(Þessi prófun á Opel Corsa af árgerð 1998, en það var þá nýr og breyttur bíll, fór fram í apríl-mánuði 1997 á Kanaríeyjum, nánar tiltekið á Tenerife, og jafnframt í Þýskalandi (Eisenach). Greinin birtist í Bílnum 2. tbl. 1997. Aðalnýjungin var 3ja sílindra ECOTEC-vél sem gerði Opel Corsa að einum sparneytnasta bílnum í sínum flokki. Það merkilega er að frá Opel kostaði Corsa með 3ja sílindra vél nánast það sama og með 4ra sílindra vél. Íslenska umboðinu var því vandi á höndum því þrátt fyrir sparneytnina kusu flestir kaupendur bílinn með 4ra sílindra vél og sala 3ja sílindra bílsins gekk því treglega. Júlíus Vífill Ingvarsson fyrrum framkvæmdastjóri IH hafði samband við mig 1. nóv. 2004, eftir að ég hafði verið í viðtali á Útvarpi Sögu, og upplýsti mig um þessa ástæðu fyrri því að minna varð um þriggja sílindra Opel Corsa en ætla mátti í fyrstu. Í viðtalinu hafði ég getið mér þess til að ásatæðan fyrri þessu kynni að hafa verið sú að starfsmenn Opel-umboðsins hefðu ekki þekkt þá eðlisfæðilegu staðreynd að 3ja sílindra vél með 1 lítra slagrými nýtir eldsneyti betur en jafn stór 4ra sílindra vél, eins og skýrt er sérstaklega í neðanritaðri grein. En nú er ljóst að sú var ekki ástæðan og því bið ég viðkomandi afsökunar á þeim ummælum mínum. L.M.J.)

PRÓFUN: NÝR OPEL CORSA

Stór alþjóðlegur smábíll og sparibaukur

eftir Leó M. Jónsson vélatæknifræðing


Kraftmikill, snöggur og þægilegur Opel sem eyðir innan við 5 lítrum á hundraðið án þess að vera dósarlegur! Er það ekki einmitt bíllinn sem flestir vilja eiga?
Með Opel Corsa var sett nýtt sölumet 1996. Þá seldust rúmlega 484 þúsund Corsa bílar í Vestur-Evrópu einni og er það 5.5% söluaukning á einu ári sem er ótrúlegt. Þá er Corsa aðeins einn af metsölubílum GM/Opel sem er mest seldi fólksbíllinn í Evrópu. Nýlegt samkomulag GM og Renault um sameiginlega framleiðslu og sölu á vinnubílum (2.5 - 2.8 tonn) mun hafa áhrif á markaðnum. Sá Opel Corsa sem nú er prófaður er nánast eins í útliti og sá bíll sem verið hefur við lýði frá og með árgerð 1994. Engu að síður eru breytingarnar miklar þótt þær séu ekki áberandi.

HINN DÆMIGERÐI ,,KONUBÍLL"?

Opel Corsa af árgerð fyrir 1994 var lítið breyttur í mjög langan tíma, líklega ein 10 ár og var orðinn áberandi á eftir í útliti en seldist engu að síður vegna viðurkenndra gæða (lág bilanatíðni) og véla sem voru talsvert á undan, t.d. með ofaná liggjandi kambási fyrr en flestir aðrir í sama verðflokki.

Markaðskannanir GM höfðu sýnt að konur keyptu Opel Corsa, þegar þær fengu að ræða, frekar en aðrar tegundir. Karlkyns hönnuðir hjá Opel áttu í erfiðleikum með að greina hvað það væri nákvæmlega við bílinn sem konur mátu meira en karlar. Þegar þessi nýi Corsa var á hugmyndastiginu, þ.e. áður en raunveruleg hönnun hófst, var því ákveðið að reyna að koma betur en áður til móts við konur sem kaupendahóp. Það var einfaldlega gert með því að velja fleiri konur í hóp hönnuða Corsa.

Ekki veit prófari hvað það er nákvæmlega sem höfðar frekar til kvenna en karla þegar smærri bíll á í hlut. Hins vegar þorir hann að fullyrða að þau atriði, hver sem þau kunna að vera, rýra ekki gildi Opel Corsa í augum karla, að minnsta kosti ekki prófara. Það þarf því ekki að vera tilviljun að eina konan í hópi blaðamanna, sem reynsluók Corsa á kanaríeyjunni Tenerife, sagðist hafa fallið flöt fyrir bílnum.

ÝMSAR ÚTGÁFUR

Í árslok 1996 höfðu 2.7 milljón bílar af Corsa-gerðinni verið framleiddar í 9 löndum. Þeir bílar sem hér verða seldir eru framleiddir í Eisenach í Þýskalandi (ný verksmiðja sem Opel hefur reist í fyrrum Austur-Þýskalandi). Corsa fæst með tvenns konar dísilvél, 1.7 lítra og 1.5 lítra túrbó. Bensínvélarnar, sem líklegast er að verði boðnar hérlendis eru 1.0 lítra 3ja sílindra 55 ha og 1.4ra lítra 16 ventla 90 ha 4ra sílindra (fyrir sjálfskipta bílinn). Báðar tilheyra flokki tæknilega þróuðustu véla á markaðnum; báðar með 4 ventla á hverjum sílindra, tvo ofaná liggjandi kambása og rafeindastýrða innsprautun. Þriggja sílindra vélin er með 3 spíssa (Motronic-kerfi frá Bosch) en 4ra sílindra með Multec S-kerfi.

ÞRIGGJA SÍLINDRA VÉLIN

Þriggja sílindra vélar í minni fólksbílum þekkja margir. Þær voru í Suzuki Swift (50 hö/5800 sn/mín), Subaru Justy (55/6000) og Daihatsu Charade (52/5600). Þar sem gera má ráð fyrir að margir, sem huga hafa á bíl af þessari stærð og gerð, þekki til 3ja sílindra Daihatsu Charade, verður Corsa með 3ja sílindra vélinni nokkuð vel lýst með örstuttum samanburði við CXharade frá og með ágerð 1988. Vélin í Corsa er með 6% meira afl og 8% meira tog en vélin í Charade. Það gerir þó ekki meira en að vinna upp upp þau 180 kg sem Corsa (930 kg) er þyngri en Charade (750 kg). Þetta segir þó ekki nema hálfa söguna: Charade (5 gíra) hélt ekki ferð á jafnsléttu í 5. gír væri mótvindur. Corsa heldur ferð. Viðbragð vélanna er ólíkt; hámarkstogi nær Corsa-vélin 400 sn/mín fyrr en Daihatsu-vélin og bregst því skjótar við inngjöf. Bein insprautun, 12 ventlar í stað 6 í Charade, rafeindastýrt neistakerfi, minna innra núningsviðnám og lægri vindviðnámsstuðull gerir það að verkum að þessi eins lítra vél (973 rsm) í Corsa skilar meiru en nógu afli við allar venjulegar aðstæður og akstur. Þá hefur 3ja sílindra Corsa það fram yfir Charade og fleiri 3ja sílindra vélar að gangurinn er silkimjúkur og hljóðið eins og í álíka aflmikilli 4ra síl. vél sem er um 12 kg þyngri.

3ja sílindra ECOTEC-vélin vegur einungis 82,5 kg með öllu á. Vélin skilar lipurri vinnslu og með henni hefur Opel Corsa yfirburða-sparneytni umfram flesta bíla af svipaðri stærð.

Vélarblokkin er úr steypustáli en hedd úr álblöndu. Tæknin,sem Opel beitir til að gefa 3ja sílindra vélinni ámóta viðbragð við inngjöf og 4ra sílindra 1.3 lítra vél, er ekki flókin, a.m.k. við fyrstu sýn: Slaglengdin er aðeins meiri en í japönsku vélunum og kasthjólið á sveifarásnum þyngra. Tveir holir (léttir) kambásar knýja 12 ventla með rúlluörmum og örlitlum vökvadempurum sem tryggja nauðsynlegt fríbil þannig að aldrei þarf að stilla ventla. Með því að stýra neistatíma og bensínblöndu með skynjurum eftir aðstæðum og álagi verður
ókostur þunga kasthjólsins með minnsta móti þannig að tog vélarinnar nýtist vel á víðu snúningssviði. Það er einna helst að maður verði var við hnykk vegna kasthjólsins þegar vélin er látin snúast mjög hratt áður en skipt er upp í hæsta gír.

Í varmafræði véltækni segir að venjuleg bensínvél nýti varmaorkuna best þegar slagrými hvers sílindra er mest 500 ml og minnst 250 ml. Fernra sílindra vél með heildarslagrýmið 1000 ml (lítri) er á neðstu mörkunum. Þriggja sílindra vél með 1000 ml slagrými er hins vegar með mun ákjósanlegra slagrými fyrir hvern sílindra eða sem næst 333 ml. Þetta er ástæða þess að 3ja sílindra vél er sparneytnasta eins lítra vélin í fræðilegum skilningi. Annar stór kostur 3ja sílindra vélarinnar er 30°víðari neistageiri á milli sílindra en í 4ra sílindra vél; það þýðir hlutfallslega meira tog við lágan snúningshraða - 3ja sílindra vélin er seigari og aflið teygjanlegra en í 4ra síl. með sama slagrými.

Opel nýtir þessar eðlisreyndir út í ystu æsar. Þá gefur augaleið að núningsviðnám er 1/4 minna í 3ja strokka vél en fernra. Rúllu-ventilarmarnir minnka núningsviðnámið í heddinu um heil 70%, svo dæmi sé tekið. Núningsviðnámið er því mjög lítið í vélinni og það á sinn þátt í því hve aflkúrfan er brött (gott viðbragð við inngjöf).

Þriggja sílindra Ecotec-vélin, sem ég tel vera eina af meiriháttar nýjungum sem komið hafa fram í smærri bílum í langan tíma, hefur það fram yfir hinar Ecotec- vélarnar að hafa Motronic-vélstýrikerfið frá Bosch. Motronic er að því leyti fullkomnara að blanda saman bensíni og lofti á undan spíssnum og sprauta blöndunni beint inn í hvert sogport. Hinar vélarnar nota frumstæðari innsprautun þar sem bensíni er sprautað inn í soggrein og loftmagni stýrt með inngjafarspjaldi. Til að draga úr nituroxíði í afgasi er 3ja sílindra vélin með pústhringrás (EGR) í heddinu.

Rafeindastýrð neistakerfi eru flest háð taktmerki frá kasthjóli (1. í toppstöðu). Af því leiðir að startarinn þarf að snúa sveifarásnum einn hring áður en neista er hleypt á kerti. Í Opel Corsa hefur neistastjórnin verið endurbætt með því að geyma í tölvuminni stöðu stimpils nr. 1 þar sem hann stöðvast þegar drepiÐ er á vélinni. Með þessu móti rýkur vélin strax í gang. Gagnsetning verður öruggari og krefst minni orku.

Þriggja sílindra vélin er með kveikjulaust neistakerfi; enga háspennuþræði en háspennukefli innbyggt í hvert kertatengi. Þar með þarfnast kveikjukerfið einskis viðhalds nema kertaskipta á 60 þús. km. fresti.

Sérstakur kostur þessarar nýju 3ja sílindra vélar, og um leið langstærsti kostur Corsa Swing með henni, er sparneytnin. Á beinni braut og stöðugum 90 km hraða eyðir bíllinn 4.4 lítrum á hundraðið. Í blönduðum akstri er eyðslan undir 6 lítrum. Og til enn frekari glöggvunar þá lætur nærri að fara megi á Corsa 1.0 frá Reykjavík um Akureyri til Egilstaða á einum bensíngeymi (46 lítrar). Mér kæmi ekki á óvart þótt sparneytnin ætti eftir að draga kaupendur að Opel Corsa því hann er laus við dósarhljóðið sem áður fylgdi sparneytnustu japönsku bílunum. Ekki sakar að Opel er þekkt gæðamerki.

HVER ER HANN ÞESSI GM?

Í Evrópu kynnir General Motors sig sem fjölþjóðlegt móðurfyrirtæki með aðsetur í Sviss og nefnist General Motor's International Operations (GMIO) en til þess telst ekki bandaríska GM. GMIO rekur 35 verksmiðjur og 46 sölufyrirtæki utan Bandaríkjanna og hefur um 111 þúsund manns á launaskrá. Þessi hluti GM risans seldi 3 milljónir bíla árið 1995. Þekktustu dótturfyrirtækin í Evrópu eru Opel í Þýskalandi og Vauxhall í Bretlandi. Í Japan er Isuzu og Holden í Ástralíu. Þau bílmerki sem GM selur utan Bandaríkjanna eru Opel, Vauxhall, Cadillac (Cadillac Catera er framleiddur í Þýskalandi), Chevrolet, Buick, Pontiac, GMC, Saturn, Holden, Saab og Isuzu. Bílheimar tóku við GM umboðinu fyrir nokkrum árum og þekktustu sölubílar þeirra eru Opel, Isuzu og Saab. GM leggur sérstaka áherslu á að Opel Corsa sé alþjóðlegur bíll, framleiddur og seldur í 3 heimsálfum sem Opel, Vauxhall, Chevrolet, Holden og Chevy Corsa. (Nú árið 2004 hefur GM innlimað Daewoo í sölukerfi sitt en það keypti þrotabú Daewoo í Kóreu árið 2002. Til að reyna að hleypa lífi í söluna á Daewoo-fólksbílum, sem framleiddir eru í verksmiðjunum í Suður-Kóreu, hefur tegundarheiti þeirra verið breytt í Chevrolet. Í sjálfu sér er það ekkert út í bláinn því Daewoo hefur keypt hönnun flestra sinna bíla af Opel auk þess sem vélarnar í Daewoo-bílunum eru Opel-vélar framleiddar með leyfi).

SKEMMTILEGUR

Í þessari lotu voru prófaðar 3 mismunandi gerðir; Opel Corsa Eco 2ja dyra 3ja sílindra 1.0 með 12 ventla vél og 5g handskiptingu; Corsa Swing 5 dyra með sömu vél; Corsa Swing 4ra dyra 4ra sílindra 1.4 með 8 ventla vél sjálfskiptur (60 hö) og beinskiptur Opel Tigra 2ja dyra sportbíll með 1.4 lítra 16 ventla vél (90 hö).

Innréttingin er vönduð en látlaus eins og í öðrum Opel-bílum. Auk loftpúðanna er alls konar athyglisverður öryggisbúnaður í Corsa svo sem pedalar sem aftengjast sjálfvirkt við árekstur, stýrishólkur sem dregst fram og niður við árekstur í stað þess að ganga inn í rýmið, styrktir stólar, beltastrekkjarar og hliðarárekstrarvörn.

Corsa Swing með 3ja sílindra vélinni er sprækari en sjálfskipti bíllinn meÐ 4ra sílindra vélinni, jafnvel þótt slagrými hennar sé 40% meira. Corsa er einn þessara bíla sem er gaman að keyra. Bíllinn hefur mjög góða aksturseiginleika, jafnvel enn betri en hjá Renault Clio, sem hingað til hefur verið viðmiðun mín í smábílum. Á Tenerife virkaði Corsa dálítið harður á fjöðrunum, líklega vegna sportdekkja sem þar voru notuð. Hérlendis myndu belgmeiri dekk mýkja bílinn. Corsa er rígfastur í rásinni á beinum vegi; liggur hreint ótrúlega í beygjum; svarar stýri án þess að kippast til, leggur vel á og er þannig formaður að útsýn er betri en í mörgum öðrum bílum, jafnvel stærri bílum. Vegna þess hve framrúðan er stór og nær inn á þakið hefur hávaxinn maður jafn góða útsýn og lágvaxinn en það verður ekki sagt um nema fáa bíla í þessum stærðarflokki. Krafturinn og viðbragðið í 3ja sílindra vélinni mun koma mörgum á óvart (ekki síst vegna þeirra merkilegu fordóma sem margir eru haldnir að telja vél betri sé fjöldi sílindra raðtala!). Gírskipting er ratviss, þjál og þægileg, ástig á pedala þægilegt, bremsurnar fínar og framstólarnir þannig að maður sat kyrr í bílnum jafnvel í svæsnustu beygjunum upp og niður eldfjöllin á Tenerife. Samandregið: Þrælskemmtilegur bíll - bíll með karakter.

STÆRSTU KOSTIR

Eftir prófunina á Kanaríeyjum var haldið til Frankfurt og þaðan til Eisenach þar sem Corsa er framleiddur. Eftir sýningarferð um verksmiðjuna, en í elsta hluta hennar var áður framleiddur Wartburg, er ég talsvert fróðari um hvað það er sem innfæddir eiga við með ,,Opel gæðum". Gæðaeftirlitið í framleiðslurásunum er aðdáunarvert og það skýrir m.a. hvers vegna bilanatíðni Opel er jafn lág og raun ber vitni. Annað atriði sem vakti athygli mína var að þeir láta ekki nægja að galvanhúða bremsurörin heldur verja þau einnig með því að dýfa þeim í epoxilakk. ýmis önnur smáatriði í frágangi vöktu athygli og voru traustvekjandi í augum þess sem þekkir til bílaviðgerða.

Opel Corsa árgerð 1998. Það er engin tilviljun að þessi bíll skuli hafa verið metsölubíll í Evrópu. Í baksýn er hið tæplega 4000 m háa eldfjall á Tenerife, Las Canadas del Teide.

Stærsti kostur Corsa eru gæðin. Næst stærstu kostir eru sparneytni og afl nýju 3ja sílindra Ecotec-vélarinnar. Af öðrum kostum skal nefna gott rými að innanverðu. Þótt 3ja dyra Corsa sé nokkru styttri bíll en 3ja dyra Toyota Corolla er Corsan rúmbetri og dyrnar stærri. Corsa á það sameiginlegt með Nissan Micra að hátt er upp á setur framstóla. Fyrir bragðið er auðvelt að komast inn og út úr bílnum og lengri ferðir verða ekki eins þreytandi (hnén beygð) og innra rými bílsins nýtist betur.

TÆKNIN

Sá Corsa sem prófaður var kemur fyrst sem 1998 árgerð. Útlitsbreyting er lítil sem engin frá 1994. Engin sérstök þörf virðist hafa verið fyrir breytt útlit; Corsa er nýtískulegri en sumir ,,nýrri" bílar; útlitið er stílhreint og rýrir hvorki rými né útsýn og enginn smábíll selst jafn vel. Mælaborðið og innréttingin er ekki samkvæmt framúrstefnuhönnun en hvort tveggja virkar þægilega og virðist praktískt. Miðstöðin var ekki prófuð af skiljanlegum ástæðum (Kanaríeyjar) en hljóðið frá henni er a.m.k. ekki meiri en gerist og gengur. Þriggja sílindra vélinni hafa þegar verið gerð skil. Af öðrum tæknilegum atriðum er rafknúið aflstýrið merkileg nýjung. Það er hannað af tæknimönnum Opel í samvinnu við Saginaw, stýrisvélaverksmiðju GM í Bandaríkjunum. Til að knýja venjulegt vökvastýri þarf vélin að snúa dælu sem myndar vökvaþrýsting. Afl þarf til að knýja dæluna jafnvel í lausagangi þegar bíll er kyrrstæður - þótt það sé ekki mikið vegna framhjáhlaupslokans.

Nýjungin hjá Opel er í því fólgin að láta rafmótor efla stírið í stað dælu og vökvamótors. Sjálfvirkur rafeindabúnaður stjórnar því hvernig aflstýrið vinnur við hinar ýmsu aðstæður og álag. Það er einkum þrennt sem vinnst með rafaflstýri: Það virkar ekki nema þegar því er beitt og sparar þannig 2-5% eldsneyti, búnaðurinn vegur 12,5% minna en vökvastýri og síðast en ekki sést rýrir það ekki rásfestu bílsins eins og algengt er í ódýrari bílum með vökvastýri enda er rásfesta Corsa eftirtektarverð. Við þetta má bæta að viðhaldsþörf minnkar, enga vökvastýrisreim þarf að endurnýja eða fylgjast með vökva þar sem stýrisdælan er horfin.

Samfara rafknúnu aflstýri hafa ýmsar endurbætur verið gerðar stýrisgangi; stýrisarmar eru lengri og efnismeiri, stýrisendar sterkari, hjólstífum hefur verið bætt við til að auka stöðugleika við bremsun. Efri festingum McPherson fjarðraturnanna að framan hefur verið breytt til að minnka slit á dekkjum og demparar eru öflugri en í fyrri árgerðum. Allt á þetta sinn þátt í því að auka öryggistilfinningu bílstjórans, það er t.d. áberandi hve ósléttur vegur (holur) hefur lítil áhrif á stýrið.

Að aftan er Corsa með þverbita og gormafjöðrun eins og Nissan Micra, Renault Twingo, VW, Hyundai Elantra, Ford Escort auk flestra amerísku GM bílanna af meðalstærð. Þetta afturhjólastell hefur reynst mjög vel. Þótt til séu betri lausnir meÐ tilliti til veggrips og aksturseiginleika gefur þessi búnaður bílnum ágæta aksturseiginleika en hefur það fram yfir sjálfstæða afturfjöðrun að burðargetan er miklu meiri og endingin einnig.

STÆRÐIN

Stærð Opel Corsa, ásamt ýmsum öðrum upplýsingum, kemur fram í meðfylgjandi töflum. Samanburður við aðra bíla í sama stærðarflokki segir einnig sitt. En í sem stystu máli þá er Opel Corsa frekar ,,stór" smábíll; hann er stærri um sig en Nissan Micra en minni um sig en Toyota Corolla og VW Golf en svipaður að lengd og Renault Clio og VW Polo. Af þeim bílum sem nefndir eru til samanburðar er VW Golf með mest innra rými, þá Opel Corsa og Toyota Corolla í þriðja sæti en VW Polo með minnsta innanrýmið.

 

OPEL CORSA: Samanburður ; mál, þyngd - rými

Opel Corsa

5d 1,0 12 ventla

VW Golf

5d 1,8 8 ventla

Toyota Corolla

5d 1,3 16 ventla

Renult Clio

5d 1,4 8 ventla

Nissan Micra

5d 1,3 16 ventla

Botnskuggi, ferm.
5,996
6,834
6,929
6,047
5,867
Þyngd, kg
980
1.025
1.000
850
800
Burðargeta, kg
400
525
550
475
525
Burðargeta þaks, kg
100
-
-
-
-
Hjólhaf, mm
2443
2480
2470
2470
2360
Lengd
3729
4020
4100
3710
3690
Breidd
1608
1700
1690
1630
1590
Hæð
1420
1420
1370
1400
1430
Farangursrými, l *
280/1150
330/1162
309/1100 **
265/1055
205/960
Bensíngeymir, l
46
55
50
43
42
* Lægri talan er rýmið með aftursæti upprétt. Hærri talan með aftursæti fellt. ** Hlerabíll (Hatchback)

 

OPEL CORSA: Samanburður ; afl, snerpa, geta, eyðsla

Opel Corsa

5d 1,0 12 ventla

VW Golf

5d 1,8 8 ventla

Toyota Corolla

5d 1,3 16 ventla

Renult Clio

5d 1,4 8 ventla

Nissan Micra

5d 1,3 16 ventla

Afl, hö/snm
55/5600
90/5500
75/5400
58/5750
55/6000
Tog, Nm/snm
82/2800
145/2500
115/4000
107/3500
103/4000
0-100 km/klst, sek.
18,0
12,1
12,8
11,3
12,0
Hámarkshraði, km/klst
150
178
170
175
172
Dráttargeta, kg **
700/420
1200/500
1000/450
750/425
750/300

Meðaleyðsla, bl. akstur, l/100 km

5,7
7,6
6,7
6,4
6,0
Sn. hringur, þvermál, m
9,5
10,5
10,1
9,4
9,4

* Í borgarakstri er snerpan 0-60 km/klst betri mælikvarði en 0-100 og Corsa kemur hlutfallslega best út úr þeirri mælingu.

** Hámarksdráttargeta - vagn með bremsum/vagn án bremsa.

 

Aftur á aðalsíðu