Ford Mustang Cobra R 1995

eftir Leó M. Jónsson vélatæknifræðing.

Flestum bílum má breyta á einhvern hátt til að gera þá öflugri. Þegar framleiðandinn gerir það sjálfur verður útkoman stundum spennandi. Með nýjum Mustang, sem kynntur var í apríl 1994, sýndi Ford hvað það getur gert mikið fyrir tiltölulega lítinn pening, sé gagnkvæmur áhugi fyrir verkefninu. Með Mustang af árgerð 1995 skipaði Ford á ný skip í forystu á markaði fyrir ameríska sportbíla og skaut keppinautum ef fyrir rass. Ford Probe, sem ætla mætti af útlitinu að ætti eitthvað sameiginlegt með Mustang, er ,,Mazda made in Detroit" eins og Kaninn segir, framhjóladrifinn japanskur Ford af allt öðrum meiði en Mustang - eini skyldleikinn er Ford merkið.

Þessi grein fjallar fyrst og fremst um sérstakt módel af nýjasta Mustang, Cobra R, sem framleitt var í 250 eintökum og einungis 232 eintök selt útvöldum sem jafnframt þurftu að geta sýnt fram á að hafa tekið þátt í fleiri en einum löggiltum kappakstri. Mustang Cobra R 1995 var raunverulegt tryllitæki, framleitt að öllu leyti hjá Ford eða á þess vegum. Þrátt fyrir mikið vélarafl var bíllinn skráningarhæfur í öllum bandaríkjunum 50 talsins, þ.m.t. Kaliforníu. Það er nefnilega létt verk að tjúna vél upp um tugi eða hundruð hestafla en til að fá hana skráða til notkunar í venjulegum akstri í Kaliforníu þarf miklu meiri tækni.

Cobra R er sérframleiddur kappakstursbíll. Sérstök deild innan Ford samsteypunnar, ,,Special Vehicle Team" (SVT) hafði veg og vanda af hönnun, þróun og framleiðslu þessara 250 bíla. SVT tók á sínum tíma við hlutverki eldri deildar ,,Special Vehicle Operation" (SVO) sem á sínum tíma stóð fyrir nokkrum merkilegum sérbyggðum Ford bílum, þ.á.m. Mustang SVO Turbo (1984?86) og Mustang Cobra R keppnisbílnum (Competition Package) 1993. Nýja deildin, SVT, hefur þegar vakið athygli, m.a. fyrir sérbyggðan krafta-pikköpp, F?150 Lightning, 1993, en hún annast jafnframt þróun og samsetningu Cobra gerðarinnar af núverandi Mustang.

Mustang Cobra R 1995 er með 5,8 lítra 300 ha V8?vél. Þessi sérhannaði raðframleiddi bíll fæst ekki með neinum lúxusbúnaði, ekki einu sinni útvarpstæki. Í honum er engin óþarfa hlutur, m.a. er engin hljóðeinangrun og ekkert aftursæti. Til að minnka tafatíma í keppnum er bíllinn búinn sérstöku 75 lítra þrýstihylki fyrir bensín. Spyrnan: rúmar 5,4 sek. í hundraðið.

METSALA
Nýi Mustang frá 1994 hefur slegið öll sölumet, hann hefur selst betur en helstu keppinautarnir samanlagt, þ.e. Camaro Z28, Firebird og TransAm. Eins og áður þá hefur Mustang einkum selst út á einfalda og sterka byggingu, hagstætt verð (vel búinn) og mjög lága bilanatíðni. Með 5,7 lítra vélunum hafa GM sportbílarnir löngum getað státað af fleiri hestöflum en Mustang og betra viðbragði. Þannig var viðbragð Camaro Z28 með 5,7 lítra 275 ha V8?vélinni rúmar 5,5 sek í hundraðið og kvartmílutíminn 14,1 sek. Jafn dýr Mustang með 5 lítra vél (GT) var 6,2 sek. í hundraðið og með kvartmílutímann 14,9 sek. Jafnvel 240 ha Mustang Cobra, sem var 3000 dollurum dýrari, náði ekki nema 1/10 sek. betra viðbragði. Það þarf því engan að undra að margan tæknimanninn hjá Ford hefur klæjað í lúkurnar ? langað til að ,,baka helvítin".

EKKERT GEFIÐ EFTIR….
Í febrúar 1994 fékk SVT?deildin skipun um að koma með sprækari og hraðskreiðari Mustang. Markmiðið var einfalt; Cobra R ætti að taka alla keppinauta frá Chevrolet í spyrnu og hafa betur í kvartmílu, hvort sem væri á beinni braut eða vegi. Cobra R skyldi jafnframt vera byggður samkvæmt keppnisreglum bandarískra keppnissamtaka (SCCA) og alþjóðlegra (IMSA) í rallakstri fyrir raðframleidda bíla. Þar með hafði Ford tryggt að bíllinn yrði gjaldgengur í skráningarskyldum kappakstri fólksbíla samkvæmt gildum staðli og skapaður viðurkenndur samanburðargrundvöllur. Jafnframt var það sett sem ófrávíkjanlegt skilyrði að enginn fengi að kaupa þennan bíl nema sá sem hefði gilt skírteini sem heimilaði honum þátttöku í kappaskri innan samtaka SCCA og IMSA.

Fyrsti Cobra R (Competition Package) frá 1993 var með 235 ha 5 lítra vél og sérstaklega upp setta fjöðrun og var án einangrunar og án aftursætis. Af þeirri árgerð voru einungis 107 bílar framleiddir. Eigendur bílanna, sem kepptu á þeim, voru sammála um að vélaraflið þyrfti að aukast til að bílarnir ættu möguleika á að keppa um fyrstu sætin auk þess sem þeir þyrftu það geta borið meira af bensíni. Þetta tók SVT?deildin til greina í árgerð 1995 af Cobra R. SVT?deildin komst jafnframt að því að fæstir þeirra sem keyptu Cobra R CP af
árgerð 1993 notuðu bílana til keppni. Þess í stað bröskuðu þeir með bílana, seldu þá söfnurum með góðum hagnaði eða geymdu þá sjálfir.

Af þessum ástæðum gerði Ford miklu strangari kröfur til þeirra sem fengu að kaupa þá 232 Cobra R sem framleiddir voru af árgerð 1995 en þær eiga að tryggja að fleiri af þessum bílum verði notaðir í aksturskeppnum. Þótt Ford reyni á þennan hátt að koma bílunum í keppni verða skilyrðin fyrst og fremst til að auka eftirsókn braskara og safnara og ljóst að með árunum munu þetta verða mjög sjaldgæfir og dýrir safngripir.

Ford 351 kúbik (5,8 lítra) hafði reynst hálfgerður vandræðagripur hafði ekki sést í Mustang síðan 1973. Eftir verulegar breytingar er hún nú notuð í tveimur sérframleiddum bílum frá Ford, F?150 Lightning pikköpp og í Cobra R. Í þeim síðarnefnda er hún með heitari ás, öflugra kælikerfi og þjöppun upp á 9,2:1. Aflið 300 hö.

MEIRIHÁTTAR VÉL
Það hefði líklega mátt kreista meira afl, að hætti Ítala, út úr 5 lítra (302) V8?vélinni, sérstaklega ef ekki þyrfti að mæta mengunarvarnakröfum í Kaliforníu enda er það ekki að ástæðulausu hve fáar gerðir evrópskra sportbíla eru seldar í því bandaríki. Það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir slagrými vélar þegar um afl er markmiðið. Þessi gömlu sannindi eru enn í fullu gildi þrátt fyrir miklar tækniframfarir. Mustang Cobra R 1995 er fyrsti Mustang frá Ford síðan 1973 sem er með 5,8 lítra (351 kúbik) V8?vélinni. Hún er í grundvallaratriðum sú sama og 240 ha vélin sem þróuð var fyrir F?150 Lightning pikköppinn. Munurinn er sá að í Cobra R 95 er hún með heitari kambási, þjöppun 9,2:1 (8,8:1 í Lightning), afkastameiri kælingu auk annarra smærri atriða. Vélin í Cobra R er 300 hö og hámarkstogið 511 Nm (sem er 21 Nm meira en í Ferrari Testarossa).

ÓNAUÐSYNLEGU SLEPPT ...
Cobra R er eini Mustang með beinskiptum Tremec 5 gíra kassa og seiglæstu drifi (hlutfall 3,27:1). Læsivörnin og diskabremsurnar eru þær sömu og á fjöldaframleiddum Cobra og notar sömu stærð af dekkjum, 255 45ZR17. Þótt dekkin séu af sömu stærð og á Cobra er munstrið gripmeira (dekkin klístraðri) og felgurnar breiðari eða 9 tommur en þær eru úr títaníumblönduðu áli og mætti nota hverja þeirra sem kirkjuklukku, væri því að skipta. Fjöðrunin er sérhönnuð, talsvert stinnari og með stillanlegum dempurum frá Koni. Í stað venjulegs bensíngeymis er Cobra R með 75 lítra höggvarið bensínhylki (sellu) sem inniheldur poka úr Kevlar-plasti. Til að auka snerilstyrk framstykkisins er styrktarslá, þvert yfir, á milli gormaturna að framan og er henni jafnframt fest í hvalbakinn. Þessi styrking er nauðsynleg til að halda framhjólunum báðum á veginum þegar tekið er af stað með botngjöf og koma í veg fyrir að bílinn snúi upp á sig.

Cobra R vekur ekki síst athygli fyrir það sem hann hefur ekki. Það er t.d. ekkert aftursæti í bílnum enda ónauðsynlegt. Það er heldur engin hljóðeinangrun, hvorki í botni né hliðum, teppið eitt er látið duga auk venjulegrar klæðningar. Cobra R er ekki fáanlegur með loftkælikerfi (AC), ekki með rafknúnum rúðum og ekki með geislaspilara ? ekki einu sinni með útvarpstæki ? þetta er kappakstursbíll en ekki stælgræja. Bíllinn vegur 1663 kg eða 37 kg minna en venjulegur Mustang Cobra og 67 kg minna en Chevrolet Z28 Coupe.

ÚTLITSTEINKENNI
Til þess að koma mætti stærri vél fyrir í Cobra R 95 þurfti að smíða á hann sérstakt húdd úr trefjaplasti. Húddið er um leið mest áberandi mismunurinn á útliti venjulegs Cobra og Cobra R. Allir 250 R?bílarnir eru með sama hvíta litnum; allir eru með sams konar felgur og aukaloftinntök að framan. Cobra R, sem Ford seldi á rúmlega 38 þús. dollara en Ford endurseljendur á 52 þús. dollara, fer því ekki framhjá neinum áhugamanni sem er sæmilega inni í málunum. Af þessum 250 Cobra R bílum hélt Ford sjálft eftir 18 eintökum. Þeir eru notaðir til áframhaldandi þróunar og sem sýningarbílar.

Þótt Cobra R sé sérbyggður bíll er hann raðframleiddur í aðalverksmiðju Ford í Dearborn í Michigan, þeirri sömu og framleiðir Mustang. Þeir eru teknir af venjulegu ,,línunni" á ákveðnum stað eftir að komið er í samsetninguna og henni lokið lokið í hliðarsal. Það er þó einungis gert vegna bensínhylkisins og viðbótarkælibúnaðar fyrir vélina. Þetta er óvenjulegt en sýnir athyglisverðan sveigjanleika í fjöldaframleiðslu.

 

TÍMAR
Mustang Cobra R er einn sprækasti Mustang sem Ford hefur látið frá sér. Hann er rétt rúmlega 5,4 sek. frá kyrrstöðu í 100 km, fer kvartmíluna á 14 sek. og 158 km/klst (ath. Cobra R er ekki gerður fyrir kvartmílukeppni) en hámarkshraðinn er uppgefinn 242 km/klst. Þeir sem skoða þessar tölur hljóta að taka eftir því að venjulegur (standard) og mun ódýrari Camaro Z28 er glettilega nálægt þeim, m.a. með 250 km/klst hámarkshraða.

Þeir sem hafa prófað bílinn segja hann afburða akstursbíl, vélaraflið áberandi meira og þolnara en í Cobra. Hins vegar sé Corbra R ekki eins rífandi sprækur og Corvette eða 6 gíra beinskiptur Z28 en virki samt stöðugri og traustari. Skortur á hljóðeinangrun er áberandi eins og við var að búast. Ekki skorti kaupendur þrátt fyrir skilyrðin áðurnefndu. Eftir að salan hófst 5. janúar 1995 seldust allri 232 bílarnir á rúmum 2 dögum.


Helstu heimildir: Collectible Automobile 12/1995.
Ljósmyndir: Ford Motor Co.

Fleiri greinar um bíla

Aftur á forsíðu


_______________________________________________________

Vefsíða Leós
http://www.leoemm.com
Tölvupóstur: Netfang