Oldsmobile:

Aldursforseti hverfur af sviðinu

eftir Leó M. Jónsson vélatæknifræðing

Oldsmobile Division of General Motors, eins og fyrirtækið nefnist, en það hefur aðsetur í borginni Lansing í Michigan, er ekki einungis elsta ameríski bílaframleiðandinn, en saga hans hófst á 19. öld, heldur sá bandarískra bílaframleiðanda sem oftast hefur verið brautryðjandi varðandi nýja tækni og nýjungar, varð m.a. fyrsti bíllinn í heiminum til að ná 100 km hraða (1903). Undanfarin 10 ár hefur salan dregist saman og í desember árið 2000 tilkynnti stjórn GM að Oldsmobile yrði lagt niður og yrðu síðustu bílar þess af árgerð 2004.

Ransom Eli Olds (1865-1950) var sonur lásasmiðs af breskum uppruna í bænum Geneva, Ohio. Þótt skólagangan yrði lítil þótti hann snemma lagtækur og lunkinn í viðskiptum og 21 árs yfirtók hann verkstæði föður síns og keypti eldri bróður sinn út. (Áður en lengra er haldið skal bent á að upphafstafir Ransom Eli Olds eru Reo og er þar komið nafnið á bílum, m.a. vörubílum, sem margir eldri lesendur muna sjálfsagt eftir, en Ransom þessi stóð, ásamt fleirum, að framleiðslu þeirra á fyrri hluta 20. aldar. Að öðru leyti er Reo utan við þessa sögu).

1890 hafði Ransom rekið fyrirtækið P. F. Olds & Son í tæp 5 ár við góðan orðstír og framleiddi gufuvélar. Hann fékk efnaða kaupsýslumenn, Edward Sparrow og timburmilljónerarnn Samuel L. Smith, til liðs við sig sem fjármögnuðu nýtt hlutafélagið Olds Gasoline Engine Works. Reist var ný verksmiðja í Lansing í Michigan. Þar var fyrsti vélknúni Olds-vagninn smíðaður 1891 en hann var með gufuvél. 1894 hafði fyrirtækið snúið sér að framleiðslu bensínvéla og 1896 hafði Olds, með aðstoð hönnuðarins Madison F. Bates, smíðað fyrsta bílinn með 2ja sílindra 5 ha bensínvél. Sá bíll nendist Olds (Oldsmobile var ekki skrásett vörumerki fyrr en 1900) en 1897 hafði nýtt fyrirtæki verið stofnað og nefnt The Olds Motor Vehicle Company. Þir Sparrow og Smith lögðu því til 50 þúsund dollara hlutafé eftir að hafa sannfærst um að Olds-bíllinn virkaði. Fjórir bílar voru smíðaðir til viðbótar og seldir á 3 mánuðum. En þá kom babb í bátinn; verkfall stöðvaði frekari framleiðslu, hlutabréfin í fyrirtækinu féllu í verði, Edward Sparrow missti traust sitt á Ransom E. Olds og dró sig út úr fyrirtækinu. Samuel Smith ákvað að halda sínu striki og fjármagnaði enn nýtt fyrirtæki fyrir R. E. Olds árið 1899.Það var nefnt Olds Motor Works. Útgefið hlutaféð var hálf milljón dollarar og seldust strax hlutabréf fyrir 350 þúsund dollara. Þetta var gríðarlegt fé á þessum tíma.

Oldsmobile Toronado 1982. Þessi framdrifni sportbíll var áratugum á undan amerískum keppinautum þegar hann birtist fyrst 1966. Ljósmynd GM Web-Archives

 

Oldsmobile Delta 88 Royal Diesel 1984. Greinarhöfundur notaði þennan bíl daglega á Keflavíkurveginum til og frá vinnu í Reykjavík árin 1986-1995. Bíllinn er enn í eigu greinarhöfundar. Þessi var Oldsmobile dísill nr. 2, búinn sérstaklega styrktri fjöðrun og er einhver allra ljúfasti og þægilegasti bíll sem greinarhöfundur hefur átt um sína daga. Vélin í þessum bíl sló aldrei feilpúst í 170 þús. km notkun og gengur enn eins og klukka. (sjá sérstaka grein um dísilvélina)

Samuel Smith varð formaður stjórnar, sonur hans Fred Smith ritari og gjaldkeri en Ransom E. Olds varð varaformaður og framkvæmdastjóri þótt hann hefði ekki getað lagt fram nema 400 dollara hlutafé en það sýnir að þekking hans og hæfileikar hafa verið mikils metnir. Nokkrum vikum seinna fékk Ransom E. Olds 50 þúsund dollara og stóran hlut í fyrirtækinu sem greiðslu fyrir sinn hlut í Olds Gasoline Engine Works sem innlimað var í nýja fyrirtækið ásamt Olds Motor Vehicle Company. Fjárfestar í Detroit létu ekki líða langan tíma þar til þeir höfðu keypt öll föl hlutabréf í Olds Motor Works.

Lán í óláni eða þannig ....

Lansing var 2000 manna sveitaþorp og mun fáum hafa þótt það eftirsóknarvert til búsetu. Vegna þess að synir Samuel Smith, Fred og Angus, voru langskólagengnir vildu þeir búa í stórborginni Detroit. Smith flutti því heimili fjölskyldunnar frá Lansing til Detroit árið 1890. Þar með er komin skýringin á því hvers vegna fyrsta bílaverksmiðja Olds Motor Works var reist 1899 í Detroit en ekki í Lansing, nánar tiltekið að 1308 Jefferson Avenue steinsnar frá Belle Isle brúnni.

Þótt Ransom E. Olds þætti fær tæknimaður virðist honum ekki hafa tekist jafn vel upp sem stjórnandi, a.m.k. ekki í upphafi ferilsins. Fyrstu Olds-bílarnir sem framleiddir voru í Detroit um 1900 þóttu illa smíðaðir og dýrir og seldust því treglega. Ekki bætti úr skák að Ransom E. Olds virtist ekki takast að bæta gæðin en var, þess í stað, uppteknari við að hanna rafknúinn bíl sem hann taldi eiga meiri möguleika en bensínbíl. Er ekki að orðlengja um það - fyrirtækið stefndi í þrot.

En málin tóku aðra stefnu og með dramatískum hætti: Þann 9. mars 1901 kviknaði í Olds-verksmiðjunni í Detroit og brann hún til kaldra kola ásamt gögnum, teikningum, tilrauna-rafmagnsbílum Ransom E. Olds og nokkrum öðrum bílum á hönnunarstigi. Einungis einum bíl tókst að bjarga úr brunanum; léttbyggðum, eins sílindra opnum bíl (buggy) með uppsveigðum fótaskemli (sem þá nefndist ,,curved dashboard"). Þetta var gríðarlegt áfall en tryggingabætur námu einungis 72 þúsund dollurum. Ransom E. Olds hafði verið í fríi í Kaliforníu með eiginkonu sinni og dætrum og dreif sig heim sem var nokkra daga ferðalag með lest í þá daga. Til þess var tekið hve vel hann hélt ró sinni þrátt fyrir þetta áfall en það varð til þess að tekin var afdrífarík ákvörðun: Nú skyldi einungis framleiða eina gerð bíls - þennan eins silindra með uppsveigða fótaskemlinum og stýrisstönginni. Ransom E. Olds og Samuel Smith komu sér saman um að flytja fyrirtækið aftur til Lansing, þar sem Olds átti enn vélaverksmiðju sína, og ekki síst vegna þess að Lansingbær bauð 21 hektara lands endurgjaldslaust fyrir nýja bílaverksmiðju. Í henni voru framleiddir fyrstu 425 ,,Curved-dash-bílarnir" árið 1901 og voru jafnframt fyrstu bílarnir sem nefndust Oldsmobile. ,,Curved-dash" Oldsmobile reyndist vel, varð eftirsóttur og kom fótunum undir fyrirtækið en á árinu 1905 voru 6.500 bílar framleiddir af þessari gerð.

Vélin í ,,Curved dash" Oldsmobile var með hliðarventla og 1,57 lítra slagrými sem Milton Beck hafði hannað og þróað. Hönnun bílsins var unnin af ungum tæknifræðingi, Gilbert Forrest Loomis, en drifbúnaðurinn var keðjudrif frá gírkassa með sólargír og hafði J. D. Maxwell aðstoðað Loomis við hönnun hans. Kostur ,,Curved dash" Oldsmobile, umfram flesta keppinauta á fyrstu árunum upp úr aldamótunum 1900, var hve hann var einföld hönnun. Þegar maður sér bílinn á safni núna kemur manni á óvart hvað hann hefur verið stór: Hjólin voru stór, þvermálið 28 tommur og breidd dekkjanna 75 mm (3"). Bílllinn var breiður, með 1397 mm sporvídd og 1676 mm hjólhaf. Samt sem áður vegur bíllinn ekki nema 350 kg. Þetta var svokallaður ,,buggy" (þ.e. vélknúin opin kerra) og sat trog á ferköntuðum ramma úr ferstrendum stálprófíl. Tveimur löngum fjöðrum, með beinan kafla í miðjunni, var fest upp undir miðjan rammann á hvorri hlið bílsins. Neðri endum hvorrar fjöður var svo fest á fram- og afturhjólás úr stálröri. Munurinn á Oldsmobile og T-Ford var að Oldsinn hafði 2 langfjaðrir en T-Fordinn hafði 2 þverfjaðrir. Vélin var undir upphækkuðu sætinu og vatnskassanum fest lárétt upp undir trogbotninn. Bremsan var tromla með borðum á öxli á milli lágagírs- og bakkgírstromlunnar. Bílnum var stýrt með langri stöng (stýrishjól og húdd kom 1904).

Fyrsti bíllinn sem sló í gegn

,,Curved-dash" Oldsmobile var merkilegri bíll á sínum tíma en margir gera sér grein fyrir. Hann var t.d. hraðskreiðari en ætla mætti t.d. af myndum; náði t.d. 40-50 km hraða og gat haldið honum. Bíllinn kostaði 650 dollara allan tímann sem hann var framleiddur og þótti það lágt verð. Ransom E. Olds mátti hafa sig allan við að tryggja framleiðslu nægilega margra bíla en jafnframt var hann á þeytingi út og suður um Bandaríkin að stofna til og semja um ný söluumboð. Ransom E. Olds var mikill fjölskyldu- og reglumaður sem ekki mátti vamm sitt vita. Eins og vill verða um mikla verkmenn virtist sem honum væri ekki gefið að deila ábyrgð með öðrum á sínu sérsviði en var hins vegar þekktur fyrir að vera fljótur að átta sig á hæfilekum manna og studdi þá og hvatti sem hann hafði sérstakt álit á. Enda gerði Ransom E. Olds Oldsmobile að eins konar útungunarstöð fyrir hæfileikaríka stjórnendur og tækimenn upp úr aldamótunum 1900. Margir sem hófu feril sinn hjá Oldsmobile á þessum árum áttu seinna eftir að láta til sín taka í öðrum fyrirtækjum. Einn af mörgum var Roy Dikeman Chapin, sem ekki lagði upp með meiri menntun en námskeið í ljósmyndun, og sem síðar gerist kraftaverkamaður sem stjórnandi Hudson Motor Co. og viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Herberts Hoover (sjá grein um Hudson). Annar var 28 ára verkfræðingur, Howard E. Coffin sem löngu seinna átti eftir að skrifa kafla bílasögunnar sem yfirmaður tæknimálanna hjá Hudson ásamt nokkrum öðrum fyrrum tæknimönnum Olds. Þá má ekki gleyma Robert C. Hupp og Charles D. Hastings, sem báðir hófu störf sem vélvirkjar hjá Olds en sköpuðu seinna og stjórnuðu Hupmobile (sjá grein um Hupmobile). Og marga fleiri mætti nefna en bíður betri tíma.

Curved Dash Oldsmobile Runabout 1901. Dash er skábretti, þ.e. íhvolfa fótaskjólið fremst á bílum á milli ljósanna.

Fred Smith, sonur stjórnarformannsins Samuel Smith, var óánægður með framleiðsluskipulag og stjórnun Ransom E. Olds og taldi að þar mætti gera flesta hluti betur. Af stjórnun Ransom E. Olds fer ýmsum sögum en sumir halda því fram að hún hafi verið fyrirsláttur í valdabaráttu manna sem hafi ekki átt skap saman. Dró til tíðinda þegar Samuel Smith vék og nýr stjórnarformaður tók við, Henry Russel sem var handgengin Smith-feðgum.

Eftir breytingar á stjórn Oldsmobile voru þar menn sem töldu vænlegra að framleiða íburðarmeiri og dýrari bíla. Ransom E. Olds var því ósammála, taldi sig hafa sýnt að fjöldaframleiðsla ódýrra bíla myndi skapa mestar tekjur til lengri tíma litið. Skarst í odda með mönnum og leiddi ósætti til þess að Ransom E. Olds yfirgaf Oldsmobile í janúar 1904, þá 40 ára gamall, og stofnaði R. E. Olds Motor Car Company skömmu síðar sem brátt nefndist Reo Motor Car Co.

Eftir að þeir Smith-bræður urðu ráðandi hjá Oldsmobile hófst framleiðsla stærri og dýrari bíla, m.a. með tveggja sílindra vél 1905 en fyrsti Oldsmobile með 4ra sílindra vél, undir húddi að framan, birtist sem Model S 1906 og kostaði 2.250 dollara. Þetta þóttu vandaðir og traustir bílar. En þrátt fyri það minnkaði salan. 1907 var ár erfiðleika og áfalla í bílaframleiðslu og fór Oldsmobile ekki varhluta af þvi, skuldasöfnunin náði einni milljón dollara, framleiðslan var einungis 1.200 bílar og þeir Smith-bræður sáu sína sæng upp reidda og tóku því feginsamlega tilboði nýs félags, General Motors, í nóvember 1908 um yfirtöku gegn 3ja milljón dollara greiðslu fyrir hlutaféð. Hluti kaupssamnings var um að þeim Smith-bræðrum yrðu tryggðar stjórnunarstöður hjá GM. Kaupin á Olds Motor Works var fyrsta skrefið sem William C. Durant, sem hafði stofnað General Motors þann 16. september þetta sama ár (1908), tók til myndunar GM-samsteypunnar. Þrátt fyrir bágan fjárhag Olds reyndust kaupin ein skynsamlegasta fjárfesting GM, þegar þau voru metin síðar.

Á næstu árum byrjaði Olds að rétta úr kútnum og eftir að rafknúinn Delco-startari og ökuljósin komu 1913 og með nýjum léttum 4ra sílindra bíl (Model 42) sem einnig nefndist ,,Baby Olds", af árgerð 1914, hófst taktviss uppgangur hjá Olds Motor Works: Fyrsta V8-vélin kom í Oldsmobile 1916, sú var 4,2ja lítra 40 ha hliðarventlavél. Hönnuður hennar var Ítalinn Fabio Segardi sem gerst hafði yfirmaður tæknideildarinnar 1914 en hann hafði áður unnið fyrir Darracq og Fiat. Frá 1914 til ársloka 1919 hafði framleiðslan aukist úr 1.400 í 39.042 fólksbíla auk 5.317 vörubíla. V8-vélin var við lýði til 1921, þá tóku 6 sílindra vélar við í öllum Oldsmobile, nema í lúxusbílnum Viking 1929-1930 sem var V8-hliðarventlavél. Hins vegar kom 8 sílindra línuvélin 1932.

Oldsmobile Super 88 4d hardtop 1955 með stærri V8 Rocket. Nú einn af eftirsóttustu bílum frá 6. áratugnum. Greinarhöfundur átti um 1970 einn allra fallegasta Oldsmobile á götum Reykjavíkur á þeim tíma, tveggja dyra Super 88 Holiday hardtop af árgerð 1956. Sá var svartur með hvítum toppi, nýinnfluttur frá USA í upprunalegu ástandi og ekki svo mikið sem rispa á lakkinu. Vélin var Rocket 324.3 kúbika 202 hö. Og það voru raunveruleg hestöfl sem þeyttu þessum volduga bíl áfram. Sá bíll er enn til (er nú bleikur á litinn). Ljósmynd: Colletible Automobile

 

Oldsmobile Starfire Ninety Eight Holiday Coupe 1957. Í þessum bíl er stærri vélin, 371.1 kúbika Rocket T-400, 277 hö. (Með 3 tvöföldum blöndungum, Tri-pack, jókst aflið í 312 hö). 1957 byrjuðu þessir bílar að stækka.

 

Þannig leit ,,stýrishúsið" út á 1957 árgerðinni af Oldsmobile Super 88. Það ár kom mælaborðið fyrst með prentrásum.

 

Oldsmobile Ninety Eight 2d SceniCoupe 1959. Á þessum dreka léti varla nokkur óbrjálaður maður sjá sig nú. Ljósmynd: Collectible Automobile

Verkstæði jólasveinanna

Fyrri heimstyrjöldin hófst 1914 og frá 1917 til stríðsloka 1919 minnkaði bílaframleiðslan í Bandaríkjunum vegna framleiðslu hergagna. Hjá Olds voru m.a. framleiddir eldhúsvagnar og Liberty flugvélahreyflar. Hjá Olds kom samhæfður gírkassi 1931 og sjálfstæð framfjöðrun 1934. Tímamót urðu 1937 þegar vísir að sjálfskiptingu, eins og við þekkjum nú, var boðin með 8 sílindra línuvélinni. Sá búnaður nefndist ,,Safety Automatic Transmission" og var hálf-sjálfskipting og undanfari hinnar raunverulegu sjálfskiptingar, Hydra-Matic, sem byrjað var að setja í árgerð 1939 af Oldsmobile haustið 1938. Hydra-Matic sjálskiptingin var í fyrstu boðin sem aukabúnaður fyrir 37 dollara. Kaupendur virtust ekki sérlega spenntir fyrir henni í fyrstu en eftir að Oldsmobile fór að auglýsa hana sérstaklega sem lúxusbúnað var ekki að sökum að spyrja og strax 1941 var helmingur seldra Oldsmobile sjálfskiptur.

Allan 3. áratuginn höfðu umsvif Olds verið að aukast og árleg bílaframleiðslan náði rúmlega 100 þúsund bílum 1929 og var Olds þá nr. 9 á lista yfir söluhæstu bílana og 4. söluhæsti af GM-bílum. Sú breyting varð 1. janúar 1942 að hætt var að nota heitið Olds Motor Works en upp frá því nefndist fyrirtækið Oldsmobile Division of General Motors. Á 9. áratug 20. aldar urðu umsvif Oldsmobile mest og það var t.d. 3. stærsti bandaríski bílaframleiðandinn 1985 - framleiddi á því ári 1.225.983 bíla.

Í september 1948 kom ný V8-vél - hin fræga Oldsmobile Rocket toppventlavél sem upphaflega var með 4,9 lítra slagrými og mældist 135 hö. 6 sílindra vélar hurfu af sviðinu hjá Oldsmobile 1950 og sáust ekki aftur fyrr en1962 (Chevrolet línuvél)/1964 (V6 Buick). Nýtt og nýtískulegt boddí kom 1954 (Oldsmobile og Buick). Það var fyrsti 4ra dyra hliðar-póstalausi, 4dyra ,,hard-top-bíllinn" og þóttu þeir Oldsmobile, með V8-Rocket-vélinni, sem jafnframt voru með stærstu bílum, bæði glæsilegir og öflugir. Þeir rokseldust.

Lengi loddi við Oldsmobile að vera eins konar ,,verkstæði jólasveinanna" innan GM-samsteypunnar. Óhefðbundnar lausnir og byltingarkenndar nýjungar hafa fylgt Oldsmobile sem hefur haft tæknilega forystu innan GM. Áratugina fram að 1980 einkenndust Oldsmobile, eins og bílar flestra helstu keppinautunum, af gríðarlegri stærð og stærri og ,,þyrstari" vélum. Þó kom 1961 minni bíll (compact), F85 með léttri 3,5 lítra V8-álvél, sem seinna varð uppistaðan hjá Rover í Bretlandi. 1966 kom Toronado sem er, ásamt Chevrolet Corvair, einn af merkilegustu amerískum bílunum á seinni hluta 20. aldar. Toronado (sjá grein) er stór 2ja dyra sportbíll með framhjóladrifi. John Beltz var höfundur véltæknihönnunar en útlitshönnun vann David North. Toronado var framleiddur 1966-1969, breyttur 1971-1978 og Toronado að nafninu til (dvergur) 1979-1985. Síðasta byltingarkennda nýjungin hjá Oldsmobile voru V6 og V8-dísilvélarnar, sem komu 1977. Þær voru, að mörgu leyti, tæknilega fullkomnari en þær dísilvélar sem fram að því höfðu verið boðnar í innfluttum fólksbílum, m.a. stóðust þær kröfur um varnir gegn loftmengun, meira að segja þær sem gengu í gildi í Kaliforníu 1978; þær voru hljóðlátari og þýðgengari en aðrar dísilvélar og miklu sparneytnari en bensínvélar með sama slagrými. Dæmi: 6 manna 4ra dyra Oldsmobile Delta 88 með 5,7 lítra dísilvél og sjálfskiptingu eyddi um 10 lítrum á hundraðið í borgarakstri. En dísilvélarnar heppnuðust ekki - urðu reyndar dúndrandi fíaskó og hafa sennilega átt stóran þátt í því að hægfara sólsetur hófst hjá Oldsmobile. Ástæða þess að Oldsmbobile-dísilvélarnar urðu að meiriháttar vandræðagripum var sú að einhver ,,baunateljari" hugðist spara fyrirtækinu peninga með því að kaupa ódýrari kambása og heddbolta sem reyndust ónýtir, en vegna þeirra eyðilögðust vélarnar unnvörpum á fyrstu 10 þús. km. (sjá grein).

Upp úr 1985 urðu minni framhjóladrifnir bílar uppistaðan í framleiðslu Oldsmobile. Síðasta hönnunin var lúxusjeppinni Bravada af árgerð 2002 en 1. desember árið 2000 hafði GM tilkynnt að Oldsmobile yrði lagt niður og myndu síðustu Oldsmobile verða af árgerð 2004.

Helstu heimildir:

  • ,,Cars of the 40s". Bók. Ritstjórar. Bob Schmidt, Alan Zachary, Ronald Mochel. Útg. Louis Weber/Consumer Guide Magazine. Illinois 1979.
  • ,,Standard Catalog of American Cars 1946-1975". Bók. Ritstjóri John Gunnell. 3. útgáfa Krause Publications. Wisconsin 1992.
  • ,,The World Guide to Automobiles". Bók. Nick Baldwin, G.N. Georgano, Michael Sedgwick, Brien Laban. Útg. McDonald Orbis. London 1987.

Fleiri greinar um bíla og bílasögu

Netfang höfundar