undir 2500 sn/mín. Vélaraflið er þrælgott á bilinu 4500 og upp undir 6000 sn/mín. Rauða svæðið á mælinum er á milli 7 og 8 þúsund sn. Vélin snýst auðveldlega 6000 sn/mín en tæplega meira (enda ekki mælt með því hér). Gírskipting er ratvís og lipur og stýrið hæfilega létt. Outlander er áberandi stöðugur á vegi, hann fjaðrar og hreyfist eins og fólksbíll (en ekki jeppi) með stinna fjöðrun; svínliggur hvort sem er á malbiki eða malarvegi - er áberandi rásfastur jafnvel á vondum malarvegi. Stór hjólin (16" felgur) draga úr hreyfingu yfirbyggingarinnar. Þegar ekið er yfir misfellur eða á mjög grófum troðningi verður vart við slag í stýrisvél eins og virðist fylgja flestum tannstangarmaskínum núorðið. Í 235 km reynsluakstur (sem var langt frá því að vera sparakstur enda með tilheyrandi botngjöf við ýmis tilfelli) þurfti 24 lítra af bensíni sem þýðir að meðaleyðslan hefur verið rétt innan við 10 lítrar. Í sparakstri myndi ég treysta mér til að fara 100 km á innan við 8 lítrum.

Stór hjól (16" felgur) og frábær fjöðrun ásamt sítengdu fjórhjóladrifi skapa aksturseiginleika í sérflokki.
Lægsti vindviðnámsstuðull í flokki SUV-bíla (0,43) - Outlander er einn hljóðlátasti bíllinn af þessari gerð.

Vindviðnámsstuðull Outlander er 0,43 sem mun vera sá lægsti hjá þessari gerð bíla og vind- og veghljóð áberandi lítið, reyndar mest frá stórum rafhituðum, aðfellanlegum baksýnisspeglunum sem ásamt góðri útsýn fram á við og til hliðanna auka öryggistilfinningu undir stýri. Hröðun er 11,4 sek. 0-100 og hámarkshraði 192 km/klst. Heildarniðurgírun á hjólöxul í 1. gír er 1:16,79. Dráttargetan er 1500/570 kg. Burðargetan er 520 kg.

Undirvagn með þessa gerð fjöðrunar veldur því að bíllinn hallar dálítið í beygjum og tekur smátíma að venjast því. MMC Outlander er að því leyti eins og sá frægi Citroën DS sem hallaði talsvert meira í beygjum þótt enginn bíll lægi betur á vegi. Annað sem er áberandi er snerilstyrkur bílsins sem, ásamt sítengdu fjórhjóladrifinu, er lykilatriði gagnvart veggripi og þar með stöðugleika. Til samanburðar má nefna að Outlander er mun stöðugri á vegi og ekki eins næmur fyrir hliðarvindi og Honda CRV. Outlander er byggður með MASH-tækni sem MMC þróaði á sínum tíma og feslt í því að tölvustýringu er beitt til að tryggja hámarksburðarþol rafsuðusauma og þar með snerilstyrk.


Öryggi og .....

Outlander er áberandi efnismikill og því nokkuð þungur (vegur 1550 kg óhlaðinn). Öll yfirbyggingin er úr galvanhúðuðu stáli. Árekstrarvörn er MMC RISE (Realized Impact Safety Evolution); sérformuð krumpusvæði í fram- og afturenda sem draga úr áhrifum höggs. Í bílnum eru öryggispúðar frammí og til hliðanna. Láréttir styrktarbitar eru innan í hurðunum. Bremsukerfið er tvískipt með hjálparátaki; 10" diskar að framan en 9" skálar að aftan. Bílbeltin eru með innbyggðri skotstrekkingu sem sjálfvirkar við högg. Búnaðurinn er jafnframt með sjálfvirkri slökun sem virkar ákveðinn tíma í strekkingarferlinu til að varna því að beltin valdi áverka.

(Lancer 2002 Sedan, en sá bíll er með sama hjólbotn og Outlander, fékk hæstu einkunn (Good) í árekstrarþolprófi IIHS í Bandaríkjunum (Insurance Institute of Highway Safety) og viðurkenningu sem öruggasti ,,smábíllinn" á bandaríska markaðnum).

Samandregið:

- Miðað við byggingu, gæði, búnað og eiginleika er verðið á Outlander (2,5 m kr.) ótrúlega hagstætt - ég hefði giskað á að þessi bíll kostaði ekki minna en 3 milljónir.
- Hærri bíll er alltaf þægilegri en lægri. Mjaðmahæð sæta í Outlander er 15,5 sm meiri en í fólksbíl. Hærri bíll hefur minni fyrirferð en meira rými.
- Útsýn er betri í hærri bíl - meira öryggi - liprari í borgarakstri. (11,4 m snúningshringur).
- Sítengt fjórhjóladrif eykur öryggi og tryggir betri aksturseiginleika. Vélin er ein sú þýðgengasta sem býðst.
- Outlander sameinar þægindi fólksbíls, útlit sportjeppa og flutningsgetu sendibíls.
- Aksturseiginleikar þessa bíls eru í algjörum sérflokki sem gerir hann að einum skemmtilegasta og þægilegasta ferðabílnum misjöfnum vegum landsins.
- Stórar dyr, afturhleri sem opnast upp og hleðsugólf í réttri hæð.

Niðurstaða og viðbót:

Bílar heppnast misvel - jafnvel þótt öllum tæknilegum skilyrðum sé fullnægt. Mitsubishi Outlander er mjög vel hannaður bíll og virðist auk þess vera ,,rétti bíllinn á réttum tíma og á réttu verði" - blanda sem á að geta hitt í mark. Það kæmi mér á ekki á óvart yrði Mitsubishi Outlander metsölubíll í flokki SUV-bíla.

Í janúar 2004 prófaði ég þennan Mitsubishi Outlander sjálfskiptan með stærri og aflmeiri vél. Sá bíll er enn skemmtilegri en sá beinskipti. Mestu munar um aukna vélaraflið og mjög þægilega sjálfskiptinguna, en hún er útbúin (eins og Tiptronic í Porsche) þannig að bílnum má jafnframt beinskipta með því að snerta skiptistöngina. Kostir stærri vélarinnar og sjálfskiptingarinnar koma ekki síst í ljós í borgarakstri þar sem lipurð bílsins og snerpa er einstök. Mæling mín sýndi að sjálfskipti Outlander eyddi 12-14 lítrum á hundraðið að meðaltali í blönduðum akstri - það getur ekki talist mikið fyrir sjálfskiptan bíl með sídrif. Þessi atriði ásamt frábærum aksturseiginleikum gera Mitsubishi Outlander að besta jepplingnum á markaðnum að mínum dómi - t.d. finnst mér Toyota RAV sleðalegur í samanburði en, eins og ég hef áður bent á, eru Toyota RAV og Honda CRX gömul hönnun á útleið - sem m.a. sést á varahjólinu aftan á skuthleranum - útlitsatriði sem er komið úr tísku og einkennir gamla hönnun.

Fleiri greinar um bílaprófun

Aftur á forsíðu

Netfang höfundar