Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur:
Skoda Octavia Combi 2.0

Á meðal þess sem margra áratuga kommúnistastjórn á að hafa sannað er að pólitísk stýring bílaframleiðslu sé vond; hún auki ekki gæðin heldur öfugt. Í því efni virðast hafa því verr gefist heimskra manna ráð er þau fleiri komu saman, eins Laxdæla hefur eftir Ólafi Pá þegar hann svaraði Erni stýrimanni í hafvillunni á leið til Írlands forðum.

Skoda Octavia, sem er með 12 ára ryðvarnarábyrgð (sé hann ekki ryðvarinn hérlendis), er ný hönnun frá og með árgerð 2005, stærri og glæsilegri.

Saga Skoda, frá stríðslokum og fram undir 1990, er nöturlegur vitnisburður um áhrif pólitískra kredda og afleiðingar "skipulags skorts" á tæknistig iðnaðarþjóðar. Áratugum saman þurfti tjékkneska þjóðin að borga með hverjum bíl frá Skoda til að hann ætti möguleika á frjálsum markaði í Vestur-Evrópu. Það heyrði til undantekninga að efnað fólk keypti Skoda - nema þar sem innflutningshömlum samhliða vöruskiptaverslun var beitt. Slík "skömmtun" var ekki einungis hérlendis á 6. áratugnum því vöruskiptaverslun við Austantjaldslönd (síld í stað bíla og eldsneytis) var einnig beitt af sænskum og norskum stjórnvöldum, svo dæmi séu nefnd. Þar eins og hér mátti þekkja Skoda-eigendur að vetrarlagi á illa förnum vörunum - af því að blása í hurðalæsingarnar í frosti.

Iðnaðarþjóð
Tékkar hafa öldum saman verið á meðal fremstu iðnaðarþjóða Evrópu. Fram að síðari heimstyrjöldinni var iðnaðarsvæðið í Bæheimi ein af þýðingarmestu evrópsku miðstöðvum þess tíma hátækniiðnaðar og Tékkar nutu orðstírs sem einhverjir flinkustu smiðir Evrópu. Menn sem báru hróður Tékka um víða veröld voru Ferdinand Porsche, Emil von Skoda, svo tveir séu nefndir. Tæknistig tjékkneskrar bílaframleiðslu á 2. og 3. áratug fyrri aldar var ekki lakara en svo að bæði þýskir og franskir bílaframleiðendur sóttu þangað hugmyndir auk þess að stúdera og stæla tjékkneska bíla. En um það og fleira í sögu Skoda má lesa á www.leoemm.com (Bílar).

Octavia Combi er nú fáanlegur með endurbættu fjórhjóladrifi (sítengt aldrif). Flutningsrými er meira en í mörgum öðrum bílum í þessum stærðarflokki. Octavia er vel búinn bíll: ABS með átaksmiðlun, spólvörn, fram- og hliðarpúðar (aftengjanlegur h.m. með lykli), hliðarskriðsvörn, ISO-fix-barnastólafestingar o.fl. o.fl. Verðið á Octavia Combi með 2ja lítra vél er um 2,2 mkr. (Febr. 2006).

Þótt okkur hætti til að hafa uppi staðlaðar hugmyndir af þjóðum, þ.á. m. af Tékkum, hafa ferðalög Íslendinga til Tékklands undanfarin ár orðið til þess að fleiri gera sér grein fyrir því að Tékkar eru tækniþjóð sem hefur verið leyst úr álögum. Í Bratislava er ein af stærstu bílaverksmiðjum VW í Evrópu og þar er tæknin á hæsta stigi. Þar framleiða Tékkar jöfnum höndum bíla á borð við VW Touareg og Porsche Cayenne og undir stjórn tékkneskra tæknimanna en margir þeirra koma jafnframt við sögu hjá Skoda því eins og margir vita er Skoda nú að stærstum hluta í eigu VW.

Lægra verð
Eðlilegt er að velta því fyrir sér hvers vegna vörumerkinu Skoda var ekki breytt eftir stjórnarfarsbreytingar í Tékklandi. Fyrir því eru a.m.k. 2 ástæður: Annars vegar þjóðernislegt stolt (þess má geta að sú var tíðin að kóngafólk Evrópu sóttist eftir lúxusbílum frá Skoda) og hins vegar staða Skoda sem vörumerkis á gríðarlega stórum markaði sem fyrrum taldist til "Auturblokkarinnar" en þar naut Skoda svipaðs orðstírs og Volvo á meðal Svía, og gerir jafnvel enn, enda á þar gamalgróið þjónustukerfi þátt í traustum markaði fyrir Skoda.

Ástæða þess að við getum keypt vel búinn 4ra dyra Skoda Octavia, sem byggður er á sama hjólbotni og VW Golf, fyrir 1.550 þús. krónur; bíl sem stenst samanburð á gæðum við mun dýrari bíla, er hvorki niðurgreiðsla né sú að framleiðandinn eða seljandinn láti sér nægja minni álagningu/arð, heldur minni tilkostnaður, lægri laun og lægra lífsgæðastig í Tékklandi - enn sem komið er.

Það er enginn ,,austantjaldsbragur" á innréttingunni í Skoda núorðið. Ef eitthvað er þá er hún vandaðri og fallegri en í öðrum evrópskum bílum af svipaðri stærð.

Því dýrari því betri….
Þeir sem hafa pælt í Skoda, en ágerð 2005 af Octavia er nýr og breyttur bíll, m.a. 6 sm lengri (6,6 sm meira hjólhaf) og 3,5 sm breiðari en eldri gerðin, hafa líklega margir komist að sömu niðurstöðu og ég um að bestu kaupin séu í dýrustu og best búnu gerðunum. Ástæðan er einfaldlega sú að hinn ýmsi öryggis- og þægindabúnaður er hlutfallslega ódýrari í Skoda Octavia en í öðrum bílum af sambærilegri stærð, t.d. lætur nærri að maður borgi um 1.200 þúsund krónum minna fyrir 150 ha Octavia Station 2.0 FSI Ambiente heldur en fyrir station-bíl af algengri gerð í sama stærðarflokki - sem þó stenst ekki samanburð við Skoda, hvorki varðandi búnað, aksturseiginleika né frágang, þ.e.a.s. gæði - en þá á ég við handskiptan (6g) bíl en með sjálfskiptingu í Skoda mæli ég ekki fremur en í VW, Renault o.fl.

Helstu kostir:
Búið er að skrifa mikið um Skoda Octavia enda fékk hann "Gullna stýrið" í fyrra og því væri að bera í bakkafullan lækinn að bæta miklu við það. En eftirfarandi atriðum veitti ég athygli við skoðun á Octavia Station, en sú gerð nefnist "Combi", og tel að þau geti skipt marga máli, ekki síst við samanburð á bílum:

Innra rými: Með aftursætið fellt mældist lengd flutningsrýmis 181 sm að karmi afturhlerans. Flutningsrýmið er 1620 lítrar og farangursrýmið 580 lítrar - sem sagt með því mesta sem tíðkast hjá bíl af þessri stærð.
Þægindi: Aukið hjólhaf hefur gert Octavia enn þægilegri með auknu fótarými og aukinni breidd. Sérstaklega er þetta áberandi fyrir farþega í aftursæti - nokkuð sem atvinnubílstjórar eru fljótir að koma auga á.
Lipurð: Skoda Octavia er afar þægilegur bíll í akstri. Vélaraflið og 6 gíra handskiptingin gerir bílinn bæði snöggan, léttan og lipran í akstri, en hámarkstog vélarinnar er 200 Nm við 3500 sn/mín.
Aksturseiginleikar: Ég þori að fullyrða að fáir bílar af svipaðri stærð hafa jafn góða aksturseiginleika og Octavia. Þar að auki er leitun að stationbíl sem er betur hljóðeinangraður. Hámarkshraði er 212 km/klst.
Annað: Burðarþol er 660 kg og dráttargetan 1.300 kg - hvort tveggja með því mesta í 2ja m.kr. stationbíl. Með 2ja lítra FSI-vélinni er uppgefin meðaleyðsla 7,4 lítrar. Í lengri akstri við eðlilegar aðstæður er eyðsla þessa stóra bíls innan við 7 lítrar.

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar